Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2005
Lykilorð
- Leigusamningur
- Vörslur
- Ábyrgð
|
|
Þriðjudaginn 11.apríl 2006. |
|
Nr. 451/2005. |
G.P. Kranar ehf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Impregilo SpA Ísland, útibú (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Leigusamningur. Vörslur. Ábyrgð.
Aðilar deildu um hvort I bæri á grundvelli samninga þeirra að greiða G leigu vegna krana í þann tíma sem hann var ónothæfur, en kraninn hafði skemmst verulega þegar verið var að hífa hann um borð í skip í eigu S þann 3. maí 2004. Talið var að skilja yrði samninga aðila með þeim hætti að I hefði skuldbundið sig til að útvega og greiða fyrir flutning kranans, auk þess að tryggja hann með nánar tilgreindum hætti. Að virtu eðli og orðalagi samninganna var ekki talið að vörslur kranans hefðu verið hjá I þann 3. maí 2004 þannig að hann gæti borið ábyrgð á því tjóni sem krafa G laut að. Var I því sýknaður af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. október 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 41.003.513 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. nóvember 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er greint frá málsatvikum og málsástæðum aðila. Eins og þar kemur fram féll krani í eigu áfrýjanda til jarðar og skemmdist verulega þegar verið var að hífa hann um borð í skip í eigu Samskipa hf. 3. maí 2004. Kraninn var fluttur til Hollands til viðgerðar og kom hann aftur til landsins 6. október 2004. Ágreiningur aðila snýst um hvort stefnda beri á grundvelli samninga aðila að greiða áfrýjanda leigu vegna kranans í þá 127 daga sem hann var ónothæfur.
Fyrir liggja í málinu tveir samningar sem gerðir voru á milli stefnda og Grænafells ehf. frá 12. júlí 2003 og 29. apríl 2004, en áfrýjandi hefur fengið kröfur þess síðarnefnda á hendur stefnda framseldar. Með fyrri samningnum leigði stefndi ýmsa færanlega krana ásamt stjórnendum af Grænafelli ehf. til vinnu við framkvæmdir sínar við Kárahnjúkavirkjun. Voru vinnutækin sem slík ekki afhent stefnda, heldur gert ráð fyrir að stjórnun og umsjón þeirra væri í höndum Grænafells ehf. Í grein 2.11 í samningnum er vikið að flutningi tækjanna til og frá vinnusvæði stefnda og segir þar: ,,Mobilization/demobilzation of the equipment/machinery shall be arranged and paid by the Contractor up to the site.“ Síðari samningur aðila laut að leigu stefnda á þeim krana sem skemmdist 3. maí 2004 og segir þar meðal annars: ,,Transport for crane will be provided by Impregilo“ og ,,Impregilo is obligated to insure the crane in transport from shipside in Rvk to Reyðarfjörður shipside and back, lifting to and from ship included.“ Skilja verður grein 2.11 í fyrri samningnum og orðalag síðara samningsins með þeim hætti að stefndi hafi skuldbundið sig til að útvega og greiða fyrir flutning kranans, auk þess að tryggja hann með nánar tilgreindum hætti. Fram er komið að samið var á þennan veg vegna þess að stefndi hafði gert sérstakan flutningssamning við Samskip hf. og taldi í ljósi umfangs viðskipta sinna við flutningsfyrirtækið ódýrara að flytja tækin samkvæmt þeim samningi en ef Grænafell ehf. semdi við flutningsaðila. Að virtu eðli og orðalagi fyrrgreindra samninga stefnda og Grænafells ehf. verður ekki talið að vörslur kranans hafi verið hjá stefnda 3. maí 2004 þannig að hann geti borið ábyrgð á því tjóni sem krafa áfrýjanda lýtur að. Verður stefndi samkvæmt því sýknaður af kröfu áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu skal héraðsdómur vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Áfrýjandi lagði fram í málinu fjölda skjala á ensku, þar á meðal ofangreinda tvo samninga, en eins og fram er komið laut ágreiningur aðila að túlkun tiltekinna ákvæða þeirra. Bar áfrýjanda því að leggja samningana fram í íslenskri þýðingu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, G.P. Kranar ehf., greiði stefnda, Impregilo SpA Ísland, útibú, samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl. er höfðað með stefnu birtri 9. desember sl.
