Hæstiréttur íslands
Mál nr. 644/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
Þriðjudaginn 7. desember 2010. |
|
|
Nr. 644/2010. |
Gulf Crown Seafood Company Inc. (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Rekstrarfélaginu hf. og (Kristinn Bjarnason hrl.) Optimar Ísland ehf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli G gegn R og O. Hæstiréttur taldi að 19. gr. laga nr. 91/1991 stæði því ekki í vegi að sóknaraðili gerði kröfur á hendur báðum varnaraðilum á þann hátt sem hann gerði. Kröfum sínum til stuðnings lagði G fram fjölmargra reikninga á ensku án sérstakra skýringa á efni einstakra þeirra. Hæstiréttur taldi að þessi háttur á reifun fjárkrafna færi í bága við ákvæði í 10. gr. laga nr. 91/1991 þar sem varnaraðilar ættu erfitt með að færa fram varnir sínar gegn þeim og dómara að dæma um réttmæti þeirra. G gerði málskostnaðarkröfu á hendur „stefnda“ án þess að taka fram hvort krafan beindist að öðrum hvorum eða báðum stefndu, hvort krafan beindist að þeim sameiginlega eða hvort krafan ætti að skiptast á milli þeirra. Vegna þessara annmarka var hinn kærði úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast hvor um sig staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfur varnaraðila í héraði fór fram 9. september 2010 og var málið tekið til úrskurðar um þær kröfur að honum loknum. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 2. nóvember 2010 var bókað: „Dómari og lögmenn aðila telja óþarft að flytja málið að nýju en dómsuppsaga (sic) hefur dregist vegna mikilla anna dómar[a].“ Verður talið að þetta sé fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en lagaákvæðið verður talið gilda um úrskurði þar sem afstaða er tekin til frávísunarkröfu stefnda og málflutningur hefur farið fram af því tilefni samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laganna.
Um málsatvik í meginatriðum vísast til hins kærða úrskurðar. Svo sem þar kemur fram var máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum vegna sama sakarefnis vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 18. desember 2007 í máli nr. 605/2007. Við hina nýju málsókn nú hagar sóknaraðili kröfum sínum þannig að hann krefst aðallega viðurkenningar á riftun sinni 14. júlí 2005 á kaupsamningum 7. nóvember og 9. desember 2002, en með þessum samningum hafði hann keypt af varnaraðilanum Rekstrarfélaginu hf., sem þá hét Ískerfi hf., kælikerfi og vatnstank. Þessari kröfu beinir hann að varnaraðilum báðum. Jafnframt gerir hann kröfu um „skaðabætur að fjárhæð US $1.775.385,08“ óskipt úr hendi varnaraðila. Til vara krefst sóknaraðili ógildingar með dómi á fyrrgreindum kaupsamningum og beinir þeirri kröfu einnig að báðum varnaraðilum. Varakröfunni fylgir sama krafa um skaðabætur og aðalkröfu. Að slepptum aðal- og varakröfum gerir sóknaraðili síðan kröfu til þrautavara um „afslátt“ með tiltekinni fjárhæð úr hendi varnaraðilans Rekstrarfélagsins hf. og þá um leið kröfu um skaðabætur úr hendi beggja stefndu óskipt „að mati dómsins“. Fjárhæð afsláttarkröfunnar er sú sama og sóknaraðili telur sig hafa greitt samtals fyrir kælikerfið og vatnstankinn við kaupin, 210.342 bandaríkjadollarar. Hann krefst með öðrum orðum afsláttar sem nemi öllu kaupverðinu. Loks gerir sóknaraðili kröfu um að „stefnda“ verði gert að greiða sér málskostnað.
Í dómi Hæstaréttar 18. desember 2007 kom fram að varnaraðilar teljast eiga samlagsaðild samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 til varnar kröfum sóknaraðila. Verður ekki talið að tilvitnað lagaákvæði standi því í vegi að sóknaraðili beini aðal- og varakröfum sínum að varnaraðilum báðum á þann hátt sem að framan greinir.
Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að fjárkrafa sóknaraðila, sem hann kallar skaðabótakröfu, 1.775.385,08 bandaríkjadollarar, felist í endurkröfu á kaupverði þeirra hluta sem hann keypti með kaupsamningunum 2002, sem numið hafi 210.342 dollurum, og síðan bótum vegna kostnaðar við uppsetningu kælikerfisins, útlögðum viðgerðarkostnaði og öðrum kostnaði, kostnaði við kaup á ís til að kæla rækju og loks bótum vegna fjártjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir við endurgreiðslu til viðskiptamanns síns vegna skemmdrar rækju sem kælikerfið hafi átt að kæla. Samtals nema bótakröfur þessar 1.565.043,08 dollurum. Um fjárhæð þeirra vísar sóknaraðili til fjölmargra reikninga á ensku sem hann hefur lagt fram í málinu án sérstakra skýringa á efni einstakra þeirra. Þessi háttur á reifun þessara fjárkrafna fer í bága við ákvæði í 10. gr. laga nr. 91/1991 og er með þeim hætti að varnaraðilar eiga erfitt með að færa fram varnir sínar gegn þeim og dómara að dæma um réttmæti þeirra. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila er gerð á hendur „stefnda“, án þess að fram komi að hvorum varnaraðilanna hún beinist. Í hinum kærða úrskurði virðist vera gert ráð fyrir að þessi krafa hafi beinst að þeim báðum, en þá er þess að gæta að sóknaraðili tekur ekki fram hvort krafan beinist að þeim sameiginlega eða eigi að skiptast á milli þeirra.
Þeir annmarkar á kröfugerð sóknaraðila í málinu sem hér hefur verið lýst leiða til þess að hinn kærði úrskurður verður staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gulf Crown Seafood Company Inc., greiði varnaraðilum, Rekstrarfélaginu hf. og Optimar Ísland ehf., 250.000 krónur hvorum í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2010.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu hinn 9. september sl. er höfðað með stefnu birtri
Stefnandi er Gulf Crown Seafood Company Inc.
Stefndu eru Rekstrarfélagið ehf. og Optimar Ísland ehf.
Dómkröfur stefnanda er þær aðallega að viðurkennd verði riftun stefnanda frá 14. júlí 2005 á kaupsamningi um Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember 2002 og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002. Jafnframt að stefndu yrði gert að greiða stefnanda in solidum, skaðabætur að fjárhæð US $1.775.385,08.- bandarískir dollarar, með dráttarvöxtum skv. 3. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 14. ágúst 2005 til greiðsludags.
Til vara að dómurinn ógildi kaupsamning um Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember 2002 og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002. Jafnframt að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum, skaðabætur að fjárhæð US $1.775.385,08.- bandarískir dollarar, með dráttarvöxtum skv. 3. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 14. ágúst 2005 til greiðsludags.
Til þrautavara að stefnanda verði dæmdur afsláttur af kaupverði kælikerfisins samkvæmt kaupsamningi, dags. 7. nóvember 2002 og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002, að fjárhæð US $210.342.- bandarískir dollarar úr hendi stefnda Rekstrarfélagsins ehf. og að stefnanda verði dæmdar skaðabætur, að mati dómsins úr hendi stefndu in solidum, með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 14. ágúst 2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu stefnda Rekstrarfélaginu ehf. eru þær kröfur gerðar aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hið stefnda félag yrði sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautavara er þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefst stefndi Rekstrarfélagið ehf. málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnda Optimar ehf. eru gerðar þær kröfur aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
Til vara að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautavara var þess krafist að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefst stefndi málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Í stefnu er málavöxtum lýst þannig að í október 2002 hafi komist á samband milli stefnanda og Ískerfa hf., fyrirrennara stefnda Rekstararfélagsins ehf., um hugsanleg kaup stefnanda á kælikerfi frá Ískerfum hf., með milligöngu Lárusar Guðbjartssonar sölumanns.
