Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Uppgjör
  • Málsástæða
  • Aðfinnslur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2006.

Nr. 234/2006.

Margrét E. Hallgrímsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Uppgjör. Málsástæður. Aðfinnslur. Sératkvæði.

M krafðist greiðslu skaðabóta úr hendi S vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir 29. mars 2000. S hafði áður greitt M bætur á grundvelli örorkumats sem framkvæmt var í kjölfar slyssins. Naut M aðstoðar lögmanns við uppgjörið og var tekið fram í yfirlýsingu í tilefni greiðslunnar að með henni væri lokið öllum kröfum á hendur S vegna slyssins. Snemma árs 2004 lét M dómkveðja tvo menn til að meta á ný afleiðingar umferðarslyssins og mátu þeir afleiðingar slyssins mun meiri en gert var í hinu fyrra mati. Við rekstur málsins í héraði var óskað eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna. Töldu þeir að tjón M vegna slyssins hefði verið vanmetið í upphaflega örorkumatinu en að hins vegar hefðu ekki orðið neinar ófyrirsjáanleg breytingar á heilsufari M eftir að það mat fór fram. Af þeim sökum var ekki talið að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um endurupptöku væri uppfyllt. Var S því sýknað af kröfu M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 4.163.425 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. mars 2000 til 18. júlí 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 326.038 krónum miðað við 8. mars 2001. Til vara krefst hann þess að stefndi greiði sér 2.206.272 krónur með sömu vöxtum og frádrætti. Til þrautavara krefst hann þess að stefndi greiði sér 1.841.875 krónur, enn með sömu vöxtum og frádrætti, en að því frágengnu 1.806.000 krónur með sömu vöxtum og frádrætti. Í öllum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Í stefnu til héraðsdóms gerði áfrýjandi kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda vegna tveggja umferðarslysa sem hún varð fyrir 29. mars 2000 og 20. október 2003. Var hún í báðum tilvikum ökumaður bifreiða sem vátryggðar voru hjá stefnda og byggði kröfur sínar á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Málið var þingfest 9. september 2004 og fékk stefndi frest til 21. október sama ár til að skila greinargerð. Samkomulag varð með málsaðilum um uppgjör bóta til áfrýjanda vegna síðara slyssins og greiddi stefndi þær 20. september 2004. Upp frá því snerist málið aðeins um kröfu áfrýjanda til skaðabóta vegna slyssins 29. mars 2000.

Hinn 8. mars 2001 greiddi stefndi áfrýjanda bætur vegna þessa slyss, samtals 326.038 krónur auk lögmannsþóknunar. Greiðslan var byggð á örorkumati sem Júlíus Valsson læknir hafði gert að beiðni beggja aðila 28. febrúar 2001. Áfrýjandi naut aðstoðar lögmanns á þessum tíma og var tekið fram í yfirlýsingu í tilefni greiðslunnar að með henni „er lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins.“ Áfrýjandi nefndi við málflutning fyrir Hæstarétti að ekki yrði séð að þáverandi lögmaður hennar hefði ritað nafn sitt á þessa yfirlýsingu og þar með væri ekki um fullnaðarkvittun að ræða. Þetta hafði ekki komið fram fyrr í málinu. Þvert á móti hafði það verið höfðað á þeirri forsendu að þáverandi lögmaður áfrýjanda hefði gefið umrædda yfirlýsingu fyrir hennar hönd, eins og reyndar gögn málsins benda eindregið til. Kemur þessi ástæða áfrýjanda því ekki til frekari skoðunar.

Í hinum áfrýjaða dómi er tekinn upp orðréttur kafli úr mati Júlíusar Valssonar, sem hann auðkenndi með orðunum „samantekt og niðurstaða“. Á undan þeim kafla eru tveir kaflar sem hljóða svo:

„Þau einkenni sem hún hefur í dag og sem hún rekur til umferðarslyssins í mars 2000 eru eftirfarandi:

Þrálátir verkir í höfði og hálsi og vöðvabólgueinkenni frá herðum. Hún er með skertan snúning á höfði til hægri hliðar. Verknum í höfði og hálsi fylgir mikill stirðleiki, svimatilfinning og sjóntruflanir og suð fyrir hægra eyra. Oft verkjaleiðni niður í báða handleggi og dofi í fingrum 1-3 bilateralt en einnig 3 og 4 hægra megin. Oft verkir í báðum úlnliðum. Dofi og máttleysi í hæ. hönd. Hún þreytist mjög við langar setur og bókalestur og sjóntruflanir há henni talsvert við lestur. Einkennin versna í kulda. Henni finnst eins og þungt farg liggi á báðum herðum sínum. Hún tekur stundum parkódíntöflur en þær slá ekki á verkina. Eftir slysið hefur hún verið hrædd og óörugg í umferðinni.

Læknisskoðun:

Tjónþoli er í eðlilegum holdum. Við skoðun á hálsi kemur í ljós að það vantar um 2 fingurbreiddir upp á að haka nemi við brjóstbein þegar hún beygir höfuðið áfram og tekur þá í hálsvöðva og hnakkafestur að aftan. Það er greinilega skertur snúningur til hægri hliðar og er hámarkssnúningur til þeirrar hliðar um 40° miðað við 60° til vinstri. Við þá hreyfingu tekur í gagnstæða vöðvahópa á hálsi. Það eru talsverð eymsli í sternocleidomastoideusvöðvanum vinstra megin en einnig í vöðvafestum á processus mastoideus bilateralt. Það eru talsverðir vöðvabólguþrimlar í herðum báðum megin og við þrýsting þar á geislar fram verkur í handleggi. Það eru eymsli í hnakkafestum og yfir 3.-4. hálsliðum í miðlínu. Það eru einnig væg þreifieymsli niður eftir brjóstbaki. Sinaviðbrögð í griplimum eru eðlileg og hreyfingar í öxlum eru innan eðlilegra marka. Það vantar nokkrar gráður upp á innsnúning í hægri öxl. Það koma fram væg merki um miðtaugaheilkenni í hægri hönd með rýrnun á tenarhólfi hægra megin svo og jákvæðu Tinel´s og Phalen´s sign. Það er minnkaður gripkraftur í hægri hendi miðað við þá vinstri.“

Helstu niðurstöður Júlíusar Valssonar voru að varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins væri 5% en varanleg örorka engin.

II.

Snemma árs 2004 lét áfrýjandi dómkveðja tvo menn til að meta á ný afleiðingar umferðarslyssins. Þeir skiluðu matsgerð 14. júní 2004 og eru helstu niðurstöður hennar teknar upp í hinn áfrýjaða dóm. Matsmennirnir töldu að heilsufar áfrýjanda hefði versnað eftir að matið 28. febrúar 2001 var gert og varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins væri réttilega metin 20%.  Byggðist málsókn áfrýjanda á þessari matsgerð.

Stefndi mótmælti niðurstöðum matsmannanna og óskaði við rekstur málsins í héraði eftir dómkvaðningu þriggja yfirmatsmanna til að meta hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari áfrýjanda eftir 28. febrúar 2001 og hver teldist varanlegur miski og örorka áfrýjanda vegna slyssins. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 8. desember 2004 og 8. febrúar 2005. Matsgerð þeirra er dagsett 19. júlí sama ár. Þeir töldu að engar ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari áfrýjanda eftir að Júlíus Valsson „framkvæmdi mat sitt“, en að varanlegur miski og varanleg örorka vegna slyssins teldist vera  10%.

Í bréfi áfrýjanda til yfirmatsmanna 6. ágúst 2004 og bréfi til lögmanns stefnda 10. ágúst 2004 kemur fram að hún mótmæli niðurstöðunni, jafnframt sem hún gerði athugasemdir við að hafa ekki fengið send undirgögnin, sem matsmenn hefðu byggt á. Þessi bréf voru lögð fram á dómþingi í málinu 8. september 2005, en þá lagði stefndi raunar einnig fram umrædd undirgögn. Á sama dómþingi lagði áfrýjandi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna, sem var synjað, sbr. dóm Hæstaréttar 2. nóvember 2005 í máli nr. 450/2005. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti mótmælti áfrýjandi yfirmatsgerðinni á þeirri forsendu að hún hefði ekki fengið tækifæri til að tjá sig um gögn sem yfirmatsmenn höfðu aflað frá öðrum og vörðuðu heilsufar hennar. Kemur fram í hinum áfrýjaða dómi að mótmæli sem reist voru á þessum forsendum hafi ekki verið höfð uppi fyrr en við aðalflutning málsins í héraði en hann fór fram 9. febrúar 2006.  Fengju þau því ekki komist að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er fallist á þá niðurstöðu, enda hefði stefndi fengið tímanlega tilefni til að óska eftir úrskurði dómara um þetta atriði varðandi framkvæmd matsgerðarinnar með heimild í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 ef mótmælin hefðu komið fram strax og tilefni gafst.

III.

