Hæstiréttur íslands

Mál nr. 324/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Aðfinnslur


                                                        

Þriðjudaginn 8. júní 2010.

Nr. 324/2010.

Ásvík ehf.

(Guðmundína Ragnarsdóttir hdl.)

gegn

Unni Valdemarsdóttur

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Á ehf. gegn U var vísað frá dómi án kröfu. Í málinu krafði Á ehf. U um ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs húss auk skaðabóta fyrir tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í viðskiptum við U vegna vanefnda hennar. Talið var að Á ehf. hafi ekki tekið tillit til þess við framsetningu kröfu sinnar að hann hafi ekki afhent hið selda í umsömdu ástandi né tekið tillit til annarra atriða sem máli skiptu fyrir kröfugerð hans. Málið væri þannig vanreifað og í andstöðu við fyrirmæli d. og e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að „málskostnaður í úrskurði verði felldur niður“ og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Það athugist að í skriflegri kæru sóknaraðila er í löngu máli fjallað almennt um deiluefni aðila í stað þess að takmarka efni kærunnar við þau atriði sem máli skipta við úrlausn á kröfu sóknaraðila um endurskoðun hins kærða úrskurðar. Er þetta ámælisvert.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ásvík ehf., greiði varnaraðila, Unni Valdemarsdóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur7. maí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 27. apríl sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefndu 14. maí 2009.

Stefnandi er Ásvík ehf., Malarási 3, Reykjavík, en stefnda er Unnur Valdemarsdóttir, Grenibyggð 38, Mosfellsbæ.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum skuld að fjárhæð 8.211.656 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 803.109 krónum frá 27. mars 2008 til 16. apríl 2008, af 992.516 krónum frá 16. apríl til 6. júní 2008, af 1.262.750 krónum frá 6. júní til 20. júní 2008, af 1.818.930 krónum frá 20. júní til 1. ágúst 2008, af 6.488.930 krónum frá 1. ágúst til 22. ágúst 2008 og af 8.211.656 krónum frá 22. ágúst 2008 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Málsatvik

Aðila greinir á um málsatvik, en samkvæmt gögnum málsins eru þau í megindráttum eftirfarandi:

Með kauptilboði 24. maí 2007 skuldbatt stefnda sig til að kaupa af stefnanda einingahús, sem framleitt var af fyrirtækinu Borohus AB í Svíþjóð og skráð í kynningarbæklingi undir heitinu „Narke 144.“ Húsið var selt samsett, þ.e. upp komið, en án lóðar, en stefnda hugðist reisa það á lóðinni nr. 38 við Grenibyggð í Mosfellsbæ. Umsamið kaupverð var 23.025.000 krónur, sem skyldi greiðast þannig:

1.         Við undirritun tilboðs 40% af kaupverði

kr.   9.210.000

2.        Við fokheldi

kr.   4.145.000

3.        Við afhendingu                               

kr.   9.170.000

4.        Einum mánuði eftir uppsetningu og að uppfylltri skilalýsingu

kr.      500.000

Samtals

kr.  23.025.000

Í kauptilboði er tekið fram að skilalýsing hússins liggi fyrir og geri kaupandi engar athugasemdir við hana. Þá segir þar að kaupdagur hússins miðist við tollafgreiðslu þess (u.þ.b. 6 mán. eftir undirritun kauptilboðs). Einnig segir þar að um samninginn gildi lög um lausafjárkaup nr. 50/2000. Í meðfylgjandi skilalýsingu, sem undirrituð er af báðum aðilum, er tekið fram að kaupandi sæki sjálfur um lóð og sjái á sinn kostnað um byggingu sökkla, frágang botnplötu og lóðar og uppsetningu hússins. Um afhendingu hússins segir svo: „Hið selda verður afhent í umsömdu ástandi, í Reykjavík u.þ.b. 6 mán. eftir undirritun tilboðs eða greiðslu staðfestingargjalds, ef það er síðar.“ Við undirritun kauptilboðs greiddi stefnda umsamda fjárhæð, 9.210.000 krónur.

