Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2002
Lykilorð
- Skuldabréf
- Framsal
- Handveð
|
|
Fimmtudaginn 28. nóvember 2002. |
|
Nr. 229/2002. |
Þórir Garðarsson Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson (Sveinn Skúlason hdl.) gegn Gúmmívinnslunni hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Skuldabréf. Framsal. Handveð.
Í málinu krafði G áfrýjendur um greiðslu á skuldabréfi, sem Í gaf út 2. apríl 1997 með sjálfskuldarábyrgð hinna áfrýjendanna. Við útgáfu bar bréfið ekki með sér nafn kröfuhafa, en óumdeilt var að það var í kjölfarið afhent fyrirtækinu ÍD. G hafði áður höfðað mál gegn Í og S vegna sama skuldabréfs en því máli lauk með sýknudómi Hæstaréttar. Taldi dómurinn að þrotabú ÍD væri eigandi bréfsins samkvæmt hljóðan þess en G hefði ekki sannað eignarrétt sinn að bréfinu. Fékk G skuldabréfið framselt sér í apríl 2001 og höfðaði mál þetta til greiðslu bréfsins. Málsvörn áfrýjenda var eins og í fyrra málinu reist á því að krafan samkvæmt skuldabréfinu væri greidd. ÍD hafi verið greitt með nýju skuldabréfi, útgefnu af Í 15. júlí 1997, og lögðu áfrýjendur fram kvittun ÍD fyrir þeirri greiðslu en einnig var skráð á kvittunina að ÍD lofi að skila eldra skuldabréfinu. Með framburði S fyrir dómi var talið sannað að ÍD, eigandi bréfsins, hafi veitt G rétt yfir því til tryggingar kröfu, jafnframt því sem vörslur þess færðust til G. Voru þar með uppfyllt skilyrði til að leggja mætti til grundvallar að handveð hafi stofnast í bréfinu með þeim gerningi. Með framburði S var einnig sannað að veðrétturinn hafi stofnast áður en Í gaf út nýtt skuldabréf 15. júlí 1997 og afhenti það ÍD. Skilyrði um grandleysi G þegar hann öðlaðist óbeinan eignarrétt yfir bréfinu voru því einnig fyrir hendi. Þrátt fyrir vitneskju um að ÍD hefði eldra bréfið ekki lengur undir höndum og að eigandinn hefði veitt öðrum rétt yfir því, hafi Í tekið áhættuna af því að afhenda ÍD nýtt skuldabréf án þess að fá eldra skuldabréfið, sem verið var að greiða, afhent til baka. Voru áfrýjendur dæmdir til að greiða G andvirði skuldabréfsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. maí 2002. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í málinu krefur stefndi áfrýjendur um greiðslu á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 4.000.000 krónur, sem áfrýjandinn Ísferðir ehf., sem þá hét Allrahanda/Ísferðir ehf., gaf út 2. apríl 1997 með sjálfskuldarábyrgð hinna áfrýjendanna. Skyldi það greitt upp með mánaðarlegum afborgunum á þremur árum. Við útgáfu bar bréfið ekki með sér nafn kröfuhafa, en óumdeilt er að það var í kjölfarið afhent Íslandsdekki ehf. Stefndi hefur áður höfðað mál gegn áfrýjendunum Ísferðum ehf. og Sigurdóri Sigurðssyni vegna þessa sama skuldabréfs. Við meðferð þess máls, sem rekið var samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lýsti stefndi yfir að hann hafi eignast bréfið frá Íslandsdekki ehf. um miðjan apríl 1997. Í héraði var krafa stefnda tekin til greina, en málinu lauk með dómi Hæstaréttar 25. febrúar 1999, bls. 765 í dómasafni réttarins það ár, og voru áfrýjendurnir sýknaðir. Var fallist á með þeim að skuldabréfið væri nú nafnbréf, þótt það hafi verið handhafabréf í upphafi. Samkvæmt hljóðan þesreina, en málinu lauk með dómi Hæstaréttar 25. febrúar 1999, bls. 765 í dómasafni réttarins það ár, og voru áfrýjendurnir sýknaðir. Var fallist á með þeim að skuldabréfið væri nú nafnbréf, þótt það hafi verið hs væri Íslandsdekk ehf. eigandi bréfsins og ekkert fram komið frá forráðamönnum þess félags sem staðfesti að bréfið hafi verið framselt stefnda. Bú Íslandsdekks ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 27. febrúar 1998 og var niðurstaða Hæstaréttar sú að þrotabú félagsins væri nú eigandi bréfsins samkvæmt hljóðan þess. Gegn því hafi stefndi ekki sannað eignarrétt sinn að bréfinu. Málið hafi því verið höfðað af röngum aðila og yrði ekki komist hjá að sýkna áfrýjendur af kröfu stefnda.
