Hæstiréttur íslands
Mál nr. 585/2012
Lykilorð
- Hlutafélag
- Samruni
- Hlutafé
- Ógilding
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 26. mars 2013. |
|
Nr. 585/2012.
|
Stilla útgerð ehf. KG fiskverkun ehf. og Guðmundur Kristjánsson (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn Vinnslustöðinni hf. (Helgi Jóhannesson hrl. Björgvin Þórðarson hdl.) |
Hlutafélag. Samruni. Hlutafé. Ógilding. Sératkvæði.
Með samningi 10. maí 2011 seldi V hf. eigin hluti, sem jafngiltu 2,5% af heildarhlutafé í félaginu, til U ehf., EG og EJ gegn afhendingu hlutafjár í U ehf., sem jafngilti 28,88% af heildarhlutafé þess félags. Í kaupsamningnum var meðal annars tiltekið að forsendur viðskiptanna væru þær að V hf. og U ehf. yrðu sameinuð eins fljótt og auðið væri og eigi síðar en 31. desember 2011. Þá var í kaupsamningnum mælt fyrir um að gengi sameiningin ekki eftir hefðu samningsaðilar rétt til að lýsa því yfir að samningurinn væri niður fallinn. Tillaga um að samþykkja fyrirliggjandi kaupsamning var samþykkt á hluthafafundi V hf. 20. maí 2011 og hin seldu hlutabréf í V hf. voru afhent 14. júní sama ár. Á hluthafafundi V hf. 21. september 2011 voru samþykktar tillögur um samruna félagsins og U ehf. og hækkun hlutafjár í V hf. í tengslum við samrunann, þar sem fallið var frá forgangsrétti hluthafa í V hf. til áskriftar að nýju hlutafé. Einungis S ehf., K ehf. og G greiddu atkvæði gegn tillögunum og atkvæði, sem fylgdu eigin hlutum V hf. sem seldir voru með kaupsamningnum 10. maí 2011, réðu úrslitum um hvort tilskilinn meirihluti væri fyrir tillögunum. S ehf., K ehf. og G höfðuðu mál á hendur V hf. og kröfðust ógildingar á ákvörðunum hluthafafundarins um fyrrgreindar tillögur, einkum með vísan til ætlaðs annmarka á atkvæðagreiðslu fundarins. Báru aðilarnir því við að greidd hefðu verið atkvæði í skjóli hlutafjárins sem selt var 10. maí 2011 í andstöðu við 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Reglu þess ákvæðis, um að atkvæðisréttur fylgi ekki eigin hlutum félags, væri ætlað að tryggja minnihlutavernd hluthafa. Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að samningur V hf. við U ehf. 10. maí 2011 hefði engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í V hf. og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 væri ætlað að tryggja hluthöfum. Því hafi á hluthafafundi V hf. 21. september 2011 borið að líta á þá hluti, sem kaupsamningurinn tók til, sem eigin hluti V hf., sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. febrúar 2005 í máli nr. 48/2005, sem birtur var í dómasafni réttarins árið 2005 á bls. 730. Þar sem atkvæði hefðu verið greidd í skjóli þessara hluta um fyrrgreindar ákvarðanir, yrði fallist á með S ehf., K ehf. og G að þær hefðu verið teknar með ólögmætum hætti og sættu því ógildingu samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. september 2012. Þeir krefjast ógildingar á ákvörðun hluthafafundar í stefnda 21. september 2011 um að samþykkja svohljóðandi tillögur: „Hluthafafundurinn samþykki samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við Vinnslustöðina hf. Greiðsla skal innt af hendi með afhendingu eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar, sem eru í dag að nafnverði EUR 237.611 og afhendingu á ný útgefnu hlutafé, sbr. 5. lið dagskrár að nafnverði EUR 299.057“ og „Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé félagsins um EUR 299.057 vegna samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. Forgangsréttur hluthafa til áskriftar gildir ekki um hið nýja hlutafé. Stjórn félagsins skal nýta hlutaféð sem greiðslu í tengslum við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar. Heildarhlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. eftir hlutafjáraukninguna nemur EUR 17.459.145“. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Ufsaberg-útgerð ehf., Eyjólfur Guðjónsson og Elínborg Jónsdóttir sem kaupendur og stefndi sem seljandi gerðu kaupsamning 10. maí 2011. Hið selda var eigið hlutafé stefnda að nafnvirði 429.002 evrur, sem jafngilti 2,5% af heildarhlutafé í félaginu. Kaupverðið skyldi greitt með afhendingu hlutafjár í Ufsabergi-útgerð ehf. að nafnverði 15.800.000 krónur, sem var 28,88% af heildarhlutafé félagsins. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki hluthafafundur í stefnda, en afhending hins selda og greiðsla kaupverðs skyldi ekki fara fram fyrr en fyrir lægi að Samkeppniseftirlitið teldi kaupin ekki tilkynningarskyld og gerði ekki athugasemdir við viðskiptin. Þegar þetta hvort tveggja lægi fyrir skyldi greiða kaupverðið með afhendingu á uppfærðri hluthafaskrá í Ufsabergi-útgerð ehf. og afhenda hin keyptu hlutabréf í stefnda inn á svonefnda VS-reikninga kaupendanna þriggja. Í samningnum var kveðið á um að öll réttindi sem fylgdu seldu hlutafé skyldu flytjast til kaupenda við afhendingu hlutanna, svo sem réttur til arðs og forgangsréttur að nýju hlutafé, og hið sama skyldi gilda varðandi það hlutafé í Ufsabergi-útgerð ehf. sem afhent væri sem greiðsla kaupverðs. Í kaupsamningnum var sérstakur kafli um forsendur kaupanna. Sagði þar í grein 3.1. að það væru forsendur kaupenda fyrir gerð samningsins að stefndi og Ufsaberg-útgerð ehf. yrðu sameinuð eins fljótt og auðið væri og eigi síðar en 31. desember 2011. Skyldi í tillögu til sameiningar miða við sama skiptihlutfall og lagt væri til grundvallar í kaupsamningnum þannig að kaupendur myndu fá til viðbótar hlutafé í stefnda, sem næmi 3,074% heildarhlutafjár í félaginu eftir samrunann. Var tekið fram að samkvæmt því myndu „kaupendur fá hlutafé í VSV að nafnverði 965.670 eða sem nemur 5,53% af heildarhlutafé VSV eftir samruna.“ Þá var í grein 3.2. kveðið á um að gengi sameiningin ekki eftir í samræmi við grein 3.1. hefðu báðir aðilar rétt til að lýsa því yfir að kaupsamningurinn væri niður fallinn. Í því fælist að hvor aðili gæti skilað hlutafénu sem hann hefði fengið sem gagngjald og væri þá gagnaðilinn skuldbundinn til að skila því hlutfé sem hann hefði fengið á grundvelli samningsins. Niðurstaðan yrði sú sama og samningurinn hefði aldrei verið gerður og gæti hvorugur aðilinn öðlast bótakröfu á hendur hinum. Tengd þessum ákvæðum var grein 2.4. í samningnum, þar sem kveðið var á um að greiðsla arðs af hlutafé í stefnda sem félli í skaut kaupenda skyldi geymd hjá honum þar til sameining félaganna væri um garð gengin, en renna til stefnda ef kaupin gengju til baka.
