Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður með virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 196.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. apríl 2016, um að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, skv. a- og b-lið 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili sitt og A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að sunnudaginn 6. mars sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá beiðanda A um hótanir og áreiti sem hún og dætur hennar, beiðendur B og C, yrðu fyrir af hendi eiginmanns hennar, X. A hafi tjáð lögreglu sem kom á vettvang að X væri búinn að beita hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi í mörg ár. Í skýrslutökum og viðræðum á vettvangi við þær A, B og C vegna málsins hafi þær lýst því hvernig X beitti A kynferðisofbeldi og hvernig hann hefði hótað henni að nota þær B og C í hennar stað ef hún sinnti honum ekki kynferðislega. Hafi hann jafnframt hótað því að henda systrunum út af heimilinu af sama tilefni. Þær hafi einnig lýst því hvernig X hefði áreitt B kynferðislega með sms-skilaboðum. Þá hafi komið fram hjá þeim B og C að X reyndi stundum að sjá þær systur naktar. Enn fremur hafi komið fram að X hefði beitt þær A og C líkamlegu ofbeldi.
Þá er þess getið að samkvæmt málaskrárkerfi lögreglu hafi mæðgunar ítrekað óskað eftir aðstoð á heimilið vegna X, sbr. eftirfarandi mál lögreglu:
- „Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]: Bókað þann 18. október 2015 að B hafi óskað aðstoð lögreglu þar maðurinn á heimilinu væri að hóta sér. Bókað að lögregla fór á staðinn og ræddi við B sem hafi sagt að X hafi hótað að henda sér út ef hún gerði ekki það sem hann vildi varðandi einhverja tölvu. Bókað að hún hafi sagt að X hafi verið að áreita hana kynferðislega með óviðeigandi skilaboðum auk þess að áreita C systur hennar. Bókað að B og C hafi sagt að þær hafi margoft heyrt X hóta móður þeirra að ef hún svæfi ekki hjá honum myndi hann bara sofa hjá dætrum hennar. Bókað að X hafi verið vísað út af heimilinu þar sem mæðgurnar vildu ekki hafa hann.
- Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: A kallaði tvívegis eftir aðstoð á heimilið þann 20. september 2014 vegna ofbeldis og hótana X. Í viðræðum við lögreglu kvað hún X hafa ráðist á sig og hótað sér. Kvað hún hann hafa heimtað að hún uppfyllti eiginkonuskyldur sínar en ef hún yrði ekki við því hefði X gefið í skyn að hann myndi þá svala þörfum sínum á dóttur hennar, C.
- Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Bókað þann 1. september 2014 að B hafi komið á lögreglustöð til að tilkynna um ósiðleg sms-skilaboð frá stjúpföður sínum X. Bókað að skilaboðin séu send úr síma [...] sem sé skráð á hann í lögreglukerfinu. Bókað að í einu þeirra hafi staðið: „Þú sefur bara hjá manni mömmu þinnar ef þú getur ekki borgað leiguna“.
- Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Bókað þann 23. september 2014 að B óskaði aðstoðar lögreglu við að ná í nauðsynlega hluti heim til sín en óttaðist barsmíðar frá fósturföður og þorði ekki inn.
- Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]: Bókað að B mætti á lögreglustöð vegna nafnlausra sms-skilaboð sem hún væri að fá. Bókað að við rannsókn hafi komið fram að skilaboðin væru send úr tölvupóstfanginu [...], netfangi X.
- Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]: Bókað þann 11. nóvember 2013 að B hafi komið á lögreglustöð vegna fjögurra ógeðfelldra sms skilaboðs sem hún hafi fengið. Tekið fram að þau fjalli um móður hennar og X. Bókað að B sagðist hafa fengið ógeðfelld skilaboð frá X og að hún taldi ekki ósennilegt að skilaboðin væru frá honum. Bókað að hún hafi tekið fram að X væri perri.
- Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]: Bókað þann 23. júní 2012 að A óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna heimiliserja. Bókað að A hafi sagt að X hafi fyrir einhverju síðan lagt á hana hendur og sýndi hún lögreglu lítinn marblett sem hún sagði afleiðingu af því.“
Í greinargerð lögreglustjóra er tekið fram að í málaskrákerfi lögreglu sé jafnframt nokkur fjöldi eldri mála þar sem A hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ónæðis, hótana og ofbeldis af hálfu X. Í máli lögreglu nr. 007-2009-[...] sé bókað þann 24. október 2009 að A hafi óskað eftir aðstoð þar sem X hafi nauðgað henni. Í máli lögreglu nr. 007-2009-[...] sé bókað þann 8. mars 2009 að A hafi hringt og tilkynnt um að X legði reglulega á hana hendur og hefði nokkrum sinnum þvingað hana til samræðis og hefði það síðast gerst 6. mars 2009.