Um miðjan október 2002 hafi þáverandi framkvæmdastjóri Ískerfa hf., Jónas G. Jónasson, komið í starfsstöð stefnanda í Louisianafylki í Bandaríkjunum, til að skoða aðstæður. Hafi ferðin verið farin sérstaklega til að skilgreina þarfir og kröfur stefnanda til kælikerfis, sem kæla átti rækjuframleiðslu stefnanda en hann framleiddi rækju til manneldis. Hafi Jónas verið í verksmiðju stefnanda í heilan dag og tekið sér nægan tíma til að meta umhverfisaðstæður, spyrja spurninga og ræða við fyrirsvarsmenn stefnanda.
Þá hafi Lárus Guðbjartsson sent tölvupóst, 15. október 2002, til Þorsteins Víglundssonar hjá stefnda, með yfirliti um tölulegar upplýsingar frá stefnanda. Þar hafi komið skýrt fram að hitastig vatns á staðnum hafi verið í kringum 78°F og að hitastig rækjunnar væri 45°F og að kjörhiti fyrir rækjuna í kælikari væri 32-35.6°F.
Hinn 18. október 2002 hafi borist tölvupóstur sem innihélt kynningarbréf til stefnanda, ásamt tilboði og útreikningum um kælikerfi og ísvélar frá stefnda, Ískerfi hf., og tilvísunum til þarfa stefnanda og ýmissa umhverfisþátta. Í þessum fyrstu útreikningum stefnda hafi m.a. komið fram að þarfir stefnanda væru kæling á 90.600 kg af rækju á sólarhring og að stefnandi þyrfti að fylla alls 400 ískör hvern dag, miðað við 226.6 kg (400 pund) af rækju í hvert ískar, miðað við keyrslu á kælikerfi í 22 klst. á dag. Þá hafi einnig komið fram að hámarksmagn af ísi og vatni í hverju ískari væri alls 93.5 lítrar.
Hinn 23. október 2002 hafi Lárus Guðbjartsson tilkynnt, f.h. stefnanda, að stefnanda nægðu ekki 93.5 lítrar í hvert kar heldur þyrfti hann að fá allt að 260 lítra af 0°C heitu vatni í hvert kar, til að kæla þar umrædd 226.6 kg af rækju. Nánar tiltekið hafi Lárus verið að athuga þann möguleika hvort hægt væri að koma með annan forkæli til viðbótar við þann sem fyrir var, sem myndi gera það að verkum að tvær leiðslur væru að dæla kælivatni, ein frá liquid ice geymslutanki og önnur frá forkæli nr. 2. Þannig myndi forkælir nr. 2 dæla um 170 lítrum af 0°C heitu vatni í hvert ískar, ofan í 93 lítra af 25% þykku ísþykkni. Var stefndi beðinn um að taka afstöðu til þessa möguleika.
Í tölvupósti frá Jónasi G. Jónassyni hinn 24. október 2002, hafi verið fullyrt að stefndi Ískerfi hf. gæti notað hluta af forkældu vatni úr forkæli (sem er einn hluti kælikerfisins) til að fylla ískerin til að hægt verði að ná því vatnsmagni sem stefnandi þarfnast í hvert ískar. Með þessu hafi stefndi verið að segja að ekki sé nauðsyn á öðrum forkæli. Þrátt fyrir ofangreind loforð stefnda um gæði ísvélar B-120 hafi stefnandi ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig og kaupa stærri ísvél B-130 og jafnframt að kaupa stærri forkæli, þ.e. ekki 50 Kw forkæli eins og stefndi bauð, heldur 100 Kw forkæli með mun meiri afkastagetu.