Eftir gerð kaupsamningsins ritaði stefndi bréf 13. maí 2011 til Samkeppniseftirlitsins og leitaði eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort fyrirhugaður samruni væri tilkynningarskyldur. Í bréfinu var tekið fram að „samruna þennan verður að framkvæma fyrir 31. desember nk., ellegar munu viðskipti aðila ganga tilbaka.“ Samkeppniseftirlitið svaraði bréfinu 31. maí 2011 og upplýsti að það teldi ekki ástæðu til að aðhafast vegna samrunans. Hlutahafafundur var haldinn í stefnda 20. maí 2011, þar sem borin var upp tillaga um að samþykkja framagreindan kaupsamning. Á fundinum var mætt fyrir rúm 98,49% virkra atkvæða í félaginu og tillagan samþykkt með tæpum 66,2% greiddra atkvæða en tæp 33,8% voru á móti. Í samræmi við ákvæði kaupsamningsins var kaupverðið greitt 31. maí 2011 með afhendingu uppfærðar hluthafaskrár í Ufsabergi-útgerð ehf. og hin seldu hlutabréf afhent 14. júní sama ár með framsali þeirra inn á rafræna VS-reikninga kaupendanna. Kaupendurnir mættu á aðalfund stefnda 30. júní 2011 og hluthafafund 22. ágúst sama ár og virðast hafa nýtt atkvæðisrétt vegna hinna keyptu hluta án athugasemda. Á aðalfundinum var meðal annars samþykkt með rúmlega 2/3 hlutum atkvæða að stjórn stefnda nýtti eigin hluti í félaginu sem gagngjald fyrir hlutabréf í Ufsabergi-Útgerð ehf. „í tengslum við mögulega sameiningu félaganna“, svo sem komist var að orði í fundargerð.
Gögn varðandi samruna félaganna voru lögð fyrir stjórnarfund stefnda 29. júní 2011. Á fundinn mætti Þorvarður Gunnarsson endurskoðandi stefnda og fór yfir gögnin. Samrunaáætlun var samþykkt á fundinum með atkvæðum þriggja stjórnarmanna gegn atkvæðum tveggja. Á hluthafafundi í stefnda 21. september 2011 voru teknar fyrir áðurgreindar tillögur um samruna félaganna og hækkun hlutafjár í stefnda í tengslum við samrunann, en þar var sem fyrr segir gerð tillaga um að fallið yrði frá forgangsrétti hluthafa í stefnda til áskriftar á nýju hlutafé. Fundarboð til þessa fundar er ekki meðal gagna málsins en áfrýjendur halda því fram að í því hafi hvorki verið að finna umfjöllun um ástæðu þess að vikið væri frá áskriftarrétti hluthafa á nýju hlutafé né rökstuðning fyrir tillögu um áskriftargengi svo sem boðið væri í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þessum fullyrðingum um efni fundarboðsins hefur ekki sérstaklega verið andmælt af stefnda. Á hluthafafundinum létu áfrýjendur bóka athugasemdir við töku ákvarðana um samrunann og samrunagögn sem fyrir fundinum lágu. Í bókuninni var því meðal annars mótmælt að atkvæðisréttur á fundinum fylgdi þeim hlutum í stefnda sem seldir hefðu verið með kaupsamningnum 10. maí 2011, því haldið fram að áfrýjendur ættu forkaupsrétt að nýjum hlutum og að efnislegir annmarkar væru á samrunaskjölum. Þeir annmarkar fælust í því að ekki kæmi fram frá hvaða tíma réttur til arðs fylgdi hlutabréfum í stefnda sem væru gagngjald við samrunann, fyrir fundinum lægi sameiginleg skýrsla stjórna félaganna um samrunann og sameiginleg samrunaskýrsla matsmanns fyrir þau bæði, en hvort tveggja væri andstætt ákvæðum laga nr. 2/1995 auk þess sem ekki væri í síðastnefndu skýrslunni að finna yfirlýsingu matsmanns um hvort endurgjald fyrir hlutina í yfirtekna félaginu væri sanngjarnt. Á fundinum fór Þorvarður Gunnarsson yfir þau samrunagögn er fyrir lágu, en hann var matsmaður vegna samrunans og hafði undirritað sameiginlega skýrslu vegna beggja félaganna um samrunaáætlunina. Í fundargerð hluthafafundarins er svofelld bókun um afstöðu hans til samrunagagnanna: „Að mati endurskoðenda var eðlilega staðið að samruna félaganna og hann rýri ekki möguleika lánardrottna á innheimtu krafna sinna.“ Við svo búið voru tillögur um samrunann og hækkun hlutafjár í stefnda bornar upp, að virðist í einu lagi, og samþykktar með 67,58% greiddra atkvæða eða sem svaraði 67,37% allra virkra atkvæða að teknu tilliti til eigin hluta stefnda, en á móti voru 32,42% greiddra atkvæða eða 32,32% virkra atkvæða. Krafa áfrýjenda í máli þessu beinist að því að fá þessar ákvarðanir ógiltar, en þær eru orðrétt teknar upp í kröfugerð þeirra hér að framan. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjendur einir hafi greitt atkvæði gegn tillögunum, svo og að atkvæði er fylgdu þeim eigin hlutum í stefnda, sem seldir voru með kaupsamningnum 10. maí 2011, hafi ráðið úrslitum um hvort tveir þriðju hlutar atkvæða væru fyrir tillögunum, en mætt var af hálfu kaupendanna á hluthafafundinum.
II
Áfrýjendur reisa kröfu sína einkum á því að sá annmarki hafi verið á atkvæðagreiðslu um tillögur um samruna og hlutfjáraukningu á hluthafafundinum í stefnda 21. september 2011 að greidd hafi verið atkvæði í skjóli þess hlutafjár sem kaupsamningurinn 10. maí 2011 hafi fjallað um, en það hafi ekki verið heimilt. Líta verði svo á að hlutirnir hafi þá enn verið í eigu stefnda og þeim hafi því ekki fylgt atkvæðisréttur samkvæmt 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995, en reglunni um að atkvæðisréttur fylgi ekki eigin hlutum félags sé ætlað að tryggja minnihlutavernd hluthafa.
Samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins skyldu öll réttindi sem fylgdu hinu selda hlutafé flytjast til kaupenda við afhendingu hlutanna. Þegar fullnægt var skilyrðum samningsins, er lutu að afstöðu Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar í stefnda, fór afhending hlutanna í stefnda fram í samræmi við ákvæði samningsins með rafrænni skráningu þeirra á VS-reikninga á nöfnum kaupenda. Verður því hvorki fallist á með áfrýjendum að kaupsamningurinn hafi verið bundinn frestskilyrði né að hann hafi verið gerður til málamynda í þeim skilningi að honum hafi ekki verið ætlað að hafa þau réttaráhrif sem þar var kveðið á um. Í samningnum var á hinn bóginn ákvæði um að aðilar að honum hefðu hver fyrir sitt leyti rétt til að lýsa því yfir að hann væri fallinn niður ef ekki yrði af fyrirhuguðum samruna félaganna. Þannig var búið um hnútana að yrði þessi heimild nýtt féllu öll réttaráhrif samningsins niður og staðan yrði eins og hann hefði aldrei verið gerður. Að auki tryggði stefndi það að áfallinn arður af hlutunum yrði ekki greiddur kaupendunum með því að kveðið var svo á að þessi arður yrði geymdur hjá stefnda og kæmi ekki til greiðslu uns ljóst yrði hvort af samruna yrði. Í samningnum var um að ræða heimild aðilanna að honum til að lýsa hann niður fallinn ef ekki yrði af fyrirhuguðum samruna, en framangreind ummæli í bréfi stefnda til Samkeppniseftirlitsins 13. maí 2011 sýna að af hans hálfu var út frá því gengið að samningurinn félli niður ef ekki yrði af samrunanum. Í grein 3.1. í samningnum voru bein ákvæði er lutu að framkvæmdaratriðum við fyrirhugaðan samruna félaganna og hvert verða skyldi nafnverð heildarhlutar kaupenda í stefnda, þar með taldir hlutir sem fengnir yrðu með hlutafjáraukningu, svo og hlutfall kaupenda af heildarhlutafé félagsins eftir samrunann. Þetta sýnir að samningurinn var í raun hluti af samkomulagi aðila hans um samruna félaganna og verður ekki séð að hann hafi haft neinn sjálfstæðan tilgang, sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna, annan en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta stefnda.
Löggjöf um hlutafélög byggir ekki aðeins á þeirri meginreglu að meiri hluti hluthafa ráði að jafnaði ákvörðunum á hluthafafundi og fari þannig með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 2/1995, heldur einnig á meginreglu um jafnræði hluthafa og sér henni víða stað í þeim lögum. Í 3. mgr. 82. gr. laganna segir að eigin hlutir félags og hlutir, sem dótturfélag á í móðurfélagi, njóti ekki atkvæðisréttar og að slíkir hlutir skuli ekki taldir með þegar áskilið er samþykki allra hluthafa, ákveðins meiri hluta alls hlutafjár eða hlutafjár sem farið er með á hluthafafundi. Í lögskýringargögnum um 4. mgr. 65. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög, sem var samhljóða 3. mgr. 82. gr. núgildandi laga um sama efni, sagði að samkvæmt eldri lögum fylgdi atkvæðisréttur þeim hlutum í hlutafélagi, sem það ætti sjálft, og færi félagsstjórn yfirleitt með atkvæðisrétt fyrir slíka hluti. Sú skipan væri mjög óheppileg og gæti leitt til óeðlilega mikils valds stjórnar, enda væri víðast hvar erlendis lagt bann við atkvæðisrétti fyrir eigin hluti, jafnframt því sem slíkri hlutabréfaeign væru yfirleitt settar miklar skorður. Samkvæmt áðursögðu verður að líta svo á að samningur stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. 10. maí 2011 hafi engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 er ætlað að tryggja hluthöfum. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að á hluthafafundinum 21. september 2011 hafi borið að líta á þá hluti, sem kaupsamningurinn tók til, sem eigin hluti stefnda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. febrúar 2005 í máli nr. 48/2005, sem birtur er dómasafni þess árs á bls. 730. Þar sem atkvæði voru greidd í skjóli þessara hluta um ákvarðanirnar, sem áfrýjendur krefjast að ógiltar verði, verður fallist á með þeim að þær hafi verið teknar með ólögmætum hætti og sæti því ógildingu samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995.
Stefndi verður dæmdur til að greiða hverjum áfrýjanda fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ógilt er ákvörðun hluthafafundar í stefnda, Vinnslustöðinni hf., 21. september 2011 um að samþykkja eftirfarandi tillögur: „Hluthafafundurinn samþykki samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við Vinnslustöðina hf. Greiðsla skal innt af hendi með afhendingu eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar, sem eru í dag að nafnverði EUR 237.611 og afhendingu á ný útgefnu hlutafé, sbr. 5. lið dagskrár að nafnverði EUR 299.057“ og „Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé félagsins um EUR 299.057 vegna samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. Forgangsréttur hluthafa til áskriftar gildir ekki um hið nýja hlutafé. Stjórn félagsins skal nýta hlutaféð sem greiðslu í tengslum við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar. Heildarhlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. eftir hlutafjáraukninguna nemur EUR 17.459.145“.
Stefndi greiði áfrýjendum, Stillu útgerð ehf., KG fiskverkun ehf. og Guðmundi Kristjánssyni, hverjum fyrir sig samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Gretu Baldursdóttur og
Gunnlaugs Claessen
I
Með kaupsamningi 4. mars 2008 keypti stefndi 35% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. Kaupverðið mun í það sinn hafa verið greitt með öðrum verðmætum en eigin hlutafé í stefnda svo sem gert var við síðari kaup á árinu 2011. Annar áfangi í kaupum stefnda á Ufsabergi-útgerð ehf. var gerður með samningi 10. maí 2011 sem að forminu til var um sölu á hlutabréfum í stefnda. Með honum eignaðist stefndi 28,88% alls hlutafjár í félaginu, en fyrir hlutinn skyldi stefndi greiða með 2,5% hlutafjár í stefnda sjálfum. Lokaáfanga skyldi náð samkvæmt sama samningi með samruna félaganna við yfirtöku stefnda á Ufsabergi-útgerð ehf. fyrir lok árs 2011. Tillaga meirihluta stjórnar stefnda um það var samþykkt á hluthafafundi í stefnda 21. september 2011 með atkvæðum 117 hluthafa gegn atkvæðum áfrýjenda og sama dag var tillaga um samruna samþykkt á aðalfundi í Ufsabergi-útgerð ehf. Fyrir hlutinn í síðarnefnda félaginu, sem stefndi eignaðist með samruna í þessum þriðja og síðasta áfanga, skyldi hann greiða með 3,074% af eigin hlutafé, en þar af var tæpur helmingur í eigu stefnda sjálfs. Rúmur helmingur kom á hinn bóginn með hækkun hlutafjár í stefnda sem samþykkt var á hluthafafundinum 21. september 2011. Áfrýjendur lýstu sig andvíga áformum um kaup á Ufsabergi-útgerð ehf. þegar við gerð kaupsamningsins 2008 og töldu að yfirverð hafi verið greitt fyrir hann. Hið sama hafi átt við um kaupverð í síðari áföngum. Stefndi hefur á hinn bóginn haldið fram að kaupin væru honum verulega hagstæð vegna samlegðaráhrifa af því að reka félögin í náinni samvinnu og síðan af samruna þeirra. Slíkt komi öllum hluthöfum til góða, jafnt áfrýjendum sem öðrum.
Í kaupsamningnum 10. maí 2011 voru gerðir tveir fyrirvarar. Var annar sá að samþykki hluthafafundar í stefnda fengist fyrir samningnum en hinn var þess efnis að afhending hins selda og greiðsla kaupverðs færi ekki fram fyrr en staðfesting Samkeppniseftirlitsins lægi fyrir um að kaupin væru ekki tilkynningarskyld samkvæmt 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og að stofnunin gerði ekki athugasemdir við viðskiptin. Hluthafafundur í stefnda 20. maí 2011 veitti samþykki sitt og jákvætt svar Samkeppniseftirlitsins fékkst 31. sama mánaðar. Stefndi afhenti síðan seljendum 2,5% hlutafjár í stefnda 14. júní 2011. Viðsemjendur hans höfðu þá þegar eða 31. maí sama ár afhent honum 28,88% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. í samræmi við samninginn.
