Hæstiréttur íslands

Mál nr. 662/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. desember 2009.

Nr. 662/2009.

Guðmundur Kristjánsson

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Árna Matthíasi Mathiesen

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Í og Á um að dómari málsins viki sæti. Var talið að eins og málið lægi fyrir væru engar forsendur til að hnekkja því mati héraðsdómara að honum væri rétt að víkja sæti vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn þeim. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að dómarinn víki sæti verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og mál þetta liggur fyrir eru engar forsendur til að hnekkja því mati héraðsdómara að honum sé rétt að víkja sæti í því vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðmundur Kristjánsson, greiði varnaraðilum, íslenska ríkinu og Árna Matthíasi Mathiesen, hvorum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2009.

Mál þetta var höfðað 10. mars sl. en það var tekið til úrskurðar 30. október sl. í tilefni af kröfu stefndu 28. október sl. um að dómari víki sæti á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að kröfu stefndu um að dómari víki sæti verði hafnað. Einnig er krafist málskostnaðar af hálfu stefnanda í þessum þætti máls­ins en þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, við munnlegan mál­flutning.

I.

Krafa stefndu er rökstudd þannig að dómari hefði gefið viðtal á Morgunvakt Ríkisútvarpsins, Rás 1, 15. janúar 2008, sem lotið hafi m.a. að þeirri dómaraskipan sem dómsmálið lúti að. Í kröfugerðinni er vísað til þess að tilefni viðtalsins hafi einkum verið sú dómaraskipan enda hafi það verið gefið tæpum mánuði eftir skipunina og á þeim tíma þegar töluverð umfjöllun fór fram í fjölmiðlum um hana. Stefndu lýsa því í kröfugerðinni að þeir telji ljóst að viðtalið valdi því að fyrir hendi séu atvik, sem séu fallin til þess að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa í skilningi g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála.

Ummæli dómara í viðtalinu eru af hálfu stefndu talin valda því að unnt sé að draga óhlutdrægni dómarans í efa með réttu, sérstaklega þegar þau væru skoðuð í því samhengi sem þar hafi verið um að ræða, þ.e. að þau hafi verið viðhöfð í beinum tengslum við þá ákvörðun stefnda Árna, sem setts dómsmálaráðherra að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara. Við munnlegan málflutning kom einnig fram af hálfu stefndu að í fyrsta lagi væri almennt mjög óheppilegt að dómari hefði tjáð sig um mál sem væru eldfim og pólitísk. Dómari hefði átt að vekja athygli á viðtalinu við fyrstu fyrirtöku málsins af þessum ástæðum. Þá var í öðru lagi bent á að viðtalið sjálft valdi efasemdum um óhlutdrægni dómara, en andi þess og eðli gefi tilefni til kröfugerðarinnar um að dómari víki sæti í málinu. Mikilvægt væri að eyða allri óvissu um óhlutdrægni dómara. Var vísað til mannréttindasáttmála Evrópu um rétt stefndu til að njóta óhlutdrægrar málsmeðferðar.

II.

Stefnandi mótmælir því að stefndu hafi nokkurt tilefni til að telja dómara vanhæfan í málinu og þeir hafi heldur ekki fært fyrir því viðhlítandi rök. Dómari sé vel að sér á þessu sviði sem sjá megi af fræðigrein sem hann hafi skrifað um dómsvaldið, faglegt mat á hæfni dómara og hlutverk dómstóla í réttarríkinu. Ekkert komi fram í viðtalinu, sem stefndu vísi til, sem geri dómarann vanhæfan í málinu. Dómari hafi ekkert tjáð sig um málsatvikin heldur almennt og fræðilega um viðfangs­efnið. Af viðtalinu megi glöggt sjá að dómari hafi með engum hætti tjáð sig þannig að hann hafi gert sig vanhæfan í málinu.

III.

Í kröfugerðinni kemur fram að dómari hefði af sjálfsdáðum átt að gæta að hæfi sínu á fyrri stigum málsins með tilliti til viðtalsins. Þetta var gert og þótti ekki tilefni til þess að dómari viki sæti af þessum sökum án kröfu málsaðila. Frá sjónarhóli dómarans, sem veitti viðtalið vegna áhuga á viðfangsefninu, þótti heldur ekki ástæða til að vekja athygli málsaðila á viðtalinu en umfjöllun í því er takmörkuð við almenn atriði sem virðast óumdeild.

Af rökstuðningi stefndu fyrir kröfugerð þeirra um að dómari víki sæti má ráða að þeir telji að viðtalið, sem þeir vitna til, hafi aðallega verið veitt í tilefni af dómara­skipaninni sem sé til umfjöllunar í máli þessu. Af inngangi viðtalsins er þó ljóst að það er jafnframt tekið í tilefni af því að dómari átti sæti í dómnefnd um hæfni héraðsdómara og hafði skrifað fræðigreinar um efnið. Þar var ekki átt við að setan í dómnefndinni eða fræðiskrifin fjölluðu um þá skipan dómara, sem mál þetta fjallar um, enda átti dómarinn sæti í nefndinni á árunum 1998 til 2004 og fræðigreinin, sem vísað er til, kom út í Tímariti lögfræðinga í desember 2004, nokkrum árum áður en atvikin urðu sem kröfur í málinu eru reistar á. Tilefni viðtalsins er augljóslega einnig að miklar deilur höfðu komið upp á opinberum vettvangi varðandi um­rædda dómara­skipan og efasemdir um að fagleg sjónarmið hefðu verið látin ráða ferðinni við valið.

Í málinu er ekki deilt um að fagleg sjónarmið eigi að ráða vali á dómara í embætti, að hæfasti umsækjandi hverju sinni skuli valinn og að hlutleysis sé gætt við valið. Málið er lagt þannig fyrir dóminn að þetta sé byggt á reglum stjórnsýslunnar og af hálfu stefndu er því haldið fram að eftir þeim hafi verið farið í málinu. Í viðtalinu er engin afstaða tekin til þess hvort nokkrar reglur hafi verið brotnar við hina umdeildu dómaraskipan. Þar er heldur ekki tekin afstaða til lögmætis dómara­skipanarinnar sem um ræðir og engar ályktanir dregnar um slíkt. Ekkert er heldur fjallað um bótaábyrgð í tilefni af skipaninni eða persónulega ábyrgð stefnda Árna vegna hennar sem eru megin­­ágreiningsefnin í málinu. Tilvitnanir úr viðtalinu, sem raktar eru í kröfugerð stefndu, eru um þekktar staðreyndir, sem ekki er deilt um í málinu, svo sem að almenningur þurfi að geta treyst því að faglega sé staðið að vali á dómurum, matið þurfi að vera algerlega hlutlaust og að það þurfi að vera byggt á faglegum forsendum.

Að þessu virtu verður ekki fallist á að ummæli dómara í viðtalinu séu til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa í máli þessu. Þrátt fyrir það verður sérstaklega að líta til þess að með viðtalinu tók dómari þátt í opinberri umfjöllun um hina umdeildu dómaraskipan sem stefndu mega með réttu telja að sé til þess fallið að draga óhlutdregni dómarans í efa. Með vísan til þess og g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála ber dómara að víkja sæti í málinu. 

Málskostnaður verður ekki ákveðinn í þessum þætti málsins.

Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Dómari víkur sæti í máli þessu.