Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Ölvunarakstur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2000.

Nr. 226/2000.

Hörður Sigurðsson

(Stefán Pálsson hrl.)

gegn

Selmu Haraldsdóttur og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

                                                   

Bifreiðir. Líkamstjón. Slysatrygging ökumanns. Ölvunarakstur. Gjafsókn.

H varð fyrir líkamstjóni er hann velti bifreið SH. Rúmlega einni og hálfri klukkustund eftir að lögregla kom á vettvang var tekið blóðsýni úr honum vegna gruns um ölvun og reyndist áfengismagn í blóði vera 1.26 ‰. H taldi tjónið vera af völdum sprungins hjólbarða og krafði SH og SA um bætur á grundvelli slysatryggingar ökumanns, en SA taldi sig laust undan ábyrgð vegna ölvunar H og vísaði um það til tryggingaskilmála. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að líkindi væru fyrir því að H hefði ekið ölvaður og synjaði kröfu hans um skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2000. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 4.024.598 krónur með 2% ársvöxtum frá 24. júlí 1994 til 30. maí 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir á dómstigum.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi velti áfrýjandi bifreið stefndu Selmu Haraldsdóttur rétt austan við Óseyrarbrú á Ölfusá að morgni 24. júlí 1994. Samkvæmt skýrslu lögreglumanns kom hann á vettvang klukkan 8.18, þar sem áfrýjandi lá slasaður utan við bifreiðina. Var hann fluttur á Borgarspítalann í Reykjavík, þar sem tekið var úr honum blóðsýni klukkan 9.50 vegna gruns um ölvun. Reyndist áfengismagn í blóði áfrýjanda vera 1,26‰. Krefur hann stefndu um bætur vegna líkamstjóns, sem hann hlaut við slysið. Vísar hann um það til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, en óumdeilt er að eigandi bifreiðarinnar keypti vátryggingu samkvæmt 92. gr. laganna hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Félagið telur sig hins vegar laust úr ábyrgð, þar sem áfrýjandi hafi verið ölvaður þegar slysið varð, en félagið hafi undanþegið sig ábyrgð við slíkar aðstæður í almennum skilmálum sínum fyrir slysatryggingu ökumanns, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Áfrýjandi kveðst hafa ekið áleiðis til Reykjavíkur frá Stokkseyri um klukkan 5.00 að morgni áðurnefndan dag og hafi slysið orðið um það bil fimmtán mínútum síðar. Langur tími hafi liðið þar til vegfarandi varð hans var þar sem hann lá utan vegar. Á þeim tíma, sem leið frá slysinu, hafi hann tekið verkjatöflur og neytt áfengis, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Hann hafi hins vegar ekki verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð, en það hafi hlotist af því að hvellsprungið hafi á hægra framhjóli bifreiðarinnar. Engin rannsókn hefur verið gerð á hjólbarðanum, sem skýrt gæti hvort hann hafi sprungið fyrir slysið eða losnað af felgu við velturnar, sem bifreiðin fór.

II.

Svo sem áður er getið var áfengismagn í blóði áfrýjanda 1,26‰ þegar liðin var rúmlega ein og hálf klukkustund frá því að lögregla kom að honum á slysstað. Veitir það líkindi fyrir að hann hafi ekið ölvaður og verið óhæfur til að stjórna ökutæki, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Er sú aðstaða fyrir hendi í máli þessu, sem áfrýjandi höfðar til heimtu bóta samkvæmt vátryggingarsamningi, að hann ber sjálfur sönnunarbyrði fyrir því að ölvun hans verði rakin til neyslu áfengis eftir slysið. Hefur hann engum stoðum rennt undir staðhæfingu sína, sem að þessu lýtur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Harðar Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000.

Mál þetta sem dómtekið var 17. febrúar sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 25. júní 1999 af Herði Sigurðssyni, Engjaseli 10, Stokkseyri gegn Selmu Haraldsdóttur, Engjaseli 10, Stokkseyri og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík .

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum 4.428.670 kr., auk dráttarvaxta frá 30. maí 1999.

Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, þ.m.t. útlagðan kostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og honum gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu en til vara að dómkröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir    

Atvik málsins eru þau að snemma morguns þann 24. júlí 1994 ók stefnandi bifreiðinni E-4, vestur Eyrarbakkaveg í átt að Óseyrarbrú.  Þegar bifreiðin var komin til móts við vegrið austan við brúna missti stefnandi stjórn á bifreiðinni, sem kastaðist til, upp á vegriðið, yfir það og valt utan vegar, þrjár veltur að því talið er.  Stefnandi, sem var með bílbelti spennt þegar slysið átti sér stað, mun hafa kastast talsvert til í bílnum við veltuna og hlaut hann nokkra áverka.  Eftir að bifreiðin stöðvaðist komst stefnandi út úr henni og reyndi að komast upp á veginn, en vegurinn er mikið upp byggður á þessum kafla.  Vegna þess hve hátt var upp á veginn og vegna þeirra meiðsla er stefnandi hlaut við slysið tókst honum ekki að komast upp á veginn.  Þar sem vegkanturinn er svo hár sást bílflakið ekki úr venjulegum bifreiðum sem ekið var eftir veginum.  Nokkur tími leið því þar til ökumaður vöruflutningabifreiðar sá bifreið stefnanda þar sem hún lá utan í vegöxlinni og tilkynnti hann um slysið. 

Stefnandi var fluttur á slysadeild Borgarspítalans þar sem hann var skoðaður.  Við skoðun kvartaði hann um verki í hálsi, brjóstkassa, kvið og vinstra hné.  Þá var hann sagður með góða meðvitund en áfengislykt var af honum og var tekið úr honum blóðsýni til alkóhólmælingar.  Niðurstaða mælingar var sú að í blóði hans hefðu verið 1.26 ‰ alkóhóls.

Málsaðila greinir á um það hvernig slysið bar að höndum.  Stefnandi heldur því fram að hægri framhjólbarði bifreiðarinnar hafi hvellsprungið og við það hafi hann missst stjórn á henni.  Hann hafi verið illa haldinn vegna þeirra áverka er hann hlaut við slysið og hafi því tekið inn verkjalyf, sem hann fann í bifreiðinni, auk þess sem hann hafi drukkið áfengi úr gosflösku, sem einnig hafi verið í bifreiðinni, til þess að deyfa sársaukann og gera líðan sína skárri.  Af hálfu stefndu er því mótmælt sem ósönnuðu að hvellsprungið hafi á bifreiðinni.  Þá er því haldið fram af hálfu stefndu að stefnandi hafi verið óhæfur til stjórnunar ökutækisins vegna áfengisdrykkju þegar slysið varð.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki drukkið áfengi fyrir slysið og því hafi hann verið ódrukkinn þegar það gerðist.

Eftir skoðun á slysadeild var stefnandi lagður á bæklunar­­lækninga­­deild Borgarspítalans og m.a. settur í sérstakt vesti vegna hálsáverkans auk þess sem hann gekkst undir aðgerð vegna áverkans á hnénu og var síðan settur í spelku.

Stefnandi var síðan til læknismeðferðar um nokkurt skeið.  Í lok árs 1994 var stefnandi til meðferðar á Reykjalundi í tvær til þrjár vikur en fór þaðan í aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði þar sem fjarlægðir voru kengir úr hnénu eftir liðbanda­viðgerðina.  Hann var síðan aftur á Reykjalundi frá 26. febrúar til 9. apríl 1995 og þar hafði hann náð sér þokkalega á strik er meðferðinni lauk.  Hafði hann ætlað til starfa á nýjan leik og fengið skipsrúm sem vélavörður á mb. Jóni Klemens þar sem hann átti að hefja störf eftir að sjómannaverkfalli lauk.  Ekki varð af því þar sem hann lenti á ný í umferðarslysi þann 6. júní 1995 og varð óvinnufær á ný.

Stefnandi kveður slysið hafa haft verulegar afleiðingar fyrir sig bæði varðandi atvinnu­möguleika hans og einkalíf.  Hann hafi nær stöðuga verki í baki og hálsi auk þess sem hann geti ekki legið á hnjám vegna verkja og einnig eigi hann erfitt með að sitja á hækjum sér.  Þá finnst honum sem vinstra hnéð svíki stundum t.d. þegar hann gengur niður stiga og hann kveðst þurfa að einbeita sér að því að hlífa hnénu.

