Hæstiréttur íslands
Mál nr. 645/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Sveitarfélög
- Börn
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 20. september 2012. |
|
Nr. 645/2011.
|
Sigríður Egilsdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Kópavogsbæ (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Sveitarfélög. Börn. Gjafsókn.
S krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu K vegna líkamstjóns er hún varð fyrir í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi við skólann B. Byggði S annars vegar á því að tjón hennar væri að rekja til ónægrar gæslu starfsmanna í B með A þegar tjónsatburðurinn varð og hins vegar að bótaréttur hennar yrði reistur á ákvæði í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga fyrir hönd K og starfsmannafélags K. Með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu að ekki væri fram komið í málinu að starfsmenn B hafi í umrætt sinn vanrækt umsjónarskyldur sínar með A með þeim hætti að til bótaskyldu gæti leitt fyrir K. Þá var ekki talið að ákvæði í kjarasamningi mælti fyrir um bótarétt sveitarfélags þegar starfsmaður þess yrði fyrir líkamstjóni vegna háttsemi barns sem sökum æsku gæti ekki borið skaðabótaábyrgð á því. Staðfesti því Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2011. Hún krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns er hún varð fyrir 5. maí 2008 í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi í B-skóla í Kópavogi „vegna árásar“ A. Verði stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda gerir hún til vara sömu kröfu á hendur A. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var A sýknaður af kröfu áfrýjanda í málinu. Honum var ekki birt áfrýjunarstefna og kemur héraðsdómur því ekki til endurskoðunar gagnvart honum.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er á það fallist að skilyrði hafi verið til að höfða mál þetta sem viðurkenningarmál. Af gögnum málsins verður með vissu ráðið að hagsmunir þeir sem áfrýjandi leitar dómsviðurkenningar um svara til áfrýjunarfjárhæðar, sbr. 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er og með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að ekki hafi þýðingu við úrlausn málsins að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Eins og fram kemur í héraðsdómi reisir áfrýjandi viðurkenningarkröfu sína á hendur stefnda á því annars vegar, að líkamstjón það er hún varð fyrir 5. maí 2008 sé að rekja til ónógrar gæslu starfsmanna B-skóla í Kópavogi með A þegar tjónsatburðurinn varð, og hins vegar að bótaréttur hennar verði reistur á grein 7.4.1. í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs sem gildi tók 1. júní 2005. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að ekki sé fram komið í málinu að starfsmenn B-skóla hafi umrætt sinn vanrækt umsjónarskyldur sínar með drengnum með þeim hætti að til bótaskyldu geti leitt fyrir stefnda. Í héraðsdómi er tekinn upp texti greinar 7.4.1. í nefndum kjarasamningi. Þegar virt er efni og orðalag samningsákvæðisins verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki verði séð að ákvæðið mæli fyrir um bótarétt sveitarfélags þegar starfsmaður þess verður fyrir líkamstjóni vegna háttsemi barns sem sökum æsku getur ekki borið skaðabótaábyrgð á því.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af viðurkenningarkröfu áfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði og verður ákveðinn eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Kópavogsbæjar, af viðurkenningarkröfu áfrýjanda, Sigríðar Egilsdóttur.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 13. f.m., er höfðað 11. og 15. janúar 2011 af Sigríði Egilsdóttur, [...] í [...], gegn Kópavogsbæ, Fannborg 2 í Kópavogi, og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík. Til vara er málið höfðað á hendur A, [...] í [...].
Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda Kópavogsbæjar vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir 5. maí 2008 í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi í B-skóla í Kópavogi „vegna árásar A“.
Verði stefndi Kópavogsbær sýknaður af kröfu stefnanda krefst hún þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda varastefnda A vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í greint sinn.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins 21. september 2010.
Stefndi Kópavogsbær krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
Varastefndi, sem er ólögráða vegna æsku, hefur ekki látið málið til sín taka, en móður hans, C, var stefnt sem fyrirsvarsmanni hans.
