Hæstiréttur íslands

Mál nr. 667/2011


Lykilorð

  • Samningur
  • Aðildarskortur
  • Málsástæða


                                     

Fimmtudaginn 20. september 2012.

Nr. 667/2011.

 

Miltex Corporation

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

gegn

Þuríði Kristínu Halldórsdóttur

(sjálf)

 

Samningur. Aðildarskortur. Málsástæða.

M krafði Þ um greiðslu skuldar sem lánveitandi á grundvelli samnings. Héraðsdómur taldi M ekki hafa sýnt fram á að hann færi með forræði þeirra hagsmuna sem um var deilt í málinu og sýknaði Þ vegna aðildarskorts. Fyrir Hæstarétti hélt M því fram að hann hefði ekki verið lánveitandi í viðskiptum aðila, heldur umsýslumaður fyrir annan aðila, hinn eiginlega lánveitanda. Var það niðurstaða Hæstaréttar, með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, að málsástæða þessi kæmist ekki að í málinu, enda yrði grundvelli þess þar með raskað. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember 2011. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði gert að greiða sér 321.624 bandaríkjadali, til vara 124.000 bandaríkjadali, en að því frágengnu 60.000 bandaríkjadali, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 4.000.000 krónum sem greiddar voru 4. september 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara lækkunar á kröfum áfrýjanda. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu sinni á hendur Vilborgu Eddu Lárusdóttur.

I

Áfrýjandi höfðaði mál þetta gegn stefndu og Vilborgu Eddu Lárusdóttur í lok október 2009. Í héraðsstefnu var vísað til þess að aðilar málsins hafi 21. júlí 2009 undirritað „lánasamning“. Sagði í stefnunni að áfrýjandi hafi „sem lánveitandi“ ábyrgst að lána stefndu 60.000 bandaríkjadali gegn því að hún greiddi til baka 124.000 bandaríkjadali innan 21 dags frá útborgun lánsins. Þar sem stefnda hafi brotið gegn sérstökum skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum og ekki sinnt greiðslukröfum væri áfrýjanda nauðugur sá kostur að innheimta kröfuna með atbeina dómstóla. Í stefnunni sagði ennfremur að til stuðnings „innheimtukröfu lánsins“ vísaði áfrýjandi til meginreglna samningaréttar sem og ákvæða fyrrgreinds samnings, auk meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga er fengi stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup og lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Frekari málsástæður og lagarök voru ekki færð fyrir kröfum áfrýjanda á hendur stefndu.

Stefnda krafðist aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfum áfrýjanda. Var meðal annars tekið fram í greinargerð hennar í héraði að hún krefðist þess að vera „sýknuð af kröfu um endurgreiðslu þar sem skuldarasamband hafi aldrei komist á milli“ málsaðila.

Með úrskurði héraðsdóms 29. apríl 2011 var málinu vísað frá dómi, en Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi með dómi 15. júní 2011 í máli nr. 315/2011. Í framhaldi af því fór fram aðalmeðferð og að því búnu var málið dómtekið og héraðsdómur kveðinn upp, en þar var stefnda sýknuð af kröfum áfrýjanda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II

Í áfrýjunarstefnu er tekið fram að tilgangur áfrýjunar sé „að fá hnekkt því mati héraðsdóms að uppi sé aðildarskortur til sóknar.“ Þar segir ennfremur að áfrýjandi telji „að hann hafi gagnvart stefndu komið fram sem sjálfstæður samningsaðili í eigin nafni“. Leiði það „af grundvallarreglum um eðli umsýsluviðskipta og óskráðum reglum fjármunaréttar að löggerningar sem verða milli umsýslumanns og þriðja manns skapi ekki beint réttarsamband milli þriðja manns og umsýsluveitanda.“ Í greinargerð áfrýjanda segir „að það hafi ætíð verið ljóst að hann hafi ekki verið endanlegur lánveitandi milli aðila“ og hafi hann í raun starfað „eins og umsýsluaðili fyrir þriðja aðila.“ Hafi hann „komið fram sem umsýslumaður með heimild og fyrir reikning umsýsluveitanda.“ Með samningnum 21. júlí 2009 hafi stefnda „bakað sér skuldbindingu við áfrýjanda en ekki gagnvart umsýsluveitanda hans.“

Eins og rakið er að framan reisti áfrýjandi málatilbúnað sinn í héraði á þeirri málsástæðu að hann hafi sjálfur veitt stefndu lán og krafðist hann greiðslu úr hennar hendi á þeim grundvelli. Sú málsástæða að áfrýjandi hafi ekki verið lánveitandi, heldur umsýslumaður fyrir annan aðila, hinn eiginlega lánveitanda, og komið sem slíkur fram í lögskiptum við stefndu, var ekki höfð uppi í héraði, heldur var henni fyrst teflt fram í áfrýjunarstefnu og síðar í greinargerð áfrýjanda hér fyrir dómi. Þegar af þeirri ástæðu kemst þessi nýja málsástæða ekki að í málinu samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, enda yrði grundvelli þess þar með raskað.

Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Miltex Corporation, greiði stefndu, Þuríði Kristínu Halldórsdóttur, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl sl., en dómtekið á nýjan leik að afloknum nýjum flutningi málsins 6. september sl., er höfðað af Miltex Corporation, Centre Ubidoca, 105 route des Pommiers, 74370 St. Martin Bellevue, Frakklandi, með stefnu birtri 27. og 28. október á hendur Þuríði Kristínu Halldórsdóttur, Birkigrund 48, Kópavogi, og Vilborgu Eddu Lárusdóttur, Hraunbæ 102 C, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda 321.624 bandaríkjadali að óskiptu og skuli tildæmd fjárhæð bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Til vara er þess krafist, að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda 124.000 bandaríkjadali að óskiptu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist, að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda 60.000 bandaríkjadali að óskiptu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst til greiðsludags. Í öllum tilvikum er þess krafist, að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda málskostnað að óskiptu að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu Þuríðar er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist, að hafnað verði aðalkröfu stefnanda um greiðslu á 321.624 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta. Til þrautavara er þess krafist, að hafnað verði varakröfu stefnanda um greiðslu á 124.000 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta. Verði ekki fallist á framangreindar kröfur, er þess krafist, að málinu ljúki með endurgreiðslu höfuðstóls að fjárhæð 60.000 bandaríkjadala, að viðbættum vöxtum til eindaga og dráttarvöxtum frá eindaga til greiðsludags samkvæmt lögum nr. 38/2001. Þá er krafist málskostnaðar. Verði ekki sýknað að öllu leyti eða kröfum stefnanda hafnað, er þess krafist, að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Af hálfu stefndu Vilborgar er krafist sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að hún verði sýknuð um persónulega ábyrgð. Til þrautavara er þess krafist, að hafnað verði kröfu stefnanda um greiðslu á 321.624 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta. Til þrautaþrautavara er þess krafist, að hafnað verði kröfu stefnanda um greiðslu á 124.000 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta. Verði ekki fallist á þær kröfur, er þess krafist, að endurgreiðslukrafan verði ekki hærri en sem nemi höfuðstól að fjárhæð 60.000 bandaríkjadala að viðbættum vöxtum til eindaga og dráttarvöxtum frá eindaga til greiðsludags samkvæmt lögum nr. 38/2001. Ljúki málinu ekki með sátt, er þess krafist, að fullnusta kröfunnar fari fram samkvæmt ákvæðum laga um aðför og ákvæðum laga um nauðungarsölu. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts. Verði fallist á endurgreiðslukröfu, er nemi höfuðstól að fjárhæð 60.000 bandaríkjadala, er þess krafist, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Í greinargerð beggja stefndu var þess krafist, að málinu yrði vísað frá dómi, en því var hafnað með úrskurði dómsins 2. nóvember 2010. Að afloknum málflutningi 4. apríl síðastliðinn og eftir að málið hafði verið tekið til dóms, var því vísað frá dómi án kröfu með úrskurði 29. sama mánuðar. Með dómi Hæstaréttar frá 15. júní síðastliðnum í máli nr. 315/2011 var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar. Fór fram munnlegur málflutningur 6. september síðastliðinn og var málið dómtekið í kjölfarið.

