Hæstiréttur íslands
Mál nr. 648/2015
Lykilorð
- Ábyrgð
- Veðréttur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. september 2015. Þau krefjast þess að fellt verði úr gildi veð sem þau veittu í fasteign sinni að Tungubakka 12 í Reykjavík með undirritun á tryggingarbréfi útgefnu af Birni Blöndal Björnssyni 13. apríl 2007 og að stefnda verði gert að aflýsa því. Þá krefjast þau aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar og við munnlegan flutning málsins hafa áfrýjendur teflt fram þeirri málsástæðu að lántakinn Björn Blöndal Björnsson hefði ekki staðist eða hefði ekki átt að standast greiðslumat á þeim tíma sem fyrrnefnt tryggingarbréf var gefið út. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða hafi verið höfð uppi undir rekstri málsins í héraði. Fær hún því ekki komist að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Áfrýjendur reisa kröfur sínar á hendur stefnda meðal annars á því að greiðslugeta lántakanda hafi aldrei verið könnuð. Í málinu liggur fyrir skjal með yfirskriftinni „Niðurstaða greiðslumats“ sem stafaði frá lánveitandanum og áfrýjendur rituðu undir. Í skjalinu sagði að matið benti til þess að lántakandi gæti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu. Í skjalinu kom fram að lánveitandi hefði metið getu lántakanda til að standa við fjárskuldbindingar sínar og að greiðslumatið byggði á gögnum sem lánveitandi hefði aflað eða lántakandi látið í té. Kom þar og fram að niðurstaða greiðslumats byggði meðal annars á upplýsingum um framfærslukostnað og önnur föst útgjöld, meðaltekjur heimila og greiðslubyrði lána. Er því ljóst að til þess að unnt hafi verið að meta greiðslugetu lántakandans þurfti atbeina hans til öflunar gagna.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing lántakandans um að hann viti ekki til þess að greiðslumat hafi verið gert á sér vegna umrædds láns. Hann hafi ekki fengið um það neinar upplýsingar og ekki verið beðinn um nein gögn. Framburður lántakandans fyrir dómi var ekki skýr um þetta. Þannig sagði hann fyrst að hann hefði haldið að umrætt skjal um niðurstöðu greiðslumats væri hið svokallaða greiðslumat og að í því hefði falist að hann stæðist einhvers konar greiðslumat hjá sínum banka. Þegar hann var spurður um hvort hann hefði vitað hvað greiðslumat væri á þeim tíma sem hér um ræðir sagði hann: „Svona eftir á að hyggja nei.“ Síðan kom fram hjá honum að hann hefði talið að í þessu skjali fælist að hann væri ekki á vanskilaskrá og að ekkert greiðslumat hafi verið gert.
Miðað við orðalag umrædds skjals verður að leggja til grundvallar að lánveitandinn hafi metið greiðslugetu lántakandans meðal annars með tilliti til gagna frá honum þrátt fyrir fullyrðingar hans um hið gagnstæða. Þegar litið er til þess að engin skylda hvíldi á lánveitanda að geyma undirgögn til stuðnings greiðslumati þannig að aðgengileg væru áfrýjendum rúmum sjö árum síðar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. apríl 2012 í máli nr. 141/2012, hafa þau ekki sýnt fram á að greiðslumat hafi ekki farið fram í samræmi við það sem greinir í fyrrnefndu skjali um niðurstöðu greiðslumats.
Með framangreindum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Einar Sigurjón Bjarnason og Elín Þóra Sverrisdóttir, greiði óskipt stefnda, Arion banka hf., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið 16. júní sl., var höfðað 25. nóvember 2014.
Stefnendur eru Einar Sigurjón Bjarnason og Elín Þóra Sverrisdóttir, Tungubakka 12 í Reykjavík.
Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess að felld verði úr gildi veðsetning sem þau veittu í fasteign sinni að Tungubakka 12 í Reykjavík, fastanúmer 204-6854, með undirritun sinni á tryggingarbréf nr. 1150-63-9751, útgefið af Birni Blöndal Björnssyni, dagsettu 13. apríl 2007. Einnig er þess krafist að stefnda verði gert að aflýsa tryggingarbréfi nr. 1150-63-9751 af fasteigninni Tungubakka 12 í Reykjavík, fastanúmer 204-6854. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar.
I
Þann 13. apríl 2007 óskaði Björn Blöndal Björnsson eftir láni í erlendri mynt hjá SPRON, að viðmiðunarfjárhæð 5.660.000 krónur með veði í fasteign stefnenda Tungubakka 12, Reykjavík, fastanúmer 204-6854. Þann sama dag gaf hann út tryggingarbréf nr. 1150-63-9751, nú nr. 385-63-9751, til SPRON að fjárhæð 124.600 svissneskir frankar til tryggingar á öllum skuldum sínum hjá SPRON, tryggt með 4. veðrétti í Tungubakka 12, Reykjavík, fastanúmer 204-6854, sem er þinglýst eign stefnenda. Stefnendur samþykktu veðsetninguna með undirritun sinni á tryggingarbréfið. Tryggingarbréfið var framselt til stefnda 31. desember 2013.
Þann 16. apríl 2007 undirrituðu stefnendur blað með yfirskriftina Niðurstaða greiðslumats. Málsaðila greinir á um það hvort greiðslumat hafi í raun verið framkvæmt á lántakanum, Birni.
Þann 23. apríl 2007 gaf Björn út skuldabréf nr. 398-35-10244, nú nr. 351-35-18938, til SPRON í fjárhæðunum 12.937,14 evrur, 4.182.524 japönsk jen og 42.492,49 svissneskir frankar. Stefnendur undirrituðu skuldabréfið sem veðsalar. Skuldabréfið var keypt þann 24. apríl 2007 og svaraði lánsfjárhæðin til 5.571.250 króna.
Óumdeilt er að stefndi hefur tekið við öllum réttindum og skyldum SPRON vegna framangreindra viðskipta.
II
Stefnendur byggja á því að stefndi hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi brotið gegn reglum Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dags. 1. nóvember 2001, sem hafi leyst af hólmi eldra samkomulag sama efnis frá árinu 1998. Þá hafi stefndi einnig gerst brotlegur við ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.
Stefndi hafi brotið gegn 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins þar sem segi að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina. Stefnendur hafi skrifað undir tryggingarbréfið 13. apríl 2007 en ekki fengið að sjá niðurstöðu greiðslumats fyrr en þremur dögum síðar, eða 16. apríl 2007 er lántakinn, Björn Blöndal Björnsson, hafi komið á heimili þeirra og óskað undirskriftar þeirra í annað sinn að fyrirmælum starfsmanns SPRON.
Regla 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins sé skýr um það að greiðslumatið skuli liggja fyrir áður en ábyrgðarmaður gengst undir ábyrgð, enda væri harla tilgangslítið að sýna ábyrgðarmanni greiðslumat eftir að hann hafi gengist undir ábyrgð, nema honum væri þá gert kleift að falla frá ábyrgðinni. Þar sem ekki hafi verið búið að kanna greiðslugetu Björns þegar stefnendur hafi gengist í ábyrgð hafi SPRON verið rétt að bjóða stefnendum að falla frá ábyrgðinni þegar greiðslumatið hafi legið fyrir. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi verið brotið gegn samkomulaginu. Það skipti ekki máli hvort greiðslumatið sé jákvætt eða neikvætt, enda sé um fortakslausa skyldu að ræða. Með framangreindri háttsemi hafi stefndi ekki aðeins brotið gegn ákvæðum samkomulagsins heldur jafnframt gegn ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003.