Í því máli, sem nú er til úrlausnar, telur stefndi að hann hafi bætt úr fyrri annmarka með því að skiptastjóri þrotabús Íslandsdekks ehf. framseldi skuldabréfið til stefnda 10. apríl 2001 með áritun á það. Þar sem skuldabréfið hafi ekki greiðst frá og með gjalddaga 1. maí 1997 sé málsókn óhjákvæmileg. Eins og í fyrra skiptið rekur hann málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991.
Málsvörn áfrýjenda er eins og í fyrra málinu reist á því að krafan samkvæmt skuldabréfinu sé greidd. Hafi það verið gert 15. júlí 1997 með því að kröfuhafa samkvæmt bréfinu, Íslandsdekki ehf., var greitt með nýju skuldabréfi, útgefnu af Allrahanda/Ísferðum ehf. 15. júlí 1997, sömu fjárhæðar og fyrra skuldabréfið. Hafa áfrýjendur lagt fram kvittun Íslandsdekks ehf. 15. júlí 1997, þar sem ritað er að útgefandi hafi þann dag greitt skuldabréf útgefið 2. apríl 1997 að fjárhæð 4.000.000 krónur með nýju skuldabréfi sömu fjárhæðar, útgefnu 15. júlí sama árs. Er einnig skráð á kvittunina að Íslandsdekk ehf. lofi að skila eldra skuldabréfinu, sem áfrýjendur segja að félagið hafi ekki staðið við. Í greinargerð áfrýjenda til héraðsdóms kemur fram að eftir dóm Hæstaréttar í fyrra málinu hafi skiptastjóra í þrotabúi Íslandsdekks ehf. verið ritað bréf 3. mars 1999 og honum gerð grein fyrir greiðslu á umræddu skuldabréfi.
Þótt málið hafi verið höfðað samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 hlutuðust aðilarnir engu að síður til um að teknar yrðu skýrslur af tveimur mönnum fyrir dómi. Eysteinn Gunnar Guðmundsson, stjórnarmaður í Íslandsdekki ehf. og prókúruhafi félagsins, staðfesti undirritun sína á kvittun 15. júlí 1997, sem að framan er getið, og að hafa ráðstafað eldra skuldabréfinu til stefnda. Ekki mundi vitnið hvenær það gerðist eða hvers vegna bréfinu var ekki skilað til útgefandans eftir að Íslandsdekk ehf. fékk frá honum nýtt skuldabréf, svo sem lofað var í áðurnefndri kvittun. Áfrýjandinn Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ísferða ehf., gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Kvað hann Eystein hafa undirritað kvittunina í sinni viðurvist og lofað að skila eldra bréfinu. Aðspurður um hvort honum hafi verið kunnugt um að Íslandsdekk ehf. hafði bréfið þá ekki undir höndum svaraði Sigurdór: „Já, mér skildist á honum og vissi reyndar að hann hafi sett það - og hélt það hefði verið sem trygging, eins og hann sagði mér á þessum tíma, að það væri til tryggingar á skuld við Gúmmívinnsluna og hann fengi bréfið aftur, þetta væri bara ákveðin trygging .... Hann sagðist eiga bréfið engu að síður ... hann var ekki með það í sínum vörslum, en eins og hann sagði að hann ætti bréfið ennþá, að hann væri ekki búinn að framselja það eða neitt svoleiðis.“
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt tölvubréf lögmanns áfrýjenda til skiptastjóra þrotabús Íslandsdekks ehf. 6. maí 2002 með fyrirspurn um hvort þrotabúið hafi að „fullu og öllu afsalað sér öllum ávinningi er kann að greiðast af andvirði skuldabréfsins“. Í svari skiptastjórans 25. júní sama árs segir að þrotabúið hafi framselt „umrætt skuldabréf til Gúmmívinnslunnar ehf. með áritun á skuldabréfið án nokkurra skilyrða.“ Áfrýjendur telja framsal skiptastjórans á skuldabréfinu árið 2001 marklaust og að stefndi geti ekki unnið neinn rétt við það, enda hafi hann ekki verið grandlaus þegar skiptastjórinn framseldi honum bréfið um mótbáru þeirra þess efnis að það væri greitt. Lögmaður áfrýjenda skýrði jafnframt frá því við munnlegan flutnings málsins fyrir Hæstarétti að Ísferðir ehf. hafi leyst til sín skuldabréfið, sem félagið gaf út 15. júlí 1997 og afhenti Íslandsdekki ehf. sama dag, en ekki er fram komið hvenær eða frá hverjum áfrýjandinn fékk bréfið eða um atvik að því að öðru leyti.