Stefnandi er G.P Kranar ehf., Skútahrauni 2a, Hafnarfirði.
Stefndi er Impregilo SpA Ísland, útibú, Lynghálsi 4, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 41.003.513 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. nóvember 2004 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað.
Til vara er gerð sú krafa að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
MÁLSATVIK OG MÁLSÁSTÆÐUR:
Með samningi dagsettum 29. apríl 2004 tók stefndi á leigu 72 tonna Liebherr krana með skráningarnúmerinu VG-539, hjá Grænafelli ehf., kt. 571002-2640, Leiruvogi 2, Reyðarfirði. Var kraninn tekinn á leigu til afnota fyrir stefnda við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Samkvæmt samningnum átti notkunartími hans að vera 10 tímar á dag og leigugjaldið miðað við þá notkun átti að nema 3.500,00 á dag. Á meðan á flutningi kranans stæði frá Reykjavík til Reyðarfjarðar og til baka og á meðan hann biði flutnings átti stefndi aðeins að greiða 70% af umsömdu leigugjaldi. Stefnandi kveður ástæðu þessa lægra gjalds hafa verið þá að gert hafi verið ráð fyrir því að ekki félli til launakostnaður vegna stjórnanda kranans á meðan hann væri á skipsfjöl.
Kraninn hafi verið afhentur stefnda í Reykjavíkurhöfn hinn 3. maí 2004 en stefndi hefði falið Samskipum h.f. að flytja hann austur á Reyðarfjörð. Þegar verið var að hífa kranann um borð í m/s Skaftafell vildi það óhapp til að stroffur slitnuðu með þeim afleiðingum að kraninn féll til jarðar og stórskemmdist. Eftir að skemmdirnar á krananum höfðu verið metnar af fulltrúum stefnanda, stefnda, skipafélagsins og umboðsaðila framleiðanda kranans, var ákveðið að flytja hann til Hollands til viðgerðar í verksmiðjum Liebherr.
Þegar kraninn hafi komið til Hollands hafi komið í ljós að útflutningsskjöl þau sem fylgdu honum hafi verið ófullnægjandi. Hollensk tollayfirvöld hafi gert kröfu til þess að sett yrði trygging sem næmi 30.000,00 og neitað Liebherr um að taka hann inn í landið. Hafi stefnandi leitað til stefnda um að hann legði fram þessa tryggingu en hann hafnað því. Í framhaldinu hafi Liebherr greitt þessa tryggingu og krafist í kjölfarið innágreiðslu á verkið sem næmi 60.000,00 en í þeirri fjárhæð var hafi tryggingin verið innifalin. Stefnandi hafi skrifað stefnda hinn 13. júlí s.l. og óskað eftir því að hann eða tryggingafélag hans legði fram þessa tryggingu en stefndi hafnað því í bréfi dags. 30. júlí 2004. Stefnandi hafi greitt þessa fjárhæð til Liebherr til að koma í veg fyrir að frekari tafir yrðu á viðgerðinni. Að lokinni viðgerðinni hafi Liebherr krafist greiðslu á 105.000,00 sem lokagreiðslu fyrir viðgerðarvinnuna. Hafi greiðsla þessarar fjárhæðar verið skilyrði fyrir afhendingu kranans. Enn hafi stefnandi snúið sér til stefnda með kröfu um að hann greiddi þessa fjárhæð eða setti tryggingu fyrir henni. Stefndi hafi hafnað því einnig og hafi svo farið að lokum að stefnandi hafi greitt þessa fjárhæð til að flutningur kranans heim gæti hafist. Þannig hafi stefnandi greitt allt tjón, bæði beint og óbeint, sem af þessu slysi hafi hlotist þrátt fyrir að stefndi og tryggingafélag hans hafi gengist við ábyrgð sinni á tjóninu.
Stefndi hafi þannig aldrei lagt neitt af mörkum til að flýta viðgerðinni og takmarka með því tjónið. Kraninn hafi verið fluttur út á vegum stefnda og það verið á ábyrgð hans að rétt væri að því staðið. Stefnanda verði því ekki kennt um það ef flutningsskjöl hafi ekki verið í lagi enda hafi hann ekkert komið að flutningi kranans til Hollands.