Stefndi hafi látið lántaka sjálfan sjá um að fara á fund stefnenda og afla undirskriftar þeirra. Stefndi hafi þar af leiðandi ekki verið í neinum samskiptum við stefnendur og hafi aldrei verið það, hvorki fyrr né síðar. Stefndi hafi því ekki uppfyllt skyldur sínar til þess að leggja dóm á það hvort stefnendur, sem ábyrgðarmenn, væru yfirhöfuð færir um að skilja skuldbindinguna sem þeir hafi gengist undir. Stefndi hafi heldur ekki látið lántaka í té upplýsingabækling eða önnur gögn til þess að koma í hendur stefnenda. Stefndi hafi því virt að vettugi upplýsingaskyldu sína gagnvart stefnendum. Í því felist brot gegn 4. gr. samkomulagsins, 19. gr. laga nr. 161/2002 sem og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003.
Þá virðist sem SPRON hafi ekki kannað greiðslugetu lántakans, Björns. Björn haldi því staðfastlega fram að það hafi ekki verið gert og það eina sem stefnendur hafi fengið í hendur hafi verið blað sem beri yfirskriftina Niðurstaða greiðslumats. Stefnendur hafi óskað upplýsinga til að staðreyna greiðslumatið, en fengið þau svör að stefndi hefði ekki undir höndum gögn tengd greiðslumatinu. Engar tölulegar upplýsingar sé að finna á blaðinu Niðurstaða greiðslumats eða nokkuð annað sem staðfesti að raunverulega hafi verið gert greiðslumat á lántaka. Þar segi einungis að niðurstaða greiðslumats bendi til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu. Lántaki hafi ekki fengið neinar upplýsingar um að gera ætti greiðslumat á honum eða að slíkt lægi fyrir. Hann hafi ekki verið beðinn um nein gögn eða spurður spurninga varðandi fjárhagsstöðu sína eða skuldastöðu. Það sé hæpið að SPRON hafi raunverulega látið fara fram greiðslumat á lántaka án aðkomu hans sjálfs og erfitt að sjá hvernig slíkt sé almennt mögulegt. Þar sem ekki hafi verið fullnægt þeirri grundvallarskyldu gagnvart stefnendum að láta fara fram greiðslumat á lántaka sé um að ræða brot gegn 3. gr. samkomulagsins, 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003.
Þá hafi stefnendur aldrei fengið tilkynningar um vanskil lántaka eða yfirlit yfir stöðuna um áramót.
Með vísan til framangreindra brota á reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003 telji stefnendur að veðsetning sú sem þau hafi veitt með undirritun sinni á tryggingabréf nr. 1150-63-9751 sé ógild. Þau telji að hvert og eitt sjálfstætt brot eigi eitt og sér að leiða til ógildingar sem og séu þau virt saman.
Ógildingarkrafa stefnenda sé í fyrsta lagi byggð á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi geti, að öllu framangreindu virtu, ekki byggt rétt á veðsetningunni í fasteign stefnenda þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig.
Ógildingarkrafan sé einnig reist á 33. gr. laga nr. 7/1936 þar sem það sé óheiðarlegt af stefnda að byggja á veðsetningunni vegna þeirra atvika sem hafi verið fyrir hendi þegar veðsetningin hafi komið til vitundar hans, um að ekki lægi fyrir greiðslumat, en stefnda hafi verið kunnugt um það.
Krafan sé jafnframt reist á 2. mgr. 30. gr. laganna. Þegar stefndi hafi tekið við tryggingarbréfinu hafi hann sviksamlega skýrt rangt frá atvikum sem ætla mætti að skiptu máli um löggerninginn eða hafi sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum. Þau sviksamlegu atvik sem um sé að ræða séu þau að stefndi hafi tekið við löggerningnum þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir greiðslumat á lántaka, en stefndi hafi mátt vita að það hefði áhrif á það hvort stefnendur skrifuðu undir gerninginn.