II.
Með framburði áfrýjandans Sigurdórs Sigurðssonar fyrir dómi er sannað að Íslandsdekk ehf., eigandi hins umþrætta skuldabréfs, veitti stefnda rétt yfir því til tryggingar kröfu jafnframt því sem vörslur þess færðust til stefnda. Eru þar með uppfyllt skilyrði til að leggja megi til grundvallar að handveð hafi stofnast í bréfinu með þessum gerningi. Með framburði áfrýjandans er einnig sannað að veðrétturinn stofnaðist áður en áfrýjandinn Ísferðir ehf. gaf út nýtt skuldabréf 15. júlí 1997 og afhenti það Íslandsdekki ehf. Skilyrði um grandleysi stefnda þegar hann öðlaðist óbeinan eignarrétt yfir bréfinu eru því einnig fyrir hendi. Þrátt fyrir vitneskju um að Íslandsdekk ehf. hefði eldra bréfið ekki lengur undir höndum og að eigandinn hefði veitt öðrum rétt yfir því tók áfrýjandinn Ísferðir ehf. áhættuna af því að afhenda Íslandsdekki ehf. nýtt skuldabréf án þess að fá eldra skuldabréfið, sem verið var að greiða, afhent til baka.
Stefndi átti rétt á því í skjóli handveðréttar síns að krefja skuldara bréfsins um gjaldfallna vexti og afborganir af því, sbr. nú 2. mgr. 6. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Skuldabréfið er nú allt gjaldfallið, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu með aðilunum. Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Þórir Garðarsson, Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson, greiði óskipt stefnda, Gúmmívinnslunni hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2002.
Mál þetta var þingfest 12. júní 2001 og var dómtekið 28. febrúar sl.
Stefnandi er Gúmmívinnslan hf., Réttarhvammi 1, Akureyri.
Stefndu eru Þórir Garðarsson, Þverholti 9, Mosfellsbæ, Allrahanda/Ísferðir ehf., Hyrjarhöfða 2, Reykjavík og Sigurdór Sigurðsson, Heiðmörk 50, Hveraragerði.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.042.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 1 maí 1997 til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. maí 2001, en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær að stefndu verði alfarið sýknaðir af öllum dómkröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á skuldabréfi útgefnu í Reykjavík, þann 2. apríl 1997, af stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf. Skuldabréfið er að fjárhæð 4.000.000 króna. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi endurgreiða lánið með 36 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. maí 1997. Skuldabréfið er óverðtryggt en í vexti af skuldinni skyldi greiða meðaltalsvexti eins og bankar og sparisjóðir taka á hverjum tíma, samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands, af sambærilegum og/eða hliðstæðum skuldabréfalánum. Á útgáfudegi námu þeir 8,2 % á ári. Heimild er í skuldabréfinu til að gjaldfella eftirstöðvar skuldarinnar ef ekki er staðið skil á greiðslum af bréfinu og að reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilum skuldarinnar.
Skuldabréfið var upphaflega gefið út til handhafa og tókust stefndu, Sigurdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson, á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á greiðslu skuldarinnar. Á bakhlið skuldabréfsins er ritað, þann 22. apríl 1997, að skuldabréfið sé framselt Búnaðarbanka Íslands. Framsalið er undirritað af Íslandsdekki ehf., kt. 590996-3199.
