Hæstiréttur íslands
Mál nr. 284/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Umferðarréttur
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2001: |
|
Nr. 284/2001. |
Ari Eðvaldsson og Minný K. Eggertsdóttir (Hallvarður Einvarðsson hrl.) gegn Finni Óskarssyni (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Umferðarréttur.
Með samningi við sveitarfélagið Ó tók F á leigu lóð undir sumarhús og stóð hún milli þjóðvegar og lóðar sem A og M leigðu til sams konar nota. Í leigusamningunum voru samhljóða ákvæði um aðgang að lóðunum: ,,Til vegalagningar fær leigutaki ekki rétt en notast skal við núverandi slóð.” Er upp kom ágreiningur um aðgengi að lóð A og M kröfðust þau þess að fá með beinni aðfarargerð fjarlægðar ,,allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi þeirra . . . .” Með því að aðilar voru ekki á einu máli um hvar sú slóð hefði verið, sem tiltekin var í leigusamningum, var talið varhugavert að gerðin næði fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem A og M lögðu fram, sbr. meginreglu síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Var kröfunni því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. júlí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeim yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð fjarlægðar „allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi þeirra í landi Reykja í Ólafsfirði.” Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að aðfarargerðin verði heimiluð til að fjarlægja áðurnefndar hindranir, sem séu nánar tiltekið keðja og 14 tonna bjarg, sem varnaraðili hafi lagt á veginn. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu sóknaraðilar leigusamning 28. júní 1977 við Ólafsfjarðarkaupstað um 1.000 m2 lóð úr landi kaupstaðarins að Reykjum í Ólafsfirði. Var kveðið þar á um rétt sóknaraðila til að nýta lóðina undir sumarhús, en um aðgang að henni sagði eftirfarandi: „Til vegalagningar fær leigutaki ekki rétt, en notast skal við núverandi slóð.” Varnaraðili gerði 28. júní 1979 samning við kaupstaðinn um leigu á jafn stórri lóð fyrir sumarhús að Reykjum, þar sem samhljóða ákvæði var um aðgang hans að henni. Af uppdráttum, sem liggja fyrir í málinu, verður ráðið að þessar lóðir aðilanna séu skammt austan við þjóðveg nr. 82. Standi lóð varnaraðila nærri veginum, en lóð sóknaraðila liggi nánast að þeirri hlið lóðar varnaraðila, sem fjærst er veginum.
Sóknaraðilar kveða sig og varnaraðila hafa haft aðgang að lóðum sínum frá þjóðvegi um sömu slóð, sem þau hafi í sameiningu haldið við allt þar til varnaraðili hafi fengið leyfi Ólafsfjarðarbæjar á árinu 1994 til að leggja veg að sumarhúsi sínu. Nokkrum árum síðar, 1997 eða 1998, hafi varnaraðili lokað slóðinni frá þjóðveginum, fyrst með keðju en síðan 14 tonna bjargi, og þannig komið í veg fyrir að sóknaraðilar gætu nýtt hana til að komast að lóð sinni. Varnaraðili segir á hinn bóginn sóknaraðila hafa notað gamla slóð, sem gerð hafi verið í tengslum við notkun kartöflugarða í landi Reykja, til að komast að sumarhúsi sínu, en enginn önnur slóð hafi legið þangað í upphafi. Aðilarnir hafi á síðari stigum í sameiningu gert aðra slóð frá þjóðveginum í átt að sumarhúsum sínum og notað hana um tíma. Varnaraðili hafi síðan 1994 fengið leyfi til að leggja veg að húsi sínu og látið verða af því einn síns liðs haustið 1996. Fyrst í stað hafi sóknaraðilar einnig notað þennan veg, en varnaraðili lokað honum nokkrum mánuðum síðar. Telur varnaraðili að ákvæði í leigusamningi sóknaraðila um slóð að sumarhúsi þeirra geti ekki átt við um þann veg, sem hann hafi nú lokað fyrir umferð þeirra.
