Hæstiréttur íslands

Mál nr. 552/2005


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Missir framfæranda
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2006.

Nr. 552/2005.

Steinunn Þorsteinsdóttir

Elísabet Ingibjörg Valdimarsdóttir og

Valdís Kristín Valdimarsdóttir

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Þörungaverksmiðjunni hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Missir framfæranda. Gjafsókn.

V lést af slysförum þegar hann var að vinna við þangskurð á pramma á vegum Þ hf. S, E og V kröfðust skaðabóta úr hendi félagsins vegna missi framfæranda. Ekki var talið að greiðsla Þ hf. á kostnaði vegna útfarar V hefði falið í sér viðurkenningu á skyldu þess til að greiða skaðabætur vegna andlátsins. Þá varð ekki ráðið af gögnum málsins að annmarki á öryggisbúnaði um borð í prammanum hefði leitt til slyssins. Þ hf. var því sýknað af kröfum S, E og V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. desember 2005 og krefjast þess að stefnda verði gert að greiða áfrýjandanum Steinunni Þorsteinsdóttur 7.233.332 krónur, Elísabetu Ingibjörgu Valdimarsdóttur 1.197.966 krónur og Valdísi Kristínu Valdimarsdóttur 1.493.568 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 30. maí 2003 til 30. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þær krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og að áfrýjendur greiði sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Í málinu krefjast áfrýjendur skaðabóta fyrir missi framfæranda vegna andláts Valdimars Jónssonar, sem lést af slysförum við þangskurð af pramma á vegum stefnda 30. maí 2003. Fyrir liggur að stefndi greiddi kostnað af útför Valdimars, en af gögnum málsins verður hvorki ráðið að áfrýjendur hafi fyrir þann tíma borið því við að stefndi bæri skaðabótaábyrgð vegna andláts hans né að stefndi hafi í tengslum við greiðsluna lýst yfir að hann tæki slíka ábyrgð á sig. Af þessum sökum verður ekki fallist á með áfrýjendum að greiðsla þessi hafi falið í sér viðurkenningu stefnda á skyldu til að inna af hendi skaðabætur vegna missis framfæranda. Ítarleg rannsókn á atviki þessu leiddi ekki annað í ljós en að um hafi verið að ræða slys af óþekktum orsökum. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa var öryggisbúnaður um borð í prammanum í lágmarki, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að annmarki á búnaði hans hafi leitt til slyssins. Þegar þessa er gætt verður fallist á með héraðsdómara að ósannað sé að andlát Valdimars verði rakið til einhvers þess, sem stefndi beri ábyrgð á. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um sýknu stefnda af kröfum áfrýjenda.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, þar á meðal um þóknun lögmanns þeirra á báðum dómstigum, sem ákveðin er í einu lagi.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað áfrýjenda, Steinunnar Þorsteinsdóttur, Elísabetar Ingibjargar Valdimarsdóttur og Valdísar Kristínar Valdimarsdóttur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, samtals 900.000 krónur.

 

 

 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2005.

          Mál þetta, sem var dómtekið 4. nóvember 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  Steinunni Þorsteinsdóttur, Gerðavöllum 48b, Grindavík, persónulega, og tveggja dætra hennar, Elísabetar Ingibjargar Valdimarsdóttur og Valdísar Kristínar Valdimarsdóttur, sama stað, á hendur Þörungaverksmiðjunni hf., Reykhólum, Króksfjarðarnesi, með stefnu birtri 27. júní 2005.            

          Stefnandi Steinunn krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 7.233.332 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. maí 2003 til þingfestingardags máls þessa 30. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

          Stefnandi Elísabet Ingibjörg Valdimarsdóttir krefst þess, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 1.197.966 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. maí 2003 til þingfestingardags máls þessa 30. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

          Stefnandi Valdís Kristín Valdimarsdóttir krefst þess, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 1.493.568 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 30. maí 2003 til þingfestingardags máls þessa 30. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

          Þá krefjast allir stefnendur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

          Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og honum dæmdur málskostnaður úr höndum stefnenda að mati dómsins.  Til vara eru gerðar þær kröfur að sök verði skipt í málinu  og kröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Málavextir.

