Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. desember 2006.

Nr. 621/2006.

K

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

M

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.

Falllist var á að skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. væri fullnægt til að opinber skipti færu fram vegna sambúðarslita K og M, þar sem þau áttu börn saman.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og sóknaraðila vegna slita á óvígðri sambúð þeirra. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að málsaðilar bjuggu saman með hléum í nokkur ár og eignuðust saman tvö börn, annað snemma árs 2001 og hitt haustið 2002. Þar sem þau eiga börn saman er fullnægt skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 til að opinber skipti fari fram vegna sambúðarslita þeirra. Ekki er þörf á að fjalla um í máli þessu hve lengi sambúðin stóð eða hvenær hlé urðu á henni. Á þessu stigi er heldur ekki tilefni til að taka afstöðu til þess hvaða eignir komi til skipta, hvernig þær komi til með að skiptast milli aðila eða hvort það hafi áhrif við skiptin að nokkur dráttur varð á að opinberra skipta væri krafist. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2006.

Með kröfu móttekinni 9. júní 2006 hefur M, [kt. og heimilisfang], krafist úrskurðar um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og K, [kt. og heimilsfang], vegna slita á óvígðri sambúð þeirra. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili, K, krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknar­aðila um opinber skipti á ætluðu búi aðila, en til vara að sóknaraðila verði gert að leggja fram skiptatryggingu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

I.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að hann og varnaraðili hafi kynnst haustið 1998 og hafið samband upp úr því. Þau hafi búið í óvígðri sambúð frá maí 2001 samfellt til september 2003 er sóknaraðili hafi flutt af heimilinu. Til að láta reyna á sambandið hafi sóknaraðili aftur flutt á heimilið í byrjun desember 2003 og búið þar til 20. maí 2004. Varnaraðili hafi verið erlendis sumarið 2004. Þau hafi síðan tekið aftur saman í byrjun október 2004 og sóknaraðili flutt inn á heimilið að nýju og búið þar til í byrjun apríl 2005. Loks hafi þau búið saman frá miðjum nóvember 2005 til áramóta það ár. Þau eigi saman dæturnar A, fædda [...] janúar 2001 og B, fædda [...] september 2002. Þau hafi fyrst búið að X, Reykjavík, í íbúð systur sóknar­aðila. Þaðan hafi þau flutt 20. ágúst 2002 í íbúð að Y, Reykjavík, sem hafi verið í eigu ömmu varnaraðila. Hinn 14. febrúar 2003 hafi þau síðan flutt að Z í Reykjavík í íbúð sem þau höfðu keypt árið áður. Varnaraðili hafi búið áfram í íbúðinni með dætrum þeirra eftir að sóknaraðili flutti af heimilinu 1. september 2003. Þá hafi sóknaraðili einnig búið þar þegar aðilar hafi verið að reyna að taka upp sambúð að nýju. Varnaraðili hafi síðan selt íbúðina með kaupsamningi dags. 2. febrúar 2006 og flutt þaðan um mánaðamótin mars/apríl 2006.

Sóknaraðili kveður þau bæði hafa verið skráð með lögheimili að Þ, Reykja­vík, þ.e. á heimili móður varnaraðila, á tímabilinu 19. apríl 2000 til 1. nóvember 2001 en þá hafi hann flutt lögheimili sitt að Æ, Reykjavík. Það hafi hann gert vegna umsóknar varnaraðila um lánafyrirgreiðslu hjá Búnaðarbankanum en varnar­aðila hafi verið tjáð að það gæti haft neikvæð áhrif á lánamöguleika hennar ef hún væri skráð í sambúð með sóknaraðila þar sem gert hafði verið hjá honum árang­urs­laust fjárnám.

Sóknaraðili kveður þau hafa staðið saman að kaupum að íbúðinni að Z, sem sé 4ra herbergja íbúð á 1. hæð, með kaupsamningi dags. 2. apríl 2002. Íbúðin hafi hins vegar eingöngu verið skráð á nafn varnaraðila vegna árangurslausa fjár­námsins. Kaupverð íbúðarinnar hafi verið greitt með útborgunargreiðslum að fjár­hæð kr. 1.085.000, sem sóknaraðili hafi fjármagnað nánast að öllu leyti, og lánum, þ.e. fast­eignaveðbréfi og viðaukaláni frá Íbúðalánasjóð. Greiðsla síðustu afborgunar hafi frestast af ástæðum er vörðuðu seljendur en hana hafi þau greitt í janúar 2004.