Í stefnu til héraðsdóms kveðst áfrýjandi byggja kröfu sína um „endurupptöku málsins“ á málsástæðum sem fjallað er um í köflum i-iii. Umfjöllun stefnanda í kafla ii er frekar almenns eðlis og erfitt að festa hendur á hvað í henni getur fallið undir að teljast eiginleg málsástæða. Þar segir að tjónþolar „verði því og að treysta á, að möt matslækna séu rétt grundvölluð. Þar sé hins vegar úr vöndu að ráða, þar sem slík möt séu sjaldan fengin með hlutlausum hætti og erfitt fyrir viðkomandi tjónþola að koma málum þannig við. Því sé það þannig, að þegar tjónþolar hafi fengið mat á örorku vegna slysa, sé ekki annað ráð til en að byggja á viðkomandi mati, því mjög kostnaðarsamt og tímafrekt sé að biðja um viðbótarmat eða dómkvaðningu sérfróðra matsmanna, enda þótt einhver vafi sé í huga viðkomandi tjónþola gagnvart fyrirliggjandi mati. Einnig verði það til þess, að tjónþoli verði án bóta í langan tíma. Við þessa stöðu tjónþola bætist síðan, að þeir eru oftar en ekki í erfiðri samningsstöðu við viðkomandi tryggingafélag. Allt þetta geri það að verkum að líta verði með sanngirni á mál, eins og þetta mál, þar sem í ljós hafi komið, að miski og varanleg örorka sé verulega hærri en fram komi í því mati, sem fyrr var byggt á.“

          Í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 segir að þær málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Í f. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Þrátt fyrir þetta ákvæði er það hlutverk dómara að heimfæra málsástæður til réttra lagaákvæða, að því gefnu að málsástæðurnar séu svo skýrar að unnt sé að heimfæra þær undir ákveðið lagaákvæði. 

          Framangreindur kafli ii í stefnu felur í sér almenna umfjöllun um þær aðstæður sem tjónþolar kunna að vera í við öflun örorkumata vegna slysa og þá erfiðleika sem áfrýjandi telur vera á því að afla viðbótarmats eða mats dómkvaddra manna. Hvergi í þessari umfjöllun er hins vegar vísað til uppgjörs eða til þess hvaða réttarreglur veiti áfrýjanda umkrafin réttindi og eru málsástæðurnar ekki svo skýrar að ljóst sé undir hvaða lagaákvæði unnt sé að heimfæra þær. Fæst því hvorki séð að í framangreindri umfjöllun áfrýjanda felist málsástæður sem uppfylla kröfur e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né að unnt sé að heimfæra umfjöllunina í kafla ii í stefnunni undir lagaákvæði eða aðrar réttarreglur. Verður því ekki talið að þessi málatilbúnaður áfrýjanda feli í sér eiginlega málsástæðu. Er því ekki þörf á að taka frekari afstöðu til þessa.

Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sýkna stefnda af kröfum áfrýjanda.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Það athugist að við gerð málsgagna hefur áfrýjandi ekki farið eftir reglum um málsgögn (ágrip) í einkamálum nr. 463 frá 13. júlí 1994, einkum að því er varðar gerð efnisskrár samkvæmt 6. og 9. tölulið reglnanna. Þá er það aðfinnsluvert að í samantekt áfrýjanda á helstu málsatvikum í tímaröð, sem lögð var fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, er að finna athugasemdir sem fela í sér skriflegan málflutning og jafnvel nýjar málsástæður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                  


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Í stefnu til héraðsdóms byggði áfrýjandi kröfu sína um „endurupptöku málsins“ á tilgreindum þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi sé „fullnægt grunnskilyrðum 11. greinar laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku málsins.“ Í öðru lagi verði að líta „með sanngirni á mál, eins og þetta mál, þar sem í ljós hafi komið, að miski og varanleg örorka sé verulega hærri en fram komi í því mati, sem fyrr var byggt á.“ Í þriðja lagi að verði ekki fallist á dómkröfur hennar „felist í því þrenging á þeim reglum, sem áður giltu í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök ... Þar með brjóti 11. grein skaðabótalaga gegn 72. grein stjórnarskrár, ...“. Í kafla um lagarök segir meðal annars svo: „Stefnandi styður kröfu sína um endurupptöku bótaákvörðunarinnar við 11. grein skaðabótalaga nr. 50/1993 og 1. mgr. 5. greinar sömu laga og þau rýmkandi lögskýringarsjónarmið að skýra verði ákvæði 11. greinar tjónþola í vil sé vafi um lögskýringarleiðir. Þá vísar stefnandi til almennra reglna fjármunaréttar um endurupptöku mála og til reglna um brostnar forsendur. Stefnandi vísar og til þeirrar grundvallarreglu skaðabótaréttar að byggja eigi á sanngirnissjónarmiðum og þegar fyrir hendi eru ábyrgðartryggingar, til að dreifa áhættu, eigi enn frekar að líta til slíkra sanngirnissjónarmiða.“

Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að hafnað sé málsástæðum áfrýjanda sem varða 11. gr. skaðabótalaga og einnig sú ruglingslega málsástæða sem tekin er upp að framan og varðar brostnar forsendur og stjórnarskrána. Í viðbót við þetta verður ekki betur séð en áfrýjandi byggi á því að ósanngjarnt sé að miða við örorkumatið sem lagt var til grundvallar þegar bótagreiðslan 8. mars 2001 var innt af hendi. Málatilbúnaður áfrýjanda um þetta er að vísu óskýr og ómarkviss og hún nefnir ekki hvaða lagareglur hún telji að eigi að leiða til þess að málsástæða hennar um þetta verði tekin til greina. Það er hins vegar ekki skilyrði fyrir að skylt sé að fjalla um málsástæðu sem fram telst komin að grein sé gerð fyrir lagarökum fyrir henni. Með því að ekki hefur verið tekin afstaða til þessarar málsástæðu í héraðsdómi tel ég að ómerkja beri dóminn og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Ég er sammála meirihluta dómenda um málskostnað í Hæstarétti og athugasemdum þeirra um gerð málsgagna og skriflegan málflutning.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Margréti E. Hallgrímsson, kt. 131053-2829, Bræðraborgarstíg 13, Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 1. september 2004.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 5.271.825 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. mars 2000 til 18. júní 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum 326.038 krónum þann 8. mars 2001.  Til vara að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 2.224.562 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. mars 2000 til 18. júní 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Allt að frádregnum 326.038 krónum þann 8. mars 2001.  Þá er gerð krafa um málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.  Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

Helstu málavextir eru að stefnandi varð fyrir umferðarslysum 29. mars 2000 og 20. október 2003.  Í báðum tilvikum var ekið aftan á bifreið sem stefnandi ók og í báðum tilvikum var stefnandi tryggð með slysatryggingu ökumanns hjá stefnda.

Júlíus Valsson læknir mat afleiðingar slyssins 29. mars fyrir stefnanda.  Í matsgerð hans, sem dagsett er 28. febrúar 2001, segir undir kaflaheitinu Samantekt og niðurstaða:

Tjónþoli er 47 ára gömul kona, sem var ökumaður fólksbifreiðar, er ekið var aftan á á Fríkirkjuvegi í Reykjavík í mars 2000.  Áreksturinn virðist skv. lýsingu hafa verið allharður og var tjónþoli til rannsóknar og meðferðar fyrst eftir slysið á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík.  Að mati lækna á slysadeild var um að ræða hálstognunar-áverka og var henni vísað til sjúkraþjálfara ... .  Tjónþoli kveðst hafa verið mjög slæm fyrst eftir slysið og að mestu rúmliggjandi fyrstu dagana.  Er slysið gerðist var hún við nám í Ferðamálaskóla Kópavogs þar sem hún stundar enn nám.  Hún hefur verið 75% öryrki undanfarin ár vegna þunglyndis sem hófst eftir barnsburð.  Varðandi fyrra heilsufar hennar að öðru leyti hefur hún langa sögu um vöðvabólgueinkenni í hálsi og baki en hún hefur ekki sögu um önnur slys.

Undirritaður telur líklegt að tjónþoli hafi orðið fyrir hálstognunaráverka í umferðarslysinu í mars 2000.  Einkenni hennar hafa orðið þrálát.  Hún er einnig með merki um vægt miðtaugarheilkenni (carpal tunnel syndrome) sem fremur ólíklegt má telja að tengist þessu tiltekna umferðarslysi.

Undirritaður telur ekki að hér sé um að ræða tímabundið atvinnutjón þar sem tjónþoli var ekki í launaðri vinnu er slysið gerðist.  Tjónþoli telst ekki hafa verið rúmliggjandi í skilningi skaðabótalaga eftir slysið.  Um er að ræða  tímabil veikinda frá slysdegi og í þrjá mánuði eftir slysið.  Undirritaður telur að hér sé um að ræða vissan varanlegan miska vegna hálstognunar, sem valdið hefur tjónþola talsverðum óþægindum í starfi og leik.  Hún á í erfiðleikum með ýmsar athafnir, sem hún gat auðveldlega framkvæmt áður.  Taka ber þó tillit til þess að hún hefur langa fyrri sögu um álíka einkenni áður þ.e. vegna vöðvabólgu í hálsi, herðum og baki.

