Hæstiréttur íslands

Mál nr. 254/2016

Atlantsolía ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging

Reifun

Aðilar deildu um hvort að skuldbinding A ehf. á grundvelli tiltekins viðskiptasamnings hefði verið lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Var tekið fram að í viðskiptasamningi aðila hefði hvorki verið að finna yfirlýsingu A ehf. um að hann stæði í skuld við L hf. né að hann myndaði kröfuréttindi L hf. á hendur A ehf. heldur hefði samningurinn aðeins sett ramma utan um lánsviðskipti milli þeirra. Var talið að hver lánshluti sem A ehf. hefði tekið innan lánsheimildarinnar hefði verið sjálfstætt lán. Vísað var til þess, varðandi þá lánshluta sem ágreiningur málsins fjallaði um, að A ehf. hefði í öllum tilvikum óskað eftir lánum í Bandaríkjadölum, fjárhæðin hefði ekki verið tilgreind í íslenskum krónum og vextir verið tilgreindir Libor. Var því talið að lán A ehf. hefðu verið gild lán í erlendum gjaldmiðli og L hf. sýknað af kröfu A ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. apríl 2016. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 195.426.247 krónur, en til vara 155.513.403 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerðu áfrýjandi og Landsbanki Íslands hf. með sér viðskiptasamning 15. febrúar 2007. Á forsíðu samningsins var hann tilgreindur sem “Kr. 400.000.000,-VIÐSKIPTASAMNINGUR UM REIKNINGSLÁNALÍNU TIL ELDSNEYTISKAUPA OG TIL FJÁRMÖGNUNAR VIÐSKIPTAKRAFNA.“ Samkvæmt 2. grein samningsins skyldi bankinn hafa til reiðu fyrir áfrýjanda reikningslánalínu að fjárhæð 400.000.000 krónur. Innan þeirra marka skyldi áfrýjanda vera heimilt að taka lán hjá bankanum í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn átti viðskipti með. Þá kom fram í grein 3.1 í samningnum að hver lánshluti sem áfrýjandi tæki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teldist vera sjálfstætt lán. Þá var í 4. grein samningsins fjallað um form og efni lánsbeiðna sem fylgja skyldi beiðni um einstaka lánshluta og samkvæmt grein 5.1 skyldu vaxtakjör hvers lánshluta vera LIBOR vextir eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil og hvert vaxtatímabil hverju sinni auk vaxtaálags.

Viðaukar voru síðar gerðir við viðskiptasamninginn án þess að breytt væri eðli skuldbindingarinnar að öðru leyti en því að í október 2008 var áfrýjanda veitt heimild til að taka einnig lán í íslenskum krónum á grundvelli samningsins og voru vaxtakjör hvers lánshluta í íslenskum krónum REIBOR vextir í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni að viðbættu álagi. Stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt viðskiptasamningnum.

II

Í málinu snýst ágreiningur aðila um það hvort skuldbinding áfrýjanda á grundvelli framangreinds viðskiptasamnings hafi verið lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Reisir áfrýjandi kröfu sína á því að það síðarnefnda eigi við um samning aðila og eigi hann því kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu á því sem hann hafi ofgreitt af þeim sökum. Í málatilbúnaði sínum hefur áfrýjandi haldið því fram að stefndi hafi á fundi aðila 21. júní 2011 viðurkennt að lánsskuldbinding samkvæmt viðskiptasamningnum í heild væri ólögmætt gengistryggt íslenskt lán. Er fallist á það með héraðsdómi að ósannað sé að svo hafi verið.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig skuldbindingin hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

Í þeim viðskiptasamningi sem hér um ræðir var hvorki að finna yfirlýsingu áfrýjanda um að hann stæði í skuld við bankann né að hann myndaði kröfuréttindi bankans á hendur áfrýjanda heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu. Í samningnum sjálfum var ekki tekið fram í hvaða gjaldmiðli lánin skyldu vera en tekið fram að áfrýjanda væri heimilt að taka lán hjá bankanum í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum og að tiltaka skyldi í lánsbeiðni í hvaða gjaldmiðli hver lánshluti skyldi vera. Í hverri lánsbeiðni áfrýjanda, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lána, fólust hinir eiginlegu lánssamningar, sbr. það sem sagði í grein 3.1. samningsins að hver lánshluti sem áfrýjandi tæki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teldist vera sjálfstætt lán.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi viðurkennt að hluti þeirra lána sem áfrýjandi tók á grundvelli viðskiptasamningsins hafi verið íslensk og bundin ólögmætri gengistryggingu og hefur hann endurreiknað þau lán og endurgreitt áfrýjanda í samræmi við það. Lýtur ágreiningur máls þessa ekki að þeim lánum.

Samkvæmt þeim lánsbeiðnum, sem varða þá lánshluta sem ágreiningur máls þessa fjallar um og áfrýjandi undirritaði, óskaði hann í öllum tilvikum eftir lánum í Bandaríkjadölum, án þess að fjárhæðin væri þar tilgreind í íslenskum krónum, auk þess sem vextir eru þar tilgreindir sem LIBOR vextir í samræmi við það að um erlent lán væri að ræða. Var skuldbinding áfrýjanda samkvæmt því í Bandaríkjadölum og verður lagt til grundvallar að lán þessi hafi verið gild lán í hinum erlenda gjaldmiðli. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Atlantsolía ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 18. nóvember sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Atlantsolíu ehf., Þrastanesi 16, Garðabæ, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 26. júní 2014.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 195.426.247 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 155.513.403 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi í báðum tilfellum málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara er krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.

                Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir að hinn 15. febrúar 2007 gerðu Atlantsolía og Landsbankinn hf. með sér viðskiptasamning nr. 7042. Á forsíðu samningnum er hann tilgreindur sem „Kr. 400.000.000,- VIÐSKIPTASAMNINGUR um reikningslánalínu til eldsneytiskaupa og til fjármögnunar viðskiptakrafna“.  Samkvæmt inngangsorðum lánasamningsins skyldi stefndi hafa til reiðu fyrir stefnanda reikningslánalínu að fjárhæð 400 milljónir.  Innan þeirra marka skyldi lántaka vera heimilt að taka lán hjá stefnda í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með. Lántöku stefnanda voru sett nánari skilyrði í 3.3 grein í samningnum.

                Í grein 3.3 segir að heildarfjárhæð láns samkvæmt samningnum megi aldrei vera hærra en sem nemur samanlögðu andvirði a) 80% af heildarandvirði olíubirgða lántaka hverju sinni, samkvæmt birgðaskýrslu frá Fjölveri ehf., sem lántaki skuli afhenda stefnda ekki sjaldnar en á 30 daga fresti út lánstímann og b) 80% af heildarandvirði útistandandi viðskiptakrafna sem ekki eru orðnar 90 daga gamlar og sem lántaki hefur eignast í atvinnurekstri sínum og falið stefnda að innheimta fyrir sig. Stefndi áskildi sér samkvæmt ákvæði 3.3 rétt til að hafna ádráttarbeiðnum ef ádráttur yrði þess valdandi að farið yrði fram úr framangreindu viðmiði með hliðsjón af annaðhvort birgðaskýrslum og/eða lista yfir útistandandi kröfum.

                Vextir skyldu vera LIBOR–vextir eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil og hvert vaxtatímabil hverju sinni, auk 2,50% vaxtaálags.  Skyldu vaxtakjör þessi gilda fyrir hvern lánshluta.  Viðaukar voru síðar gerðir við samninginn, án þess að breytt væri eðli skuldbindingarinnar, a.ö.l. en því að í viðaukum, dagsettum í október 2008, var stefnanda jafnframt veitt heimild til að óska eftir ádrætti í íslenskum krónum.