Mál vegna þessa sama skuldabréfs var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. nóvember 1997 og dómur í því kveðinn upp þann 14. maí 1998 þar sem stefnukröfur málsins voru teknar til greina. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar og með dómi réttarins, uppkveðnum þann 25. febrúar 1999 í hæstaréttarmálinu nr. 304/1998: Allrahanda/Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson gegn Gúmmívinnslunni hf., varð niðurstaðan sú, að Íslandsdekk ehf., þá þrotabú þess félags, væri eigandi skuldabréfsins en ekki Gúmmívinnslan hf. Í málinu hafi legið fyrir yfirlýsing Búnaðarbanka Íslands hf. þess efnis að bankinn hefði hvorki keypt skuldabréfið né eignast það á annan hátt. Voru áfrýjendur, stefndu í héraði, sýknaðir af kröfum stefnanda, þar sem stefnandi hafi ekki getað sannað eignarrétt sinn að skuldabréfinu og málið því höfðað af röngum aðila.
Þann 10. apríl 2001 framseldi þrotabú Íslandsdekks ehf. skuldabréfið til stefnanda með áritun á það. Stefnandi kveður skuldabréf þetta ekki hafa greiðst frá og með gjalddaga þann 1. maí 1997.
Stefnufjárhæðin sundurliðist þannig:
|
Höfuðstóll, gjaldfelldur |
4.000.000 kr. |
|
Samningsvextir |
42.667 kr. |
|
Samtals |
4.042.667 kr. |
Stefnandi kveður mál þetta rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefndu og lagarök
Af hálfu stefndu er því mótmælt að umstefnt skuldabréf sé ógreitt. Samkvæmt bókhaldsgögnum stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., og með vísan til kvittunar, dags. 15. júlí 1997, hafi stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., greitt kröfu samkvæmt framlögðu skuldabréfi þann dag með nýju skuldabréfi útgefnu 15. júlí 1997, sbr. og áritun um móttöku þess. Umræddu skuldabréfi hafi hins vegar aldrei verið skilað eins og borið hafi að gera við greiðslu þess. Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir áður til þess að fá stefndu til þess að greiða hið uppgreidda skuldabréf, þ.á m. með því að gera tilraun til þess að fá ógildingardóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í þeim tilgangi að komast yfir skuldabréf útgefið 15. júlí 1997, en það hafi ekki gengið eftir og því sé með máli þessu gerð enn ein tilraunin til þess að komast yfir andvirði hins umstefnda skuldabréfs með ólögmætum hætti.
Úrskurður um töku Íslandsdekkja ehf. til gjaldþrotaskipta hafi verið kveðinn upp hinn 27. febrúar 1998 og samkvæmt bréfi skiptastjóra, dags. 6. ágúst 1998, hafi skiptastjóra þá hvorki verið kunnugt um tilvist skuldabréfs þess sem lagt sé fram í máli þessu né hafi hann haft það í vörslu sinni.
Að gengnum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 304/1998 hafi skiptastjóra verið ritað bréf, dags. 3. mars 1999, þar sem skiptastjóra hafi verið gerð grein fyrir greiðslu á umræddu skuldabréfi.
Stefndu telji málsástæður sínar því þær að stefnandi eigi enga kröfu á hendur þeim.
Stefndu benda á að umstefnt skuldabréf hafi verið útgefið til Íslandsdekkja ehf., sem jafnframt hafi tekið við greiðslu á andvirði þess, sbr. ofanritað, og því ljóst að ekki geti verið um að ræða kröfu á grundvelli þess bréfs enda þá um tvírukkun að ræða.
Um lagarök er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum til 3. mgr. 118. gr.
Niðurstaða
Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 25. febrúar 1999, var úr því skorið að Íslandsdekk ehf., sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, væri eigandi umstefnds skuldabréfs.
Eftir að dómur féll í Hæstarétti Íslands var svofelld áritun færð á skuldabréfið:
“Skuldabréf þetta er framselt Gúmmívinnslunni hf., kt. 630269-5719 Réttarhvammi 1, Akureyri, án ábyrgðar fyrir þrotabú Íslandsdekks ehf.
