Hæstiréttur íslands

Mál nr. 153/2006


Lykilorð

  • Vörumerki
  • Lögbann


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2006.

Nr. 153/2006.

Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co. ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Íslensk-ameríska verslunarfélaginu hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Vörumerki. Lögbann.

 

Í krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að B væri óheimilt að framleiða og selja vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð” væri notað sem nafn eða auðkenni. Einnig krafðist hann staðfestingar lögbanns sem sýslumaðurinn á Akureyri lagði 1. júlí 2005 við því að B notaði orðið „Heimilisbrauð“ á vörur sínar. Í upphafi ársins 1997 gerðu Í og B með sér samning um leyfi B til að framleiða samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð Í og selja undir sama vöruheiti, vöruna „Heimilisbrauð“. Áður hafði B í um eitt og hálft ár selt brauð undir þessu heiti. Samningur aðila var í gildi til ársins 2005. Eftir að samningssambandinu lauk héldu báðir áfram að framleiða og selja brauð undir þessu heiti. Hinn 1. júlí 2005 lagði sýslumaðurinn á Akureyri lögbann við því að B framleiddi og seldi vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ væri notað sem nafn eða auðkenni. Héraðsdómur staðfesti lögbannið. Var talið að réttur B til að nota heitið „Heimilisbrauð“ á framleiðsluvöru sína hefði fallið niður með aðild hans að samningi aðila frá 1997. Þá var einnig talið með vísan til hinnar áralöngu og óumdeildu notkunar Í á heitinu „Heimilisbrauð“ að Í hefði öðlast vörumerkjarétt yfir vörumerkinu „Heimilisbrauð“ á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2006. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co. ehf., greiði stefnda, Íslensk-ameríska verslunarfélaginu hf., samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. janúar 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar sl., höfðaði Myllan-Brauð hf., Skeifunni 10, Reykjavík, hinn 23. ágúst 2005 gegn stefnda, Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co. ehf., Hrísalundi 3, Akureyri.  Undir rekstri málsins sameinaðist Myllan-Brauð hf. Íslensk-ameríska verslunarfélaginu hf., nú stefnanda í málinu.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að framleiða og selja vöru þar sem orðið „HEIMILISBRAUГ er notað sem nafn eða auðkenni.  Jafnframt krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi lögbann sem sýslumaðurinn á Akureyri lagði 1. júlí 2005 við því að stefndi framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi einnig málskostnaðar.

I.

Á miðju ári 1995 gerði Myllan-Brauð hf. athugasemdir við að stefndi framleiddi og seldi brauð undir heitinu „Fjölskyldubrauð“.  Vegna þeirra athugasemda hætti stefndi framleiðslu brauðs undir greindu nafni og tók þess í stað upp heitið „Heimilisbrauð“.  Var brauð með því nafni í framleiðslu og sölu hjá stefnda þegar hann og Myllan-Brauð hf. gerðu með sér samning í upphafi árs 1997.  Sá samningur er dagsettur 22. janúar 1997 og undirritaður af Kolbeini Kristinssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Myllunnar-Brauðs hf., fyrir hönd félagsins og Kjartani Snorrasyni framkvæmdastjóra fyrir hönd stefnda.  Samningurinn ber yfirskriftina „Samningur um framleiðsluleyfi“.  Í upphafi samningsins er kveðið á um að aðilar hans geri með sér samning um leyfi kaupanda (stefnda) til þess að framleiða samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð seljanda (Myllunnar-Brauðs hf.) og selja undir sama vöruheiti vöruna „Heimilisbrauð“. Í 1., 4., 5. og 6. gr. samningsins segir síðan:

„1. gr.

Seljandi lætur kaupanda í té uppskrift og vinnsluaðferð vörunnar. Kaupandi skuldbindur sig til þess að framleiða vöruna samkvæmt uppskriftinni og vinnsluaðferðinni. Kaupandi skuldbindur sig að fara með uppskriftina sem algjört trúnaðarmál meðan samningur þessi er í gildi.