Húseiningunum var skipað á land í fimm gámum í Reykjavíkurhöfn 11. desember 2007 og komið fyrir á geymslusvæði skipafélagsins. Sjá af gögnum málsins að framleiðandi húseininganna í Svíþjóð ætlaði upphaflega að senda gámana til Íslands 1. nóvember 2007, en frestaði því til 6. desember að ósk stefnanda, þar sem hann sagði kaupanda ekki í stakk búinn til að veita þeim viðtöku. Á lóð stefndu að Grenibyggð 38 stóð þá fyrir gamalt hús, sem var rifið í janúar 2008. Fram kemur einnig í gögnum að málsaðilar áttu fund með byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar í lok ágúst eða byrjun september 2007, þar sem leitað var eftir afstöðu byggingaryfirvalda til áforma stefndu um byggingu hússins á lóðinni. Kom þá í ljós að húsið rúmaðist ekki á byggingarreit lóðarinnar, teikningar reyndust ófullkomnar og ekki lá fyrir formleg umsókn um byggingarleyfi. Í framhaldi af því var óskað eftir leyfi til að breyta byggingarreit á lóðinni og var það samþykkt að undangenginni grenndarkynningu. Stefnda sótti um byggingarleyfi fyrir húsinu 21. nóvember 2007 og var það gefið út 21. janúar 2008. Áður hafði Aðalsteinn Júlíusson arkitekt þó lagfært aðaluppdrætti hússins samkvæmt athugasemdum byggingarfulltrúa, en hann sá um hönnunarvinnu fyrir kaupendur húsanna. Meðal gagna málsins eru einnig tölvubréf milli Aðalsteins Júlíussonar og Kristins Más Þorsteinssonar verkfræðings, sem stefnda hafði ráðið til að teikna sökkla og botnplötu hússins og annast eftirlit með framkvæmdum við húsbygginguna. Má þar m.a. sjá að Kristinn Már óskar eftir því 13. september 2007 að Aðalsteinn sendi honum teikningar hússins til skoðunar, og ítrekar hann þá beiðni sína í október og nóvember sama ár.

Aðila greinir á um ástæður fyrir töfum á byggingu sökkla hússins og steypu á botnplötu, en ekki er um það deilt að stefnda átti að annast þann verkþátt. Stefnandi leysti gámana fimm úr tolli 27. mars 2008, en um sama leyti var botnplata hússins steypt. Af framlögðum reikningum má sjá að gámarnir voru fluttir að Grenibyggð 38 í Mosfellsbæ 11. apríl 2008. Fullyrt er í stefnu að lóð hússins hafi þá verið ófrágengin og aðeins búið að fylla að framhlið sökkulsins, en ekki að öðrum hliðum. Hafi stefnandi af þeim sökum síðar þurft að láta hífa gámana inn á lóðina og raða þeim umhverfis sökkulinn.

Í greinargerð stefndu segir að stefnandi hafi haft samband við hana í febrúar 2008 og óskað eftir að greiðslu samkvæmt 2. lið kauptilboðsins, þrátt fyrir að samsetning hússins væri þá ekki hafin. Hafi stefnda samþykkt að verða við því og greitt honum 4.145.000 krónur. Einnig kemur þar fram að stefnda hafi greitt stefnanda 5.000.000 króna upp í 3. lið kauptilboðsins í apríl 2008, áður en vinna hófst við að reisa húsið. Samkvæmt stefnu fóru þessar greiðslur fram 22. febrúar og 10. apríl 2008.

Um miðjan apríl 2008 var hafist handa við að reisa húsið og var því lokið um miðjan maí, að því er segir í stefnu. Var þá öllum gámum skilað til skipafélagsins, að einum undanskildum, en í honum voru innréttingar, tæki o.fl. Fullyrt er í stefnu að allri smíðavinnu hafi verið lokið 23. júní 2008, og þá aðeins eftir að spartla og mála og setja upp nokkrar gipsplötur í bílskúr. Fokheldisvottorð fyrir húsið var gefið út 23. júlí 2009.

