Hæstiréttur íslands
Mál nr. 374/2007
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. desember 2007. |
|
Nr. 374/2007. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari) gegn Ara Kristjáni Runólfssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
(Björn L. Bergsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Miskabætur.
A játaði að hafa veist að B og stungið hann tvívegis með hnífi í brjóstkassa. Hann var í héraði sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og taldist brot hans varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Undi A þeirri niðurstöðu héraðsdóms og var hún því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Hins vegar krafðist A mildunar refsingar og lækkunar miskabótakröfu B. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert hefði komið fram í málinu er varðaði A og hugarástand hans er hann framdi verknaðinn þannig að leitt gæti til lækkunar refsingar hans. Var þá sérstaklega tekið fram að í ljós hefði verið leitt að atlaga ákærða hefði verið slík að hending ein hefði ráðið því að B lést ekki samstundis og að það hefði verið fyrir sérstakt snarræði lækna að lífi hans var bjargað. Þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ár. Um miskabótakröfu B kemur fram í niðurstöðu Hæstaréttar að ákærði hefði gerst sekur um alvarlega meingerð gegn lífi B, sem framin hefði verið af ásetningi og ætti krafan því stoð í a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 37/1999. Þóttu miskabætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða Hallgrími Pétri Gústafssyni aðallega 2.500.000 krónur, en til vara 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl til 1. júlí 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og krafa Hallgríms Péturs Gústafssonar lækkuð.
I.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi hefur ákærði játað að hafa veist að Hallgrími Pétri Gústafssyni að kvöldi þriðjudagsins 3. apríl 2007 og stungið hann tvívegis með hnífi í brjóstkassa. Var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir tilraun til manndráps og taldist brot hans varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Unir ákærði þessari niðurstöðu og er hún ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Hann ber því hins vegar við að ekki hafi verið fallist á röksemdir hans til refsilækkunar, en þar vísar hann einkum til ákvæða 2. mgr. 20. gr., 5., 6., 7. og 8. töluliðs 1. mgr. 70. gr., 4. og 9. töluliðs 1. mgr. 74. gr., 75. gr. og 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga.
Í héraðsdómi er lýst atlögu ákærða að brotaþola. Ekkert er fram komið að neitt það sem greinir í tilvitnuðum lagaákvæðum eigi við um ákærða og hugarástand hans er hann framdi verknaðinn og geta þau því ekki leitt til lækkunar refsingar hans. Í héraðsdómi er því lýst að brotaþoli komst undir læknishendur fljótlega eftir atlöguna. Hjartaskurðlæknir var kallaður til aðgerðar og hefur hann í vottorði 17. maí 2007 lýst læknismeðferð brotaþola. Er í ljós leitt að atlaga ákærða var slík að hending ein réði að brotaþoli lést ekki samstundis og að það var fyrir sérstakt snarræði lækna að lífi hans var bjargað. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ár.
II.
Hallgrímur Pétur Gústafsson hefur krafist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Hann vísar til áðurgreinds læknisvottorðs 17. maí 2007 og kveðst vegna þeirra miklu áverka sem hann hlaut hafa verið óvinnufær til þessa dags. Hann sé undir eftirliti heimilislæknis og í sjúkraþjálfun og fái endurhæfingarlífeyri úr almannatryggingum til 30. apríl 2008. Á því ári sé fyrirhuguð atvinnuendurhæfing til þess að stuðla að því að hann geti hafið vinnu á ný, en hann hafi á liðnum árum unnið erfiðisvinnu við sjómennsku.
Fram er komið að Hallgrímur býr enn við mikinn heilsubrest vegna árásar ákærða og að ekki sé vitað hvort um varanlega skaða verði að ræða. Með breytingu þeirri sem gerð var á 26. gr. skaðabótalaga með 13. gr. laga nr. 37/1999 var heimild til ákvörðunar miskabóta rýmkuð. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er ljóst að heimild til að ákveða bætur samkvæmt 26. gr. sé sjálfstæð, en þær geti jafnframt komið til viðbótar þjáningabótum samkvæmt 3. gr. laganna og bótum fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. þeirra. Unnt er að taka kröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga til greina án tillits til þess hvort brotaþoli síðar hafi uppi bótakröfu á grundvelli ákvæða I. kafla laganna. Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gegn lífi Hallgríms, sem framin var af ásetningi. Krafa Hallgríms á því stoð í a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og er þá haft í huga að þær taka ekki mið af því hver varanlegur miski kann að verða metinn. Verða þær dæmdar með vöxtum eins og í dómsorði segir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ari Kristján Runólfsson, sæti fangelsi í 8 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 4. apríl 2007.
Ákærði greiði Hallgrími Pétri Gústafssyni 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2007 til 1. júlí sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 463.298 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2007.