II
Af hálfu áfrýjenda er því borið við að 2,5% hlutur í stefnda, sem afhentur var seljendum hlutafjár í Ufsabergi-útgerð ehf. 14. júní 2011, hafi enn verið í eigu stefnda þegar viðtakendur hans nýttu hlutinn við atkvæðagreiðslu á hluthafafundi 21. september 2011. Því verði að líta svo á að gerningurinn 10. maí sama ár hafi farið í bága við 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Um þetta tökum við fram að við erum sammála meirihluta dómenda um að gerningurinn hafi hvorki verið bundinn frestskilyrði né hafi hann verið gerður til málamynda í þeim skilningi að honum hafi ekki verið ætlað að hafa þau réttaráhrif sem þar var kveðið á um. Þá er til þess að líta að hluthafafundur í stefnda 20. maí 2011 tók afstöðu til hluta af efni þess samnings sem um ræðir. Það var gert með þeim hætti að samþykkt voru kaup á 28,88% hlutafjár í Ufsabergi-útgerð ehf. gegn greiðslu á 2,5% hlutafjár í stefnda sem þá var í eigu félagsins. Samþykkið var hvorki háð skilyrðum um síðari samruna félaganna né voru takmarkanir settar um það hvaða réttindi skyldu yfirfærast við afhendingu hlutarins í stefnda. Hann var því afhentur til fullra umráða með sama hætti og hlutabréf í Ufsabergi-útgerð ehf. sem stefndi tók við í lok maí 2011, en í skjóli þeirra var stefndi kominn með meirihlutavald í því félagi og gat stjórnað málefnum þess og rekstri í samræmi við það. Þá var haldinn aðalfundur í stefnda 30. júní 2011 þar sem mættir voru fulltrúar fyrir 99,85% hlutafjár og þar með einnig áðurnefndan 2,5% hlut. Ómótmælt er að eigendur hans hafi án athugasemda af hálfu áfrýjenda greitt atkvæði um þær tillögur, sem bornar voru undir hluthafa, en meðal þeirra var sú að stjórn félagsins skyldi nýta hluti, sem stefndi átti enn í sjálfum sér, sem gagngjald fyrir hlutabréf í Ufsabergi-útgerð ehf. í tengslum við hugsanlega sameiningu félaganna. Nýir eigendur nýttu einnig 2,5% hlut sinn án athugasemda af hálfu áfrýjenda á hluthafafundi í stefnda 22. ágúst 2011.
Samningurinn 10. maí 2011 hafði að geyma áskilnað um að mega lýsa yfir að hann væri fallinn niður gengi sameining félaganna ekki eftir. Í málatilbúnaði stefnda er lögð áhersla á að hér hafi einungis verið um heimild að ræða og að kaupin gengju ekki til baka nema því aðeins að sérstök ákvörðun yrði tekin um það. Í dómi meirihluta réttarins greinir frá bréfi lögmanns stefnda til Samkeppniseftirlitsins 13. maí 2011 þar sem leitað var eftir samþykki og komist svo að orði að viðskiptin myndu ganga til baka yrði ekki af samruna fyrir 31. desember sama ár. Ekki liggur fyrir nein fundargerð stjórnar stefnda frá tímabilinu 10. til 13. maí sem stutt getur þessi ummæli og ekkert er að öðru leyti komið fram um að stjórnin eða meirihluti hennar hafi fyrir eða eftir 13. maí 2011 tekið ákvörðun um að nýta þessa heimild yrði ekki af sameiningu félaganna. Hvað sem líður orðalagi í bréfi lögmannsins eru því engin efni til að leggja til grundvallar að slík ákvörðun hafi verið tekin. Kaup stefnda á Ufsabergi-útgerð ehf. í áföngum höfðu sýnilega sjálfstæðan tilgang sem tengdist því hvort endurgjald skyldi greitt af rekstrarfé, með skuldsetningu, afhendingu eigna eða aukningu hlutafjár þar sem tveir síðastnefndu kostirnir voru valdir. Að virtu öllu því sem að framan greinir teljum við ókleift að líta svo á að áðurnefndur 2,5% hlutur í stefnda hafi enn verið í eigu hans 21. september 2011 eða að nýting hans á hluthafafundum eftir 14. júní sama ár hafi farið í bága við 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms teljum við að staðfesta beri niðurstöðu hans og dæma áfrýjendur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétt.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. ágúst 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 25. júní sl., er höfðað með stefnu birtri þann 6. desember 2011, af Stillu útgerð ehf., kt. 620103-2920, Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík, KG fiskverkun ehf., kt. 410998-2469, Melnesi 1, Hellissandi og Guðmundi Kristjánssyni, kt. 220860-4429, Nesvegi 107, Seltjarnarnesi, á hendur Vinnslustöðinni hf., kt. 700269-3299, Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, til ómerkingar á ákvörðun hluthafafundar.
Dómkröfur stefnenda eru þær að ómerkt verði eftifarandi ákvörðun hluthafafundar stefnda, dags. 21. september 2011:
„Hluthafafundurinn samþykki samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við Vinnslustöðina hf. Greiðsla skal innt af hendi með afhendingu eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar, sem eru í dag að nafnverði EUR 237.611 og afhendingu á ný útgefnu hlutafé, sbr. 5. lið dagskrár að nafnverði EUR 299.057.
Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé félagsins um EUR 299.057 vegna samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. Forgangsréttur hluthafa til áskriftar gildir ekki um hið nýja hlutafé. Stjórn félagsins skal nýta hlutaféð sem greiðslu í tengslum við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar. Heildarhlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. eftir hlutafjáraukninguna nemur EUR 17.459.145.“
Þá gera stefnendur kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málkostnaðarreikningi.
Endanlegar dómkröfur hins stefnda félags eru þær að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnenda.
Þá gerir stefnda kröfu um að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Í upphaflegri kröfugerð stefnda var aðallega krafist frávísunar, en í þinghaldi þann 25. júní sl., féll stefnda frá þeirri kröfu.
