Hæstiréttur íslands
Mál nr. 25/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gerðardómur
- Litis pendens áhrif
- Lúganósamningurinn
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
- Frestur
|
|
Mánudaginn 14. febrúar 2005. |
|
Nr. 25/2005. |
Fiskafurðir-Útgerð hf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Empresa de Pesca de Aveiro S.A. og José Valentim Cardoso Taveira da Mota (Skúli Th. Fjeldsted hrl.) |
Kærumál. Gerðardómur. Litis pendens áhrif. Lúganósamningurinn. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Frestun.
F höfðaði í desember 2003 mál hér á landi gegn E og J til heimtu skuldar samkvæmt skuldaviðurkenningu, sem E og J gáfu út til tryggingar á efndum greiðsluskyldu E samkvæmt fjármögnunarsamningi við F. Talið var að krafa um frávísun málsins vegna gerðardómsákvæðis í fjármögnunarsamningnum hafi verið of seint fram komin og varð málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þeim sökum. Í október 2002 hafði F, ásamt S, höfðað mál gegn E og A fyrir portúgölskum dómstól, þar sem F krafðist þess meðal annars að E greiddi skuld sem F rakti til fyrrnefnds fjármögnunarsamnings. Var ekki talið að kröfurnar í þessum tveimur dómsmálum væru reistar á sömu málsástæðum og voru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna ákvæðis 2. mgr. 21. gr. Lúganósamningsins. Kröfurnar töldust hins vegar skyldar í skilningi 3. mgr. 22. gr. samningsins. Skilyrði frávísunar samkvæmt 2. mgr. 22. gr. voru þó ekki uppfyllt en meðferð málsins hér á landi var frestað samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis þar til leyst hefði verið úr málinu sem rekið var í Portúgal á fyrsta dómstigi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara aðallega að taka kröfur á hendur báðum varnaraðilum til efnislegrar meðferðar, en til vara kröfu á hendur varnaraðilanum José Valentim Cardoso Taveira da Mota. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði sóknaraðili svokallaðan fjármögnunarsamning 29. mars 1999 við varnaraðilann Empresa de Pesca de Aveiro S.A., þar sem sóknaraðili hét því að útvega nánar tiltekinn búnað fyrir fiskiskip varnaraðilans, sem bar heitið Calvao, svo og að standa straum af sem svaraði 70% af kostnaði af þessum búnaði, sem alls var áætlað að myndi nema 475.000 bandaríkjadölum. Bar varnaraðilanum að endurgreiða sóknaraðila lán, sem sá síðarnefndi veitti á þessum grunni, með tveimur jöfnum afborgunum, 31. október 1999 og 30. apríl 2000, auk tiltekinna vaxta. Til að tryggja greiðslu skuldarinnar var sóknaraðila áskilin heimild til að taka fé, sem svaraði til afborgana af henni, af greiðslum úr sinni hendi fyrir afurðir af skipi varnaraðilans. Til frekari tryggingar gáfu báðir varnaraðilar út sama dag skuldaviðurkenningu til sóknaraðila, þar sem lýst var yfir skuldbindingu þeirra óskipt til að greiða skuld við hann samkvæmt áðurnefndum samningi að fjárhæð allt að 600.000 bandaríkjadalir.
Sóknaraðili kveðst hafa greitt samtals 495.443,43 bandaríkjadali fyrir endurbætur á fyrrnefndu skipi á tímabilinu 7. apríl til 30. júní 1999. Af þeirri fjárhæð hafi varnaraðilinn Empresa de Pesca de Aveiro S.A. endurgreitt sóknaraðila samtals 248.500 bandaríkjadali. Á árinu 1999 hafi áfallnir vextir af skuldinni numið 18.578,99 bandaríkjadölum og fjárhæð hennar í lok þess því verið 265.522,42 bandaríkjadalir. Frá 1. janúar til 30. apríl 2000 hafi fallið til 7.767,75 bandaríkjadalir í vexti og fjárhæð skuldarinnar síðastnefndan dag því verið 273.290,17 bandaríkjadalir. Sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið frekari greiðslur af skuldinni. Hann höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum 5. desember 2003 til heimtu síðastnefndri fjárhæð ásamt nánar tilteknum dráttarvöxtum frá 30. apríl 2000 til greiðsludags og málskostnaði.
II.