                Ágreiningur málsins snýst um hvort viðskiptasamningur nr. 7042, auk viðauka við samninginn, feli í sér ólögmæta gengistryggingu og hvort stefnandi eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna ofgreiðslna sem hann telur sig hafa innt af hendi vegna þessa.

                Aðilar málsins eru ósammála hvað varðar túlkun viðskiptasamnings nr. 7042 auk þeirra átta viðauka sem gerðir voru við samninginn.  Stefnandi telur að ádrættir á viðskiptasamninginn hafi ýmist verið tilteknir í íslenskum krónum eða Bandaríkjadölum og að við hvern ádrátt hafi verið tekið mið af sölugengi gjaldmiðilsins íslenskar krónur við ákvörðun höfuðstóls.  Staðhæfingu sinni til stuðnings vísar stefnandi til lánayfirlits.  Þrír ádrættir hafi hins vegar verið tilgreindir í íslenskum krónum í lánsbeiðni, greiddir út í sömu mynt og loks endurgreiddir í íslenskum krónum án tengingar við gengi erlendra mynta.  Aðrir ádrættir hafi verið greiddir út í Bandaríkjadölum en endurgreiddir í íslenskum krónum í langflestum tilfellum.  Í þeim tilfellum þar sem ádrættir voru endurgreiddir í íslenskum krónum hafi stefndi ráðstafað íslenskum krónum út af tékkareikningi stefnanda og keypt fyrir fjármunina Bandaríkjadali.  Þær afborganir hafi hins vegar ekki komið til fyrr en eftir að fordæmisgefandi dómar höfðu fallið í Hæstarétti um ólögmæti gengislána og því verið einkennandi fyrir lánið í heild, sem skyldi greiða af í íslenskum krónum samkvæmt viðskiptasamningnum nr. 7042.

                Þá telur stefnandi stefnda hafa viðurkennt ólögmæti gengistryggingar í téðum viðskiptasamningi á fundi þann 21. júní 2011.  Óskað hafi verið skriflegrar staðfestingar á því að lánasamningur nr. 7042 fæli í sér ólögmæta gengistryggingu. Erindinu hafi verið svarað af hálfu stefnda þar sem kynnt hafi verið sú afstaða hans að samningurinn teldist aðeins gengistryggður að hluta þar sem hver ádráttur teldist sjálfstætt lán og gæti þar með einn ádráttur talist ólögmætur en annar lögmætur.  Því fæli aðeins lítill hluti ádrátta í sér ólögmæta gengistryggingu en aðrir ádrættir væru lögmæt lán í erlendri mynt.  Stefnandi telur túlkun stefnda um að hver ádráttur sé sjálfstætt lán ekki réttmæta enda hafi þeir allir fallið undir samninginn í heild sinni og almenna tilgreiningu hans á lánsfjárhæðinni, þ.e. 400 milljónir.  Ádrættirnir hafi ýmist verið greiddir út í Bandaríkjadölum eða íslenskum krónum.

                Stefndi mótmælir framangreindri túlkun stefnanda á inntaki viðskiptasamnings nr. 7042.  Stefndi nefnir að á tímabilinu frá gildistöku viðskiptasamningsins og fram til 5. desember 2012 hafi stefnandi dregið 80 sinnum á lánsheimild sína samkvæmt samningnum með því að beina lánsbeiðnum til stefnda, sbr. fylgiskjal A við samninginn og samkvæmt 4. gr. samningsins.  Í téðum lánsbeiðnum hafi komið fram þær upplýsingar sem 4. gr. samningsins og fylgiskjal A kváðu á um, þ.e. lántökudagur, mynt, upphæð, vaxtakjör, gjalddagar og upplýsingar um skuldfærslureikning.  Hafnar því stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda sérstaklega að við hvern ádrátt hafi verið tekið mið af sölugengi gjaldmiðilsins íslenskum krónum við ákvörðun höfuðstóls.

                Stefndi vísar, líkt og stefnandi, til fundar aðila þann 21. júní 2011 þar sem stefnandi telur að fulltrúi stefnda hafi fullyrt að viðskiptasamningur nr. 7042 fæli í sér lánveitingu í íslenskum krónum með ólögmætri tengingu við erlendar myntir.  Stefndi mótmælir því að meint ummæli hafi komið fram á téðum fundi og vísar til bréfs stefnda til stefnanda, dagsettu 18. janúar 2012 þar sem fram kemur það mat stefnda að umræddur samningur kvæði að hluta til um ólögmæta gengistryggingu.  Samkvæmt samningnum kæmi fram að hver ádráttur væri sérstakt lán og því gæti hver ádráttur falið í sér ádrátt sem innihéldi ólögmæta gengistryggingu, ádrátt í íslenskum krónum eða ádrátt sem teldist vera lögmætt erlent lán.  Í téðu bréfi kom fram að allir lánshlutar á grundvelli viðskiptasamningsins, sem töldust hafa falið í sér ólögmæta gengistryggingu, hefðu verið endurreiknaðir miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og að allir núverandi leggir væru hins vegar lán í erlendri mynt.  Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að stefndi hefði ákveðið að hækka ekki eftirstöðvar lánsins í samræmi við endurútreikning lánsins heldur yrðu eftirstöðvarnar eins og þær voru fyrir endurútreikninginn.

                Stefnandi óskaði hinn 26. mars 2012 eftir frekari skýringum á afstöðu stefnda og rökstuðningi.  Stefndi sendi stefnanda yfirlit yfir lánsbeiðnir sem hann taldi vera lögmæt erlend lán auk þess sem gerð var grein fyrir afstöðu stefnda þess efnis að lánabeiðnirnar væru í samræmi við skýr ákvæði viðskiptasamnings nr. 7042, þar sem kveðið var á um að lánabeiðnir hafi tilgreint að um væri að ræða lántöku í tilteknum erlendum myntum, og teldust lögmætar skuldbindingar í þeim myntum.

                Stefndi telur að þar sem nú þegar hafi verið endurreiknuð tiltekin lán á þeim grundvelli að þau hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu og að tekið hafi verið tillit til þess að þau bæru vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, geti stefnandi ekki átt kröfu á hendur stefnda vegna umræddra lána.

Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi dómkröfur sínar með bókun með vísan til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 34/2015 og 35/2015.

III

                Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að viðskiptasamningurinn milli stefnanda og stefnda feli í sér ólögmæta gengistryggingu og að stefnandi eigi því endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna þeirra ofgreiðslna sem hann hafi innt af hendi sökum þessa.  Stefnandi reisir aðalkröfu sína á þeim grundvelli að endurgreiðslukrafan beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en varakröfu sína byggir stefnandi á að krafan beri vexti samkvæmt 8. gr. sömu laga.

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé óheimilt að lán í íslenskum krónum sé verðtryggt með því að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna.  Stefnandi telur að viðskiptasamningur nr. 7042 feli í sér ólögmæta gengistryggingu og því skuldbindi ákvæði samningsins um gengistryggingu ekki stefnanda og stefnandi eigi því jafnframt kröfu á stefnda vegna ofgreiðslna.