Ríkissaksóknari höfðaði málið með ákæru útgefinni 6. júní 2007 á hendur ákærða, Ara Kristjáni Runólfssyni, kt. 271267-5929, Bjargarstíg 2, Reykjavík, fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 3. apríl 2007, í íbúð 501 að Hátúni 6, Reykjavík, veist að Hallgrími Pétri Gústafssyni, fæddum 1959 og stungið hann tvívegis með hnífi í brjóstkassa með þeim afleiðingum að önnur stungan fór í gegnum brjóstvegg og kom við það gat á framvegg hjarta, sem olli lífshættulegri blæðingu út í gollurhús. Er háttsemin talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Hallgrímur Pétur Gústafsson, Skipasundi 55, Reykjavík, krefst þess að ákærði verði jafnframt dæmdur til greiðslu 2.500.000 króna miskabóta með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 3. apríl til 1. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess að háttsemin verði færð undir 2. mgr. 218. gr. hegningarlaganna, í stað 211. gr., sbr. 20. gr. og hann dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá verði miskabætur lækkaðar verulega frá því, sem krafist er.
I.
Að kvöldi þriðjudagsins 3. apríl kl. 20:29 var Neyðarlínunni tilkynnt að maður hefði verið stunginn með hnífi í íbúð á 5. hæð fjölbýlishússins að Hátúni 6. Þegar lögregla kom að húsinu, 1-2 mínútum síðar, tók ákærði ofurölvi á móti henni og skýrði frá því að hann hefði stungið mann með hnífi í greindri íbúð. Er þangað kom tók ölvaður húsráðandi, Leó Kristján Sigurðsson, á móti lögreglu og vísaði henni á Hallgrím Pétur Gústafsson, sem sat ölvaður í sófa í stofunni og naut aðhlynningar Brynjólfs Óskarssonar og Smára Jónssonar. Á sófaborði lá blóðugur steikarborðhnífur með 11,2 sentimetra (sm.) löngu blaði og á gólfinu var svipaður hnífur með brotnu skefti. Hnífarnir voru eign húsráðanda. Hallgrímur var færður með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH), þangað sem komið var með hann um kl. 21, en aðrir voru færðir á lögreglustöð.
II.
Sérfræðingar lögreglu voru kvaddir á vettvang um kvöldið til tæknirannsókna og töku ljósmynda af innanrými íbúðarinnar, en í framhaldi var hún innsigluð kl. 22:40. Eru nefndar ljósmyndir meðal gagna málsins, ásamt vettvangsskýrslu og afstöðuteikningu. Af téðum gögnum er ljóst að um er að ræða stúdíóíbúð, þ.e. eitt stofurými, með holi, eldhúsi og svefnaðstöðu. Þegar gengið er inn í holið er fataskápur á vinstri hönd og beint á móti er lítið salerni, sem er eina lokaða vistarvera íbúðarinnar. Handan við skápinn er svefnrými og þaðan er að mestu opið inn í stofuna. Þar má sjá þriggja sæta sófa við norðurvegg íbúðarinnar og tveggja sæta sófa við austurvegg, sem liggja hornrétt hvor að öðrum. Fyrir framan sófana er stofuborð og handan þess stórt sjónvarpstæki, á glerborði, sem stendur við léttan suðurvegg og er sá veggur litlu lengri en glerborðið. Þegar setið er í stærri sófanum er bein sýn á sjónvarpið, en einnig má horfa til vinstri, inn í eldhúsrýmið, þannig að einungis innrétting handan veggjarins, með skápum, hnífaparaskúffu og hefðbundnum eldhústækjum, er hulin sjónum þess er í sófanum situr. Úr sama rými er gengið út á svalir á austurhlið íbúðarinnar. Þar fann lögregla einn bjórkassa. Ljósmyndir úr stofunni sýna fjölda bjórdósa, tvo átekna vodkapela og fjögur glös á stofuborði, en þar fannst einnig hinn blóðugi borðhnífur. Búið var að færa borðið að sjónvarpstækinu og mun það hafa verið gert í þágu sjúkraflutningsmanna. Myndirnar, sem eru vel á annan tug, bera hvorki með sér að átök hafi átt sér stað í stofunni né heldur að glös hafi brotnað þar inni. Af vettvangsteikningunni má áætla að rúmir 7 metrar séu frá mótum sófanna tveggja að eldhúsrýminu, en þar rétt fyrir innan er hnífaparaskúffan.
III.