Örorkunefnd fjallaði um varanlega örorku og miskastig stefnanda vegna slyssins og liggur álitsgerð nefndarinnar fyrir í málinu, dags 13. apríl 1999, þar sem rakin er ítarlega sjúkrasaga stefnanda bæði vegna þess slyss sem mál þetta er sprottið af og vegna annarra slysa sem stefnandi hefur orðið fyrir.  Það er álit nefndarinnar að miskastig stefnanda vegna afleiðinga slyssins 24. júlí 1994 sé hæfilega metið 20%.  Þá er það álit nefndarinnar að varanleg örorka stefnanda sé einnig 20%.

Stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., var með bréfi dags 30. apríl 1999 krafið um skaðabætur að fjárhæð 5.165.726 kr. auk lögmannsþóknunar.  Við útreikning bótakröfunnar læddist sú innsláttarvilla inn í útreikninginn að 700.000 kr. bættust ofan á kröfuna undir liðnum "Frádr. áður greitt frá tryggingafélaginu".  Sérstaklega var tekið fram í bréfinu að stefnandi hefði verið grunaður um ölvunarakstur, en engar kröfur hefðu verið gerðar á hendur honum þar sem engar sannanir lágu þeim fullyrðingum til stuðnings.

Bótakröfunni var hafnað með bréfi félagsins dags 4. júní 1999 á þeim forsendum að rekja mætti slysið til ölvunar og stórkostlegs gáleysis. 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndu beri ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir í slysinu þann 24. júlí 1994 samkvæmt ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987.

Höfnun stefnda á greiðslu skaðabóta sé ólögmæt og ekki í samræmi við viðurkenndar reglur skaðabóta- og vátryggingaréttar.

Ekkert liggi fyrir í málinu sem sanni staðhæfingar stefndu um að stefnandi hafi verið ölvaður þegar slysið varð.  Þá liggi ekkert fyrir um að slysið megi rekja til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis af hans hálfu, en slíkar aðstæður einar réttlæti skerðingu bóta til handa tjónþola.

Fullyrðingum um að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð er mótmælt sem röngum og ósönnuðum og sérstaklega vísað til þess að þrátt fyrir að blóðsýni sem tekið var úr stefnanda eftir slysið hefði mælst með 1.26 ‰ alkóhól hafi ekki verið höfðað mál á hendur stefnanda og það sem meira sé, það hafi ekki verið gerð krafa til þess að stefnandi yrði sviptur ökuleyfi á þeim grundvelli að hann hefði ekið ölvaður.

Í bréfi hins stefnda félags þar sem bótaskyldu var hafnað sé vísað til dóma Hæstaréttar þar sem sýknað hafi verið af bótakröfum þar sem sannað þótti að tjónþolar hefðu verið undir áhrifum er slys varð, jafnvel þótt þeir hafi verið sýknaðir í sakamálum.  Því er mótmælt að tilvísaðir dómar hafi fordæmisgildi í máli stefnanda þar sem aldrei hafi verið gerð krafa um að hann yrði sviptur ökuleyfi, hvað þá að opinbert mál væri höfðað á hendur honum.

Þá er á það bent að samkvæmt ákvæði 45. greinar umfl. teljist ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki ef vínandamagn í blóði nemur 1.20‰ eða meira.  Í tilviki stefnanda hafi alkóhólmagn mælst 1.26‰ sem teljist innan skekkjumarka.

Á því er byggt að stefnanda hafi verið heimilt með hliðsjón af reglum neyðarréttar að neyta áfengis eftir að akstri lauk þar sem það hafi verið gert til að lina þjáningar og sársauka vegna afleiðinga slyssins.

Dómkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

Bætur fyrir þjáningar skv. 3. gr. sbl. 265.300 kr. 

­Bætur fyrir varanlegan miska 20%, skv. 4. gr. sbl. (af 4.462.000 kr.) 892.400 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku 20%, skv. 5. og 6. gr. sbl.  3.082.686 kr.­ 

Frádráttur skv. 9. gr. sbl. (215.788 kr.)