Stefnanda hafi svo borist tilboð, dags. 7. nóvember 2002, sem báðir aðilar hafi undirritað. Tilboðið hafi haft að geyma stutta tæknilega samantekt og samningsskilmála og sé ígildi kaupsamnings á milli stefnda, Ískerfis hf., og stefnanda. Í tilboðinu komi fram að keypt sé B-130 Liquid ice ísþykknisvél, 100 Kw forkælir, 3.200 lítra tankur o.fl.
Hinn 9. desember 2002 hafi Þorsteinn Víglundsson sent stefnanda tölvupóst þar sem hann hafi lýst flæði á ísþykkni í hinum 1.400 líta tanki og hafi sent tilboð um kaup á síkum tanki, dags. 9. desember 2002 sem gilt hafi til 15. desember 2002. Þessu tilboði hafi stefnandi tekið og þannig komist á kaupsamningur með aðilum um kaup á 1.400 lítra viðbótartanki.
Stefnanda hafi borist símbréf frá Ískerfi hf. hinn 11. febrúar 2003 þar sem lýst hafi verið frammistöðu á mótor utan á ísþykknisvél og fjalli um bæði þrýsting og afkastagetu á mótornum og um hinn keypta forkæli. Þá hafi stefnanda borist annað símbréf hinn 13. febrúar 2003 þar sem stefndi hafi lýst svokölluðum þétti innan ísþykknivélarinnar, þar sem fjallað sé m.a. um hitastig á inntaksvatni sem fari í þéttinn, sem tilgreint sé 27°C eða 70°F og hitastig á útstreymisvatni sem tilgreint er 39°C eða 102°F.
Þegar að því hafi komið að reyna að setja upp búnaðinn sem myndar kælikerfið, um miðjan febrúar 2003, hafi stefnanda verið tilkynnt um það frá þriðja aðila, að nauðsynlegt væri að setja upp kæliturn. Slíkt væri óhjákvæmilegt til að hægt væri að dæla köldu vatni í þéttinn og kæla þannig bæði vél forkælisins og vél B-130 ísvélarinnar. Hafi stefnda verið tilkynnt um þetta með tölvupósti, dags. 17. febrúar 2003.
Stefnanda hafi borist svar frá stefnda með tölvupósti, dags. 18. febrúar 2003, þar sem stefndi Ískerfi hf. hafi tilkynnt að það komi fyrirtækinu á óvart að það þurfi kæliturn en að það sé nauðsynlegt til þess að ná fram fullum afköstum út úr forkælinum. Það kom einnig fram að þörf á kæliturni færi eftir hitastigi inntaksvatns og umhverfishita. Þá sagði í póstinum að stefndi teldi að stefnandi hefði komist að réttri niðurstöðu með val á kæliturni.
Í byrjun maí 2003 hafi stefndi Ískerfi hf. sent starfsmann frá stefnda Optimar ehf. á starfsstöð stefnanda til að gangsetja kælikerfið. Sá starfsmaður hafi talið sig hafa lokið við uppsetninguna hinn 13. maí 2003 og farið fram á það við forsvarsmann stefnanda að hann undirritaði viðtökusamþykki fyrir kælikerfið. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi neitað að undirrita samþykki sitt fyrir viðtöku kerfisins, vegna þess að kælikerfið hafi átt það til að bila af einhverjum orsökum, afköst kælikerfisins hefðu ekki verið sannreynd og prufukeyrslu kælikerfisins væri ekki lokið.
Frá gangsetningu kælikerfisins hafi kælikerfið ekki getað starfað eðlilega, þ.e. ekki sé hægt að keyra kerfið samfellt 22 klst. á dag án einhvers konar bilunar og stundum bara í nokkra daga. Ekki hafi verið hægt að nota kælikerfið án þess að það bilaði með einhverjum hætti, annað hvort vegna rafmagnsbilana, affrystingar eða vegna þess að einstakir vélahlutar hafa verið að bila. Lagfæringar hafi margsinnis verið reyndar en eftir síendurteknar bilanir af ýmsum toga, hafi stefnandi endanlega gefist upp.
