Hæstiréttur íslands

Mál nr. 661/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 661/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2014 sem barst réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. október 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og til þrautavara að varnaraðila verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2014.

         Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr.  laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. október nk., kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

         Kærði hefur mótmælt kröfu lögreglustjóra.

I

         Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að að kvöldi föstudagsins 3. október sl., kl. 19:44, hafi lögreglan í [...] handtekið Y með mikið magn fíkniefna í fórum sínum. Nokkru áður, eða um kl. 18:03 þann dag, hafi verið hringt í Y, þar sem hann hafi verið staddur á brautarstöðinni í [...], úr símanúmerinu [...], og hann spurður hvort allt væri í lagi. Y hafi svarað því játandi og símtalinu þá verið slitið.

                Hinn 4. október sl. hafi verið hringt úr símanúmerinu [...] í síma Z, sem þá hafi verið stödd í [...], og hún upplýst um að ekki gæti orðið af innflutningnum þar sem ekki næðist í aðilann með efnin. Af símtalinu megi ráða að Z hafi átt að flytja fíkniefni til landsins.

                Við komu til landsins að kvöldi sunnudagsins 5. október hafi Z verið handtekin, grunuð um ofangreint fíkniefnamisferli. Hún hafi í framhaldinu verið úrskurðuð í gæsluvarðhald.

                Í gær, 6. október sl., hafi kærði verið handtekinn grunaður um aðild að málinu. Við handtökuna hafi hann verið með símann [...] í vörslum sínum. Við skýrslutöku í gærkvöldi hafi kærði viðurkennt aðild sína að málinu. Hann hafi sagt hlutverk sitt hafa verið að finna burðardýr til að koma með um fjögur kíló af amfetamíni til landsins. Kærði hafi í kjölfarið fengið Z til verksins. Maður að nafni Þ hafi látið kærða fá reiðufé og símakort sem hann hafi síðan afhent Z. Hlutverk kærða hafi verið að leiðbeina Z um hvert hún ætti að sækja efnin. Hann hafi enn fremur átt að sækja fíkniefnin til hennar þegar hún væri komin til landsins og koma þeim til Þ.

II

                Lögreglustjóri segir kærða undir rökstuddum grun um að hafa ætlað að taka þátt í að flytja hingað til lands mikið magn amfetamíns. Rannsóknin málsins sé á frumstigi. Lögregla telji ljóst að fleiri aðilar tengist málinu og þurfi að hafa uppi á þeim, þ.m.t. fyrrnefndum Þ, og taka af þeim skýrslur. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við samverkamenn og hafa áhrif á framburð þeirra eða koma undan munum. Rannsókn málsins, sem nú sé unnin í samvinnu við [...] lögregluyfirvöld, sé á viðkvæmu stigi og því afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina.

                Sakarefnið kveður lögreglustjóri varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði varði allt að tólf ára fangelsi.

Samkvæmt öllu framansögðu, og að virtum gögnum málsins, telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. október nk., kl. 16:00, og til að sæta einangrun samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

III

Með vísan alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eftir atvikum sbr. 20. og 22. gr. sömu laga, en brot gegn 173. gr. a. getur varðað allt að tólf ára fangelsi.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Þrátt fyrir að kærði hafi sýnt nokkurn samstarfsvilja við rannsóknina verður að fallast á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsóknina, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þykja því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. október nk., kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.