Víkur þá sögunni að Hallgrími Pétri, sem gekkst undir læknisskoðun á bráðamóttökunni strax eftir komu á LSH. Fór hún fram í þar til gerðu skoðunarherbergi og var framkvæmd af Tómasi Guðbjartssyni sérfræðingi í hjartaskurðlækningum. Á brjóstholi sáust tvö stungusár, annað um 1,5 sm. við vinstri kant bringubeins, sem úr dreyrði og hitt um 5 sm. langt við vinstri geirvörtu, með töluverðri blæðingu. Meðan á skoðun stóð hrakaði Hallgrími skyndilega og fór í hjartastopp. Í kjölfar hefðbundins hjartahnoðs var gripið til bráðabrjóstholsaðgerðar, gollurhús opnað og hjartanu komið af stað með beinu hnoði í allt að 10 mínútur og rafstuði. Í kjölfar þessa greindist rúmlega 2 sm. stunguáverki á framvegg hjartans, með mikilli blæðingu. Var fingur settur í gatið, Hallgrími gefið meira blóð og í framhaldi saumað fyrir. Hallgrímur var útskrifaður á Grensásdeild LSH 30. apríl, þar sem hann dvaldi fram til 3. eða 4. júní.
Tómas bar fyrir dómi að um lífshættulegan hjartaáverka hefði verið að ræða, þar sem skjót viðbrögð hefðu skilið á milli feigs og ófeigs í bókstaflegri merkingu. Fram kom í máli Tómasar að hjartastoppi fylgi skerðing á heilastarfsemi vegna blóðþurrðar, sem hafi í för með sér óafturkræfar breytingar að liðnum 4 mínútum. Hallgrímur hefði „dottið út“ í nær svo langan tíma, en með blóðgjöf og hinu beina hnoði hjartavöðvans hefði Tómasi tekist að viðhalda blóðflæði um líkamann. Hann kvað hjartaáverkann hafa gróið án varanlegra skemmda, taldi ósennilegt að sá áverki myndi hafa áhrif á lífsgæði Hallgríms í framtíðinni og kvað manninn vera á góðri leið með að ná bata að öðru leyti.
Hallgrími var tekið blóð til alkóhólákvörðunar kl. 23:05 að kvöldi innlagnar og mældist alkóhólstyrkur 2,63.
IV.
Á öðrum stað í borginni var ákærða og félögum hans dregið blóð til sams konar rannsókna, laust eftir kl. 22:30 sama kvöld. Í blóði ákærða mældist alkóhólstyrkur 2,71, í blóði Leós Kristjáns, 2,60, í blóði Brynjólfs 1,02 og í blóði Smára 1,41. Blóðsýni úr ákærða var einnig rannsakað með tilliti til annarra efna. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði komu í ljós díazepam (valium) og klórdíazepoxíð (librium), sem eru kvíðastillandi lyf og nítrazepam (mogadon), sem er svefnlyf. Segir í matsgerðinni að styrkur þess fyrstnefnda hafi verið svipaður og búast megi við í blóði við læknisfræðilega notkun þess, en styrkur hinna efnanna mun hærri. Loks segir að viðkomandi hafi verið undir miklum áhrifum áfengis þegar umrætt blóðsýni var tekið og einnig undir miklum slævandi áhrifum díazepams, klórdíazepoxíðs og nítrazepams, sem hafi enn aukið á ölvunaráhrif áfengisins. Jakob Kristinsson dósent hjá rannsóknastofunni staðfesti framangreint álit fyrir dómi og bar að nefnd áhrif væru þess eðlis að almennt teldist um „klíníska eitrun“ að ræða, sem krefðist læknishjálpar.
Ákærði var færður til réttarlæknisfræðilegrar skoðunar kl. 23:59 um kvöldið. Í vottorði viðkomandi héraðslæknis segir að ákærði hafi verið greinilega undir áhrifum áfengis og vart getað staðið í fætur. Hann hafi verið samvinnuþýður við skoðun, sem ekki hafi leitt í ljós ferska áverka. Ákærði mældist 185 sm. á hæð og vó 75 kíló.
V.
Leó Kristján Sigurðsson gaf skýrslu sakbornings að morgni 4. apríl. Hann kvaðst daginn áður hafa verið heima hjá sér að horfa á knattspyrnuleik milli PSV Eindhoven og Liverpool í Meistaradeild Evrópu, ásamt Hallgrími Pétri og Brynjólfi, en leikurinn hefði byrjað kl. 18:45 og verið sýndur í sjónvarpi. Ákærði og Smári hefðu bæst í hópinn nokkru síðar og þeir drukkið í sátt og samlyndi; bjór, rósavín og vodka. Skyndilega hefðu ákærði og Hallgrímur byrjað að rífast og það þróast í háværar deilur þeirra í milli. Leó kvaðst hvorki vita hvert tilefnið var né hvor þeirra hefði átt upptökin, en á tímabili hefðu mennirnir verið að metast um það hvor þeirra væri sterkari og „verið farnir að takast á“, aðallega með gagnkvæmum hrindingum. Að sögn Leó hefði hann brugðið sér út á svalir til að geta talað í síma í næði, en strax í kjölfarið hefði hann farið á salerni og dvalið þar um stund. Þegar hann hefði komið til baka hefði Hallgrímur legið í sófanum, Brynjólfur og Smári verið að hlúa að honum og ákærði verið á bak og burt.