                Staðhæfing stefnanda um að lánssamningur nr. 7042 feli í sér ólögmæta gengistryggingu byggist á því að aðeins sé í lánasamningnum og viðaukum við hann lánsfjárhæð tilgreind í íslenskum krónum og því falli samningurinn undir þann flokk lánasamninga sem dómstólar hafa flokkað til ólögmætra gengistryggðra lána. Stefnandi vísar til dómafordæma varðandi mikilvægi heitis lánasamnings og tilgreiningu lánsfjárhæðar og mikilvægi textaskýringar við túlkun samninga, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og 337/2013.

                Stefnandi vísar til þess að Hæstiréttur hafi ekki talið þörf á að líta til framkvæmdar aðalskyldna samkvæmt samningum eða annarra atriða í tengslum við samningsgerð nema tilgreining lánsfjárhæðar sé óskýr, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 337/2013 og 743/2013.  Stefnandi telur að af því leiði að Hæstiréttur telji það fullnægjandi sönnun þess að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða, þegar lánsfjárhæðin hefur aðeins verið tilgreind í íslenskum krónum og samningurinn tengdur gengi erlendra mynta.  Þá hafi Hæstiréttur jafnframt talið að um lögmætt erlent lán sé að ræða þegar lánsfjárhæðin hefur aðeins verið tilgreind útreiknuð í erlendum myntum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013.  Þar sem hinn umdeildi samningur, auk þeirra 8 viðauka sem voru gerðir við samninginn, tilgreini aðeins íslenska krónu sem gjaldmiðil auk þess sem í inngangsorðum samningsins sé aðeins fjallað um íslenskar krónur, sé íslensk króna eina fjárhæðin sem beint eða óbeint hafi verið tilgreind í téðum samningi.  Því taki lánssamningurinn eingöngu til skuldbindinga í þeim gjaldmiðli, sbr. dómar Hæstaréttar í máli nr. 386/2012 og nr. 757/2012.  Vegna þess að lánsfjárhæðin hafi eingöngu verið tilgreind í íslenskum krónum og útreiknuð í sömu mynt í samningnum og viðaukum, sé ljóst að skylt hafi verið að greiða til baka í sömu mynt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 603/2010.

                Stefnandi byggir staðhæfingar um ólögmæti gengistryggingar viðskiptasamnings aðila jafnframt á þeim rökum að samningurinn hafi ekki verið jafnvirðislánasamningur og því ekki markatilvik, heldur auðsjáanlega samningur þar sem mynt var íslensk.  Kaupnótur hafi því ekkert vægi ef þær tilgreini útgreiðslu erlendra mynta þvert gegn tilgreiningu lánasamninga um lán í íslenskum krónum.

                Stefnandi bendir á að stefndi hafi ekki gefið neinar skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi aðeins verið tilgreind í íslenskum krónum ef í raun hafi verið um að ræða lán í erlendri mynt og sönnun hvíli á stefnda um hið gagnstæða.

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt samningi hafi stefnandi einu sinni í viku sent stefnda yfirlit yfir birgðastöðu og á grundvelli hennar hafi stefndi reiknað út hversu mikið stefnanda hafi verið heimilt að draga á viðskiptasamninginn í hvert skipti.  Í þessum yfirlitum birgða og viðskiptakrafna hafi ávallt og aðeins verið tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum og á grundvelli þessara forsendna hafi jafnframt verið tiltekið hversu margar íslenskar krónur stefnanda væri heimilt að draga á viðskiptasamninginn í hvert og eitt skipti  Stefnandi telur því liggja ljóst fyrir að grundvöllur útgreiðslna hafi ávallt verið íslenskar krónur.

                Stefnandi telur lánayfirlit sem stefndi hafi sent stefnanda þar sem eftirstöðvar lánsins hafi verið teknar saman við síðustu ádrætti sem dregnir hafi verið á viðskiptasamninginn sýna fram á að stefndi hafi framkvæmt innanhúsgerninga um kaup á Bandaríkjadölum.  Stefndi hafi ekki gert þetta fyrr en dómar hafi legið fyrir í Hæstarétti varðandi ólögmæta gengistryggingu og því hafi hann reynt að breyta tilhögun við framkvæmd aðalskyldna aðila.  Stefnandi telur þá háttsemi stefnda sýna fram á vonda trú gagnvart stefnanda og því sé réttarsamband þeirra í millum ólögmætt.  Þá hafi umræddir innanhúsgerningar sem orðið hafi til þess að endurgreiðslumynt hafi orðið Bandaríkjadalir í stað íslenskra króna ekki breytt réttarstöðu stefnanda, sem áfram hafi tekið á sig alla áhættu af gengissveiflum.  Innanhússfærslur stefnda hafi því ekki breytt skilningi aðila á réttarsambandinu, þ.e. að greiðslur afborgana hafi verið íslenskar krónur.

                Stefnandi vísar til þess að horfa skuli á lánasamninginn heildstætt en ekki á hvern og einn ádrátt fyrir sig.  Sú málsástæða stefnanda byggi á eðli viðskiptasamningsins sem rammasamnings og þeirri staðreynd að umræddur samningur hafi verið sá eini sem raunverulega hafi verið gerður á milli aðila. Stefnandi vísar í þessu tilliti til dóms Hæstaréttar í máli nr. 189/2013.

                Stefnandi telur að jafnvel þótt litið væri svo á að ádrættir væru sjálfstæðir samningar, væru allir ádrættir ólögmætir enda hefðu þeir falið í sér ólögmæta gengistryggingu.  Túlka beri ádrætti til samræmis við þann ramma sem utan um töku þeirra hafi verið gerður, þ.e. viðskiptasamninginn.  Upphafsákvæði samningsins sé skýrt, en þar segi orðrétt: „Vísað er til Viðskiptasamnings dags. 15.02.2007 og síðari viðaukum milli Atlandsolíu ehf., kt. 590602-3610, og Landsbankans og skal túlka öll hugtök í þessari lánsbeiðni til samræmis við hann.“  Þar sem tilvitnað ákvæði hafi verið samið einhliða af stefnda beri að skýra það stefnanda í hag.

                Stefnandi telur upptalningu stefnda á ádráttum sem stefndi telji fela í sér lögmætt erlent lán eiga það sameiginlegt að höfuðstóll þeirra sé tilgreindur í erlendri mynt í ádráttarbeiðni, en þó ávallt með hliðsjón af sölugengi gjaldmiðilsins hverju sinni.  Ádrættirnir hafi verið ýmist greiddir út í Bandaríkjadölum eða íslenskum krónum og því ljóst að þeir beri þess ekki merki að vera lán í erlendri mynt.  Þá hafi allir ádrættir lánsins verið endurgreiddir í íslenskum krónum og því ljóst að raunveruleg gengisáhætta hafi hvílt á stefnanda.

                Stefnandi telur hendingu eina hafa að jafnaði ráðið því hvaða ádrætti stefndi viðurkenndi sem ólögmæt gengistryggð lán og að mismunandi framkvæmd og ósamhljómur í þá veru sýndi fram á hversu lítið vægi tilgreining fjárhæðar í ádráttarbeiðni hafi haft í lögskiptum aðila.  Það eitt að ádráttarbeiðnir hafi tilgreint fjárhæðir í Bandaríkjadölum hafi ekki ráðið niðurstöðu um hvort lánið yrði talið fela í sér ólögmæta gengistryggingu eða ekki.  Sökum viðurkenningar stefnda á ólögmæti nokkurra ádrátta, sem þó hafi verið ýmist tilgreindir í Bandaríkjadölum eða íslenskum krónum í lánsbeiðnum, fælist að mati stefnanda viðurkenning á því að allir ádrættirnir hefðu falið í sér ólögmæta gengistryggingu, enda hnígi engin rök að því að tilgreindir ádrættir stefnanda fælu í sér ólögmæta gengistryggingu umfram aðra.

