Hæstiréttur íslands

Mál nr. 851/2017

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Lögregla
  • Handtaka
  • Ómerking héraðsdóms

Reifun

Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í á því líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að A hefði verið í geðrofsástandi umrætt sinn og gæti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem hann hefði komið sér í það ástand að hann gerði sér ekki grein fyrir gjörðum sínum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þessi niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður hefði verið sérfróðum meðdómsmönnum, hefði leitt til þess að þar hefði í engu verið fjallað um hvort orsakatengsl hefðu verið á milli líkamstjóns A og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Af þessum sökum var talið óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á því varanlega líkamstjóni sem hann kveðst hafa orðið fyrir 11. maí 2010 af völdum lögreglu við handtöku. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram var áfrýjandi, sem þá var í alvarlegu andlegu ástandi, handtekinn 11. maí 2010. Við handtökuna var hann staddur í sturtuklefa í baðherbergi á heimili nafngreinds manns í Kópavogi. Áfrýjandi virðist ekki hafa áttað sig á nærveru eða heyrt í lögreglumönnum er þeir reyndu að telja hann á að koma úr sturtunni og brugðist ókvæða við og brotist um er lögregla hugðist leiða hann þaðan. Hafi lögregla þá brugðið á það ráð að taka áfrýjanda tökum, færa hann í handjárn, leggja hann á gólfið og bensla fætur hans. Nær jafnskjótt hafi áfrýjandi fengið krampa, kastað upp og fengið hjartastopp. Lögregla og sjúkralið, sem þá var komið á vettvang, hafi hafið lífgunartilraunir og náð að endurlífga áfrýjanda. Af gögnum málsins verður ráðið að hjartastopp áfrýjanda hafi varað í 20-25 mínútur. Varð áfrýjandi fyrir varanlegu og stórfelldu heilsutjóni af völdum þess.

Stefndi gerir ekki athugasemd við þá málsástæðu áfrýjanda að handtaka lögreglu hafi farið fram á grundvelli XIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með málsókn þessari freistar áfrýjandi þess að fá skaðabótaskyldu stefnda viðurkennda vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut vegna framangreindra atvika. Áfrýjandi reisir þessa kröfu sína annars vegar á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sem á umræddum tíma handtöku var 3. mgr. 228. gr. sömu laga og hins vegar almennu skaðabótareglunni. Hefur hann í því skyni að færa sönnur á líkamstjón sitt og orsakatengsl milli aðgerða lögreglu og þess aflað þriggja matsgerða. Eru þær ekki samhljóða um hvort orsakatengsl séu til staðar.

Héraðsdómur taldi fram komna sönnun um að áfrýjandi hefði verið í geðrofsástandi er lögregla hafði framangreind afskipti af honum. Ekkert benti til þess að aðgerðir lögreglu hefðu verið óheimilar eða óþarflega harkalegar og væri ekki sýnt fram á bótaskyldu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Þá er í forsendum hins áfrýjaða dóms lagt til grundvallar „að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það að verkum að hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíku ástandi eða lendir í því af einhverjum orsökum“, geti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Frumskilyrði þess að bótaskylda verði felld á stefnda er að tjón liggi fyrir í skilningi skaðabótaréttar og að orsakatengsl teljist sönnuð milli þess tjóns áfrýjanda og hinnar ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi starfsmanna stefnda. Með því að niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð eins og áður greinir, var þar í engu fjallað um hvort orsakatengsl voru á milli líkamstjóns áfrýjanda og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2017.

Mál þetta sem höfðað var 23. október 2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 10. nóvember sl. Stefnandi er A, [...], Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið.

I.

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda íslenska ríkisins vegna varanlegs líkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir, þegar lögreglan handtók hann þann 11. maí 2010.

Þá gerir stefnandi til viðbótar kröfu um að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur, samkvæmt 26. grein skaðabótalaga, að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. maí 2010 til 29. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, líkt og eigi væri um að ræða gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.

II.

Þriðjudaginn 11. maí kl. 11:43 var lögregla að boði fjarskiptamiðstöðvar send að [...] í Kópavogi vegna, að sögn, átaka sem þar áttu að eiga sér stað. Þá kom fljótlega önnur tilkynning um að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð.

Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá.

Þegar þangað var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...].

Knúði lögregla þar dyra og hitti húsráðanda. Tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði komið hlaupandi, hálfnakinn og barið á stofugluggann hjá sér og síðan á útidyrnar. Við það hafi makast einhvers konar sósa á rúðurnar, en húsráðanda virtist maðurinn blóðugur.

Kvaðst hann hafa boðið stefnanda að fara í sturtu og þvo sér. Meðan stefnandi var í sturtunni hafi hann heyrt hann öskra og láta einkennilega.

Lögreglumenn kveða að þegar þeir hafi komið inn og farið að sturtunni hafi þeir séð að stefnandi öskraði og lét mjög sérkennilega í kaldri sturtunni. Hann hafi barið í veggi og kúgast. Lögreglumennirnir hafi reynt að ræða við stefnanda en hann hafi ekki veitt þeim neina athygli.

Þá var skrúfað fyrir sturtuna og á ný reynt að ræða við stefnanda en hann hafi þá orðið mjög æstur svo að færa þurfti hann í handjárn og jafnframt var hann lagður á gólfið. Einnig töldu lögreglumennirnir nauðsynlegt að fjötra (bensla) fætur hans því hann sparkaði ítrekað til lögreglumannanna. Var tekin ákvörðun um að fá sjúkrabifreið á vettvang til að kanna með ástand stefnanda.

Skömmu síðar byrjaði stefnandi að fá krampa og kasta upp. Færði lögreglumaður hann í hliðarstöðu og losaði handjárn og um fætur. Skömmu síðar hætti stefnandi að anda og hóf lögregla þá strax endurlífgunartilraunir.

Sjúkrabifreið kom mjög fljótt á vettvang og tóku þá sjúkraflutningamenn við endurlífgunartilraunum.

Eftir um 20-25 mínútur greindist púls á stefnanda og var hann þá fluttur í forgangi á Landspítalann við Hringbraut.