4. gr.

Fyrir framleiðsluleyfið greiðir kaupandi seljanda kr. 2,50 ofan á verð hvers poka sem kaupandi notar. Seljandi sér um að láta framleiða pokana í samráði við kaupanda og endurselur síðan kaupanda pokana með umsömdu álagi fyrir framleiðsluleyfið. Verði samningnum sagt upp skuldbindur kaupandi sig til þess að kaupa þá poka sem framleiddir hafa verið með hans sammþykki (sic).

5. gr.

Seljandi sér um að kosta alla markaðssetningu. Kaupanda er óheimilt að auglýsa og kynna vöruna nema í samráði seljanda. Báðir aðilar samningsins skulu kappkosta að varan sé á boðstólnum (sic) á öllu landinu.

6. gr.

Samningur þessi gildir til 31/12, 1997. Verði honum ekki sagt upp fyrir 31/10 hvers árs, framlengist hann sjálfkrafa um eitt ár. Gerist kaupandi brotlegur samkvæmt samningi þessum getur seljandi tafarlaust rift samningi þessum. Verði samningnum rift eða sagt upp skuldbindur kaupandi sig til þess að framleiða ekki vöruna Heimilisbrauð.“

 

Samningurinn var í gildi fram til febrúar/mars 2005 en þá féll hann niður með samkomulagi aðila. Á samningstímanum seldu Myllan-Brauð hf. og stefndi brauð undir heitinu „Heimilisbrauð“ samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð þess fyrrnefnda.  Umbúðir þeirra brauða er aðilar framleiddu og seldu undir greindu heiti voru eins að því undanskyldu að á umbúðum brauða framleiddum af stefnda kom fram að brauðið væri framleitt með leyfi Myllunnar-Brauðs hf. Þá voru umbúðir brauða sem framleidd voru af Myllunni-Brauði hf. með merki þess félags, en umbúðir brauða framleiddum af stefnda með merki hans.

Eftir að samningssambandi Myllunnar-Brauðs hf. og stefnda lauk héldu báðir aðilar áfram að framleiða og selja brauð undir heitinu „Heimilisbrauð“. Með beiðni til sýslumannsins á Akureyri 17. mars 2005 krafðist Myllan-Brauð hf. þess að lagt yrði lögbann við því að stefndi framleiddi og seldi vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ væri notað sem nafn eða auðkenni eða notfærði sér auðkennið með öðrum hætti í viðskiptatilgangi.  Sýslumaðurinn á Akureyri hafnaði kröfunni 27. maí 2005.  Myllan-Brauð hf. vísaði málinu til dómstóla og með dómi Hæstaréttar Íslands 24. júní 2005 var ákvörðun sýslumanns felld úr gildi og fyrir sýslumann lagt, gegn tryggingu sem hann mæti nægjanlega úr hendi Myllunnar-Brauðs hf., að leggja lögbann við því að stefndi framleiddi og seldi vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ væri notað sem nafn eða auðkenni.  Hinn 1. júlí 2005 lagði sýslumaðurinn á Akureyri lögbannið á eftir að Myllan-Brauð hf. hafði lagt fram hæfilega tryggingu að mati sýslumanns.  Myllan-Brauð hf. höfðaði síðan mál þetta 23. ágúst 2005 samkvæmt framansögðu.

II.

Stefnandi telur vafalaust að vörumerkjaréttur hafi stofnast yfir vörumerkinu „Heimilisbrauð“ vegna notkunar skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Um sé að ræða eina vinsælustu brauðtegundina á íslenskum markaði um árabil. Ljóst megi vera að vöruheitið „Heimilisbrauð“ sé almennt þekkt og hafi öðlast ákveðinn sess og ákveðna þýðingu í hugum íslenskra neytenda. Vörumerkið sé afar sterkt í skilningi vörumerkjaréttar.