Sjá má af gögnum málsins, einkum tölvupósti frá forsvarsmanni stefnanda til stefndu og  fasteignasölunnar Gimli, að stefnandi óskaði ítrekað eftir því að gólf hússins yrði flotað hið fyrsta og hita komið á húsið til að þurrka það, þar sem raki var í gipsplötum og öðru efni eftir langa bið í gámum. Einnig kemur þar fram að verulegur ágreiningur var á milli aðila um ýmsa verkþætti, einkum þó lagningu rafmagnsheimtaugar og vinnu rafvirkja við raflagnir í húsinu. Í sama tölvupósti krefst forsvarsmaður stefnanda þess að stefnda greiða honum ýmsan kostnað sem hann segir fyrirtækið hafa orðið fyrir vegna tafa á viðtöku hússins og vinnu við það. Nefnir hann þar sérstaklega kostnað vegna gámaleigu, gengismunar, kranaþjónustu og kaupa á nýjum gipsplötum. Í stefnu er fullyrt að vegna vanefnda stefndu hafi stefnanda ekki verið unnt að tæma og skila síðasta gáminum, en leigugjald hans hafi hækkað með hverjum degi. Stefnandi hafi því fjarlægt gáminn 22. ágúst og komið innihaldi hans í geymslu.

Með yfirlýsingu 25. ágúst 2008 lýsti stefnda yfir riftun á kaupsamningi aðila „vegna stórfelldra vanefnda á verklokum framkvæmda“ eins og þar segir. Sem frekari rökstuðning fyrir riftun benti stefnda á slæma fjárhagsstöðu stefnanda. Stefnandi mótmælti riftuninni og taldi hana ólögmæta. Stefnda áréttaði riftunina með bréfi 3. september sama ár og kynnti stefnanda um leið verkstöðuúttekt sem fram fór 27. ágúst. Einnig kom þar fram að kostnaður við að ljúka verkinu væri hærri en næmi eftirstöðvum samningsverðsins. Stefnandi svaraði þessu bréfi 9. september og mótmælti enn riftun stefndu og taldi að vanefndir á samningi aðila væru alfarið á hennar ábyrgð. Var skorað á stefndu að greiða umsamdar greiðslur og áskilinn réttur til að krefja hana um skaðabætur vegna vanefnda á samningi aðila. Samkvæmt stefnu svaraði stefnda hvorki því bréfi, né innheimtubréfi stefnanda 31. mars 2009.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu fyrir dóminum forsvarsmaður stefnanda, Viggó V. Sigurðsson, og stefnda, en einnig vitnin Aðalsteinn V. Júlíusson arkitekt, Sævar Smári Þórðarson rafvirkjameistari, Gunnar Þórðarson húsasmiður og Kristinn Már Þorsteinsson verkfræðingur. Þá var tekin símaskýrsla af vitninu, Albert Sigurðssyni málarameistara. Verður vikið að framburði þeirra svo sem tilefni þykir til.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á samningi aðila frá 24. maí 2007, en samkvæmt honum pantaði stefnda og keypti af stefnanda hús af gerðinni „Narke 144“. Hús þessi eru einingahús, sérsmíðuð fyrir kaupendur, og hafi stefnandi sett einingarnar saman á byggingarstað. Stefnandi hafi staðið við öll ákvæði samningsins, þ.m.t. um afhendingartíma hússins. Samkvæmt skilalýsingu, sem var hluti af samningnum, átti stefnda að sjá um að sækja um lóð, um byggingu sökkla, frágang botnplötu og uppsetningu hússins. Stefnda hafi þó ekki fyrr en hálfu ári eftir að húsið var tilbúið til afhendingar uppfyllt þær samningsskyldur. Með því móti telur stefnandi að stefnda hafi vanefnt samning aðila og valdið stefnanda um leið miklu tjóni, sem felist í hárri gámaleigu, gengismun, kranakostnaði og ýmsum útlögðum kostnaði.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi strax við upphaf samsetningar á húsinu gert stefndu ljóst að flota þyrfti gólfið og setja hita og rafmagn í húsið svo það þornaði, enda hafi raki komist í einingarnar á meðan þær biðu í gámum í hálft ár. Yrði það ekki gert sæi stefnandi fram á verktafir og gæti ekki lokið við spörtlun og málun innanhúss.  Jafnframt gæti stefnda þá ekki veitt innréttingum og tækjum viðtöku, sem voru í síðasta gáminum. Þar sem stefnda hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum og áskorunum stefnanda, byggir stefnandi á því að hún hafi með afhafnaleysi sínu vanefnt samning aðila með grófum hætti. Hafi stefndu borið að taka tillit til hagsmuna gagnaðila síns í gagnkvæmu samningssambandi þeirra, og stuðla um leið að því að stefnanda væri unnt að efna sínar samningsskyldur. 