Þá er þess getið að A hafi gefið skýrslu hjá lögreglu þann 18. mars sl. og lýst þar nánar langvarandi ofbeldi X á heimilinu, bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, auk hótana. Hún hafi m.a. lýst því ítarlega hvernig hann hafi ítrekað neytt hana til þess að fróa honum með því að hóta því að nota dætur hennar, einkum C, ef hún gerði það ekki. Jafnframt hafi hún lýst því nánar hvernig hann hefði nauðgað sér árið 2014.
Þá hafi B gefið skýrslu hjá lögreglu vegna málsins þann 22. mars sl. Þar hafi hún lýst því hvernig X hefði margoft sent henni kynferðisleg smáskilaboð frá árinu 2012 þar sem hann hafi m.a. beðið hana um að sofa hjá sér. Þá hafi hann sent henni skilaboð sem innihaldi hótanir, t.d. að senda Hells Angels á hana. Fram komi að hún hafi flutt inn á heimilið fyrir nokkrum mánuðum síðan eftir að hafa síðustu ár búið annars staðar. Hún hafi tekið fram að X væri alltaf að kúga mömmu hennar og hóta henni ofbeldi. Kvæðist hún sem minnst reyna að hlusta þegar X væri með kynferðislegt tal við mömmu hennar en hann hafi hótað því að sofa hjá öðrum konum ef hún svæfi ekki hjá honum. Kvæði hún hann jafnframt oft hóta að henda henni sjálfri út af heimilinu ef hún geri ekki það sem hann segði. Kvæði hún hann vera ógnandi við sig og taka stundum í hönd hennar og standa fyrir framan hana eins og hann ætli að fara að lemja hana. Segði hún mömmu sína hafa talað um að X hefði nauðgað henni árið 2013 eða 2014. Jafnframt kvæði hún X stundum reyna að sjá hana og systur hennar naktar. Segðist hún vita til þess að hann hefði lagt hendur á systur hennar. Einnig komi fram að hjónaband X og A sé mjög stormasamt og þau rífist mikið.
Að mati lögreglustjóra fái framburður mæðgnanna um háttsemi X í þeirra garð stuðning í framburði vitnisins D. Í framburði hennar komi m.a. fram að A hafi sagt henni frá því hvernig X hafi þvingað hana til kynferðismaka og að það hafi viðgengist árum saman. Einnig komi fram að X hafi hótað A eftir að nálgunarbannið tók gildi um að hún skyldi hafa verra af og að hann langaði að brjóta rúður hjá henni. Fram komi að A hafi beðið D um að skila því til X að hætta að hringja sífellt í hana í nálgunarbanninu. Enn fremur komi fram í framburðinum að X telji sig geta flutt aftur inn til mæðgnanna um leið og nálgunarbannið renni út.
Þá hafi vitnin E og F borið í skýrslutöku að hafa séð kynferðisleg skilaboð í síma B sem hún segði að væru frá X. Hafi E í eitt skipti farið á lögreglustöð með B til þess að tilkynna þetta.
Lögreglustjóri tekur fram að 7. mars sl. hafi X verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart A, B og C með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem staðfest hafi verið af bæði héraðsdómi og Hæstarétti. Þær mæðgur hafi ítrekað tilkynnt um brot X gegn nálgunarbanninu til lögreglu og hafi þær lagt fram kæru á hendur honum vegna brotanna. Um ítrekaðar símhringingar sé að ræða þar sem hann hafi viðhaft hótanir auk hótana í smáskilaboðum. Þá hafi hann nálgast þær C og B í [...] og segði að þær fengu að kenna á því ef mamma þeirra hleypti honum ekki inn. Aðfararnótt 4. apríl sl. hafi A svo óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem X lægi á dyrabjöllunni hjá þeim (mál lögreglu nr. 007-2016-[...]).
Þá er þess getið að samkvæmt útskrift úr heimasíma A séu 566 hringingar úr símanúmeri X í heimasímann eftir að nálgunarbannið tók gildi. Samkvæmt útskrift úr farsíma A hafi X sent henni 18 smáskilaboð en A hafi sent honum eitt. Þann 15. mars sl. hafi svohljóðandi skilaboð verið send til hennar úr númeri X: „Þú er núna í ekki góðum málum nú verður komið heim til þín“ og „Stelpurnar og þú fá ekki bjartan lífhlut“ Í skýrslutöku þann 18. mars sl. hafi X neitað lögreglu um heimild til þess að afla frekari símagagna úr tveimur símunúmerum sem hann sé rétthafi af en A hafi notað annað þeirra. Þær B og C hafi báðar lagt fram mörg smáskilaboð frá X þar sem m.a. komi fram hótanir.
