Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/2001


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. september 2001.

Nr. 93/2001.

G.R. Verktakar ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Bás ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Tómlæti.

 

G tók að sér að annast tiltekið verk við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum fyrir R og samdi við B, sem rak steypustöð, um kaup á steypu. B afhenti G steypu eftir því sem verkinu miðaði á tímabilinu frá apríl til ágúst 1999 og gerði honum reikninga fyrir samtals 558,5m3 af steypu. G greiddi reikningana athugasemdalaust þar til kom að síðasta reikningnum fyrir afhendingu á 45m3 af steypu. Við verklok varð samkomulag milli G og R um að R skyldi greiða G fyrir 521m3 af steypu í samræmi við útboðsskilmála vegna verksins. Þegar B hafði árangurslaust reynt að fá G til að greiða síðasta reikninginn höfðaði hann mál á hendur G í því skyni. Hæstiréttur taldi ósannað að G hefði dregið í efa að hann hefði tekið á móti því steypumagni, sem B krefði hann um greiðslu fyrir, eða mótmælt reikningum á þeim grundvelli fyrr en með greinargerð sinni fyrir héraðsdómi, þ.e. átta mánuðum eftir útgáfu síðasta reikningsins. Hefði G með þessu tómlæti glatað rétti til að bera fyrir sig að hann hefði ekki tekið við því magni steypu, sem B krefði hann um greiðslu fyrir. Var G gert að greiða kröfu B.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2001. Hann krefst aðallega sýknu að svo stöddu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að honum verði aðeins gert að greiða stefnda 315.864 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og máls­kostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Stefndi gerir kröfu um að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi tók áfrýjandi að sér að undangengnu útboði að annast tiltekið verk við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum fyrir Rafmagnsveitur ríkisins. Var í skilmálum útboðsins gert ráð fyrir að í verkið færi 521 rúmmetri af steypu. Óskaði áfrýjandi eftir tilboði stefnda, sem rekur steypustöð á Siglufirði, í steypu til verksins. Gerði stefndi 27. janúar 1999 „tilboð í verð á 530 m3 af C35 steypu“. Skyldi verð fyrir hvern rúmmetra vera 19.547 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti en án svonefndra þjálniefna. Samþykkti áfrýjandi tilboðið munnlega. Skýringu á því að stefndi miðaði við þennan rúmmetrafjölda í tilboði sínu kveður hann vera þá að annar verktaki, sem bauð í verkið við Skeiðsfossvirkjun en fékk ekki, hafi áður en hann skilaði tilboði sínu til Rafmagnsveitna ríkisins leitað tilboðs í steypu hjá stefnda miðað við þetta magn og gerði stefndi áfrýjanda síðar sama tilboð og hann hafði áður gert fyrrnefndum verktaka. Er ekki ágreiningur um að sá rúmmetrafjöldi, sem í tilboðinu greinir, sé viðmiðunartala og að ekki felist í samningi aðila að greiðslur skuli miðast við það magn án tillits til þess hversu mikil steypa var afhent.

 Stefndi afhenti steypu eftir því sem verki áfrýjanda miðaði. Sést af gögnum málsins að steypa var afhent 27 daga á tímabilinu frá 9. apríl til 10. ágúst 1999. Fyrir héraðsdómi bar Sveinn Ástvaldsson, verkstjóri hjá stefnda, að steypa hafi verið afhent með þeim hætti að forsvarsmaður og einn eigenda áfrýjanda, Rúnar Magnús Magnússon, hafi haft símsamband við sig þá daga, sem áfrýjandi óskaði eftir að fá steypu afhenta. Hafi áfrýjandi áætlað hversu mikla steypu hann þyrfti þann daginn og hafi stefndi þá sent steypubíla með heila farma sem dugði sem næst upp í þá áætlun, en hver bíll tók 5 rúmmetra fullfermdur. Hafi áfrýjandi síðan aftur haft símsamband við stefnda með nánari áætlun um hversu mikið vantaði og hafi síðasti steypubíll dagsins verið fermdur í samræmi við þá áætlun. Ef áfrýjandi áætlaði til dæmis að hann þyrfti 18 til 19 rúmmetra tiltekinn dag hafi stefndi fyrst sent þrjá bíla með fullfermi eða 15 rúmmetra en síðan hafi forsvarsmaður áfrýjanda hringt aftur og áætlað hvað vantaði til að ljúka verkinu þann daginn. Hafi stefndi fermt síðasta steypubíl dagsins í samræmi við það. Staðfesti Rúnar Magnús Magnússon í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að afhending steypunnar hafi verið með þessum hætti í samræmi við óskir sínar um tiltekið magn.