Stefnandi heldur því fram að ákvæði 4. gr. laga nr. 45/1997 veiti vörumerkjarétti hans vernd gegn því að aðrir noti heimildarlaust í atvinnuskyni vörumerki sem villst verði á og merki þeirra.  Veruleg ruglingshætta sé á milli vöru stefnda og vöru stefnanda í skilningi síðast tilvitnaðrar lagagreinar.  Við mat á þeirri hættu beri að miða við hættuna í huga hins almenna neytanda en um heildarmat á öllum þáttum sé að ræða þar sem hljóð- og sjónlíking ráði mestu um mat á ruglingshættu.

Að áliti stefnanda er ljóst að alger hljóðlíking sé með umræddum vörumerkjum þar sem bæði beri sama heiti.  Einnig sé sjónlíking mjög mikil þar sem litaval- og notkun sé afar svipuð.  Bæði brauðin séu í fölgulleitri pakkningu þar sem orðið „Heimilisbrauð“ sé ritað á dökkgrænum grunni.  Grænn og gulur sé sérstaklega ráðandi í hönnun beggja umbúða.  Auk þess séu umbúðir beggja brauða skreyttar teikningum af blómum.  Þá sé lýsing á næringargildi og innihaldi á svipuðum stað á pokunum, á hvítum grunni, auk þess að vera efnislega nánast samhljóma.  Enn fremur séu vörurnar á sama markaði og því þurfi minna til að koma svo hinn almenni neytandi ruglist á þeim.  Brauðin séu jafngróf og innihaldi svo til sömu hráefni í nánast sama magni samkvæmt innihaldslýsingum á umbúðum þeirra.  Brauðin séu bæði ferköntuð og litur og áferð þeirra svipuð. Auki þetta enn á ruglingshættuna.

Þá kveðst stefnandi einnig byggja kröfur sínar á því að stefndi hafi með sérstöku ákvæði í samningi Myllunnar-Brauðs hf. og stefnda í upphafi árs 1997 skuldbundið sig til að framleiða ekki vöruna „Heimilisbrauð“ eftir að samningssambandi aðila yrði slitið.  Í ákvæðinu hafi falist bindandi loforð sem stefndi hafi ekki efnt eftir að samningnum var slitið.  Myllunni-Brauði hf. hafi því verið nauðugur sá kostur að fá háttsemi stefnda stöðvaða með lögbanni.

Enn fremur vísar stefnandi til þess að eftir að umræddu samningssambandi lauk hafi stefnandi enga vissu fyrir því að stefndi framleiði sitt „Heimilisbrauð“ eftir sömu uppskrift og stefnandi framleiðir sitt sem leitt geti til þess að lakari vara verði seld undir því vöruheiti sem Myllan-Brauð hf., nú stefnandi, hafi helgað sér með langvarandi notkun.

Að endingu byggir stefnandi á því að ruglingshættan sé sérstaklega mikil í máli þessu vegna fyrra viðskiptasambands aðila.  Samkvæmt því hafi stefndi gegn greiðslu haft heimild til að nota „Heimilisbrauðspoka“ Myllunnar-Brauðs hf. og jafnframt að fjarlægja Myllumerkið af pokunum og setja sitt eigið merki í staðinn.  Stefndi nýti nú samskonar umbúðir undir framleiðslu sína og hann hafi áður gert samkvæmt sérstakri heimild í samningnum.  Sýni þetta betur en margt annað að umrædd háttsemi stefnda feli í sér vísvitandi brot gegn réttindum stefnanda.  Stefndi nýti sér því vörumerki Myllunnar, nú stefnanda, á sama hátt og áður en umræddu viðskiptasambandi lauk, en án samþykkis og greiðslna til stefnanda.  Þessi háttsemi hans brjóti gegn lögvörðum einkarétti stefnanda til vörumerkisins.