Þeir munir sem stefnandi hafði kastað fram af svölum við [...] voru ónýtir eftir fallið. Þar á meðal var flatskjár, útvarpstæki, glerplata af stofuborði, sturtuhengi og fleira. Lentu munirnir á palli á neðstu hæð blokkarinnar og á grasi þar við.

Samkvæmt vitni sem kom fyrir lögreglu hafði verið reynt að fá stefnanda til að hætta að henda niður hlutum en stefnandi hafi þá komið niður og ógnað nágranna með golfkylfu.

Samkvæmt upplýsingum frá móður stefnanda hafði hann kvöldinu áður verið ásamt systur sinni í mat hjá henni. Hvorug þeirra hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari hans, en þetta staðfesti móðirin fyrir dómi. Þá er upplýst að eftir mat hafi stefnandi farið til B, vinar síns. Samkvæmt skýrslu B hjá lögreglu, sem tekin var sama dag og handtakan átti sér stað, kvað B stefnanda hafi komið kvöldið áður og verið fram á nótt. Hann hafi í stuttu máli verði gjósandi eins og vitnið orðað það; verið ör og hreinskilinn. B hafi sofnað og þegar hann hafi vaknað um morguninn hafi stefnandi verið farinn. Upp úr hádegi hringdi téður B í C vin sinn, til að forvitnast um stefnanda.

Þennan sama dag var einnig tekin skýrsla af D, íbúa í íbúð [...], [...]. Kvaðst D allt í einu hafa heyrt dynk og þá séð að ruslapoki, sem hafði verið hent niður, hafði splundrast. Sá hann að opinn gluggi var á 4. hæð hússins, en spáði ekki frekar í það. Eftir þetta hafi verið hent niður gardínustöngum, plasmasjónvarpi, hátölurum og fleiru. Fór D upp á fjórðu hæð og bankaði á dyr íbúðarinnar, sem hann taldi að hlutirnir hafi komið úr. Þar svaraði enginn. Hafi hann svo gengið niður á planið og hitt stefnanda þar, sem hann kvað hafa verið beran að ofan í annarlegu ástandi. Mun stefnandi hafa náð í golfkylfu inn í bíl og sagt að mikið væri að. Allt væri að fara til fjandans, en bað D að hringja ekki í lögreglu. Kvað hann stefnanda hafa farið út á grasflöt og byrjað að rífa í sundur bréf með Ageli og kreista þau yfir sig. Hringdi D þá í lögregluna. Þegar stefnandi heyrði í sírenum mun hann hafa hlaupið í burtu og benti D lögreglunni þangað sem stefnandi hljóp.

E, íbúi á 1. hæð að [...], kveðst hafa séð hálfa búslóð á pallinum hjá sér. Kvaðst hún hafa séð stefnanda og fannst henni hann „út úr dópaður“. Kvað hún stefnanda hafa haldið á plastbréfum með hvítum vökva í og hafi sagt, að hann yrði að sprauta úr þessu hér. Kvað hún stefnanda hafa farið í skottið á bílnum sínum, hellt í sig einhverjum vökva og náð í golfkylfu. Bað stefnandi hana um að fá lánaðan gsm-síma en afþakkað þegar hún bauð honum heimasíma. Eftir það kvað hún hann hafa tekið á rás að leikskóla hinum megin við götuna.

Í dagbókarfærslu lögreglunnar er skráð að þegar lögreglan kom á staðinn hafi tilkynnandi beint þeim að [...] við [...] og skýrt frá því að nakinn maður, vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í þá átt. Hafi allt verið á öðrum endanum í íbúð stefnanda, talsvert af peningum, ætluð kannabisefni og plöntur lágu á gólfinu. Síðar hafi lögreglan kallað eftir aðstoð en þá var búið að staðsetja stefnanda í íbúð að [...]. Þegar þangað var komið tók húsráðandi, F, á móti þeim.

Í skýrslutöku af F, dagsettri 3. desember 2013, kvaðst hann hafa verið heima hjá sér þennan dag, 11. maí 2010, þegar hann sér mann hlaupa fram hjá glugganum. Kvað hann stefnanda hafa verið nakinn og farið að maka geli á rúðuna. Kvaðst F hafa kallað á stefnanda og spurt hvort ekki væri allt í lagi og hvort hann þyrfti aðstoð. F sagðist hafa boðið stefnanda að fara í sturtu. Kvaðst F hafa sagt stefnanda að drífa sig í sturtu og hafi þá tekið eftir því að stefnandi var búinn að læsa útihurðinni. Þegar stefnandi var í sturtunni hafi tveir lögreglumenn bankað á gluggann. Opnaði F fyrir þeim og spurðu lögreglumennirnir tveir hvort hann hefði séð „strípaling á vappi“. F svaraði því játandi og kvað stefnanda vera í sturtu hjá sér. Kvaðst hann ekki þekkja stefnanda en tók það fram að hann teldi sér ekki stafa hætta af honum. Hafi stefnandi greinilega verið í miklu andlegu uppnámi og kallað eitthvað úr sturtunni, en F kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Sagðist F síðan hafa séð inn um dyragættina, eftir að lögreglumennirnir voru búnir að opna lásinn til að komast inn á baðherbergið, þar sem stefnandi hafi verið í sturtu. Lögreglan hafi farið inn og tekið á manninum. F kvaðst ekki hafa séð átök í sturtuherberginu en heyrt lætin. F sagðist hafa séð stefnanda í handjárnum, liggjandi á gólfinu og lögreglumann með hnéð í bakið á honum að handjárna hann. Kvaðst F hafa séð stefnanda þegar hann féll í gólfið og það hafi verið eins og hann lyppaðist niður „eins og kerfið í honum hafi slökkt á sér“. Hafi stefnandi ekki hreyft sig og hafi F því beðið lögreglumennina um að hnoða stefnanda. Kvað hann lögregluna á sama tíma hafa áttað sig á að maðurinn barðist ekki lengur á móti. Hafi F þá farið að útidyrunum, séð sjúkrabíl og veifað honum að koma. Sjúkraflutningamenn hafi þá komið inn með sín tæki og tól. Kvað hann lögregluna þá hafa ætlað að draga stefnanda fram á gang, tekið hann upp en stefnandi hafi verið háll viðkomu og þegar þeir hafi verið með hann í um lærahæð hafi þeir misst takið og við það hafi stefnandi skollið í gólfið. F sagði manninn þegar hafa verið meðvitundarlausan þegar þetta gerðist en hnakki hans hafi skollið á flísarnar á gólfinu.