Vextir frá slysdegi til 30. maí 1999, 2 % skv. 16. g. sbl.404.072. kr.  ­Samtals 4.428.670 kr.

auk dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Við útreikning þjáningarbóta hafi verið miðað við álitsgerð örorkunefndar, en þar komi fram að ekki hafi verið að vænta frekari bata vegna slyss þessa eftir apríl 1995 og sé því gerð krafa um greiðslu bóta vegna rúmlegu í 70 daga en óvinnufærni án rúmlegu í 210 daga.

Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku hafi verið miðað við tekjuáætlun Jóns E. Þorlákssonar tryggingafræðings, sem gerður hafi verið vegna slyss sem stefnandi varð fyrir árið 1991.  Í þeim útreikningi sé að finna útreikning á áætluðum tekjum stefnanda árið 1992 og hafi þær verið 1.704.400 kr., en reiknað með vísitölu til júlí 1994 séu þær 1.778.413 kr.  Við þá fjárhæð bætist 6% álag vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð og séu því reiknaðar árstekjur 1.885.117 kr.

Um bótagrundvöll er af hálfu stefnanda vísað til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega ákvæða XIII. kafla.

Um útreikning skaðabóta og bótafjárhæð er vísað til 3., 4., 5., 6., 15. og 16. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993.

Um dráttarvexti er vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987 einkum III. kafla, um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé honum nauðsynlegt að fá dóm fyrir greiðslu skattsins.

Málsástæður stefndu og lagarök

Af hálfu stefndu kemur fram að ekki sé deilt um það að umrædd bifreið var í eigu stefndu, Selmu, og jafnframt að hún var tryggð lögbundinni ökumannstryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi.

Hins vegar sé ágreiningur um það hvernig slysið bar að höndum og mótmæla stefndu, sem röngu og ósönnuðu lýsingu stefnanda þess efnis að aðalorsök þess hafi verið að það hafi hvellsprungið á bifreiðinni.

Aðalkrafa stefndu um sýknu byggir á því að stefnandi hafi verið óhæfur til stjórnunar ökutækisins, þegar slysið varð.  Fyrir liggi í lögregluskýrslu, sem tekin var á slysstað kl. 8.18. morguninn sem slysið varð, að ökumaður hafi verið grunaður um ölvunarakstur.  Í skýrslu læknis þess, sem tók á móti stefnanda á Sjúkrahúsi Reykjavíkur kl. 9.27 segi að áfengislykt hafi verið úr vitum sjúklings og hann virst talsvert ölvaður.  Niðurstaða alkóhólsrannsóknar hafi sýnt að í blóði stefnanda mældist 1,26‰ alkóhól.  Í upphaflegri lögregluskýrslu komi einnig fram að Helena Kristín Jónsdóttir hafi fengið hringingu frá stefnanda um kl. 5.00 um nóttina, þar sem hann hafi viljað koma í heimsókn til hennar í Mosfellsbæ en hún hafi ekki viljað það, þar sem hann hafi verið ölvaður.

Sýknukrafa stefndu byggir á því að upplýst sé að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar slysið hafi átt sér stað.  Hann hafi því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu í umrætt skipti en samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umfl. teljist ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki ef vínandamagn í blóði nemur 1.20 ‰ eða meiru.  Ljóst sé að alkóhólmagn í blóði stefnanda hafi verið meira en 1,26 ‰ við slysið, þar sem rannsókn á því hafi farið fram töluvert eftir að það átti sér stað.

Fullyrðingum stefnanda um að hann hafi fyrst neytt áfengis eftir slysið er mótmælt sem röngum og ósönnuðum.  Stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um þessa fullyrðingu sína.  Vakin sé athygli á framburði stefnanda á slysstað, þar sem hann viðurkenni ekki að hafa ekið bifreiðinni.

Þegar virt eru gögn málsins, aðdragandi slyssins, áfengismagn í blóði stefnanda, framburður Helenu um ölvunarástand stefnanda og neitun hans í fyrstu um að hafa ekið bifreiðinni, verði að telja allar líkur á því að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð.  Hafi hann alla sönnunarbyrði um þá fullyrðingu sína að svo hafi ekki verið.

Með vísan til 20. gr. l. nr. 20/1954 og vátryggingaskilmála ökumanns­tryggingarinnar tapist réttur til vátryggingabóta valdi ökumaður vátryggingaratburði ölvaður og/eða af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.  Með vísan til framangreindrar atvikalýsingar og lagaraka beri því að taka aðalkröfu stefndu um sýknu til greina.  Stefndu vísi máli sínu til stuðnings einnig til Hrd. 1995 bls. 2249 og 2703.