Málsatvik
Mál þetta á rætur sínar að rekja til samruna félaganna Ufsabergs-útgerðar ehf., og Vinnstöðvarinnar hf., en fyrrnefnda félagið var afskráð af fyrirtækjaskrá þann 9. febrúar 2012 með þeirri athugasemd að félagið hafi verið sameinað Vinnslustöðinni hf. Var samruni félaganna samþykktur á hluthafafundi hvors félags, er báðir voru haldnir þann 21. september 2011, og var samruninn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum á hluthafafundi Ufsabergs-útgerðar ehf., en með 67,37% atkvæða á hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar hf., þar sem á móti voru greidd 33,32% atkvæða, en til fundarins var mætt af hálfu 99,69% af atkvæðisbærum eigendum hlutafjár. Þá liggur fyrir að í maí sama ár hafi hið stefnda félag keypt 28,88% hlut í Ufsabergi-Útgerð ehf., af félaginu sjálfu og hluthöfum þess, þeim Eyjólfi Guðjónssyni og Elínborgu Jónsdóttur, sem greitt hafi verið fyrir með afhendingu 2,5% hlutafjár hins stefnda félags. Hafi kaupsamningur þessi verið samþykktur á hluthafafundi í hinu stefnda félagi, með 66,2% atkvæða gegn 33,8%. Þá kveður hið stefnda félag hlutafé samkvæmt nefndum kaupsamningi hafa verið afhent kaupendum þann 14. júní 2011. Stefnendur eru hluthafar í hinu stefnda félagi, og áttu þeir 31,88% heildarhlutafjár félagsins, áður en hlutafé félagsins var hækkað með ákvörðun hluthafafundar þann 21. september sl., þ.e. ákvörðunar þeirrar sem stefnendur krefjast nú ómerkingar á. Stefnda kveður samruna þennan hafa átt sér langan aðdraganda, allt frá maí 2008 er hið stefnda félag keypti 35% hlut í Ufsabergiútgerð ehf., auk þess sem stjórn hins stefnda félags hafi árin 2008 til 2010 fengið heimild aðalfundar, sem þó hafi ekki verið nýtt, fyrir því að kaupa eigin bréf og nýta sem gagngjald fyrir hluti í Ufsabergi-útgerð ehf., í tengslum við mögulega sameiningu félaganna. Þá kveður stefnda stefnendur hafa verið andvíga samruna félaganna allt frá upphafi, þannig hafi stefnendur, í september 2011, árangurslaust reynt að fá lagt lögbann við afhendingu og skráningu þeirra hlutabréfa í hinu stefnda félagi sem hluthafar Ufsagerðar-útgerðar ehf., áttu að fá afhent við samruna félaganna.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur telja þá ákvörðun hluthafafundar er þeir krefjast ómerkingu á, hafa verið tekna með ólögmætum hætti auk þess sem hún brjóti í bága við ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög og samþykktir hins stefnda félags. Ákvörðunin sé ógild og því sé krafist ómerkingar hennar, sbr. 4. mgr. 96. gr. hlutafélagalaga.
Í fyrsta lagi byggja stefnendur á því að óheimilt hafi verið að nýta atkvæðisrétt 2,5% hlutar í stefnda á grundvelli kaupsamnings dagsettum 10. maí 2011. Stefnendur telja að umræddur kaupsamningur hafi verið gerður í þeim eina tilgangi að sniðganga ákvæði hlutafélagalaga um bann við atkvæðagreiðslu fyrir hönd eigin hluta hlutafélags, sbr. 3. mgr. 82. gr. laganna. Umræddur hlutur hafi verið seldur á þeim forsendum að samruni félaganna gengi í gegn, en í grein 3.1. í samningnum segi: „Forsendur kaupenda fyrir gerð þessa samnings er að VSV og UÚ verði sameinuð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en hinn 31. desember 2011.“ Kveða stefnendur samninginn hafa verið óskuldbindandi fyrir báða aðila færi svo að samruninn gengi ekki í gegn, sbr. ákvæði 3.2. í samningnum, þar sem segi: „Gangi sameiningin ekki eftir í samræmi við grein 3.1 hafa báðir aðilar rétt til að lýsa því yfir að þessi kaupsamningur sé fallinn niður.“ Byggja stefnendur á því að um sé að ræða frestskilyrði sem leiði til þess að ákvæði kaupsamningsins hafi ekki orðið virk og þá sé samningurinn ekki bindandi, fyrr en skilyrðið kom fram. Eigendaskipti að þeim hlutum sem kaupsamningurinn kvað á um hafi þannig ekki orðið fyrr en skilyrðið kom fram. Fyrir það tímamark hafi kaupendum verið óheimilt að fara með hlutina sem sína eigin, þ.m.t. að nýta atkvæðisrétt sem bundinn sé hlutunum. Kveða stefnendur stjórn stefnda hafa, með gerð kaupsamningsins, leitast við að hafa bein áhrif á atkvæðagreiðslu um samrunann, enda hafi tilgangur samningsins verið sá að virkja eigin hluti félagsins til að greiða atkvæði með samrunanum, án þess að framsal umræddra hluta væri með nokkrum hætti bindandi fyrr en eftir ákvörðunartökuna.
Byggja stefnendur þannig á því að væntanlegir kaupendur hafi ekki verið orðnir eigendur umræddra hluta þegar atkvæðagreiðslan fór fram auk þess sem í kaupsamningnum hafi falist sniðganga á 3. mgr. 82. gr. hlutafélagalaga. Af þeim sökum beri að líta með öllu framhjá ákvæðum samningsins við atkvæðagreiðsluna á hlutahafafundinum 21. september 2011, og ómerkja ákvörðun hlutahafafundarins á grundvelli 1., sbr. 4. mgr. 96. gr. hlutafélagalaga.
Í öðru lagi byggja stefnendur á því að um hafi verið að ræða brot gegn reglum um nýtingu forkaupsréttar, en samhliða ákvörðun um samruna hins stefnda félags og Ufsabergs-útgerðar ehf., á hluthafafundi þann 21. september 2011, hafi verið tekin ákvörðun um útgáfu nýs hlutafjár í stefnda, að fjárhæð EUR 299.057. Þá hafi falist í ákvörðuninni að fallið væri frá forkaupsrétti að hlutafjáraukningunni, sem öll hafi verið nýtt til samrunans. Telja stefnendur ótvírætt að hluthafar stefnda eigi forkaupsrétt að fölum hlutum við hlutafjáraukningu í félaginu, og vísa því til stuðnings til 4. gr. samþykktar félagsins, sem og 34. gr. hlutafélagalaga. Þannig hafi, í fundarboði fyrir umræddan hluthafafund, ekki verið að finna umfjöllun um ástæður þess að vikið var frá áskriftarréttindum hluthafa, eða rökstuddar tillögur um áskriftargengi, líkt og sé formskilyrði hlutafélagalaga. Þar að auki sé atkvæðagreiðsla um hlutafjáraukningu ólögmæt, líkt og áður greini, þar sem greidd hafi verið atkvæði með hlutum sem þá hafi enn talist eigin hlutafé félagsins.
Byggja stefnendur þannig á því að ákvörðun um hlutafjáraukningu í hinu stefnda félagi sé ólögmæt og ógild, og þar með ákvörðun um samrunann, enda sé hlutafjárhækkunin forsenda hans. Telja stefnendur að ákvörðunina beri að ómerkja í heild sinni, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. hlutafélagalaga.
Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að í samrunagögnum, sem útbúin hafi verið og kynnt hluthöfum í aðdraganda samruna félaganna, séu alvarlegir form- og efniságallar, sem leiða eigi einir og sér til þess að ákvörðun um samrunann sé ógild, og beri því að ómerkja.
