Hæstiréttur íslands

Mál nr. 521/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Óskipt bú
  • Gjöf


                                     

Fimmtudaginn 20. ágúst 2015.

Nr. 521/2015.

A og

B

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

C

D og

E

(Ábjörn Jónsson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Óskipt bú. Gjöf.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A og B um að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta. Byggðu A og B kröfu sína á því að sala C, sem sat í óskiptu búi eftir F, á tiltekinni fasteign til D hefði falið í sér gjafagerning til D og hefði C með sölunni rýrt eignir búsins. Var ekki talið að A og B hefðu sýnt fram á að umrædd fasteign hefði verið seld undir markaðsvirði. Með hliðsjón af þeim lánum sem hvíldu á eigninni og tekjum C, hefði ekki verið óeðlilegt að eignin hefði verið seld og D verið kaupandi en hún hafði búið í eigninni í um áratug. Þá var ekki talið að A og B hefðu sýnt fram á að fjárstjórn C varðandi einkahlutafélagið S hefði verið óeðlileg og af þeim sökum verið ástæða til að óttast rýrnun búsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú F yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum hverju fyrir sig kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A og B, greiði óskipt varnaraðilum, C, D og E, hverju fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2015.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 6. júlí 2015, barst dóminum 5. maí 2015. Sóknaraðilar eru A, [...], [...], og B, [...], [...]. Varnaraðilar eru C, [...], [...], E, [...], [...], og D, [...], [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að dánarbú F, sem lést [...] 2011, verði tekið til opinberra skipta.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað og þeim gert að greiða varnaraðilum málskostnað.

I.

                Málsatvik eru þau að varnaraðili C, maki hins látna, fékk leyfi til setu í óskiptu búi, útgefnu af sýslumanninum í [...] hinn [...]. desember 2011, með fjárráða börnum sínum og hins látna, þ.e. sóknaraðilum A og B og varnaraðilum, D og E. Í leyfinu kemur fram að eftirtaldar eignir voru í búinu: [...], [...], fnr. [...], [...], [...], fnr. [...], bifreiðin [...], hlutabréf í [...] ehf. og bankareikningar.

                Með kaupsamningi, dags. 17. janúar 2013, var fasteignin að [....] seld af varnaraðila C til varnaraðila D. Kaupverðið var 4.000.000 króna sem skyldi greiðast með yfirtöku skulda að fjárhæð 3.338.092 krónur og 661.908 krónum eftir nánara samkomulagi milli aðila. Afsal var gefið út 25. janúar 2013.

                Varnaraðili D seldi fasteignina að [...] síðar með kaupsamningi, dags. 9. janúar 2015. Kaupandi var G og var kaupverðið 9.500.000 krónur.

                Sóknaraðilar telja að salan á fasteigninni að [...] hafi verið örlætisgerningur að fjárhæð 5.500.000 krónur, til hagsbóta fyrir varnaraðila D og að fjárstjórn varnaraðila C hafi rýrt og muni rýra efni búsins óhæfilega. Sóknaraðilar hafa því með vísan til 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipi á dánarbúum o.fl. krafist þess að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta.    

II.

                Sóknaraðilar halda því fram að gerningur af þessu tagi til hagsbóta fyrir eitt barna hins látna teljist vera fjárstjórn er rýri efni búsins óhæfilega og að óttast megi að slík fjárstjórn haldi áfram verði ekkert aðhafst. Þessi gjörningur gefi fullt tilefni til að gripið verði til þess réttarúrræðis að krefjast opinberra skipta á dánarbúinu skv. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991, og í samræmi við 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Um aðrar ráðstafanir á eignum búsins af svipuðum meiði eða sama toga geti sóknaraðilar ekki fullyrt að svo stöddu.

                Krafan um opinber skipti dánarbúsins sé bæði forsenda þess að unnt verði að rifta gjafagjörningi um eignina og sé ástæða beiðni þessarar, sbr. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga, og eins til að sóknaraðilar fái föðurarf sinn greiddan út úr hinu óskipta búi, vegna rýrnunar á efnum búsins með óhæfilegri fjárstjórn langlífari maka. Hér skuli einnig hafa í huga tímafresti riftunar skv. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga. 