Jafnframt hafi kælikerfið aldrei afkastað því magni af ísþykkni og kældu vatni (per klst.) ofan í fyrrgreind kælikör til að kæla niður 226.6 kg af rækju í hverju kari, 400 ískör á dag, sem hafi verið ákvörðunarforsenda kaupanna af hálfu stefnanda.
Stefnandi hafi reynt að nota kælikerfið og að láta lagfæra það en þrátt fyrir allar tilraunir hafi kælikerfið sífellt bilað af mismunandi orsökum. Þegar það hefði keyrt eðlilega, hefði framleiðsla ísþykknis verið langt undir því magni sem Ískerfi hf. hefði ábyrgst að kælikerfið myndi skila.
Allur rekstur stefnda Ískerfa hf. í tengslum við „Liquid Ice“ kælikerfin hafi verið seldur stefnda Optimar Ísland ehf. með kaupsamningi dags. 30. maí 2003. Þessi kaup hafi orðið 2 vikum eftir að starfsmaður stefnda Optimar ehf. hefði gangsett kælikerfið á starfsstöð stefnanda og farið aftur heim til Íslands. Fyrirsvarsmaður stefnanda hefði margsinnis haft samband símleiðis við stefnda Optimar ehf. með tilkynningu um bilanir og galla í kælikerfinu. Bað stefnandi um að maður yrði sendur á staðinn og að kælikerfinu yrði komið í lag, þannig að það virkaði rétt og afkastaði því sem stefndi hafði lofað upphaflega.
Í tengslum við lagfæringar á kerfinu hafi stefndi Optimar ehf. sent alls þrjá varahluti til stefnanda, þ.e. frequency drive, pump og couplings. Hafi stefnandi sent hina gölluðu varahluti til baka. Þrátt fyrir hina nýju varahluti, hafi það engu breytt um bilanatíðni kerfisins, þar sem nýjar bilanir hafi stöðugt litið dagsins ljós.
Samskipti forsvarsmanna stefnanda við báða stefndu, Ískerfi hf. og Optimar ehf., hafi orðið erfið sumarið 2003 enda hefði stefndi Ískerfi hf. selt rekstur sinn til Optimar ehf., sem hafi sagst aðeins hafa yfirtekið ábyrgðir á framleiðslugöllum gagnvart stefnanda. Haustið 2003 hafi stefnandi loks fengið afrit af kaupsamningi á milli stefndu og orðið þá ljóst, að skyldur og ábyrgð seljanda kynnu hafa deilst á minnst tvær hendur, t.d. á Ískerfi vegna hönnunargalla, stjórnunarábyrgðar o.fl. atriða og á Optimar á Íslandi ehf. vegna framleiðslugalla.
Í stefnu eru síðan rakin bréfaskipti lögmanna stefnanda við forsvarsmenn stefndu og segir að ljóst sé að Hömlum hf., f.h. stefnda Ískerfa hf., og stefnda Optimar ehf. hafi verið gerð skriflega grein fyrir annmörkum kælikerfisins og að þeir voru krafðir um úrbætur. Hefðu þessir aðilar haft meira en nægan tíma til að framkvæma fullnægjandi úrbætur á kælikerfinu á eigin kostnað en látið það ógert. Þá eru raktar tilraunir til samkomulags sem ekki náðist með aðilum.
Hinn 28. júní 2004 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns sem skilaði matsgerð, dagsettri 12. apríl 2005.
Hinn 14. júlí 2005 sendi lögmaður stefnanda bréf til beggja stefndu og Hamla hf. þar sem fjallað var um efni matsgerðarinnar og lýst var yfir riftun á kaupsamningi skv. samþykktu tilboði, dagsettu 7. nóvember 2002, á Liquid lce kælikerfi (einingum sem mynda kælikerfið), þ.m.t. samningi um kaup á viðbótar 1.400 lítra vatnstanki skv. samþykktu tílboði, dags. 9. desember 2002.
Riftuninni var mótmælt af hálfu stefnda Optimar ehf.. og Ískerfa hf.