Vegna hverrar ferðar með steypu gerði stefndi afhendingarseðil þar sem meðal annars kom fram magn steypu. Er reitur á afhendingarseðlunum þar sem gert er ráð fyrir að kvittað sé fyrir móttöku. Hefur ekki verið kvittað fyrir móttöku á allmörgum seðlum og áfrýjandi kannast ekki við kvittanir á nokkrum til viðbótar. Magnús Jónasson, framkvæmdastjóri stefnda, skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að hann hafi útbúið reikninga vegna steypunnar fyrst mánaðarlega en síðan hálfsmánaðarlega að beiðni áfrýjanda. Hafi reikningarnir alltaf verið byggðir á afhentu magni samkvæmt afhendingarseðlunum og hafi seðlarnir fylgt hverjum reikningi. Jafnframt hafi eftirlitsmaður Rafmagnsveitna ríkisins með verkinu fengið afrit af afhendingarseðlunum. Rúnar Magnús Magnússon bar fyrir héraðsdómi að hann hafi, þegar hann bað Magnús að gefa reikningana út hálfsmánaðarlega í stað mánaðarlega, jafnframt beðið um að þeir yrðu í samræmi við það magn sem hann fengi samþykkt á verkfundum með Rafmagnsveitum ríkisins. Stefndi hafi ekki orðið við þeirri beiðni. Magnús kannaðist í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi ekki við að slík beiðni hefði komið fram. Síðasti reikningur stefnda vegna framangreinds samnings að fjárhæð 947.570 krónur var útgefinn 13. september 1999 og var hann vegna afhendingar á 45 rúmmetrum af steypu ásamt tilheyrandi þjálniefni þann 10. ágúst þess árs. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi jafnan greitt stefnda reikninga vegna steypunnar um hálfum mánuði eftir útgáfu þeirra uns kom að síðasta reikningnum. Þorsteinn Jóhannesson, sem var eftirlitsmaður Rafmagnsveitna ríkisins með verki áfrýjanda, staðfesti fyrir héraðsdómi að hann hafi fengið afrit af öllum afhendingarseðlum stefnda og borið þá saman við dagskýrslur, sem áfrýjandi útfyllti fyrir hvern verkþátt, enda hafi hann átt að sjá um að „stemma þetta saman svo ekki kæmi fram neinn mismunur.“

Fyrir liggur að áfrýjandi vigtaði steypuna við móttöku á byggingarstað með vigt sem var í krana þeim sem hífði steypuna og hélt skrá yfir þær vigtanir. Rúnar Magnús Magnússon taldi fyrir héraðsdómi að þessi vigtun væri svo ónákvæm að hún væri ekki marktæk. Ekki hafa verið lögð fram í málinu gögn um hana.

Við lok verks áfrýjanda við Skeiðsfossvirkjun, líklega í september 1999, fór fram úttekt á verkinu og uppgjör vegna þess milli áfrýjanda og Rafmagnsveitna ríkisins. Var Þorsteinn Jóhannesson fulltrúi Rafmagnsveitna ríkisins við það verk en Hallgrímur Hallgrímsson verkfræðingur fulltrúi áfrýjanda. Varð samkomulag um að áfrýjanda skyldi greitt fyrir 521 rúmmetra af steypu. Bar Þorsteinn fyrir héraðsdómi að sú niðurstaða hafi fengist samkvæmt mælingum á verkstað, sem hafi að því er varðar viðgerðir á eldri mannvirkjum farið fram áður en steypumót voru sett upp og byggst á mælingum á teinum sem stóðu út úr eldri steypu. Hafi mælingunni að hluta til bæði verið ætlað að ákveða það magn eldri steypu sem brotið var af stífluvegg virkjunarinnar og það magn sem steypa átti í þess stað. Þar sem um nýja veggi hafi verið að ræða hafi steypumagn verið reiknað eftir teikningum af mótunum.