II

Kröfur stefnanda í málinu eru byggðar á samningi milli aðila ásamt viðauka 1, sem nefndur er „fylgiskjal 1“ í íslenskri þýðingu, frá 21. júlí 2009, sem ber heitið „fyrirsvars- og lánssamningur.“ Er hann undirritaður 20. júlí 2009 af stefndu og degi síðar af Tim Thexton fyrir hönd stefnanda.  Er samningurinn á ensku, en þýðing löggilts skjalaþýðanda á honum er meðal gagna málsins. Segir þar, að samningurinn sé gerður á milli stefnanda, Miltex Corporation, annars vegar og lögfræðistofu Þuríðar Halldórsdóttur, hdl., og stefndu, Vilborgar Eddu Lárusdóttur, hins vegar. Með samningnum er stofnað til viðskiptasambands milli stefnanda og stefndu Þuríðar, þar sem hún hafi óskað aðstoðar við að finna aflandslán fyrir hönd viðskiptavinar og stefnandi hafi fundið lánveitanda, sem sé tilbúinn að lána Þuríði fé, en óski jafnframt nafnleyndar. Hafi Vilborg samþykkt að undirrita lánssamninginn með Þuríði og leggja fram tryggingu fyrir láninu. Samkvæmt samningnum er ætlunin sú, að lánveitandi greiði höfuðstólinn með milligöngu stefnanda til stefndu og þær endurgreiði höfuðstólinn ásamt áföllnum vöxtum og þóknunum til stefnanda innan tiltekins tíma. Stefnandi greiði síðan lánveitanda höfuðstólinn með samþykktum vöxtum, að frádreginni þóknun og miðlunargjaldi, en samkvæmt 5. gr. samningsins skulu vextir og þóknun stefnanda og lánveitanda vera innifalin í endurgreiðsluupphæð, sem nánar er tiltekin í viðauka 1 við samninginn frá 21. júlí 2009.

Í 1. gr. samningsins segir, að stefndu hafi samþykkt að bera óskipta ábyrgð á því, að endurgreiðsluupphæðin verði greidd á gjalddaga samkvæmt skilmálum samningsins. Standist það ekki, skuli trygging, sem stefnda Vilborg leggi fram, vera fyrirgerð í heild sinni, en stefndu hafi samþykkt, að vísað sé til þeirra í samningnum sem lántaka. Í 2. gr. samningsins segir, að stefnandi sé í fyrirsvari fyrir lántaka í leit að aflandsfé fyrir hönd umbjóðanda hans og skuli kappkosta að tryggja fé í samræmi við tilskilinn tímaramma. Þegar fundinn verði lánveitandi, eins og segir í 3. gr. samningsins, sem sé reiðubúinn samkvæmt samþykktum skilmálum að lána umbeðið fé, þá greiði Miltex höfuðstólsupphæðina, sem ákveðin sé í viðauka 1 við samninginn, til lántaka, að því tilskildu, að féð hafi verið meðtekið frá lánveitanda. Geti lánveitandi hins vegar ekki lagt fram ætlaða fjárupphæð, þá skuli annað hvort finna nýjan lánveitanda eða rifta samningnum án sekta fyrir aðilana. Samkvæmt 7. gr. skal samningurinn gilda í eitt ár frá undirskrift og endurnýjast um samsvarandi tímabil, nema honum sé rift skriflega með tólf mánuða fyrirvara. Samninginn má þó framselja með gagnkvæmu samkomulagi samkvæmt 8. gr. Samkvæmt 9. gr. samningsins skal samningurinn ráðast af íslenskum lögum og hlíta lögsögu íslenskra dómstóla. Í 10. gr. segir, að aðilar hafi samþykkt, að ensk útgáfa samningsins skuli ráða og hafa forgang, en þýðingar á önnur tungumál geti eingöngu verið til skýringar eða til að auðvelda skilning. Þá segir í 11. gr. samningsins, að ef einhverjar hömlur eða skuldbindingar samningsins reynist ógildar, en mundu annars vera gildar, ef hluta þeirra væri breytt, þá gildi slíkar hömlur með þeim breytingum, sem til þurfi, til að þær verði gildar og skilvirkar. Samkvæmt 12. gr. teljast engar breytingar á ákvæðum samningsins gildar, nema með skriflegu samþykki.

Um höfuðstól lánsins er í samningnum vísað til viðauka 1 við samninginn, sem nefndur er „fylgiskjal 1“ í íslenskri þýðingu, en þar segir, að höfuðstólsupphæðin sé 60.000 bandaríkjadalir og endurgreiðsluupphæðin 124.000 bandaríkjadalir. Gjalddagi endurgreiðslu skuli vera í síðasta lagi 21 degi eftir útborgun lánsins, en eftir það skuli 10% dráttarvextir bætast við skuldina hvern virkan dag, sem greiðsla dragist. Þá segir þar, að útborgun lánsins greiðist jöfnum hlut á reikning A.R.I. Trading llc. í banka í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hlaupareikning stefndu Þuríðar í banka á Íslandi. Endurgreiðslan skuli hins vegar lögð inn á reikning stefnanda í banka á Kýpur.

Lýtur ágreiningur aðila að því, hvort stefnandi teljist lánveitandi samkvæmt samningnum og stefndu lántakendur. Þá lýtur ágreiningur aðila, séu þeir réttir aðilar málsins, að því, hver fjárhæð endurgreiðslu lánsfjárins sé eða skuli vera með tilliti til íslenskra laga.

