Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 4

 

Föstudaginn 4. júlí 2008.

Nr. 361/2008

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. júlí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2008.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um dómurinn úrskurði að X sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. júlí 2008, kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot, innflutning á fíkniefnum frá Hollandi gegnum Danmörku til Íslands.  Hinn 10. júní sl. hafi hollenski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Seyðisfjarðar með Norrænu.  Í húsbíl Y hafi fundist tæp 200 kg af ætluðum fíkniefnum, mest hass.  Y hafi játað aðild sína að málinu og sæti hann nú gæsluvarðhaldi vegna málsins, sbr. úrskurð Héraðsdóms Austurlands. Við rannsókn málsins hafi Y greint frá samskiptum sínum við Íslending sem hann kveður hafa fjármagnað og skipulagt innflutning fíkniefnanna. Allar upplýsingar lögreglu bendi til að um sé að ræða X.  Y hafi greint svo frá við skýrslutökur að hann hafi hitt X eða “Kimma” í sams konar ferð fyrir ári síðan og gert grein fyrir ferð sinni um landið á sínum tíma, sem hann kvað hafa verið farna í sama tilgangi og nú, þ.e. að flytja inn fíkniefni.  Þá passi lýsing Y á þessum Íslendingi við útlit kærða. Rökstuddur grunur liggi fyrir því að X eigi aðild að ofangreindu smygli fíkniefna til landsins og að hann hafi fjármagnað innflutninginn og sé í raun eigandi umræddra fíkniefna. Nánar sé vísað til gagna málsins.

                Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að fíkniefnabroti. Meint aðild kærða sé talin varða skipulagningu og fjármögnun fíkniefnanna. Nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og um meinta aðild kærða að brotinu. Kærði hafi verið handtekinn vegna málsins í dag og hafi verið yfirheyrður í kjölfarið þar sem hann hafi alfarið neitað sök í málinu og sagst ekkert kannast við Y. Rannsókn málsins sé á frumstigi hvað varði hlut kærða.  Málið sé talið umfangsmikið og framundan séu frekari yfirheyrslur af kærða. Framundan sé frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sem skýrt geti frekar aðdraganda brotsins, samskipti kærða við meinta samverkamenn sem kunni að tengjast málinu. Þá sé beðið gagna sem óskað hafi verið eftir frá erlendum lögregluyfirvöldum, en lögreglan njóti aðstoðar erlendra yfirvalda við rannsókn málsins. Upplýsa þurfi hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í bifreiðinni og hverjir hafi komið þeim fyrir. Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi, en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.

                Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að broti gegn. 173. gr. a. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi en kærði hefur neitað sök. Um er að ræða umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni og rannsókn þess enn á frumstigi. Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda verður að telja hættu á að hann geti hann spillt fyrir rannsókn málsins gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að marka henni skemmri tíma.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. júlí 2008, kl. 16:00.