Í fyrrnefndum fjármögnunarsamningi 29. mars 1999 er meðal annars að finna ákvæði, sem greinir í hinum kærða úrskurði, um að kröfur á grundvelli samningsins eða ágreiningur vegna hans skuli sæta úrlausn gerðardóms hér á landi eftir nánar tilgreindum reglum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma verður máli, sem höfðað er fyrir almennum dómstóli um sakarefni, sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi, því aðeins vísað frá dómi að fram komi krafa um það. Varnaraðilar lögðu fram greinargerð í héraði 27. apríl 2004 og kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Sú krafa var þó eingöngu reist á ástæðum, sem tengdust rekstri annars dómsmáls í Portúgal og nánar er getið hér á eftir. Við munnlegan málflutning um þessa kröfu fyrir héraðsdómi 1. desember 2004, nærri ári eftir að málið var höfðað, var því á hinn bóginn fyrst hreyft svo séð verði af hálfu varnaraðila að vísa ætti málinu frá dómi vegna gerðardómsákvæða samningsins frá 29. mars 1999. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 var þessi málsástæða til stuðnings kröfu um frávísun málsins of seint fram komin. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þessum sökum.
III.
Fyrir liggur að aðilarnir hafa átt í umfangsmiklum viðskiptum utan þeirra, sem búa að baki málinu. Vegna þessara viðskipta höfðuðu sóknaraðili og félagið Scandsea International AB mál á hendur varnaraðilum þessa máls ásamt António Conde & Companhia S.A. fyrir dómstóli í Lissabon í Portúgal, sem eftir framkomnum gögnum ber heitið 1a Vara Cível de Lisboa, en það mál mun hafa verið lagt fyrir umræddan dómstól 30. október 2002. Samkvæmt stefnu í því máli er þess krafist þar að varnaraðilinn Empresa de Pesca de Aveiro S.A. verði dæmdur ásamt António Conde & Companhia S.A. til að greiða sóknaraðila 16.711.252,76 evrur, en að auki að síðastnefnt félag verði eitt dæmt til að greiða sóknaraðila og Scandsea International AB 3.594.803,51 evrur og varnaraðilinn José Valentim Cardoso Taveira da Mota ásamt félögunum tveimur til að greiða þeim sömu 595.366,18 evrur. Samkvæmt 137. tölulið stefnunnar, sbr. 65., 69., 72. og 76. tölulið, krefst sóknaraðili meðal annars í fyrstnefnda kröfuliðnum greiðslu úr hendi varnaraðilans Empresa de Pesca de Aveiro S.A. og António Conde & Companhia S.A. á skuld, sem svarar til 265.522,42 bandaríkjadala, en hana rekur sóknaraðili þar til fyrirgreiðslu vegna fiskiskipsins Calvao á tímabilinu frá ágúst 1998 til desember 1999. Verður að leggja til grundvallar að hér sé um að ræða áðurgreinda skuld vegna viðskipta, sem reist voru á fjármögnunarsamningnum 29. mars 1999.
Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. samnings 16. september 1988 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, ber að vísa frá dómi máli, sem höfðað er í einu samningsríki, ef fram kemur að áður hafi verið höfðað í öðru samningsríki mál milli sömu aðila um kröfu, sem byggð er á sömu málsástæðum, enda sé því máli ólokið og fyrir liggi að dómstóllinn, sem það er rekið fyrir, hafi dómsvald í því. Ekki er annað fram komið en að fyrrnefndu erlendu dómsmáli sé enn ólokið fyrir dómi í Lissabon og hann hafi lögsögu til að leysa úr því, en ljóst er að það var höfðað fyrr en mál þetta. Til þess verður á hinn bóginn að líta að varnaraðilar hafa ekki hnekkt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að í erlenda dómsmálinu sé áðurgreindur kröfuliður á hendur varnaraðilanum Empresa de Pesca de Aveiro S.A. um greiðslu á 265.522,42 bandaríkjadölum reistur á þeirri málsástæðu að krafan eigi stoð í fjármögnunarsamningnum frá 29. mars 1999. Í máli þessu reisir sóknaraðili kröfu sína á hendur varnaraðilunum eingöngu á skuldaviðurkenningunni, sem þeir síðastnefndu gáfu út sama dag. Kröfurnar í þessum tveimur dómsmálum eru því ekki reistar á sömu málsástæðum. Þá verður ekki séð að erlenda dómsmálinu sé beint að varnaraðilanum José Valentim Cardoso Taveira da Mota að því er varðar þann kröfulið, sem hér um ræðir. Eru því ekki efni til að vísa máli þessu frá dómi vegna ákvæðis 2. mgr. 21. gr. Lúganósamningsins.