Þessu til viðbótar sé byggt á 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936 þar sem svik hafi falist í því að stefnendur hafi verið blekkt um að greiðslumat hafi farið fram þegar slíkt hafi ekki átt sér stað.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Stefnendur hafi samþykkt að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum Björns Blöndal Björnssonar við SPRON með undirritun sinni á tryggingarbréf nr. 385-63-9751. Á bréfinu komi fram að þau lýsi því yfir að þau hafi kynnt sér efni tryggingarbréfsins og geri sér grein fyrir í hverju ábyrgð þeirra sem veðleyfisgjafa sé fólgin og telji hana samrýmast greiðslugetu þeirra. Þá hafi þau kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og framangreint samkomulag um notkun ábyrgða einstaklinga. Þau hafi því staðfest með undirritun sinni að þau hefðu kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir áður en þau hafi veðsett fasteign sína. Í bæklingnum sé að finna upplýsingar til ábyrgðarmanna og þeirra sem leggi til veðtryggingar. Þar segi m.a. að veðleyfisgjafar skuli kynna sér vandlega fjárhagslega stöðu skuldara áður en gengist sé í ábyrgð. Þá sé þar greint frá samkomulaginu frá 1. nóvember 2001, en í 4. gr. þess felist í senn að greiðslumat skyldi gert á greiðanda og að ábyrgðarmanni gæfist færi á að kynna sér matið. Með því að stefnendur hafi staðfest að þau hefðu kynnt sér upplýsingabækling SPRON hafi þeim átt að vera kunnugt að greiðslumat hefði verið gert.
Því sé mótmælt að greiðslugeta Björns hafi aldrei verið könnuð. Á skjalinu Niðurstaða greiðslumats komi fram að greiðslugeta hafi verið metin og að niðurstaða þess hafi bent til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Þá segi m.a. undir liðnum greiðslumat að það sé byggt á gögnum sem sparisjóðurinn hafi aflað sér eða lántakandi hafi látið í té. Sparisjóðurinn beri ekki ábyrgð á greiðslumatinu hafi lántakandi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn. Jákvæð niðurstaða greiðslumats feli ekki í sér tryggingu fyrir því að skuldari efni skyldur sínar. Stefnendur hafi undirritað þetta skjal án athugasemda. Stefndi mótmæli því að sú skylda hvíli á honum eða SPRON að geyma undirgögn til stuðnings matinu svo þau megi vera aðgengileg stefnendum nú tæpum átta árum síðar. Engin lög eða reglur hafi verið í gildi á þeim tíma sem tryggingarbréfið hafi verið gefið út um framkvæmd greiðslumata. Stefndi byggi á því að SPRON hafi framkvæmt greiðslumatið í samræmi við venjur á þeim tíma. Þá telji stefndi að yfirlýsing aðalskuldarans Björns, hafi ekki sönnunargildi í málinu, enda sé um einhliða yfirlýsingu aðalskuldara að ræða.
Greiðslumat hafi verið framkvæmt fyrir útgáfu tryggingarbréfsins 13. apríl 2007 og niðurstaða þess hafi verið jákvæð. Þótt undirritun greiðslumatsins hafi farið fram 16. apríl 2007 þýði það ekki að greiðslumatið hafi verið framkvæmt þann dag, heldur einungis að það hafi verið undirritað þann dag. Þannig hafi ákvæði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins, um að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, verið fullnægt. Engin skylda hafi hvílt á SPRON til að afla undirritunar veðsala á niðurstöður jákvæðs greiðslumats áður en fasteignin hafi verið veðsett. Það hafi þó verið gert og stefnendur hafi þar aftur staðfest að hafa fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð. Skjalið hafi verið undirritað næsta bankadag eftir útgáfu tryggingarbréfsins, mánudaginn 16. apríl 2007. SPRON hafi því gengið lengra en ákvæði samkomulagsins geri ráð fyrir. Ef stefnendur hefðu haft áhuga á að kynna sér betur greiðslugetu og fjárhagsstöðu skuldara, áður en þau veðsettu fasteign sína, hefðu þau átt þess kost. Það hafi þau ekki gert og verði að bera hallann af því. Þá bendi stefndi á að jafnvel þótt tryggingarbréfið hafi verið gefið út af Birni 13. apríl 2007 sé ekki þar með sagt að stefnendur hafi undirritað það sama dag. Stefndi byggi á því að stefnendur hafi undirritað tryggingarbréfið mánudaginn 16. apríl 2007, sama dag og þau hafi undirritað niðurstöður greiðslumatsins, enda hafi bréfið ekki verið sent til þinglýsingar fyrr en 18. apríl 2007.