Með vísan til framangreinds segir stefnandi honum vera nauðsyn að fá með dómi lagt bann við lýstri notkun stefnda á heitinu „Heimilisbrauð“ svo sem í dómkröfu hans greini.  Telji stefnandi að notkun stefnda hafi þegar valdið honum tekjutapi og muni valda enn frekara tekjutapi í framtíðinni verði lögbrotunum ekki hætt.

Um heimild til öflunar viðurkenningardóms um kröfur sínar vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þá vísar hann um lagastoð fyrir kröfum sínum um staðfestingu lögbanns til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 1. mgr. 24. gr. sömu laga.

III.

Stefndi segir upplýst að hann hafi verið búinn að framleiða og selja brauð með heitinu „Heimilisbrauð“ í eitt og hálft á áður en samningur hans og Myllunnar-Brauðs hf. var gerður 22. janúar 1997.  Hins vegar liggi ekkert fyrir um að Myllan-Brauð hf. hafi selt brauð undir því nafni fyrir undirritun samningsins.  Við túlkun samningsins verði ekki fram hjá því litið að stefndi hafi tekið að nota heitið „Heimilisbrauð“ á brauð, sem hann framleiddi og seldi, löngu áður en samningur stefnda og Myllunnar-Brauðs hf. var gerður og gera megi ráð fyrir að nefnt félag hafi tekið að nota það heiti.

Samkvæmt framangreindu heldur stefndi því fram að þegar samningurinn var gerður hafi hann „átt“ heitið Heimilisbrauð.  Það sé því stefnanda að sanna að Myllan-Brauð hf. hafi verið að selja stefnda notkunarrétt á heitinu „Heimilisbrauð“ með samningnum.  Efni samningsins bendi ekki til að svo hafi verið og heldur ekki forsaga þess að heitið var tekið upp.  Enn fremur verði að hafa í huga að samningurinn var saminn af Myllunni-Brauði hf. og því verði að túlka vafa sem uppi kunni að vera um efni hans stefnanda í óhag.

Að sögn stefnda var umræddur samningur þess efnis að aðilar hans ákváðu, af markaðslegum ástæðum, að framleiða eins brauð, þ.e. nota sömu uppskrift, hafa sama útlit á umbúðum og kosta í sameiningu markaðssetningu brauðsins.  Skilningur þessi endurspeglist í orðalagi samningsins sem beri yfirskriftina „Samningur um framleiðsluleyfi“.  Í inngangi samningsins segi að það sem Myllan-Brauð hf. selji stefnda sé réttur til að framleiða brauðið eftir uppskrift og vinnsluaðferðum seljanda. Síðan segi; „... og selja undir sama vöruheiti vöruna „Heimilisbrauð“.“  Það orðalag vísi aðeins til þess að samningsaðilar selji báðir vöruna undir sama heitinu. Ekkert í ákvæðum samningsins bendi til þess að Myllan-Brauð hf. hafi verið að selja stefnda aðgang að vörumerkinu eða heitinu „Heimilisbrauð“.  Stefndi haldi því reyndar fram að heiti þetta hafi hann lagt til samningsins þar sem hann hafi notað það fyrir gerð hans. Myllan-Brauð hf. hafi engan rétt haft yfir heitinu þegar samningurinn var gerður sem félagið hafi getað selt stefnda notkunarrétt á.  Samningsaðilar hafi einfaldlega sammælst um að nota heitið á brauð það sem þeir hafi komið sér saman um að framleiða.  Í samningnum segi ekki að stefndi afsalaði sér rétti til að nota heitið „Heimilisbrauð“ á vörur sem hann framleiddi eftir eigin uppskriftum.  Hins vegar hafi verið samið um að hann notaði uppskriftir og framleiðsluaðferðir Myllunnar-Brauðs hf.

Sé litið til annarra ákvæða samningsins segir stefndi virðast ljóst að Myllan-Brauð hf. hafi ekki verið að selja stefnda annað en uppskrift og vinnsluaðferð, sbr. 1. gr. samningsins, en þar segi að seljandi láti í té uppskrift og vinnsluaðferð vörunnar. Í 4. gr. segi síðan að fyrir framleiðsluleyfið greiði kaupandi 2,50 krónur ofan á verð hvers poka sem kaupandi noti.  Þess sé ekki getið að verið sé að greiða fyrir notkun á hinu umdeilda vöruheiti.