Eins og ráðið verður af framansögðu eru aðilarnir ekki á einu máli um hvar sú slóð hafi verið, ein eða fleiri, sem rætt var um í leigusamningum þeirra um sumarhúsalóðir í landi Reykja. Sóknaraðilar hafa lagt fram vottorð manns, sem gegndi starfi bæjarstjóra á Ólafsfirði þegar samningarnir voru gerðir, þar sem hann kveðst „staðfesta að vegarslóði (=núverandi slóð) sá sem um er rætt í báðum samningunum er sami slóðinn, enda má lesa það út úr orðalagi samninganna.” Þótt með þessu hafi verið lagt fram sönnunargagn um að átt hafi verið við sömu slóð í báðum samningunum, verður ekkert ráðið af því um hvort sú slóð sé sú sama og aðilarnir deila um rétt til að fara um eða hafi legið á sama stað og vegur varnaraðila liggur nú. Um það hafa sóknaraðilar ekki lagt fram önnur gögn. Samkvæmt þessu og með vísan til þeirrar meginreglu, sem fram kemur í síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Ari Eðvaldsson og Minný K. Eggertsdóttir, greiði varnaraðila, Finni Óskarssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. júlí 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 11. júlí þ.m. er til komið vegna kröfu Sveins Guðmundssonar hdl., f.h. gerðarbeiðanda, Ara Eðvaldssonar, kt. 030243-3749, og Minnýjar K. Eggertsdóttur, kt. 291144-3309, báðum til heimilis að Brimnesvegi 22, Ólafsfirði, um að fjarlægðar verði allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi þeirra í landi Reykja í Ólafsfirði. Þá er krafist málskostnaðar með álagi að mati dómsins og virðisaukaskatts af málskostnaði, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Gerðarþoli gerir þær dómkröfur að synjað verði um gerðina og að gerðarbeiðendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum reikningi.
Málavextir, rök og heimildir gerðarbeiðanda eru þær, að gerðarbeiðendur hafi gert leigusamning við Ólafsfjarðarbæ þann 28. júní 1977 um lóð úr landi Reykja, Ólafsfirði. Í framhaldi af því hafi gerðarbeiðendur þinglýst leigusamningnum. Gerðarbeiðendur hafi haft rétt til byggingar sumarbústaðar á lóðinni ásamt fleiri réttindum til nýtingar á hlunnindum. Í 2. gr. ofangreinds leigusamnings hafi gerðarbeiðendum verið veittur réttur til að notast við vegslóða sem gerðarþoli hafi nú girt fyrir afnot af hálfu gerðarbeiðanda með því að setja keðju og um 14 tonna bjarg á miðjan veginn. Gerðarþoli hafi gert leigusamning við Ólafsfjarðarbæ tveimur árum seinna en gerðarbeiðendur eða þann 28. júní 1979. Frá fyrstu tíð hafi allir ofangreindir aðilar haft samráð um afnot og allt viðhald af nefndum vegslóða eða allt þar til deilur spruttu upp um afnot af honum. Á árinu 1994 hafi gerðarþoli svo sótt formlega um framlengingu á vegslóðanum að bústað sínum og bygginganefnd Ólafsfjarðar hafi samþykkt slíka framkvæmd á fundi þann 27. apríl 1994. Á því tímamarki hafi ekki farið fram nein kynning eða óskað eftir athugasemdum af hálfu gerðarbeiðenda eða þeim tilkynnt eftirfarandi þessi heimild sem nágranna þeirra, gerðarþola, hafði verið veitt. Gerðarþoli hafi síðar lokað einhliða nefndum vegslóða með því að setja keðju og lás þvert á veginn og síðan sett 14 tonna bjarg niður á miðjan veginn. Gerðarbeiðendur hafi þá notað þennan vegslóða athugasemdalaust á annan áratug enda í samræmi við gildandi leigusamning og hefð sem myndast hafði. Gerðarbeiðendur hafi formlega sótt um framlengingu á vegslóða að sumarhúsi sínu þann 28. október 1997. Áður, eða í ágúst sama ár, hafi gerðarbeiðendur rætt við bæjarstjóra um málið en ekkert hafi verið aðhafst. Þá fyrst hafi gerðarbeiðendum orðið kunnugt um það leyfi sem gerðarþoli hafði þá fengið þremur árum fyrr. Með einföldu bréfi þann 18. nóvember 1997 hafi bæjarstjóri Ólafsfjarðarbæjar sent gerðarþola bréf þar sem óskað var eftir athugasemdum vegna lokunar á vegslóðanum. Þann 6. janúar 1998 hafi Ágerður Einarsdóttir f.h. gerðarþola ritað bæjaryfirvöldum á Ólafsfirði bréf þar sem hún hafi stiklað á stóru. Í því bréfi sé m.a. staðfest samnýting og samráð um viðhald á nefndum vegslóða allra aðila málsins. Í beinu framhaldi hafi bæjarstjóri óskað eftir athugasemdum af hálfu gerðarbeiðenda. Þann 11. febrúar 1998 hafi gerðarbeiðendur gert grein fyrir afstöðu sinni í bréfi. Rétt sé þó að benda á að fyrrverandi bæjarstjóri, Pétur M. Jónsson, hafi staðfest það í yfirlýsingu dags. 30. janúar 1998 að nefndur vegslóði sem deilan standi nú um sé sá sami og samnýting aðila hafi verið um frá upphafi.