Þá byggi stefndi á því að stefnendum hafi í raun verið kynntar niðurstöður greiðslumatsins áður en til ábyrgðarskuldar þeirra hafi stofnast. Í þessu sambandi verði að líta á heildarmyndina að baki veitingu veðleyfis stefnenda. Tryggingarbréfið hafi verið gefið út 13. apríl 2007. Skuldabréf nr. 351-35-18938, sem hafi verið ástæða útgáfu tryggingarbréfsins, hafi hins vegar verið gefið út 23. sama mánaðar og keypt þann 24. Þannig hafi skuldin samkvæmt skuldabréfinu ekki stofnast fyrr en 24. apríl 2007, eða átta dögum eftir undirritun niðurstöðu greiðslumatsins. Stefnendum hafi því verið kynnt niðurstaða greiðslumats áður en skuldabréfið hafi verið greitt út. Þau hafi því verið að fullu upplýst um greiðslugetu Björns áður en skuldin samkvæmt skuldabréfinu hafi stofnast og þau hafi skrifað undir sama skuldabréf sem veðsalar samkvæmt tryggingarbréfinu. Markmið samkomulagsins frá 1. nóvember 2001 hafi verið að tryggja að ábyrgðarmenn og veðsalar væru upplýstir um rétt sinn og gætu kynnt sér greiðslumat á lántökum áður en til ábyrgðarskuldbindingar þeirra stofnaðist. Þar sem stefnendum hafi verið kynntar niðurstöður greiðslumats áður en til skuldarinnar hafi verið stofnað sé ekki óheiðarlegt, ósanngjarnt eða sviksamlegt að byggja rétt sinn á tryggingarbréfinu.
Þá telji stefndi að stefnendur hefðu allt að einu samþykkt veðsetninguna þrátt fyrir að þeim hefðu verið kynntar niðurstöður greiðslumatsins við undirritun tryggingarbréfsins. Þessu til stuðnings vísi stefndi til þessi að stefnendur hafi undirritað skuldabréf nr. 351-35-18938, sem veðsalar samkvæmt tryggingarbréfinu, nokkrum dögum eftir að þeim hafi verið kynntar niðurstöður greiðslumatsins. Bendi það til þess að niðurstaða greiðslumatsins hafi verið fullnægjandi fyrir þau og ekki haft áhrif á frekari lánveitingar til Björns. Stefnendur hafi ekki óskað eftir frekari útskýringum eða gögnum að baki niðurstöðum greiðslumatsins þegar þau hafi ítrekað samþykkt fyrirvaralaust að veðsetja eign sína fyrir skuldum Björns.
Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að Björn hafi verið látinn sjá um að afla undirskriftar stefnenda, enda liggi ekkert fyrir sem bendi til þess að svo hafi verið. Stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir þessari fullyrðingu. Þá hafi það ekki áhrif á gildi veðsetningarinnar hvar ritað hafi verið undir greiðslumatið. Það hafi ekki verið skilyrði samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 að afla undirritunar veðsala á niðurstöður greiðslumats þegar þeim hefði þá þegar verið kynntur réttur sinn. Skjalið Niðurstöður greiðslumats sé skýrt og auðlesið þar sem veðsalar séu upplýstir um niðurstöðu greiðslumatsins. Þá séu þau einnig upplýst á skýran hátt um þýðingu þess að veðsetja fasteign sína sem og réttindi sín í auðlesnum upplýsingabæklingi sem stefnendur hafi í tvígang staðfest að hafa fengið og kynnt sér, þ.e. bæði með undirritun sinni á tryggingarbréfið og niðurstöður greiðslumatsins. Þá bendi engin gögn til annars en að stefnendur hafi verið að fullu bær til þess að skilja greiðslumatið og önnur gögn sem legið hafi fyrir og afleiðingar þess að veðsetja fasteign sína fyrir skuldum þriðja manns.