Stefnandi byggir einnig á því að stefnda hafi ekki greitt umsamdar kaupsamningsgreiðslur, en samkvæmt kaupsamningnum átti hún að vera búin að greiða þær allar einum mánuði eftir uppsetningu hússins og að uppfylltri skilalýsingu. Þar sem stefnanda hafi hins vegar reynst ógerlegt að uppfylla skilalýsingu vegna athafnaleysis stefndu, sem fólst í því að hún setti ekki hita og rafmagn í húsið, beri stefndu að greiða lokagreiðslu samkvæmt samningi aðila. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi ávallt verið reiðubúinn til að ljúka umsömdu verki, en stefnda hafi með ólögmætum hætti komið í veg fyrir það. Með ólögmætri riftun á samningi aðila hafi stefnda í raun hafnað hluta samningsgreiðslna stefnanda. Í ljósi framanritaðs eigi stefnandi allt að einu rétt á að gjaldfella lokagreiðslu samkvæmt samningi aðila að fjárhæð 500.000 krónur. Að auki skuldi stefnda stefnanda 4.160.000 krónur, sem hún átti að greiða við afhendingu hússins. Stefndu hafi alltaf staðið til boða fullar efndir samningsins gegn greiðslu kaupverðs hins selda.

Stefnandi byggir jafnframt á því að vegna vanefnda stefndu hafi honum verið nauðugur sá kostur að fjarlægja síðasta gáminn til þess að takmarka tjón sitt vegna dýrrar gámaleigu. Einnig er á því byggt að þar sem stefnda hafi ekki greitt stóran hluta umsamins kaupverðs, hafi stefnandi  verið í fullum rétti til að halda eftir hluta af greiðslu sinni með því að afhenda ekki hluti úr gáminum nema gegn greiðslu frá stefndu. Um leið er því mótmælt að stefnda hafi verið búin að veita hlutunum viðtöku í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Þótt hlutirnir hafi verið tilbúnir til  afhendingar í gámnum, þá hafi stefnda engu að síður ekki verið búin að veita þeim viðtöku. Samkvæmt 51. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2000 beri stefnanda heldur engin skylda til að afhenda hlutina, nema því aðeins að kaupsamningsgreiðsla sé greidd samtímis. Byggt er á því að jafnvel þótt stefnda vilji ekki veita hlutunum viðtöku, beri henni samt sem áður að greiða fyrir þá, enda hafi hlutirnir verið pantaðir og keyptir í þágu stefndu, og komi stefnanda að engum notum. Stefnandi hafi geymt hlutina í leigugeymslu, en þar sem stefnda hafi ekki viljað veita þeim viðtöku, telur stefnandi sig eiga rétt til að selja þá upp í áfallnar leigugreiðslur.

Með vísan til ofangreindra raka telur stefnandi að stefndu beri að standa við sínar samningsskyldur og greiða uppsett verð fyrir einingahúsið og vinnu stefnanda. Sundurliðast krafa hans þannig:

1.        Eftirstöðvar kaupsamningsgreiðslu

Krafist er dráttarvaxta frá 01.08’08, tveimur mán. eftir uppsetningu hússins

kr. 4.670.000.-

2.        Gámaleiga frá 26.12. 2007 – 12.8. 2008

Krafist er dráttarvaxta frá 22.08’08, er síðasta gámi var skilað

kr. 1.722.726.-

3.        Tjón vegna gengismunar

Drv. krafist frá til 27.03’08, er húsið var leyst úr tolli

kr. 803.109.-

4.        Tjón vegna gengismunar v/launa sænskra smiða

Drv. krafist frá til 16.04’08, er greiðsla fór fram

kr. 189.407.-

5.        Ýmis útlagður kostnaður

Drv. krafist frá 20.06’08, er smíði hússins lauk

kr. 556.180,-

6.        Kranakostnaður

Drv. krafist frá 06.06’08

kr. 270.234.-

Til stuðnings kröfu nr. 2 hér að ofan byggir stefnandi á því að húsið hafi verið tilbúið til tollafgreiðslu 1. nóvember 2007, en vegna viðtökudráttar stefndu hafi ekki verið hægt að losa gámana fyrr en löngu eftir komu þeirra til landsins. Beri stefnda skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna leigu á gámum, en ekki hafi verið samið um að stefnandi ætti að bera þann kostnað, gæti stefnda ekki veitt vörunni viðtöku á umsömdum tíma.