          Hinn 30. maí 2003 lést Valdimar Jónsson.  Hann var eiginmaður stefnanda Steinunnar og faðir stefnenda Elísabetar Ingibjargar og Valdísar Kristínar.

          Nokkru áður en Valdimar lést eða 14. apríl 2003 hafði hann gert samning um þangöflun við stefnda, um að stefndi lánaði honum prammann sem hann skyldi svo starfrækja fyrir stefnda. Samkvæmt samningnum skyldi Valdimar látnar í té leiðbeiningar frá stefnda um hvernig viðhaldi og umhirðu prammans yrði háttað. Kom þar einnig fram að Valdimar skyldi vera ábyrgur gagnvart tjóni sem hann kynni að verða fyrir vegna starfsrækslu prammans. Skyldi Valdimar síðan láta stefnda í té það þang sem hann aflaði gegn greiðslu.

          Á slysdegi voru þeir Jón Atli Játvarðarson að skera þang á sitt hvorum þangskurðarprammanum undan Skarði á Skarðsströnd. Þeir hófu þangskurð um kl. 16:25 eftir að hafa slegið um morguninn milli kl. 06:00 og 09:00 og síðan afgreitt þangflutningaskipið Karlsey og lagt sig í framhaldi af því.  Upp úr kl. 17:00 fór að hvessa af austan og var þá erfiðara að slá. Töluðu Valdimar og Jón Atli sig þá saman í talstöð og ákváðu að slá í einn poka til viðbótar og snúa svo til lands. Samkvæmt frásögn Jóns Atla í lögregluskýrslu voru um 300 metrar á milli þeirra þegar hann tók eftir því að ekki var allt með felldu hjá Valdimar þar sem prammi Valdimars var kominn óeðlilega úr stefnu. Kvaðst hann hafa kallað til hans í talstöð en ekki fengið neitt svar. Þá kvaðst hann hafa siglt í átt að pramma Valdimars og hringt í Neyðarlínuna. Fljótlega sá Jón Atli lík Valdimars fljóta í sjónum og snéri höfuð hans niður. Jón Atli notaði færiband á framenda pramma síns til þess að ná Valdimar upp. Strax og hann hafði náð honum upp úr sjónum hóf hann lífgunartilraunir, en sá aldrei nein lífsmörk með honum. Þegar komið var með Valdimar í land, úrskurðaði héraðslæknir hann látinn.

          Krufning prófessors Gunnlaugs Geirssonar, sem fram fór 3. júní 2003, leiddi í ljós að dánarorsök Valdimars var drukknun. Við krufninguna kom ekkert annað fram sem varpað gæti ljósi á það af hverju Valdimar féll í sjóinn.

          Í nefndaráliti rannsóknarnefndar sjóslysa vegna slyssins kom fram að orsök óhappsins virðist vera sú að Valdimar hafi falli útbyrðis og drukknað.  Ekki sé ljóst hvers vegna hann féll útbyrðis.  Þá segir einnig að nefndin telji að þangskurðarprammar eigi að lúta eftirliti Siglingamálastofnunar eða þar til gerðra skoðunaraðila líkt og krafist sé fyrir siglandi för og vera jafnframt búnir eðlilegum öryggisbúnaði siglandi fars.

          Með bréfi stefnenda 11. maí 2004 var krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda. Henni var hafnað með bréfi 6. júlí 2004. Stefnendur leituðu upplýsinga um hvar stefndi væri ábyrgðartryggður. Vátryggingafélag Íslands upplýsti í kjölfarið að stefndi hefði verið með „hefðbundna ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar“ hjá félaginu.

          Þann 15. september 2004 var f.h. stefnenda sent bréf til Siglingastofnunar Íslands til að spyrjast fyrir um skráningarskyldu Þörungaverksmiðjunnar á þangskurðarprömmunum og hvort prammarnir hefðu verið skráðir í skipaskrá. Í svarbréfi Siglingastofnunar, 7. janúar 2005, er fullyrt að prammarnir hafi verið skráningarskyldir og hafi fyrst verið skráðir í skipaskrá í febrúar 2004.