I
Málsatvik eru þau að frá árinu 2003 og fram til 5. maí 2008 starfaði stefnandi sem stuðningsfulltrúi í B-skóla í Kópavogsbæ, en það er grunnskóli sem starfræktur er af sveitarfélaginu. Samkvæmt starfslýsingu er stuðningsfulltrúi kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum, sem þurfa sérstaka aðstoð. Miðar starf stuðningsfulltrúa að því að auka færni og sjálfstæði nemanda og draga úr þörf hans á stuðningi. Felst starfið í því að hjálpa nemanda við að fylgja settum reglum um hegðun, umgengni og vinnubrögð og styðja hann í félagslegum samskiptum innan og utan kennslustofu. Þegar þörf þykir situr stuðningsfulltrúi einnig fag- og foreldrafundi, sér um móttöku og brottför nemanda, fylgir honum um skólann í frímínútum og vettvangsferðum og aðstoðar hann eftir þörfum með athafnir daglegs lífs. Að öðru leyti sinnir stuðningsfulltrúi þeim verkefnum sem yfirmaður hans felur honum í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning. Stefnandi starfaði sem stuðningsfulltrúi I (358 stig), en samkvæmt starfsskilgreiningu starfar stuðningsfulltrúi I með nemendum með einhvers konar fötlun, röskun og/eða sérþarfir samkvæmt skilgreiningu sérfræðings. Er þá miðað við að sérþarfir nemendanna séu þess eðlis að þeir þurfa sérstakan starfsmann með sér í öllu skólastarfi. Meðal verkefna stuðningsfulltrúans eru félagslegur stuðningur og þjálfun.
Um starfskjör stefnanda fór samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs sem tók gildi 1. júní 2005. Segir þar í grein 7.4.1 að starfsmaður, sem í starfi sínu sinnir einstaklingi sem að takmörkuðu eða jafnvel engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum, eigi rétt á að beina skaðabótakröfu sinni vegna líkams- eða munatjóns að launagreiðanda. Við mat og uppgjör kröfunnar gilda almennar reglur skaðabótaréttarins.
Stefnandi hefur skýrt svo frá að hinn 5. maí 2008 hafi hún setið á armlausum skrifstofustól á hjólum í sérkennslustofu í B-skóla og verið að leiðbeina nemanda. Hún hafi setið við borð og hallað sér fram í stólnum. Skyndilega hafi hún heyrt öskur og í sömu andránni hafi nemandi í skólanum, stefndi A, sem þá var á 11. aldursári, komið á mikilli ferð og kastað sér á hana og lent milli hennar og stólbaksins, þannig að höfðuð og fætur drengsins stóðu út af stólnum sitt hvoru megin. Hafi stóllinn þeyst af stað við höggið og kastast á vegg og aftur til baka frá honum. Kveðst stefnandi hafa setið á stólbrúninni þegar stóllinn stöðvaðist, en náð að grípa í borðbrúnina og komið þannig í veg fyrir að hún félli af honum. Sjónarvottar að þessu atviki hafi verið D kennari og nemandinn sem stefnandi hafi verið að sinna sem stuðningsfulltrúi þegar A kom aðvífandi. Höggið sem kom á stefnanda við þetta hafi verið talsvert, enda drengurinn stór eftir aldri og hann hafi verið með skólatösku á bakinu. Kveðst stefnandi hafa fundið fyrir þreytuverkjum í mjóbaki strax í kjölfar þessa atviks og auknum óþægindum í hálsi og herðum, en hún hafði þá um tíma glímt við vöðvabólgu í hálsi og herðum og verið til meðferðar hjá sjúkraþjálfara af þeim sökum.
A hafði verið greindur með ADHD (athyglisbrest og ofvirkni) þá er framangreint atvik átti sér stað og notið aðstoðar stuðningsfulltrúa af þeim sökum. Kveðst stefnandi stundum hafa haft umsjón með honum sem stuðningsfulltrúi í verklegum tímum, handmennt og tónmennt. Þá hafi hún líka haft drenginn í sinni umsjá í frímínútum og þá inni í sérkennslustofunni þar sem atvikið varð, en hann hafi ekki mátt vera innan um aðra nemendur úti á lóð skólans meðan á frímínútum stóð. Kveðst stefnandi telja að þetta hafi verið ástæða komu hans. Henni hafi gengið vel með drenginn þegar hann var hjá henni, en hann hafi oft verið mjög erfiður og dæmi sé um að stuðningsfulltrúi hafi gefist upp á honum.