Stefnandi telur gögn málsins ekki sýna fram á annað en, að hann sé lánveitandi og að samningurinn beri skýrt með sér ábyrgð stefndu á endurgreiðslu lánsins. Stefnda Þuríður hafi fengið 60.000 bandaríkjadali að láni gegn því, að hún greiddi 124.000 bandaríkjadali  innan tilskilins tíma. Stefnda Vilborg hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu og sett íbúð sína að veði til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu. Standi ákvæði samningsins til þess, að stefndu beri þessar skuldbindingar gagnvart stefnanda.

Stefnda Þuríður heldur því fram, að hún sé aðeins milligöngumaður um að útvega lán fyrir ónafngreindan, erlendan aðila vegna fasteignakaupa hans hér á landi. Hún hafi ekki fengið lánið greitt til sín og sé ekki persónulega ábyrg fyrir láninu, enda hafi aldrei komist skuldasamband milli hennar og stefnanda. Stefnandi sé auk þess ekki eigandi þess fjármagns, sem lánað hafi verið.

Stefnda Vilborg heldur því fram, að hún beri ekki persónulega ábyrgð á kröfunni og að krafa um endurgreiðslu nái ekki fram að ganga, þar sem aldrei hafi komist á skuldasamband milli hennar og stefnanda.

III

 Af hálfu stefnanda er því haldið fram, að hann hafi skuldbundið sig sem lánveitandi að afla lánsfjár til handa stefndu og lána þeim í eigin nafni. Hann hafi þannig ábyrgst að lána stefndu Þuríði 60.000 bandaríkjadali gegn því, að hún greiddi til baka 124.000 bandaríkjadali innan 21s dags frá útborgun lánsins. Stefnda Vilborg hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu samkvæmt 1. gr. samningsins auk þess sem hún hafi sett íbúð sína að Hraunbæ 102 C að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu fyrir allt að 300.000 bandaríkjadala.

Samkvæmt 6. gr. lánasamningsins hafi stefnda Vilborg skuldbundið sig til þess að framselja fasteignina, veðandlag lánasamningsins, til stefnanda án tafar að liðnum tíu dögum frá endurgreiðslugjalddaganum, hefði lánið ekki verið endurgreitt. Stefnda Þuríður, sem sé starfandi lögmaður, hafi þó ekki bent stefnanda á, að réttast væri að þinglýsa tryggingarbréfi á eignina til tryggingar skuldinni.

Lánið hafi verið greitt út 23. júlí 2009 og skyldi endurgreiðast innan 21s dags frá útborgun þess samkvæmt samningnum og viðauka 1 við hann. Verði því að miða við 13. ágúst sama ár sem eindaga lánsins.

Með bréfi 25. ágúst sama ár hafi verið skorað á lántaka að efna framangreinda skuldbindingu sína í ljósi vanefnda á samningnum, en við því hafi hann ekki orðið. Þá hafi stefndu verið boðið að leggja fram raunhæfa greiðsluáætlun og tryggingar til að sætta málið með tölvupósti 28. sama mánuðar, en stefndu hafi ekki brugðist við því boði.

Í ljós hefði komið, að 21. ágúst 2009 hefði tryggingarbréfi án vaxta verið þinglýst á 1. veðrétt íbúðarinnar, útgefnu til handhafa, að fjárhæð 25.000.000 króna. Hafi svo virst sem ekkert annað hefði legið að baki þeirri ráðstöfun en að verja eignina gegn fullnustu kröfum stefnanda samkvæmt samningi. Í því ljósi hefði stefnandi vakið athygli stefndu á því, að refsivert væri að eyðileggja veðandlagið eða rýra verðmæti þess á nokkurn hátt.

Með tölvupósti 29. september 2009 hafi stefnda Þuríður greint frá því, að málið hefði tafist, þar sem skuldarinn hefði lagst inn á sjúkrahús, en hann mundi greiða í vikunni þar á eftir. Hafi hún því óskað eftir því við stefnanda, að beðið yrði með frekari aðgerðir. Áður hefði hún þó ítrekað óskað eftir fresti og fengið. Samdægurs hafi stefnandi sent svarbréf, þar sem hann hafi óskað eftir viðbrögðum við því, hvort tryggingarbréfið á téðri fasteign, sem eiginmaður stefndu Þuríðar hafi viðurkennt, að væri málamyndagerningur, yrði fært af íbúðinni. Hafi stefnanda ekki borist nein viðbrögð við þeirri fyrirspurn. Stefnandi hafi því sent stefndu tölvupóst 13. október sama ár, þar sem upplýst var, að enginn annar kostur væri í stöðunni en að stefna málinu fyrir dóm.