Sóknaraðili kveður þau hafa leigt íbúðina út fyrstu 7 mánuðina en síðan ráðist í að gera hana upp. Hann hafi unnið að lagfæringunum allt þar til þau hafi flutt inn þann 14. febrúar 2003. Hann hafi lagt til bæði efni og vinnu auk þess sem vinir hans og mágur hafi unnið með honum. Allar raf- og hitalagnir hafi verið endurnýjaðar, allir út­veggir verið einangraðir upp á nýtt og  ný gólfefni verið sett á næstum öll gólf. Þá hafi hann gert við múr og málað allt húsið að utan, en hann starfi við húsamálun.

Samkvæmt kaupsamningi dags. 2. febrúar 2005 hafi varnaraðili selt íbúðina þeim C og D, fyrir kr. 19.300.000. Áhvílandi veð­skuldir við söluna, þ.e. við Íbúðalánasjóð hafi numið um kr. 11.000.000,.

Sóknaraðili byggir á að nettó söluandvirði íbúðarinnar að Z sé eign félagsbús hans og varnaraðila, þ.e. söluandvirðið að frádregnum áhvílandi veð­skuldum og lífeyrissjóðsláni að fjárhæð um kr. 1.000.000, og hann eigi jafnan eignar­hlut og varnaraðili í eigninni. Sóknaraðili tekur fram að varnaraðili hafi engar eignir átt við upphaf sambúðar þeirra.

Sóknaraðili telur að fullnægt sé skilyrðum fyrir töku bús hans og varnaraðila til opin­berra skipta, þar sem hvort tveggja sé fyrir hendi sambúð þeirra og sameiginleg börn, sbr. skilyrði 100. gr. l. nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Til viðbótar hafi sam­búð þeirra staðið lengur en í tvö ár og fjárhagsleg samstaða verið með þeim á sam­búð­artímanum, sem og að nokkru á þeim tíma er þau reyndu aftur fyrir sér í sambúð. Vísar sóknaraðili til þess að fasteignin hafi verið keypt á sambúðartímanum og þau staðið sameiginlega að kaupum á henni.

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi ítrekað leitað eftir því við varnaraðila að fjár­skipti færu fram í kjölfar sambúðarslita þeirra, en hún ávallt færst undan. Sam­kvæmt bréfi lögmanns hennar frá 20. apríl 2005 sé ljóst að varnaraðili hafni að öllu leyti hlutdeild sóknaraðila í eignamyndun á sambúðartímanum. Þar sem fasteignin hafi nú verið seld, án þess að fjárskipti hafi farið fram, krefjist sóknaraðili þess að gengið verði frá fjárskiptum milli hans og varnaraðila í opinberum skiptum.

Sóknaraðila kveður eignir hans og félagsbús varnaraðila andvirði íbúðarinnar Z, Reykjavík, að frádregnum lánum frá Íbúðalánasjóði að eftir­stöðvum um kr. 11.000.000. Þá muni varnaraðili hafa tekið lífeyrissjóðslán á sam­búð­ar­tímanum að fjárhæð um kr. 1.000.000.       

Um lagarök vísar sóknaraðili til 100. gr. l. nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en einnig til 101. og 104. gr. þeirra laga. Einnig vísar sóknaraðili til meginreglna dóma­framkvæmdar um fjárskipti við sambúðarslit.

II.

Varnaraðili kveðst hafa farið að búa með sóknaraðila á árinu 2000 í kjölfar þess að hún varð ófrísk en skömmu síðar, eða þann 27. júní, hafi sóknaraðili verið dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Eftir að sóknaraðili hafði afplánað fangelsisdóminn hafi orðið ljóst að ekki yrði um frekara samband þeirra að ræða að sinni. Þau hafi því skráð sig úr sambúð 1. nóvember 2001.