Vegna kröfu nr. 3 og 4 er á því byggt að gengisskráning íslensku krónunnar gagnvart SEK hafi verið 9,193 1. nóvember 2007, en 14,1799 þegar stefnda loks tók við húseiningunum. Stefnandi hafi því þurft að greiða hærri virðisaukaskatt þegar loks var hægt tollafgreiða einingarnar, 27. mars 2008, og beri stefnda ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna viðtökudráttar. Þá hafi sænskir smiðir, sem stefnandi hafi ráðið til að setja húsið saman, ekki getað tekið til starfa fyrr en í apríl 2008, en þá hafði gengið verið 12,989. Beri stefnda einnig ábyrgð á því tjóni vegna vanefnda sinna.

Krafa um greiðslu á ýmsum útlögðum kostnaði, sbr. töluliður 5 hér að ofan, er á því reist að þar sem stefnda hafi ekki verið tilbúin með undirstöður hússins á réttum tíma hafi gámarnir staðið opnir fyrir veðri og vindum á byggingarstað svo vikum skipti. Hluti af innihaldi þeirra hafi orðið fyrir tjóni, m.a. gipsveggir, og hafi stefnandi lagt út fyrir nýju efni. Beri stefnda ábyrgð á tjóni stefnanda, enda megi rekja það til vanefnda hennar. 

Kröfu samkvæmt 6. lið hér að ofan rökstyður stefnandi með þeim hætti að frágangur lóðar hafi verið ófullnægjandi og því hafi þurft að hífa gámana frá götu og yfir botnplötu. Beri stefndu að endurgreiða stefnanda kostnað vegna þessarar kranavinnu.

Samanlagt nema framangreindar fjárhæðir 8.211.656, krónum,  sem er stefnufjárhæð þessa máls. Krefst stefnandi dráttarvaxta af framangreindum fjárhæðum, en til einföldunar og til hagsbóta fyrir stefndu er upphaf dráttarvaxta miðað við yngsta mögulega gjalddaga krafnanna.

Um lagarök vísar stefnandi til reglna kaupa-, samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Byggt er á kauptilboði/kaupsamningi aðila, sem og almennum reglum skaðabótaréttar innan og utan samninga og almennum reglum verktakaréttar. Kröfur um dráttarvexti og verðtryggingu, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og IV.kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefndu byggist á því að stefnandi hafi ekki efnt kaupsamning þeirra í samræmi við efni samningsins og eigi því ekki rétt til greiðslu kaupverðs. Þá hafi stefnda rift samningi aðila á grundvelli vanefnda stefnanda, sem stefnda telur verulegar. Enn fremur er á því byggt að greiðsluskylda stefndu vegna kröfuliða 2-6 í stefnu verði ekki leidd af samningi aðila. Engir fyrirvarar séu gerðir af hálfu stefnanda um gengisþróun, leigukostnað eða flutningskostnað. Loks byggir stefnda á því að samning aðila beri að túlka stefndu í hag þar sem stefnandi sé fyrirtæki sem stundi sölu á einingahúsum í atvinnuskyni, en stefnda sé neytandi.

Stefnda mótmælir því að stefnandi hafi sýnt fram á viðtökudrátt af hálfu stefndu. Meginorsök tafa á verkinu telur hún annars vegar vera seinagang stefnanda við að skila fullnægjandi teikningum fyrir útgáfu byggingarleyfis, en hins vegar deilur stefnanda við undirverktaka vegna fjárhagsörðugleika stefnanda. Hvort tveggja sé á ábyrgð stefnanda og hafi valdið því að samsetning hússins hafi ekki hafist fyrr en í apríl 2008 og tafir síðar orðið á verkinu. Jafnframt hafnar stefnda því að stefnandi hafi að mestu verið búinn með uppsetningu hússins í byrjun júní, eins og haldið sé fram í stefnu. Ljóst sé að verulegir vankantar hafi verið á frágangi, eins og framlagðar ljósmyndir beri vitni um. Þá liggi fyrir að fokheldisvottorð hafi ekki verið gefið út fyrr en 23. júlí 2008, þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við skil á uppdráttum til byggingarfulltrúa.