                Stefnandi vísar til þess að í viðskiptasamningnum hafi ráðstöfun innstæðu til niðurgreiðslu lánshluta verið hagað með þeim hætti að stefnandi tæki á sig alla gengisáhættuna og íslenskar krónur hafi verið notaðar til að greiða niður skuld, að jafnaði miðaða við gengi Bandaríkjadals.

                Kröfu sína um endurgreiðslu ofgreidds fjár styður stefnandi þeim rökum að vegna ólögmætrar gengistryggingar höfuðstóls lánasamningsins hafi stefnandi ofgreitt hinar samningsbundnu fjárhæðir og samkvæmt meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár sem viðurkennd hafi verið í íslenskri dómaframkvæmd eigi hann rétt á endurgreiðslu.

                Stefnandi miðar við að endurgreiðslukröfur hafi stofnast í hvert skipti sem hann hafi ofgreitt af láninu.  Endurgreiðslukrafan miðist því við ofgreiðslu höfuðstóls samanborið við lögmætan, ógengistryggðan höfuðstól, festan á lántökudegi í íslenskum krónum, vegna ólögmætrar gengistryggingar og vaxtagreiðslna.  Stefnandi geri ekki kröfu um endurgreiðslu vegna ofgreiddra vaxta.

                Stefnandi telur að stefndi eigi ekki rétt á ætluðum vangreiðslum á vöxtum sökum reglunnar um fullnaðarkvittanir, en byggir kröfu sína á því að fullnaðarkvittanir eigi að gilda í uppgjöri aðila.  Stefnandi telur öll skilyrði þess uppfyllt að reglan um fullnaðarkvittanir gildi milli aðila.  Hann hafi verið í góðri trú er hann greiddi afborganir og hafi haldið eftir kvittunum fyrir hverja greiðslu.  Stefnandi telur verulegan aðstöðumun vera milli málsaðila og að sú staða hafi jafnframt verið við lýði er aðilar gengu til samninga.  Stefnandi skilgreini sig sem heildverslun með fast, fljótandi og loftkennt eldsneyti og skyldar vörur.  Tilgangur hans sé að flytja inn og selja olíuvörur og önnur skyld starfsemi.  Þekking á sviði lánsskuldbindinga sé ekki fyrir hendi og enginn starfsmanna félagsins búi yfir sérfræðiþekkingu sem nýst geti í slíkum gerningum.

                Stefnandi vísar til þess að umsvif, velta, eignir, skuldir og tekjur séu ekki sambærilegar því hjá öðrum olíufélögum á Íslandi og að ársreikningar félagsins sýni glöggt fram á hinn mikla mun á stærð hans og annarra olíufélaga.  Því sé stefnandi langt frá því að vera millistórt eða stórt félag.

                Hann bendir á að stefndi sé hins vegar fjármálafyrirtæki með opinbert starfsleyfi og búi yfir yfirgripsmikilli reynslu og sérfræðiþekkingu.  Hinn umdeildi samningur hafi jafnframt verið saminn einhliða af hálfu stefnda.

                Stefnandi byggir á því að það hafi staðið stefnda nær sem lánveitanda að gæta að lánasamningnum, lögmæti hans og réttarreglum.  Það standi jafnframt stefnda nær að bera áhættuna af þeim mistökum sem leitt hafi til vangreiðslunnar.  Það sé jafnframt ekki réttlætanlegt af stefnda að bera fyrir sig viðbótarkröfu á grundvelli sinna eigin mistaka við útgáfu greiðsluseðla og fullnaðarkvittana eða innheimtu lánsins enda hafi stefndi sjálfur séð um greiðslur lánsins með því að ráðstafa inneign á tilgreindum bankareikningi stefnanda með reglubundnum hætti.

                Stefnandi byggir kröfur sínar um vexti á endurgreiðslukröfur vegna ofgreiðslna á 4. gr. laga nr. 38/2001.  Byggt er á a-lið 7. mgr. 18. gr. sömu laga., sbr. einnig hið eldra ákvæði 18. gr. laganna sem var í gildi þegar til réttarsambands stefnanda og stefnda var stofnað.  Samkvæmt því ákvæði skyldi við ákvörðun slíkrar endurgreiðslu miða við vexti samkvæmt 4. gr. eftir því sem við gæti átt.  Þar sem dómstólar hafi talið að reikna beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á ólögmæt gengistryggð lán og þá þar með talið lánið í þessu máli byggir stefnandi á því að rétt sé að krefjast sömu vaxta á endurgreiðslukröfur sínar.

                Stefnandi krefst þess til vara að endurgreiðslukröfur stefnanda skuli bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, þar sem endurgreiðslukröfur séu í eðli sínu skaðabótakröfur.  Stefnandi telur að jafnframt megi byggja á lögjöfnun frá 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

                Dráttarvaxta er krafist í bæði aðal- og varakröfur frá þingfestingardegi til greiðsludags sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001.

                Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna á sviði kröfuréttar og samningaréttar.  Þá vísar stefnandi sérstaklega til meginreglunnar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Jafnframt vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og reglunnar um bann við afturvirkni laga.  Stefnandi vísar í heild til laga um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 13. og 14. gr., 4. gr., 10. gr., 6. gr., 8. gr. og 18. gr., sem og 18. gr. eldri laga.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 151/2010.  Stefnandi vísar jafnframt til laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sérstaklega 1. mgr. 2. gr.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að lánveitingar samkvæmt lánsbeiðnum hafi falið í sér lögmætar skuldbindingar í erlendri mynt.  Þær lánveitingar sem taldar hafi verið óheimilar lánveitingar í íslenskum krónum hafi verið endurreiknaðar af hálfu stefnda á þeim grundvelli, en við leiðréttingu þeirra lána hefði stefndi réttilega krafið stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.  Stefnandi eigi því ekki kröfu á hendur stefnda vegna þeirra lánveitinga sérstaklega.

                Stefndi vísar til inngangsorða og greinar 2.2 í hinum umdeilda samningi og vísar til þess að viðskiptasamningur milli aðila hafi sem slíkur falið í sér skuldbindingu af hálfu stefnda að hafa til reiðu fyrir stefnanda, reikningslánalínu sem gæti numið fjárhæð allt að 400 milljónum.  Þannig hafi með samningnum verið afmarkaður rammi heildarlánsloforðs stefnda gagnvart stefnanda en innan þeirra marka gæti stefnandi hins vegar tekið lán hjá stefnda í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem stefndi ætti viðskipti með.  Það skyldi því ráðast af óskum stefnanda í hvert skipti í hvaða erlendu gjaldmiðlum hver ádráttur hans á heildarlánsloforð stefnda yrði, og þá um leið fjárskuldbinding hverju sinni.  Til fjárskuldbindingar hafi því ekki stofnast fyrr en með samþykktri afgreiðslu stefnda á lánsbeiðnum stefnanda, sbr. grein 3.1 og 4 í hinum umdeilda samningi.  Með samningnum sem slíkum stofnaðist því ekki til skuldbindingar um greiðslu lánsfjár og endurgreiðslu þess, enda stóð samningurinn ekki sjálfstæður í þeim skilningi að skuldbinding stefnanda réðist að fullu af texta hans sjálfs.  Í grein 3.1 í samningnum kom enda fram að hver lánshluti innan lánsheimildarinnar væri sjálfstætt lán sem markaðist af þeim ramma sem samningurinn setti. Stefndi vísar í þessu samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 734/2013.