Þar sem stefndu hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt lánasamningnum, og þar sem þær hafi ekki sinnt kröfum stefnanda um greiðslu, sé stefnanda nauðugur sá kostur að innheimta kröfuna með atbeina dómstóla.

Stefnandi kveður stefndu vera ábyrgar fyrir greiðslu alls lánsins og samkvæmt samningi aðila sé stefnandi lánveitandinn. Þá mótmælir stefnandi því, að ákvæði samningalaga eigi að standa í vegi fyrir því, að um sé að ræða gildan samning milli aðila.

Til stuðnings innheimtukröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og ákvæða samningsins. Vísar stefnandi og til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, er fái stoð í lögum nr. 50/2000 og samningalögum nr. 7/1936. Um dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sérstaklega 1. mgr. 6. gr., og um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og þess, að málið hafi dregist verulega. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reisir stefnandi á lögum nr. 50/1998, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.

IV

Stefnda Þuríður lýsir því, að hún hafi leitað til stefnanda fyrir hönd erlends umbjóðanda síns. Umbjóðandinn hafi verið að losa fjármagn erlendis til fjárfestinga hér á landi og hafi vantað lán í erlendri mynt til að brúa bil vegna fasteigna­kaupa hér á landi. Stefnandi hafi tekið að sér að útvega lán fyrir umbjóðanda stefndu. Raunveru­legur lánveitandi hafi viljað vera nafnlaus, eins og fram komi í samningi, og því hafi stefnandi komið fram fyrir hans hönd. Stefnda hafi tekið að sér að hafa milligöngu um endurgreiðslu á láninu frá umbjóðanda sínum til stefnanda, sem hafi verið fulltrúi lánveitanda. Þar sem stefnda hafi eingöngu komið fram fyrir hönd umbjóðanda síns, en ekki sjálf verið lántakandi, hafi ekki verið um skulda­samband að ræða milli hennar og stefnanda, sem ekki hafi verið eigandi þess fjármagns, sem lánað hafi verið, og því ekki lánveitandi. Báðir málsaðilar hafi komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna. Um viðskiptasamband hafi verið að ræða milli stefndu Þuríðar og stefnanda en ekki skuldasamband.

Peter nokkur, sem var fulltrúi Tim Thexton á Íslandi, hafi verið í sambandi við stefndu vegna málsins, en hann var hér á landi við nám. Hann hafi aðeins borið skilaboð á milli en engar ákvarðanir tekið og hefði engu getað breytt. Samskipti stefndu við Tim Thexton, fulltrúa stefnanda, hafi farið fram í gegnum síma og með tölvupósti. Í tölvubréfi spyrji hann hvort stefnda Vilborg muni undirrita samninginn og hvort endurskrifa þurfi hann eins og um persónulegt lán væri að ræða til stefndu. Stefnda Þuríður kveðst hafa svarað því, að stefnda Vilborg mundi undirrita samninginn sem eigandi tryggingarinnar og að hún sjálf mundi undirrita hann fyrir hönd fyrirtækis síns. Rætt hafi verið sérstaklega um, að aðkoma stefndu Vilborgar að samningnum væri eingöngu sú að veita fasteignatryggingu fyrir skuldinni með íbúð sinni, en ekki að hún yrði persónulega ábyrg og aldrei hafi staðið til, að ábyrgð hennar yrði umfram verðmæti fasteignarinnar. Hún hafi ekki átt að verða aðili að viðskiptasambandinu, heldur eingöngu að setja fasteign sína sem tryggingu fyrir endurgreiðslu lánsins. Í samningsdrögunum hafi verið mörg ákvæði, sem ekki hafi verið unnt að fallast á, og hafi stefnda rætt það símleiðis við Tim Thexton. Stefnda hafi í öllum samræðum við hann mótmælt 10% okurdráttarvöxtum á dag í tíu daga, sem engan veginn stæðust íslensk lög. Hún hafi einnig óskað eftir sundur­greindum fjárhæðum vaxta og þóknunar.