Þá kemur fram að 4. apríl sl. hafi þær A, B og C lagt fram beiðni um að X yrði gert að sæta áframhaldandi brottvísun af heimili og nálgunarbanni vegna mikils áreitis og ógnandi hegðunar sem hann hafi sýnt af sér á liðnum mánuði líkt og áður. Þær óttist hann og vilji ekki fá hann inn á heimilið. Samkvæmt A hafi hún fengið tíma hjá sýslumanni í lok apríl þar sem hún vilji skilja við X. X hafi neitað sök í skýrslutökum vegna málsins og hafnað alfarið lýsingum A, B og C. X kvæðist hafa ætlað að senda A sms-skilaboð aðfaranótt 6. mars sl. þar sem hann hafi beðið um kynlíf en skilaboðin hafi óvart farið á B. X kvæðist hafa talað við A um að ríða í rassgat eins og komið hafi fram í lögregluskýrslunni en engin meining hafi verið að baki því. Varðandi framburð A um að hann hafi nauðgað henni 20. september 2014 þá hafi hann neitað því. Kvæðist hann þá hafa grunað hana um framhjáhald og að þau hafi sofið saman til að hún gæti sannað að það væri ekki rétt. Hann segði hana hafa kvartað um verki daginn eftir og hann beðið hana afsökunar. Kvæðist hann hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki munað fyrr en daginn eftir að hún fyndi til í leggöngunum við samfarir. X hafi neitað því að hafa brotið gegn nálgunarbanninu.
Í ljósi alls framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt enda liggi að hans mati fyrir rökstuddur grunur um að X hafi í áraraðir brotið gegn A, B og C með refsiverðum hætti og raskað friði þeirra. Um sé að ræða rökstuddan grun um kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi, hótanir og nú ítrekuð brot gegn nálgunarbanninu sem hann hafi sætt. Talin sé hætta á að hann muni brjóta gegn þeim aftur og raska friði þeirra njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna telji lögreglustjóri skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 4. apríl 2016 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni. Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Þá er samkvæmt a-lið og b- lið 1. mgr. 5. gr. heimilt að beita brottvísun af heimili þegar þar tilgreindar aðstæður eru fyrir hendi, þó að hámarki í 4 vikur, sbr. 4. mgr. 7. gr. laganna. Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 4. apríl sl. Þá hefur komið fram fyrir dómnum að aðilar búi í leiguhúsnæði og sé brotaþoli A leigutaki þess húsnæðis. Aðstoðarsaksóknari upplýsti fyrir dómi að A eigi tíma hjá sýslumanni 24. apríl nk. þar sem hún hyggst sækja um skilnað frá varnaraðila. Fallast verður á það með lögreglustjóra að gögn málsins beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot gegn brotaþolum, sbr. a-lið áðurnefndra ákvæða. Þá verður að telja, þegar litið er heildstætt á atvik málsins og gögn þess, að án nálgunarbanns og brottvísunar af heimili sé varnaraðili líklegur til að halda áfram háttsemi sinni gagnvart brotaþolum, sbr. b-lið áðurnefndra ákvæða. Vísað er til þess að Hæstiréttur hafi með dómi sínum 15. mars sl. í málinu nr. 198/2016 talið skilyrði laga fyrir nálgunarbanni og brottvísun af heimili uppfyllt. Vegna sératkvæðis í þeim dómi varðandi systurnar B og C telur dómurinn að röksemdir um að þessi úrræði gagnvart varnaraðila verði einnig látin ná til þeirra hafi fremur styrkst eftir uppkvaðningu þess dóms heldur en hitt. Með hliðsjón af framangreindu þykja því vera uppfyllt skilyrði a- og b-liðar. 4. gr. og a- og b-liðar 1. mgr. 5. gr., svo og 12. gr. laga nr. 85/2011 til þess að nálgunarbanni og brottvísun af heimili verði beitt enda verður ekki talið, eins og málum er háttað, að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, einnig er hér litið til 2. mgr. ákvæðisins. Óhjákvæmilegt er þannig að líta til þess að þrátt fyrir að hafa sætt nálgunarbanni frá 7. mars sl. hefur varnaraðili margítrekað brotið gegn því, einkum með símtölum á heimili brotaþola, en sú háttsemi er litin alvarlegum augum. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um nálgunarbann og brottvísun af heimili eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. fyrir dómi og á rannsóknarstigi 200.000. krónur greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. og Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl. 170.000 krónur til hvors um sig.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. apríl 2016, um að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, skv. a- og b-lið 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili sitt og A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 200.000 krónur, Agnars Kormáks Friðrikssonar hdl. og Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl. réttargæslumanna brotaþola, 170.000 krónur til hvors, skal greidd úr ríkissjóði.