Í dagbókarfærslu lögreglunnar kemur fram að lögreglumennirnir hafi ávarpað stefnanda er hann var í sturtu. Stefnandi hafi að því er virtist ekkert heyrt, þ.e. engin viðbrögð komu frá honum. Ákváðu lögreglumennirnir þá að ná stefnanda úr sturtunni en um leið og þeir gripu í hendur hans hafi hann veitt mótspyrnu. Hafi þeir þá fært stefnanda í lögreglutök, handjárnað hann og lagt hann á gólfið. Hafi lögreglumennirnir þar að auki orðið að binda fætur hans þar sem hann sparkaði í allar áttir. Fram kemur, að á þessum tíma hafi þeir beðið um að fá senda sjúkrabifreið. Í dagbókarfærslunni er öndunarstopp skráð kl. 12:20 og þess getið að sjúkrabifreið hafi komið nánast samstundis.

F staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 30. september 2015, en þar lýsti F því að stefnandi hefði verið örvinglaður og viti sínu fjær er hann kom á heimili hans. Hann tók þó fram að engin hætta hefði stafað af stefnanda og hann hafi ákveðið að reyna að róa hann niður.

Við komu á LSH var stefnandi meðvitundarlaus, með barkarrennu og kominn með gáttatif. Var hann svæfður fljótlega eftir komu og fluttur á gjörgæsludeild til kælingar. Í innlagnarnótu á gjörgæsludeild er lýst rispum á öxlum og kvið. Farið var með stefnanda í tölvusneiðmynd af höfði, sem sýndi ekki blæðingu eða önnur áverkamerki. Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi ekki merki um brot. Á tölvusneiðmynd af brjóstkassa sáust dreifðar þéttingar, mest í hægra lunga sem vöktu grun um byrjandi lungnabólgu en hvorki sáust merki um rifbrot né loftbrjóst. Á tölvusneiðmynd var að sjá mikla þenslu í maga en ekkert annað athugavert. Við komu á spítalann var þvag einnig sent í lyfjaleit, m.a. fyrir amfetamíni, kókaíni, kannabis, E-töflum o.fl. og reyndist það allt vera neikvætt. Var stefnandi með mikla truflun á sýrubasa jafnvægi og metabolískt súr, sem leiðréttist smám saman með lyfjagjöf og öndunarmeðferð. Var stefnandi einnig með mikla hækkun á vöðvaensímum, CK og var myoglobín einnig mjög hækkað, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Var stefnanda haldið sofandi í öndunarvél og kældur til að draga úr heilaskaða eftir hjartastoppið.

Stefnandi var tekinn úr öndunarvél hinn 16. maí 2011, sem gekk vel. Hinn 17. maí 2011, skoðaði G taugalæknir stefnanda og benti taugaskoðun til útbreidds heilaskaða af völdum súrefnisskorts. Hinn 18. maí 2011 vaknaði stefnandi og virtist vita eitthvað af umhverfi sínu. Þennan dag var hann útskrifaður af gjörgæsludeild á hjartadeild. Þegar ástand hans var á endanum talið stöðugt var stefnandi fluttur til frekari endurhæfingar á Grensásdeild Landspítalans, 16. júní 2011.

Í læknisvottorði H, sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, dagsettu 6. maí 2012, gaf læknirinn álit sitt á mögulegum orsökum þess að stefnandi hefði farið í hjartastopp 11. maí 2010. Annaðist téður læknir stefnanda eftir komu á sjúkrahús. Taldi H orsök hjartastoppsins mjög sennilega tengda handtökunni. Mögulegar orsakir taldi hann helst vera tvær: Í fyrsta lagi væri vel þekkt að einstaklingar í annarlegu ástandi, sem eru beittir valdi og sem berjast á móti, geti farið í hjartastopp. Fari öll starfsemi einstaklingsins á fullt, sem valdi miklu álagi á hjartað og orsaki hjartsláttatruflanir. Taldi læknirinn mjög há gildi vöðvaensíma hjá stefnanda styðja að hann hefði reynt mjög á sig í átökum við lögregluna. Í öðru lagi gæti högg á brjóst valdið hjartastoppi. Var stefnandi í sturtu og þar af leiðandi blautur og sleipur. Lögreglumennirnir hafi hæglega getað misst hann í gólfið, eins og lýst væri af vitni.

Þáverandi lögmaður stefnanda fór þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar og orsök tjónsatburðarins. Dómkvödd voru þau I hjartalæknir og J hrl.

Um orsakatengsl á milli valdbeitingar lögreglunnar gegn stefnanda í umrætt sinn og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir kemur fram í matsgerðinni að stefnandi hafði fyrir tjónsatburðinn neytt töluverðs magns af orkugeli. Þá komi fram í sjúkraskrá Landspítala að aðstandendum hafi þótt stefnandi vera mjög ör í tvær vikur fyrir tjónsatburð. Þá kemur fram að flestar auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja tengist háu koffíninnihaldi þeirra og auk þess eru oft í þeim önnur efni sem einnig innihalda koffín. Á síðustu árum hafi tilfellum koffíneitrana vegna neyslu orkudrykkja fjölgað og lýst hafi verið dauðsföllum hjá einstaklingum, sem ekki hafi haft merki um hjartasjúkdóm sem talin eru tengjast eitrunaráhrifum þeirra. Koffíneitrun geti leitt til geðrofs og hjartsláttartruflana, sem geti verið lífshættulegar og í sjaldgæfum tilfellum leitt til dauða.