Stefnda Þuríður lýsir því, að henni hafi borist drög að samningi, sem hún hafi ekki talið vera rétt. Enn hafi verið ákvæði í þeim, sem hún hafi gert athugasemdir við og and­mælt, svo sem um okurvexti, 10% á dag í tíu daga, og ekki hafi verið sundurliðað og tilgreint hver þóknun væri og hverjir væru vextir. Í drögunum hafi staðið, að hún og stefnda Vilborg hefðu samþykkt að undirrita samninginn sem lántakendur, auk þess sem stefnda Vilborg mundi útvega eign til tryggingar kröfunni. Í samningnum hafi staðið, að „bein aðfararheimild“ yrði og jafnframt, að eignarrétturinn ætti að yfirfærast, ef til vanskila kæmi. Hún hafi bent Tim Thexton og Peter, sem hafi starfað fyrir Tim hér á landi, á, að eignarréttur á íbúðinni færðist ekki yfir með þeim hætti, sem samningurinn kvæði á um, en þeir hafi báðir sagst vita, að bein aðfararheimild væri rétta leiðin. Þar sem þeir hafi viljað hafa þennan háttinn á, að gert yrði fjárnám til tryggingar kröfunni, ef til vanefnda kæmi, væri ekkert því til fyrirstöðu. Tim hafi ætlað að leiðrétta samn­inginn í samræmi við það, sem um hefði samist og senda hann aftur, en síðar sama dag hafi hann sagst vera kominn í frí og ekki komast í tölvu til að laga samninginn. Hann hafi fallist á, að samningurinn ætti að vera eins og þau hefðu rætt, en þau yrðu að láta þetta standa svona og vissu bæði um hvað hefði verið samið.

Á þessum tíma hafi umbjóðandi stefndu Þuríðar verið kominn í veruleg vandræði vegna viðskipta og vantað fjármagnið, sem hann hafi átt að fá lánað samkvæmt samn­ingn­um. Af þessum ástæðum, og með hliðsjón af 11. tl. samningsins, hafi verið skrifað undir samninginn eins og hann hafi þá verið úr garði gerður, en í 11. tl. samningsins segi, að ef einhverjar hömlur eða skuldbindingar samningsins reyndust ógildar, en væru gildar, ef hluta þeirra væri breytt, þá skyldu slíkar hömlur gilda með þeim breytingum, sem þurfi til að þær verði gildar og skilvirkar. Þetta hafi þau Tim rætt sérstaklega. Stefnda Þuríður kveðst hafa gert meðstefndu Vilborgu grein fyrir því, að í samningnum væru villur og að sá, sem hefði samið hann, hefði fallist á, að hann skyldi gilda eins og farið hefði fram þeirra á milli símleiðis. Hún hafi treyst því að hann stæði við að breyta samningnum, en hún hefði ekki komið að því að semja samninginn eins og lögmaður stefnanda haldi fram.

Umbjóðandi stefndu Þuríðar hafi ekki staðið við greiðsluloforð sitt. Ástæður þess hafi verið veikindi og andlát konu hans, sem hafi látist um það leyti, sem átt hafi að greiða. Hann hafi svo sjálfur orðið mjög veikur, sykursýki hafi ágerst verulega og hár blóðþrýstingur, auk þess sem hann hafi ítrekað fengið hjarta­áfall. Heilsuleysi hans hafi því komið í veg fyrir, að hann gæti leyst það fjármagn, sem hann hafi ætlað til greiðslunnar.

Þessu til viðbótar verði að horfa til þess, að fráleitt sé að stefnda Þuríður hafi tekið að sér að greiða kröfuna persónulega í erlendri mynt, en vegna gjaldeyrishafta væri slík greiðsla óframkvæmanleg. Þess vegna hafi krafan um fasteignatryggingu einnig verið sett fram.

Kröfu um sýknu af kröfum stefnanda um endurgreiðslu styður stefnda Þuríður við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggern­inga, einkum 36. gr., sbr. og 32. og 33. gr. sömu laga. Ekki sé skuldasamband milli stefnanda og hennar, heldur aðeins viðskiptasamband.

Kröfu sína um höfnun á greiðslu 321.624 bandaríkjadala byggir stefnda Þuríður á því, að krafan standist ekki íslensk lög með vísan til laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu. Hvorki sé getið um hundraðshluta vaxta né vaxtaviðmiðun í samn­ingnum, en vextir samkvæmt 4. mgr. laganna skuli vera jafnháir vöxtum, sem Seðla­banki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverð­tryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Auk þessa sé ekki sundur­greint, hvað séu vextir og hvað sé þóknun, en það uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Í 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé kveðið á um dráttarvexti og að þeir skuli vera samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Okur­dráttarvaxtakrafa stefnanda, 10% vextir á dag í 10 daga, standist því ekki íslensk lög auk þess sem hún hafi aldrei verið samþykkt af stefndu. Slíkir dráttarvextir falli ekki undir heimild 2. mgr. 6. gr. laganna, sem fjalli um heimild til að semja um fastan hundraðs­hluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta með vísan til 1. mgr. sömu lagagreinar. Þá verði okurdráttarvaxtakrafa stefnanda að teljast ógild með vísan til 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, þar sem bersýnilegur mismunur sé á hags­munum þeim, er stefnandi áskilji sér og því endurgjaldi, sem fyrir þá skuli koma, þannig að endurgjaldið verði að teljast ósanngjarnt.