Stefndi ritaði áfrýjanda innheimtubréf 9. febrúar 2000 og krafðist greiðslu 947.570 króna samkvæmt framangreindum reikningi 13. september 1999 vegna síðustu steypuafhendingarinnar auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Stefna í máli þessu er dagsett 29. febrúar 2000 og var málið þingfest 28. mars þess árs.

II.

Í máli þessu deila aðilar um hve mikið magn af steypu stefndi hafi afhent áfrýjanda. Kemur í því sambandi meðal annars til álita hvort áfrýjandi hafi glatað rétti sínum til að gera athugasemdir við það magn sem stefndi krefur hann um greiðslu fyrir vegna tómlætis.

Eins og að framan er rakið var magn þeirrar steypu, sem stefndi taldi sig hafa afhent, tilgreint á hverjum reikningi, sem hann gerði áfrýjanda á meðan á verkinu stóð. Fylgdu afhendingarseðlar reikningunum. Áfrýjandi greiddi þessa reikninga athugasemdalaust uns kom að síðasta reikningnum 13. september 1999. Er ósannað gegn andmælum stefnda að áfrýjandi hafi beðið um að reikningsgerð yrði hagað á annan hátt. Við verklok síðsumars 1999 fór fram uppgjör vegna verksins við Skeiðsfossvirkjun milli áfrýjanda og Rafmagnsveitna ríkisins þar sem samkomulag varð um að áfrýjanda skyldi greitt fyrir 521 rúmmetra af steypu. Þannig lá fyrir í  september 1999 hver munur var á því magni steypu, sem stefndi krafði áfrýjanda um greiðslu fyrir, og því magni, sem við var miðað í uppgjöri áfrýjanda við Rafmagnsveitur ríkisins. Fyrir liggur að áfrýjandi gerði fljótlega athugasemdir við magn þjálniefnis í reikningum stefnda vegna rangra magntalna, er fram komu í reikningunum vegna galla í tölvukerfi stefnda. Féllst áfrýjandi að sögn  framkvæmdastjóra stefnda á framkomnar skýringar stefnda varðandi þetta atriði og er ekki í þessu máli deilt sérstaklega um þjálniefnið. Þá bar framkvæmdastjórinn fyrir héraðsdómi að Rúnar  Magnús Magnússon hafi farið þess á leit við hann að stefndi tæki við 400.000 krónum sem lokagreiðslu vegna þess að í uppgjörinu við Rafmagnsveitur ríkisins hafi verið miðað við minna steypumagn. Gegn andmælum stefnda er hins vegar ósannað að áfrýjandi hafi dregið í efa að hafa tekið á móti því steypumagni, sem stefndi krafði hann um greiðslu fyrir, eða mótmælt reikningunum á þeim grundvelli fyrr en með greinargerð sinni fyrir héraðsdómi í máli þessu, sem lögð var fram í þinghaldi 23. maí 2000.

Viðskipti aðila voru verslunarkaup í merkingu 4. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Kemur sú meginregla fram í 6. gr. og 52. gr., sbr. 50. gr. þeirra laga, að vilji kaupandi í slíkum viðskiptum gera athugasemdir við verð eða magn hins selda þá beri honum að gera það tafarlaust, en missi ella rétt sinn til að hafa uppi mótbárur. Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir að áfrýjandi hafi hreyft andmælum við reikningsgerð stefnda á meðan á framkvæmd samnings þeirra stóð.  Gekk áfrýjandi til samninga við Rafmagnsveitur ríkisins um uppjör miðað við 521 rúmmetra af steypu, enda þótt þá hafi legið fyrir að stefndi teldi sig hafa afhent áfrýjanda 558,5 rúmmetra. Er ósannað að áfrýjandi hafi hreyft andmælum við afhent magn steypu fyrr en meira en átta mánuðum eftir að honum var gerður reikningur fyrir síðustu afhendingu hennar og hann gerði upp við Rafmagnsveitur ríkisins. Hefur hann með þessu tómlæti glatað rétti til að bera fyrir sig að hann hafi ekki tekið við því magni steypu, sem stefndi krefur hann um greiðslu fyrir. Verður samkvæmt framangreindu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skyldu áfrýjanda til að greiða stefnda kröfu hans með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Áfrýjandi, G.R. Verktakar ehf., greiði stefnda, Bás ehf., 947.570 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                          

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 18. desember 2000.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 23. nóvember sl., er höfðað af Bás ehf., kt. 611293-3059, Egilstanga 1, Siglufirði á hendur G.R. verktökum ehf., kt. 650398-3009, Móaflöt 6, Garðabæ, með stefnu birtri 7. mars sl.