Varðandi mat á varanlegri örorku er tekið mið af því að tjónþoli er menntuð sem leikari og er nú við nám í ferðamálafræðum.  Ekki er við því að búast að afleiðingar slyssins komi til með að skerða tekjuaflahæfni hennar eða starfsval í framtíðinni fram yfir það sem þegar var orðið vegna fyrri heilsufarssögu.  Undirritaður telur því ekki að umferðarslysið í mars 2000 hafi leitt til varanlegrar viðbótarörorku hjá tjónþola.  Hún hefur verið í 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins í 5 til 6 ár þ.e. áður en hún slasaðist og hefur örorka hennar ekki aukist vegna slyssins.

Niðurstöður undirritaðs eru að öðru leyti eftirfarandi:

1.

Tímabundið atvinnutjón vegna umferðarslyssins þ. 29. mars 2000 skv. 2. gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993 telst ekkert vera þar sem tjónþoli missti ekki úr launaðri vinnu vegna slyssins.

2.

Varanlegur miski af völdum umferðarslyssins þ. 29. mars 2000 samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993, telst hæfilega metinn 5% (fimm af hundraði).

3.

Varanleg örorka af völdum umferðarslyssins þ. 29. mars 2000 samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga Nr. 50/1993, telst engin vera sbr. umræðu hér að framan.

4.

Tjónþoli telst ekki hafa þurft að vera rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga þó án þess að vera rúmliggjandi í 3 (þrjá) mánuði eftir slysið.

5.

Tjónþoli hefur ekki sögu um að hafa lent í öðrum slysum en því, sem hér er fjallað um.  Sá varanlegi miski og veikindi, sem lagt er mat á hér að framan eru þó einungis talin tilkomin vegna umferðarslyssins þ. 29. mars 2000.

 

Aðilar gengu til fullnaðaruppgjörs bóta á þessum grundvelli 8. mars 2001.

Hinn 19. mars 2004 voru að beiðni stefnanda þau Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir og Páll Sigurðsson prófessor dómkvödd til að meta afleiðingar umræddra tveggja umferðarslysa.  Spurningar sem stefnandi óskaði að matsmenn veittu svar við voru eftirfarandi:

a.

Hverjar eru nú í dag líkamlegir og andlegir áverkar matsbeiðanda, sem rekja má til slyssins þann 29. mars 2000, og hvernig má reikna með að þessir áverkar lýsi sér í framtíðinni.  Í hvaða mæli má reikna með að matsbeiðandi þurfi að neyta lyfja vegna áverkanna og hvaða áhrif mun sú lyfjaneysla hafa á andlega og líkamlega getu hennar og endingu líffæra í framtíðinni.  Að hvaða leyti má rekja ástand hennar í dag til slyssins frá 20. október 2003.

b.

Hafa ófyrirséðar breytingar orðið á heilsu matsbeiðanda frá því að matið 28. febrúar 2001 fór fram, vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000 og hverjar eru þær breytingar.

c.

Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 29. mars 2000, samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, ef miskinn er grundvallaður á þeim miskatöflum, sem gilda samkvæmt dönskum skaðabótalögunum (lov nr. 228/1984 om erstatningsansvar) vegna þeirra áverka sem rekja má til slyssins.  Hver er á sömu forsendum miski matsbeiðanda vegna slyssins 20. október 2003.

d.

i.  Hver var sá miski í stigum sem matsbeiðandi bjó við fyrir slysið 29. mars 2000 vegna hvaða áverka (veikinda).  ii.  Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna þeirra áverka sem rekja má til slyssins 29. mars 2000, samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, a) samkvæmt miskatöflum örorkunefndar. b) ef bæði er tekið mið af afleiðingum slyssins frá læknisfræðilegu sjónarmiði, þ.e. matstöflunum, svo og þeirra erfiðleika sem tjónið (áverkarnir) hafa valdið í lífi matsbeiðanda.  Hver er af sömu ástæðu miski matsbeiðanda vegna slyssins 20. október 2003.

e.

i.  Bjó matsbeiðandi við varanlega örorku fyrir slysið, þann 29. mars 2000, samkvæmt meginreglu skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og vegna hvaða áverka.  Hvert var stig þeirrar varanlegu örorku.  ii.  Hver er varanleg örorka matsbeiðanda almennt, samkvæmt 5. grein laga nr. 50/1993 í dag af völdum slyssins þann 29. mars 2000, en af völdum slyssins þann 20. október 2003.  iii.  Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993, samanber 1. grein sömu laga til heimilisstarfa af völdum þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu þann 20. október 2003.  iv.  Hver er varanleg örorka matsbeiðanda samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna slyssins þann 29. mars 2000, miðað við að sú vinnugeta sem matsbeiðandi þá hafði hafi verið 100% vinnugeta (aflahæfi), en vegna slyssins 20. október 2003, þ.e. hvað minnkar sú vinnugeta og það aflahæfi sem matsbeiðandi hafði fyrir slysið 29. mars 2000 um mörg stig.

 

Matsgerðin er dagsett 14. júní 2004 og svöruðu matsmenn framangreindum spurningum matsbeiðanda þannig:

1.

Afleiðingar slyssins 29. mars 2000 eru hálstognun, vægur höfuðáverki, væg tognun í mjóbaki og hægra úlnlið.  Afleiðingar slyssins 20. október 2003 eru versnun á hálstognun og tognun í mjóbaki.

2.

Frá því matið 28. febrúar 2001 fór fram hefur orðið versnun á einkennum matsbeiðanda og fyrir liggja önnur læknisfræðileg gögn sem benda til þess að matsbeiðandi hafi hlotið meiri áverka en talið var.

3.

Varanlegur miski grundvallaður á þeim miskatöflum, sem gilda samkvæmt dönsku skaðabótalögunum, vegna umræddra slysa telst vera 25% - tuttugu og fimm stig.

4.

Varanlegur miski matsbeiðanda á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, metinn eftir íslenskri miskatöflu, vegna umræddra slysa er 25% - tuttugu og fimm stig, þ.e. 20% vegna slyssins 29. mars 2000 og 5% vegna slyssins 20. október 2003.

5.

Varanleg örorka matsbeiðanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga vegna umræddra slysa er 25% - tuttugu og fimm stig, þ.e. 20% vegna slyssins 29. mars 2000 og 5% vegna slyssins 20. október 2003.

 

Á grundvelli matsgerðarinnar var mál þetta höfðað og var málið þingfest 9. september 2004.  Þá voru á dómþingi 8. desember 2004 dómkvaddir yfirmatsmenn að kröfu stefnda, tveir læknar og héraðsdómslögmaður.  Voru þeir beðnir um að meta eftirfarandi atriði á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993:

1.

Hvort ófyrirsjáanlegar [breytingar] hafi orðið á heilsufari matsþola frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á matsþola þann 28. febrúar 2001 vegna þeirra áverka sem matsþoli hlaut í umferðarslysi því sem hún lenti 29. mars 2000, og nánar er vikið að í gögnum máls þessa.

2.

Við hve mikinn varanlegan miska matsþoli hafi búið fyrir slysið 29. mars 2000, og hver teljist varanlegur miski matsþola vegna slyssins 29. mars 2000 annars vega og umferðarslyss sem matsþoli lenti í 20. október 2003 hins vega, sbr. 4. gr. skaðabótalaga.

3.

Við hve mikla varanlega örorku matsþoli hafi búið fyrir slysið 29. mars 2000, og hver teljist varanleg örorka matsþola vegna slyssins 29. mars 2000 annars vega og slyssins 20. október 2003 hins vegar, sbr. 5. gr. skaðabótalaga.

 

Yfirmatsgerðin var unnin af Ragnheiði Bragadóttur héraðsdómslögmanni, Jónasi Hallgrímssyni lækni og Stefáni Yngvasyni endurhæfingarlækni.  Matsgerð þeirra er dagsett 19. júlí 2005, en var lögð fram á dómþingi 8. september 2005.  Svöruðu matsmenn framangreindum spurningum matsbeiðanda í stuttu máli þannig:

1.

Engar ófyrirsjáanlegar breytingar urðu á heilsufari matsþola frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á matsþola 23. febrúar 2001 vegna þeirra áverka sem matsþoli hlaut í umferðaslysi því sem hún lenti í 29. mars 2000.

2.

Varanlegur miski matsþola samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyssins 29. mars 2000 telst vera 10% - tíu af hundraði.  Varanlegur miski vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. október 2003 telst vera 5% - fimm af hundraði.  samanlagður varanlegur miski matsþola vegna beggja umferðarslysanna telst því vera 15% - fimmtán af hundraði.

