Hæstiréttur íslands
Mál nr. 348/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 18. maí 2015. |
|
Nr. 348/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón M. Bergsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. maí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir varnaraðila var haft eftir honum að hann hafi sagt lögreglu að hann „myndi vilja rústa lífi“ brotaþola. Þetta hafi verið í reiði sagt og myndi varnaraðili „ekki gera meira til þess.“ Að virtum gögnum málsins er fallist á með héraðsdómi að þrátt fyrir fyrrgreindan dómsframburð varnaraðila verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja brotaþola fyrir árásum hans, sbr. d. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. maí 2015 kl 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embættið rannsaki nú meinta frelsissviptingu og nauðgun X gegn barnsmóður sinni A.
Upphaf málsins megi rekja til þess að X hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann, af Héraðsdómi Reykjavíkur, gagnvart A síðastliðinn mánudag eftir að lögreglan hafi handtekið hann á heimili móður hans þar sem hann sé sterklega grunaður um að hafa ráðist á A með höggum þar sem hún hafi verið með 10 daga gamla tvíbura þeirra í fanginu. Einnig að hafa rifið í hár hennar og veist að henni þar sem hún hafi legið í gólfinu.
Í kjölfar nálgunarbannsins eða tveimur dögum síðar hafi A lagt fram kæru á hendur X fyrir brot á nálgunarbanni vegna stöðugs áreitis í gegnum Facebook og þá hefði hann birt nektarmynd af henni á síðu sem stofnuð hafði verið í hennar nafni. Hafi X verið handtekinn í framhaldi af því og á heimili hans hafi verið haldlagðar tölvur og gögn sem talin hafi verið geta varpað ljósi á málið. Við skoðun á tölvu X hafi fundist myndbönd og myndskeið og sjá megi á einu þeirra hvar X hafi bundið A upp. Sjá megi á samskiptum þeirra að hún sé hrædd við hann, hann sé ógnandi og oti meðal annars að henni sígarettu sem kveikt sé í. Í framhaldi af því loki hann hana inni í herberginu, slökkvi ljósin og fari. A hafi verið yfirheyrð og hafi hún lýst atvikinu fyrir lögreglu og upplýst að í framhaldi af þessu hafi henni verið nauðgað af X.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Tekin hafi verið skýrsla af kærða nú rétt fyrir þinghaldið en ekki hafi verið tekin skýrsla fyrr vegna ástands hans. Í skýrslutökunni hafi komið fram að kærði kveði upptökurnar hafa verið með gerðar með samþykki brotaþola, sem og það sem fram fari á þeim. Hann hafi ekki brotið gegn henni kynferðislega og ekki birt myndir af henni á Facebook aðgangi sem stofnaður hefði verið í hennar nafni, en hafi viðurkennt að hafa slegið hana tvívegis í andlitið, á árunum 2012 og 2013. Þá hafi kærði jafnframt tekið fram að hann ætlaði sér að dreifa kynferðislegu efni af brotaþola sem hann hefði undir höndum um leið og hann losnaði úr haldi. Jafnframt hafi hann sagst ætla sér að rústa lífi brotaþola og halda áfram að brjóta nálgunarbannið sem hann sæti ef hann fengi ekki að sjá börnin sín.
Lögreglustjóri telji brýnt að kannað verði með geðheilbrigði kærða en hann virðist hafa verið í mjög annarlegu ástandi á verknaðarstundu líkt og sjáist á umræddri myndbandsupptöku.
Að mati lögreglu sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu eins og rakið hafi verið. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborning frekar, svo og vitni í málinu. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Þá hafi kærði tekið fram í skýrslutöku að hann ætli sér að rústa lífi brotaþola og halda áfram að brjóta nálgunarbann gagnvart henni, sem og birta kynferðislegt efni af henni á netinu.
Ætlað sakarefni sé talið varða 194. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða:
Samkvæmt framansögðu er fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið alvarleg brot sem varðað geta fangelsisrefsingu. Af því sem fram hefur komið fyrir dómi þykir ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Þótt nokkuð sé umliðið frá meintum brotum er rannsókn þeirra nýlega hafin. Ætla má að kærði muni reyna torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á vitni og brotaþola, en telja verður að nauðsyn beri til að verja hana fyrir árásum kærða, þrátt fyrir framburð hans hér fyrir dómi í dag. Skilyrðum a- og d- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Þá hefur sækjandi fært að því fullnægjandi rök, sbr. og skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi standi. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er eða til beitingar 100. gr. laga nr. 88/2008 í málinu á þessu stigi, en sú könnun á geðheilbrigði kærða sem lögregla telur nauðsynlega hefur enn ekki farið fram.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. maí 2015 kl 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.