Hún hafi með kaupsamningi dags. 20. apríl 2002 keypt íbúð að Z fyrir kr. 10.250.000. Kaupverðið hafi hún sjálf greitt með peningum að fjárhæð kr. 1.085.000 sem hún hafi fjármagnað m.a. með láni frá móður sinni að fjárhæð kr. 300.000 og láni frá Lífeyrissjóði að fjárhæð kr. 1.000.000. Að öðru leyti hafi kaup­verðið verið greitt með fasteignaveðbréfi kr. 6.692.000 og viðbótarláni kr. 2.472.500. Íbúð­ina hafi hún fengið afhenta þegar í stað, en í stað þess að flytja inn í hana hafi hún ákveðið að leigja hana út, m.a. til að kosta endurbætur á henni sem hún hafi ráðist í nokkru síðar. Hafi íbúðin verið í útleigu allt til nóvember 2002. Hún hafi eignast annað barn með sóknaraðila 9. september 2002 án þess að vera í sambúð með honum. Tæp­lega ári eftir að varnaraðili keypti íbúðina hafi aðilar farið að draga sig saman að nýju. Hafi þau ákveðið að láta reyna á sambandið með þeim hætti að sóknaraðili hafi flutt inn á heimili varnaraðila þegar nokkuð var liðið á árið 2003. Sóknaraðili hafi búið þar slitrótt fram til ágúst sama ár þegar slitnað hafi endanlega upp úr sam­band­inu. Sóknaraðili hafi um tíma geymt hluta af eigum sínum inn á heimili varnaraðila.

Varnaraðili hafnar því að hún hafi verið í óvígðri sambúð með sóknaraðila sam­fellt í tvö ár í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991. Þá byggir varnaraðili á því að það eitt að aðilar hafi eignast börn saman á árunum 2001 og 2002 leiði ekki til þess að unnt sé að ná fram opinberum skiptum á ætluðu búi þeirra. Telur varnaraðili að krafa sókn­ar­aðila um opinber skipti ráðist af einhverjum annarlegum sjónarmiðum, en hún hafi ítrekað þurft að óska eftir aðstoð lögreglu vegna hótana sóknaraðila og ofsókna í sinn garð.

Varnaraðili byggir á að samningur hafi orðið með aðilum um að hvort þeirra um sig gengi út úr hinni ætluðu sambúð með eigur sínar. Staðfesti tómlæti sóknaraðila að sam­komulag hafi verið um þau skipti á ætluðu búi aðila. Þá byggir varnaraðili á því að tóm­læti sóknaraðila til margra ára staðfesti að sameiginlegar eignir séu engar og leiði til þess að ekki sé unnt að óska eftir opinberum skiptum nú.

Varnaraðili vekur athygli á því að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að 100. gr. laga nr. 20/1991 sé kveðið á um að heimilt sé að leita opinberra skipta til fjár­slita við lok óvígðrar sambúðar. Samkvæmt orðanna hljóðan þurfi slík krafa að koma fram í kjölfar loka sambúðar en ekki löngu síðar, þ.m.t. þegar eignir aðila séu allt aðrar en við slit á sambúð. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila sem höfð sé uppi tæplega þremur árum eftir að aðilar bjuggu síðast saman og þá í mjög skamman tíma, og það eftir að varnaraðili hafði fest kaup á fasteigninni.

Þá beri sérstaklega að líta til þess að sóknaraðili líti svo á að ekki sé um aðrar eignir að ræða í ætluðu búi aðila en fasteignina að Z. Fyrir liggi að fast­eignin hafi verið seld og því séu engar eignir til að skipta. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili verði, telji hann sig eiga kröfu á varnaraðila, að höfða mál til greiðslu ætl­aðrar hlutdeildar í fasteigninni eða til viðurkenningar á eignarhlut sínum.

Varnaraðili bendir á að fasteignin hafi verið keypt þegar aðilar hafi ekki verið í sam­búð. Geti sóknaraðili eðli máls samkvæmt ekki komið fram opinberum skiptum á eign eða ætluðum söluhagnaði eignar sem varnaraðili sé einn eigandi að og hafi sann­ar­lega keypt ein eftir að sambúð aðila lauk, og áður en aðilar gerðu tilraun til að láta reyna á samband sitt að nýju um skamma hríð á árinu 2003 án þess að um eiginlega sam­búð hafi verið að ræða. Beri sérstaklega að líta til þess að aldrei hafi verið fjár­félag með aðilum, en ljóst megi vera að teknu tilliti til 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 og eðli máls, að um fjárslit skv. 100. gr. sömu laga geti ekki verið að ræða nema fjárfélag hafi verið með aðilum.

