Hæstiréttur íslands

Mál nr. 156/2017

Hlédís Sveinsdóttir (sjálf)
gegn
Sigurði Sigurjónssyni (sjálfur)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skiptastjóri

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H á hendur S, þar sem hún krafðist þess að S yrði vikið úr starfi skiptastjóra í þrotabúi H, var vísað frá dómi og í því sambandi vísað til þess að samkvæmt 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gæti þrotamaður ekki haft uppi kröfu um úrskurð þess efnis að skiptastjóra yrði vikið úr starfi sínu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. febrúar 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ,,að héraðsdómi verði gert að boða aðila til dómþings í því skyni að taka málið fyrir“.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2017. Var sá úrskurður staðfestur í dómi Hæstaréttar 6. mars sama ár í máli nr. 69/2017. Sama dag og úrskurðurinn var kveðinn upp var varnaraðili, sem er hæstaréttarlögmaður, skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Sóknaraðili ritaði héraðsdómi bréf 1. febrúar 2017 og hafði þar uppi ýmsar aðfinnslur við störf skiptastjórans og taldi hann einnig vanhæfan til að gegna starfanum. Í bréfinu gerði hún þá kröfu að úrskurðað yrði að varnaraðili ,,víki þegar í stað úr hlutverki skiptastjóra.“

Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um að þeim, sem eigi kröfu á hendur þrotabúi, sé, meðan á gjaldþrotaskiptum stendur, heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hafi skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skuli hann kveðja skiptastjóra og þann, sem kunni að hafa haft aðfinnslur uppi, á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Í 2. og 3. mgr. 76. gr. laganna er síðan að finna reglur um hver framvinda slíkra mála getur orðið eftir því hvaða afstöðu héraðsdómari tekur. Samkvæmt framansögðu getur þrotamaður ekki haft uppi kröfu um úrskurð þess efnis að skiptastjóra verið vikið úr starfi sínu. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. febrúar 2017.

Hinn 1. febrúar 2017, voru mótteknar í Héraðsdómi Reykjaness aðfinnslur og kröfur sóknaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, Brekkugötu 14, Hafnarfirði, dags. 1. febrúar 2017, varðandi störf og hæfi skiptastjórans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., Sigtúni 42 í Reykjavík, sem skipaður var af Héraðsdómi Reykjaness sem skiptastjóri í þrotabúi sóknaraðila í máli nr. X-14/2015.

Aðfinnslur sóknaraðila varða lokun á bankareikningum og kortum hennar hjá Landsbankanum hf., án aðvörunar eða tilkynningar og án þess að nokkur haldbær rök liggi fyrir því m.t.t. hagsmuna þrotabúsins. Væri sóknaraðila nauðsyn á því að hafa óhindraðan aðgang að þeim reikningum til að reka heimili fjölskyldu hennar og sérstaklega til að rækja starf sitt sem arkitekt. Hafi gjaldþrotaúrskurðinn verið kærður til Hæstaréttar Íslands og skiptastjóra því borið að haga störfum sínum í samræmi við það. Vísar sóknaraðili í þessu samhengi til síðari málsliðar 72. gr. og síðari málsliðar 2. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991, um að: „Þess skal þó gætt að aðgerðir raski ekki réttindum málsaðila meira en nauðsyn krefur meðan málið er enn óútkljáð“.

Sóknaraðili telur að þar sem hún hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar, hafi skiptastjóra borið að raska ekki hagsmunum hennar með íþyngjandi aðgerðum. Það hafi skiptastjóri hins vegar gert með framangreindu og með því að  auglýsa innköllun í búið þremur dögum eftir uppkvaðningu úrskurðar. Þetta hafi skiptastjóri gert þrátt fyrir að lögmaður sem gæti hagsmuna hennar hafi áður rætt við skiptastjóra og honum því verið kunnugt um kæruna.

Sóknaraðili telur ljóst samkvæmt framangreindu að aðgerðir skiptastjóra hafi ekkert með hagsmuni þrotabúsins að gera og séu til þess fallnar að valda henni fjárhagslegu tjóni. Sé framferði skiptastjóra þannig að með réttu megi draga í efa að hann sé bær til þess að sinna hlutverki sínu.

Sóknaraðili vísar til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki sé réttmætt að gefa honum ráð á því að bæta ráð sitt og því beri dómara að víkja honum þegar úr stað úr starfi með úrskurði, skv. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Þá krefst sóknaraðili úrskurðar um að skiptastjóri víki sæti. Eigi við sömu lagarök og sjónarmið um hæfi skiptastjóra og eigi við um dómara í einkamáli, sbr. ákvæði g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Sóknaraðili hefur uppi skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra í þrotabúi hennar sjálfrar, með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, þá er þeim sem á kröfu á hendur búinu heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geta aðrir en kröfuhafar ekki sett fram formlegar aðfinnslur og þar með ekki þrotamaður sjálfur, en berist héraðsdómara ábendingar með öðrum hætti metur hann hvort þær séu aðfinnsluverðar.

Athugasemdir sóknaraðilar virðast einkum snúa að því að skiptastjóri lét loka reikningum sem skráðir eru á hana og hafi birt innköllun þrátt fyrir vitneskju um að úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar.

Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991, þá frestar það ekki framkvæmd gjaldþrotaskipta þótt úrskurði hafi verið skotið til æðra dóms. Samkvæmt 85. gr. sömu laga skal skiptastjóri án tafar eftir skipun sína gefa út og birta innköllun og skv. 87. gr. skal skiptastjóri tafarlaust gera ráðstafanir til að svipta þrotamann umráðum eigna eða koma í veg fyrir að hann fari með þær á óheimilan hátt. Með vísan til þessa voru aðgerðir skiptastjóri lögum samkvæmt sem honum bar tafarlaust að framkvæma, og er því ekki hægt að fallast á það, að þær séu aðfinnsluverðar.

Af beiðni sóknaraðila verður einnig ráðið að gerð sé krafa um að skiptastjóra verði vikið frá þar sem hann sé vanhæfur vegna fjölskyldu- og viðskipatengsla við Íslandsbanka hf. Þau tengsl eru ekki nánar tilgreind eða hvernig þau geta hugsanlega valdið vanhæfi skiptastjóra.

Um vanhæfi skiptastjóra gilda ákvæði 6. töluliðar 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 76. gr., getur sá sem á kröfu á hendur búinu krafist úrskurðar um hæfi skiptastjóra. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins geta aðrir en kröfuhafar ekki sett fram slíka kröfu og þar með ekki þrotamaður sjálfur.

Má um framangreinda lagatúlkun vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 271/2016.

Með vísan til framangreinds uppfylla aðfinnslur og kröfur sóknaraðila ekki skilyrði 1. og 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og ber því, sbr. 1. mgr. 174. gr. og 178. gr. laga nr. 21/1991, að vísa málinu frá dómi með úrskurði, án kröfu og án þess að taka málið að öðru leyti fyrir á dómþingi.

Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.