          Stefnendur telja nauðsynlegt vegna höfnunar á bótaskyldu að höfða mál þetta til að fá bætur úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

          Stefnendur byggja á því í fyrsta lagi, að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína gagnvart sér. Eftir að eiginmaður stefnanda var jarðsettur 7. júní 2003 voru reikningar vegna útfararinnar sendir stefnda til greiðslu. Þá krafði bróðir stefnanda Steinunnar stefnda um greiðslu þess kostnaðar sem hann hafði lagt út vegna útfararinnar. Stefndi innti fullnaðargreiðslu vegna útfararinnar af hendi án nokkurs fyrirvara. Vísað er til þess, að samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga skuli sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns greiða hæfilegan útfararkostnað. Stefnendur telja ljóst að hið stefnda félag hafi litið svo á að það væri bótaskylt vegna atburðarins. Í greiðslu stefnda á útfararkostnaði fólst því viðurkenning á bótaskyldu. Sönnunarbyrði um að í greiðslunni hafi ekki falist slík viðurkenning hvílir ótvírætt á stefnda.

          Í öðru lagi benda stefnendur á, að jafnvel þó litið væri svo á að greiðsla stefnda á útfararkostnaði hafi ekki falið í sér viðurkenningu á bótaskyldu, þá sé stefndi skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum. Um ábyrgð stefnda er vísað til meginreglna skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar og reglunnar um  húsbóndaábyrgð. Stefnendur byggja á því, að öryggisþættir prammans hafi farið í bága við lög, almenn sjónarmið um öryggi og það sem hinn látni mátti búast við af samningi við stefnda. Ennfremur leiðir af meginreglum fjármunaréttarins, einkum verktakaréttar og leiguréttar, að stefndi ábyrgðist að pramminn sem hann lét Valdimar í té gegn endurgjaldi væri í lögmætu ástandi. Til stuðnings þessu er m.a. bent á eftirfarandi:

          a. Stefndi lét ekki skrá og skoða þangskurðarpramma sína af siglingayfirvöldum, líkt og skylda bar til samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 1017/2003 um skoðanir á skipum og búnaði þeirra, sbr. 1. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa. Pramminn var áratuga gamall þegar slysið varð. Hafði hann aldrei verið skráður þótt lagaskylda hafi staðið til þess frá upphafi.

          b.  Öryggisbúnaði um borð í pramma Valdimars var ábótavant og er ljóst að saknæm vanræksla stefnda að þessu leyti var til þess fallin að stórauka hættuna á slysum um borð. Af fyrirliggjandi gögnum verður að telja að það sé óumdeilt. Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa kemur þannig fram að öryggisbúnaður hafi verið í lágmarki um borð en pramminn væri eftirlitsskyldur hjá Siglingastofnun líkt og krafist er um siglandi för og jafnframt að hann skyldi búinn eðlilegum öryggisbúnaði siglandi fars. Engin björgunarvesti voru um borð í prammanum og örygginu ábótavant að ýmsu öðru leyti. Hefði öryggisþáttum verið fylgt eftir, þá má leiða að því sterkar líkur að Valdimar hefði ekki farist við þær aðstæður sem uppi voru.

          c. Samkvæmt lögum nr. 35/1993 um eftirlit með skipum skal hvert skip útbúið á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og skulu skip fullnægja skilyrðum reglna á hverjum tíma um smíði, búnað og örugga starfsemi. Við framkvæmd eftirlits hjá Siglingastofnun er m.a. athugaður búnaður sem lýtur að öryggi skips og áhafnar. Stefnendur byggja jafnframt á því að lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 hafi átt við. Ef ekki beint, þá með lögjöfnun eða með vísan til undirstöðuraka laganna. Jafnvel þótt ekki verði fallist á, að öryggisbúnaður prammans hafi farið í bága við lög, svo sem byggt er á af hálfu stefnda, er ljóst að öryggisþættir prammans voru óforsvaranlegir út frá almennum sjónarmiðum um öryggi og stefndi beri allt að einu bótaábyrgð á því. 