Stefnda byggir á því að stefnandi hafi verulega vanefnt samning aðila vegna dráttar á að afhenda samsett einingahús innan sex mánaða frá undirritun kauptilboðs. Á grundvelli þeirra vanefnda hafi hún rift samningnum. Einnig er á því byggt að stefnandi hafi fengið sérstakan viðbótarfrest til efnda á fundi 14. júlí 2008. Þar sem stefnandi stóð ekki við efndir um afhendingu hússins eftir þann tíma, telur stefnda að henni hafi verið heimilt að rifta samningi aðila,  sbr. 25. gr. laga um lausafjárkaup. Rúmir 15 mánuðir hafi þá verið liðnir frá undirritun tilboðs og 44 dagar frá því að viðbótarfrestur hafði verið veittur til efnda. Því hafi stefnda átt rétt á að rifta samningi aðila vegna vanefnda stefnanda. Byggir stefnda á því að með riftun á samningi hafi skyldur aðila til að efna kaupsamninginn að fullu fallið niður. Stefnandi hafi átt eftir að ljúka framkvæmdum og hafi hann um leið verið leystur undan þeirri skyldu sinni. Hafi stefnda þá verið búin að greiða að fullu fyrir þau verk sem stefnandi sannanlega vann. Því til stuðnings vísar stefnda til verkstöðuúttektar frá 28. ágúst 2008. Mótmælir stefnda því að stefnandi geti krafið um eftirstöðvar kaupsamnings, enda hafi stefnandi ekki uppfyllt kaupsamninginn af sinni hálfu. Því geti hann ekki krafist þess að stefnda efni samninginn eftir orðanna hljóðan, án þess að bjóða jafnframt fram efndir af sinni hálfu. Fyrir liggi, og viðurkennt af hálfu stefnanda, að hann hafi ekki efnt samninginn að fullu.

Stefnda byggir enn fremur á því að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna atvika sem varði stefndu. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að grundvöllur skaðabóta sé fyrir hendi. Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn sem hægt sé að byggja á sem sanni umfang hins meinta tjóns. Af hálfu stefndu er því jafnframt andmælt að hún eigi að bera nokkurn þann kostnað sem stefnandi krefur hana um, enda verði slíkt ekki ráðið af samningi aðila. Til að mynda hafi stefnandi engan fyrirvara gert um gengisþróun sænsku krónunnar og verði hann að bera hallann af hugsanlegum gengismun.

Af hálfu stefndu er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að húsið hafi verið tilbúið til tollafgreiðslu 1. nóvember 2007, eins og haldið sé fram í stefnu til stuðnings kröfuliðum 2 til 4. Kröfuliðirnir séu einnig ósundurliðaðir og beri því að hafna þeim í heild, enda standist ekki forsendur þeirra. Þá er því hafnað að stefnda beri ábyrgð á því tímamarki sem stefnandi kaus til að leysa húsið úr tolli. Ekkert hafi verið lagt fram sem sýni að stefnda hafi á nokkurn hátt varnað stefnanda að fá húsið tollafgreitt. Sérstaklega er bent á að greiðslur til stefnanda hafi á engan hátt verið tengdar tollafgreiðslu hússins. Þá mótmælir stefnda því að kostnaður vegna gámaleigu geti verið á hennar ábyrgð, enda verði slíkt ekki leitt af samningi aðila. Hinu sama gegnir um kostnað vegna vinnu sænskra smiða við uppsetningu hússins. Þeir hafi alfarið verið þar á ábyrgð stefnanda og enginn fyrirvari gerður vegna gengisbreytinga í samningi. Um leið er minnt á að stefnandi selji einingahús í atvinnuskyni, en stefnda sé neytandi.

Stefnda mótmælir kröfulið 5 í heild sinni, enda engin gögn lögð fram sem sýni að hlutir hafi orðið fyrir tjóni. Engar sannanir séu því fyrir um meint tjón, orsakir eða umfang þess. Sérstaklega er því hafnað að stefnda beri ábyrgð á geymsluaðferðum stefnanda. Þá er því hafnað að stefnda eigi að bera kostnað vegna kaupa stefnanda á skrúfum, kítti og öðru þess háttar, enda ekkert kveðið á um slíkt í samningi aðila. Fjárhæð reikninganna er einnig mótmælt og bent á að ekki sé samræmi á milli kröfufjárhæðar og framlagðra reikninga.