3.

Varanleg örorka matsþola samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna afleiðinga umferðarslyssins 29. mars 2000 telst vera 10% - tíu af hundraði.  Varanleg örorka vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. október 2003 telst vera 5% - fimm af hundraði.  Samanlögð varanleg örorka matsþola vegna beggja umferðarslysanna telst því vera 15% - fimmtán af hundraði.

 

Stefnandi vísar til 92. gr. umferðalaga nr. 50/1987 varðandi kröfur sínar á hendur stefnda en í báðum umferðarslysunum sem hér um ræðir hafi hún verið ökumaður bifreiða sem tryggðar voru hjá stefnda.

Stefnandi byggir á því að varanlegur miski stefnanda og varanleg örorka vegna slyssins 29. mars 2000 hafi ekki verið komin í ljós þegar heilsa stefnanda var metin í febrúar 2001.  Ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda þannig að miski stefnanda sé verulega hærri auk þess sem hún hafi hlotið varanlega örorku.  Grunnskilyrði fyrir nýrri ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og örorkubætur sé því fyrir hendi, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1993.  Til grundvallar er vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna 14. júní 2004, dskj. nr. 28, bls. 19, þ.e. svara við spurningu b. í matsbeiðni.  Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að geta sín til að afla vinnutekna sé einnig háð líkamlegri og andlegri heilsu sinni, en ekki sé hægt að aðgreina miska og varanlega örorku, þegar byggt sé á hugtakinu heilsa, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1993.  Ófyrirsjáanlegar breytingar til hins verra hafi orðið á vinnugetu stefnanda, sem og heilsu, vegna þeirra einkenna, sem lögð voru til grundvallar í örorkumatinu frá 28. febrúar 2001, skv. matsgerðinni frá 14. júní 2004.  Þannig sé fullnægt grunnskilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku málsins.

Stefnandi reisir einnig kröfu um endurupptöku skaðabótamáls vegna slyssins 29. mars 2000 á því sem stefnandi kallar meginreglur kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök varðandi endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna sem áður hafi gilt í þessum efnum.  Vinnugeta manna séu eignarréttindi, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Ákvæði 11. gr. laga nr. 50/1993 fái ekki hnekkt því.

Tölulega setur stefnandi bótakröfur sínar fram með eftirgreindum hætti en krafist er frekari bóta vegna heilsutjóns stefnanda sem rekja má til áverka, sem stefnandi fékk í slysinu 29. mars 2000, en stefnandi fékk greiddar frá stefnda, sbr. uppgjör bótakröfu frá 8. mars 2001:

1. Miskabætur:

1.129.100 kr.

2. Varanleg örorka:

2.963.625 kr.

3. Þjáningabætur:

     89.100 kr.

4. Tímabundið tekjutjón:

   990.000 kr.

5. Annað fjártjón:

   100.000 kr.

Samtals

5.271.825 kr.

 

Þá kveðst stefnandi byggja á því að eiga rétt á að stefndi greiði bætur með ákveðnum tilteknum hætti í samræmi við þann hluta af álögðum iðgjöldum félagsins vegna ábyrgðartryggingar bifreiða árið 2000, sem félagið færði í bótasjóð sinn vegna slyss stefnanda 29. mars 2000.  Kröfurnar séu reistar á reglum skaðabótaréttarins um fullar bætur.  Þá vísar stefnandi til 4., 5., 6. og 7. gr. skaðbótalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr., varðandi heimilisstörf.  Einnig vísar stefnandi til réttarreglna um eðli máls og meginreglna laga, til eignarverndarákvæða stjórnarskrár og þeirra mannréttindasáttmála, sem Ísland hefur undirgengist, til ákvæða laga um evrópska efnahagssvæðið og til þeirra ákvæða sem tilgreina réttindi fólks á grundvelli ökutækjatrygginga.

Við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefnanda gildi yfirmatsgerðarinnar m.a. vegna þess að matsmenn hefðu til grundvallar matinu haft gögn um heilsufar stefnanda, sem matsmenn höfðu aflað en ekki kynnt lögmanni stefnanda. Þannig hafi hann ekki haft færi á að tjá sig um þau eftir þörfum, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991.  Matsgerðin væri því ógild.

Stefndi byggir á því að fyrirvarlaust fullnaðaruppgjör hafi farið fram milli stefnanda og stefnda 8. mars 2001 vegna umferðarslyssins sem stefnandi varð fyrir 29. mars 2000 og að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur vegna þess séu ekki fyrir hendi.  Engar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á stefnanda 28. febrúar 2001 vegna áverka sem stefnandi hlaut í þessu slysi.  Þá verði ekki ráðið af yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna 19. júlí 2005 að miskastig og örorkustig stefnda vegna framangreindra áverka séu verulega hærri en áður var talið.

Stefndi vísar til þess að 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 mæli fyrir um að bæði þurfi að uppfylla skilyrði um ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu og að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en talið var árið 2001 til að endurupptaka sé heimil.

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda um að skýra skuli 11. gr. skaðabóta-laga á annan veg en eftir orðanna hljóðan og hafnar því að reglur kröfuréttar um brostnar og rangar forsendur eigi við eða geti vikið til hliðar skýru ákvæði 11. gr. skaðabótalaga, sem setur ströng skilyrði fyrir endurupptöku fyrirvaralauss bótauppgjörs.  Þá verði engan veginn talið að umrætt ákvæði skaðabótalaga fari gegn ákvæði 72. gr. stjórnarskipunarlaga um vernd eignarréttarins.

Því er hafnað að stefnandi hafi sýnt fram á að stefndi hafi farið gegn mannréttindasáttmála, sem Ísland hefur undirgengist, til ákvæða laga um evrópska efnahagssvæðið og til þeirra ákvæða, sem tilgreina réttindi fólks á grundvelli ökutækjatrygginga, við bótauppgjör til stefnanda svo sem stefnandi heldur fram.

Læknirinn Jónas Hallgrímsson kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa, ásamt Stefáni Yngvasyni lækni og Ragnheiði Bragadóttur hdl., framkvæmt yfirmatsgerðina frá 19. júlí 2005, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 34.  Aðspurður sagði hann m.a. að Júlíus Valson læknir hefði að nokkru leyti vanmetið varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda af völdum umferðarslyssins 29. mars 2000, en Júlíus hafði metið varanlegan miska 5% en varanlega örorku enga.  Hann tók fram að stundum væri hægt að sjá fyrir að heilsufar tjónþola myndi versna.  Fari það eftir hver eigi í hlut og hvernig aðstæður eru.  Helsta skýring á mismun á þessum matsgerðum sé þessi. [Yfirmatið: Varanlegur miski 10% og varanleg örorka 10%].

Lögmaður stefnanda lagði fyrir Jónas dskj. nr. 18, sem er tafla um miskastig, dags. 18. október 1994, og samin af örorkunefnd skv. fyrirmælum laga í 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Jafnframt vísaði lögmaðurinn til þess sem segir í yfirmatsgerðinni á bl. 19: „Telja verður engu að síður að hún hafi í slysunum hlotið tognunaráverka á hálsi með einkenni upp í höfuð og fram í handleggi, þ.m.t. dofatilfinning í handleggjum.“  Spurði lögmaður Jónas með hvaða hætti yfirmats-mennirnir hefðu metið þessa áverka og hvernig þeir væru færðir inn á miskatöfluna á dskj. nr. 18.

Jónas kvaðst ekki muna að vitnað hefði verið beint í miskatöflur örorkunefndar í matsgerðinni en miskatöflurnar séu, eins og þar segir, töflur til viðmiðunar.  Þær séu ekki endanlegar, nema það sé sérstaklega tekið fram í tryggingarskilmálum að fara eigi eftir þeim.  Kvaðst hann í flestum tilvikum hafa notað þær til viðmiðunar.  Hafi hann starfað við möt í 35 ár og vinni eftir eigin skoðunum og reynslu, en væri litið til töflunnar á bls. 5: Aðrir áverkar á hryggsúlu, þá nái stefnandi ekki upp í þann lið er kallast: Mikil eymsli, hreyfiskerðing og rótarverkir, er gera 11-14 miskastig, en næstu stig fyrir neðan: Miðlungi mikil eymsli, hreyfiskerðing og dofatilfinning, geri 6-10 miskastig.

Aðspurður hvaða rök stæðu fyrir því, sem stendur í matsgerðinni neðst á bls. 19 og efst á bls. 20: „Mjóbaksverkir, sem matsþoli hefur, eru ekki taldir vera að rekja til slysanna, enda fór þeirra ekki að gæta fyrr en á árinu 2004 og er aðeins getið í einu læknisvottorði frá 14. nóvember 2003.“  Ef telja ætti ákveðinn áverka til slyss, sagði Jónas að reglan væri, að einkenni eftir áverkan hefðu komi í ljós strax eða mjög fljótlega, á fyrstu dögum eftir slysið.  Væri eitthvað annað, sem hugsanlega gæti breytt því eða hnikað því eitthvað aftar, væri tekið tillit til þess.  En þegar svona langt væri um liðið þá væri ekki nægileg sönnun að láta læknisvottorð frá 14. nóvember 2003 staðfesta að svo væri.