Kraninn hafi komið til landsins að lokinni viðgerð hinn 6. október s.l. Alls hafi kraninn því verið frá vinnu í 127 daga.
Stefnandi málsins sé umráðamaður kranans samkvæmt kaupleigusamningi við þinglýstan eiganda hans, Lýsingu h.f. Hann hefði leigt Grænafelli ehf. hann til framleigu við framkvæmdirnar á Austurlandi. Með samkomulagi dags. 22. júlí 2004 framseldi Grænafell ehf. allar kröfur sínar samkvæmt fyrrgreindum leigusamningi til stefnanda og um leið féll stefnandi frá öllum kröfum á Grænafell ehf. vegna leigu kranans.
Hinn 12. október s.l. gerði stefnandi stefnda reikning vegna leigu kranans á grundvelli fyrrgreinds leigusamnings. Með hliðsjón af ákvæðum samningsins um lægri leigu fyrir kranann á meðan hann væri í flutningi, gerir stefnandi kröfu um fullt leigugjald fyrir kranann í 63 daga eða 305.515 krónur á dag en um hlutagjald 213.861 krónur fyrir 64 daga. Sé þá lagt til grundvallar að stefnandi hafi átt kost á því að takmarka tjón sitt með því að segja upp kranastjóranum með lögmæltum uppsagnarfresti. Við reikningsgerðina sé miðað við gengi Evrunnar hinn 12. október 2004, þ.e.a.s. daginn sem reikningurinn var gefinn út.
Stefndi hafi mótmælt kröfu stefnanda þegar í stað með ýmsum rökum sem flest beinist að því að tafir á flutningi kranans til Hollands og tafir á viðgerð þar, hafi verið á ábyrgð stefnanda. Stefnandi hafni þessu þar sem kraninn hafi verið í vörslum stefnda þegar tjónið varð og ekki verið afhentur stefnanda aftur fyrr en hann hafi komið til landsins eftir viðgerðina. Það var flutningafyrirtækið Samskip h.f., sem var viðskiptavinur stefnda, sem flutt hafi kranann til Hollands, væntanlega að undirlagi stefnda en án nokkurs samráðs við stefnanda og hafi stefnandi aldrei átt neinn kost á því að hafa nokkur afskipti af þeim flutningi. Stefndi hafi einnig borið fyrir sig Force Majeure og telji að óviðráðanlegar ytri aðstæður hafi valdið tjóninu á krananum og haft í för með sér að ekki hafi verið unnt að efna leigusamninginn samkvæmt upphaflegu efni sínu. Þessu sé hafnað með vísan til þess að fyrir liggi að tjónið hafi orðið þegar starfsmenn Samskipa h.f. hafi verið að hífa kranann um borð í skip. Eingöngu handbrögð þeirra sjálfra hafi orðið þess valdandi að kraninn féll niður enda hafi ytri aðstæður verið hinar ákjósanlegustu í byrjun maí.
Stefndi hafi ekki sagt upp leigusamningnum né heldur tilkynnt um nokkrar breytingar á samningssambandi aðila. Hann hafi aldrei beint því til stefnanda að hann tæki við krananum að nýju og aldrei afsalað sér ábyrgð á tjóninu eða viðgerð kranans. Þvert á móti hafi hann lýst yfir ábyrgð sinni á þessu.
Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafi stefndi ekki orðið við því að greiða inná viðgerðina til Liebherr sem aftur hafi orðið til þess að tefja það að viðgerð hæfist. Til að forða frekara tjóni en orðið var hafi stefnandi gripið til þess ráðs að leggja fram 60.000 til að viðgerðin hæfist. Stefndi hafi á engu stigi þessa máls orðið við áskorunum stefnanda um að axla ábyrgð á málinu og leggja fram þá fjármuni sem nauðsynlegir hafi verið til þess að flýta heimkomu þessa verðmæta framleiðslutækis.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda fyrst og fremst á fyrrgreindum leigusamningi um kranann. Langtíma samningur hefði verið gerður um kranann og leigugjaldið verið ákveðið. Fyrir liggi því hvaða tekjum hann hefði skilað hefði tjónið ekki orðið á krananum. Stefnandi krefjist þess að stefndi efni þennan samning af sinni hálfu og greiði leigugjald fyrir kranann frá því að hann tók við honum hinn 3. maí og þar til hann skilaði honum í raun til stefnanda hinn 6. október s.l. en þá fyrst hafi stefnandi átt kost á því að koma honum í leigu á ný.