Af hálfu stefnda Kópavogsbæjar hefur því ekki verið andmælt að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í umrætt sinn, en á meðal gagna málsins eru fjölmargar álitsgerðir sem stefnandi hefur aflað því til stuðnings, meðal annars matsgerð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum 19. október 2009, sem mat hefðbundna læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins 7%. Er þar lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða tognun í mjóbaki, hálsi og herðum og þar sem stefnandi hafi að minnsta kosti verið veik fyrir í hálsi og herðum hafi slysið haft meiri áhrif á starfsgetu hennar en tiltöluleg væg tognunareinkenni segi til um.
Stefnandi var samkvæmt kjarasamningi slysatryggð slysatryggingu launþega hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Bætti félagið slys stefnanda úr launþegatryggingunni í takt við framangreint sérfræðimat. Þá telur stefnandi sig eiga rétt til skaðabóta vegna líkamstjóns síns úr hendi stefnda Kópavogsbæjar. Á það hefur ekki verið fallist. Hefur stefnandi aðallega höfðað mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu sveitarfélagsins, en til vara er sama krafa gerð á hendur A.
II
Stefnandi byggir dómkröfu sína á hendur stefnda Kópavogsbæ á því að hún hafi slasast við vinnu sína í B-skóla í Kópavogi, sem starfræktur sé af stefnda, 5. maí 2008. Hafi hún orðið fyrir varanlegu líkamstjóni þegar nemandi, sem þurfti á sérkennslu og eftirliti að halda, hafi kastað sér á hana þar sem hún sat á stól við kennsluborð. Hafi atlagan komið stefnanda algerlega á óvart og hún verið óviðbúin henni þar sem hún hafi verið að sinna nemanda sem hún hafði fast eftirlit með sem stuðningsfulltrúi. Byggir stefnandi á því að nemandinn hafi áður verið í almennri kennslustund, en farið þaðan í fússi og án eftirlits og beint inn í sérkennslustofu þar sem stefnandi var við störf. Orsök líkamstjóns stefnanda sé ónóg aðgæsla og eftirlit með nemandanum sem tjóninu olli, en hann hafi verið greindur með ADHD (athyglisbrest og ofvirkni) og meðal annars af þeim sökum verið háður eftirliti stuðningsfulltrúa. Sé um yfirsjón í starfi og vanrækslu að ræða sem endaði hafi með því að stefnandi hlaut varanlegt líkmastjón. Stefnandi reki tjón sitt til sakar skólayfirvalda að þessu leyti. Hvernig sem á málið sé litið hafi ekki verið haft nægilegt og eðlilegt eftirlit með nemandanum af hálfu skólayfirvalda í B-skóla þegar slysið varð. Ekki hafi verið eðlilegt að nemandinn færi úr kennslustund án þess að það væri athugað nánar og haft samband við aðra stuðningsfulltrúa eða stefnandi látin vita að von væri á honum inn í sérkennslustofuna þar sem stefnandi var við vinnu og sérstaklega með hliðsjón af því að nemandinn haft þurft á sérstöku eftirliti að halda. Tiltekur stefnandi sérstaklega í þessu sambandi að nemandinn hafi ekki mátt vera úti í frímínútum með öðrum nemendum.
Viðurkenningarkröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi ennfremur til þágildandi 37. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla, sbr. reglugerð nr. 389/1996 um sérkennslu. Var í lagaákvæðinu mælt fyrir um það að börn og unglingar sem ættu erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar ættu rétt á sérstökum stuðningi í námi. Lögin féllu úr gildi 1. júlí 2008 við gildistöku grunnskólalaga nr. 91/2008, en í 17. gr. þeirra laga er mælt fyrir um sambærilega skyldu, sem þó nær að auki til nemenda með leshömlun, langveikra nemenda og annarra nemenda með heilsutengdar sérþarfir. Þá er í reglugerð um sérkennslu mælt fyrir um nánari útfærslu á skyldum skólayfirvalda sem að þessu lúta. Verður af málatilbúnaði stefnanda ráðið að af þessum réttarreglum leiði að á sveitarfélögum hvíli jafnframt ákveðnar skyldur gagnvart þeim starfsmönnum grunnskóla sem hafa kennslu eða umönnun þessara nemenda með höndum. Byggir stefnandi á að með fötlun sé einnig átt við ástand sem veldur því að nemandi nær ekki að aðlagast og mæta þeim kröfum sem venjulegar teljast án verulegrar og langvinnrar hjálpar. Vegna þessarar lagaskyldu hafi verið gripið til þess að setja þessum nemendum sérstaka stuðningsfulltrúa, bæði til að aðstoða þá og eins til að gæta þeirra gagnvart öðrum nemendum. Af þessum lagaskyldum hafi sprottið starfsstétt stuðningsfulltrúa og þeim settar ákveðnar starfsreglur. Byggir stefnandi á því að þegar hún slasaðist hafi hún sinnt starfi sínu sem stuðningsfulltrúi tiltekins nemanda. Aðrir stuðningsfulltrúar skólans hefðu þá ekki staðið sig í stykkinu varðandi eftirlit með A. Á því beri hið stefnda bæjarfélag sök, sem í því sé fólgin að yfirmaður þessarar starfsemi í skólanum hafi ekki haft nægilega stjórn á stuðningsfulltrúum skólans og starfi þeirra. Stefnandi eigi því skaðabótakröfu á hinu stefnda bæjarfélagi á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.
Loks byggir stefnandi viðurkenningarkröfu sína á grein 7.4.1 í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs, sem áður er getið. Um starfskjör stefnanda hjá stefnda hafi farið samkvæmt þessum kjarasamningi. Í tilvitnuðu ákvæði felist viðurkenning hins stefnda sveitarfélags á því að líkamstjón sem þeir nemendur, sem að takmörkuðu leyti geta borið ábyrgð á gerðum sínum, skuli bætt af því samkvæmt skaðabótalögum. Þeir sem greindir hafa verið með ADHD falli undir ákvæðið. Geti bæjarfélagið ekki undanskilið sig ábyrgð af þeim sökum að nemandinn hafi ekki ráðist á stuðningsfulltrúa sem sinnti honum eingöngu heldur stuðningsfulltrúa sem sinnti honum við ákveðnar aðstæður sem ekki hefðu verið fyrir hendi þá er slysið varð. Byggir stefnandi á því að í téðu kjarasamningsákvæði sé ekki tekið skýrt fram við hvaða aðstæður það eigi við. Eigi réttarstaða hennar eða starfskjör að þessu leyti ekki að vera lakari en ef hún hefði sinnt A sem sérstakur stuðningsfulltrúi hans. Vísar stefnandi þessu sjónarmiði til stuðnings til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega. Einnig byggir stefnandi á því í þessu sambandi að hún hafi í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi oft verið látin hafa umsjón með A, eins og rakið hefur verið. Þetta staðfesti að skólayfirvöld hafi litið svo á að þessi tiltekni nemandi hafi að takmörkuðu leyti getað borið ábyrgð á gerðum sínum því að öðrum kosti hefði ekki verið þörf á slíku liðsinni. Falli því tjónsatburðurinn undir ofangreint kjarasamningsákvæði.
Þá teflir stefnandi fram þeirri málsástæðu til stuðnings viðurkenningarkröfu sinni að málið hafi ekki verið rannsakað strax eftir slysið, en af því leiði að stefndi verði að bera hallann af því að viðhlítandi upplýsingar um tjónsatvik liggi ekki fyrir. Það segi sig sjálft að málið væri mun betur upplýst ef það hefði verið rannsakað strax í kjölfar slyssins. Bendir stefnandi í þessu sambandi á að slysið hafi ekki verið tilkynnt til vinnueftirlitsins svo sem 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveður á um og það hafi því ekki verið rannsakað með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 81. gr. laganna.