Brynjólfur Óskarsson gaf skýrslu sakbornings að morgni sama dags. Hann kvaðst hafa farið ásamt Hallgrími Pétri heim til Leós Kristjáns í því skyni að horfa á nefndan kappleik. Þangað hefðu komið tveir ókunnir menn og annar þeirra, ákærði og Hallgrímur byrjað að rífast skömmu síðar, meðan á fyrri leikhluta stóð, en Brynjólfur ekki hlustað á orðaskiptin, enda upptekinn af leiknum. Hann kvaðst minna að staðan hefði verið 0-3 fyrir Liverpool, þegar ákærði hefði komið fram úr eldhúsinu með hníf í hægri hendi, gengið rakleitt að Hallgrími, þar sem hann hefði setið í sófa við hlið Brynjólfs og stungið hann tvívegis með hnífnum. Brynjólfur hefði þá sprottið á fætur og tekið í hendur ákærða, en við það hefði hann róast og sleppt hnífnum. Í framhaldi hefði Brynjólfur hringt í Neyðarlínuna og reynt að hlúa að Hallgrími.
Smári Jónsson gaf einnig skýrslu sakbornings sama morgun. Hann kvaðst hafa verið að horfa á umræddan kappleik ásamt Leó Kristjáni, Brynjólfi, Hallgrími Pétri og ákærða og hefðu tveir þeir síðastnefndu verið með sífellt skítkast í garð hvor annars, sér í lagi Hallgrímur, sem hefði haft á orði að ákærði væri falskur og lyginn. Mönnunum hefði síðan lent saman, en Leó og Brynjólfur skilið þá að. Að sögn Smára hefði hann haldið að þá væri allt fallið í ljúfa löð og hefðu þeir horft áfram á leikinn. Ákærði hefði síðan brugðið sér frá, komið til baka og Brynjólfur þá stokkið á ákærða og kallað „það er búið að stinga hann, það er búið að stinga hann“. Smári kvaðst ekki hafa séð atlögu ákærða að Hallgrími, enda verið upptekinn af kappleiknum, en í framhaldi hefði hann lagt handklæði að sári Hallgríms og séð blóðugan steikarhníf á stofuborðinu.
Hallgrímur Pétur Gústafsson gaf skýrslu vitnis af sjúkrabeði 23. apríl. Hann kvaðst muna lítið eftir atburðum á heimili Leós Kristjáns, en þangað hefði hann farið ásamt Brynjólfi vini sínum til að horfa á kappleik og fá sér neðan í því. Ákærði hefði komið á staðinn nokkru síðar við annan mann, þeir farið inn í eldhús og því næst sest inn í stofu. Skömmu síðar hefði ákærði staðið upp, farið öðru sinni inn í eldhús og eftir það myndi Hallgrímur ekkert eftir atburðum. Hann kvaðst vart þekkja ákærða og bar að hvorki hefði komið til orðaskaks eða stimpinga þeirra í milli né heldur hefði hann hótað ákærða, að minnsta kosti ræki hann ekki minni til þessa.
VI.
Ákærði var yfirheyrður eftir hádegi 4. apríl. Hann kvaðst hafa farið ásamt Smára heim til Leós Kristjáns til að horfa á nefndan kappleik, en auk Leós hefðu þar verið staddir Hallgrímur Pétur og einhver vinur hans. Að sögn ákærða hefði Hallgrímur fljótlega byrjað að gera uppsteyt og vera með leiðindi í hans garð og bæði ýtt og hrint honum til. Ákærði kvaðst ekki vita af hverju Hallgrímur hefði látið svona, en hinir hefðu reynt að fá hann ofan af þessu. Upp úr því hefðu ákærði og Hallgrímur byrjað að rífast, ákærði misst stjórn á skapi sínu, hann sótt eða tekið einhvern hníf og lagt til Hallgríms. Ákærði kvaðst telja að hann hefði stungið manninn tvívegis, á svæði við brjóstkassa og maga, en sagðist ekki geta lýst atlögunni eða aðdraganda hennar nánar, enda verið sljór af völdum áfengis- og lyfjaneyslu. Hann kvaðst halda að hann hefði verið í íbúðinni þegar lögregla kom á vettvang og sagðist ekki minnast þess að hafa tekið á móti lögreglu og rætt við hana fyrir utan fjölbýlishúsið.
Ákærði var samdægurs úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. maí, í þágu almannahagsmuna í skilningi 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem síðan hefur verið framlengt tvívegis og rennur á enda 11. júlí næst komandi.