                Þá segja sóknaraðilar að það sé ekki hlutverk vörslumanns eigna dánarbúsins, varnaraðila C, að deila út eignum af eigin geðþótta eða mismuna erfingjum hins látna. Sá sé ekki tilgangurinn með setu langlífari maka í óskiptu búi. Þannig fái t.a.m. maki sem sviptur hefur verið fjárræði ekki leyfi til setu í óskiptu búi nema með samþykki yfirlögráðanda, sbr. 2. mgr. 9. gr., þar sem ekki sé talið óhætt að fela maka sem þannig stendur á um varðveislu eigna dánarbúsins eða treysta honum til að gæta hæfilegrar fjárstjórnar. Í búsetuleyfi felist krafa um ábyrga fjárstjórn í þágu hins óskipta bús.

                Endurgjaldslaust afsal íbúðar, sem fram fari án vitneskju og samþykkis erfingja þess látna, teljist vera óhæfileg fjárstjórn. Það hafi hvílt leynd yfir gjöfinni en sóknaraðilum hafi ekki verið ætlað að vita af henni áður en hún var innt af hendi og þeir hafi fyrst frétt af henni fyrir tilviljun um tveimur árum síðar.

                Þegar þannig hátti til að misfarið sé með traust sem felist í útgefnu búsetuleyfi sýslumanns skuli skiptabeiðendur njóta alls vafa um hvaðeina er lúta kann að því hvort gjörningar eða ráðstafanir langlífari maka geti talist vera hæfileg fjárstjórn í skilningi erfðalaga. Nú þegar sóknaraðilar hafi lagt fram gögn um gjöf varnaraðila C sé það varnaraðila að sanna með óyggjandi hætti að þessi ráðstöfun fasteignarinnar að [...] hafi verið í þágu dánarbúsins. Jafnframt bendi sóknaraðilar á að 9,3 milljóna króna arður hafi verið greiddur út árið 2013 úr [...] ehf., félagi í eigu búsins.

                Um lagarök vísa sóknaraðilar til 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991, sbr. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962.

                Krafa um málskostnað er byggð á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.

III.

                Varnaraðilar byggja á því að salan á fasteigninni að [...] hafi hvorki falið í sér ótilhlýðilega fjárstjórn né verið til þess fallin að rýra efni hins óskipta bús.

                Við mat á því hvort um sé að ræða ótilhlýðilega fjárstjórn maka sem rýri efni óskipts bús þurfi að horfa til aðstæðna og atvika hverju sinni. Þ. á m. þurfi að kanna hlutfall gjafaþáttar í gerningi til samanburðar við efni búsins. Þá þurfi að horfa til þeirra hvata er búi að baki gerningi.

                Að mati varnaraðila var sala varnaraðila C á [...] fyrir 4.000.000 króna ekki ótilhlýðileg þegar horft sé til atvika í heild sinni. Lítið hafi verið um sölu fasteigna á þessum tíma og sérstaklega á því svæði sem fasteignin er staðsett. Varnaraðila C hafi verið mikið í mun að selja eignina til að losna undan mánaðarlegum afborgunum áhvílandi lána hennar, þar sem mánaðarlegar tekjur hennar hafi verið lágar og staðið illa undir mánaðarlegum útgjöldum.

                Auk þess verði ekki litið fram hjá því að varnaraðili D hafi aðstoðað við rekstur eignarinnar og haft umsjón með viðhaldi hennar. Fasteignin hafi verið keypt til handa varnaraðila D og hún búið í eigninni frá því að hún var keypt. Þá hafi hún aðstoðað móður sína, varnaraðila C, við annir daglegs lífs.

                Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að verðmæti eignarinnar hafi verið umtalsvert meira en söluverð hennar samkvæmt kaupsamningi varnaraðila C og D á þeim tíma er hann var gerður. Ekki sé nægjanlegt að vísa til þess að eignin hafi verið seld tæplega tveimur árum seinna fyrir hærri fjárhæð, enda margt breyst á fasteignamarkaði á tæplega tveimur árum og verðmæti fasteigna farið hækkandi. Varnaraðilar mótmæla sérstaklega þeirri fullyrðingu sóknaraðila að salan hafi falið í sér örlætisgerning að fjárhæð 5.500.000 krónur.