Varnaraðili bendir á að hjá sóknaraðila komi fram að hann hafi verið með öllu eigna­laus til fjölda ára, eða a.m.k. frá maí 2001 þegar gert hafi verið hjá honum árang­urs­laust fjárnám. Fyrir liggi að, ítrekað hafi verið gert hjá sóknaraðila árangurslaust fjár­nám eftir það, m.a. vegna vangreidds meðlags, skatta o.fl. Því sé fullkomlega ljóst að sóknaraðili hafi aldrei átt möguleika á að standa að kaupum fasteignar. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafði verið án vinnutekna í langan tíma þegar fasteignin hafi verið keypt en sóknaraðili hafi hlotið tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm á árinu 2000 og eftir það hafi hann setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á öðrum refsimálum. Með vísan til framangreinds megi ljóst vera að sóknaraðili geti engan þátt hafa átt í kaupum fasteignarinnar, enda hafi hann engin gögn lagt fram sem geri sennilegt að hann hafi tekið þátt í þeim. Leggur varnaraðili áherslu á að hún hafi verið ein kaup­andi fasteignarinnar, greitt kaupverðið ein og greitt afborganir lána. Þá hafi varnaraðili fengið fasteigninni afsalað til sín sem 100% eigandi og greitt annan kostnað sem henni hafi fylgt allt fram til þess að eignin hafi verið seld og það án aðkomu sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að svo unnt sé að fá úrskurð um opinber skipti á búi ætlaðs sambúðarfólks verði sá sem setur fram kröfuna að gera sennilegt að báðir aðilar eigi saman einhverjar eignir og þá að sjálfsögðu þá eign sem hann tilgreinir í beiðni sinni. Leiði það m.a. af eðli máls og grundvallarsjónarmiðum skiptaréttar. Sóknaraðili hafi engin gögn lagt fram um ætlaða þátttöku í kaupum á fasteigninni né hafi hann gert líklegt að hann hafi lagt fram fjármuni til kaupanna eða haft til þess burði, enda ljóst að hann hafi verið með öllu eignalaus og sé enn. Megi ljóst vera að opinber skipti væru aðeins til tjóns fyrir varnaraðila enda sóknaraðili eignalaus og eignir varnaraðila því aðeins undir skiptum, þ.m.t. til ráðstöfunar til greiðslu skiptakostnaðar.

Varnaraðili krefst þess til vara að sóknaraðila verði gert að leggja fram skipta­trygg­ingu verði fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti. Bendir varnaraðili á að sókn­araðili hafi hafnað að leggja fram skiptatryggingu og vísað til þess að eignir bús­ins sé áætlaður söluhagnaður af fasteigninni að Z. Þannig hafi sókn­ar­aðili hug á að láta skiptin fara fram á kostnað varnaraðila sem hafi verið 100% eigandi eign­arinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 101. gr. l. nr. 20/1991 skuli krafa um opinber skipti ekki tekin til greina nema telja megi sýnt framá að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði. Í ákvæðinu sé verið að vísa til sameiginlegra eigna búsins enda beri sá sem krefjist skipta ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar. Þannig geti sóknaraðili ekki vísað til eigna varnar­aðila eða eigna sem ágreiningur sé um hvort standa skuli utan skipta eða ekki. Þar sem sóknaraðili sé þeirrar skoðunar að aðrar eignir séu ekki til skipta verði ekki fall­ist á kröfu um opinber skipti nema því aðeins að sóknaraðili leggi fram skipta­trygg­ingu sem þurfi að vera rífleg, m.a. í ljósi þess að sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á ætlaða þátttöku sína í kaupum á fasteigninni, og í ljósi bágrar fjár­hags­stöðu verði að telja mjög ólíklegt að unnt verði að ná fram greiðslu skiptakostnaðar frá sókn­araðila á síðari stigum. Megi því ljóst vera að veruleg hætta sé á að eignum varnar­aðila verði ráðstafað til greiðslu kostnaðar. Því mótmælir varnaraðili sérstaklega enda beri sóknaraðili ábyrgð á skiptakostnaði lögum samkvæmt sem skiptabeiðandi.

III.

Samkvæmt vottorði þjóðskrár voru málsaðilar skráðir í sambúð frá 19. apríl 2000 til 1. nóvember 2001. Á sambúðartímanum eða þann [...] janúar 2001 eignuðust þau dóttur. Ekki er um það að ræða að málsaðilar hafi verið skráðir í sambúð eftir 1. nóvember 2001 en þá greinir verulega á um með hverjum hætti sambúð þeirra var eftir það. Þannig kveður sóknaraðili sambúð þeirra hafa varað samfellt frá maí 2001 til september 2003. Síðan hafi þau tekið upp sambúð að nýju í byrjun desember það ár og hafi hún staðið til maí 2004. Þá hafi þau verið í sambúð frá október sama ár til apríl 2005 og einnig frá miðjum nóvember það ár til áramóta.