Kröfu um að hafnað verði varakröfu stefnanda um greiðslu á 124.000 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta og kröfu sína um að málinu skuli ljúka með greiðslu höfuð­stóls að fjárhæð 60.000 bandaríkjadalir, að viðbættum vöxtum til eindaga samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verð­tyggingu og dráttarvöxtum frá eindaga til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, styður stefnda Þuríður við áður tilvitnuð ákvæði samningalaga nr. 7/1936, lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Krafa stefndu Þuríðar um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, en krafan um að málskostnaður verði felldur niður við 3. mgr. sömu lagagreinar. 

Af hálfu stefndu Vilborgar er vísað til þess, að aðkoma hennar að málinu hafi eingöngu verið að setja fasteign sína til tryggingar kröfunni. Aldrei hafi staðið til, að hún tæki á sig persónulega ábyrgð á greiðslu kröfunnar og geti greiðslu­skylda hennar því aldrei verið umfram það, sem eignin seljist fyrir á nauðungar­uppboði. Því sé alfarið mótmælt, að eignarréttur fasteignarinnar færist yfir á kröfuhafa og þess krafist, að fullnustu verði leitað með aðför og nauðungarsölu, náist ekki sátt í málinu. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til 11. gr. samningsins, þar sem segi, að ef ein­hverjar hömlur eða skuldbindingar samningsins reyndust ógildar, en væru gildar, ef hluta þeirra væri breytt, þá gildi slíkar hömlur með þeim breytingum, sem þurfi til að þær verði gildar og skilvirkar.

Krafa um sýknu af kröfu um endurgreiðslu sé studd við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr., sbr. og 32. og 33. gr. Ekki sé um skuldasamband að ræða milli stefndu Vilborgar og stefnanda, heldur hafi fasteign stefndu verið sett að veði til tryggingar kröfunni og verði því að ganga að henni til fullnustu kröfunnar samkvæmt ákvæðum laga um aðför og laga um nauð­ungar­sölu.

Krafa stefndu um, að hafnað verði aðalkröfu stefnanda um greiðslu 321.624 bandaríkjadala sé byggð á því, að krafan standist ekki íslensk lög með vísan til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hvorki sé getið um hundraðshluta vaxta né vaxtaviðmiðun í samningnum og skuli þá vextir samkvæmt 4. gr. laganna vera jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Auk þessa sé ekki sundurgreint, hvað séu vextir og hvað þóknun og uppfylli það ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé kveðið á um dráttarvexti og að þeir skuli vera samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Okurdráttarvaxtakrafa stefnanda, 10% vextir á dag í 10 daga, standist því ekki íslensk lög auk þess sem hún hafi aldrei verið samþykkt af stefndu. Slíkir dráttarvextir falli ekki undir heimild 2. mgr. 6. gr. laganna, sem fjalli um heimild til að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta með vísan til 1. mgr. sömu lagagreinar. Þá verði okurdráttar­vaxtakrafa stefnanda að teljast ógild með vísan til 31. gr. samningalaganna nr. 7/1936, þar sem bersýnilegur mismunur sé á hags­munum þeim, er stefnandi hafi áskilið sér og því endurgjaldi, sem fyrir þá skyldi koma, þannig að endurgjaldið verði að teljast ósanngjarnt.

Krafa stefndu, um að hafnað verði varakröfu stefnanda um greiðslu á 124.000 bandaríkjadölum auk dráttarvaxta, og krafan um að ákveðið verði með dómi, að kröfufjárhæð stefnanda sé höfuðstóll að fjárhæð 60.000 bandaríkjadalir, að viðbættum vöxtum til eindaga samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu og dráttarvöxtum frá eindaga til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, styðjist við áður tilvitnuð ákvæði samningalaga nr. 7/1936, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafan um, að hvort aðili beri sinn kostnað af málinu er studd við 3. mgr. 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.

V

Eins og mál þetta er vaxið verður fyrst að leysa úr því, hvort stefnandi sé lánveitandi samkvæmt samningi milli aðila, sem er grundvöllur málshöfðunarinnar, og stefndu lántakendur, en óumdeilt er í málinu, að lánsfjárhæðin, 60.000 bandaríkjadalir, hafi verið greiddir inn á þá reikninga, sem áður greinir.