Reykjavík 10. apríl 2001”
Undir þetta framsal ritar Friðjón Örn Friðjónsson hrl., skiptastjóri þb. Íslandsdekks ehf.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi þegar greitt skuldabréfið og vísar til kvittunar sem útgefin var 15. júlí 1997 en þar segir að þann dag hafi Allrahanda greitt undirrituðum skuldabréf útgefið 2. apríl 1997 að upphæð 4.000.000 króna sem verið hafi í vanskilum. Allrahanda greiði með skuldabréfi útgefnu 15. júlí 1997. Íslandsdekk lofar að skila skuldabréfinu sem var útgefið 2. apríl 1997 að fjárhæð 4.000.000 króna. Undir þessa kvittun ritar Eysteinn Gunnar Guðmundsson f.h. Íslandsdekks ehf.
Einungis ljósrit kvittunar liggur frammi í málinu en ekki hafa verið gerðar athugasemdir um að ljósrit þetta sé ekki í samræmi við frumrit kvittunarinnar.
Framkvæmdastjóri stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., Sigurður Sigurðsson, bar fyrir dómi að þegar hann greiddi skuldabréf, útgefið 2. apríl 1997, hafi hann ekki fengið það afhent. Bar hann einnig að honum hefði skilist að bréfið hefði verið afhent Gúmmívinnslunni hf. sem trygging og Íslandsdekk ehf. fengi bréfið aftur.
Eysteinn Gunnar Guðmundsson kom einnig fyrir dóminn til skýrslugjafar. Hann kannaðist við undirritun sína á kvittunina sem dags. er 15. júlí 1997 en mundi lítið sem ekkert eftir umræddum viðskiptum.
Með hliðsjón af framsali þb. Íslandsdekks ehf. þann 10. apríl 2001 til stefnanda verður að telja að stefnandi sé handhafi skuldabréfsins með formlega löglegri heimild og því réttur aðili að máli þessu.
Stefndi heldur því fram að hann hafi greitt skuldabréf, útgefið 2. apríl 1997, með skuldabréfi útgefnu 15. júlí 1997. Liggur einungis ljósrit þess bréfs frammi í málinu.
Forsvarsmanni stefnda var kunnugt, þegar hann afhenti skuldabréf, útgefið 15. júlí 1997, að Íslandsdekk ehf. hafði skuldabréf, útgefið 2. apríl 1997, ekki undir höndum en hafði ráðstafað því til stefnanda, Gúmmívinnslunnar hf.. Skuldabréf er viðskiptabréf og er það til þess fallið að ganga manna á milli í viðskiptum. Er litið svo á að skuldara sé ekki skylt að greiða öðrum en þeim er hefur skuldabréfið í höndum með formlega löglegri heimild. Er þá venja að árita sjálft skuldabréfið um greiðsluna þannig að ekki fari á milli mála að bréfið sé greitt.
Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Allrahanda/Ísferða ehf., afhenti skuldabréf, útgefið 15. júlí 1997, að fjárhæð 4.000.000 krónur sem greiðslu á skuldabréfi, útgefnu 2. apríl 1997, eins og áður segir. Var bréfið útgefið af Allrahanda/Ísferðum ehf. með sjálfskuldarábyrgð Sigurdórs Sigurðssonar. Hefur ekki verið sýnt fram á að staðið hafi verið í skilum með greiðslur samkvæmt skuldabréfi þessu, en það skyldi greiðast á fjórum árum með tveimur afborgunum á ári. Þá verður ekki séð að stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi gert neina tilraun til þess að fá afhent skuldabréf, útgefið 2. apríl 1997, sem hann vill meina að hann hafi greitt að fullu.
Þegar framanritað er virt verður að telja að þrátt fyrir framlagða kvittun hafi stefndu ekki gert sennilegt eða getað sýnt fram á að umstefnt skuldabréf sé greitt, enda ber skuldabréfið ekki með sér að vera greitt. Ber því að taka kröfur stefnanda í málinu til greina. Dráttarvextir greiðast eins og greinir í dómsorði.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Þórir Garðarsson, Allrahanda/Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson, greiði in solidum stefnanda, Gúmmívinnslunni hf., 4.042.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1997 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.