Töldu matsmenn ofneyslu orkugels/orkudrykkja fyrir tjónsatburð vera líklega skýringu á geðrofseinkennum, sem stefnandi sýndi í aðdraganda tjónsatburðarins, daginn sem atburðurinn gerðist og gæti hún einnig hafa verið meðvirkandi í hjartastoppinu sem hann lenti í. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að við komu á spítalann hafi stefnandi verið með miklar truflanir á sýru-basa jafnvægi, en sýrustig í blóði mældist mjög lágt. Væri útilokað að stefnandi hefði lifað með svo lágt sýrustig, nema að hafa fengið einhvern tíma til aðlögunar, sem þýddi að líklegast væri um að ræða tveggja til þriggja daga ástand áður en hann fór hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengdist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður. Þá hafi stefnandi við komu á spítalann verið með verulega hækkun á vöðvaensímum, CK og myoglobíni, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Ekki voru merki um skaða á hjartavöðva. Umrædd hækkun hafi getað leitt til nýrnabilunar og verið meðvirkandi í hjartastoppi. Það sé þekkt að einstaklingar sem eru í annarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Það sé hins vegar afar ósennilegt að sú mikla hækkun sem var á vöðvaensímum hjá stefnanda tengist eingöngu handtökunni. Þó að hún eigi einhvern þátt í hækkun vöðvaensíma er líklegra að þessi mikla hækkun tengist að mestu leyti miklum æfingum í aðdraganda tjónsatburðar.

Þá voru matsmenn ekki sammála þeirri niðurstöðu H læknis að hugsanleg skýring hjartastoppsins væri sú að lögreglumenn hafi misst stefnanda í gólfið. Ástæða þess sé fyrst og fremst sú að í skýrslu F vitnis komi greinilega fram að þegar lögreglumennirnir misstu stefnanda í gólfið hafi hann verið meðvitundarlaus, auk þess sem því sé lýst að hann hafi skollið á hnakkann en ekki á brjóstið.

Með vísan til þessa töldu matsmenn ekki vera orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gegn stefnanda og þess líkamstjón sem hann varð fyrir.

Töldu matsmenn líklegustu orsök líkamstjónsins vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta mætti að mati matsmanna tengja við ofneyslu stefnanda á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar.

Var stefnandi metinn til algjörs varanlegs miska, þ.e. 100 stiga og 100% varanlegrar örorku. Tímabundið atvinnutjón var 100% frá tjónsatburði fram að áætluðum stöðuleikatímapunkti. Þjáningatímabil og tímabil tímabundins atvinnutjóns taldist það sama, þar af taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 11. maí 2010 til 29. september 2010.

Samkvæmt beiðni stefnanda voru þann 22. janúar 2016 dómkvaddir sem matsmenn í málinu þeir K geð- og embættislæknir og L lyf- og hjartalæknir. Matsgerð lá fyrir 11. júní það ár. Matsmenn töldu að miðað við lýsingar á atburðinum mætti jafnvel líta á aðgerðir lögreglu sem björgunaraðgerð fremur en að þær hafi valdið hjartstoppi, enda hefði stefnandi allt eins getað fengið hjartastopp þótt lögreglan hefði ekki haft afskipti af honum. Niðurstaða matsmanna var því sú að þeir töldu valdbeitingu lögreglu ekki geta verið einn af orsakavöldum þess að stefnandi fór í hjartastopp. Þá töldu matsmenn ekki að efnið Agel sem talið var að stefnandi hefði neitt í óhóflegu magni fyrir atvikið gæti orsakað hjartastopp en þó með fyrirvara um að það væri hugsanlegt ef þess væri neytt í mjög miklu magni. Þá töldu matsmenn líkur á hjartastoppi auknar vegna aðgerða lögreglu sökum ástands stefnanda fyrir handtökuna. Að lokum töldu matsmenn líkur fyrir því að stefnandi hefði farið í hjartastopp þótt ekki hefði komið til aðgerða lögreglu.

Stefnandi var ósáttur við matið og óskaði yfirmats. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 28. október 2016, þau, M lyf- og hjartalæknir, N taugalæknir og O geðlæknir. Yfirmatsgerð var gefin út 1. mars 2017. Matsmenn töldu aukna hættu á hjartastoppi við þær aðstæður þegar nauðsynlegt væri að beita valdi og töldu því líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í að valda hjartastoppinu en aðrir þættir gætu verið meðvirkandi. Um fæðubótaefnið Agel töldu matsmenn ekki forsendur til að ætla að það gæti valdið hjartastoppi. Þá töldu matsmenn útilokað að svara því játandi eða neitandi hvort stefnandi hefði farið í hjartstopp ef ekki hefði komið til valdbeitingar lögreglu. Á sama veg svöruðu matsmenn spurningunni ef stefnandi hefði fengið að klára sturtuna óáreittur. Niðurstaða matsmanna var sú að það yrði að teljast líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram að matsmenn töldu meira en helmingslíkur á þessu.

Við upphaf aðalmeðferðar var lögð fram geðrannsókn P geðlæknis frá 25. september 2017 en hana framkvæmdi læknirinn vegna annars dómsmáls nr. E-[...]/2016 sem stefnandi höfðaði gegn Verði tryggingum hf. vegna atviksins. Læknirinn var dómkvaddur til verksins 29. júní 2017. Um hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda hafi verið ósjálfráð við handtökuna segir læknirinn það sitt álit að stefnandi hafi verið haldinn geðrofi og síðan miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda við handtökuna. Því hafi öll viðbrögð hans verið algjörlega ósjálfráð. Þá taldi læknirinn að stefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.

Undir- og yfirmatsmenn gáfu allir skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu Q, fyrrum lögreglumaður og lögreglumennirnir R, S og T. P geðlæknir kom fyrir dóm og H hjartalæknir gaf símaskýrslu. Að endingu var tekin skýrsla af móður stefnanda.

III.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna ólögmætrar og harkalegrar handtöku (valdbeitingar) lögreglunnar. Byggir stefnandi á að orsök hjartastoppsins hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar aðgerðir lögreglunnar. Því sé íslenska ríkið bótaskylt vegna líkamstjónsins. Byggir stefnandi kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, auk 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála en sú bótaregla sé hlutlæg. Hafi stefnandi ekki stuðlað sjálfur að þessum harkalegu aðgerðum lögreglunnar, nema þá með litlu mótvægi og ósjálfráðum viðbrögðum, sem hafi verið eðlileg miðað við aðstæður. Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg byggir stefnandi á því, með vísan til sömu lagagreinar og hinnar almennu skaðabótareglu, að lögreglan beri ábyrgð vegna sakar þeirra starfsmanna sinna er að handtökunni stóðu.