Varnaraðili heldur því hins vegar fram að þau hafi ekki verið í sambúð eftir sam­búð­arslitin í nóvember 2001 ef frá er talinn stuttur tími á árinu 2003 þegar þau hafi ákveðið að láta reyna á sambandið eftir að hafa eignast aðra dóttur sem hafi fæðst [...] september 2002. Hafi sóknaraðili flutt inn á heimili hennar þegar nokkuð var liðið á árið og búið þar slitrótt fram í ágúst þegar endanlega hafa slitnað upp úr sambandi þeirra.

Vitnið E bar fyrir dóminum að aðilar hafi verið í sambúð frá 20. maí 2001 til 1. september 2003. Ekki er við framburð annarra að styðjast hvað það varðar að sambúð aðila hafi staðið óslitið frá 20. maí 2001 og verður því að telja það ósannað. Hins vegar þykir verða að telja sannað með framburði vitnanna F, G og H að aðilar hafi a.m.k. búið saman frá 14. febrúar 2003 til 1. september það ár. Sambúð eftir það þykir hins vegar ósönnuð.

Samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 koma aðeins til skipta þær eignir og réttindi sem tilheyrðu aðilum þegar óvígðri sambúð var slitið ef ekki verða sammæli um annað. Fyrir liggur að varnaraðili keypti íbúðina að Z með kaup­samn­ingi dagsettum 20. apríl 2002 en samkvæmt því sem að framan er rakið verður að telja ósannað að aðilar hafi þá verið í sambúð. Hins vegar liggur fyrir að aðilar fluttu saman í íbúðina með börn sín 14. febrúar 2003 og bjuggu þar saman til 1. september s.á. er upp úr sambúð þeirra slitnaði. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi ekki einungis keypt íbúðina með varnaraðila heldur að hann hafi unnið umfangsmiklum endurbótum á henni með aðstoð vina og vandamanns og lagt til efni. Rennir framburður vitna stoðum undir staðhæfingar sóknaraðila varðandi vinnu hans að endurbótum eign­ar­innar en varnaraðili hefur ekki mótmælt staðhæfingum sóknaraðila þar að lútandi.

Sóknaraðili krefst opinberra skipta til að koma fram uppgjöri vegna kröfu hans um hlutdeild í íbúðinni.

Í XIV. kafla laga nr. 20/1991 eru ekki gefnir neinir frestir til að setja fram kröfu um opinber skipti. Eins og að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að byggja verði á að sambúð aðila hafi lokið 1. september 2003. Krafa sóknaraðila um búskipti er móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. júní 2006, eða tæpum þremur árum eftir að sambúðinni lauk. Til þess er þó að líta að með bréfi dags. 30. ágúst 2004 krafði sóknaraðili varnaraðila um fjárhagslegt uppgjör vegna sambúðarslitanna. Þegar það er virt sem og atvik málsins að öðru leyti þykir réttur sóknaraðila til að setja fram kröfu um opinber ekki vera svo verulegur að hann sé niður fallinn sökum tómlætis.

Samkvæmt því og þar sem að aðilar voru sannanlega í sambúð á árinu 2003 og þar sem að fyrir liggur að þau eiga saman börn er uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. fyrir því að opinber skipti fari fram til fjárslita á milli þeirra. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að opinber skipti fari fram til fjár­slita milli hans og varnaraðila.

Samkvæmt 3. mgr. 101 gr. l. nr. 20/1991 verður krafa um opinber skipti því aðeins tekin til greina að telja megi sýnt af því sem fram er komið að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði eða sá sem hefur kröfuna uppi setji tryggingu fyrir honum. Ekkert liggur fyrir um það hvort andvirði eignar þeirrar er skiptin varða er enn til staðar. Hefur sóknaraðili þannig ekki sýnt fram á að ljóst sé af því sem fram er komið að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði. Verður því ekki hjá því komist að fallast á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili setji fram skiptatryggingu. Fjárhæð tryggingar ákveðst kr. 250.000.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, M, um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, K, vegna slita á óvígðri sambúð þeirra.

Sóknaraðili skal leggja fram skiptatryggingu að upphæð 250.000 krónur.

Málskostnaður fellur niður.