          Þá byggja stefnendur á því að orsakatengsl séu á milli annmarka á öryggisþáttum prammans og andláts Valdimars. Verði talinn leika vafi á orsakatengslum milli þessara annmarka og slyssins er byggt á því að stefndi beri hallann af því og að sönnunarbyrðinni um orsakatengsl eigi að snúa við eða að minnsta kosti að slaka eigi á sönnunarkröfum. Er það í samræmi við almenn sjónarmið í íslenskum skaðabótarétti.

Dómkröfur stefnanda Steinunnar eru reiknaðar samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem kveður á um að bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skuli vera 30% af bótum þeim sem ætla megi að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.–8. gr.  

          Um tekjuviðmið fer samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. Tekjur eiginmanns stefnanda voru samkvæmt skattframtölum 1.777.493 kr. á árinu 2000, 2.771.431 kr. á árinu 2001 og  3.965.294 kr. á árinu 2002. Við tekjurnar bætast, samkvæmt ákvæðinu, framlag vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og þær eru leiðréttar samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Launavísitala slysdags var 238,5 stig. Meðallaunavísitala ársins 2000 var 194,1 stig og því viðmiðunartekjur þess árs 2.315.137 kr. (1.777.493 + 6% x 238,5/194,1). Meðallaunavísitala ársins 2001 var 211,3 stig og því viðmiðunartekjur ársins 3.315.880 kr.  (2.771.431 + 6% x 238,5/211,3). Meðallaunavísitala ársins 2002 var 226,4 stig og því viðmiðunartekjurnar 4.427.853 kr. (3.965.294 + 6% x 238,5/226,4). Meðaltekjur þriggja ára fyrir slys voru því 3.352.956 kr.

          Valdimar Jónsson var 52 ára og 283 daga gamall á dánardegi, stuðull skv. 6. gr. skaðabótalaga var því 7,191.

          Stefnukrafan vegna stefnanda Steinunnar Þorsteinsdóttur er því 7.233.332 kr. (7,191 x 3.352.956 x 100% x 0,3).

          Dómkröfur vegna Elísabetar Ingibjargar og Valdísar Kristínar eru reistar á 14. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu bætur fyrir missi framfæranda til eftirlifandi barns, sem hinum látna var lögskylt að framfæra, vera jafnháar heildarfjárhæð þeirra barnalífeyrisgreiðslna er barnið á rétt á eftir lögum um almannatryggingar frá því að tjón varð til 18 ára aldurs, sbr. 1. mgr. 14. gr. skaðabótalaga. Reikna skal fjárhæð barnalífeyris eins og hann er við andlát framfæranda, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Eiginmanni stefnanda var lögskylt að framfæra dætur sínar.  

          Barnalífeyrir á dánardegi eiginmanns stefnanda var 15.558 kr.

          Dómkröfur Elísabetar Ingibjargar taka mið af því að á dánardegi föður hennar átti hún 77 mánuði í 18 ára aldur. Krafa hennar vegna andláts föður hennar er því 1.197.966 kr. (77 x 15.558).

          Valdís Kristín átti 96 mánuði í 18 ára aldur þegar Valdimar lést. Krafa hennar vegna andlátsins er því 1.493.568 kr. (96 x 15.558).

          Stefnendur krefjast 4,5% vaxta, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, af bótafjárhæðunum frá slysdegi 30. maí 2003 til upphafsdags dráttarvaxta sem er krafist frá þingfestingu máls þessa til greiðsludags sbr. 4 mgr. 5.gr. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

          Varðandi lagarök er vísað til laga um skráningu skipa nr. 115/1985, laga um eftirlit með skipum nr. 35/1993 og reglugerða settra með stoð í þeim lögum. Þá er vísað til almennra reglna verktakaréttar, leiguréttar og skaðabótaréttar. Um bótafjárhæðir er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um vexti styðst við 16. gr. laganna. Krafa um dráttarvexti styðst við ákvæði laga nr. 38/2001. Um fyrirsvar stefnanda Steinunnar vegna dætra sinna vísast til 3. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnaðarkröfu vísast til laga um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

          Varðandi greiðslu útfarkostnaðar  þá hafnar stefndi því að þar með hafi hann viðurkennt ábyrgð á því slysi sem varð. Slysið sem leiddi til andláts Valdimars Jónssonar var ákaflega sorglegur atburður, ekki bara fyrir fjölskyldu hans og vini, heldur einnig fyrir samstarfsfólk, þ.m.t. stefnda. Ástæða þess að stefndi bauðst til þess að greiða fyrir útför Valdimars hefur alltaf verið sú að stefnda langaði til þess að gera það sem hann gat til þess að hjálpa ekkju og fjölskyldu Valdimars, eftir þetta hörmulega slys.