Aðspurður hvað væri átt við með því sem stendur í matsgerðinni í 2. mgr. á bls. 40 undir fyrirsögninni Höfuðáverki þar sem segir: „Matsmenn véfengja þannig ekki niðurstöður einstakra taugasálfræðilegra prófana en eru ósammála ályktun prófandans.“  Jónas sagði að átt væri við að matsmenn vefengdu að stefnandi hefði fengið heilaáverka.  Aðspurður kvað hann höfuðáverka ekki hafa verið metinn til miska í matsgerðinni.

Jónas sagði að í svona málum bæri að meta á batahvörfum eða stöðugleika-tímapunkti, ekki væri unnt að flytja tímapunktinn endalaust fram í tímann eða aftur í tímann.  Einhvern tímann þyrfti að setja hann og út frá honum ákveðinn varanlegur miski og varanleg örorka.  Væri tjónþoli frá vinnu öðru hverju eftir slys, félli það bara undin miskann og örorkuna.

Aðspurður kvað Jónas slysin ekki hafa haft áhrif á geðsjúkdóm matsþola er matsþoli hafði áður haft, enda þótt slysin hafi haft áhrif á líðan matsþola.

Lögmaður stefnanda lagði fyrir Jónas matsgerðina frá 14. júní 2004, dskj. nr. 28, og vísaði til bls. 20, þar sem matsmenn greina frá því að afleiðingar áverka slyssins 29. mars 2000 felist í hálstognun, vægum höfuðáverka, tognun í mjóbaki og hægri hendi og telji þeir að „afleiðingar áverkanna séu þannig, að hálstognun teljist 6-10%, tognun í mjóbaki 5%, afleiðingar vægs höfuðáverka 5% og tognunar í hægri hendi minna en 5%, en að áverkanir vegi samtals 20% eða tuttugu stig.“  Þá spurði lögmaðurinn, hvort þetta væri rangt hjá undirmatsmönnunum.

Jónas kvaðst ekki geta sagt að þetta væri rangt nema í einstökum atriðum.  Í yfirmatinu hafi afleiðingar af hálstognun með viðvarandi meðalslæmum einkennum verið metnar 10 stig eins og í undirmatinu.  Tognun í mjóbaki hafi ekki verið talin með og verkur í hægri hendi hafi ekki verið metinn.  Í yfirmatinu sé talað um verki út í handlegg en það séu leiðsluverkir, sem séu gríðarlega algengir frá hálsi og herðum, vöðvatengdir verkir, sem ekkert hafi með taugakerfið að gera.

Lögmaður stefnanda bar undir Jónas það sem stendur í síðustu mgr. á bls. 21 í yfirmatinu: „Matsmenn telja að matsþoli hafi orðið fyrir varanlegri skerðingu á aflahæfi sínu vegna afleiðinga umræddra umferðarslysa, sem aðallega birtist í því að hún hefur minna úthald til vinnu en áður.“  Þá spurði lögmaðurinn hvort matsmenn hefðu talið að þess skerðing hafi verið komin til þegar Júlíus Valsson mat stefnanda í febrúar 2001 eða hvort hún hafi komið til seinna.

Jónas kvað matsmenn ekki hafa verið spurða beint um þetta atriði.  Spurt hefði verið hvort eitthvað ófyrirsjáanlegt hafi orðið á heilsufari matsþola og hafi þeir talið að ekkert óvænt hefði komið fyrir.  Hafi þeim sýnst Júlíus hafa metið þetta of lágt, fyrirsjáanlegt hafi verið að heilsufar matsþola myndi versna.

Aðspurður hvort afrit af sjúkraskrá matsþola hjá Gunnari Barregaard heimilislækni matsþola og vottorð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, er matsmenn höfðu aflað, hefðu ekki haft mikla þýðingu fyrir matsniðurstöður, sagði Jónas, að gögnin hefðu haft umtalsverða þýðingu til að fá staðfest hvernig heilsufar matsþola var háttað fyrir slysið, hvað hefði hrjáð matsþola þá.  Öll læknisfræðileg gögn væru nauðsynleg í svona málum hvort sem maður nýtir þau eða ekki.  Það væri annað mál.

Lögmaður stefnanda spurði Jónas hvers vegna honum hefðu ekki verið kynnt þessi gögn.  Jónas spurði aftur á móti af hverju lögmaðurinn hefði ekki í upphafi kynnt matsmönnunum þessi gögn.  Jónas kvaðst ekki persónulega hafa útvegað þau.  Kvaðst hann halda að Stefán [Yngvason] hafi tekið að sér að afla þessara gagna.  Jónas kvaðst hafa talað við matsþola á staðnum og hefði hann farið yfir bæði slysin með matsþola og afleiðingar þeirra.  Stefán hafi aftur á móti tekið að sér að spyrjast fyrir um fyrri heilsu matsþola.  Hvernig hann stóð að því kvaðst Jónas ekki vita.  Venjan væri sú að lögmaður matsþola væri beðinn um að afla gagna um [heilsufar tjónþola fyrir slys] þannig að hann hafi öll gögn og síðan framsendi hann þau til matsmanna.

Lögmaðurinn vísaði til bls. 16 og 17 í yfirmatsgerðinni þar sem greint er að hluta til frá efni sjúkraskrár matsþola hjá heimilislækni matsþola og vísaði til þess að þar komi fram að matsþoli hafi farið á u.þ.b. sex mánaða fresti til læknis, en hluta af þessu tímabili hafi matsþoli verið að vinna sem vélritari.  Spurði lögmaðurinn Jónas hvort óeðlilegt væri að slíkir aðilar fengju vöðvabólgu.  Kvaðst Jónas halda að þeir sem sætu að staðaldri við vélritun eða tölvur fengju vöðvabólgu í háls og herðar oftar en aðrir, um atvinnutengd einkenni væri að ræða.  Ekki væri unnt að greina á milli tognunar og vöðvabólgu nema að finna orsökina fyrir meininu.  Nákvæmlega sömu einkennin væru eftir tognun í hálsi og herðum eins og eftir vöðvabólgu.

Liði fólki illa líkamlega kvað Jónas algengt að það væri dapurt, sérstaklega ef það væri einnig óvinnufært, í fjárhagslegum vanda og annað slíkt.  Dapurleikinn gæti verið öðru hvoru eða stöðugur.  Sem betur fer væri oft hægt að bæta úr því með geðlæknismeðferð.  Matsmenn hefðu ekki talið að stefnandi þjáðist af þunglyndi sem viðvarandi sjúkdóms, er stefnandi hafi hlotið við slysið, enda væri mjög sjaldgæft að andlegar afleiðingar af líkamstjóni væru metnar sem varanlegur miski.  En væri svo gert þyrfti að liggja fyrir afdráttarlaust vottorð frá geðlækni, sem hefði stundað viðkomandi.Jónas kvaðst aðspurður ekki vita betur en rétt væri greint á bls. 4 í matgerðinni að matsþoli hafi á matsfundi veitt matsmönnum heimild til að afla frekari gagna um heilsufar sitt.

Páll Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa, ásamt Guðrúnu Karlsdóttur bæklunarlækni, framkvæmt matgerðina frá 14. júní 2004, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 34.  Aðspurður sagði hann m.a. að hægt væri að sundurgreina miska og sýna hvernig hann væri fundinn með vísun í miskatöflur.  Það væri að jafnaði gert þannig.  Þó væri mismunandi hvernig matsmenn ganga frá því í niðurstöðum sínum, en ævinlega liggi tölulegur útreikningur til grundvallar hverjum þætti, hvort sem það komi skýrt fram eða ekki.  Kvað hann þau hafa tekið þann kostinn að greina frá því nákvæmlega.

Lögmaður stefnda vísaði til neðstu málsgreinar á bls. 22 í matsgerðinni og spurði Pál við hvaða gögn matsmenn hefðu stuðst þegar heilsufar stefnanda var metið veturinn 1999-2000.  Kvað Páll þau hafa stuðst fyrst og fremst við frásögn hennar sjálfrar.

Lögmaður stefnda spurði þá hvort skilja mætti þetta svo að við mat á varanlegri örorku hafi ekki skipt máli að stefnandi hafði ekki verið á vinnumarkaði a,m.k. síðustu átta ár fyrir slysið eða frá 1992.  Páll sagði að allt þess háttar hefði skipt máli og komi það alls staðar inn í heildarmyndina.  Miðað við þær upplýsingar sem matsmenn þó höfðu fengið hafi heilsa stefnanda breyst til batnaðar undir það síðasta í það minnsta.  Og enda þótt stefnandi hafi ekki verið í vinnu hafi matsmenn talið að heilsa stefnanda færi batnandi.