Fyrir það fyrsta byggir stefnandi á að handtaka lögreglunnar í umrætt sinn hafi verið ólögmæt, þar sem ekki verði séð að heimild hafi verið til hennar með vísan til 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ósannað sé að rökstuddur grunur hafi verið um að stefnandi hafi framið brot í umrætt sinn sem sætt getur ákæru, enda hafi hann aldrei verið ákærður í framhaldinu. Þá verði ekki heldur séð að handtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, enda hafi stefnandi verið í boði húsráðanda á heimili hans í sturtu, eða til að tryggja návist hans eða öryggi eða öryggi annarra.

Þá byggir stefnandi á að lögreglunni hafi þar að auki verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergið og rífa stefnanda úr sturtunni án dómsúrskurðar eða sérstaks samþykkis stefnanda. Þá telur stefnandi þar að auki augljóst að ekki hafi verið um samfellda eftirför í húsið að ræða sem réttlætt geti það að baðherbergið hafi verið opnað án dómsúrskurðar eða samþykkis stefnanda.

Enn fremur byggir stefnandi á að lögreglan hafi ekki í umrætt sinn gætt meðalhófs við handtökuna. Ljóst sé að lögreglu hafi verið unnt að beita mun vægari úrræðum við handtökuna. Meðalhófsreglan sé bæði skráð og óskráð meginregla í íslenskum lögreglurétti og talin þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Reglan fái og stoð í stjórnsýslulögum, lögum nr. 88/2008, mannréttindasáttmála Evrópu og 68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi vísar og til 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og greinargerðar með lögunum.

Þótt handhöfum lögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna megi þeir þó aldrei ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 14. gr. lögrl.

Stefnandi bendir á að þegar lögreglumenn komu að húsnæði F hafi téður F sagt lögreglu að engin hætta stafaði af stefnanda. Þá hafi legið fyrirá þessum tímapunkti að stefnandi hafi verið óvopnaður. Þar af leiðandi hafi engin þörf verið á þeim harkalegu úrræðum sem lögreglan beitti í umrætt sinn og sem urðu þess valdandi að stefnandi fór í hjartastopp.

Þá hafi lögreglunni verið í lófa lagið að leyfa stefnanda að klára sturtuna og reyna að róa hann niður áður en hann væri handtekinn. Hefði þess háttar meðalhófs verið gætt sé ljóst, að mati stefnanda, að hann hefði ekki farið í hjartastopp

Stefnandi byggir á því, með hliðsjón af þeim hátternisreglum og verklagsreglum lögreglu, þeirri kunnáttu sem lögreglumenn eigi að búa yfir, og þar af leiðandi á grundvelli reglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, að stefndi beri sönnunarbyrði um að líkamstjón stefnanda sé ekki á ábyrgð lögreglunnar. Alla vega eigi þessar reglur að létta sönnunarbyrði stefnanda. Í því sambandi verði stefndi að sýna fram á hvað réttlæti þá handtöku sem stefnandi varð fyrir og hver hafi verið raunveruleg ástæða handtökunnar.

Varðandi orsakatengsl milli handtöku lögreglunnar og hjartastoppsins byggir stefnandi á því að orsök þess að hann hafi farið í hjartastopp sé að öllum líkindum tengd handtökunni, líkt og H, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, telji samkvæmt vottorði sínu. Þar telji læknirinn mögulegar og líklegar orsakir vera af tvennum toga. Í fyrsta lagi, að sú valdbeiting sem lögreglan hafi beitt stefnanda í því ástandi sem hann var hafi verið þess valdandi að stefnandi hafi farið í hjartastopp. Í öðru lagi, að höggið þegar lögreglumenn hafi misst stefnanda á gólfið, hafi leitt til hjartastoppsins. Sé hjartastoppið sennileg afleiðing þessara tveggja hugsanlegra orsaka.

Telur stefnandi í þessu samhengi að ekki sé tækt að byggja á niðurstöðu undirmats en þar gefi matsmenn sér ákveðnar fyrir fram gefnar forsendur, sem við nánari athugun standist ekki endilega nánari skoðun. Hann vísar hins vegar yfirmats sem hann telur að byggja beri á um orsakatengsl í málinu.

Fjallað sé í undirmati almennt um auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja, án þess að nokkurn tímann hafi farið fram rannsókn eða skoðun á sjálfu gelinu sem stefnandi tók inn daginn sem hann var handtekinn. Af lestri matsgerðarinnar megi ráða að það virðist skipta meginmáli í niðurstöðu matsmanna að stefnandi hafi innbyrt mikið magn af koffíndrykkjum. Umrætt Agel hafi aldrei verið rannsakað af matsmönnum. Byggir stefnandi á að þannig sé ómögulegt og óvísindalegt að gefa sér þær forsendur að gelið hafi valdið eða átt þátt í því að valda hjartastoppinu. Það sé til dæmis engan veginn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir koffíneitrun.

Þá telur stefnandi það furðulegt að vottorði H sé alfarið hafnað, m.a. með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið, er lögreglumennirnir misstu hann, en ekki á brjóstið. Byggir stefnandi á að þrátt fyrir að hann hafi fallið með hnakkann í fyrstu viðkomu við gólfið hafi hann einnig orðið fyrir átökum við handtökuna sem eins líklegt sé að hafi orsakað hjartastoppið. Allavega sé ótækt að útiloka það einungis með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið.

Telur stefnandi í því ljósi að undirmatsgerð svari ekki með fullnægjandi hætti hvort handtakan sem slík hafi verið aðalorsakavaldur eða meðorsök þess að stefnandi fór í hjartastopp. Byggir stefnandi á að til þess að orsakatengsl teljist vera fyrir hendi í skaðabótarétti sé nægilegt að orsakasamband sé til staðar þótt ekki sé um að ræða meginorsök. Að þessu hafi ekki verið gætt við vinnslu matsgerðarinnar.