Að áliti stefnda verður að túlka ákvæði 6. gr. samnings aðila með hliðsjón af framangreindum ákvæðum hans.  Í lokamálslið 6. gr. segi að stefndi skuldbindi sig til að framleiða ekki vöruna „Heimilisbrauð“ verði samningi aðila sagt upp eða honum rift.  Með ákvæðinu sé verið að taka fram þann sjálfsagða hlut að stefndi hætti að nota hið selda falli samningurinn úr gildi, annað ekki.  Í ákvæðið verði því ekki lögð sú merking að stefnda sé óheimilt að nota heitið „Heimilisbrauð“ á eigin framleiðslu eftir að samningurinn fellur úr gildi.  Önnur skýring ákvæðisins fær að áliti stefnda ekki staðist, bæði vegna efnis samningsins og þess að mönnum sé almennt heimilt að nota þau heiti á vörur sínar sem ekki brjóti gegn réttindum annarra.  Samkvæmt þessu og öðru framangreindu sé því útilokað að dómurinn geti orðið við kröfu stefnanda um að stefnda verði óheimilt að nota hið umdeilda heiti.

Þá kveðst stefndi enn fremur styðja kröfur sínar þeim rökum að vörumerkjaréttur hans hafi stofnast við notkun, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997. Í vörumerkjarétti felist, sbr. 1. gr. laganna, einkaréttur þess sem réttinn á til að nota hann í atvinnurekstri.  Í málinu liggi fyrir að báðir aðilar hafi notað hið umdeilda vörumerki.  Lagðar hafi verið fram umbúðir þær sem stefndi hafi notað og merktar hafi verið honum.  Því sé ekki hægt að líta svo á að einungis Myllan-Brauð hf. og síðar stefnandi hafi notað vörumerkið og unnið því markaðsfestu.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvernig Myllan-Brauð hf. hafi öðlast rétt yfir heitinu í upphafi, en samkvæmt framansögðu sé ljóst að réttinn hafi félagið ekki öðlast með samningi þess við stefnda.  Enn fremur liggi fyrir í málinu að stefndi hafi notað heitið „Heimilisbrauð“ áður en Myllan-Brauð hf. hafi hugsanlega notað það en til þess verði að líta, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1997.  Að endingu verði að hafa í huga hina huglægu afstöðu aðila samningsins á meðan samningurinn var í gildi.

Samkvæmt öllu framansögðu segir stefndi stefnanda ekki hafa sýnt fram á að skilyrði til að verða við lögbannskröfu hans séu fyrir hendi.  Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

IV.

Eins og rakið er í kafla I framleiddi stefndi vöru með nafninu „Heimisbrauð“ á árunum 1995 og 1996.  Í upphafi árs 1997 gerðu stefndi og Myllan-Brauð hf. með sér samning sem fyrir liggur í málinu og ber yfirskriftina „Samningur um framleiðsluleyfi“.  Í upphafsorðum samningsins er kveðið á um að aðilar geri með sér samning um leyfi stefnda (kaupanda) til þess að framleiða samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð Myllunnar-Brauðs hf. (seljanda) og selja undir sama vöruheiti vöruna „Heimilisbrauð“.  Verða tilvitnuð orð ekki skilin á annan veg en þann að með samningnum hafi stefndi fengið leyfi viðsemjanda síns til að framleiða vöru eftir uppskrift og vinnsluaðferð þess síðarnefnda og jafnframt að samningsaðilar hafi sammælst um að selja umrædda vöru undir vöruheitinu „Heimilisbrauð“.