Dómkröfur stefnanda.

Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert að greiða honum 947.570 krónur með dráttarvöxtum skv. 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. september 1999 til greiðsludags.  Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi. 

Dómkröfur stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.  Í báðum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II.

Málavextir.

Stefndi sem er verktakafyrirtæki tók að sér, að undangengnu útboði, að vinna ákveðið verk fyrir Rafmagnsveitur ríkisins við Skeiðfossvirkjun í Fljótum, Skagafirði.  Samkvæmt skilmálum útboðsins var gert ráð fyrir að verktakinn þyrfti að nota 521 rúmmetra af steypu við verk sitt.  Vegna þessa þáttar í verki sínu óskaði stefndi eftir tilboði frá stefnanda, sem rekur steypustöð á Siglufirði, í 530 rúmmetra af ákveðinni gerð af steypu.  Stefnandi gerði stefnda svohljóðandi tilboð:  ,, Tilboð í steypu. Bás ehf Kt: 611293-3059, Egilstanga 1, Siglufirði, gerir tilboði í verð á 530 m3 af C35 steypu til afhendingar í Skeiðsfossvirkjun:  Verð Kr. 15.700,- + vsk 3.847,- = 19.547,- pr m3, án þjálniefna.  Ofangreint verð miðast við að ekki komi til þungatakmarkanna á veginum Siglufjörður - Skeiðsfoss."  Þetta tilboð stefnanda samþykkti stefndi munnlega. 

Stefndi þurfti að fá steypuna afhenta í mörgum áföngum eftir því hvernig verki hans miðaði og af afhendingarseðlum má ráða að hann hafi fengið steypu afhenta 27 daga á tímabilinu frá 9. apríl til 10. ágúst 1999.  Þegar stefnda vantaði steypu hafði hann einfaldlega símasamband við stefnanda og bað um ákveðið magn.  Stefndi ók svo steypunni í steypubílum sínum frá Siglufirði að Skeiðfossi og afhenti steypuna þar.  Stefnandi útbjó afhendingarseðil vegna hverrar ferðar með steypu.  Á seðlunum koma m.a. fram upplýsingar um gerð steypunnar, magn, afhendingartíma, nafn bílstjóra o.fl.  Á  afhendingarseðlinum er reitur þar sem gert er ráð fyrir að kvittað sé fyrir móttöku.  Í málinu liggja frammi 117 móttökuseðlar og er samanlagt magn afhentrar steypu samkvæmt þeim 558,5 rúmmetrar.  Á nokkurn fjölda afhendingarseðla hefur ekki verið kvittað fyrir móttöku og stefndi kannast ekki við móttökukvittanir á nokkrum til viðbótar.  Steypan var afhent við stíflumannvirkið sjálft og var hún hífð allt að 40 metra niður í gil þar sem hún var notuð.  Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að á bakkanum hafi oft ekki verið menn frá stefnda til að kvitta fyrir móttöku og það skýri hvers vegna ekki hafi verið kvittað.  Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi lagt fyrir sína starfsmenn að kvitta alltaf fyrir móttöku á steypu.

Vegna viðskiptanna gaf stefnandi út reikninga.  Í fyrstu mánaðarlega en síðar, að beiðni stefnda, hálfsmánaðarlega.  Stefndi segist hafa beðið um að reikningar yrðu gefnir úr hálfsmánaðarlega og að fjárhæð þeirra yrði í samræmi við þær fjárhæðir sem hann fengi greiddar frá verkkaupa hverju sinni en stefnandi segir reikningana hafa átt að vera í samræmi við afhent magn steypu og þannig hafi þeir verið.  Stefndi greiddi reikninga stefnanda að því að best verður séð án athugasemda allt þar til honum barst síðasti reikningurinn. 