Loks mótmælir stefnda 6. kröfulið, sem ósönnuðum og órökstuddum. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við lóðina, þegar gámarnir voru fluttir á staðinn. Ekki verður heldur ráðið af samningi aðila að stefnda beri ábyrgð á kostnaði við að flytja gáma á verkstað eða innan hans. Jafnvel þó svo hefði verið, bendir stefnda á að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta úr frágangi lóðarinnar. Kostnaður við kranaleigu sé því alfarið á ábyrgð stefnanda.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt í heild sinni. Telur stefnda að upphafstími dráttarvaxta sé órökstuddur og óljós, og ekki verði ráðið hvenær hið meinta tjón varð, né hvenær stefnandi hafi sannanlega gert kröfu á hendur stefndu. Að dómi stefndu eigi upphafstími dráttarvaxta að miðast við málshöfðun, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefnda byggir á meginreglum kröfu og samningaréttar um réttar efndir og vanefndaúrræði. Þá er byggt á ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum V. kafla og 25. gr. laganna. Einnig er byggt á almennum reglum verktakaréttar.  Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og enn fremur ákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Upphaflega gerði stefnda aðallega þá kröfu að máli þessu yrði vísað frá dómi, þar sem  málatilbúnaður stefnanda væri svo óskýr og vanreifaður að hann bryti í bága við fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í þinghaldi 18. nóvember sl. féll stefnda frá þeirri kröfu.

Eins og rakið er hér að framan skuldbatt stefnda sig til að kaupa af stefnanda samsett einingahús, sem framleitt var í Svíþjóð. Stefnandi tók að sér að flytja einingarnar hingað til lands og var þeim skipað upp í fimm gámum 11. desember 2007. Í málinu deila aðilar um ábyrgð hvors annars á þeim drætti sem varð á því að stefnandi hófst handa við að setja húsið saman á lóð stefndu að Grenibyggð 38 í Mosfellsbæ, svo og um framgang verksins eftir að stefnandi hóf að reisa húsið. Bendir þar hvor á hinn. Einnig er um það deilt hvort stefnda beri ábyrgð á ýmsum kostnaði sem hlaust af því að gámarnir voru ekki afhentir á umsömdum tíma, um kostnað vegna kranaleigu og kaupa stefnanda á ýmsum vörum, einkum nýjum gipsplötum, sem höfðu skemmst við langvarandi geymslu í gámunum.

Fullyrt er í stefnu að stefnandi hafi lokið við að reisa húsið um miðjan maí 2008 og hafi þá öllum gámum verið skilað til skipafélagsins, að einum undanskildum, en í honum hafi verið innréttingar, tæki o.fl. Vegna síðari vanefnda stefndu hafi stefnanda hins vegar ekki reynst unnt að tæma síðasta gáminn. Því hafi stefnandi 22. ágúst fjarlægt gáminn og komið innihaldi hans fyrir í geymslu. Byggir stefnandi á því að honum hafi verið það heimilt þar sem stefnda hafi ekki að fullu staðið skil á kaupsamningsgreiðslum, svo og að honum hafi verið nauðsynlegt að takmarka tjón sitt vegna hárrar gámaleigu. Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnda stefnanda yfirlýsingu 25. ágúst 2008, þar sem hún lýsti yfir riftun á kaupsamningi aðila vegna vanefnda á verklokum.