Þetta mál hefur einu sinni áður komið fyrir dóm og var þá gerð sú krafa af hálfu annars stefnda , Optimar Ísland ehf., að málinu yrði vísað frá á grundvelli vanreifunar. Héraðsdómur féllst á frávísunarkröfuna með þeim rökstuðningi að stefnandi hefði hvorki gert skýra grein fyrir því hvern hann teldi vera þátt hvors stefnda um sig við ætlaðar vanefndir né hvers væri krafist af hvorum aðila. Frávísunarúrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti með þeim athugasemdum að mjög hafi skort á það að stefnandi hefði gert á gagnorðan og skýran hátt grein fyrir grundvelli krafna sinna og samhengi við málsástæður einkum er varðaði kröfur hans á hendur báðum varnaraðilum um riftun samnings, ógildingu, afslátt og um miskabætur.
Stefndi heldur því fram að kröfugerð stefnanda í málinu sé verulega vanreifuð og óglögg og að erfitt sé eða vonlítið að átta sig á henni. Optimar bendir á að erfitt sé að gera grein fyrir því hvernig hægt sé að beina riftunarkröfu og ógildingarkröfu að stefnda Optimar Íslandi ehf. en ekki sé annað hægt að sjá af stefnu en að slíkt sé gert. Þá sé engin tilraun gerð í málinu til þess að skýra þetta. Optimar ítrekar að þeir séu ekki og hafi aldrei verið viðsemjandi stefnanda og eigi enga aðild að þeim sölusamningi sem deilt sé um í málinu. Séu kröfur málsins að mati Optimar að verulega leyti ódómhæfar.
Þá bendir Optimar á að öll kröfugerð um skaðabætur séu fráleitar og ekki í samræmi við íslenskan rétt. Krafan sé að verulegu leyti byggð á reikningum sem fram séu lagðir án skýringa og á erlendu tungumáli og sé því mótmælt að þess krafist að stefnanda verði gert að þýða þessi skjöl svo að stefndi geti svarað fyrir þau. Þá vilji Optimar benda á að ekkert mat hafi verið lagt fram í málinu til að gera með því tilraun til að sanna að um eitthvert tjón hafi orðið að ræða og hvað þá hversu mikið. Engar sannanir liggi þannig fyrir í málinu um meint tjón stefnanda.
Optimar tekur undir það með meðstefnda Rekstrarfélaginu að það sé með öllu óljóst á hvaða grunni stefnandi beini kröfum sínum sameiginlega að stefndu. Sé kröfugerð stefnanda að þessu leyti ódómhæf.
Að endingu, þegar litið sé til stefnu í málinu sem Hæstiréttur Íslands hafi vísað frá milli sömu aðila um sama sakarefni, mál 605/2007, 18. desember 2008 og stefnu í því máli verði ekki séð að stefnandi hafi gert minnstu tilraun til að lagfæra það sem Hæstiréttur taldi varða frávísun. Málið sé komið aftur fyrir dómstóla í sömu mynd og það hafi verið áður. Samanburður á stefnum í málunum sýni svo ekki sé um villst að það sé enn engin tilraun gerð til þess að gera á skýran og gagnorðan hátt grein fyrir grundvelli krafna og samhengi þeirra við málsástæður. Verði því ekki komist hjá því að gera kröfu um að málinu verði vísað frá dómi í annað sinn, með vísan til 1. Mgr. 80. Gr. laga nr. 91/1991, einkum d og e liðar. Þetta vinnulag stefnanda leiði til þess að málatilbúnaður stefndu verði einnig óskýr og samhengislaus og því ómögulegt fyrir dómstóla að leysa úr ágreiningi aðila.