Gerðarbeiðendur telja að með einhliða og gerræðislegum aðgerðum hafi gerðarþoli tekið í sínar hendur rýmri rétt en samningar, lög og reglur bjóði með því að einoka og loka allri aðkomu gerðarbeiðenda að nefndum vegslóða. Afgreiðsla byggingaryfirvalda á staðnum árið 1994 hafi heimilað gerðarþola framlengingu á vegslóðanum að bústað sínum en hafi ekki veitt honum frekari rétt eða rýmri en gerðarbeiðendur höfðu þá þegar aflað sér. Gera megi athugasemdir við afgreiðslu bygginganefndarinnar að hafa ekki látið fara fram grenndarkynningu svo hægt væri að koma að athugasemdum eða óska eftir samhliða rétti á þeim tíma.
Gerðarbeiðendur benda á að þeir hafi farið fram á, sbr. ofangreint, að fá framlengingu á vegslóða með sambærilegum hætti og gerðarþola hafði áður verið veitt. Bæjarstjórinn Hálfdán Kristjánsson hefði með bréfi sínu dags. 21. maí 1998 í raun lýst þeirri afstöðu að það væri ekki hægt að taka afstöðu til þeirrar umsóknar fyrr en búið væri að vinna ákveðna skipulagsvinnu. Þessu hafi verið mótmælt í öndverðu af hálfu gerðarbeiðenda svo sem framlögð skjöl beri með sér. Ekki verði þó í þessu máli tekin fyrir beiðni gerðarbeiðenda um framlengingu vegslóðans, heldur einfaldlega sé óskað eftir staðfestingu á rétti gerðarbeiðenda um afnot af vegslóðanum.
Gerðarbeiðendur telja að ljóst megi vera að framansögðu að brotið hafi verið á rétti þeirra í þessu máli. Mál þetta hafi dregist óþarflega og gerðarbeiðendum hafi verið sýnt mikið skeytingarleysi af hálfu gerðarþola frá upphafi.
Gerðarbeiðendur krefjast nú þegar leiðréttinga með dómsúrskurði og að þeim verði með beinni aðfarargerð gert kleift að nota umræddan vegslóða og öllum hindrunum rutt úr vegi á kostnað gerðarþola.
Kröfur um málskostnað með álagi, styður gerðarbeiðandi við 129., 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988.
Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga nr. 90/1989.
Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðin fari fram á ábyrgð gerðarbeiðenda en á kostnað gerðarþola.