          Stefndi telur ósannað, að með greiðslu útfararkostnaðarins hafi hann viðurkennt bótaskyldu. Stefndi hafnar því að hér skuli sönnunarbyrði snúið við, þannig að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að með greiðslunni hafi ekki falist viðurkenning á bótaskyldu, enda væri það í fullu ósamræmi við þá meginreglu réttarfars að sá sem heldur fram staðhæfingu ber sönnunarbyrðina fyrir henni.

          Varðandi skráningu prammans byggir stefnandi á því, að stefndi hafi brotið sett lög með því að hafa ekki látið skrá þangskurðarprammana skv. 14 gr. reglugerðar nr. 1017/2003 um skoðanir á skipum og búnaði þeirra, sbr. 1. gr. laga nr. 115/1985. Í tilvitnuðum lögum segir að öll skip stærri en 6 metrar skuli skráð. Þangskurðarprammarnir voru 7,3 metrar að mestu lengd. Sú venja hafði hins vegar viðgengist í áratugi að þangskurðarprammar voru ekki skráðir samkvæmt reglum um skráningu skipa. Aldrei hafði verið hreyft við þeirri venju fyrr en eftir slysið sem Valdimar heitinn varð fyrir. Hvorki í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa né í minnisblaði Siglingastofnunar Ísafjarðar vegna slyssins er stefndi ámældur fyrir það að hafa ekki skráð prammana, sökum þess að áratuga venja lá að baki því að prammarnir voru ekki skráðir. Stefndi hafnar því að nokkur orsakatengsl séu á milli þess að prammarnir voru ekki skráðir og þess slyss sem varð, enda algjörlega óupplýst um aðdraganda slyssins.

          Varðandi meinta sakarábyrgð vegna öryggisbúnaðar þangskurðarprammans þá hafnar stefndi allri slíkri ábyrgð. Stefndi lítur svo á að í samningi sem lá til grundvallar verksambandi Valdimars heitins og stefnda segi að Valdimar sé ábyrgur gagnvart tjóni sem hann eða starfsmenn hans kunni að verða fyrir vegna starfrækslu prammans. Stefndi hafði því með samningnum undanþegið sig ábyrgð vegna slyss sem starfsmenn prammans kynnu að verða fyrir.

          Stefndi hafnar því að hann beri húsbóndaábyrgð á slysi Valdimars heitins. Eitt meginskilyrðið fyrir því að vinnuveitandi beri húsbóndaábyrgð á skaðaverkum starfsmanna sinna er að fyrir liggi vinnusamband á milli vinnuveitandans og starfsmannsins. Á milli stefnda og Valdimars var ekkert vinnusamband, heldur samningur um lán á þangskurðarprammanum sem skyldi starfræktur af Valdimar og í þeim samningi fólst að hann skyldi svo selja stefnda það þang sem hann aflaði. Því er ljóst að stefndi var ekki vinnuveitandi Valdimars, heldur verkkaupi og leigusali á þangskurðarprammanum. 

          Þá hafnar stefndi því að um saknæma vanrækslu sé að ræða vegna þess að öryggisbúnaði á þangskurðarprammanum hafi verið ábótavant.  Stefndi vísar hér til 5. gr. í samningi stefnda og Valdimars heitins en þar segir að Valdimar skuli sjá um að þangskurðarpramminn sé ætíð öruggur fyrir veðri, vindum og áhrifum sjávarfalla á lánstímanum. Í 7. gr. umrædds samnings segir að lántaki, þ.e. Valdimar, skuli vera ábyrgur fyrir tjóni sem hann kann að verða fyrir vegna vanhirðu eða aðgæsluleysis og ekki fellur undir tryggingu leigusala, stefnda. Í 5. gr. segir að leigutaki, Valdimar, skuli annast allan kostnað af daglegum rekstri, viðhaldi og umhirðu prammans í samræmi við leiðbeiningar sem hann hafði fengið frá leigusala, stefnda. Stefndi telur ljóst  að samkvæmt samningnum og eðli þeirra verkefna sem Valdimar bar að annast, þá hafi hann sjálfur átt að gæta að öryggisþætti prammans, t.d. sjá um að björgunarvesti væru um borð og klæðast slíku sjálfur.