Á gæsluvarðhaldstímanum hefur ákærði gefið tvær lögregluskýrslur, 17. apríl og 31. maí, en þann dag var honum birt framlögð bótakrafa. Við fyrri yfirheyrsluna vísaði ákærði til skýrslu sinnar 4. apríl. Einnig kom fram að Hallgrímur Pétur hefði hótað að henda ákærða fram af svölum fjölbýlishússins, en við hefði ákærði endurupplifað atvik frá unglingsárum þegar annar maður hefði hótað því sama og haldið á honum út á svalir. Fyrir vikið hefði ákærði orðið mjög hræddur við Hallgrím. Allt hefði þetta undið upp á sig, ákærði misst stjórn á skapi sínu og lagt til hans með hnífi. Aðspurður kvaðst ákærði hafa byrjað að drekka bjór og vodka á hádegi hinn örlagaríka dag, en auk þess hefði hann gleypt töluvert magn af librium, nosinal, mogadon og valium, sem væru allt róandi lyf.
VII.
Fyrir dómi dró ákærði ekki fjöður yfir það að hafa stungið Hallgrím Pétur tvívegis með hnífi í brjóstkassa, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru, en tók fram að þetta hefði gerst í kjölfar ögrunar og ertingar af hálfu Hallgríms. Ákærði lýsti annars atburðum svo að umrætt kvöld hefðu hann og Smári farið heim til Leós Kristjáns til að horfa á knattspyrnuleik og verið mættir um 60-90 mínútum fyrir leik. Hallgrímur og Brynjólfur hefðu verið þar fyrir og hópurinn sest sáttur að drykkju í stofu íbúðarinnar. Um stundarfjórðungi síðar hefði Hallgrímur byrjað með „skítkast og leiðindi“ í garð ákærða, sem hefði haldið áfram eftir að kappleikurinn hófst. Ákærði hefði reynt að leiða þetta hjá sér og hann og aðrir haldið áfram að drekka, en þegar líða tók á leikinn hefðu þeir verið orðnir pirraðir á Hallgrími. Sá hefði engu síður haldið uppteknum hætti, atast sífellt í ákærða, veist að honum og skömmu síðar hrint honum á sófaborð í stofunni með þeim afleiðingum að glös hefðu brotnað. Í framhaldi hefði Hallgrímur ítrekað hótað að henda honum fram af svölum íbúðarinnar. Kvaðst ákærði hafa orðið hræddur við þau orð, enda Hallgrímur „óárennilegur rumur“. Einnig hefði rifjast upp fyrir ákærða sambærilegt atvik frá unglingsárum þegar maður hefði hótað honum á sama veg, því næst tekið hann í fangið og haldið honum yfir svalahandriði á 5. hæð fjölbýlishúss. Hefði sú minning og endurupplifun atburðarins aukið enn á ótta ákærða og gert hann svo hræddan við Hallgrím að hann hefði í kjölfarið nánast skriðið út á svalagólf íbúðarinnar til að ná sér í bjór. Að sögn ákærða hefði hann haldið drykkjunni áfram eftir nefndar hótanir og einhverju síðar farið í „blackout“. Því myndi hann hvorki eftir að hafa tekið sér hníf í hönd og lagt til Hallgríms né að hafa rætt við lögreglu fyrir utan fjölbýlishúsið. Ákærði var spurður hví hann hefði ekki yfirgefið íbúðina í kjölfar ætlaðs framferðis Hallgríms og bar því við að hann hefði setið innst í stofunni, ofsahræddur og ekki talið sig geta komist klakklaust framhjá Hallgrími. Ákærði kvaðst ekki hafa átt neitt sökótt við Hallgrím frá fyrri tíð og sagðist vart þekkja hann.
Leó Kristján Sigurðsson hóf vitnisburð sinn fyrir dómi með þeirri yfirlýsingu að hann hefði verið manna fyllstur umrætt kvöld og myndi því ekki hvað hefði gerst. Í framhaldi greindi Leó frá því að Hallgrímur Pétur og Brynjólfur hefðu komið heim til hans í það mund er kappleikur PSV og Liverpool var að hefjast, en ákærði og Smári komið skömmu síðar. Í fyrstu hefði allt verið „í góðu“, en síðan hefði eitthvað gerst, sem væri „allt í þoku“ hjá Leó. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða mikið, en þó hafa horft á einhverja sjónvarpskappleiki með honum og einnig léð honum afnot af íbúð sinni í sama tilgangi. Ákærði hefði ávallt verið ljúfur sem lamb og teldi Leó að Hallgrímur hefði því átt upptökin að illdeilum við ákærða um kvöldið. Leó áréttaði sömu skoðun þrívegis við skýrslugjöfina og gat þess síðar að Hallgrímur hefði byrjað að atast í ákærða strax eftir komu þess síðarnefnda. Leó greindi og frá því að hann hefði átt flunkunýja Manchester United treyju með „SIGURÐSSON 22“ prentað á bakhlið, sem hann hefði sýnt ákærða og sá viljað taka gsm-mynd af honum í treyjunni. Hallgrímur hefði þá staðið á fætur, bannað myndatökuna með skætingi og hótað að henda Leó út úr eigin íbúð. Í kjölfarið hefði komið til einhverra stimpinga, en Brynjólfur gengið á milli og allt fallið í ljúfa löð. Einnig kom fram í máli Leó að Hallgrímur hefði hrint ákærða á stofuborðið, en við það hefðu 1-2 glös hrotið á gólfið og brotnað, en Leó þrifið glerbrotin daginn eftir þegar hann hefði verið laus úr haldi lögreglu. Að sögn Leó hefði hann farið út á svalir í lok fyrri leikhluta, um kl. 19:30, til að fá næði til að tala í síma, en þá hefði verið háreysti í stofunni og einhverjar „ýfingar“ milli ákærða og Hallgríms. Í framhaldi hefði hann farið á salerni, verið þar í smástund og þegar hann hefði snúið til stofu á ný hefði ákærði verið búinn að stinga Hallgrím hnífi og sá setið á austurenda stærri sófans, þar sem hann mætir minni sófanum. Aðspurður kvaðst Leó ekki minnast þess að hafa heyrt Hallgrím hafa í hótunum við ákærða um kvöldið.