Kröfu sína á hendur varastefnda A byggir stefnandi á því að hann hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi valdið stefnanda líkamstjóni í umrætt sinn. Hafi honum í öllu falli mátt vera ljóst að hætta gæti skapast af þeirri háttsemi hans að stökkva á stefnanda með þeim hætti sem hann gerði. Hafi þessar athafnir hans verið í andstöðu við hegðun góðs og gegns nemanda. Beri varastefndi því ábyrgð á öllu því líkamstjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir og hlaust hafi hinni saknæmu hegðun hvort sem rekja megi það til ásetnings eða gáleysis. Skilyrði sakarreglunnar séu hér uppfyllt, enda hafi atlagan verið með öllu tilefnislaus.
Um lagarök fyrir kröfum sínum í málinu skírskotar stefnandi til sakareglunnar og þeirrar rýmkunar á henni sem talin er eiga við þegar vinnuaðstæður eru hættulegar. Þá vísar stefnandi ennfremur til vinnuveitandaábyrgðar hins opinbera og í því sambandi til reglunnar um uppsöfnuð mistök eða uppsafnað saknæmi. Loks vísar stefnandi til ábyrgðarreglna sem tengjast eftirliti með börnum. Um lagastoð fyrir heimild til að afla eingöngu viðurkenningar á bótaskyldu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um varaaðild til 2. mgr. 19. gr.sömu laga og um málskostnað til 130. gr. þeirra.
III
Af hálfu stefnda Kópavogsbæjar er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda andmælt.
Sýknukrafa stefnda er annars vegar byggð á því að stefndi Kópavogsbær eða starfsmenn hans eigi enga sök á líkamstjóni stefnanda. Því til stuðnings er bent á eftirfarandi.
Sveitarfélög beri ekki að skaðabótarétti bótaábyrgð gagnvart kennurum vegna háttsemi nemenda í almennum grunnskólum eins og B-skóla. Grunnskólabörn teljist ekki hættuleg kennurum og eigi það jafnt við þótt einstök börn eigi við einhverja erfiðleika að stríða eins og ADHD, sem einkum lýsi sér í einbeitingarskorti, gleymsku, hreyfióróleika og hvatvísi hjá viðkomandi börnum. Komi hreyfióróleiki þannig fram að börnin eigi erfitt með að sitja kyrr, en hvatvísi þannig að þau eigi erfitt með að bíða, þau grípi inn í hjá öðrum og framkvæmi hluti án umhugsunar. Um árásargirni eða ofbeldisfýsn sé hins vegar ekki að ræða eða geðveiki þannig að börnin séu stjórnlaus og óábyrg gerða sinna. Þurfi stjórnendur og starfslið grunnskóla því ekki að reikna með því í skólastarfinu að nauðsynlegt sé að vernda kennara eða stuðningsfulltrúa fyrir nemendum skólanna þó einhverjir nemendur eigi við hegðunarvandamál að stríða eða þeir hafi greinst með ADHD. Ekki sé rétt hjá stefnanda að í kjarasamningsákvæði því sem hún vísar meðal annars til í málatilbúnaði sínum felist viðurkenning stefnda á því að hætta stafi af nemendum sem að takmörkuðu leyti geta borið ábyrgð á gerðum sínum og að nemendur með ADHD falli þar undir. Börn sem greinst hafa með ADHD séu ekki hættuleg kennurum né ábyrgðarlaus á gerðum símum.
Drengurinn A var aðeins 10 ára að aldri þegar umrætt óhapp átti sér stað. Sé það röng og ósönnuð staðhæfing af hálfu stefnanda að saknæm vöntun hafi verið á stjórn á starfi stuðningsfulltrúa í B-skóla varðandi umsjón og eftirlit með drengnum. Ekkert bendi til þess að hann hafi verið stuðningsfulltrúum eða öðrum hættulegur eða verið stjórnlaus á geði og ekki ábyrgur gerða sinna þannig að hann hafi ekki eitt augnablik mátt vera án eftirlits kennara eða stuðningsfulltrúa vegna hættu á því að hann gæti þá valdið öðrum skaða. Þannig sé það ekki saknæmt þótt kennari eða stuðningsfulltrúi hafi ekki fylgt drengnum út úr kennslustofu og inn í sérkennslustofuna þar sem óhappið varð. Það sé einnig ósaknæmt þótt kennari eða stuðningsfulltrúi drengsins léti ekki aðra stuðningsfulltrúa eða stefnanda vita um brottför drengsins úr kennslustofunni. Ekkert bendi til þess að það hafi verið nauðsynlegt til að afstýra því að drengurinn ylli öðrum skaða eða slíkt verið fyrirsjáanlegt. Hafi slys það sem stefnandi varð fyrir verið eins og hvert annað óhapp sem stundum getur hent í skólum vegna ærsla eða hvatvísi skólabarns. Ógerningur sé að fyrirbyggja slíkt. Við stefnda Kópavogsbæ eða stjórnendur, kennara, stuðningsfulltrúa og annað starfslið B-skóla sé því ekki að sakast.