          Í stefnu segir lögmaður stefnenda að fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa að pramminn sé eftirlitsskyldur hjá Siglingastofnun Íslands og jafnframt skyldi hann búinn eðlilegum öryggisráðstöfunum siglandi fars. Lögmaður stefnda getur ekki séð að þetta standi í skýrslunni og er því þessari rangfærslu mótmælt. Hins vegar segir þar að ,,eftir óhappið er lagt til að þangskurðarprammarnir verði skráðir og verulegar endurbætur verði gerðar til að auka öryggi starfsmanna“.

          Þá er því alfarið hafnað af hálfu stefnda, að nokkur orsakatengsl séu á milli andláts Valdimars og öryggisaðstæðna á þangskurðarprammanum. Í niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa kemur fram að ekki sé vitað hvað olli því að Valdimar féll útbyrðis og drukknaði. Niðurstaða krufningarskýrslu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands, er á sama veg, að dánarorsökin hafi verið drukknun, en ekki sé hægt að segja með hvaða hætti maðurinn fór í sjóinn. Ljóst er því, að ástæða þess að Valdimar féll í sjóinn er á huldu. Því er ósannað að nokkur orsakatengsl hafi verið á milli þangskurðarprammans og andláts Valdimars.

          Stefnendur halda því fram í stefnu, að verði talinn leika vafi á að orsakatengsl séu á milli meintra annmarka prammans og slyssins, þá eigi stefndi að bera hallann af því og að sönnunarbyrði um orsakatengsl eigi að snúa við eða að minnsta kosti að slaka eigi á sönnunarkröfum. Vísar stefnandi til þess að slíkt sé í samræmi við almenn sjónarmið í íslenskum skaðabótarétti. Þessari staðhæfingu hafnar stefndi alfarið þar sem þvert á móti er meginreglan sú í íslenskum skaðabótarétti að tjónþola beri að sanna tjón sitt, bótagrundvöllinn og að orsakatengsl séu milli tjónsins og hinnar bótaskyldu háttsemi.

          Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda og verði fallist á að orsakatengsl séu á milli andláts Valdimars og öryggisráðstafana á þangskurðarprammanum er varakrafan reist á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar Valdimars heitins og þess að orsakir slyssins er óupplýst. Þá er varakrafan byggð á því að verði fallist á að stefndi hafi átt að sjá fyrir öryggisráðstöfunum í prammanum er byggt á því að öryggisráðstafanir hafi verið fyrir hendi.

          Eigin sök Valdimars heitins er byggð á reynslu hans sem þangskurðarmanns og þekkingu hans á prammanum sjálfum.  Pramminn var starfræktur af honum sjálfum og bar honum að tryggja öryggi prammans. Valdimar var ekki klæddur björgunarvesti, heldur einungis mittisjakka og gallabuxum og mátti honum vera ljóst að slíkur útbúnaður var ekki forsvaranlegur.  Fjárkröfu er ekki mótmælt.

          Þá er gerður almennur fyrirvari um vaxtakröfu stefnanda og er kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

          Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. gr. um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

          Stefnandi teflir fram sem fyrstu málsástæðu sinni, að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína með því að hafa greitt allan útfararkostnaðinn. Í skýrslu Halldórs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra stefnda, fyrir dómi hafnaði hann að með greiðslunni hafi hann viðurkennt bótaskyldu.  Útfararkostnaðurinn hafi meðal annars verið greiddur vegna starfa Valdimars heitins hjá fyrirtækinu, fyrst í tíu ár sem starfsmanns eða til ársins 1995 og síðan sem þangskurðarmanns. Einnig yrði á litlum stað eins og Reykhólum, að styðja þá sem ættu um sárt að binda og það hafi fleiri gert en stefndi, til dæmis hafi starfslið fyrirtækisins og þangskurðarmenn lagt sitt af mörkum.