Brynjólfur Óskarsson bar fyrir dómi að hann og Hallgrímur Pétur góðvinur hans hefðu verið að horfa á leik PSV og Liverpool heima í stofu hjá Leó Kristjáni og fá sér neðan í því þegar tvo ókunna menn hefði borið að garði, á um það bil 30-35 mínútu fyrri leikhluta. Hallgrímur hefði þá staðið á fætur og spurt annan mannanna, ákærða, að því er virðist í hávaðatón, hver hann væri og hvað hann væri að gera á staðnum. Eftir snörp orðaskipti við ákærða hefði Hallgrímur sest við hlið Brynjólfs að nýju, við austurenda stærri sófans, þeir horft áfram á leikinn og kjaftað saman meðan á hálfleik stóð. Þegar leikar hófust að nýju hefði ákærði komið inn í stofuna og sest í vesturenda sófann, við hlið Brynjólfs. Um 15-20 mínútum síðar hefði Brynjólfur séð ákærða koma fram úr eldhúsinu, smeygja sér framhjá honum í sófanum og stinga Hallgrím fyrirvaralaust tvisvar sinnum með hnífi, áður en Brynjólfur hefði náð að stöðva hann. Að sögn Brynjólfs hefði enginn aðdragandi verið að atlögunni og ákærði og Hallgrímur hvorki rifist né tekist á, eftir að Hallgrímur hefði ávarpað ákærða í fyrri leikhluta. Brynjólfur aftók með öllu að mennirnir hefðu rifist harkalega og kvað alrangt að Hallgrímur hefði einhverju sinni hrint ákærða á stofuborðið eða hótað að henda honum fram af svölum íbúðarinnar.
Hallgrímur Pétur Gústafsson bar fyrir dómi að hann og Brynjólfur hefðu verið að horfa á kappleik heima hjá Leó Kristjáni þegar ákærði hefði komið þangað við annan mann og þeir farið inn í eldhús, dvalið þar í 10-15 mínútur og því næst sest í stofusófa hjá Hallgrími og hinum og horft á leikinn. Hallgrímur kvaðst muna lítt eftir atburðarás í kjölfar þessa og bar fyrir sig minnisleysi vegna ölvunar. Hann sagðist hvorki minnast orðaskaks, pústra eða átaka við ákærða né heldur að hafa haft í hótunum og bar að hann hefði setið í stærri sófanum allan tímann, líklegast með Brynjólf sér við hlið. Aðspurður treysti Hallgrímur sér þó ekki til að andmæla framburði ákærða um framangreind atriði, en taldi ólíklegt að hann hefði hótað manni, sem hann vissi nær engin deili á og hefði ekki átt neitt sökótt við frá fyrri tíð. Hallgrímur kvaðst ekki eiga minningu um atlögu ákærða og ekki muna hvort leiknum hefði verið lokið þegar hann var stunginn. Hann kvaðst hafa útskrifast af Grensásdeild LSH 3. eða 4. júní. Í framhaldi hefði hann dvalið í viku á Hlaðgerðarkoti, en byggi nú tímabundið hjá barnsmóður sinni á meðan hann væri að jafna sig. Hann kvaðst hafa misst minnið í kjölfar atlögunnar, en það væri smám saman að koma til baka. Þá ætti hann fremur erfitt með gang, væri vart skriffær vegna skerðingar á fínhreyfingum handa og bæri enn greinileg ör á brjóstholi. Loks kom fram í máli Hallgríms að hann hefði misst pláss á frystitogara vegna nefndra atburða.