Í annan stað styðji stefndi kröfur sínar við sjónarmið skaðabótaréttarins um fullar bætur. Kraninn hafi skemmst á meðan stefndi bar ábyrgð á honum. Hann beri ábyrgð á tjóninu gagnvart stefnda burtséð frá því hvort sökin liggi hugsanlega hjá flutningafyrirtækinu. Hluti af tjóni stefnanda sé að sjálfsögðu missir tekna af krananum allan þann tíma sem liðið hafi frá því að stefndi tók við honum og þar til hann hafi komið til landsins á ný að lokinni viðgerð. Þetta tjón beri stefnda að bæta stefnanda að fullu. Fjárhæð tjónsins liggi fyrir samkvæmt leigusamningnum en hann skeri úr um það hverjar tekjur stefnanda hefðu orðið af útleigu kranans á þessu tímabili. Þar sem stefnda hafi borið að greiða olíu og annan rekstrarkostnað kranans en launakostnað stjórnandans sé ekki um neinn frekari frádrátt að ræða vegna sparaðra útgjalda en þegar hafi verið tekið tillit til í kröfugerð stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á almennum reglum samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga. Jafnframt vísar hann til reglna skaðabótaréttarins um bætur vegna tjóns af völdum réttarbrota innan og utan samninga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að samningur aðila hafi ekki verið leigusamningur með því efni sem stefnandi heldur fram, heldur hafi samningurinn um "Equipment for Hire" einungis verið um vinnuvélaleigu með stjórnanda, þ.e. að starfsmenn Grænafells skyldu vinna tiltekin verk á kranatækjum sínum á vinnusvæði stefnda á Kárahnjúkum skv. nánari fyrirmælum stefnda., sbr. gr. 2. 2. og 2. 5. í samningnum. Bæði Grænafell ehf. og stefnandi stundi þá starfsemi að leigja út vinnuvélar ásamt stjórnanda, sbr. útskrift af skráningu í Hlutafélagaskrá. Í því felist að kraninn sem slíkur sé ekki leigður og afhentur í vörslur stefnda heldur sé vinnuvélaþjónustan sem slík seld af Grænafelli ehf. til stefnda. Kranar þeir sem samningur aðila taki til skyldu því ávallt vera í vörslum Grænafells en aldrei hjá stefnda, eðli málsins samkvæmt, þar sem stjórnun krananna og umsjón hafi alfarið verið á hendi Grænafells. Hafi alls ekki verið gert ráð fyrir að stefndi léti sína starfsmenn stjórna krananum. Þessu til staðfestu er m.a. sú staðreynd að Grænafell skyldi taka CPE tryggingu á kranatækin á vinnusvæðinu til þess að mæta hugsanlegu tjóni sem hlytist af meðferð Grænafells á tækjunum á vinnusvæðinu. Skyldur stefnda skv. samningnum hafi einvörðungu verið að greiða tiltekið daggjald fyrir kranavinnu skv. þeim skilmálum sem nánar hafi verið kveðið á um í samningnum, eftir að kraninn hafi verið kominn í notkun á vinnusvæðinu svo og greiða fyrir flutning kranans frá Reykjavíkurhöfn og stjórnenda hans auk þess að taka umsamdar tryggingar í þágu Grænafells. Í samningnum sé hvergi tekið fram að kranatækin skyldu fara sem slík í vörslur stefnda á einhverjum tíma og vera á ábyrgð hans.