                Stefndi byggir því á því að skuldbinding stefnanda að því er varðar hverja einstaka lánveitingu, í samræmi við skilmála viðskiptasamningsins, ákvarðist af fjárhæðum þeim sem tilgreindar voru í hverri lánsbeiðni stefnanda, sbr. 4. gr. samningsins, og mynttilgreining sem þar komi fram mæli fyrir um eðli skuldbindingar stefnanda í hverju og einu tilfelli, enda hafi fjárhæðir einstakra lána hvergi annars staðar verið tilgreindar sérstaklega.  Stefndi telur að í öllum þeim lánsbeiðnum er hann vísaði til hafi verið um að ræða lögmætar erlendar lánaskuldbindingar enda hafi lánsbeiðnirnar verið undirritaðar af hálfu stefnanda, og fjárhæð lánsmyntar tilgreind sérstaklega sem Bandaríkjadalir, en engrar íslenskrar lánsfjárhæðar getið.  Teljist því lánsfjárhæðin að því er varði þau lán sem stefndi byggir á til erlendra lána.

                Stefndi byggir á því að lánveitingar samkvæmt nánar tilgreindum lánsbeiðnum hafi verið lögmætar erlendar skuldbindingar og mótmælir því sérstaklega að með því að hafa viðurkennt ólögmæti nokkurra ádrátta hafi falist viðurkenning á því að allir ádrættir lánsins fælu í sér ólögmæta gengistryggingu.  Þá mótmælir stefndi því einnig að hending ein hafi ráðið því almennt hvaða ádrætti stefndi hafi viðurkennt sem ólögmæt gengistryggð lán og að mismunandi framkvæmd og ósamhljómur hafi verið við viðurkenningu stefnda á lögmæti og ólögmæti ádrátta og eins að framkvæmd samnings aðila eða afstaða stefnda til lögmætis tiltekinna ádrátta hafi á einhvern hátt verið ruglingsleg.  Stefndi fellst ekki á þá málsástæðu stefnanda að það að lánveitingar á grundvelli viðskiptasamningsins hafi hvoru tveggja verið í íslenskum krónum og í erlendum myntum feli í sér viðurkenningu á því að allir ádrættir lánsins fælu í sér ólögmæta gengistryggingu, enda kvæði samningurinn með viðaukum á um að slíkt væri heimilt.

                Stefndi vísar til þess að sérstaklega hafi verið haft að leiðarljósi við gerð viðskiptasamningsins að hann væri bundinn við einstakar lánveitingar sem væru alfarið og eingöngu í erlendum myntum, þ.e. „algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með“, eins og fram komi í grein 2.2 í hinum umdeilda samningi. Þá hafi í 5. gr. samningsins verið samið um að lánveitingar bæru LIBOR-vexti og þannig hafi stefnanda í raun einungis verið fært að fá lán í erlendri mynt, enda ágreiningslaust að aldrei hafi verið skráðir vextir af lánsfé í íslenskum krónum á millibankamarkaði í Lundúnum.  Stefndi bendir jafnframt á að hinn 14. og 16. október 2008 hafi til viðbótar verið ráðgert að undir viðskiptasamninginn gætu einnig fallið lán í íslenskum krónum, sem bæru REIBOR-vexti.  Af þessu leiði, að mati stefnda, að heiti og tilgreining lánsfjárhæðar í viðskiptasamningnum sem slíkum hafi ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins og því ekki nauðsynlegt, að því er varðar einstakar lánveitingar samkvæmt viðskiptasamningnum, að líta til ákvæða samningsins um hvernig efndum skyldi háttað og hvernig að þeim var staðið í raun. Rétt sé að benda á, í því sambandi er varðar skuldbindingar stefnda, að viðskiptasamningurinn hafi upphaflega kveðið á um skyldu stefnda til að veita lán í „öllum algengum erlendum gjaldmiðlum“, en ekki lán í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 2. gr. samningsins.  Framkvæmd lánveitingar hafi farið þannig fram að stefnandi fyllti út lánsbeiðni, sbr. fylgiskjal A við samninginn, þar sem þurft hafi að tilgreina m.a. mynt og upphæð, auk vaxtakjara, sbr. grein 4.2 í viðskiptasamningnum. Slíkt væri í samræmi við 2. gr. samningsins um að lán skyldu veitt í algengum erlendum gjaldmiðlum.

                Stefndi telur að lánsskuldbinding stefnanda hafi þannig ráðist alfarið af tilgreiningu í lánsbeiðnum enda skyldu lánshlutar greiddir til stefnanda í samræmi við lánsbeiðnir, sbr. grein 4.2 í viðskiptasamningi aðila.  Í því hafi falist að beinlínis hafi verið ráðgert í viðskiptasamningnum, þrátt fyrir að heildarlánsloforð væri afmarkað með tilgreiningu fjárhæðar í íslenskum krónum, að hvert og eitt lán væri í erlendri mynt og að erlenda myntin yrði í hverju tilviki ákvörðuð í lánsbeiðni stefnanda.

                Stefndi vísar til þess að í þeim tilvikum sem stefnandi hafi óskað eftir lánveitingum í Bandaríkjadölum hafi lánsfjárhæðin verið lögð inn á gjaldeyrisreikning hans nr. 0140-38-100596.  Slíkar greiðslur hafi verið lögmætar lánveitingar í erlendri mynt, verið skuldbindandi fyrir stefnanda sem slíkar, réttilega greiddar til hans og því enginn endurheimturéttur fyrir hendi hvað slíkar greiðslur varðar.

                Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að um vonda trú stefnda gagnvart stefnanda hafi verið að ræða.  Í langflestum tilvikum hafi lánshluta verið ráðstafað til stefnanda með innlögn á reikning hans í erlendri mynt.  Við þær aðstæður hafi erlendar myntir skipt um hendur, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 332/2012, 50/2012, 715/2012 og 757/2012.

                Stefndi bendir á að þó svo að ráðgert hafi verið í viðskiptasamningi aðila að skuldfærslureikningur væri reikningur stefnanda í íslenskum krónum, sbr. gr. 7.3 í samningnum, hafi við endurgreiðslu á erlendum lánveitingum í raun farið fram gjaldeyrisviðskipti þar sem íslenskar krónur hafi verið seldar fyrir viðkomandi erlendar myntir.  Stefndi geri því athugasemdir og mótmæli sérstaklega fullyrðingum stefnanda þess efnis að búin hafi verið til innanhússgögn um kaup á Bandaríkjadölum, sem röngum og ósönnuðum.  Þá andmælir stefndi því einnig að það sé tortryggilegt eða sýni fram á vonda trú stefnda að tilhögun afborgana hafi verið breytt.

                Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda í stefnu um að máli skipti, að því er varðar tilgreiningu hinna erlendu lánsmynta samkvæmt lánsbeiðnum eða við ákvörðun skuldbindingar stefnanda að öðru leyti samkvæmt þeim, hvernig háttað hafi verið tilgreiningu birgða stefnanda, sem markað hafi heimild stefnanda til að óska eftir lánveitingu í hvert sinn á grundvelli viðskiptasamningsins, enda hafi birgðastaðan sem slík ekki falið í sér lánsskuldbindingu.  Því sé málsástæða stefnanda í þessa veru haldlaus.  Sama gildi um þá málsástæðu stefnanda að máli skipti hvernig háttað hafi verið tilgreiningu stöðu lánsskuldbindinga stefnanda á hverjum tíma í lánayfirliti, þ.e. þó svo að erlendar lánveitingar hafi einnig, miðað við gengi á hverjum tíma, verið umreiknað í íslenskar krónur, enda hafi erlendu fjárhæðarinnar ætíð verið getið sérstaklega í yfirlitinu.