Því sé mótmælt að stefnendur hafi ekki fengið yfirlit yfir stöðu um áramót eða vanskilatilkynningar, en slíkar tilkynningar séu meðal gagna málsins.
Stefndi hafni því að hann hafi brotið gegn þeirri skyldu sinni að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Ljóst sé af framangreindri umfjöllun að hann hafi að öllu leyti starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á þessu sviði. Því sé mótmælt að brot gegn 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti eða 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi þau áhrif að löggerningur aðila sé ógildur eða ógildanlegur. Þá bendi stefndi sérstaklega á að þágildandi lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 gildi eingöngu um verðbréfaviðskipti, sbr. 1. gr. laganna, en ekki um lánveitingar til einstaklinga til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.
Stefndi telji skilyrði til beitingar 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ekki fyrir hendi, enda sé með öllu órökstutt hvernig þau eigi við. Stefndi hafi ekki vanrækt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða. Þá leiði meint brot SPRON á samkomulaginu ekki sjálfkrafa til ógildingar ábyrgðar, en engar reglur mæli fyrir um ógildi samnings. Við mat á því hvort ógilda eigi veðsetningu þurfi að horfa heildstætt á öll málsatvik. Í þessu máli hafi greiðslumat verið framkvæmt, það hafi verið jákvætt og niðurstaða þess hafi verið kynnt veðsölum sem hafi athugasemdalaust undirritað það. Þá hafi stefnendum verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir. Engin skylda hafi hvílt á SPRON til að afla undirritunar stefnenda á niðurstöður greiðslumatsins. Það hafi því ekki áhrif að greiðslumatið hafi verið undirritað næsta bankadag á eftir undirritun tryggingarbréfsins, enda hafi stefnendur verið að fullu upplýstir um réttindi sín sem veðsalar. Þá hafi stefnendur undirritað skuldabréf nr. 351-35-18938 þann 23. apríl 2007 þar sem þau hafi samþykkt lánveitingu sem veðsalar samkvæmt tryggingarbréfinu. Stefndi telji því að skýr vilji stefnenda hafi staðið til þess að veita lántaka veðábyrgð og engin ástæða sé til að ætla að stefnendur hefðu ekki veðsett fasteign sína til tryggingar skuldum Björns ef þau hefðu ritað undir niðurstöður greiðslumatsins einum bankadegi fyrr. Stefndi telji því að það geti hvorki talist ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að byggja á tryggingarbréfinu.
Stefndi telji skilyrði 33. gr. laga nr. 7/1936 heldur ekki uppfyllt, en það sé með öllu órökstutt hvernig skilyrði ákvæðisins eigi við. Því sé fjarri, þegar horft sé til framangreindra röksemda, að það geti talist óheiðarlegt af hálfu stefnda að byggja á efni tryggingarbréfsins.
Þá hafni stefndi því að 30. gr. laga nr. 7/1936 eigi við. Stefndi hafi ekki beitt stefnendur svikum, en það sé hugtaksskilyrði ákvæðisins að loforðsmóttakandi hafi haft þann ásetning að blekkja loforðsgjafa. SPRON hafi fylgt ákvæðum samkomulagsins frá 1. nóvember 2001 að fullu, framkvæmt greiðslumat og kynnt stefnendum rétt sinn. Þá hafi SPRON gengið skrefinu lengra og kynnt stefnendum niðurstöður greiðslumatsins, þrátt fyrir að ákvæði fyrrgreinds samkomulags hafi ekki lagt þær kvaðir á hann. SPRON hafi að fullu upplýst stefnendur um greiðslugetu Björns og farið að ákvæðum samkomulagsins. Stefnendur hafi því ekki verið beittir neinum blekkingum með ásetningi. Sönnunarbyrðin fyrir því að SPRON hafi ekki fylgt ákvæðum samkomulagsins eða ekki framkvæmt greiðslumat hvíli á stefnendum, en öll gögn málsins benda til hins gagnstæða.