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. Lúganósamningsins getur dómstóll í einu samningsríki frestað máli ef fram er komið að mál hafi áður verið höfðað í öðru samningsríki um skylda kröfu, en slíkur frestur skal þá standa meðan erlenda málið er til meðferðar á fyrsta dómstigi. Í 2. mgr. 22. gr. er dómstóli, þar sem mál er síðar höfðað, jafnframt heimilað við þessar aðstæður að vísa máli frá dómi að fullnægðum nánari skilyrðum. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. teljast kröfur skyldar í þessum skilningi ef þær eru svo tengdar innbyrðis að æskilegt sé að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði kveðnir upp um hverja þeirra fyrir sig. Sem fyrr segir rekur sóknaraðili nú fyrir dómi í Lissabon mál á hendur varnaraðilanum Empresa de Pesca de Aveiro S.A. meðal annars til heimtu skuldar að fjárhæð 265.522,42 bandaríkjadalir, sem sóknaraðili rekur þar til fjármögnunarsamningsins frá 29. mars 1999. Skuldaviðurkenningin, sem gefin var út sama dag af varnaraðilunum báðum og sóknaraðili reisir þetta mál á, felur efnislega í sér sameiginlega ábyrgð þeirra gagnvart honum á efndum greiðsluskyldu varnaraðilans Empresa de Pesca de Aveiro S.A. samkvæmt þeim samningi. Verður ekki séð á hvaða grunni sóknaraðili gæti gert kröfu samkvæmt þessari skuldaviðurkenningu, sem ekki yrði leidd af fjármögnunarsamningnum, en af þeim sökum hlyti dómur í þessu máli að vera reistur á niðurstöðu um tilvist og fjárhæð skuldar samkvæmt samningnum. Verður því krafan, sem sóknaraðili leitar dóms um í þessu máli, að teljast skyld kröfunni, sem mál var fyrr höfðað um fyrir dómi í Lissabon, í skilningi 3. mgr. 22. gr. Lúganósamningsins, enda bersýnilegt að æskilegast væri að dæmt yrði um þær sameiginlega í málinu, sem sóknaraðili kaus sjálfur að höfða fyrir erlendum dómstóli á undan máli þessu, svo að komið verði í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði upp kveðnir.
Meðal skilyrða 2. mgr. 22. gr. Lúganósamningsins fyrir því að máli, sem síðar var höfðað, verði vísað frá dómi er að dómstóll, þar sem mál var fyrr höfðað, hafi dómsvald um kröfurnar, sem sóttar eru í báðum málum. Varnaraðilar hafa í engu leitast við að sýna fram á að þessum áskilnaði sé fullnægt að því er varðar heimild erlenda dómstólsins til að leysa úr þeirri kröfu, sem sóknaraðili gerir í þessu máli. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grunni. Samkvæmt því, sem áður greinir, eru á hinn bóginn efni til að fara svo að, sem mælt er fyrir í 1. mgr. 22. gr. Lúganósamningsins, og fresta meðferð þessa máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar til fyrrnefndu máli sóknaraðila fyrir dómstóli í Lissabon hefur verið lokið á því dómstigi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og málinu frestað á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins eru ekki efni til annars en að aðilarnir beri hver sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Meðferð þessa máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur skal frestað þar til leyst hefur verið úr máli, sem sóknaraðili, Fiskafurðir-Útgerð hf., og Scandsea International AB reka nú á hendur varnaraðilum, Empresa de Pesca de Aveiro S.A. og José Valentim Cardoso Taveira da Mota, ásamt António Conde & Companhia S.A. fyrir dómstólnum 1a Vara Cível de Lisboa í Portúgal.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2004.
Mál þetta var höfðað 5. desember 2003.
Stefnandi er Fiskafurðir-Útgerð ehf., hjáheiti Fishproducts International Ltd, Aðalstræti 6, Reykjavík
Stefndu eru Empresa de Pesca de Aveiro SA, Avenida dos Bacalhoeiros, Lugar de Chave, Grafanha da Nazaré, 3830 Ílhavo, Portúgal og Jose Valentin Cardoso Taveira da Mota, Rua Alfredo Keil nr. 479, 5° dir., Lugar de Chave, Grafanha da Nazaré, 3830 Ílhavo, Portúgal.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér skuld að fjárhæð USD 273.290,17 með 12% ársvöxtum frá 30. apríl 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndu gera þær kröfur að málinu verði vísað frá dóminum, til vara að málinu verði frestað til þess er endanlegur dómur liggur fyrir í máli portúgalska dómsins 1 a Vara Civel de Lisboa 2 a Seccao, nr. 164/2002, til frekari vara að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnenda verði lækkaðar og í öllum tilvikum að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.