Stefndi Rekstrarfélagið ehf. kveður ágreiningslaust að stefndi Rekstrarfélagið ehf. sé upphaflegur viðsemjandi stefnanda og seljandi þess búnaðar sem riftunar og ógildingarkröfur stefnanda varða. Stefnandi hafi verið upplýstur um viðskipti stefnda og meðstefnda samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. maí 2003. Samkvæmt grein 6.5 í þeim samningi hafi meðstefndi Optimar Ísland ehf., yfirtekið ábyrgðarskuldbindingar vegna sölu þess búnaðar sem mál þetta snúist um er varðar framleiðslugalla. Í samningnum hafi meðstefndi tekið við allri þjónustu við þá aðila sem keypt höfðu kælikerfi af stefnda. Þannig sé ágreiningslaust að meðstefndi myndi sjá um að lagfæra það í hinum selda búnaði sem teldist haldið framleiðslugalla eða þjónustu stefnanda varðandi viðgerðir sem væru innan söluábyrgðar. Þessar framangreindu skyldur hafi meðstefndi tekið að sér gagnvart stefnda en að öðru leyti varði stefnanda engu viðskipti stefnda og meðstefnda eða endanlegt uppgjör milli þeirra vegna viðskipta stefnda við stefnanda. Stefndi fær ekki séð af hverju stefnandi sé í svo miklum vafa um það hver viðsemjandi hans sé enda hafi hann lýst því sjálfur að hann hafi ekki samþykkt skuldaraskipti, það er að meðstefndi tæki við skuldbindingum stefnda sem seljanda. Þá sé ljóst að meðstefndi hafi ekki með samningi við stefnda samþykkt slík skuldaraskipti. Stefndi beri hins vegar ekki ábyrgð á viðgerðum og framkvæmdum sem unnar eru af meðstefnda eða stefnanda sjálfs eða starfsmanna og verktaka á hans vegum.
Þá sé stefnda lítt skiljanlegt á hvaða grundvelli stefnandi beini kröfum sínum sameiginlega að honum og meðstefnda enda standist málatilbúnaður stefnanda um það atriði í stefnu ekki. Stefndi telji því að málatilbúnaður stefnanda og kröfugerð sé að þessu leyti ódómhæf. Stefndi vekur athygli á því að stefnandi hafi áður höfðað mál á hendur stefndu vegna sama sakarefnis en því máli hafi verið vísað frá dómi Hæstaréttar 18. desember 2007 sbr. mál 605/2007. Telur stefndi að mál þetta sé komið inn á borð dómstóla allt að því í óbreyttri mynd. Sé þannig hvorki með skýrum hætti gerð grein fyrir þætti hvors stefnda um sig né geri stefnandi á gagnorðan og skýran hátt grein fyrir grundvelli krafna sinna og samhengi við málsástæður eins og áskilið er í 1. mgr. 80. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi vekur athygli á því í stefnu sinni að í dómi Hæstaréttar hinn 18. desember 2007 sem varðar sömu málsatvik og hér er fjallað um hafi rétturinn talið skilyrði vera fyrir samlagsaðild varnaraðila samkvæmt. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi höfði því mál hér að nýju á hendur báðum stefndu til varnar hagsmunum sínum.
Skilyrði samlagsaðildar eru uppfyllt hér en sá galli er á kröfugerð stefnanda að hann hefur ekki gætt að því að gera sjálfstæða kröfu á hvorn aðila fyrir sig, heldur beinir kröfum sínum að þeim óskipt og varðar það frávísun málsins. Þá er einnig til þess að líta að stefnan er lítið breytt frá fyrra horfi og enn er sá galli á henni að kröfugerð stefnanda er ekki nægjanlega reifuð og skýr um það hvers sé krafist af hvorum aðila um sig. Málatilbúnaður stefnanda fullnægir því ekki skilyrðum d og e liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnanda verður gert að greiða stefndu, hvorum um sig 600.000 krónur í málskostnað sbr. 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Gulf Crown Seafood Company Inc., greiði stefnda, Rekstrarfélaginu ehf., 600.000 krónur í málskostnað og stefnda, Optimar Íslandi ehf., 600.000 krónur í málskostnað.
.