IV
Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort fella beri úr gildi veðsetningu sem stefnendur veittu í fasteign sinni með undirritun á tryggingarbréf útgefnu af Birni Blöndal Björnssyni og hvort stefnda skuli gert að láta afmá tryggingarbréfið úr þinglýsingabók vegna fasteignar stefnenda. Óumdeilt er að stefndi hefur tekið við réttindum samkvæmt framangreindum gerningum.
Stefnendur byggja á því að stefndi, eða forveri hans, hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Samkomulagi banka og sparisjóða, Félagsmálaráðuneytisins og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem óumdeilt er að honum hafi borið að fylgja. Þá hafi verið brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Brot stefnda leiði til ógildingar á veðsetningu þeirra, sbr. 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafnar öllu framangreindu og telur að farið hafi verið í öllu að reglum um lánsveð samkvæmt samkomulaginu.
Stefnendur telja stefnda hafa brotið gegn 3. mgr. 4. gr. framangreinds samkomulags, þar sem mælt er fyrir um að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Vísa stefnendur til þess að þau hafi undirritað tryggingarbréfið 13. apríl 2007, en niðurstöðu greiðslumats 16. sama mánaðar. Þá hafi þeim ekki verið boðið að falla frá ábyrgð sinni þar sem ekki hafi verið búið að kanna greiðslugetu lántaka. Stefnendur undirrituðu framangreint tryggingarbréf föstudaginn 13. apríl 2007. Fyrir ofan undirritun þeirra segir: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“
Stefnendur staðfestu þannig með undirritun sinni undir veðskuldabréfið að hafa kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og samkomulagið frá 2001. Í bæklingnum, sem liggur frammi í málinu, er að finna upplýsingar til ábyrgðarmanna og þeirra sem leggja til veðtryggingar. Þar segir meðal annars að ábyrgðarmenn skuli kanna fjárhag þess sem biðji þá um að gangast í ábyrgð. Í bæklingnum er greint frá samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 og helstu atriðum þess. Þar kemur m.a. fram að meta skuli greiðslugetu lántakans, en ábyrgðarmaður geti þó óskað eftir því skriflega að slíkt mat fari ekki fram sé fjárhæð ábyrgða hans á skuldum lántakans undir 1.000.000 króna. Með framangreindu var stefnendum kynnt tilvist greiðslumats og var það undir þeim sjálfum komið og á þeirra eigin ábyrgð að óska eftir að kynna sér efni þess áður en þau veittu samþykki fyrir veðsetningu fasteignar sinnar, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 575/2012. Þá verður að líta til þess að stefnendur undirrituðu skuldabréf sem veðsalar 23. apríl 2007, eftir að hafa verið kynntar niðurstöður greiðslumats, en matið var jákvætt og kom fram að það benti til þess að lántakandi gæti efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Fram kom við aðalmeðferð málsins að lántaki var sambýlismaður og barnsfaðir dóttur stefnenda og var um að ræða lán tekið til sameiginlegra íbúðarkaupa þeirra. Þá kom fram í skýrslu stefnanda, Einars, fyrir dóminum að hann hefði engu að síður undirritað tryggingarbréfið hefði honum verið kynnt framangreind niðurstaða greiðslumatsins fyrir veðsetninguna. Að öllu þessu virtu verður því hafnað að stefndi hafi brotið gegn samkomulagi um notkun ábyrgða eða 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003 með því að kynna stefnendum ekki niðurstöðu greiðslumats fyrir undirritun þeirra á tryggingarbréfið.