Í annan stað er sýknukrafa stefnda byggð á því að stefnandi eigi ekki skaðabótarétt úr hendi stefnda á grundvelli greinar 7.4.1 í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs sem tók gildi 1. júní 2005. Því til stuðnings er í fyrsta lagi bent á að af texta samningsákvæðisins sé ljóst að það feli ekki í sér hlutlæga samningsbundna skaðabótaábyrgð stefnda á tjóni starfsmanns, heldur gildi almennar reglur skaðabótaréttarins um bótaskylduna. Þá sé það skilyrði þess að bótaréttur stofnist að tjónvaldurinn hafi að takmörkuðu eða engu leyti getað borið ábyrgð á gerðum sínum og starfsmaðurinn verið að sinna honum er tjónið varð. Þessi skilyrði séu ekki uppfyllt í þessu máli. Þó drengurinn A hafi verið greindur með ADHD (athyglisbrest og ofvirkni) felist ekki í því að hann hafi að takmörkuðu eða engu leyti getað borið ábyrgð á gerðum sínum. Sé slíkur brestur ekki einkenni á ADHD eða hluti af skilgreiningu á þeirri röskun sem þeir er greinst hafa með ADHD búa við. Ekkert liggi heldur fyrir um það að drengurinn hafi að takmörkuðu eða engu leyti getað borðið ábyrgð á gerðum sínum þegar óhappið varð og það valdið tjóni stefnanda. Verði bótaábyrgð stefnda Kópavogsbæjar þegar af þeirri ástæðu ekki byggð á tilvitnuðu kjarasamningsákvæði. Skilyrði ákvæðisins um að tjónþoli hafi verið að sinna tjónvaldinum í starfi sínu þegar tjónið varð sé heldur ekki uppfyllt í tilviki stefnanda. Hafi stefnandi ekki verið að sinna A á þeirri stundu sem slysið varð, heldur öðrum nemanda. Verði bótaábyrgð stefnda einnig af þeirri ástæðu ekki byggð á kjarasamningsákvæðinu.
IV
Svo sem fram er komið höfðar stefnandi mál þetta sem viðurkenningarmál. Heimild til þess er í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felst og hver tengsl þess séu við atvik máls. Telja verður að stefnandi hafi fullnægt þessum skilyrðum.
Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um skyldu vinnuveitanda til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar var þessari skyldu ekki sinnt. Það hefur á hinn bóginn ekki leitt til þess að þau atvik sem varða tjónsatburðinn sjálfan séu óljós og umdeild. Af því leiðir að vöntun á tilkynningu getur enga þýðingu haft við úrlausn málsins.