Fyrsta atriðið sem stefnendur nefna í þessu sambandi er að stjórnir félaganna tveggja, Vinnslustöðvarinnar hf., og Ufsabergs-útgerðar ehf., hafi skilað sameiginlegri greinargerð í andstöðu við skýr fyrirmæli 1. ml. 1. mgr. 121. gr. hlutafélagalaga. Hafi hlutahafar með þessu verið sviptir mikilvægasta upplýsingamiðli sínum um samrunann og ómögulegt að segja til um hvernig atkvæðagreiðsla um samrunann hefði farið hefði stjórn stefnda birt hluthöfum sínum sjálfstæða greinargerð um áhrif og afleiðingar samrunans hvað varðaði eingöngu hið stefnda félag. Þá hafi fyrirmælum 1. ml. 1. mgr. 121. gr. hlutafélagalaga, ekki verið fylgt varðandi skýrslu matsmanns, en aðeins ein skýrsla hafi verið gerð sameiginlega fyrir bæði félögin. Kveða stefnendur þetta vera alvarlegan efniságalla, enda gegni slík skýrsla því hlutverki að vera hluthöfum hvors samrunafélags fyrir sig til upplýsinga um þær fjárhagslegu afleiðingar sem samruni hafi í för með sér. Þar að auki kveða stefnendur efnisannmarka vera á skýrslu matsmannsins, en þar komi hvergi fram mat á því hvort endurgjald fyrir hluti í yfirtekna félaginu sé sanngjarnt, eins og skýrt sé kveðið á um í 3. mgr. 122. gr. hlutafélagalaga. Þá verði hvorki séð að í skýrslunni komi skýrt fram hvaða verð verðmatsaðferðir leiði af sér, né heldur hvaða innbyrðis þýðingu skuli leggja í aðferðir við verðákvörðun. Sé þetta sérlega ámælisvert þar sem mismunandi verðmatsaðferðir hafi verið notaðar fyrir hvort samrunafélag fyrir sig. Þannig hafi verðmat hins stefnda félags byggt á svokölluðu sjóðsstreymisverðmati, en verðmat Ufsabergs-útgerðar ehf., á svokölluðu upplausnarvirði. Telja stefnendur skýrslu matsmanns vera haldna verulegum efniságöllum sem leiði til þess að ákvörðunin um samruna félaganna sé ógild og beri að ómerkja hana.
Að lokum byggja stefnendur á því að í samrunaáætlun séu ekki tilskildar upplýsingar um rétt til arðs, líkt og skylt sé skv. 4. tl. 120. gr. hlutafélagalaga. Sé það skýrt brot á ákvæðum laganna. Sé þetta sérlega bagalegt þar sem á hluthafafundi þann 30. júní 2011 hafi verið tekin ákvörðun um útgreiðslu arðs. Þá geti regla 2. mgr. 36. gr. hlutafélagalaga ekki tekið til eigin hluta hins stefnda félags og bæti þannig ekki úr framangreindum annmarka í samrunagögnum.
Til viðbótar þeim lagaákvæðum sem þegar hafa verið rakin byggja stefnendur á 96. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, sem og almennum reglum félagaréttar, m.a. um minnihlutavernd hlutahafa, sbr. 76. gr. hlutafélagalaga. Kröfu sína um málskostnað byggja stefnendur á 1. mgr. 129. gr., og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um varnarþing til 33. gr. sömu laga og um heimild til sameiginlegrar kröfugerðar og sóknar til 19. gr. sömu laga. Stefnendur séu allir hluthafar í stefnda og kröfur þeirra eigi allar rætur að rekja til sama atviks, þ.e. ákvörðunar hluthafafundar hins stefnda félags þann 21. september 2011. Þá vísa stefnendur til 2. mgr. 96. gr. um málshöfðunarfrest.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Líkt og áður greinir hefur hið stefnda félag fallið frá kröfu sinni um frávísun málsins, en ekki var fallið frá þeim málsástæðum sem krafan byggir á, þ.e. að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn, enda miðist hann við það tímamark er kaupsamningur var samþykktur, eða í síðasta lagi frá því að atkvæðisrétti skv. kaupsamningi hafi fyrst verið beitt. Þannig hafi málshöfðunarfresturinn í síðasta lagi runnið út þann 30. september 2011. Málið hafi ekki verið höfðað fyrr en 6. desember 2011 og hafi málshöfðunarfrestur þá verið liðinn. Telur stefnandi því að vísa beri málinu frá dómi.
Stefnda hafnar málsástæðum stefnenda í heild, og kveður hvorki laga- né efnisrök til að taka kröfu stefnenda til greina.
Þeirri málsástæðu stefnenda að óheimilt hafi verið að nýta atkvæðisrétt 2,5% hlutar í stefnda á grundvelli kaupsamnings dagsettum 10. maí 2011, hafnar stefnda með þeim rökum að hlutirnir sem um ræðir hafi verið afhentir þann 14. júní 2011, og við það hafi öll réttindi, þ.m.t. atkvæðisréttur, flust til kaupenda, eins og kveðið er á um í grein 1.2. í umræddum kaupsamningi. Þá hafi kaupendur athugasemdalaust nýtt atkvæðisrétt sinn á hluthafafundum þann 30. júní og 22. ágúst 2011. Umræddur kaupsamningur hafi verið bundinn tveimur skilyrðum, annars vegar að Samkeppniseftirlitið teldi kaupin ekki tilkynningarskyld í samræmi við 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og hins vegar að hluthafafundur samþykkti söluna. Hafi báðum skilyrðunum verið fullnægt og kaupin fullfrágengin í júní 2011.
Hvað varðar ætlað frestskilyrði um samruna félaganna innan ákveðinna tímamarka, bendir hið stefnda félag á að um hafi verið að ræða heimildarákvæði, sem kvað á um rétt aðila, en ekki skyldu, til að lýsa því yfir að samningurinn skyldi niður falla kæmi ekki til samruna félaganna innan ákveðins tíma. Þá er því hafnað að um málamyndagjörning hafi verið að ræða líkt og stefnendur halda fram. Kveður stefnda að aðdragandi samruna umræddra félaga hafi verið langur og stefnendur, sem og aðrir hluthafar og fulltrúar þeirra í stjórn hins stefnda félags, hafi verið upplýstir um öll skref ferlisins.
Þá kveður stefnda að ákvæði 3. mgr. 82. gr. hlutafélagalaga hafi verið virt á hlutahafafundinum þegar ákvörðun um samruna félaganna hafi verið tekinn, enda hafi þá eigin hlutir félagsins, sem samsvöruðu 1,38% af öllu hlutafé félagsins, ekki notið atkvæðisréttar. Hins vegar hafi kaupendum að 2,5% hlut, sem áður hafði verið eigin hlutir félagsins, verið heimilt að nýta atkvæðisrétt sinn, líkt og áður er rakið, og niðurstaða fundarins því lögmæt.
Stefnda hafnar því að brotið hafi verið gegn reglum um nýtingu forkaupsréttar. Vísar stefnda í þessu sambandi til þess sem áður segir um lögmæta kosningu á fundinum þar sem samþykkt hafi verið með auknum meirihluta, og þess að Eyjólfi, Elínborgu og Ufsabergi-útgerð ehf., hafi verið heimilt að nýta atkvæðisrétt sem fylgt hafi hlutafé sem þau keyptu. Þá er því hafnað að formreglur hafi verið brotnar í aðdraganda hlutafjáraukningarinnar. Í fundarboði hafi verið getið um þær tillögur sem leggja skyldi fyrir fundinn og hver hlutafjárhækkunin yrði. Þá hafi öll gögn um fyrirhugaðan samruna og hlutafjárhækkun verið lögð fyrir stjórn hins stefnda félags, auk þess sem þau hafi legið frammi á skrifstofu félagsins í mánuð fyrir hlutahafafundinn. Engu að síður hafi engar athugasemdir komið fram í aðdraganda fundarins. Þá kveður stefnda að stefnendum hafi verið fullkunnugt um hvað fara ætti fram á fundinum, óháð því hvort áskriftargengið hafi verið rökstutt í fundarboði eða ekki og smávægilegir gallar á formi ættu auk þess ekki að leiða til þess að ákvörðun sé ógild. Stefnda byggir á því að hluthöfum hafi ekki verið mismunað og uppfyllt hafi verið skilyrði 4. mgr. 34. gr. hlutafélagalaga um tilskilinn meirihluta atkvæða.