Stefnendur telja einnig að brot gegn samkomulaginu hafi falist í því að lántaka hafi sjálfum verið falið að fara með gögnin til þeirra til undirritunar, en það leiði til þess að stefndi hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína eða skyldur sínar til þess að gæta þess að stefnendur væru fær um að skilja skuldbindingu sína. Þau hafi ekki fengið upplýsingabækling um ábyrgðir. Björn Blöndal Björnsson bar fyrir dóminum að hann hefði ekki fengið nein slík gögn frá bankanum. Bankanum bar að fylgja skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu um notkun ábyrgða þótt hann fæli lántaka að fara með gögn til stefnenda. Eins og að framan greinir staðfestu stefnendur með undirritun sinni undir tryggingarbréfið að hafa kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Samkvæmt því mátti bankinn treysta því að þau hefðu kynnt sér framangreint og er því ekki hægt að fallast á að það eitt að lántaka hafi verið falið að kynna stefnendum skjölin geti leitt til ógildingar á veðsetningu þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 169/2012.
Þá byggja stefnendur á því að raunverulegt greiðslumat á lántakanum, Birni, hafi ekki farið fram. Engar tölur komi fram í niðurstöðu greiðslumat og þeim hafi ekki verið kynnt nein gögn vegna þess. Þá bar Björn um það fyrir dóminum að hann teldi ekki hafa verið framkvæmt á sér greiðslumat, hann hefði ekki afhent bankanum nein gögn vegna þess og ekki hafi verið leitað samþykkis hans. Þá taldi hann að hann hefði ekki átt að standast greiðslumat. Hann kvaðst hafa talið blaðið með niðurstöðu greiðslumats, sem hann hafi fengið undirritun stefnenda á, fela í sér að hann væri ekki á vanskilaskrá. Stefnendur undirrituðu skjalið Niðurstaða greiðslumats 16. apríl 2007. Kemur þar fram að geta lántakans Björns til að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar hafi verið metin. Greiðslumatið byggi á gögnum sem bankinn hafi aflað sér eða lántakandi látið í té. Niðurstaðan sé byggð á upplýsingum um framfærslukostnað og önnur föst útgjöld, meðaltekjur heimilisins og greiðslubyrði lána. Bankinn beri ekki ábyrgð á greiðslumatinu hafi lántakandi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn. Jákvæð niðurstaða feli ekki í sér tryggingu fyrir því að skuldari efni skyldur sínar. Þá kemur fram sú niðurstaða sem fyrr greinir að matið bendi til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Þá segir jafnframt að veðsalar staðfesti með undirritun sinni að hafa fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð.
Eins og greinir í framangreindri niðurstöðu greiðslumats gat matið byggt á gögnum sem bankinn aflaði sér. Greiðslumat getur því hafa farið fram án þess að lántaki legði sjálfur fram gögn til þess. Ekki er kveðið á um skyldu stefnda til þess að kynna ábyrgðarmönnum eða veðsölum gögn sem liggja til grundvallar niðurstöðu matsins. Stefnendum var hins vegar með skjalinu um niðurstöðu greiðslumats og bæklingi um ábyrgðir bent á möguleika til þess að kynna sér niðurstöðuna að fengnu samþykki lántakans. Ekki verður fallist á að sú skylda hvíli á stefnda að geyma undirgögn til stuðnings matinu svo þau gætu verið aðgengileg sjö árum síðar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 141/2012. Verður því að hafna framangreindri málsástæðu stefnenda.
Í málinu liggja fyrir tilkynning til stefnanda um vanskil frá 11. júlí 2012 og yfirlit yfir skuldina í lok árs 2012 og 2013 og kannaðist stefnandi, Einar, við það fyrir dóminum að hafa fengið þessi skjöl.
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að stefndi, eða forveri hans, hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 eða gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003.
Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat samkvæmt framangreindu skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Með hliðsjón af öllu því er að framan greinir verður ekki talið að skilyrði séu í málinu til þess að víkja veðsetningu stefnenda samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi til hliðar að einhverju leyti eða öllu með stoð í framangreindu ákvæði. Þá verður einnig af sömu sökum að hafna því að skilyrði sé til þess að ógilda veðsetninguna á grundvelli 30. eða 33. gr. laganna. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verða stefnendur dæmd til þess að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Einars Sigurjóns Bjarnasonar og Elínar Þóru Sverrisdóttur.
Stefnendur greiði óskipt stefnda 250.000 krónur í málskostnað.