Hæstiréttur íslands
Mál nr. 134/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 13. mars
2012. |
|
Nr. 134/2012. |
A (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn B C og D (Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Úrskurður
héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði, á grundvelli a. og b. liðar 4. gr.
lögræðislaga nr. 71/1997, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón
Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2012, sem barst héraðsdómi
degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. mars sama ár. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2012, þar sem sóknaraðili var
sviptur sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá
krefst hann þóknunar úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðilar
krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði,
sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga.
Með
vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að uppfyllt séu
skilyrði a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga fyrir sviptingu sjálfræðis
sóknaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Allur
kostnaður af meðferð málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1.
mgr. 17. gr. lögræðislaga, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og
talsmanns varnaraðila, sem ákveðin verður í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er staðfestur.
Allur
kostnaður af meðferð málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með
talin þóknun Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda
sóknaraðila, A og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs
talsmanns varnaraðila, B, C og D, 200.000 krónur til hvors um sig.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
9. febrúar 2012.
Með beiðni, sem dagsett er 3. þ.m., hefur Guðrún Björg
Birgisdóttir hrl. krafist þess fyrir hönd sóknaraðila, B, kt.
[...], C, kt. [...], og D, kt.
[...], að faðir þeirra, A, kt. [...], vistmaður á
heilabilunardeild Landkotsspítala, en til lögheimilis á [...], [...], verði
sviptur sjálfræði svo hægt sé að veita honum læknisþjónustu vegna
heilabilunar. Kröfunni er mótmælt.
Um aðild vísast til a-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga
nr. 71, 1997.
Fyrir liggur að varnaraðili var sviptur fjárræði með
úrskurði héraðsdóm Reykjavíkur 9. fm. Í málinu er staðfest vottorð Jóns
Snædal yfirlæknis á heilabilunardeild Landspítala, dagsett 19. fm. þar sem
segir að varnaraðili sé haldinn heilabilun sem stafi af langvinnri og þungri
áfengisneyslu. Einkennist heilabilun hans af miklu innsæis- og
dómgreindarleysi, íspuna og töluverðu
minnisleysi. Þá sjái hann vegna innsæisleysis ekkert því til fyrirstöðu
að neyta áfengis þrátt fyrir heilsutjónið sem áfengisneysla hefur valdið
honum. Í vottorði læknisins um heilsu varnaraðila sem fjárræðissviptingin
var byggð á segir jafnframt að varnaraðili sé sér ekki meðvitaður um það að
hann er ófær um að halda heimili og um persónulega umhirðu. Varnaraðili
hefur komið fyrir dóm og er framganga hans mjög í samræmi við það sem segir í
læknisvottorðunum. Sonur varnaraðila hefur komið fyrir dóm og borið um
hagi og heilsu varnaraðila. Er sá framburður allur á sama veg.
Dómurinn álítur vafalaust af því sem rakið er hér að
framan að varnaraðili sé vegna heilabilunar alls ófær um að ráða persónulegum
högum sínum og að nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði til þess að veita
honum læknisþjónustu. Ber því að taka kröfu sóknaraðila til greina og
ákveða að hann skuli vera sviptur sjálfræði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr
ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna,
Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur og Páls Arnórs Pálssonar,
hæstaréttarlögmanna, 150.000 krónur til hvors um sig.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt.
[...], vistmaður á Landakotsspítala við Túngötu, Reykjavík er sviptur
sjálfræði.
Kostnaður af málinu þ.m.t. þóknun til
talsmanna aðilanna, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur og Páls Arnórs Pálssonar,
hæstaréttarlögmanna, 150.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.