Smári Jónsson bar fyrir dómi að hann hefði farið ásamt ákærða heim til Leós Kristjáns til að horfa á leik PSV og Liverpool, ómeðvitaður um að hann myndi hitta þar fyrir Hallgrím Pétur og Brynjólf. Að sögn Smára hefðu hann og ákærði vart verið komnir í hús þegar Hallgrímur hefði stofnað til rifrildis við ákærða. Sá hefði beðið Hallgrím að hætta þessu, en hann ekki látið sér segjast og kallað ákærða bæði falskan og lyginn. Í framhaldi hefði Leó klætt sig í sérmerkta United treyju, ákærði viljað taka mynd af honum, en Hallgrímur brugðist ókvæða við, veist að ákærða og þrifið gsm símann af honum. Í kjölfar þessa hefði Hallgrímur hótað að henda ákærða fram af svölum íbúðarinnar. Bar Smári í því sambandi að hann hefði þekkt ákærða í tæp 20 ár og vitað af svipaðri reynslu hans frá unglingsárum. Sökum þessa hefði Smára verið ljóst að ákærði hefði orðið skíthræddur við Hallgrím og bar að hann hefði í framhaldi séð ákærða teygja sig eftir bjórkippu á svölum íbúðarinnar og setja hana á stofuborðið, en því næst hefði hann sest í stóra sófann, þannig að Smári hefði verið á milli ákærða og Hallgríms. Þegar mennirnir hefðu haldið áfram að rífast í sófanum hefði Smára verið nóg boðið og beðið Hallgrím að skipta við sig um sæti. Sá hefði í fyrstu neitað, en síðan sest í miðjuna við hlið ákærða, afar reiður. Einhverju seinna hefði Hallgrímur ráðist á ákærða í sófanum, Smári þá stokkið til og tekið hann ofan af ákærða. Þrátt fyrir þetta hefðu mennirnir haldið áfram að kýta og ákærði þá fyllst ofsahræðslu vegna fyrri hótunar, hann staðið á fætur og farið fram í eldhús. Að sögn Smára hefði hann haldið að ákærði væri að sækja meiri bjór, en hann þó ekki fylgst með því, enda upptekinn af kappleiknum. Brynjólfur hefði síðan hrópað að búið væri að stinga Hallgrím og í kjölfar þess hefði Smári séð blóðugan hníf á stofuborðinu. Einnig kom fram í máli Smára að einhvern tíma í framangreindri atburðarás hefði ákærði verið að sækja bjór og Hallgrímur þá hrint honum á sófaborðið með þeim afleiðingum að glas hefði brotnað. Smára var kynntur öndverður vitnisburður Brynjólfs og sagði hann alrangan. Þá leiðrétti Smári þá frásögn sína hjá lögreglu að um gagnkvæmt „skítkast“ hefði verið að ræða milli ákærða og Hallgríms, áréttaði að sá síðarnefndi hefði átt upptökin og einn haft sig í frammi. Smári gaf þá skýringu á fyrri framburði að hann hefði verið í mikilli geðshræringu eftir handtöku og næturdvöl í fangageymslu og hann einnig óttast um líf góðvinar síns.
VIII.
Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sambandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærða, bæði um atriði er varða sekt hans og önnur, sem telja má honum í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunarmat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.
Ákærða er gefin að sök tilraun til manndráps, með því að hafa veist að Hallgrími Pétri Gústafssyni og stungið hann tvívegis með hnífi í brjóstkassa með þeim afleiðingum að önnur stungan rauf gat á hjarta og olli lífshættulegri blæðingu, svo sem nánar er lýst í ákæru. Í málinu liggur fyrir játning ákærða á framangreindum verknaði og viðurkenning á afleiðingum hans. Samrýmist sú játning vitnisburði Brynjólfs Óskarssonar og Smára Jónssonar fyrir dómi og fær nokkra stoð í dómsvætti Leós Kristjáns Sigurðssonar. Með hliðsjón af framangreindu, vitnisburði Tómasar Guðbjartssonar, sem dómurinn telur að hafi óefað bjargað lífi Hallgríms á undraverðan hátt og loks með vísan til hæstaréttardóma 25. janúar 2007 í máli nr. 415/2006 og 1. mars 2007 í máli nr. 562/2006, leikur enginn vafi á því að heimfæra beri háttsemi ákærða undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda langlíklegast að bani hlytist af svo hættulegri atlögu, sem raun ber vitni. Er hann þannig sannur að sök um tilraun til manndráps.
Kemur þá til álita hvort ákærði eigi sér einhverjar málsbætur. Við mat á því ber fyrst að líta til þess að ákærði var undir miklum áhrifum áfengis og slævandi lyfja, sem eflaust hafa skert dómgreind hans að verulegu leyti. Það eitt getur þó hvorki fríað hann ábyrgð né leitt til refsimildunar samkvæmt 17. eða 75. gr. almennra hegningarlaga, en hvorugri varnarástæðu var reyndar teflt fram fyrir dómi. Eftir stendur hvort ákærði geti borið fyrir sig ákvæði 4. töluliðs 1. mgr. 74. gr. laganna, sem kveður á um að færa megi refsingu niður úr lögmæltu lágmarki, hér 5 ára fangelsi, ef brot er framið í mikilli reiði eða geðæsingu, sem sá er fyrir broti verður, hefur vakið með ólögmætri árás eða stórfelldri móðgun. Loks má líta til þess, þó því hafi ekki verið haldið sérstaklega fram af hálfu ákærða, að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga má einnig lækka refsingu þegar af tilraun má ráða að viðkomandi brotamaður sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má um menn, sem fullfremja sams konar brot.