Af þessum ástæðum sé algerlega röng sú staðhæfing stefnanda, sem allur málatilbúnaður stefnanda byggist á, að stefndi hefði tekið hinn umrædda krana í sínar vörslur í Reykjavíkurhöfn þann 3. maí 2004 og haft hann í sínum vörslum er tjónið varð. Kraninn hafi verið í vörslum stefnanda þegar tjónið varð, það hafi verið starfsmenn stefnanda sem fluttu hann á hafnarsvæðið og höfðu umsjón með flutningi kranans um borð í m/s Skaftafell ásamt starfsmönnum Samskips, eins og komi fram í lögregluskýrslu og hafi starfsmenn stefnda þar hvergi komið nærri enda alfarið mál stefnanda að flytja kranann á vinnusvæðið, sbr. það að ef kraninn hefði verið fluttur á Reyðarfjörð hefðu starfsmenn Grænafells tekið við honum úr skipinu og komið honum á vinnusvæðið. Skylda stefnda hafi aðeins verið sú að sjá um að bóka og greiða fyrir flutning kranans með Samskipum. Að öðru leyti hafi flutningur kranans alfarið verið mál stefnanda.
Í öðru lagi er byggt á því að greiðsluskylda af hálfu stefnda hafi ekki stofnast þar sem tækið hafi aldrei farið af stað í flutning og hafi aldrei verið nýtt á vinnusvæðinu í þágu stefnda. Í gr. 3.1. í samningnum sé kveðið á um að gildistaka samningsins sé háð byrjun starfrækslu kranans á vinnusvæðinu. Af því leiði að vegna tjónsins hafi þessi tiltekni krani aldrei farið í þjónustu stefnda og engin greiðsluskylda stofnast hans vegna.
Af samningnum sé ljóst að Grænafell skyldi einvörðungu eiga rétt til leigugjalds fyrir kranann í samræmi við unnar vinnustundir á krananum á vinnusvæðinu, sbr. gr. 4. 1. og 4. 2. þar sem fram komi að reikningsgerð skuli fara fram 15 dögum eftir að byrjað sé að nota kraninn á vinnusvæðinu. Í gr. 4. 3. komi skýrt fram að ekkert gjald skuli greiðast fyrir tækið ef það sé í ónothæfu ástandi. Sú grein byggi á þeirri forsendu að tækið sé á vinnusvæðinu en bili. Af þessu leiði að þar sem kraninn hafi aldrei farið á vinnusvæðið hafi ekki stofnast greiðsluskylda fyrir stefnda. Hafa beri í huga að samkvæmt samningnum hafi Grænafelli borið að leggja til annað tæki í stað þess sem kynni að bila á vinnusvæðinu. Í samræmi við þetta hafi stefnanda auðvitað borið skylda til þess að flytja annan krana á vinnusvæðið í stað þess sem skemmdist við flutning um borð í m/s Skaftafell. Það hafi stefnandi ekki gert og hafi stefndi orðið að leita annað.
Í samkomulaginu frá 29. apríl 2004 komi fram sú krafa Grænafells að 70% daggjalds skylda greiðast fyrir flutningstíma kranans. Aldrei hafi stofnast greiðsluskylda á grundvelli þessa þar sem flutningur kranans hafi aldrei hafist frá Reykjavík en flutning beri að telja frá og með þeirri stundu að skip leggur úr höfin.
Í þessu efni beri að hafa í huga að einu skyldur stefnda skv. samningnum, aðrar en þær að greiða daggjald fyrir mann og tæki á vinnusvæðinu, hafi verið að sjá um að bóka og greiða fyrir flutning kranans frá Reykjavík að Kárahnjúkum, og svo að kaupa tryggingar í þágu Grænafells. Við þessar skyldur hafi stefndi staðið. Stefnandi eigi því engar fjárkröfur á hendur stefnda umfram það sem kunni að fást bætt út úr tryggingunni. Vekja beri athygli á því að ekki sé byggt á því af hálfu stefnanda að stefndi hafi vanrækt samningsskyldur sínar um kaup á tryggingum í þágu stefnanda.
Ákvörðun um viðgerð kranans hafi alfarið verið tekin af Grænafelli/stefnanda, eðli málsins samkvæmt. Í samningnum sé kveðið á um það í gr. 2. 10, að ef tæki bilaði á vinnusvæðinu skyldi engin leiga greidd á meðan tækið væri í viðgerð og skyldi stefnandi skipta tækinu út ef viðgerð tækist ekki innan 7 daga. Í gr. 2. 7. segi að öll viðgerðarvinna og viðhaldsvinna við tækin sé á ábyrgð Grænafells. Ljóst sé því að undir engum kringumstæðum skyldi stefndi annast um viðgerð þeirra krana sem samningurinn tók til. Fullyrðingar stefnanda þess efnis að stefnda hafi borið að flytja kranann til viðgerðar og sjá um skjalagerð og greiðslur á viðgerðarkostnaði séu í algeru ósamræmi við samning aðila.
