Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-272
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ábyrgð
- Tilkynning
- Tryggingarbréf
- Veðréttur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 3. nóvember 2021 leitar Landsbankinn hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. október sama ár í málinu nr. 374/2020: Arana George Kuru gegn Landsbankanum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila verði gert að þola fjárnám vegna skuldar Þróunarfélagsins Lands ehf. við hann samkvæmt tryggingarbréfi sem gefið var út 21. mars 2007 að fjárhæð 14.000.000 króna. Til tryggingar skuldinni var fasteign gagnaðila sett að veði með samþykki hans og maka. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2010 og lauk skiptum án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
4. Með héraðsdómi 26. maí 2020 var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila yrði gert að þola fjárnám vegna framangreindrar skuldar. Í dómi Landsréttar kom fram að fortakslaus skylda hvíldi á lánveitanda að tilkynna ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem gætu haft áhrif á forsendur ábyrgðar, þar á meðal um gjaldþrot skuldara og stöðu þeirra lána sem um ræddi og fjárhæð vanskila. Leyfisbeiðandi hefði í engu rækt þessa skyldu sína gagnvart gagnaðila. Landsréttur taldi að ekki stoðaði fyrir hann að bera því við að heimilisfang gagnaðila á Nýja Sjálandi hefði ekki verið skráð til fulls í þjóðskrá þar sem hann hefði búið yfir upplýsingum um heimilisfang hans þar í landi. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að um verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn hefði verið að ræða og að ábyrgð gagnaðila sem veðsala væri þar með niður fallin. Hann var því sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann telur dóminn í andstöðu við dóma Hæstaréttar 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015 og 20. apríl 2018 í máli nr. 23/2017. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar um 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 hafi verið horft til þess hvort ábyrgðarmaður verði skaðlaus af vanrækslu frekar en að ábyrgð sé felld niður, eins og gert var með dómi Landsréttar. Jafnframt telur hann að með dómi Landsréttar séu gerðar óraunhæfar kröfur til lánveitenda um að hafa uppi á ábyrgðarmönnum vegna tilkynninga á grundvelli laga nr. 32/2009 þegar upplýsingar um aðsetur sé ekki að finna í opinberum skrám. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun lagareglna með hliðsjón af stjórnarskrárbundnum eignarréttindum.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um túlkun 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.