Frávísunarkrafa stefndu var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 1. þ.m. Samkvæmt ákvörðun dómara var málið jafnframt flutt um varakröfu stefndu, þ.e. um frestun málsins. Stefnandi krefst þess að báðum framangreindum kröfum verði hafnað og að sér verði ákvarðaður málskostnaður í þessum þætti málsins.
Aðilar málsins hafa átt í viðskiptum um árabil þannig að stefnandi hefur selt fiskafurðir veiddar af skipum á vegum stefndu og hefur söluandvirði að hluta verið ráðstafað til greiðslu fjármögnunar stefnanda við endurnýjun búnaðar skipa á vegum stefndu, m.a. samkvæmt þeim fjármögnunarsamningi (finance agreement), dags. 29. mars 1999, sem lýtur að endurútbúnaði/endurbótum fiskiskipsins Calvao A-2801-N. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi hafa kauprétt að öllum afurðum Calvao frá þeim degi er endurbótum lyki og fram til 30. apríl 2000 og lengur ef kostnaður við endurbætur og önnur fjármögnun stefnanda hefði þá ekki verið að fullu greidd. Lánið átti að endurgreiða með tveimur afborgunum, þ.e. í síðasta lagi 31. október 1999 og í síðasta lagi 30. apríl 2000. Stefnandi kveður heildarskuld samkvæmt samningnum hafa numið USD 265.522,42 þann 31. desember 1999 samkvæmt viðskiptayfirliti dags. 17. janúar 2000.
Sama dag og áður greindi, þ.e. 29. mars 199, gengust stefndu í máli þessu undir skuldaviðurkenningu (promissory note) gagnvart stefnanda þessa máls. Þar heita þeir því að greiða óskipt 600.000 bandaríska dollara, en höfuðstóllinn sé lán samkvæmt framangreindum fjármögnunarsamningi, ásamt innheimtukostnaði og tólf prósent ársvöxtum vegna vanefnda/greiðslufalls á samningnum. Einnig er kveðið á um gjaldfellingu m.a. vegna skiptameðferðar og gjaldþrota aðilanna.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á framangreindri skuldaviðurkenningu. Þar sem vanefndir hafi orðið á greiðslu skuldar stefnda, Empresa de Pesca de Aveiro SA, hafi skuldin öll verið í gjalddaga fallin 30. apríl 2000, á síðari gjalddaga lánssamningsins, og stefnanda heimilt að ganga að skuldara og sjálfskuldarábyrgðaraðila. Stefnandi byggir á því að í skuldaviðurkenningunni séu ákvæði um lögsögu íslenskra dómstóla í málum, sem kunna að rísa á grundvelli hennar, og sé á þeim samningi byggt varðandi varnarþing í málinu, sbr. 3. mgr. 42. gr. Laga nr. 91/1991 sbr. og 35. gr. og 43. gr. s.l. Jafnframt vísar stefnandi til 1. mgr. 5. gr., sbr. 3. gr., Luganósamningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995.
Af hálfu stefndu er vísað til þess að það sé löngu viðurkennd grundvallarregla í réttarfari að mál verði ekki rekið um sömu kröfur milli sömu aðila fyrir tveimur dómstólum í einu. Regla þessi hafi nú einnig verið staðfest með aðild Íslands að Lúganósamningnum og lögfestingu hans. Stefnandi hafi höfðað mál gegn stefndu til heimtu greiðslu á hinum sömu ætluðu kröfum og hann hafi uppi í máli þessi, í Portúgal við dómstólinn 1 a Vara Civel de Lisboa 2 a Seccao, í máli nr. 164/2002 sem þar sé í gangi. Málið í Portúgal sé víðtækara, annar aðili komi þar fram sem meðstefnandi og kröfur séu þar fleiri en í þessu máli. Í nefndu máli hins portúgalska dómstóls, nr. 164/2002, geri stefandi m.a. kröfu um greiðslu á jafnvirði US$ 265.522,42. Sú krafa sé nákvæmlega hin sama og stefnandi geri í máli þessu, að öðru leyti en því að vegna vaxtaviðbótar sé kröfufjárhæðin hér nokkru hærri, og kröfugrundvöllurinn sé sá sami. Tryggingarbréfið, sem stefnandi vísi til, sé ekki sjálfstætt viðskiptabréf sbr. XVII. kafla laga nr. 91/1991, greiðsluskylda samkvæmt því sé tengd stöðu lánssamningsins og allar varnir og skuldajöfnuður heimill gagnvart því.