Lögmaður stefnda vísaði til þess er stendur í matsgerðinni á bls. 22 þar sem segir: „Matsmenn telja sig ekki hafa í höndum nægilegan grundvöll til að byggja á nákvæmt mat á varanlegri örorku að einhverju marki, sem ekki er óhugsandi að matsbeiðandi hafi búið við síðustu mánuðina fyrir slys sitt árið 2000, en telja þó líklegra en ekki, að matsbeiðandi hafi búið við einhverjar (en væntanlega fremur litla) fjárhagslega örorku á umræddu tímabili og þar til hún varð fyrir umræddu slysi.“  Þá spurði lögmaðurinn Pál við hvað gögn matsmenn hafi stuðst þegar þeir sögðu að stefnandi hafi væntanleg búið við fremur litla fjárhagslega örorku.  Páll sagði að fyrst og fremst hafi verið byggt á frásögn stefnanda um heilsufar sitt, en læknagögn hefðu legið fyrir í málinu.  Hann sagði að heilsufar stefnandi hefði skánað mikið þó líklega hafi stefnandi ekki náð fullri heilsu.

Lagt var fyrir Pál dskj. nr. 3, sem eru afrit af vottorðum frá Tryggingastofnun ríkisins til stefnanda.  Vísaði lögmaður stefnda til vottorðs, dags. 17. febrúar 1998, þar sem segir: „Margrét mætir til viðtals í dag 17. febrúar 1998.  Hún bendir á, að hún hafi í raun verið óvinnufær frá 1992. ... Eftir atvikum þykir rétt að örorka hennar sé metin 2 ár aftur í tíman frá fyrsta örorkumati og þá til hæstu örorku.“  Þá vísaði lögmaðurinn til vottorðs, dags. 4. janúar 2000, þar sem segir: „Svo er að sjá sem þessi 36 ára kona sé ekki vinnufær á almennum vinnumarkaði.  Horfur óljósar.“  Þá spurði lögmaðurinn Pál hvort þetta benti ekki til þess að örorka stefnanda hafi verið fremur mikil á þessum tíma.  Páll sagði að það kynni að benda til þess.  Kvaðst hann þó hafa tilhneigingu til að taka með nokkrum fyrirvara vottorð frá tryggingastofnuninni um þessa hluti vegna reynslu sinnar sem væri, að tryggingastofnun fylgi ekki sömu hugmyndafræði um mat á örorku og matsmenn gera, sem meta á grundvelli skaðabótalaga.  Páll kvaðst álíta að stefnandi hefði að nokkru leyti náð heilsu til vinnu á tímabili nokkru áður en hún slasaðist 29. mars 2000.

Aðspurður kvaðst Páll ekki geta svarað því afdráttarlaust hvort forsendur, sem lágu til grundvallar matinu, hefðu legið fyrir þegar mat Júlíusar Valssonar fór fram.  Á þeim tíma hafa þó legið fyrir að heilsa stefnanda hafði skánað á tímabili frá 1999 til 2000.  Hann kvað heilsu stefnanda hafa hrakað frá því að Júlíus mat varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda 28. febrúar 2001 og þar til matsgerðin frá 14. júní 2004 fór fram.  Og ekki kvaðst hann telja að á þeim tíma hafi verið fyrirsjáanlegt að heilsu stefnanda myndi hraka er fram liðu stundir vegna áverka stefnanda í slysinu 29. mars 2000.

Guðrún Karlsdóttir læknir gaf skýrslu fyrir réttinum símleiðis.  Hún staðfesti að hafa ásamt Páli Sigurðssyni prófessor framkvæmt matsgerðina frá 14. júní 2004.  Guðrún sagði m.a. að mat þeirra á versnandi heilsufari stefnanda hafi verið reist á sögu stefnanda og einkennum.  Þá hafi þeim ekki fundist að tillit hefði verið tekið til allra áverka í þessu fyrsta mati [28. febrúar 2001].  Svo hefði einnig legið fyrir taugasálfræðilegt mat síðar sem tekið var tillit til.

Lögmaður stefnda vísaði til þess sem stendur á bls. 18 í matgerðinni þar sem segir: „Þau einkenni sem hún fékk við fyrra slysið hafa aukist með tímanum eins og þekkt er eftir slíka áverka, en tengjast engu að síður upphaflegu áverkunum og ytri aðstæðum sem geta verið mjög einstaklingsbundnar.“  Guðrún sagði að í flestum tilvikum væri það ekki fyrirsjáanlegt hvernig einkenni þróast.  Samt sem áður telji hún að einkennin tengist upphaflegum áverkum stefnanda.

Þá vísaði lögmaður stefnda til þess sem stendur á bls. 19 í matsgerðinni þar sem segir: „Frá því matið fór fram 28. febrúar 2001 hefur að því er best verður séð (samkvæmt frásögn matsbeiðanda og þeim gögnum sem fyrir liggja) orðið versnun á einkennum matsbeiðanda.“  Þá spurði lögmaðurinn Guðrúnu til hvaða gagna væri þarna verið að vísa.  Guðrún sagði að mjög lítið hefði verið af gögnum.  Júlíus Valsson hefði einungis verið með vottorðið frá slysadeildinni, engin læknisvottorð hafi legið fyrir fyrr en árið 2003.  Hafi þau þurft að reiða sig nokkuð mikið á frásögn stefnanda.  Guðrún kvað að henni hefði fundist út frá þessum vottorðum, sem voru frá árinu 2003, og miðað við vottorð Júlíusar Valssonar, að heilsu stefnanda hefði hrakað.

Þá vísaði lögmaður stefnda til þess sem stendur á bls. 19 í matgerðinni þar sem segir: „Þróun einkenna eftir slíka áverka er einstaklingsbundin og háð ýmsum þáttum og batahorfur ekki alltaf fyrirsjáanlegar.  Í þessu tilviki hafa að vissum marki orðið ófyrirséðar breytingar á heilsu matsbeiðanda og læknisfræðilegar forsendu breyttar frá því matið fór fram í febrúar 2001.“  Þá spurði lögmaðurinn Guðrúnu hvort hægt væri að gagnálykta út frá orðunum ófyrirséðar breytingar að vissu marki að breytingarnar hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanlegar.  Guðrún sagði að stefnandi hafi í upphafi fengið greininguna hálstognun, þróun eftir slíkan áverka sé oft fyrirséð en ekki alltaf.  Það sem þau hafi fyrst og fremst verið að vísa til í þessu tilviki hafi verið að fyrir hefði legið upplýsingar um heilsufar stefnanda eftir þennan tíma og taugasálfræðilegt mat sem ekki lá fyrir í febrúar 2001.  Júlíus Valsson hefði ekki tekið tillit til vægs heilaskaða er stefnandi varð fyrir við slysið 29. mars 2000.

Aðspurð sagði Guðrún að þeir áverkar stefnanda sem þau mátu hafi verið til staðar þegar Júlíus Valsson lagði á mat líkamstjón stefnanda.  Júlíus hefði ekki tekið tillit til allra áverka stefnanda.

Þá vísaði lögmaður stefnda til þess sem stendur á bls. 20 í matgerðinni þar sem segir: „Matsmenn telja að afleiðingar áverkanna séu þannig, að hálstognun teljist 6-10%.“  Lögmaður spurði Guðrúnu hvort þetta væri áverki sem Júlíus Valsson hefði metið í sinni matsgerð.  Kvað Guðrún svo vera.

Þá vísaði lögmaðurinn til þess að í matgerðinni standi að tognun í mjóbaki, sem afleiðing áverkanna, sé 5%.  Jafnframt vísaði hann til álits yfirmatsmanna [bls. 19- 20] þ.e. að mjóbaksverkir, sem matsþoli hafi, séu ekki taldir vera að rekja til slysanna „enda fór þeirra ekki að gæta fyrr en á árinu 2004 og er aðeins getið í einu læknisvottorði frá 14. nóvember 2003“.  Guðrún sagði að þau hefðu byggt ályktun sína á frásögn stefnanda og vottorðinu frá Stefáni Dalberg og þó að vottorðið væri dagsett 14. nóvember 2003 hefði Stefán haft með mál stefnanda að gera um nokkurn tíma áður.

Þá vísaði lögmaðurinn til þess að í matgerðinni standi að afleiðingar vægs höfuðáverka séu 5%.  Þá spurði lögmaðurinn Guðrúnu, hvort þetta væri byggt á niðurstöðum dr. Þuríðar J. Jónsdóttur taugasálfræðings, sbr. dskj. nr. 25.  Guðrún sagði að svo væri en einnig á einkennum stefnanda í upphafi og síðar.