                Stefndi vísar til þess að umfjöllun stefnanda í stefnu þar sem því sé haldið fram að með lánsbeiðnum eins og þær séu úr garði gerðar, sé lánveitendum gert kleift að koma sér undan banni 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 með því einu að tilgreina fjárhæðir í skjölum meðfylgjandi lánasamningum í erlendum myntum, sé ekki rétt. Lánsbeiðnirnar stafi í reynd frá stefnanda sjálfum, séu undirritaðar af honum, og feli í sér beiðnir hans um lán að tiltekinni fjárhæð og í tilteknum gjaldmiðli.  Að sama skapi mótmæli stefndi sérstaklega staðhæfingu stefnanda í stefnu þar sem segi að „hafi ætlun lánveitanda verið að lána stefnanda í erlendum myntum hefði honum verið í lófa lagið að tiltaka lánið í þeim erlendu myntum sem hann vildi lána stefnanda“.  Stefndi telur orðalag samnings aðila, sem og önnur gögn málsins, bera skýrt með sér að samningurinn hafi falið í sér skuldbindingu af hálfu lánveitanda til að hafa til reiðu fyrir stefnanda reikningslánalínu sem gæti numið fjárhæð alls allt að 400.000.000 króna og að innan þeirra marka, þ.e. allt að 400.000.000 króna, gæti stefnandi tekið lán „í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum“ sem lánveitandi ætti viðskipti með, sbr. inngangsorð og gr. 2.2 í samningnum.  Upphaflega hafi þannig ekki einungis verið um samið að ekki væru ráðgerðar lánveitingar í íslenskum krónum, heldur hefði einnig verið óákveðið í hvaða erlendu gjaldmiðlum stefnandi myndi taka lánin.  Skyldi það ráðast af lánsbeiðnum stefnanda.  Þessi tilhögun hafi verið til hægðarauka og einföldunar hvað varði tilgreiningu hámarks heildarlánsloforðsins í íslenskum krónum frekar en „í þeim erlendu myntum sem [lánveitandi] vildi lána stefnanda“. Auk þess hafi skýrt komið fram í samningnum í hvaða erlendu myntum stefndi „vildi“ lána stefnanda, þ.e. „í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með“.  Stefndi telur með vísan til orðalags samningsins að skuldbindingu stefnanda sé ekki lýst með jafn eindregnum hætti í íslenskri mynt og stefnandi byggi á.

                Stefndi vísar til þess að við túlkun viðskiptasamningsins skuli hafa í huga meginreglu íslensks réttar um samningsfrelsi manna og þeirrar meginreglu að samningar séu gildir nema sýnt sé fram á að þeir brjóti í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Þá hafi stefnandi með athafnaleysi sínu samþykkt að líta skuli svo á að skuldbindingarnar hafi verið í erlendum gjaldmiðli.

                Stefndi byggir á því að lánveiting hafi verið heimil á grundvelli 2. gr. laga nr. 38/2001 jafnvel þó svo að hún hafi verið haldin ólögmætri gengisbindingu og vísar til þess að slíkt hafi verið stefnanda til hagsbóta.  Stefndi vísar í þessu tilliti til starfsemi stefnanda og tekjumyndunar, og þá í ljósi þess hvað ætla mætti um það þegar upp væri staðið að lánstíma loknum, þ. á m. með samanburði lánskjara samkvæmt leiðum sem val hafi staðið um, þ.e. einkum lán í íslenskum krónum, verðtryggð og óverðtryggð, í ljósi reynslu á löngu tímabili til samræmis við lánstíma, sbr. og dóm Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í máli nr. 603/2010.  Sönnunarbyrði um hið gagnstæða, hvíli á stefnanda og liggi slík sönnun ekki fyrir í málinu.

                Varakröfu um lækkun byggir stefndi á þeim sjónarmiðum, að verði fallist á að um ólögmætt gengistryggt lán hafi verið að ræða, sé því hafnað að útreikningar stefnanda verði lagðir til grundvallar í málinu.  Við þær aðstæður eigi stefndi viðbótarkröfu á hendur stefnanda um vexti á endurreiknaðar greiðslur, sem taki mið af því að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða.

Stefndi telur að leggja beri til grundvallar að skuldbindingarnar beri REIBOR-vexti í samræmi við samning aðila, sbr. viðauka, og þá frá öndverðu, eða a.m.k. frá 14. október 2008 að telja, en ella beri skuldbindingarnar vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá öndverðu.  Gildi það jafnt um þau lán sem stefndi telji lögmætar erlendar skuldbindingar og um þau lán sem hann hafi þegar endurreiknað með tilliti til vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.  Vísar stefndi í þessu sambandi til laga nr. 151/2010, sem og dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010 og 734/2013.  Ef talið verði að um ólögmæta gengistryggingu hafi verið að ræða geri hann kröfu á hendur stefnanda um vangreidda vexti samkvæmt framangreindu, sem komi til lækkunar, eða eftir atvikum skuldajafnaðar við kröfu stefnanda.  Byggir stefndi annars vegar á því að af almennum reglum kröfuréttar um endurheimt ofgreidds fjár leiði, hvað sem öðru líður, að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem stefnandi innti af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til ofangreindra vaxtaviðmiðana.  Hins vegar eigi stefndi gagnkröfu á hendur stefnanda um það sem vangreitt er, í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Kvittanir sem stefndi hafi gert stefnanda leiði ekki til þess að kröfuhafi, þ.e. stefndi, hafi glatað þessari viðbótarkröfu sinni, eins og hér standi á.

                Stefndi byggir jafnframt kröfu sína um sýknu á því að í málinu sé af hálfu stefnanda í reynd gerð krafa um endurgreiðslu þess sem hann telur sig hafa ofgreitt vegna meintrar ólögmætrar gengistryggingar, en þar með sé kröfuréttur stefnanda reistur á ætlaðri ofgreiðslu fjárkrafna sem hann hafi verið krafinn um.  Ágreiningur aðila snúi því að þessu leyti í eðli sínu ekki um hvort stefnda sé eftir almennum reglum kröfuréttar heimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslu vegna vangreiddra vaxta.  Fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu stefnanda hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem stefnandi hafi innt af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana, þ.e. REIBOR-vaxta, en ella vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.  Stefndi bendir á að stefnandi hafi aldrei gert neinn fyrirvara við lögmæti skuldbindinga sinna eða greiðsluskyldu sína. Síðast hafi verið gerður fyrirvaralaus viðauki við samning aðila þann 9. júní 2011, auk þess sem fyrirvaralausar lánsbeiðnir og greiðslur stefnanda taki m.a. til tímabilsins frá 2010 út árið 2012.  Stefndi vísar til þess að sanngirnisrök mæli ekki með endurgreiðslukröfu stefnanda, enda takmarkist hún ekki við þá fjárhæð sem stefnandi hafi innt af hendi umfram það sem hann hefði að réttu lagi átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Þá sé ljóst í þessu sambandi að engan veginn geti átt við það grunnskilyrði endurheimturéttar almennt að stefndi myndi „auðgast“ á kostnað stefnanda við endurútreikning þar sem tekið væri tillit til réttra vaxtaviðmiðana.  Þvert á móti yrði að líta svo á að endurheimtukrafa sem miðast við að reiknaðir séu lágir erlendir vextir af íslenskri óverðtryggðri lánsfjárhæð, teldist frekar fela í sér auðgun stefnanda á kostnað stefnda, eins og hér stendur á.  Stefndi andmælir því sérstaklega málatilbúnaði stefnanda í gagnstæða veru og telur að sýkna beri stefnda þá þegar sökum þessa.