Byggir stefnandi á að hin harkalega og óþarfa handtaka (valdbeiting) sem viðhöfð hafi verið af lögreglunni í umrætt sinn hafi verið meðvirkandi þáttur í að stefnandi fór í hjartastopp með fyrrnefndum afleiðingum. Hið meinta geðrofsástand hans þennan dag geti ekki talist nægjanlegur orsakavaldur eitt og sér.

Með hliðsjón af framangreindum málsástæðum gerir stefnandi einnig kröfu um greiðslu miskabóta skv. a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og telur stefnandi hæfilegar miskabætur vera 3.000.000 króna. Byggir stefnandi á því að lögreglu hafi brostið lögmæt skilyrði til handtökunnar, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Hún hafi þar að auki ruðst inn á heimili, þar sem stefnandi var staddur, án húsleitarheimildar, sem fari einnig í bága við lög nr. 88/2008 og stjórnarskrárvarinn rétt stefnanda.

Ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda. Telur stefnandi því að lögmæt skilyrði hafi brostið til þessara aðgerða, ekki hafi verið tilefni til þeirra af hálfu lögreglu og þær verið framkvæmdar á óþarfalega hættulegan, særandi og móðgandi hátt. Hafi hin harkalega og óþarfa handtaka að endingu leitt til mikils tjóns fyrir stefnanda eins og komið er að hér að ofan. Eigi stefnandi því rétt til bóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og 26. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við sakarregluna, meginreglur um vinnuveitanda­ábyrgð og sakamálalög nr. 88/2008. Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, svo sem regluna um vinnuveitendaábyrgð. Byggir stefnandi jafnframt kröfu sína á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og stjórnskipunarréttarins og á lögreglulögum, en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum og réttarreglum sem þegar hafi verið nefndar, sem og reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð og sennilega afleiðingu og á skilyrðiskenningunni. Hvað málskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Stefndi bendir á vegna kröfu stefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að í fjölda dóma Hæstaréttar hafi tilvitnað ákvæði verið skýrt með þeim hætti að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess við hið ætlaða skaðaverk.

Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi fékk dómkvadda tvo matsmenn sem skiluðu matsgerð 10. september 2014. Óskað var m.a. eftir mati á því hvort orsakatengsl væru til staðar á milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Á bls. 18 í undirmatsgerð sé gerður reki að því að svara ofangreindri spurningu. Sé niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna á þann veg að ekki séu orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Stefnandi geri reyndar grein fyrir þessari niðurstöðu í stefnu en telji ekki tækt að byggja á niðurstöðu matsgerðarinnar. Matið hafi engu að síður verið unnið af tveimur óvilhöllum aðilum.

Í matsgerð sé reifað ástand stefnanda dagana fyrir tjónsatburð. Komi þar m.a. fram að stefnandi hafði ekki sofið í um fimm sólarhringa og farið í líkamsrækt u.þ.b. þrisvar sinnum á dag. 

Einnig hafi hann verið hálf manískur og talað um fátt annað en orkugelið sem hann ætlaði að hefja innflutning á.

Taki matsmenn undir álit U, yfirlæknis á gjörgæsludeild þar sem fram komi að það væri útilokað að stefnandi hefði lifað með eins lágt sýrustig og mældist í honum nema að líkaminn hefði fengið einhvern tíma til aðlögunar.

Að mati U sé líklegast að þarna hafi verið um að ræða tveggja eða þriggja daga ástand áður en stefnandi hafi farið í hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður.

Eins og áður segir hafi niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna verið sú að ekki væru orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu og líkamstjóns. Byggi það m.a. á vitnisburði húsráðanda um að stefnandi hafi þegar verið meðvitundarlaus áður en hann skall í gólfið og auk þess hafi hann skollið á hnakkann en ekki brjóstið eins og H læknir taldi að gæti verið hugsanleg skýring.

Niðurstaða dómkvaddra undirmatsmanna geri það að verkum að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu fullnægi ekki þeim kröfum sem 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri til slíkra krafna um viðurkenningu.

Stefndi bendi á að samkvæmt gögnum málsins séu ekki tengsl milli tjóns og atvika máls og beri því í samræmi við fjölmörg dómafordæmi að vísa þessari kröfu frá dómi sjálfkrafa (ex officio) nema dómurinn komist að annarri niðurstöðu en hinir dómkvöddu matsmenn sbr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Varðandi kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 3.000.000 kr. vill stefndi að fram komi að á þeim tíma þegar atburðir gerðust lá stefnandi undir grun um eignaspjöll og fíkniefnalagabrot.

Hafði stefnandi einnig lagt nágranna sína í stórhættu með því að henda þungum hlutum fram af svölum og það hafi ekki verið honum að þakka að enginn varð fyrir þeim hlutum. Var þetta leiksvæði barna og útiverusvæði. Stefnandi hafi hlaupið um nakinn að því er virtist blóðugur og vopnaður golfkylfu. Hann hafi fundist í húsi þar sem hann átti ekki erindi og var ástand hans með þeim hætti að tryggja þurfti návist hans og öryggi.

Með þessu framferði hafi stefndi valdið eða a.m.k. stuðlað að þeim aðgerðum sem hann nú reisir kröfur sínar á, sbr. 2. og 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt undirmati hafi stefnandi sjálfur komið sér í það ástand sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem orðin er.

Handtakan hafi ekki verið ólögmæt og ekki um að ræða óþarflega harkalegar aðgerðir samkvæmt þeim skýrslum sem liggi fyrir. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 komi fram skilyrði fyrir handtöku en þar segi m.a. að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot o.s.frv.

Í þessu máli hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ýmis brot og þótt ekki hafi verið ákært breyti það því ekki að ákvörðun um að handtaka stefnanda hafi verið rétt og uppfyllt skilyrði laganna. Ástæða þess að ákæra hafi ekki verið gefin út sé sú að heilsufarsástand stefnanda eftir þessa atburði hafi ekki gefið tilefni til að ákæra og ná fram sakfellingu.

Varðandi röksemdir stefnanda um að lögreglu hafi verið óheimilt að fara inn og sækja hann í sturtu bendir stefndi á að húsráðandi hafi ekki gert neina athugasemd við lögreglu eftir atburðinn né heldur hafi hann varnað lögreglu inngöngu.