Stefán Yngvason endurhæfingarlæknir kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa, ásamt Jónasi Hallgrímssyni lækni og Ragnheiði Bragadóttur hdl., framkvæmt yfirmatsgerðina frá 19. júlí 2005.  Aðspurður hvort Júlíus Valsson hefði vanmetið áverka stefnanda er hún hlaut í umferðarslysinu 29. mars 2000, kvað Stefán svo vera.  Hann sagði m.a. að yfirmatið væri frábrugðið matsgerð Júlíusar.  Aðspurður sagði Stefán að matsþoli [stefnandi] hefði veitt matsmönnum heimild til að afla frekari gagna um heilsufar sitt.  Hann sagði að hvorugur lögmanna aðila hafi mætt á matsfundinn [17. mars 2005, er stefnandi veitti matsmönnum umrædda heimild].  Aðspurður kvaðst Stefán hafa allt frá árinu 1991 unnið af og til sem dómkvaddur matsmaður í málum af þessu tagi.

Lögmaður stefnanda vísaði til þess sem stendur á bls. 19 í yfirmatsgerðinni þar sem segir: „Telja verður engu að síður að hún hafi í slysunum hlotið tognunaráverka á háls með einkenni upp í höfuð og fram í handleggi, þ.m.t. dofatilfinning í handleggjum.“  Þá spurði lögmaðurinn hvernig þetta hefði verið metið, hvernig þetta hafi verið fært í miskatöflu og hvernig hefði verið komist að því að miskastigið væri 10%.  Stefán sagði að annars vegar væri spurning um hversu mikil einkenni væri að ræða og eins hvort um væri að ræða áverka á taugar.  Það hafi verið þeir liðir, sem taldir hefðu verið til í þessu samhengi.

Aðspurður kvað Stefán að mjóbaksverki, sem stefnandi hefur, væri ekki unnt að rekja til slysanna sem stefnandi varð fyrir.  Þá ítrekaði hann að ekki hefði verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða vegna slysanna svo sem greinir í matsgerðinni.  Jafnframt ítrekaði hann að slysin hefðu ekki haft nema tímabundin áhrif til tjóns á geðrænni heilsu stefnanda.

Lögmaðurinn vísaði til þess sem stendur í neðstu mgr. á bls. 21 í matsgerðinni þar sem segir: „Matsmenn telja að matsþoli hafi orðið fyrir varanlegri skerðingu á aflahæfi sínu vegna afleiðinga umræddra umferðarslysa, sem aðallega birtist í því að hún hefur minna úthald til vinnu en áður, sem aftur leiðir til þess að möguleikar hennar á vinnumarkaði hafi þrengst frá því sem var fyrir slysið.“  Þá spurði lögmaðurinn hvort hann teldi að þessi skerðing hafi verið tilkomin þegar Júlíus Valsson mat stefnanda í febrúar 2001.  Stefán sagði að erfitt væri að segja til um þetta svona eftir á.  Yfirmatsmenn hefðu í mati sínu haft miklu lengra tímabil en Júlíus til að skoða, meta og sjá hvernig einkenni hefðu þróast.  Þegar mat væri framkvæmt væri eingöngu byggt á forsendum sem þá væru fyrir hendi.  Kvaðst Stefán ekki geta svarað því, hvort Júlíus hefði haft forsendur til að meta skerðingu á aflahæfi stefnanda með þeim hætti, sem komist er að í yfirmatinu.  Þá sagði Stefán að þeir áverkar stefnanda sem lagðir hefðu verið til grundvallar 10% skerðingu á aflahæfi stefnanda í yfirmatinu hefðu verið til staðar í febrúar 2001.

Aðspurður hvers vegna sjúkraskrá frá Gunnari Barregaard heimilislækni stefnanda og vottorð frá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni, er yfirmatsmenn öfluðu, hefði ekki verið kynnt lögmanni stefnanda, sagði Stefán að eftir á að hyggja mætti segja að það hefðu verið mistök, en gögnin hefðu verið send matsbeiðanda.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Lagt var fyrir hana dskj. nr. 41, sem er myndrit af lögregluskýrsla frá 29. mars 2000.  Stefnandi lýsti aðdraganda þess og atvikum þegar hún varð fyrir slysinu á Fríkirkjuvegi þennan dag um fimmleytið.  Kvaðst hún nánast hafa verið að missa meðvitund eftir ákeyrsluna á bifreið hennar, ringluð og áttavillt.  Kvaðst hún hafa verið studd út úr bílnum, yfir götuna og inn í lögreglubíl, keyrð upp eftir [á slysadeild] og studd inn og upp á bekk.  Bifreið hennar hefði verið úrskurðuð ónýt.

Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 4, sem er vottorð Ólafs R. Ingimarssonar læknis, dags. 30. maí 2000.  Kvað hún Ólaf hafa spurt hana lauslega um umferðarslysið.  Hann hefði ekki spurt hana um örorku hennar, en hann hafi sjálfsagt fengið það upplýst af útprentun við innritun á slysadeild að hún væri 75% öryrki.

Lagt var fyrir stefnanda örorkumatið sem unnið var af Júlíusi Valssyni lækni.  Aðspurð kvaðst hún ekki hafa gengið til Ísaks Hallgrímssonar heimilislæknis sem matsgerðin vísar til.  Hún sagði að heilsa hennar í framhaldi af þessu mati 28. febrúar 2001, seinni hluta ársins 2001 og árin 2002 og 2003 hafa farið stigversnandi.

Lögð voru fyrir stefnanda dskj. nr. 6, 7 og 8, sem eru læknisvottorð Marinós P. Hafstein, Guðrúnar R. Sigurðardóttur og Stefáns Dalberg varðandi stefnanda.  Hún kvaðst áður hafa leitað til Stefáns Dalberg með klemmda taug við nára þegar hún gekk með drenginn [f. 24. febrúar 1992] og hafi hún vegna þessa gengið undir skurðaðgerð hjá honum.  Hún hafi leitað til hans og hann þekkt sögu hennar.  Þá hefði Stefán vísað henni á læknana Marínó og Guðrúnu.

Stefnandi sagði að ástæðan fyrir 75% örorku hennar fyrir slysið hafi fyrst og fremst verið geðrænir kvillar.  Eftir meðferð á Vogi [september 1999] hafi opnast fyrir henni nýjar dyr, ný sýn á sjálfri sér og í framhaldi af því hafi hún ákveðið að fara í skólann [í ferðamálafræði].  Hafi hún verið ofsalega atorkusöm og kappsfull enda hafi þetta verið það sem hún hafði áhuga á.  Hún hefði að einhverju marki notið tungumálakunnáttu sinnar og reynslu sinnar af ferðalögum og verið staðráðin í því að standa sig í þessu námi og opna sér þannig nýja möguleika á vinnumarkaði.  Þannig hafi líðan hennar verið á árinu 1999 og í byrjun árs 2000.

Stefnandi lýsti með nokkrum hætti störfum sínum og heilsu fyrr og eftir slysið og kvaðst hún m.a. hafa lokið skólanum þrátt fyrir veikindi sín eftir slysið 2000.

Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 25, sem er taugasálfræðilegt mat dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings, á stefnanda, dags. 25. maí 2004.  Stefnandi sagði að ástand hennar, sem þar er lýst, séu annars konar en þau geðrænu vandamála sem hún hafi áður átt við að stríða fyrir slysin.  Hún kvaðst enga verki hafa haft með þunglyndinu.

Stefnandi lýsti í nokkrum orðum hvaða verkir hrjáðu hana nú, en þeir væru ólíkir þeim sem hún hefði reynt fyrir slysið árið 2000.

Eftir slysið, einhvern tímann á árinu 2002, kvaðst stefnandi hafa farið til Stefáns Dalbergs læknis, og áður en hann ákvað að taka að sér þetta mat [dskj. nr. 8, dags. 14.11.2003], hafi hún farið til hans tvisvar til þrisvar sinnum.

Stefnandi lýsti því hvaða lyf hún tók, þegar hún gekkst undir sálfræðilegt mat dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, en það hafi verið Zoloft og Seroquel.  Kvaðst hún hafa tekið 1½ til 2 töflur af Zoloft á hverjum morgni og 1 til 2 töflur af Seroquel á kvöldin.

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri gaf skýrslu fyrir rétti símleiðis.  Hún staðfesti að hafa, ásamt Jónasi Hallgrímssyni lækni og Stefáni Yngvasyni endurhæfingarlækni, framkvæmt yfirmatsgerðina frá 19. júlí 2005.  Aðspurð kvað hún liggja í augum uppi að matsmenn teldu að Júlíus Valsson hefði vanmetið þá áverka, sem stefnandi varð fyrir í slysinu 29. mars 2000.

Hún kvaðst aðspurð ekki telja að það hefði skipt máli að lögmanni stefnanda voru ekki kynnt efni sjúkraskrár frá Gunnari Barregaard, heimilislækni stefnanda, og vottorð frá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni, er yfirmatsmenn öfluðu.

Ályktunarorð:  Stefnandi byggir á því að ekki megi leggja yfirmatsgerðina frá 19. júlí 2005 til grundvallar niðurstöðu í þessu máli sökum þess að lögmanni stefnanda hefði ekki verið kynnt gögn sem matsmenn öfluðu og áður er getið.