                Söluverð eignarinnar hafi verið eðlilegt í ljósi aðstæðna á fasteignamarkaði og atvika í heild sinni. Sala eignarinnar hafi því ekki á nokkurn hátt falið í sér ótilhlýðilega fjárstjórn í skilningi 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá sé fjárstjórn hennar í heild sinni til fyrirmyndar og hafi verðmæti eigna búsins aukist. Í ljósi þess og alls sem að framan greinir beri að hafna kröfu sóknaraðila um opinber skipti.

                Varnaraðilar telja að jafnvel þó að sala varnaraðila C á eigninni verði talin fela í sér örlætisgerning, að þeirri fjárhæð sem sóknaraðilar vilja leggja til grundvallar, þá nemi sú fjárhæð aldrei hærra hlutfalli en u.þ.b. 6% af heildareignum búsins á þeim tíma. Af þeim sökum geti fjárhæð meints örlætisgernings aldrei talist hæfilega hátt miðað við efni búsins og verði ekki rift, sbr. skilyrði 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og geti aldrei orðið grundvöllur skipta án samþykkis maka. Varnaraðilar vísa einnig til þess að réttur maka til að sitja í óskiptu búi sé ríkur og verði hinu óskipta búi ekki skipt án samþykkis þess sem situr nema rík ástæða sé til, sbr. 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Að lokum gera varnaraðilar athugasemd við kröfugerð sóknaraðila en af henni megi ráða að krafist sé skipta á búinu í heild sinni en erfingi geti aðeins krafist skipta handa sér einum, sbr. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Um lagarök vísa varnaraðilar til 1. og 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Um rétt varnaraðila C til setu í óskiptu búi er vísað til 7. gr. sömu laga.

                Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

IV.

                Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 getur erfingi krafist skipta sér til handa ef hann sannar að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun.

                Sóknaraðilar í máli þessu byggja kröfu sína um að opinber skipti fari fram á dánarbúi F heitins á því að sala varnaraðila C á fasteigninni að [...] hafi falið í sér gjafagerning eða örlætisgerning til varnaraðila D. Með þessu hafi varnaraðili C rýrt eignir búsins og sýnt óhæfilega fjárstjórn.

                Sóknaraðilar bera sönnunarbyrði fyrir því að varnaraðili C hafi rýrt efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn. Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að eignin að [...] hafi verið seld undir markaðsvirði, s.s. með því að afla álits dómkvadds matsmanns eða með öðrum hætti. Það dugar ekki að vísa til þess að varnaraðili D hafi keypt eignina í janúar 2013 á 4.000.000 króna en selt hana tveimur árum síðar á 9.500.000 krónur, enda geta aðstæður á fasteignamarkaði hafa verið aðrar og betri við síðari söluna. Varnaraðilar hafa í þessu sambandi lagt fram yfirlýsingu löggilts fasteignasala, dags. 25. júní 2015, þar sem fram kemur að á þeim tíma sem varnaraðili C seldi eignina hafi sala á eignum í [...] verið mjög dræm og [...] ekki verið vinsæll staður og markaðurinn verið „botn frosinn“ á þeim tíma.

                Þannig hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að fasteignin að [...] hafi verið seld undir markaðsvirði og efni búsins verið rýrð. Með hliðsjón af þeim lánum sem hvíldu á eigninni og tekjum sem varnaraðili C hafði er ekki óeðlilegt að eignin, sem var önnur af tveimur, hafi verið seld og að varnaraðili D hafi verið kaupandi en hún hafði búið í eigninni í um áratug. Þá hafa sóknaraðilar ekki heldur sýnt fram á að fjárstjórn varnaraðila C hvað varðar einkahlutafélagið [...] hafi á einhvern hátt verið óeðlileg og að ástæða sé til að óttast rýrnun á efni búsins.

                Með vísan til alls framangreinds ber að hafna kröfu sóknaraðila um að dánarbú F, sem lést [...] 2011, verði tekið til opinberra skipta.

                Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., ber sóknaraðilum að greiða varnaraðilum málskostnað, með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu sóknaraðila, A og B, um að dánarbú F, sem lést [...] 2011, verði tekið til opinberra skipta, er hafnað.

                Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum, C, D og E, hverjum um sig 80.000 krónur.