Málavextir, málsástæður og lagarök gerðarþola eru þau að hann hafi með lóðarleigusamningi dagsettum 28. júní 1979 fengið á leigu 1000 fm. lóð úr landi Reykja í Ólafsfirði. Í 2. gr. lóðarleigusamningsins segi að leigutaki fái ekki rétt til vegalagningar, en að hann skuli notast við núverandi slóða. Skömmu síðar hafi gerðarþoli byggt sumarhús á lóðinni. Gerðarbeiðendur hafi fengið lóð undir sumarhús tveimur árum áður. Á þessum tíma hafi enginn vegur verið frá þjóðvegi að sumarhúsinu og nágrannar gerðarþola hafi notað gamlan slóða sem gerður hafði verið af þeim sem höfðu kartöflugarða í grennd við sumarhúsin, enda hafi sumarhús þeirra verið nær þeim vegi en lóð gerðarþola. Gerðarþoli og gerðarbeiðendur hefðu síðan lagt sameiginlegan slóða sem lá að bústað gerðarþola og hafi hann verið notaður um hríð af aðilum sameiginlega. Þann 27. apríl 1994 hafi gerðarþoli fengið samþykki bæjarstjórnar Ólafsfjarðar fyrir því að leggja veg að sumarhúsi sínu, sem hann síðan gerði haustið 1996. Í fyrstu hefðu nágrannar gerðarþola notað veginn, en þá hafi gerðarþoli sett hlið á hann og hafi hann verið lokaður síðan. Gerðarþoli hafi lagt þennan veg einn og fengið til þess leyfi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar og telji sig því hafa full umráð yfir veginum og að notkun á honum sé háð leyfi hans.
Gerðarþoli tekur fram að samkvæmt gerðarbeiðni sé krafist dómsúrskurðar um að ,,fjarlægðar verði allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi” gerðarþola í landi Reykja í Ólafsfirði. Samkvæmt aðfararbeiðni sé vísað til 78. gr. laga nr. 90/1989 um lagaheimild fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 segi að ef manni sé með ólögmætum hætti aftrað frá að neyta réttinda, sem hann telji sig eiga þá sé honum heimilt að beina til héraðsdóms beiðni um að skyldu þess efnis, sem um getur í 72. eða 73. gr. verði fullnægt með beinni aðfarargerð. Eins og að framan segi þá krefjist gerðarbeiðendur þess eins að fjarlægðar verði hindranir af vegi sem liggur að sumarhúsi gerðarþola án þess að þeim verði jafnframt fengin umráð yfir veginum. Krafa sem þessi hafi ekki stoð í 72. eða 73. gr. laga nr. 90/1989 vegna þess að efni hennar taki ekki til þess að gerðarþolum verði fengin yfirráð yfir veginum eins og virðist vera skilyrði samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum aðfararlaganna. Það virðist ljóst af orðalagi beggja tilvitnaðra lagagreina að þær aðfarargerðir einar eigi undir þær þar sem gerðarbeiðanda séu fengin umráð fasteignar eða hlutar. Gerðin geti því ekki farið fram nema að með henni verði gerðarbeiðendum fengin umráð þess sem aðförin beinist að og þar sem ekki sé gerð krafa um það í þessu máli verði að synja um gerðina af þeirri ástæðu.
Gerðarþoli bendir á að krafa gerðarbeiðenda sé einnig svo óljós að varla verði hægt að verða við henni en eins og áður segi þá sé þess krafist að ,,allar hindranir verði fjarlægðar” af vegi sem gerðarþoli segi að liggi að sumarhúsi þeirra. Ef fallist verði á þessa kröfu þá megi segja að gerðarbeiðendum væri nánast fengið sjálfdæmi um það hvað teldist hindrun og þá hvort þeir gætu fengið atbeina sýslumanns til að fá ,,hindranirnar” fjarlægðar. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 gildi reglur laga nr. 91/1991 um mál sem þessi og þar með d-liður 80. gr. laganna, en ljóst sé að kröfugerðin sé ekki svo skýr að unnt sé að verða við henni þannig að synja verði um gerðina þess vegna.
Gerðarþoli vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 sé það einnig skilyrði sem verði að uppfylla að krafan sé svo ljós að sönnur verði færðar á hana án þess að vitnaleiðslur eða skoðunar- eða matsgerðir fari fram, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Í þessu sambandi sé rétt að leggja áherslu á regluna í 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 en þar segi að jafnaði skuli hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem heimilt sé að afla. Vegna þessa verði ekki hjá því komist að mótmæla framlagningu bréfs Péturs M. Jónssonar á dskj. 4.