Við vandaða málsmeðferð dómkvaddra matsmanna í bótamáli út af afleiðingum umferðarslyss er m.a. að líta til gagna er upplýst geta um heilsufar tjónþola fyrir slysið.  Stóð stefnanda næst að útvega matsmönnum þessi gögn eftir þörfum.  Stefnandi veitti matsmönnum sjálfum á matsfundi heimild til að afla umræddra læknisfræðilegra gagna til afnota við matið og verður ekki séð að túlkun og álit lögmanns stefnanda á þessum gögnum hefðu getað skipt miklu máli fyrir ályktanir sem dómkvaddir læknar, sem matsmenn, drógu af þeim.  Þá er til þess að líta að lögmaður stefnanda mótmælti ekki yfirmatsgerðinni á framangreindum forsendum fyrr en við upphaf aðalmeðferðar málsins - en gerðin var lögð fram á dómþingi 8. september 2005.  Hafa þessi mótmæli af hálfu stefnanda því ekki komið tímanlega fram skv. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.  Þannig verður ekki fallist á kröfu stefnanda um að yfirmatsgerðin hafi ekki lögmætt gildi fyrir niðurstöðu þessa máls.

Eins og áður er getið gengu aðilar hinn 8. mars 2001 til fullnaðaruppgjörs bóta vegna slyss stefnanda 29. mars 2000 á grundvelli örorkumats Júlíusar Valssonar læknis frá 28. febrúar 2001.

Stefnandi reisir kröfu um að tekin verði ný ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og að bætur verði ákveðnar fyrir varanlega örorku, sem afleiðingu af slysinu 29. mars 2000, á því m.a. að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hennar til verri vegar frá því að örorkumatið í febrúar 2001 fór fram, sbr. matsgerð dómkvaddra matsmanna sem dagsett er 14. júní 2004.  Er þá vísað til ákvæða 11. gr. laga nr. 50/1993.

Í umræddu lagaákvæði segir að skilyrði endurupptöku séu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola.  Í greinargerð með frumvarpi laganna segir að þessi skilyrði séu í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar.  Jafnframt er þess getið að ekki sé heimilt að beita þessu ákvæði þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir ef ástæða þess er ekki breyting á heilsu tjónþola.

Dómkvaddir matsmenn lýsa yfir eftirfarandi í matsgerð frá 14. júní 2004:

Frá því matið fór fram 28. febrúar 2001 hefur að því best verður séð (samkvæmt frásögn matsbeiðanda og þeim gögnum sem fyrir liggja) orðið versnun á einkennum matsbeiðanda.  Þróun einkenna eftir slíka áverka er einstaklingsbundin og háð ýmsum þáttum og batahorfur ekki alltaf fyrirsjáanlegar.  Í þessu tilviki hafa að vissu marki orðið ófyrirséðar breytingar á heilsu matsbeiðanda og læknisfræðilegar forsendur breyttar frá því matið fór fram í febrúar 2001.  Nú liggja fyrir frekari læknisfræðileg gögn, eins og taugasálfræðilegt mat, sem benda til þess að matsbeiðandi hafi einnig hlotið aðra áverka en þá sem gengið var út frá í matinu 28. febrúar 2001.

Af framburði Guðrúnar Karlsdóttur, hins læknisfræðimenntaða matsmanns matsgerðarinnar frá 14. júní 2004, fyrir réttinum verður ráðið, að matsmönnum hafi ekki fundist að fullt tillit hefði verið tekið til allra áverka tjónþola í matinu 28. febrúar 2001.  Og er hún var spurð hvort breytingar á heilsufari stefnanda frá því að matið fór fram 2001 hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanlegar, sagði hún að stefnandi hefði í upphafi fengið greininguna hálstognun, þróun eftir slíkan áverka sé oft fyrirséð en ekki alltaf.  Þar sem þau hafi fyrst og fremst verið að vísa til í þessu tilviki hafi verið að fyrir hefði legið upplýsingar um heilsufar stefnanda eftir þennan tíma og taugasálfræðilegt mat sem ekki lá fyrir í febrúar 2001.  Júlíus Valsson hefði ekki tekið tillit til vægs heilaskaða er stefnandi varð fyrir við slysið 29. mars 2000.

Eins og áður var greint frá töldu dómkvaddir matsmenn, er stóðu að yfirmatsgerðinni frá 19. júlí 2005 - en af þeim voru tveir læknar - að engar ófyrirsjá-anlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari matsþola frá því að Júlíus Valsson læknir framkvæmdi mat sitt á matsþola 28. febrúar 2001 vegna þeirra áverka sem matsþoli hlaut í umferðarslysi því sem hún lenti í 29. mars 2000.

Í mati Júlíusar er lýst áverka, hálstognun, með verkjum í höfði og hálsi, skertum snúning á höfði til hægri, stirðleika, svima, sjóntruflunum og suði fyrir hægra eyra og verkjaleiðni niður í báða handleggi.  Þá er lýst vægu miðtaugaheilkenni í hægri hendi, en Júlíus rekur einvörðungu hálstognunina til umferðarslyssins.  Þá aflaði hann gagna frá heimilislækni, en þar er greint frá ferli töluverðrar vöðvabólgu í herðum, hálsi og baki.  Áverka tjónþola metur hann til 5 miskastiga, en um skert aflahæfi sé ekki að ræða.

Samkvæmt miskatöflu örorkunefndar frá 1994 eru miðlungi mikil eymsli, hreyfiskerðing og dofatilfinning vegna áverka á hálshrygg metin á bilinu 6 til 10 stig.  Í matsgerð Guðrúnar Karlsdóttur og Páls Sigurðssonar er til viðbótar við hálstognun lögð  til grundvallar væg einkenni höfuðáverka.  Afleiðingar tognunar í mjóbaki og tognunar á hægra úlnlið eru metnar til alls 20 stiga varanlegs miska og 20 stiga varanlegrar örorku.

Í yfirmatsgerð Jónasar Hallgrímssonar, Ragnheiðar Bragadóttur og Stefáns Yngvasonar er áverkum tjónþola lýst sem hálstognun með einkennum upp í höfuð og fram í handleggi, þ.m.t. dofatilfinning í handleggjum, og eru þessi einkenni rakin til slyssins.  Mjóbaksverkir eru ekki taldir verða raktir til slyssins, enda hafi þeirra ekki verið farið að gæta fyrr en nokkrum árum seinna.  Þá er þess getið að enginn af þeim læknum sem greint er frá að tjónþoli hafi leitað til hafi talið höfuðáverka eina af afleiðingum slyssins.  Þá verði ekki ráðið af vottorði geðlæknis tjónþola að slysið hafi haft áhrif á geðheilsu hennar.  Þá er vísað til þess að niðurstöðu taugasálfræðiprófa – sem m.a. var lögð til grundvallar ályktun um höfuðáverka í matsgerð Guðrúnar og Páls – megi frekar rekja til geðsjúkdóms og lyfjameðferðar tjónþola.  Afleiðingar áverka tjónþola eru þannig metnar til 10 stiga varanlegs miska og 10 stiga varanlegrar örorku.

Þegar litið er til munar á tölulegri útkomu matsgerðanna í stigum er vert að hafa til hliðsjónar greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga um 5. gr. þess, þar sem segir að í dönskum lögskýringargögnum sé samkvæmt reynslu varanlegur tekjumissir af völdum örorku sjaldnast minni en 15 – 20% hafi fjártjón orðið á annað borð.  Að mati sérfróðra meðdómenda verður ekki greint, við samanburð á matsgerðunum og skoðun annarra gagna málsins, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola, stefnanda þessa máls, frá því að Júlíus Valsson vann matsgjörð sína.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku hafi verið uppfyllt.

Mál þetta var höfðað til heimtu bóta vegna afleiðinga umferðarslyss.  Um bótaskyldu, fjárhæð bóta og greiðsluskyldu stefnda fer því eftir umferðarlögum og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þá er til þess að líta að fordæmi eru fyrir því að Hæstiréttur Íslands hafi byggt á ákvæðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Verður því með engu móti ályktað að ákvæði 11. gr. brjóti í bága við réttarreglur um eðli máls og meginreglur laga, eignarverndarákvæða stjórnarskrár og þeirra mannréttindasáttmála, sem Ísland hefur undirgengist, eða ákvæði laga um Evrópska efnahagssvæðið, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda.

Að virtu öllu framangreindu verður ekki talið að stefnandi eigi kröfu um frekari skaðabætur úr hendi stefnda fyrir tjón er hún varð fyrir sökum þeirra áverka sem hún hlaut í umferðarslysinu 29. mars 2000.

Rétt er að málskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnanda fer svo sem í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Kristinn Tómasson læknir og Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir læknir kveða upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Margrétar E. Hallgrímsson.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 900.000 krónur.