          Dómurinn lítur svo á, að með því að greiða útfararkostnaðinn hafi stefndi ekki viðurkennt skaðabótaábyrgð í málinu.  Greiðslan hafi verið innt af hendi af hjálpsemi, sem leiðir að mati dómsins ekki til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Engu skiptir þótt greiðslan hafi ekki verið greidd með fyrirvara.  Tilvitnun stefnenda til 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á ekki við hér. Þar er kveðið á um skyldu þess er ber skaðabótaábyrgð  á dauða annars manns, að hann skuli greiða útfararkostnað svo og bætur fyrir missi framfæranda, en ekki það að sá sem greiðir útfararkostnað umfram skyldu kalli yfir sig bótaábyrgð í málinu í heild.  Dómurinn lýtur því svo á, að greiðslan hafi verið innt af hendi af samúð  og manngæsku og valdi því ekki að stefndi beri skaðabótaábyrgð í málinu.

          Ágreiningslaust er með aðilum, að pramminn teljist vera skip, sbr. 1. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum.  Eigenda prammans, þ.e. stefnda, bar með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa, að senda Siglingamálastofnun beiðni um skráningu hans. Það vanrækti stefndi. Eftir slysið mun hafa verið gengið í það að skrá prammana. Þá kemur fram í áliti rannsóknarnefndar sjóslysa svo og í minnisblaði frá Siglingamálastofnun, útibúi á Ísafirði, að öryggisbúnaður hafi verið í lágmarki um borð í prammanum.  Því mun stefndi einnig hafa kippt í liðinn eftir slysið. Hér verður þó að athuga að öryggisbúnaður getur verið margvíslegur og þarf ekki að öllu leyti að hvíla  á stefnda að hafa hann til reiðu heldur bar Valdimar heitnum jafnframt að einhverju leyti á grundvelli samnings hans og stefnda frá 14. maí 2003 að sjá til þess að öryggisbúnaður í prammanum væri forsvaranlegur. 

          Þótt einhverjum atriðum hafi verið ábótavant af hálfu stefnda, þá lítur dómurinn svo á að það valdi ekki skaðabótaábyrgð hans. Dómurinn telur að orsakasamband sé ekki fyrir hendi milli andláts Valdimars heitins og annmarka á öryggisþáttum  prammans.  Aðalatriðið er að ekki er upplýst hvernig andlát Valdimars bar að og engin vitni  eru að því er hann féll í sjóinn.  Því eru atvikin óupplýst og þar af leiðandi ekki hægt að fullyrða hvaða öryggisþættir hefðu þurft að vera til staðar í prammanum.  Í nefndaráliti  rannsóknarnefndar sjóslysa segir að orsök óhappsins virðist vera sú að Valdimar hafi fallið útbyrðis og drukknað og ekki sé vitað hvers vegna hann hafi dottið útbyrðis.  Þá segir í niðurstöðu krufningarskýrslunnar að ekkert finnist sem geti skýrt fall Valdimars fyrir borð og því verði ekki annað séð en að drukknunin hafi verið slys.  Dómurinn lítur því svo á að Valdimar heitinn hafi látist af slysförum og ósannað sé með öllu að drukknunina sé að rekja til gerðar prammans eða einhverra annarra atriða sem stefndi beri ábyrgð á. 

          Niðurstaðan er því sú, að stefndi er sýknaður af kröfum stefnenda.  Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður  milli aðila falli niður. 

          Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Eiríks Elísar Þorlákssonar hdl., sem er hæfilega ákveðin 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

          Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

Dómsorð.

          Stefndi, Þörungaverksmiðjan hf., er sýkn af öllum kröfum stefnenda, Steinunnar Þorsteinsdóttur persónulega og einnig f.h. dætra hennar, Elísabetar Ingibjargar Valdimarsdóttur og Valdísar Kristínar Valdimarsdóttur.   

          Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns þeirra  400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.