A var nýorðinn 10 ára þegar stefnandi varð fyrir því líkamstjóni sem krafa hennar um viðurkenningu á bótaskyldu tekur til. Drengurinn hafði þá af barna- og unglingageðlækni verið greindur með ADHD, sem er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir „Attention Deficit Hyperactivity Disorder“. Er í sem skemmstu máli um að ræða röskun á taugaþroska sem á sér líffræðilegar orsakir og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Einkenni þessarar röskunar hjá börnum koma fram á þremur meginsviðum. Í fyrsta lagi er það athyglisbrestur sem birtist meðal annars í því að barn á erfitt með að skipuleggja verkefni og viðhalda einbeitingu að viðfangsefnum. Í öðru lagi getur verið um að ræða hreyfióróleika sem lýsir sér þannig að barnið á erfitt með að sitja kyrrt, það iðar í sæti og er fiktið og stöðugt á ferðinni. Í þriðja lagi geta einkenni þessarar röskunar komið fram í hvatvísi þannig að barnið á erfitt með að bíða, það grípur fram í og ryðst inn í leik og samræður annarra. Er þá hætt við að það framkvæmi eða geri hluti án þess að hugsa um afleiðingar gerða sinna. Þessi einkenni geta verið mismunandi og mismikil hjá ólíkum einstaklingum og breytileg eftir aldri. Eftir samsetningu einkenna er ADHD skipt í þrjár gerðir. Í fyrsta lagi ADHD með ráðandi athyglisbrest, í öðru lagi ADHA með ráðandi ofvirkni og hvatvísi og í þriðja lagi blandaða gerð, þar sem bæði athyglisbrestur og ofvirkni/hvatvísi eru til staðar. Loks má nefna að ýmsar fylgiraskanir eru algengar hjá börnum og unglingum með ADHD. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvern af ofangreindum undirflokkum ADHD A greindist með og hvort einhverjar fylgiraskanir hafi verið fyrir hendi hjá honum.
Skólaárið 2007-2008 munu fimm stuðningsfulltrúar hafa starfað við B-skóla í Kópavogi. Því er áður lýst í meginatriðum í hverju verkefni þeirra fólust. Einn þeirra, E, bar fyrir dómi að hún hafi verið stuðningsfulltrúi A, en ekki hafi þó verið talin þörf á að stuðningsfulltrúi fylgdi drengnum eftir í öllu skólastarfi. Þá kom fram hjá E að hann hafi jafnan dvalið í sérkennslustofu í frímínútum þar sem hann hafi ekki treyst sér til að vera í hópi skólabarna úti á skólalóðinni. Stuðningsfulltrúar við skólann hafi skipst á um að hafa eftirlit með drengnum og fleiri nemendum inni í sérkennslustofu meðan á frímínútum stóð og hafi stefnandi sinnt því starfi með sama hætti og aðrir stuðningsfulltrúar, en hún hafi ekki komið að stuðningi við drenginn umfram það.
Viðurkenningarkrafa stefnanda á hendur stefnda Kópavogsbæ er annars vegar byggð á því að eftirliti með A meðan á skólatíma stóð hafi af tilgreindum ástæðum verið ábótavant og þar sé við samstarfsmenn hennar í B-skóla og skólayfirvöld í Kópavogi að sakast. Hafi verið um saknæma vanrækslu eða yfirsjón að ræða sem leitt hafi til þess að hún varð fyrir líkamstjóni og það verði þannig rakið til sakar af hálfu vinnuveitanda hennar eða starfsmanna hans. Að mati dómsins eru engin efni til að fallast á þessa málsástæðu stefnanda. Því fer þannig víðsfjarri að eitthvað það sé fram komið í málinu sem gefur ástæðu til að ætla að slík hætta hafi stafað af drengnum að sérstök þörf hafi verið á frekari tilsjón með honum en ákveðin hafði verið. Óháð þessu liggur heldur ekkert fyrir sem metið verður á þann veg að starfsmenn skólans hafi með einum eða öðrum hætti vanrækt umsjónarskyldur sínar með drengnum í aðdraganda slyssins.
Að framangreindri málsástæðu frágenginni stendur eftir gagnvart stefnda Kópavogsbæ að taka afstöðu til þess hvort grundvalla megi bótaskyldu sveitarfélagsins á grein 7.4.1 í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs, sem tók gildi 1. júní 2005. Grein 7 í kjarasamningnum hefur síðan staðið óhögguð. Ber hún yfirskriftina „Tryggingar“ og tekur til slysatrygginga (7.1), farangurstrygginga (7.2), tjóns á persónulegum munum (7.3) og skaðabótakrafna (7.4). Grein 7.4.1 hljóðar svo: „Starfsmaður sem í starfi sínu sinnir einstaklingi sem að takmörkuðu eða jafnvel engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum, á rétt á að beina skaðabótakröfu sinni vegna líkams- eða munatjóns að launagreiðanda. Við mat og uppgjör kröfunnar gilda almennar reglur skaðabótaréttarins.“ Í sérstakri bókun við núgildandi kjarasamning er að þessu ákvæði vikið og tekið fram að hluti af starfsskyldum þeirra starfsmanna, sem sinna eða hafa afskipti af fólki sem að takmörkuðu eða engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum, geti falist í því að grípa inn í erfiðar aðstæður þar sem slíkt verði ekki gert án þess að viðkomandi starfsmaður setji sjálfan sig í ákveðna hættu á því að slasast við framkvæmd starfs síns. Rétt þyki að tryggja rétt þessara starfsmanna vegna tjóns sem þeir geti þannig orðið fyrir. Telja verður að í bókuninni sé lýst viðhorfum sem upphaflega hafi ráðið því að ákvæðið var tekið inn í kjarasamninga og því megi við úrlausn málsins líta til hennar þegar leitast er við að afmarka gildissvið þess, en aðrar upplýsingar þar um liggja ekki fyrir.