Stefnandi málsins heldur því fram, að hann hafi skuldbundið sig sem lánveitandi samkvæmt fyrirliggjandi samningi milli aðila frá 21. júlí 2009 að afla lánsfjár til handa stefndu. Þannig telur stefnandi sig eiginlegan eiganda kröfunnar og hafa fjármagnað lánið frá þriðja aðila. Stefndu halda því hins vegar fram, að aðilar samningsins hafi aðeins verið milligöngumenn um lánveitinguna milli ónafngreinds lánveitanda og lántaka.

Verður hér að líta til þess, að í samningi þeim, sem liggur máli þessu til grundvallar, er hvergi minnst á stefnanda sem lánveitanda, þó svo að stefndu hafi í samningi heimilað að láta vísa til sín í sameiningu sem „lántaka.“ Þykja ákvæði samningsins, þess efnis að stefnandi hafi milligöngu um að finna lánveitanda og að greiða höfuðstólinn til stefndu, benda fremur til þess, að stefnandi verði ekki talinn lánveitandi samkvæmt samningnum, enda segir svo skýrum orðum í samningnum sjálfum, að stefnandi hafi milligöngu í þessu tilliti. Þessu til stuðnings liggja þau ákvæði samningsins, sem setja fyrirvara um lánveitinguna við það, að fundinn verði lánveitandi, sem samþykki skilmála til lánveitingarinnar, og að stefnandi greiði ekki höfuðstólsupphæðina til stefndu, nema að því tilskildu, að féð sé móttekið frá lánveitanda. Þá verður ekki annað ráðið af samningnum, en að um sé að ræða viðskiptasamning milli tveggja milligönguaðila með það að markmiði, að stefnandi verði í fyrirsvari fyrir stefndu Þuríði við að finna lánveitanda, sem sé reiðubúinn til að lána stefndu Þuríði aflandslán, sem hún óski eftir fyrir hönd viðskiptavinar. Er samningurinn sjálfur með ákveðinn, endurnýjanlegan gildistíma og er hægt að segja honum upp. Engan gjalddaga er að finna í samningnum sjálfum, enda þótt gjalddaga sé að finna í viðauka 1 við samninginn, sem nefndur er „fylgiskjal 1“ í íslenskri þýðingu. Samkvæmt þessu verður því ekki talið, að stefnandi málsins sé lánveitandi á grundvelli ákvæða samningsins eins og hann heldur fram í málinu.

Stefnandi málsins hefur að öðru leyti ekki sýnt fram á, að hann fari með einhverjum hætti með forræði þeirra hagsmuna, sem um ræðir í málinu, s.s. með umboði hins eiginlega lánveitanda eða framsali kröfunnar. Breytir það ekki þessari niðurstöðu, að stefnandi skuli eiga að taka við endurgreiðslu lánsins, enda segir svo í samningi aðila málsins, að stefnandi taki að sér milligöngu um að greiða lánið út til lántaka, móttaka endurgreiðslu þess ásamt áföllnum vöxtum og þóknunum og greiða svo höfuðstólinn til lánveitanda með samþykktum vöxtum, en að frádreginni þóknun og miðlunargjaldi. Þótt getið sé vaxta og þóknunar, sem stefnandi áskilur sér samkvæmt samningnum og skulu vera innifalin í endurgreiðslufjárhæð lánsins, verður þó ekki ráðið, að stefnandi hafi forræði á kröfu um greiðslu þóknunar og vaxta eða miðlunargjalds, sem ekki eru sundurliðaðar fjárhæðir, úr hendi stefndu, enda er málatilbúnaður stefnanda ekki reistur á þeim grundvelli.

Að öllu þessu virtu þykir sýnt, að aðildarskortur er fyrir hendi í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og verða stefndu því sýknaðar af kröfum stefnanda.

Þegar af þessari ástæðu, þykja ekki efni til að fjalla frekar um önnur efnisatriði málsins, málsástæður eða kröfugerð aðila.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur til handa hvorrar stefndu og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þórólfur Jónsson, hdl., en af hálfu stefndu flutti málið Þuríður Kristín Halldórsdóttir, hdl.

Dóm þennan kveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari.

 

D Ó M S o r ð :

Stefndu, Þuríður Kristín Halldórsdóttir og Vilborg Edda Lárusdóttir, eru sýknaðar af kröfum stefnanda, Miltex Corporation, í máli þessu.

Stefnandi greiði hvorri stefndu 350.000 krónur í málskostnað.