Fyrir liggur að við uppgjör stefnda við Rafmagnsveitur ríkisins var lagt til grundvallar að 521 rúmmetrar af steypu hafi verið notaðir til verksins.  Vitnið Þorsteinn Jóhannesson var eftirlistmaður af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins við verkið.  Í skjali sem vitnið gerði kemur fram að stefnanda hafi verið greitt fyrir 521 rúmmetra af steypu en samkvæmt nótum frá stefnanda komi fram að afhent magn hafi verið 558,5 rúmmetrar. 

Fyrir dóminum bar Magnús Jónasson, framkvæmdastjóri stefnanda að stefndi hafi óskað eftir tilboði í verð á steypu og þá hafi hann sent þeim tilboðið sem að framan er getið.  Hann kveðst hafa útbúið reikninga í samræmi við afhendingarnótur en afrit af þeim hafi eftirlitsmaður Rafmagnsveitna óskað eftir tilboði í verð á steypu og þá hafi hann sent þeim tilboðið sem að framan er getið.  Hann kveðst hafa útbúið reikninga í samræmi við afhendingarnótur en afrit ríkisins, Þorsteinn Jóhannesson, einnig fengið.  Mætti kveður einstaka reikninga vera með röngum dagsetningum vegna mistaka við tölvuvinnslu en sjá má af afhendingarseðlum fyrir hvaða tíma verið er verið að innheimta.  Mætti segir að stefndi hafi ekki meðan á afhendingum stóð gert athugasemdir um magn.

Að sögn stefnanda greiddi stefndi alla reikninga á réttum tíma en þegar greiðsla hafi ekki borist fyrir þann síðasta hafi hann hringt í stefnda sem þá hafi sagt að greiðsla bærist fljótlega.  Stefndi hafi síðar gert athugasemdir við magn þjálniefna en sú athugasemd hafi að hluta til verið byggð á misskilningi sem hafi verið leiðréttur en stefndi hafi tekið sér frest til að skoða málið.  Síðar hafi stefndi borið fyrir sig að eðlilegt væri að stefnandi tæki þátt í þeirri rýrnun sem orðið hafi á steypunni en aldrei hafi verið neinn vafi um afhent magn fyrr en með greinargerð stefnda í málinu.  Stefndi hafi viljað ljúka málinu með því að greiða 400.000 krónur en það hafi stefnandi ekki samþykkt.  Stefnandi kveðst ekki kannast við að samið hafi verið um að stefndi fengi einungis afhenta og greiddi einungis fyrir 530 rúmmetra.  Slíkt hafi ekki verið gerlegt enda ekki ljóst í upphafi hversu mikið magn steypu stefndi þyrfti.

Sveinn Ástvaldsson, verkstjóri í steypustöð stefnanda gaf skýrslu fyrir dóminum sem aðili.  Hann bar að samskipti aðila varðandi afhendingu hafi verið með þeim hætti að stefndi áætlaði hversu mikið magn hann þyrfti í hvert sinn.  Hann ber að á þessum tíma hafi verið unnt að afhenda 5 rúmmetra í hverri ferð.  Ef stefndi vildi fá u.þ.b. 18 rúmmetra hafi hann fyrst fengið þrjá steypubíla með 5 rúmmetrum hvern og svo hafi þeir séð til með hversu mikið þyrfti að vera í síðasta bílnum.  Hann kveðst aldrei hafa orðið var við að rengt væri hversu mikið var í hverjum bíl.  Hins vegar hafi hann vitað af ágreiningi milli stefnda og Rafmagnsveitna ríkisins um mælingu á steypumagni.  Þá kveðst hann vita til þess að stefndu hafi vigtað, með kranavigt, hversu mikið var í hverjum bíl og aldrei hafi komið fram athugasemdir raunar hafi Rúnar Magnússon sagt að allir bílarnir hafi verið réttir.  Sveinn segir að vigtað hafi verið í bílana með vogum og segir að þær hafi margsinnis verið skoðaðar af Löggildingarstofu án athugasemda.  Mætti segist ekki muna hvort bílarnir hafi komið með einhverja slatta til baka, en slíkt sé almennt séð ekki óalgengt en hafi slattar komið til baka hafi þeim verið hent á Siglufirði.  Þá upplýsir Sveinn að þrír bílar hafi verið vigtaðir á hafnarvoginni á Siglufirði og í þeim bílum hafi reynst rúmlega það magn sem átti að vera. 