Frávísunarkrafa stefndu er byggð á því, sbr. 21. gr. laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn, að af hálfu þeirra hafi verið færðar fram staðgóðar upplýsingar um að kröfur stefnanda séu þegar til umfjöllunar við annan dómstól.
Við munnlegan málflutning var frávísunarkrafa stefndu einnig reist á svofelldum ákvæðum framangreinds fjármögnunarsamnings um gerðardóm:
“5.2 Sérhverri deilu, ágreiningi eða kröfu sem rísa kann af eða í sambandi við þennan samning eða vanefnd hans, riftun eða ógildingu skal, verði hún ekki leyst í vinsemd, vísað til gerðardóms í samræmi við reglur um gerðardóm Verslunarráðs Íslands.
5.3 Í gerðardómnum skulu sitja þrír gerðardómarar.
5.4 Aðsetur gerðardómsins skal vera í Reykjavík.
5.5 Gerðardómþingið skal fara fram á ensku.
5.6 Samþykki samningsaðila um að vísa deilu/ágreiningi til gerðardóms í Reykjavík skal ekki hafa áhrif á rétt FI, samkvæmt skuldaviðurkenningunni, til þess að vísa til dómstóls sem er til þess bær að afgreiða úrskurð um kyrrsetningu eða fjárnám í eignum EPA í hvaða lögsagnarumdæmi sem er þar sem slíkar eignir kann að vera að finna.
5.7 Úrskurður gerðardómaranna skal vera endanlegur og bindandi fyrir samningsaðila og má í því skyni að framfylgja honum leita til hvaða dómstóls eða til þess bærs yfirvalds sem er sem hefur lögsögu í málinu á sama hátt og varðandi úrskurð kveðinn upp fyrir almennum dómstóli.”
Af hálfu stefnanda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.
Varakrafa stefndu um frestun er reist á 22. gr. laga nr. 68/1995. Verði ekki frávísað sé ljóst að málin séu svo náskyld og kröfur svo tengdar innbyrðis að víst sé að dómar yrðu ósamrýmanlegir.
Í því máli, sem rekið er fyrir hinum portúgalska dómstóli, eru bæði stefnendur og stefndu einum fleiri en í þessu máli. Kröfufjárhæðir eru miklu hærri og kröfugerð víðfeðmari, m.a. vegna þess að hún tekur til viðskipta vegna fleiri skipa en þess sem hér um ræðir. Hitt er þó ljóst og ómótmælt að í því máli gerir stefnandi þessa máls kröfu á hendur stefnda, Empresa de Pesca de Aveiro SA, í þessu máli, um greiðslu sömu skuldar og hann krefst í þessu máli en sem er í þessu máli lítið eitt hærri vegna þess að vöxtum lengra tímabils er bætt við höfuðstól. Fallist er á það að af þessari ástæðu beri, með vísun til 21. gr. laga nr. 68/1995 sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991, að vísa kröfum stefnanda á hendur stefnda, Empresa de Pesca de Aveiro SA, frá dómi.
Kröfuréttur samkvæmt skuldaviðurkenningunni, sem stefnandi reisir rétt sinn á, grundvallast á fjármögnunarsamningnum og skuldastöðu samkvæmt honum, dags. í báðum tilvikum 29. mars 1999.
Fallist er á að af hálfu stefndu hafi sú málsástæða, sem varðar gerðardómsákvæði fjármögnunarsamningsins, verið of seint fram sett. Rétt er hins vegar að þetta atriði verði tekið til úrlausnar af sjálfsdáðum dómara. Gerðardómsákvæðin, sem áður voru rakin, eru skýr og ótvíræð þannig að höfðun máls þessa fyrir dómi og frekari dómsmeðferð samrýmist þeim ekki. Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá dómi. Ákveðið er að stefnandi skuli greiða stefndu 300.000 krónur í málskostnað.
Mál þetta úrskurðar Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Fiskafurðir-Útgerð hf., greiði stefndu, Empresa de Pesca de Aveiro SA og Jose Valentin Cardoso Taveira da Mota, 300.000 krónur í málskostnað.