Af 1. gr. samningsins má ráða að hið keypta hafi verið uppskrift og vinnsluaðferð vöru þeirrar sem samningurinn tók til.  Samkvæmt 4. gr. greiddi stefndi viðsemjanda sínum ákveðna fjárhæð ofan á verð hvers poka sem hann notaði.  Var í sömu grein jafnframt kveðið á um að Myllan-Brauð hf. sæi um að láta framleiða pokana í samráði við stefnda og endurseldi honum þá síðan með nefndu álagi fyrir framleiðsluleyfið.  Alla markaðssetningu vörunnar sá Myllan-Brauð hf. um, sbr. 5. gr. samningsins.

Ofangreindur samningur var í gildi frá upphafi ársins 1997 og fram á fyrri hluta árs 2005, en þá féll hann niður með samkomulagi aðila.  Óumdeilt er í málinu að á samningstímanum seldu Myllan-Brauð hf. og stefndi brauð undir heitinu „Heimilisbrauð“ samkvæmt uppskrift og vinnsluaðferð þess fyrrnefnda í samræmi við áðurrakin ákvæði samningsins.  Enn fremur er ágreiningslaust með aðilum að umbúðir þeirra brauða er samningsaðilar framleiddu og seldu undir greindu heiti voru eins að því undanskyldu að á umbúðum brauða framleiddum af stefnda kom fram að brauðið væri framleitt með leyfi Myllunnar-Brauðs hf. og þá voru umbúðir brauða sem framleidd voru af Myllunni-Brauði hf. með merki félagsins, en umbúðir brauða framleiddum af stefnda með merki hans.

Samkvæmt ofansögðu framleiddi stefndi og seldi vöruna „Heimilisbrauð“ frá árinu 1997 og fram á fyrri hluta árs 2005 með leyfi Myllunnar-Brauðs hf.  Með undirritun samningsins 22. janúar 1997, sbr. 4. málslið 6. gr. hans, skuldbatt stefndi sig til þess að framleiða ekki vöruna yrði samningnum rift eða honum sagt upp.  Að þessu virtu og með vísan til þess sem að framan segir um túlkun upphafsorða samningsins frá 1997 og ákvæða 1., 4. og 5. gr. hans verður að telja að réttur stefnda til að nota heitið „Heimilisbrauð“ á framleiðsluvöru sína hafi fallið niður með aðild hans að samningnum.

Með vísan til framangreinds og hinnar áralöngu og óumdeildu notkunar vöruheitisins „Heimilisbrauð“ á markaði þykir stefnanda hafa tekist að sýna fram á að vörumerkjaréttur hafi stofnast yfir vörumerkinu „Heimilisbrauð“ til handa Myllunni-Brauði hf. á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, réttur sem nú tilheyrir stefnanda.

Ákvæði 4. gr. laga nr. 45/1997 veitir ofangreindum vörumerkjarétti stefnanda vernd gegn því aðrir noti heimildarlaust í atvinnuskyni vörumerki sem villst verður á og merki hans.  Fallast verður á það með stefnanda að í því tilviki sem hér um ræðir sé ruglingshættan mikil, ekki síst vegna samningssambands þess sem áður var milli stefnda og Myllunnar-Brauðs hf.  Að þessu virtu og með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan verður tekin til greina krafa stefnanda um að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt að framleiða og selja vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu lögbann o.fl., sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, verður staðfest lögbann sem sýslumaðurinn á Akureyri lagði 1. júlí 2005 við því að stefndi framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins hér að framan, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefndi til að greiða stefnanda málskostnað er hæfilega telst ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefnda, Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co. ehf., er óheimilt að framleiða og selja vöru þar sem orðið „HEIMILISBRAUГ er notað sem nafn eða auðkenni.

Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn á Akureyri lagði 1. júlí 2005 við því að stefndi framleiði og selji vöru þar sem orðið „Heimilisbrauð“ er notað sem nafn eða auðkenni.

Stefndi greiði stefnanda, Íslensk-ameríska verslunarfélaginu hf., 400.000 krónur í málskostnað.