                Stefndi telur að ef farið yrði með úrlausnarefni eftir reglum kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð, þ.e. umfram eða í stað hinna erlendu vaxta, sem greiddir hafi verið ætti stefndi þá kröfu á hendur stefnanda um vangreidda REIBOR-vexti frá öndverðu, eða a.m.k. frá 14. október 2008 að telja, en ella vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.  Hvort tveggja af þeim lánum sem stefndi hafi þegar viðurkennt að feli í sér óheimila gengisbindingu og vegna þeirra lána sem stefndi byggi á að teljist lán í erlendum myntum.  Sú krafa stefnanda komi þá í reynd til lækkunar eða eftir atvikum til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda að þessu leyti við útreikning hvers konar endurgreiðslukröfu.  Þar sem stefndi hafi talið skuldbindingar stefnanda ekki haldnar ólögmætri gengistryggingu hafi hann ekki beint sérstakri kröfu þar að lútandi að stefnanda, þ.e. vegna þeirra lána.  Stefndi telur hins vegar að fari svo að skuldbindingarnar verði alfarið taldar haldnar ólögmætri gengisbindingu hljóti eðli málsins að leiða til þess að við útreikning, og þegar tekin sé afstaða til lögmætis hvers konar fjárkröfu stefnanda, að líta til þess hvort slíkri kröfu verði komið við vegna allra umræddra lána samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Af hálfu stefnda er litið svo á að viðbótarkröfur hans um vexti vegna einstakra lána verði, með sama hætti og virðist byggt á af hálfu stefnanda, sóttar saman á grundvelli kröfusamlags, sbr. 27. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 28. gr. s.l.

                Stefndi mótmælir því að hafa viðurkennt eftirfarandi staðhæfingar er fram koma í stefnu: „að reglan um fullnaðarkvittanir í tengslum við ólögmæt gengistryggð lán gildi gagnvart stefnanda“ og að „sjónarmið um góða trú, aðstöðumun aðila, hverjum stóð nær að gæta að lögmæti lána o.fl. eiga við í samskiptum stefnda og stefnanda“.  Stefndi telur það ekki hafa nokkra þýðingu við úrlausn þessa máls hvers konar afgreiðslu aðrar skuldbindingar stefnanda hafa hlotið eða hvaða afstöðu stefndi hafi tekið á þeim tíma.  Stefnandi hafi með engu móti getað gengið út frá því að aðrar skuldbindingar hans fengju sömu afgreiðslu, enda hafi stefndi ekki fallið frá öðrum kröfum sínum, þ. á m. viðbótarkröfum sínum í máli þessu, eins og stefnandi virðist meðvitaður um. Þá telur stefndi að leiðrétting annarra lánategunda af hálfu stefnda, sem vísað er til, hafi farið fram umfram lagaskyldu.

                Stefndi telur heildarmat á aðstæðum öllum í máli aðila sýna fram á að þau atriði sem til viðmiðunar komi þegar metið sé hvort víkja skuli frá meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til eigi kröfu á hendur skuldara fyrir vangreiðslu, komi ekki til álita.  Því eigi ekki við undantekningarreglan um að fullnaðarkvittun firri stefnda viðbótargreiðslu enda ráði heildarmat á aðstæðum öllum því hvort vikið sé frá meginreglunni eða ekki.  Í tilviki aðila sé að mati stefnda óverulegra hagræði sem hljótist af því að stefnandi greiði viðbótargreiðslu en ef haldið yrði við meginregluna.

                Af málatilbúnaði stefnanda ræður stefndi að hann beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu kröfuréttar.  Stefndi telur að sú byrði hvíli á stefnanda að sanna, gegn andmælum stefnda, að krafa um vangreidda REIBOR-vexti, eða ella vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, teljist muni fela í sér umtalsvert óhagræði fyrir stefnanda, þ. á.m. með tilliti til stöðu hans, starfsemi og fjárhags.  Stefndi telur það ósannað og í öllu falli vanreifað af hálfu stefnanda.  Telur stefndi þetta atriði leiða til sýknu af kröfum stefnanda.

                Í þessu sambandi byggir stefndi einnig á því að á engan hátt megi líta svo á að jafna megi viðbótarkröfu stefnda á hendur stefnanda, sem að mati stefnda telst vera stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, til þess óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 50/2013.

                Stefndi telur stefnanda vera stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og raunar í hópi stærstu fyrirtækja landsins.  Vísar stefndi þeirri staðhæfingu sinni til stuðnings til ársreikninga félagsins sem liggja fyrir í gögnum málsins.  Til samanburðar, hvað varðar fjárhagsstöðu fyrirtækja, vísar stefndi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 50/2013, nr. 544/2013 og nr. 430/2013, þar sem undantekning varðandi heimild til að hafa uppi viðbótarkröfu hafi verið talin eiga við.  Staða aðila í nefndum dómum sé á engan hátt samanburðarhæf við umsvif og fjárhagsstöðu stefnanda, sem teljist margföld í þeim samanburði.  Stefndi telur því fullyrðingu stefnanda um að fyrirtækið sé hvorki millistórt né stórt félag, beinlínis ranga.

                Stefndi vísar til þess að í ljósi stærðar sinnar hafi stefnandi verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamningsins og jafnframt hefði hann haft brýnt tilefni til að leita sér allrar nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina.  Ósannað sé annað en að stefnandi hafi á grundvelli umsvifa sinna og stærðar átt kost á því að gera athugasemdir við gagnkvæma lánsskilmála.  Hafi því ekki verið um að ræða yfirburðarstöðu annars aðila í samningssambandinu að því er það varðar.  Af hálfu stefnda er á því byggt að undantekning frá heimild til að beina viðbótarkröfu að skuldara sem telst hafa vangreitt skuld sína eigi alls ekki við um svo fjárhagslega sterka og umsvifamikla aðila sem stefnandi sé.  Þá er og vísað til þess að sanngirnissjónarmið geti ekki leitt til slíkrar niðurstöðu.

                Af hálfu stefnda er því og mótmælt að slík festa hafi verið komin á skuldasamband aðila að réttlætt væri að vikið yrði frá meginreglunni, enda m.a. um stakar lánveitingar að ræða.

                Stefndi telur málsástæður stefnanda þess efnis að máli kunni að skipta í þessu sambandi, þ.e. við mat á því hvort kröfuhafi komi fram kröfu sinni um frekari greiðslu, „hvert sé umfang viðbótarkröfunnar“ og að „umfang málsins í heild og þar með ætlaðrar viðbótarkröfu [séu] augljóslega verulegt hvort sem hún er miðuð við upphaflegan höfuðstól eða greidda vexti, heildartekjur stefnanda, veltu eða annað“, vanreifaðar.  Í engu sé getið neinna sjónarmiða um hver ætluð viðbótarkrafa sé í fjárhæðum talið, hver hún teljist vera miðað við þau atriði sem nefnd eru til samanburðar eða hvaða þýðingu fjárhæð hennar hafi sem slík við umræddar aðstæður.

