Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/1999


Lykilorð

  • Rán
  • Reynslulausn


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr. 253/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Hákoni Rúnari Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Rán. Reynslulausn.

H hlaut óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa framið rán í matvöruverslun vopnaður hníf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að milduð verði sú refsing, sem honum var gerð með hinum áfrýjaða dómi.

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með framburði ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins er sannað að hann hefur gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hákon Rúnar Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 1999.

Ár 1999, mánudaginn 31. maí er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-1185/1999: Ákæruvaldið gegn Hákoni Rúnari Jónssyni, en málið var dómtekið 14. þ.m.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 27. apríl 1999 á hendur: „Hákoni Rúnari Jónssyni, kennitala 280776-5649, Hólabergi 16, Reykjavík, fyrir rán, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 12. febrúar 1999 farið í auðgunarskyni inn í verslunina 11-11, Norðurbrún 2, Reykjavík, vopnaður stórum hnífi og klæddur lambhúshettu sem huldi andlitið, ógnað starfsmanni verslunarinnar Hirti Hjartarsyni, kennitala 010179-3009, með hnífnum og skipað honum að taka peninga úr tveimur peningakössum, samtals kr. 158.500, sem ákærði hafði á brott með sér.

Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða frá 13. febrúar 1999 komi til frádráttar dæmdri refsivist. Þá er krafist réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málavextir eru þeir að kl. 22:15, föstudaginn 12. febrúar sl., barst lögreglu tilkynning um að vopnað rán ætti sér stað í verslun 11-11 við Norðurbrún 2, hér í borg. Gripið var til víðtækra aðgerða af hálfu lögreglunnar og á vettvangi fékkst greinargóð lýsing á karlmanni sem kom inn í verslunina klæddur dökkbláum snjógalla með svarta húfu yfir höfðinu og búið var að klippa göt fyrir augun og var maðurinn vopnaður stórum hnífi. Samkvæmt lögregluskýrslunni, sem dagsett er sama dag greindi Hjörtur Hjartarson, starfsmaður verslunarinnar, svo frá að hinn grímuklæddi maður hefði komið inn í verslunina vopnaður stórum hnífi og gengið rakleitt að afgreiðsluborðinu og lamið ákveðið í borðið og skipað sér að afhenda peninga fljótt. Hirti brá mjög við þetta, enda maðurinn vopnaður stórum hnífi, sem notaður var til að leggja áherslu á skipanirnar um að fá peningana afhenta. Hjörtur tæmdi afgreiðslukassann og er hann var búinn að því skipaði maðurinn Hirti að koma að öðrum afgreiðslukassa og tæma hann einnig, sem Hjörtur gerði, en peningana setti hann í bréfpoka, sem maðurinn hafði á brott með sér.

Tveir lögreglumannanna, sem leituðu ræningjans, komu við í íbúð að Kleppsvegi 70 og í lögregluskýrslunni segir að þar hafi þekktir brotamenn vanið komur sínar. Við komu lögreglunnar var húsráðanda mjög brugðið og ákærða einnig, en hann var þar staddur og handtekinn kl. 22:35 þetta kvöld. Við leit í íbúðinni fannst m.a. blár kuldagalli, sem var blautur, og þá fundust peningaseðlar í poka og veiðihnífur.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni sama dag, þar sem hann neitaði sök, en játaði síðan við skýrslutöku 14. þ.m.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði játar sök. Hann kvaðst hafa komið í heimsókn til vinkonu sinnar að Kleppsvegi 70 þennan dag. Hann var peningalaus og eftir að vinkona hans lagði sig tók hann ákvörðun um að fremja rán. Hann tók hníf í íbúðinni og húfu, sem hann klippti á göt fyrir augun og síðan hélt hann að verslun 11-11 við Norðurbrún 2, þar sem hann hélt inn klæddur eins og lýst er í ákærunni. Hann kallaði og gaf til kynna að þetta væri vopnað rán og skipaði starfsmanni að tæma báða afgreiðslukassana í poka, sem afgreiðslumaðurinn gerði, og hljóp ákærði á brott eftir þetta með peningana sem settir höfðu verið í pokann. Hann hélt á hnífi í hægri hendi er hann fór inn í verslunina. Hann kvaðst ekki hafa otað hnífnum að neinum, heldur haldið honum þannig að allir sáu.

Kona sem var stödd inn í versluninni bað um að komast út til barna sinna, sem voru í bíl fyrir utan, og heimilaði ákærði henni það að sögn.

Ákærði var síðan handtekinn á heimili vinkonu sinnar að Kleppsvegi 70, hér í borg, einnig og lýst var að framan og ránsfengur var þar einnig.

Hjörtur Hjartarson nemandi var starfsmaður 11-11 er þessi atburður átti sér stað. Hann var við afgreiðslustörf er grímuklæddur maður kom inn í verslunina vopnaður hnífi, sem hann sveiflaði fram og til baka og lamdi ákveðið í búðarborðið. Maðurinn heimtaði peninga fljótt og tæmdi Hjörtur báða afgreiðslukassana í poka, enda hnífur mannsins mjög ógnvekjandi.

Ragnheiður Ólafsdóttir framkvæmdastjóri var stödd í versluninni er ákærði framdi ránið. Hún var við afgreiðsluborðið nýbúin að greiða fyrir vöru er ákærði kom þar inn. Hún kvaðst í fyrstu ekki hafa áttað sig á því hvað var að gerast, ekki fyrr en hún sá hnífinn, sem ákærði hélt á lofti. Hún kvaðst hafa orðið dauðhrædd er hún sá hann. Hún kvað ákærða hafa hleypt sér út er hún greindi honum frá því að börn hennar væru í bíl fyrir utan og hún gæti ekki látið þau horfa upp á það sem átti sér stað. Hún kvaðst hafa orðið vitni að því er ákærði hélt hnífnum á lofti og bað starfsmann í versluninni um peninga, en hún mundi ekki orðalag í þessu sambandi. Eftir að hún slapp út ók hún á brott og hringdi í lögregluna.

Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur kom fyrir dóminn og lýsti afskiptum sínum af ákærða á vegum Fangelsismálastofnunar. Ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð hans.

Niðurstöður.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem lýst er í ákærunni og varða brot hans við 252. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði gekkst undir geðrannsókn hjá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni, sem ritaði greinargerð dagsetta 9. apríl sl. Niðurstöðukaflinn er svohljóðandi:

„1. Það er niðurstaða mín að Hákon Rúnar sé sakhæfur því hann hafi verið að fullu fær á þeim tíma er hann vann verkið til að stjórna gerðum sínum þrátt fyrir það að hann væri undir áhrifum fíkniefna og lyfja. Við geðskoðun mína komu ekki fram nein örugg einkenni sturlunar, rugls eða ranghugmynda. Röddin sem Hákon Rúnar lýsir eru vel þekkt fyrirbrigði, bæði sem skammtíma- og langtímaáhrif ýmissa fíkniefna á heilavefinn. Þunglyndið og kvíðinn sem hann á við að stríða á köflum er nú ekki af þeirri dýpt að hægt sé að jafna því við alvarlegan geðsjúkdóm og ekkert sem bendir til að svo hafi heldur verið þegar verknaður var framinn. Margt bendir auk þess til að sum þunglyndis- og kvíðaeinkenni Hákons Rúnars séu bein afleiðing neyslu og séu hluti af hliðar- eða fráhvarfseinkennum eftir fíknilyf.

2. Ég tel hins vegar öruggt að vímuefnanotkun Hákons Rúnars hefur haft neikvæð áhrif á hegðun hans og þá háttsemi sem hann er nú ákærður fyrir.

3. Ég tel öruggt að Hákon Rúnar sé þunglyndur á köflum og að hann þurfi þá meðferð við því. Hákon Rúnar er lífsleiður og hvatvís og á til að gefast upp. Sérstaklega á þetta við þegar á móti blæs fyrir honum. Fullvíst er að fangelsisvistun gæti orðið honum erfið eins og áður. Hins vegar finnst engin raunhæf meðferð við hans vanda fyrr en hann hættir notkun fíkniefna. Sjálfsvígáhætta er verulega aukin í framtíðinni meðan hann heldur áfram ofneyslu vímuefna og lyfja.

4. Hákon Rúnar hefur hugsanlega verið ofvirkur frá barnsaldri og því er ekki óeðlilegt að meðferð með Ritalini haldi áfram meðan hann tekur það í læknisfræðilegum skömmtum á réttan hátt. Hins vegar er ljóst að meðferð þessi er vandmeðfarinn hjá fíkniefnaneytendum. Ofvirknisjúkdómsgreiningar á fullorðinsaldri eru mjög erfiðar og jafnvel umdeildar. Það er hins vegar læknisfræðilegt mat meðhöndlandi læknis hverju sinni sem að lokum ræður úrslitum um þessa meðferð og sjúkdómsgreiningu.“

Fyrir liggur í málinu að á ýmsu hefur gengið í refsivist ákærða, m.a. hefur hann margítrekað skaðað sjálfan sig, stundum mjög alvarlega, og sjálfur hefur ákærði lýst því að hann hafi með þessu verið að reyna sjálfsvíg.

Verjandi ákærða telur þetta gefa til kynna að refsivist gæti orðið ákærða skaðleg.

Ákærði er sakhæfur. Dómurinn telur að við það verði að miða í þessu sambandi að refsivist ákærða verði hagað í samræmi við heilsu hans, en mjög ítarleg gögn liggja nú fyrir um heilsuhagi ákærða.

Ákærði á að baki óvenjulegan afbrotaferil. Hann hlaut 2 mánaða skilorðsdóm fyrir þjófnað á árinu 1993. Í apríl 1995 hlaut hann 2 ára fangelsisdóm fyrir skjalafals, þjófnað og rán. Hann hlaut reynslulausn á 240 daga eftirstöðvum refsingar hinn 15. júní 1996. Hann rauf skilorð reynslulausnarinnar og hlaut 3 ½ árs fangelsisdóm hinn 18. nóvember 1996 fyrir rán og var reynslulausnin þá dæmd með. Ákærði hlaut reynslulaust á ný 5. febrúar sl. og þá af 420 daga eftirstöðvum refsingar.

Brot það, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, framdi hann 7 dögum eftir að hann hlaut reynslulausnina og hefur þannig enn rofið skilorð reynslulausnar, sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1944, verður ákærða nú gerð refsing í einu lagi með hliðsjón af hinni óloknu refsivist og er jafnframt höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Brot ákærða nú er mjög alvarlegt. Að fremja jafnalvarlegt afbrot á 7 dögum eftir að ákærði gekk laus eftir langa refsivist þykir sýna styrkan og einbeittan brotavilja.

Refsing ákærða hér er einnig ákvörðuð með hliðsjón af 255. gr. almennra hegningarlaga og þegar allt ofanritað er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð 5 ára fangelsi.

Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 13. febrúar 1999 að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í réttargæslu-og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Dómsorð:

Ákærði, Hákon Rúnar Jónsson, sæti fangelsi í 5 ár.

Óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 13. febrúar 1999 komi til frádráttar refsivistinni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.