Af hálfu stefnda gaf Rúnar Magnús Magnússon eigandi félagsins skýrslu fyrir dóminum.  Hann bar að við skoðun hafi fljótlega um sumarið 1999 komið í ljós að ekki bar saman magni samkvæmt afhendingaseðlum og því sem Rafmagnsveitur ríkisins mældu að notað hafi verið.  Af þessum sökum hafi verkfræðingar verið fengnir til að mæla magn steypu.  Það hafi gert eftirlistmaður Rafmagnsveitna ríkisins og verkfræðingur tilnefndur af hálfu stefnda og mælingar þeirra hafi leitt í ljós að 521 rúmmetrar hafi farið í mótin.  Þegar þessi niðurstaða lá fyrir hafi hann gert athugasemdir við stefnanda.  Stefndi kveðst ekki hafa getað rengt mælingar Þorsteins Jóhannessonar og þess verkfræðings sem annaðist mælinguna af hálfu stefnda.

Rúnar upplýsir að hann hafi óskað eftir því við stefnanda að reikningar frá honum yrðu í samræmi við það magn sem samþykkt var á verkfundum með Rafmagnsveitum ríkisins og hann fékk greitt fyrir.  Reikningarnir hafi komið hálfsmánaðarlega en sjaldnast í samræmi við óskir hans.  Hann hafi litið svo á að steypukaupin yrðu gerð upp í lokin.  Hann kveðst almennt við kaup á steypu einungis greiða fyrir þá steypu sem hann fær greitt fyrir og þannig hafi átt að gera í þessu máli.  Í þessu tilfelli hafi ekki verið rætt um magn neitt nánar en það sem fram kemur í tilboðinu en hafi hann ætlað Rafmagnsveitum ríkisins að greiða fyrir meira magn hefði hann þurft að semja um það sérstaklega. 

Varðandi vigtun með krana segir hann að slík vigt sé ónákvæm og ekki nothæf fyrir dómi.  Hann ber að á verkfundum með Rafmagnsveitum ríkisins hafi hann þurft að leggja fram mælingar á því hversu marga rúmmetra hann hafi steypt en afhendingarseðlar hafi ekki verið teknir gildir og því hafi þeir þurft að leggja fram mælingar en þeim hafi ekki borið saman við mælingar Rafmagnsveitna ríkisins en þeirra reikningar hafi stuðst við afhent magn.

Rúnar ber að hann hafi lagt fyrir sína starfsmenn að kvitta fyrir móttöku á steypunni en kranamaður hafi alltaf verið nálægur.  Hann kveðst hafa fengið afhendingarseðla með reikningunum en ekki gert athugasemd við stefnanda vegna þess að ekki var kvittað á suma af seðlunum.  Rúnar kveðst ekki hafa pantað meira en 530 rúmmetra af steypu af stefnanda.  Hann ber og að þeir hafi aldrei sent steypubíl til baka með steypu því þegar afgangur var hafi honum verið komið fyrir á staðnum eins og fram komi í skjali sem Þorsteinn Jóhannesson hefur gert.

Vitnið Þorsteinn Jóhannesson sem var eftirlistmaður fyrir Rafmagnsveitur ríkisins með verki stefnda staðfestir skjal sem það gerði og fyrir liggur í málinu.  Í skjalinu kemur m.a. fram að hann og Hallgrímur Hallgrímsson, verkfræðingur hafi með ákveðnum hætti mælt það magn sem notað var af steypu.  Mælingarnar hafi verið tímafrekar og á stundum erfitt að gera þær.  Við mælingar þeirra og útreikninga hafi þeir haft til hliðsjónar afhent magn en ekki hafi verið gert ráð fyrir neinni rýrnun.  Vitnið segir að mismunur af mældu og afhentu magni hafi þótt frekar mikill en þeir hafi nefnt nokkur atriði sem skýrt geti mismuninn en oft sé rætt um að 5% rýrnun sé eðlileg.  Vitnið segir að alls ekki sé unnt að fullyrða að mælingar hans og Hallgríms séu 100% réttar og eðlilega sé í henni einhver skekkja.  Samkomulag hafi hins vegar náðst um að miða við 521 rúmmetra og sú tala hafi verið samþykkt af stefnda.  Vitnið segist vita til þess að steypubílar voru vigtaðir á hafnarvog en það hafi ekki verið gert að tilstuðlan Rafmagnsveitna ríkisins en hann viti að niðurstaða úr þeirri vigtun var að heldur meira magn steypu var í bílunum en átti að vera. 