Gerðarþoli telur augljóst að ekki sé hægt að verða við kröfu gerðarbeiðenda vegna þess að það eitt sé upplýst um þann veg sem gerðarbeiðendur gera kröfur um að hreinsaður verði af öllum hindrunum að þetta sé einkavegur sem gerðarþoli hafi lagt einn síns liðs með leyfi bæjaryfirvalda á Ólafsfirði. Því verði krafa gerðarbeiðenda ekki tekin til greina á þeim grundvelli einum að hann fullyrði að hann hafi notað veginn. Það eina sem liggi fyrir í málinu varðandi notkun á þessum vegi séu fullyrðingar gerðarbeiðenda en önnur gögn hafi ekki verið lögð fram um það. Það liggi ljóst fyrir að gerðarþoli hafi gert þennan veg einn og að hann hafi lokað veginum eins og honum hafi að sjálfsögðu verið heimilt þar sem um einkaveg hans sé að ræða. Fullyrðingar gerðarbeiðenda um áratuga notkun af þessu vegi séu rangar þar sem það liggi fyrir að vegurinn hafi verið gerður haustið 1996.
Gerðarþoli kveður gerðarbeiðendur hafa sótt um leyfi til bæjaryfirvalda á Ólafsfirði til að leggja veg að sumarhúsi sínu, en ekki fengið þannig að það sé fráleitt að þau geti því heimtað með beinni aðfarargerð að hindrunum sem gerðarþoli kann að hafa sett á veg sem liggur að sumarhúsi hans verði fjarlægðar. Gerðarþoli telur einnig að málflutningur gerðarbeiðenda sé villandi varðandi túlkun á þeim orðum í 2. gr. leigusamnings um lóðina að notast skuli við núverandi slóða. Það virðist liggja í augum uppi að þessi slóði sem vísað sé til hafi verið fyrir hendi þegar lóðin hafi verið leigð gerðarbeiðendum 28. júní 1977. Á þessum tíma hafi ekki verið um annan slóða að ræða að sumarhúsi gerðarbeiðenda en vegslóða sem notaður hafi verið af eigendum kartöflugarða sem hafi verið í grennd við sumarhúsin, en þó nokkru sunnar. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að gerðarþoli fékk úthlutað lóð sinni sem farið var í að gera vegslóða að bústað þeirra svo að fullyrðingar gerðarbeiðenda um að átt hafi verið við núverandi veg sem gerður hafi verið árið 1996 séu því augljóslega ekki réttar.
Gerðarþoli segir að samkvæmt þessu liggi fyrir að hugsanlegur réttur gerðarbeiðenda sé svo óljós að þegar af þeirri ástæðu verði að hafna kröfu hans um beina aðfarargerð því samkvæmt framansögðu hafi krafan ekki stoð í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
Álit dómsins.
Eins og fram er komið gerðu gerðarbeiðendur lóðarleigusamning við Ólafsfjarðarbæ þann 28. júní 1977. Í 2. gr. samningsins i.f. segir: ,,Til vegalagningar fær leigutaki ekki rétt, en notast skal við núverandi slóð.” Ólafsfjarðarbær gerði samhljóðandi samning við gerðarþola tveimur árum síðar að breyttu breytanda þó með þeirri viðbót við 2. gr. samningsins að ,,ef bæjarstjórn ákveður skal lóðarhafi taka þátt í veglagningu ásamt öðrum lóðarhöfum að svæðinu”.
Af framansögðu má ljóst vera að Ólafsfjarðarbær er eigandi þess lands sem um er rætt, þ.á m. þess lands þar sem títtnefndur vegslóði liggur. Þá hefur Ólafsfjarðarbær í 2. gr. lóðarleigusamnings veitt gerðarbeiðendum rétt til umferðar um landið að leigulóð þeirra og að þeir skuli notast við ,,núverandi slóð”, án frekari skýringa.
Gerðarþoli er ekki eigandi þess lands sem deilt er um afnot af og hefur ekki tekist á hendur skuldbindingar gagnvart gerðarbeiðendum með samningum. Gerðarþoli er því ekki réttur aðili málsins og er kröfu gerðarbeiðanda á hendur honum, um að fjarlægðar verði allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi þeirra í landi Reykja í Ólafsfirði með beinni aðfarargerð, þar af leiðandi hafnað.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu gerðarbeiðenda, Ara Eðvaldssonar og Minnýjar K. Eggertsdóttur, um að fjarlægðar verði allar hindranir af vegi er liggur að sumarhúsi þeirra í landi Reykja í Ólafsfirði, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.