Af framburði ákærða og vitna er ekki aðeins erfitt heldur ógerlegt að ná fram heildstæðri mynd af atburðarás, en að Hallgrími frátöldum höfðu allir sjónarvottar réttarstöðu sakbornings á rannsóknarstigi málsins. Ber í ljósi þessa að leggja til grundvallar frásögn sömu skýrslugjafa fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laganna um meðferð opinberra mála. Það eitt leysir þó fráleitt úr vanda dómsins að fóta sig á raunverulegum staðreyndum, enda voru allir skýrslugjafar ýmist ölvaðir eða ofurölvi. Samkvæmt áðursögðu eru ekki lagarök til að synja um þá staðhæfingu ákærða, sem studd er vitnisburði Leós og Smára, að Hallgrímur hafi reynst honum þungur í skauti og ekki er efni til að hrinda því að Hallgrímur hafi í það minnsta veist að ákærða og hótað að henda honum fram af svölum íbúðar Leós, án þess þó að kæmi til líkamlegrar valdbeitingar. Á hitt er að líta að af dómsframburði ákærða verður ekki annað ráðið en að rof hafi orðið á áreiti Hallgríms og einhver tími liðið þar til ákærði stakk hann hnífi. Fær sú ályktun stoð í vitnisburði Hallgríms, Brynjólfs og Smára, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, þótt með ólíkum hætti sé. Þá liggur nægjanlega fyrir að ákærði hafi staðið upp úr sófa í stofu nefndrar íbúðar, farið fram í eldhús, komið til baka og fyrirvaralaust lagt til Hallgríms með hnífi. Í ljósi þessa og annarra atvika, sem vitnum virðist bera saman um, er sú frásögn ákærða hláleg að hann hafi ekki þorað að yfirgefa íbúðina af ótta við Hallgrím. Að þessum staðreyndum gættum er ekki unnt að fallast á að tilgreint ákvæði 74. gr. almennra hegningarlaga geti horft til refsilækkunar. Með hliðsjón af því að ákærði virðist hafa haldið að hann væri staddur í íbúð Leós þegar lögregla kom á staðinn og hefur með trúverðugum hætti greint frá því að hann minnist þess alls ekki að hafa rætt við lögreglu fyrir utan umrætt fjölbýslishús og játað glæp sinn, þykir dóminum rétt, með vísan til 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 6. og 8. tölulið 1. mgr. 70. gr. sömu laga, að líta eins mildilega á háttsemi ákærða og frekast er unnt innan ramma 211. gr. nefndra refsilaga.
Ákærði er tæplega fertugur að aldri. Hann hefur áður gengist undir sektir vegna umferðarlagabrota og var 14. maí 2007 dæmdur í 84.000 króna sekt fyrir eignaspjölll. Ber að að taka mið af þeim dómi, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, þótt ekki hafi það raunhæfa þýðingu við refsiákvörðun nú. Þegar litið er til alls þess, sem nú hefur verið rakið og gætt er ákvæða 1.-4. töluliðs 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, eigi síst þess að annað hvort kraftaverk eða læknisfræðilegt afrek réði því að Hallgrímur er á lífi, telur dómurinn að refsing ákærða sé hæfilega ákveðin 6 ára fangelsi. Til frádráttar þeirri refsingu skal koma óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. apríl 2007, sbr. 76. gr. hegningarlaganna.
Í ljósi framangreindra málsúrslita leikur enginn vafi á því að ákærði er bótaskyldur samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Með hliðsjón af öllum atvikum máls og afleiðingum árásarinnar þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Skal sú fjárhæð bera vexti samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2007 til 1. júlí sama ár, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Loks ber með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar, en til hans teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 164. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir sakarkostnaðaryfirlit ákæruvaldsins að fjárhæð krónur 254.794 krónur, sem ákærða ber þannig að greiða. Við þetta bætast nú málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Hallgríms Péturs, vegna lögmannsþjónustu á rannsóknar- og dómsstigi máls. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til mætinga hjá lögreglu og fyrir dómi þykja laun verjandans hæfilega ákveðin 453.180 krónur og þóknun réttargæslumannsins 194.220 krónur, hvoru tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Björn Þorvaldsson saksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ari Kristján Runólfsson, sæti fangelsi í 6 ár, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 4. apríl 2007.
Ákærði greiði Hallgrími Pétri Gústafssyni 1.500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2007 til 1. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 902.194 krónur í sakarkostnað, þar með talin 453.180 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 194.220 króna þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Hallgríms Péturs.