Með því að stefnandi hafi ekki látið stefnda í té annað tæki í stað hins bilaða krana eins og samningur aðila kveði skýrlega á um, hafi hann vanefnt samninginn.
Fallist dómurinn á það að kraninn hafi komist í vörslur stefnda við það eitt að hann skyldi taka að sér bókun og greiðslu flutnings frá Reykjavík að Kárahnjúkum, er byggt á því að ábyrgð hans sé bundin við þau réttindi sem hinar samningsbundnu tryggingar kunni að veita stefnanda. Er bent á að stefnandi hafi væntanlega krafið tryggingafélag stefnda og eða Samskip um tjónabætur og fengið þannig allt tjón sitt bætt.
Þá er og bent á að samningurinn kveði á um mjög rúmar Force Majeure ábyrgðarleysisástæður. Í samningnum sé gert ráð fyrir að aðilar losni undan ábyrgð vegna tjónsatvika sem þeir hafi ekki vald á.
Ef ekki verður talið að Force Majeure ákvæðið samningsins eigi við um tjónsatburðinn er á því byggt að þrátt fyrir dómurinn líti svo á að stefndi hafi haft vörslur kranans hafi Grænafell/stefnandi borið áhættuna af því að kraninn skemmdist af ástæðum sem stefnda verði ekki um kennt. Þetta sé í samræmi við almennar reglur í leigurétti um að leigusali beri áhættuna af því að leiguandlagið ferst eða skemmist af tilviljun á meðan leigutími varir, einnig eftir að afhending hefur farið fram og leigutaki tekið við vörslum hins leigða. Er í þessu sambandi enn bent á tilgang aðila málsins með því að stefndi keypti tryggingar í þágu Grænafells/stefnanda. En þeim tryggingum hafi m.a. verð ætlað að mæta tjóni á krananum í flutningi. Ábyrgð stefnda sé því skv. samningnum takmörkuð við úrlausn tryggingarfélagsins ef til tjóns kemur í flutningi.
Töluleg kröfugerð sé í engu samræmi við samninga aðila og raunar fjarstæðukennd. Í fyrsta lagi sé krafan sótt í íslenskum krónum, þrátt fyrir að umsamið endurgjald sé í Evrum. Í öðru lagi krefji stefnandi um fullt leigugjald eins og verið hefði ef stefnandi hefði notað kranann á vinnusvæðinu í þágu stefnda.
Stefnukrafan sé þannig fengin að margfaldað sé, annars vegar gjald sem nemi 10 klst. vinnu pr. dag á vinnusvæðinu, 305.515 krónur á dag með 63 daga notkun, alls 19.247.445 krónur og hins vegar, með því að margfalda 70% af fullu tímagjaldi 213.861 krónur á dag með 64 daga notkun, alls 13.687.104 krónur. Að viðbættum virðisaukaskatti fáist út stefnufjárhæðin. Um sé að ræða 127 daga tímabil frá 3 mái 2004 þar til kraninn kom til landsins úr viðgerð þann 6. október 2004.
Í fyrsta lagi sé ljóst að stefnandi eigi ekkert tilkall til leigugjalds úr hendi stefnda þar sem kraninn hafi aldrei komist á vinnusvæðið og aldrei verið nýttur þar í þágu stefnda, eins og samningurinn mæli fyrir um. Greiðsluskylda vegna afnota í 63 daga hafi því alls ekki stofnast.