Samkvæmt kauptilboði aðila frá 24. maí 2007 skuldbatt stefnandi sig til að afhenda stefndu hið selda í umsömdu ástandi á umsömdum tíma. Stefndu bar hins vegar að greiða umsamið kaupverð í samræmi við ákvæði samnings. Óumdeilt er að stefnandi skilaði ekki húsinu í því ástandi sem kveðið var á um í skilalýsingu, sem var hluti af kauptilboði aðila. Heldur stefnandi því fram að honum hafi verið það ógerlegt vegna vanefnda stefndu. Fyrir dómi sagði forsvarsmaður stefnanda að eftir hafi verið að setja klæðningu í loft í bílskúr, spartla og mála, setja upp innréttingar og tæki, svo og ýmiss frágangur. Við sama tækifæri var forsvarsmaðurinn einnig spurður um innihald síðasta gámsins, sem hann fjarlægði 22. ágúst 2008, og sagði hann að þar hefði m.a. verið bílskúrshurð, innréttingar, vaskar og eldhústæki. Kvaðst hann hafa komið því fyrir í geymslu, en hefði nú selt hluta þess með miklum afslætti, í því skyni að takmarka tjón sitt. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði stefnda að í gáminum hefðu m.a. verið allar innréttingar og tæki, hurðir, parket, arinn og ryksugukerfi. Taldi hún verðmæti þessa nálægt 5 milljónum króna. Hún kannaðist við að stefnandi hefði einu sinni bréflega boðið henni að taka við því sem í gáminum var, en hún hefði neitað því þar sem hún treysti ekki lengur stefnanda og hefði auk þess verið búin að fá nóg af viðskiptum við hann. Að öðru leyti en hér greinir liggja ekki fyrir upplýsingar um innihald gámsins sem stefnandi fjarlægði. Engar upplýsingar er heldur að hafa um verðmæti innihaldsins né verðmæti þess sem stefnandi hefur þegar selt úr gáminum.

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 getur seljandi krafist efnda, riftunar og skaðabóta ef kaupandi greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningi eða þeim lögum, enda verði það hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varðar. Þá getur seljandi einnig haldið eftir greiðslu sinni og krafist vaxta. Í þessu felst að seljandi getur m.a. haldið fast við kaupin og krafið kaupanda um greiðslu kaupverðs, sbr. 1. mgr. 52. gr. sömu laga, en verður þá jafnframt að standa kaupanda skil á hinu selda í umsömdu ástandi. Veiti kaupandi söluhlut ekki viðtöku á réttum tíma eða önnur atvik, sem kaupanda varðar, leiða til þess að hann fái ekki hlutinn afhentan, skal seljandi á kostnað kaupanda annast um söluhlutinn, sbr. 72. gr. sömu laga. Loks er svo mælt fyrir í 78. gr. laganna að samningsaðili, sem annast hefur um söluhlut, skuli reikningsfæra gagnaðila fyrir því sem fékkst fyrir hlutinn við sölu eða með öðrum hætti og gera honum reikning fyrir kostnaði sínum. Það sem umfram er fellur til gagnaðila.   

Krafa stefnanda í máli þessu er sett fram í sex tölusettum liðum, og nemur samtals 8.211.656 krónum. Samkvæmt 1. lið krefst stefnandi ógreiddra eftirstöðva kaupverðs hússins samkvæmt samningi aðila, en í liðum 2 – 6 er krafist skaðabóta vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir í viðskiptum við stefndu vegna meintra vanefnda hennar. Í stefnu eru engin fyrirheit um að stefnandi muni afhenda stefndu það sem eftir er af innihaldi gámsins sem hann fjarlægði, og ekkert er þar heldur getið um andvirði þess sem stefnandi hefur selt úr gáminum, og ætti að réttu lagi að draga frá kröfu stefnanda, sbr. tilvitnuð ákvæði laga nr. 50/2000. Þá liggur einnig fyrir að stefnandi afhenti ekki hið selda í umsömdu ástandi, þótt hann haldi því fram að stefnda beri á því ábyrgð vegna meintra vanefnda. Ljóst er hins vegar að stefnda verður ekki krafin um greiðslu vegna verkþátta sem stefnandi sannanlega innti ekki af hendi. Bar stefnanda að taka tillit til þess við framsetningu kröfu sinnar, eftir atvikum í formi afsláttar.

Eins og kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda er hagað, og lýst hefur verið hér að framan, hefur dómurinn engar forsendur til þess að leggja mat á kröfur stefnanda og málsástæður hans. Er málið þannig vanreifað af hans hálfu og í andstöðu við  fyrirmæli d. og e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þykir ekki annað fært en að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 250.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur dómurinn tekið tillit til þess að stefnda hafði tvívegis uppi kröfu um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda, sem hrundið var í bæði skiptin.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Ásvík ehf., greiði stefndu, Unni Valdemarsdóttur, 250.000 krónur í málskostnað.