Vitnið segist muna eftir því að stefndi hafi á verkfundum gert athugasemdir við mælingar og hann talið að þær væru ekki réttar en hann hafi ekki gert neinar formlegar kröfur vegna þessa.  Við gerð áfangareikninga hafi verið stuðst við afhendingarseðla en nákvæm mæling hafi farið fram í lokin á verkinu.  Einnig getur vitnið þess að steypt magn hafi komið fram í dagskýrslum stefnda, skýrslur sem verktakinn gerir sjálfur varðandi þau verk sem hann vinnur á hverjum degi, og hann hafi síðan sjálfur stefnt það af. 

Vitnið segir að talsvert magn steypu geti farið til spillis, sérstaklega þegar erfitt er að koma steypunni í mótin.  Í þessu tilfelli hafi t.d. þurft að flytja hluta steypunnar í hjólbörum.  Svignun móta geti skipt nokkru og sama megi segja ef tognar á teinum.  Óhjákvæmileg verði eitthvað eftir í steypubílunum.  Síðan geti verið að hluta mismunarins megi skýra með ónákvæmni í mælingu í bíla og uppsetningu móta og ónákvæmni í mælingu á broti og að sementsefja geti farið út á milli mótanna.  Vitnið segir að verkkaupinn, Rafmagnsveitur ríkisins hafi ekki tekið ekki á sig neina rýrnun heldur einungis greitt fyrir 521 rúmmetra af steypu.

IV.

Niðurstaða.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að mál þetta snúist eingöngu um 45 rúmmetra af steypu en það sé það magn sem afhent var þann 10. ágúst 1999 og þessa steypu hafi stefndi þegar nýtt.  Aðra reikninga vegna viðskipta aðilanna hafi stefndi þegar greitt að fullu.  Stefndi byggir hins vegar á því að þegar steypuvinnu væri lokið hafi átt að gera upp viðskipti aðila í heild.

Telja verður að báðum aðilum hafi verið ljóst í upphafi að til þess gæti komið að ekki yrðu afhentir nákvæmlega 530 rúmmetrar af steypu heldur gæti magnið orðið minn eða meira allt eftir þörfum stefnda og verður því ekki á því byggt að stefndi hafi ekki átt að greiða fyrir meira magn hafi það verið afhent eða minna magn ef því var að skipta. 

Líta verður svo á að um ein viðskipti aðila hafi verið að ræða þrátt fyrir að steypan hafi verið afhent smátt og smátt.  Verður því fallist á með stefnda að honum hafi verið rétt að ætla að í lok verksins yrðu viðskipti þeirra gerð upp í heild þrátt fyrir að hann hafi greitt reikninga stefnanda hvern fyrir sig eftir því sem þeir bárust. Viðskipti aðila falla undir lög um lausafjárkaup og teljast verslunarkaup í skilningi þeirra laga en þrátt fyrir það verður að telja að stefndi hafi, eins og atvikum máls þessa er háttað, gert athugasemdir sínar án ástæðulauss dráttar.

Verður krafa stefnanda, byggð á því að skuld stefnda sé eingöngu vegna þeirrar steypu sem tilgreind er á síðasta reikningi stefnanda til stefnda og að stefndi hafi sannanlega ráðstafað þeirri steypu og að hann hafi ekki kvartað án ástæðulauss dráttar, sbr. 50. og 52. gr. laga um lausafjárkaup, ekki tekin til greina. 

Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi ekki afhent það magn sem greinir á reikningum hans.  Stefndi styður sýknukröfu sína með vísan til þess magns sem hann fékk greitt fyrir hjá Rafmagnsveitum ríkisins samtals 521 rúmmetri enda liggi fyrir mælingar sem sýni að það magn var notað af stefnda og þær verði ekki rengdar.  Auk þess kveðst hann ekki rengja að 7,5 rúmmetrum hafi verið ráðstafað með öðrum hætti eins og fram kemur í skýrslu vitnisins Þorsteins Jóhannessonar. 