Í öðru lagi sé ljóst að hlutagreiðslan í 64 daga eigi við engin rök að styðjast. Bersýnilegt sé að stefnandi krefji stefnda um gjald fyrir þann tíma sem tekið hafi að flytja kranann til Hollands til viðgerðar, þ.m.t. þann tíma sem kraninn hafi verið í reiðileysi í höfn í Hollandi vegna skorts á fullnægjandi innflutningspappírum inn í Holland. Þessi kröfugerð sé fráleit í ljósi þess að skylda stefnda hafi einungis lotið að því að greiða hlutagjald á meðan kraninn væri í flutningi frá Reykjavík að vinnusvæðinu að Kárahnjúkum. Aldrei hafi komið til þess flutnings eins og áður greini.
Það sé á ábyrgð stefnanda sem eiganda kranans að koma honum í notkunarhæft ástandi. Viðgerðartíminn verði undir engum kringumstæðum á kostnað stefnda.
Staðhæfingar stefnanda um að kraninn hafi verið fluttur til Hollands til viðgerða á vegum stefnda og að það hafi verið stefnda um að kenna að flutningsskjöl hafi verið ófullnægjandi séu beinlínis rangar.
Verði talið að greiðsluskylda sé til staðar af hálfu stefnda er ljóst að lækka beri fjárkröfur stefnanda verulega.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi ber fyrir sig að samkvæmt samningi frá 29. apríl 2004 og samningi frá 12. júlí 2003 milli stefnda og Grænafells ehf., en stefnandi hefur fengið kröfur Grænafells á hendur stefnda framseldar samkvæmt samkomulagi frá 22. júlí 2004, beri stefnda að greiða leigu fyrir 72 tonna Liebherr krana frá 3. maí 2004 til 6. október sama árs.
Samkvæmt samkomulagi Grænafells ehf. og stefnda skyldi stefndi annast flutning á bílkrananum frá Reykjavík til Reyðarfjarðar og kaupa tryggingu á tækið meðan á flutningi stæði frá skipshlið í Reykjavík að skipshlið á Reyðarfirði, þar á meðal meðan á hífingu stæði. Er verið var að hífa bílkranann um borð í skip í Reykjavíkurhöfn féll hann og skemmdist svo að hann varð ónothæfur. Vegna þessa var Grænafelli ehf. ekki unnt að uppfylla þær skyldur sem á því fyrirtæki hvíldu samkvæmt samningi aðila, þ.e. að sjá til þess að á virkjanasvæðinu væri bílkrani með stjórnanda sem stefndi gæti beitt við þau verk sem þar skyldu unnin. Ekki er um það deilt að stefndi keypti tryggingu eins og um var samið og að flutningur á krananum var undirbúinn og að stefndi stóð þannig við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi aðila að öðru leyti en því að stefnandi telur að hann hafi vanefnt greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi aðila.
Í samningi aðila frá 12. júlí 2003, grein 2. 10, segir að komi til veruleg bilun eða að tæki verði ónothæft svo nemi meira en tveimur vinnudögum og ef tæki vinni ekki eðlilega skuli eigandi þess gera við eða skipta um tæki innan 7 vinnudaga frá því að bilunar verður vart. Á þeim tíma skuli ekki innheimta leigu.
Ljóst má vera að bílkraninn varð ekki notaður vegna óhappsins og fram kemur að stefnandi eða Grænafell hlutaðist ekki til um að útvega stefnda tæki í staðinn og stóð þannig ekki við skyldur sínar samkvæmt samningi þeim sem hann vill byggja á hér, en samkvæmt tilvitnuðu samningsákvæði skyldi hann gera það.
Verður því ekki fallist á það með stefnanda að hann geti byggt kröfur á hendur stefnda á samningum aðila frá 27. apríl 2004 og 12. júlí 2003.
Kemur þá til úrlausnar hvort stefndi hafi borið ábyrgð á krananum eftir að hann var kominn að skipshlið í Reykjavíkurhöfn. Ekki er sýnt fram á það að stefndi hafi með sérstakri yfirlýsingu tekist á hendur ábyrgð á tjóni sem kynni að verða ef bílkrananum enda þótt hann hafi annast um að kraninn væri tryggður. Þá leiða almennar reglur um leigu ekki til þess að áhættan hafi færst yfir á stefnda er bílkraninn var kominn að skipshlið.
Er því ekki fallist á það með stefnanda að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart honum vegna tjóns þess er varð á krananum.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Impregilo Spa Íslandi, skal sýkn af kröfum stefnanda, GP Krana ehf.
Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.