Ljóst þykir að kjarasamningsákvæðið nær til þess þegar tjón verður rakið til háttsemi einstaklings, eftir atvikum barns, sem sökum ástands síns getur að takmörkuðu eða engu leyti stjórnað gerðum sínum. Þegar það sem rakið hefur verið hér að framan er virt fær það á hinn bóginn ekki staðist að tilgangur ákvæðisins geti verið sá að mæla fyrir um bótaskyldu sveitarfélags þegar starfsmaður þess verður fyrir tjóni vegna háttsemi barns sem sökum æsku sinnar getur ekki borið skaðabótaábyrgð á því, enda er sú hætta á tjóni sem ljóslega liggur ákvæðinu til grundvallar þá ekki fyrir hendi. Með vísan til þessa og þar sem ekkert bendir til þess að þannig sé ástatt um A sem samkvæmt þessu er áskilið kemur ekki til álita að fella bótaskyldu vegna tjóns stefnanda á stefnda Kópavogsbæ á grundvelli tilvitnaðs kjarasamningsákvæðis.
Samkvæmt framansögðu er aðalstefndi Kópavogsbær alfarið sýknaður af kröfum stefnanda.
Svo sem fram er komið hefur ekki verið tekið til varna í málinu af hálfu varastefnda A. Ber samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að leggja dóm á málið að því er hann varðar eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem samrýmanlegt er framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varði frávísun þess án kröfu. Að auki ber dómara að kanna hvort lagastoð sé fyrir kröfum stefnanda.
Leggja verður frásögn stefnanda af háttsemi drengsins í umrætt sinn til grundvallar þegar afstaða er tekin til mögulegrar bótaskyldu hans, en hún er áður rakin. Drengurinn var, svo sem áður er getið, nýorðinn 10 ára þegar atvikið átti sér stað. Við mat á því hvort um saknæma háttsemi af hans hálfu hafi verið að ræða ber að taka mið af því hvort venjulegt barn á sama aldri hefði verið líklegt til þess að skilja að háttsemin væri hættuleg og að líkamstjón gæti af henni hlotist. Er það niðurstaða dómsins að á grundvelli slíks mats sé í öllu falli varhugavert að slá því föstu að drengurinn hafi mátt gera sér grein fyrir því að slíkar afleiðingar hlytust af háttsemi hans. Þykir að þessu virtu skorta lagagrundvöll fyrir því að bótaábyrgð verði lögð á drenginn. Er hann því einnig sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 690.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts og endurgjald fyrir hverja klukkustund ákveðið í samræmi við tilkynningu dómstólaráðs nr. 5/2009 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstóla, meðal annars um þóknun til lögmanns í gjafsóknarmáli, sbr. dómur Hæstaréttar frá 7. september 2011 í máli nr. 470/2011. Það athugist jafnframt að gjafsókn er samkvæmt gjafsóknarleyfi takmörkuð við réttargjöld og þóknun lögmanns.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri dæmir mál þetta ásamt meðdómsmönnunum Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara og dr. Gyðu Haraldsdóttur sálfræðingi.
D ó m s o r ð :
Aðalstefndi, Kópavogsbær, og varastefndi, A, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Sigríðar Egilsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 690.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en auk hennar nær gjafsóknin til réttargjalda.