Ekki verður annað ætlað en að nefndar mælingar séu réttar.  Hins vegar hefur vitnið Þorsteinn Jóhannesson lýst því að erfitt hafi verið að framkvæma mælingarnar og því sé hugsanlega skekkja í þeim.  Þá verður að líta til framburðar vitnisins varðandi það hvernig skýra megi mismun á afhentri steypu og því magni sem mælingar segja til um að hafi farið í steypumótin og þess að vitnið lýsti því að ekki væri óeðlilegt að 5% rýrnun yrði á steypunni vegna atvika sem vitnið lýsti.  Ætla verður að útilokað hafi verið fyrir stefnda að komast hjá því að eitthvert magn steypu færi til spillis eins og aðstæðum var háttað í þetta sinn.  Stefndi hefur borið að afhent steypa hafi verið vigtuð með kranavigt en hún sé ekki nákvæm og því sé ekki unnt að byggja á þeirri vigtun.  Þar sem þessi vigtun fór fram er útilokað að stefnandi krefji stefnda um greiðslu á steypu úr steypubílum sem ekki komu á staðinn.  Ekki er unnt að leggja afhendingarseðla til grundvallar í máli þessu en ekki upplýstist við meðferð málsins hvers vegna stefndi kvittaði ekki fyrir móttöku á þá alla en ljóst er að hann gerði aldrei athugasemd við stefnanda varðandi þetta. 

Eins og að framan er rakið óskaði stefndi eftir ákveðnu magni af steypu til afhendingar hverju sinni.  Hann hefur ekki sýnt fram á:1.0cm;line-height: 150%'>Eins og að framan er rakið óskaði stefndi eftir ákveðnu magni af steypu til afhendingar hverju sinni.  Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að aðilar hafi samið svo að stefnandi fengi einungis greitt fyrir það magn sem stefndi fékk greitt fyrir hjá Rafmagnsveitum ríkisins eða að það sé venja í viðskiptum með steypu að kaupandi greiði einungis fyrir það magn sem kemur honum að notum en seljandi steypunnar taki á sig rýrnun. 

Stefndi bar fyrir sig við munnlegan flutning málsins að vigt sú sem stefnandi notar við að vigta steypu í bíla á starfsstöð sinni hafi ekki verið löggilt og sætt eftirliti í samræmi við lög nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu.  Af þessum sökum sé ekki hægt að leggja til grundvallar að mælingar stefnanda séu réttar.  Af hálfu stefnanda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.  Í þinghaldi þann 27. júní sl. skoraði stefndi á stefnanda að upplýsa hvenær mælitæki í steypustöðinni sem mælir afhent steypumagn hafi verið skoðuð af Löggildingarstofunni.  Þessari áskorun svaraði stefnandi með bókun í þinghaldi 12. september sl.  Þar upplýsti hann að vigtin hafi verið löggilt af Löggildingarstofu í júní 1996.  Með því að stefndi hafði í málflutningi sínum málsástæðu sem ekki var að finna í greinargerð hans verður að gera þá kröfu til hans, hyggist hann byggja á málsástæðunni, að hún sé glögg og skýr þ.a. stefnandi hefði tök á að afla gagna og verjast málsástæðunni með eðlilegum hætti.  Hafi stefndi ætlast til þess að fá upplýsingar um eftirlit með voginni frá því að hún var löggilt bar honum að koma því á framfæri án tafar eftir að stefnandi varð við áskorun hans.  Að þessu virtu telst málsástæða stefnda, þess efnis að vogin hafi ekki sætt eftirliti eins og lög og reglugerðir segja til um, of seint fram komin og verður hún því ekki tekin til úrlausnar hér. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður krafa stefnanda tekin til greina að þó þannig, þar sem ekki er gjalddagi á reikningi stefnanda, að krafan beri dráttarvexti frá því að mánuður er liðinn frá útgáfu reiknings.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ.

Stefndi, GR-verktakar ehf., greiði stefnanda Bás ehf. 947.570 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. október 1999 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 250. 000 krónur í málskostnað.