Hæstiréttur íslands
Mál nr. 443/2000
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorð
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 8. mars 2001. |
|
Nr. 443/2000.
|
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Agnari Árna Stefánssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Þjófnaður. Ávana- og fíkniefni. Skilorð. Upptaka.
A var gefið að sök að hafa haft vörslur 0,81 g af hassi í bifreið sinni og við sex tækifæri stolið fjármunum af vinnustað. A gekkst við þjófnaðinum en neitaði fyrir dómi að hafa átt fíkniefnið, þrátt fyrir að hafa í lögregluskýrslu gengist við að eiga það. Af hálfu ákæruvaldsins höfðu engin vitni verið leidd fyrir dóm, að undanskildum þremur lögreglumönnum. Þá hafði ekki verið aflað gagna til að staðreyna hvort ákærði hefði handleikið fíkniefnið eða fá vísbendingar um hvenær eða hvernig það gæti hafa komist á þann stað, sem það fannst. Þá var ekki talið unnt að telja fjarstæðukennda tilgátu sem A hafði sett fram fyrir dómi um hver hefði átt fíkniefnið. Þar sem sakfelling A varð ekki eingöngu reist á þeirri staðreynd að fíkniefnið fannst í bifreið hans og framburði hans fyrir lögreglu var hann sýknaður af sakargiftum um vörslur fíkniefna. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir þjófnað, enda hafði hann gengist við honum. Var framferði hans við þjófnaðinn talið endurspegla einbeittan brotavilja.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing, sem ákærða var gerð með hinum áfrýjaða dómi, verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum, sem hann var borinn með ákæru 6. júní 2000, svo og að refsing verði milduð, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
I.
Málið var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 6. júní 2000, þar sem ákærði var sakaður um fíkniefnalagabrot með því að hafa haft vörslur 0,81 g af hassi í bifreið sinni JH 958, sem lögreglan gerði leit í við Miklubraut í Reykjavík aðfaranótt 11. október 1999. Með ákæru þess sama 13. júní 2000 var ákærði þessu til viðbótar sóttur til saka fyrir þjófnað með því að hafa stolið samtals 182.742 krónum í afgreiðslu Sundlaugar Árbæjar í Reykjavík við sex nánar tilgreind tækifæri í júlí 1999 og febrúar og mars 2000. Í málinu eru til úrlausnar sakargiftir samkvæmt báðum þessum ákærum. Ákærði neitar sök varðandi fyrri ákæruna, en gengst við brotum samkvæmt þeirri síðari.
II.
Í frumskýrslu lögreglunnar um áðurnefnda leit í bifreið ákærða 11. október 1999 var greint frá því að hann hafi sagt aðspurður á vettvangi að það kynni að vera hass í bifreiðinni, en hann vissi ekki nánar hvar það gæti verið. Með honum hafi verið farþegi að nafni Dagbjartur Eiður Ólason. Við hægri hlið ökumannssætis, á milli framsæta, hafi fundist brúnn moli, sem talinn hafi verið hass. Hvorki ákærði né farþeginn hafi kannast við að eiga þetta efni. Ákærði hafi sagt að það gæti tilheyrt félögum sínum, sem hefðu áður verið í bifreiðinni, en þá hafi hann ekki viljað nafngreina. Í framhaldi af þessu voru ákærði og Dagbjartur Eiður færðir á lögreglustöð, þar sem teknar voru skýrslur af þeim. Ákærði greindi frá því í skýrslu sinni að nokkrum dögum fyrr hafi hann ekið vini sínum ásamt tveimur stúlkum og hafi þau í lok ferðarinnar sagst hafa glatað mola af hassi í bifreiðinni. Vinurinn héti Hjörtur. Föðurnafns hans minntist ákærði ekki, en kvaðst hafa símanúmer hans heima hjá sér. Í framhaldi af þessu var ákærði spurður hvort hann ætti molann, sem fannst í bifreiðinni, og játti hann því. Hann greindi í grófum dráttum frá kaupum sínum á fíkniefninu og afsalaði sér því til eyðingar.
Ákærða var boðið með bréfi lögreglustjóra 13. desember 1999 að ljúka málinu með greiðslu sektar að fjárhæð 28.000 krónur. Þessu svaraði lögmaður af hálfu ákærða með bréfi 30. sama mánaðar, þar sem fram kom að ákærði hafi ranglega gengist við að eiga umrætt fíkniefni eftir nokkurt þóf við skýrslutöku hjá lögreglunni aðfaranótt 11. október 1999. Ákærði hafi verið hræddur eftir handtöku og talið lögregluna að engu viljað hafa skýringar hans á því að efnið hafi fundist í bifreiðinni. Hann hafi ekki notið aðstoðar verjanda. Í fljótfærni og hugsanaleysi hafi hann játað að eiga efnið, meðal annars til að hlífa Dagbjarti Eiði, sem hafi áður hlotið skilorðsbundinn dóm. Í þessu ljósi kvaðst lögmaðurinn óska eftir að málið yrði fellt niður eða ný skýrsla tekin af ákærða. Þeirri málaleitan hafnaði lögreglustjóri með bréfi 25. janúar 2000.
Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi 15. ágúst 2000 neitaði ákærði að hafa átt fíkniefnið, sem hér um ræðir. Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins 13. október 2000. Þar greindi hann meðal annars frá því að hann hafi tekið Dagbjart Eið upp í bifreið sína við umferðarljós á Miklubraut, en um tveimur mínútum eftir að þeir héldu þaðan hafi sér verið skipað úr lögreglubifreið að stöðva bifreið sína. Dagbjartur Eiður, sem ákærði kvað oft hafa orðið uppvísan að fíkniefnalagabrotum, hafi þá sagt eitthvað á þá leið að „æ, andskotinn, ég er á skilorði“. Lögreglan hafi síðan leitað í bifreiðinni og fundið þar mola af hassi, sem ákærði hafi ekki séð fyrr. Hann hafi ekki viljað benda á Dagbjart Eið sem eiganda efnisins, þar sem hann hafi verið „nýkominn á skilorð“. Við skýrslutöku lögreglunnar hafi hann ítrekað verið spurður um hverjir hefðu komið upp í bifreið hans síðustu tvo dagana og hann þá óttast að „hálfur vinahópur“ sinn yrði kvaddur til skýrslugjafar. Hann hafi ekki reiknað með að sekt vegna þessa brots yrði svo há, sem sektarboð kvað síðan á um, og því valið þann kost að gangast við því hjá lögreglunni að eiga fíkniefnið.
Við aðalmeðferð málsins í héraði komu auk ákærða fyrir dóm tveir lögreglumenn, sem leituðu í bifreið hans 11. október 1999 og voru síðan viðstaddir þegar hann gaf skýrslu fyrir varðstjóra, sem jafnframt kom fyrir dóminn. Vitnisburður þessara þriggja lögreglumanna getur engu varðað við úrlausn málsins, enda laut framburður þeirra ekki að öðru en framferði ákærða og orðaskipti þeirra þegar lögregluskýrsla var tekin af honum, en hann hefur ekki dregið í efa að efni skýrslunnar sé rétt eftir sér haft.
Af hálfu ákæruvalds voru ekki leidd fyrir dóm önnur vitni en að framan greinir. Var þannig í engu leitast við að leiða líkur að því með framburði vitna að ákærði hafi átt fíkniefnið, sem hér um ræðir. Var heldur ekki aflað annars konar gagna til að staðreyna hvort ákærði hefði handleikið fíkniefnið eða fá vísbendingar um hvenær eða hvernig það gæti hafa komist á þann stað, sem það fannst. Fyrir dómi bar ákærði fram tilgátu um hver hafi átt fíkniefnið og komið því fyrir í bifreiðinni. Þá tilgátu er ekki unnt að telja fjarstæðukennda og virða þannig að vettugi. Sakfelling ákærða verður ekki reist eingöngu á þeirri staðreynd að fíkniefnið hafi fundist í bifreið hans og á framburði hans fyrir lögreglunni, sem hann hvarf frá fyrir dómi og fær ekki stuðning af öðrum gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Getur þar engu breytt að ákærði hafi reynst reikull í frásögn fyrir lögreglunni. Með vísan til 45. gr. sömu laga verður hann því sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákærunni frá 6. júní 2000. Reynir þá ekki á varakröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms.
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu verður ekki hreyft við ákvæði héraðsdóms um upptöku á 0,81 g af hassi, sem fannst í bifreið ákærða 11. október 1999.
III.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þjófnað úr Sundlaug Árbæjar, sem um ræðir í ákæru 13. júní 2000.
Við ákvörðun refsingar ákærða fyrir þessi brot er óhjákvæmilegt að líta til þess að hann komst í aðstöðu til að fremja þau vegna starfa sinna við ræstingar í húsakynnum sundlaugarinnar að næturlagi, en þeim sinnti hann á vegum fyrirtækisins Securitas. Þjófnaðinn framdi hann í öllum tilvikum með því að fara inn í lokaðan afgreiðsluklefa, taka þar poka, sem hafði að geyma reiðufé og fjarlægja þaðan peningaseðla, en að þessu gerðu afmáði hann eftir föngum ummerki um brot sitt. Þetta gerði ákærði í fyrsta skipti 23. júlí 1999 og endurtók síðan fimm sinnum, síðast 8. mars 2000. Þessi aðferð ákærða við ítrekaðan þjófnað sýnir einbeittan brotavilja, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða til hagsbóta verður á hinn bóginn að taka tillit til þess að hann skýrði hreinskilnislega frá brotum sínum þegar grunur hafði fallið á hann og bætti tjón af þeim. Að öllu þessu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Með því að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot, sem máli skiptir í þessu efni, er rétt að binda þessa refsingu skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Í ljósi úrslita málsins verður ákærða gert að greiða þriðjung sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði segir, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Agnar Árni Stefánsson, sæti fangelsi í 2 mánuði. Fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku skal vera óraskað.
Ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talið af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði, Guðjóns Ólafs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðin eru í heild 50.000 krónur, og af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin eru í heild 40.000 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.