Eins og húsráðandi lýsti atburðum eftir á hafi hann sagt stefnanda hafa öskrað og látið einkennilega í sturtunni. Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að húsráðandi hafi verið því alfarið mótfallinn að lögregla færi inn á heimili hans.

Auk þess eigi hér við ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008.

Full ástæða hafi verið fyrir lögreglu, miðað við upplýsingar vitna og aðstæður í [...], að hafa áhyggjur af og elta stefnanda. Hafi upplýsingar gefið tilefni til að ætla að hann gæti verið sjálfum sér og öðrum hættulegur og við þær aðstæður hafi hann verið eltur og handtekinn.

Varðandi meðalhóf þá hafi þess verið gætt við handtökuna og miðað við þá aðstöðu sem var til staðar.

Þá liggi það fyrir samkvæmt gögnum málsins að stefnandi hafi misst meðvitund vegna eigin neyslu og skorts á svefni og það síðan leitt til hjartastopps eins og segi á bls. 19 í undirmati.

Þannig sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til að lögregla hafi gengið lengra en ástæða var til eða brotið gegn meðalhófsreglu.

Tilvísun stefnanda til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er hafnað enda eigi skilyrði þeirrar greinar ekki við hér. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi af hálfu lögreglu í þeirri atburðarás sem þarna varð.

Eins og fram sé komið hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda og lögregla taldi lögmæt skilyrði til staðar til að handtaka hann. Aðgerðin hafi ekki verið harkalegri en ástæða var til en stefnandi hafi barist kröftuglega á móti eins og fram komi í gögnum málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Það ákvæði eigi við í þessu máli.

Þar sem stefnandi málsins hafi komið sér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu beri hann sjálfur ábyrgð á því sem gerðist.

Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllu sem bótakröfu hans viðkemur m.a. um sök, ólögmæti, orsakasamband og sennilega afleiðingu. Stefndi byggi á því að ekki séu til staðar skilyrði til að dæma bætur í máli þessu.

Tilvísun stefnanda til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og rökstuðningi er vísað á bug.

Ef fallist verður á með stefnanda að stefndi sé bótaskyldur er gerð krafa um verulega lækkun frá dómkröfum stefnanda. Sé ljóst að stefnufjárhæðin sé fjarri því sem dómaframkvæmd hefur talið eðlilegt í bótamálum af þessum toga. Engin rök liggi til þess að breyta þeirri framkvæmd í þessu máli.

Bótafjárhæðin sjálf sé ekki byggð á neinum rökum. Enginn grundvöllur sé fyrir fjárhæðinni né heldur reynt að sýna fram á í hverju tjónið er fólgið. Sé kröfufjárhæðin þannig órökstudd með öllu.

Að öðru leyti er vísað til málsástæðna og lagaraka varðandi aðalkröfu stefnda. Stefnandi vísar um málskostnað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

V.

Stefndi reifar í greinargerð sjónarmið sem hann telur að leiða eigi til frávísunar málsins sjálfkrafa (ex officio) sökum þess að stefnandi hafi ekki sannað orsakatengsl á milli aðgerða lögreglu og þess ástands sem stefnandi búi við í dag. Því hafi ekki tekist sönnun um að stefnandi hafi, vegna ætlaðs skaðaverks, orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að höfða viðurkenningarmál. Rétt er að í undirmati var ekki talið að valdbeiting lögreglu hefði átt þátt í hjartastoppi hjá stefnanda. Í yfirmati kom hins vegar fram að matsmenn töldu líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram hjá öllum yfirmatsmönnum að með þessu væri átti við meiri líkur en 50%. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að stefnandi er metinn til 100% varanlegrar örorku og 100 stiga miska vegna þessa atviks verður að telja að stefnandi eigi rétt á því að um kröfu hans verði fjallað efnislega og skilyrðum 2. mgr. 25. gr. sé því fullnægt.

Ekki er gerður ágreiningur um aðdraganda þess að lögregla kom umrætt sinn að [...] í Kópavogi. Tilkynning hafði borist um átök og að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá og haft í hótunum við nærstadda. Þegar að [...] var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...].

Framburður lögreglumanna sem á staðinn komu er einróma um að húsráðandi í íbúðinni sem stefnandi hafði farið inn í hafi á engan hátt sett sig á móti því að lögregla kæmi inn og verður ekki heldur annað ráðið af framburði hans sjálfs fyrir dómi 30. september 2015. Eins og atvikum hefur verið lýst verður að líta svo á að ekkert bendi til þess að lögregla hefði þurft að afla sér húsleitarheimildar í umrætt sinn og hefur þetta atriði enga þýðingu við úrlausn málsins.

Framburður lögreglumanna fyrir dómi um ástandið á stefnanda þegar lögregla kom að honum er ekki með öllu samhljóða enda gerðust atburðir fyrir næstum sjö og hálfu ári síðan. Um hitt eru lögreglumenn sammála, að þegar reynt var að tjónka við stefnanda og handtaka hann lét stefnandi öllum illum látum. Eitt vitnanna sagði að hann hefði verið viti sínu fjær, annað að hann hefði fengið æðiskast, þriðja vitnið lýsti því svo að hann hefði verið kolvitlaus, streist á móti og verið í sturlunarástandi, fjórði lögreglumaðurinn sagði stefnanda hafa öskrað óstjórnlega og hafi hann verið í öðrum heimi. Allir voru lögreglumennirnir sammála um að nauðsynlegt hefði verið að handtaka stefnanda við þær aðstæður sem höfðu skapast en þeir hefðu ekki náð neinu sambandi við stefnanda sökum ástands hans. Þá kom fram að aðstæður hefðu verið nokkuð hættulegar og nauðsynlegt að forða stefnanda frá því að skaða sjálfan sig miðað við aðstæður á baðherberginu og ástand stefnanda. Lögregla taldi fullljóst að handtaka færi fram ef sömu aðstæður sköpuðust að nýju. 

Ekkert er heldur komið fram í málinu um að handtakan hafi verið óþarflega harðneskjuleg en lögreglumaður sem fylgdist með álengdar taldi hana hafa verið fumlausa og gengið hratt fyrir sig. Framburður húsráðanda um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda fær ekki stuðning í öðrum gögnum málsins og jafnvel þótt um slíkt hefði verið að ræða þá verður því ekki slegið föstu að það hefði verið eitthvert úrslitaatriði um það sem á eftir kom, auk þess sem að til sanns vegar mætti þá og færa að nauðsynlegt hefði verið að beita slíkum tökum á stefnanda miðað við ástand hans.