Þá mótmælir stefnda þeirri málsástæðu stefnenda að alvarlegir efnis- og formgallar hafi verið í samrunagögnum er útbúin voru og kynnt hluthöfum í aðdraganda hins umdeilda samruna. Kveður stefnda samrunagögnin vera í samræmi við það sem tíðkast hefur í framkvæmd endurskoðenda og fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um árabil. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við drög að gögnunum, þ.m.t. hvorki af stjórn hins stefnda félags né Fyrirtækjaskrá, sem send hafi verið gögnin til yfirlestrar. Ennfremur hafi sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafnað kröfu stefnenda um lögbann við afhendingu og skráningu þeirra hlutabréfa í hinu stefnda félagi, sem hlutahafar Ufsabergs-útgerðar ehf., hafi átt að fá afhent við samruna félaganna. Þá hafi Fyrirtækjaskrá ekki orðið við beiðni stefnenda um að hafna öllum beiðnum um skráningu á samrunanum uns niðurstaða dómstóla lægi fyrir, þó stofnuninni hafi verið kynntir ætlaðir gallar á samrunagögnum.
Stefnda byggir á því að þó um væri að ræða smávægilegar misfellur í samrunagögnum, væri það ekki til þess fallið að ákvörðun hluthafafundar, sem löglega hafi verið boðað til og sóttur hafi verið af hluthöfum sem halda 99.69% af atkvæðisbæru hlutafé, teljist ógild, enda hafi engin réttindi stefnenda farið forgörðum. Þá byggir stefnda á því að á umræddum hluthafafundi hafi Magnús Helgi, stjórnarmaður stefnenda, lagt fram bókun fyrir hönd stefnenda þar sem m.a. hafi verið fundið að ætluðum göllum í samrunagögnum, en aðrir fundarmenn hafi engu að síður greitt atkvæði með tillögunni um hinn umdeilda samruna. Þá hafnar stefnda þeim skilningi stefnenda á 1. ml. 1. mgr. 131. gr. hlutafélagalaga, að óheimilt sé stjórnum beggja fyrirtækja að skila sameiginlega einni greinargerð. Báðar stjórnir hafi skilað greinargerð og ekki verði séð hver hefði hagsmuni af því að greinargerðin væri í tveimur eintökum, þegar inntak þeirra er hið sama. Hafi þetta atriði enga efnislega þýðingu í málinu. Með sömu rökum hafnar stefnda skilningi stefnenda á 1. ml. 1. mgr. 122. gr. hlutafélagalaga, hvað varðar skýrslu matsmanns. Kveður stefnda ekkert banna það að einn og sami matsmaðurinn skili einni skýrslu fyrir bæði félögin, þvert á móti sé sérstaklega tilgreint að félögin megi hafa sama matsmanninn. Hvað varðar ætlaða efnisannmarka á umræddri skýrslu matsmanns, er því mótmælt að ekki komi nægilega skýrt fram til hvaða verðs verðmatsaðferðir leiði og hvaða innbyrðis þýðingu skuli leggja í aðferðir við verðákvörðun. Telur stefnda nokkuð ítarlega farið í þessi atriði og vísar til framlagðrar skýrslu matsmanns því til stuðnings. Hvað varðar þá málsástæður stefnenda að matsmaður hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort endurgjald fyrir hluti í yfirtekna félaginu sé sanngjarnt og efnislega rökstutt, vísar stefnda til þess að í lok ítarlegrar umfjöllunar matsmanns um verðmöt að baki skiptihlutafalli komi fram að hann telji aðferðir sem notaðar hafi verið við ákvörðun endurgjalds hafa verið fullnægjandi. Telur stefnda að í þessu felist jafnframt að hann telji endurgjaldið sanngjarnt, og ekki sé unnt að gera þá kröfu að orðin „sanngjarnt“ og „efnislega rökstutt“ komi bersýnilega fram í máli matsmanns. Skýrsla matsmannsins sé nákvæm og ítarleg og í henni komi fram öll þau atriði sem lög gera ráð fyrir. Þá vísar stefnda til þess að jafnvel þó smávægilegar misfellur hefði verið að finna í skýrslu matsmanns réttlæti það ekki að ákvörðun hluthafafundar, þar sem matsmaður hafi munnlega farið yfir skýrsluna, yrði dæmd ógild.
Hvað varðar rétt til arðs byggir hið stefnda félag á því að þar sem ekkert sé getið um rétt til arðs í samrunaáætluninni gildi almennar reglur. Þannig gildi 3. mgr. 36. gr. hlutafélagalaga um hið nýútgefna hlutafé, en þeir hlutir sem áður hafi verið eigin hlutir hins stefnda félags, veiti réttindi frá framsali á hlutunum af VS-reikningi seljanda yfir á VS-reikninga kaupenda. Hvað varðar arðsúthlutun sem samþykkt var á aðalfundi hins stefnda félags þann 30. júní 2011, fái stefnda ekki séð hvernig hún flæki málin, enda hafi hún verið gerð fyrir samrunann og þegar verið greidd. Hafi verið lögð til grundvallar hlutafjáreign eins og hún var á þeim tímapunkti sem arðsúthlutun hafi verið samþykkt, í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.
Um lagarök vísar hið stefnda félag til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þá vísar stefnda til meginreglna í kaupa- og samningarétti. Kröfu sína um málskostnað styður stefnda við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila máls þessa snýr að gildi ákvörðunar hlutahafafundar hins stefnda félags um samruna félagsins við Ufsaberg-útgerð ehf. Hið stefnda félag hefur haldið því fram að málshöfðunarfrestur vegna ákvörðunarinnar hafi verið liðinn er mál þetta var höfðað, en hefur þó fallið frá frávísunarkröfu sinni. Samkvæmt 2. mgr. 96. gr. hlutafélagalaga skal höfða mál vegna ákvörðunar hluthafafundar innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin var tekin. Krafa stefnenda lýtur að ákvörðun sem tekin var á hluthafafundi hins stefnda félags þann 21. september 2011. Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu þann 6. desember 2011, og þar af leiðandi innan þeirra tímamarka sem greinir í áðurnefndu lagaákvæði. Eru því ekki efni til þess að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnendur halda því fram að umrædd ákvörðun hafi því aðeins hlotið tilskilinn meirihluta atkvæða að nýttur hafi verið atkvæðisréttur 2,5% hlutafjár, sem á þeim tíma hafi verið eigið fé félagsins, og þannig hafi verið brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga. Stefnda hefur hafnað þessu, og kveður umrætt hlutafé hafa verið afhent kaupendum þess þann 14. júní 2011, og þar með öll réttindi sem þeim fylgdu, þ.m.t. atkvæðisréttur. Stefnendur halda því fram að kaupsamningur um hlutaféð hafi ekki verið orðinn virkur vegna frestskilyrðis og því hafi hlutaféð enn verið eigin fé félagsins. Þessu hafnar stefnda og kveður samninginn skýran um það að aðeins hafi verið um heimildarákvæði að ræða, næði ætlað skilyrði ekki fram að ganga, og þá hafi samningurinn verið skýr um að réttindi skyldu færast til kaupenda með afhendingu hlutafjárins.