                Stefndi bendir á að aðilar hafi samið sérstaklega um REIBOR-vexti vegna lána í íslenskum krónum, en LIBOR-vexti vegna erlendra lána, og að ákvæði 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 hafi að sönnu verið í gildi á því tímabili þegar greiðslur stefnanda áttu sér stað, þó svo að sá þáttur skuldarinnar sem ótvírætt hafi verið forsenda vaxtanna, þ.e. lánsmyntin, hafi átt eftir að sæta endurskoðun.  Vegna samhengis mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar hafi stefnandi ekki getað verið í góðri trú um að vextir teldust endanlega greiddir.

                Stefndi vísar til þess að við heildarmat á aðstæðum öllum skipti meginmáli hvert raunverulegt óhagræði stefnanda hafi verið af viðbótargreiðslu.  Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi þegar greitt að fullu umrædd lán og að líta beri til þess við mat á því hvort viðbótarkrafa teljist íþyngjandi fyrir stefnanda.  Í öllu falli sé ljóst að krafa stefnanda um endurgreiðslu verði ekki réttlætt með því að krafa um vexti á grundvelli REIBOR-vaxta, eða á grundvelli 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sé nú svo íþyngjandi að henni hafi ekki mátt eða megi ekki nú beina að stefnanda samhliða kröfu hans um endurgreiðslu meintrar ólögmætrar gengisbindingar.

                Telur stefndi að því fari fjarri að skilyrði séu uppfyllt til að víkja frá téðri meginreglu kröfuréttar.  Alltént verði stefnandi, sem beri fyrir sig undantekningu frá meginreglunni, að bera þá byrði að sanna slíkt og jafnframt bera halla af hvers konar vafa í því tilliti. 

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, svo og meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og takmörk endurheimturéttar.  Jafnframt byggir stefndi á meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa á viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð vegna þess sem vangreitt telst.  Þá byggir stefndi á lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001, eftir því sem við geti átt.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Í máli þessu deila aðilar um það hvort skuldbinding stefnanda á grundvelli viðskiptasamnings nr. 7042, upphaflega gerður milli stefnanda og Landsbanka íslands hf., dagsettur 15. febrúar 2007, sé í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og hvort stefnandi eigi sökum þessa endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna þeirra ofgreiðslna sem hann telur sig hafa innt af hendi.  Ágreiningslaust er að kröfum í málinu er réttilega beint að stefnda sem tók við framangreindum samningi á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

                Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um samning þann sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

                Meginefni umdeilds samnings og skuldbindinga sem reistar voru á honum er lýst hér að framan.  Eins og þar kemur fram var samningur þessi um svokallaða reikningslánalínu, þar sem stefnanda var veitt heimild til að taka lán hjá bankanum í öllum algengum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með upp að tiltekinni fjárhæð sem í samningnum er tilgreind í íslenskum krónum.  Hvorki var í samningnum að finna yfirlýsingu stefnanda að hann stæði í skuld við bankann né að hann myndaði kröfuréttindi bankans á hendur stefnanda, heldur setti samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli þeirra með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu.  Fólust því lánssamningar í beiðnum stefnanda, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lána.  Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang viðskiptanna hafi verið afmarkaður í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum. 

Í samningnum sjálfum er ekki tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánið eigi að vera en skírskotað til þess að lántaka sé heimilt að taka lán hjá bankanum í öllum algengum erlendum gjaldmiðlum og að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán og skírskotað til óska lántaka með hverri ádráttarbeiðni í hvaða gjaldmiðli lánið eigi að vera.  Þá var í viðaukum við samninginn gerðum í október 2008 stefnanda jafnframt veitt heimild til að óska eftir láni í íslenskum krónum. 

Í 4. kafla lánasamningsins eru ákvæði um tilhögun lána sem dregin skyldu á lánalínu bankans.  Fór það þannig fram að stefnandi undirritaði lánsbeiðni með greiðslufyrirmælum þar sem fram kom fullt nafn og kennitala lántaka, lántökudagur lánshlutans, mynt og upphæð, vaxtakjör og gjalddagi, skuldfærslureikningur, undirskrift og staðfesting lántaka.  Þegar lánsbeiðni barst stefnda skyldi kannað hvort lánsbeiðnir uppfylltu önnur skilyrði samningsins og ef svo var skyldi samdægurs, af hálfu forsvarsmanns stefnda, senda stefnanda staðfestingu á lántökunni.  Jafnframt skyldi stefnandi tafarlaust gera athugasemdir við staðfestingu bankans ef einhverjar slíkar væru en ellegar undirrita hana.

Fyrir liggur að samkvæmt lánsbeiðnum voru lánin ýmist í íslenskum krónum og þá með REIBOR-vaxtakjörum eða Bandaríkjadölum og þá með LIBOR-vaxtakjörum. 

Óumdeilt er að stefndi hefur endurreiknað sex lán sem stefnandi tók á grundvelli lánsheimildar umdeilds samnings, þar sem fallist var á að um ólögmæta gengistryggingu hefði verið að ræða.  Stefndi endurreiknaði lánin sem voru haldin ólögmætri gengistryggingu að teknu tilliti til þess að þau bæru vexti skv. 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 en af því leiðir þá þegar, að stefnandi á ekki kröfu á hendur stefnda vegna ofgreiðslu hinna ólögmætu gengislána sem þó áttu sér stað í máli þessu.

Samkvæmt framlögðum lánsbeiðnum, undirrituðum af stefnanda, óskaði hann eftir að lánum í Bandaríkjadölum, án þess að tilgreina fjárhæðina í íslenskum krónum, og var lánsfjárhæðum ráðstafað inn á gjaldeyrisreikning stefnanda í þeirri mynt.  Skipti því fé í erlendum gjaldmiðlum um hendur þegar stefndi efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum. 

Í grein 7.1 í samningnum sagði að lánið bæri að endurgreiða í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga en lántaka væri þó heimilt að greiða í lántökumyntum.  Þá var bankanum heimilt að ráðstafa innstæðu af íslenskum reikningi stefnanda til greiðslu á lánshlutunum samkvæmt samningnum.  Samkvæmt framlögðum kaupnótum endurgreiddi stefnandi lánið að mestu leyti í Bandaríkjadölum, en samkvæmt þeim sést að lánin voru ýmist uppreiknuð miðað við gengi Bandaríkjadals á lánstíma og endurgreidd í samræmi við það, eða endurgreidd í sömu mynt.  Þá samræmist ákvæði samningsins um LIBOR-vexti því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum, sem og ákvæði í viðauka um að REIBOR-vextir skyldu gilda hvað varðaði ádrætti á lánlínuna í íslenskri mynt en sérstök tilgreining vaxtakjara með þeim hætti bendir ótvírætt til þess að aðilar hafi gert greinarmun á lánum sem dregin voru á lánalínu stefnda, eftir því hvort um var að ræða erlenda mynt eða íslenska.  Loks verður ekki litið fram hjá því að stefnandi átti gjaldeyrisreikning hjá stefnda í umræddum gjaldmiðli og færði af þeim reikningi endurgreiðslu inn á lánalínu bankans í kjölfar hvers ádráttar, í samræmi við samning aðila.

                Þegar framangreint er virt verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum og að umdeildir lánshlutar hafi verið lán í erlendum myntum.  Þá er með öllu ósannað að stefndi hafi síðar viðurkennt að umdeildar lánveitingar væru í íslenskum krónum verðtryggðar með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.  Umdeild lán teljast því hafa verið í erlendum gjaldmiðlum og samkvæmt því verður stefndi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dæmda stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 900.000 krónur. 

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Atlantsolíu ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.