Hið sama gildir um þann framburð húsráðanda að stefnandi hafi skollið með hnakkann í gólfið þegar lögreglumennirnir hafi misst hann. Þeir fjórir lögreglumenn sem komu fyrir dóminn staðhæfðu að þetta hefði ekki gerst og til þess er að líta þegar framburður húsráðanda er metinn að aðstæður voru mjög þröngar inni á baðinu og jafnframt nokkur þröng á þingi þegar handtakan átti sér stað en samkvæmt lögregluskýrslu verður ekki betur séð en að sex lögreglumenn hafi verið viðstaddir handtöku stefnanda. Sama gildir hér og um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda að ekki liggur fyrir nein sönnun um það í málinu að svona fall hafi getað valdið hjartastoppinu. H hjartalæknir taldi hins vegar í vottorði að högg á brjóst gæti valdið hjartastoppi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla að ef litið yrði, þrátt fyrir framangreint, svo á að lögregla hefði misst stefnanda á gólfið í baðherberginu hefði það verið vegna mikillar bleytu á gólfinu, vegna þess að stefnandi var sjálfur rennblautur og sleipur og vegna erfiðra aðstæðna og yrði þá talið til óhappatilviks.

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn með öllu ósannað að lögreglumenn hafi gerst sekir um saknæma háttsemi við handtöku stefnanda eða að handtakan hafi verið ólögmæt af öðrum orsökum. Verður ekki annað séð en að aðstæður umrætt sinn við handtökuna hafi verið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða í 2. mgr. 93. gr. laganna og má til sanns vegar færa að reynt hafi verið að gæta þess eftir föngum að stefnandi ynni tjón á sjálfum sér eða öðrum, sbr. síðari málslið þess ákvæðis. Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýst verður ekki séð að hægt hefði verið að beita vægari úrræðum umrætt sinn og verður því talið að meðalhófs hafi verið gætt.

Ekki verður fallist á að framangreind lagafyrirmæli eigi ekki stoð í stjórnarskrá sbr. 1. mgr. 67. gr. hennar eða brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekkert bendir til þess að aðgerðir lögreglu hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar eins og stefnandi byggir á. Því eru engin efni til að fallast á bótaskyldu stefnda á grundvelli almennu sakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum.

Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi byggir ekki á því í stefnu málsins að 1. mgr. ákvæðisins eigi við en nefndi það við aðalmeðferð að málið gegn stefnanda hefði verið fellt niður. Lögmaður stefnda benti á að sú ákvörðun hefði einvörðungu byggst á heilsubresti stefnanda og er ekki ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa miðað við málsatvik. Þetta skiptir þó ekki meginmáli því fjalla verður um þátt stefnanda í atburðarásinni hvort sem byggt yrði á 1. eða 3. mgr. 228. gr. sbr. 2. mgr. og síðari málslið 3. mgr.

Dómurinn telur fram komna sönnun í málinu um að stefnandi hafi verið í geðrofsástandi umrætt sinn. Byggir þetta á framburði lögreglumanna og vitna fyrir lögreglu, framburði matsmanna fyrir dómi ásamt geðrannsókn P geðlæknis og framburðar hans fyrir dómi.

Því verður slegið föstu að stefnandi hafi valdið því með hegðan sinni að lögregla taldi brýna nauðsyn bera til þess að handtaka hann umrætt sinn. Lögmaður stefnanda tefldi því fram við aðalmeðferð málsins að ef gengið yrði út frá því að stefnandi hefði verið í geðrofi við handtökuna þá hafi hann ekki gert sér grein fyrir hátterni sínu og því ekki verið meðvitaður um að hegðan hans væri til þess fallin að leiða til handtöku lögreglu. Því verði bótaskyldu ekki hafnað á grundvelli seinni málsliðar 3. mgr. 228. gr.

Dómurinn hafnar þessu sjónarmiði og verður lagt til grundvallar að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það að verkum að hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíku ástandi eða lendir í því af einhverjum orsökum, geti ekki byggt á þessu ákvæði ef viðkomandi sannlega kallar yfir sig lögregluaðgerð s.s. handtöku eins og í þessu máli. Telja verður að slíkt hefði þurft að koma skýrt fram í ákvæðinu sjálfu ef ráðagerð löggjafans var hin gagnstæða.

Ályktun í framangreinda veru má og að mati dómsins byggja á þeim grunnrökum sem búa að baki reglunni um óðs manns víg, í 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, þótt aðstaðan sem þar er lýst sé vissulega önnur.

Með vísan til framangreinds verður því talið að stefnandi hafi sjálfur valdið aðgerðum lögreglu og með því fyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Niðurstaða dómsins er því sú að stefndi beri hvorki bótaábyrgð í málinu á grundvelli almennu sakarreglunnar né á grundvelli þeirrar hlutlægu reglu sem 228. gr. geymir.

Af framangreindu virtu er ekki ástæða til umfjöllunar um hvort það hafi verið handtaka lögreglunnar sem olli því að hluta eða öllu að stefnandi lenti í hjartastoppi eða hvort það hafi verið fyrst og fremst ástand stefnanda sjálfs. Hið sama gildir um þá málsástæðu hvort það að stefndi lenti í hjartastoppi geti talist sennileg afleiðing af lögmætum aðgerðum lögreglu.

Með vísan til framangreinds verður því stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi í málinu sem útgefið var 5. júlí 2012 og því greiðist málkostnaður hans úr ríkissjóði. Að hafðri hliðsjón af málskostnaðarkröfu lögmanns stefnanda sem byggir á tímaskráningu og umfangi málsins er þóknun lögmanns ákveðin 1.800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Fyrir hönd stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda, Ólafur Helgi Árnason hæstaréttarlögmaður.

Dóm þennan kveða upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómsmennirnir Davíð O. Arnar hjartalæknir og Nanna Briem geðlæknir.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda A.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.800.000 krónur.