Í 1. mgr. 82. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, er að finna þá meginreglu félagaréttar að allir hlutir hlutafélags skuli veita atkvæðisrétt. Í 3. mgr. 82. gr. er kveðið á um þá undantekningu frá meginreglu þessari að eigin hlutir félags skuli ekki hafa atkvæðisrétt. Stefnda hefur, sem áður greinir, haldið því fram að atkvæðisréttur kaupenda að 2,5% hlutafé, sem áður hafi verið eigin hlutir félagsins, hafi orðið virkur við afhendingu hlutanna þann 14. júní 2011. Í kaupsamningi um umrætt hlutafé, sem liggur frammi í málinu, kemur fram að öll réttindi sem fylgi hinu selda hlutafé skuli flytjast til kaupenda við afhendingu hlutanna. Þá hefur stefnda lagt fram gögn um framsal umræddra hlutabréfa þann dag. Hvað varðar ætlað frestskilyrði er það mat dómsins að heimild aðila kaupsamningsins til að lýsa því yfir, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að kaupsamningurinn sé fallinn niður, feli hvorki í sér að hann teljist sjálfkrafa ógildur, né fresti það réttaráhrifum framsals hlutabréfanna. Þá hafa stefnendur ekki fært sönnur á að umræddur samningur hafi verið gerður til málamynda í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði 3. mgr. 82. gr. hlutafélagalaga. Er það mat dómsins að atkvæðagreiðsla hluthafafundar hafi verið lögmæt og kaupendum að umræddu 2,5% hlutafé, sem áður höfðu verið eigin hlutir félagsins, hafi verið frjálst að nýta atkvæðisrétt sinn á hluthafafundi hins stefnda félags þann 21. september 2011.
Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið gegn reglum um nýtingu forkaupsréttar, enda hafi fundarboð ekki verið fullnægjandi, auk þess sem atkvæðagreiðsla um hlutafjáraukningu hafi verið ólögmæt. Hvað varðar atkvæðagreiðslu um hlutafjáraukningu vísast í það sem áður segir um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og rétt kaupenda til að nýta atkvæðisrétt hinna framseldu hluta. Af hálfu hins stefnda félags hefur því verið mótmælt að formreglur hafi verið brotnar í aðdraganda hlutafjáraukningarinnar. Kveður stefnda að í fundarboði sé getið um tillögur sem leggja eigi fyrir fundinn og hver hlutafjárhækkunin yrði. Þá hafi öll gögn um fyrirhugaðan samruna og hlutafjárhækkun verið lögð fyrir stjórn félagsins, auk þess sem þau hafi legið frammi á skrifstofu félagsins í tilskilinn tíma. Ennfremur hafi verið mætt til fundarins af hálfu eigenda 99.69% af atkvæðisbæru hlutafé. Nefnt fundarboð liggur ekki frammi í málinu, en ljóst má telja að fullnægjandi upplýsingar hafi verið aðgengilegar hluthöfum á skrifstofu félagsins í aðdraganda fundarins, sem og á fundinum sjálfum þar sem stjórn félagsins, framkvæmdastjóri og endurskoðandi þess sátu fyrir svörum. Er það mat dómsins að smávægilegir formgallar sem kunna að hafa verið á fundarboði geti því ekki orðið til þess að ómerkja beri ákvörðun hlutahafafundar, enda verður ekki séð að réttindi hluthafa hafi farið forgörðum vegna þessa.
Stefnendur byggja og á því að gallar séu í samrunagögnum, sem skuli leiða til þess að ákvörðun um hin umdeilda samruna sé ógildanleg. Stefnda hefur mótmælt þessu og byggir á því að séu nokkrir gallar í gögnunum, séu þeir svo smávægilegir að ekki geti valdið ógildi ákvörðunarinnar. Í 1. mgr. 121. gr. hlutafélagalaga, er kveðið á um að félagsstjórn í hverju félaganna um sig skuli semja greinagerð. Fallast má á það með stefnendum að orðalag greinarinnar beri að skilja svo að stjórnir félaganna skuli skila hvort sinni greinargerðinni. Aftur á móti verður ekki séð að réttindi hluthafa hafi farið forgörðum vegna þessa, en ekki verður séð að greinargerð stjórnar félagsins hafi verið efnislega ábótavant og uppfyllir hún að mati dómsins efnisskilyrði 121. gr. hlutafélagalaga. Þá verður ekki litið fram hjá því að til umrædds hluthafafundar var mætt af hálfu eigenda 99,69% atkvæðisbærs hlutafjár, auk þess sem stjórn félagsins, framkvæmdastjóri og endurskoðandi þess, sátu þar fyrir svörum. Hvað varðar ætlaða galla á skýrslu matsmanns er það mat dómsins, með sömu rökum og byggt er á varðandi skýrslu stjórnar, að smávægilegir formgallar á skýrslunni geti ekki leitt til ógildingar á ákvörðun hluthafafundar. Ennfremur telur dómurinn skýrslu matsmannsins efnislega fullnægjandi og í samræmi við ákvæði 122. gr. hlutafélagalaga þó orðin „sanngjarnt“ og „efnislega rökstutt“ komi þar í sjálfu sér ekki fram, enda er lýst þeirri eða þeim aðferðum sem notaðar voru við ákvörðun endurgjaldsins og lagt mat á hvort aðferðin eða aðferðirnar séu fullnægjandi í umræddu tilviki. Þar að auki verður að taka tillit til þess að umræddur matsmaður sótti hluthafafund þann er tillaga um samruna félaganna var rædd og fór þar yfir skýrslu sína. Að lokum byggja stefnendur á því að í samrunaáætlun komi ekki fram upplýsingar um rétt til arðs og sé þar um skýrt brot á ákvæðum hlutafélagalaga að ræða. Af hálfu hins stefnda félags hefur því verið haldið fram að þar sem umræddar upplýsingar komi ekki fram í samrunagögnum gildi um þetta almennar reglur hlutafélagalaga. Fallist er á það með stefnendum að samrunaáætlun sé ábótavant að þessu leyti, en þó er það mat dómsins að ekki sé um svo verulegan galla að ræða að varði ógildingu ákvörðunar hluthafafundar um samruna félaganna, enda verður ekki séð að réttindi hluthafa hafi farið forgörðum vegna þessa. Að öllu framansögðu virtu er það mat dómsins að gögn um samruna hins stefnda félags og Ufsabergs-útgerðar ehf. séu ekki haldin svo verulegum göllum að varði ógildingu ákvörðun hluthafafundar hins stefnda félags um samruna félaganna. Verður hið stefnda félag því alfarið sýknað af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnendur til að greiða hinu stefnda félagi 1.000.000 krónur í málskostnað.
Dóminn kveður upp Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
D ó m s o r ð :
Hið stefnda félag, Vinnslustöðin hf., er sýknað af öllum kröfum stefnenda, Stillu útgerðar ehf., KG fiskverkunar ehf., og Guðmundar Kristjánssonar, í máli þessu.
Stefnendur greiði hinu stefnda félagi 1.000.000 krónur í málskostnað.