 Varakrafan byggir á því, verði ekki fallist á framangreind sjónarmið, að viðmiðunar­tekjur sem notaðar séu í kröfugerð séu of háar.  Í skaðabótalögum sé gert ráð fyrir viðmiðunartekjum árið fyrir slysið en ekkert liggi frammi í málinu um þær.  Yfirlýsingu Sigurðar V.Gunnarssonar á dómskjali nr. 14 er mótmælt sem málinu óviðkomandi, enda segi þar að það sé umferðarslys sem stefnandi verði fyrir síðar, þ.e. þann 6. júní 1995, sem verði þess valdandi að hann hafi ekki getað hafið umrætt starf.  Þjáningarbótatímabili er mótmælt sem of löngu og ekki í samræmi við sjúkraskýrslur sem liggi fyrir í málinu.  Vaxtakröfu er mótmælt sem fyrndri að hluta.

Ekki er gerður ágreiningur um niðurstöðu örorkunefndar um umfang líkamstjóns stefnanda vegna slyssins.

Niðurstaða

Óumdeilt er að bifreiðin E-4 var í eigu stefndu, Selmu, og að bifreiðin var tryggð lögbundinni ökumannstryggingu hjá hinu stefnda vátryggingarfélagi.  Ágreiningur í máli þessu snýr hins vegar að því hvort réttur til tryggingabóta hafi fallið niður vegna ölvunar stefnanda við akstur, sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954, sbr. og tryggingaskilmála stefnanda varðandi missi bótaréttar.

Fyrir liggur, samkvæmt mælingu, að alkóhólmagn í blóði stefnanda var 1,26‰ er lögregla kom á vettvang.  Eins og fram er komið heldur stefnandi því fram að hann hafi ekki drukkið áfengi fyrir slysið.  Hann bar fyrir dómi að hann hefði ekki sofið um nóttina en hafi verið að mála myndir.  Um fimmleytið um morguninn hafi hann lagt af stað í átt til Reykjavíkur til þess að heimsækja vinkonu sína.  Hann taldi að það hefði tekið um það bil korter að keyra að þeim stað þar sem slysið varð.  Lögregla kom á vettvang rúmlega átta.

Samkvæmt lögregluskýrslu sem gerð var 24. júlí 1994 viðurkenndi stefnandi ekki að hafa ekið bifreiðinni og gaf enga lýsingu á aðdraganda slyssins.  Því er hins vegar ekki mótmælt í máli þessu að stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar er slysið varð.  Hinn 3. október 1994, er stefnanda var kynnt niðurstaða alkóhólrannsóknarinnar hjá lögreglu, bar hann að rétt í því er hann var að koma að vegriðinu austan við brúna hafi hvellsprungið á hægra framhjóli og bifreiðin við það kastast til og upp á vegriðið og hann misst stjórn á bifreiðinni.  Er á því byggt af hálfu stefnanda í máli þessu að orsök slyssins hafi verið þessi, þ.e. að hvellsprungið hafi á hægra framhjóli.  Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni hefur stefnandi lagt fram ljósmyndir af bifreiðinni.  Af þessum myndum verður engan veginn ráðið hvort sprungið er á hægra framhjóli bifreiðarinnar.  Engin önnur gögn liggja frammi í málinu til stuðnings þessari fullyrðingu stefnanda.

Samkvæmt framansögðu telst ósannað að örsök slyssins hafi verið sú að sprungið hafi á hægra hjólbarða.  Fyrir liggur að alkóhólmagn í blóði stefnanda var 1,26‰ er lögreglu bar að.  Stefnandi hefur engar líkur að því leitt að alkóhólmagnið í blóði hans verði rakið til neyslu áfengis eftir slysið.  Samkvæmt því verður við það að miða, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 50/1987, að stefnandi hafi verið óhæfur til að stjórna ökutæki er slysið varð og verði slysið rakið til þess, en eins og fram er komið fór rannsókn á blóði stefnanda fram nokkru eftir slysið og má leiða líkur að því að alkóhólmagn í blóði stefnanda hafi verið meira en 1,26‰ er slysið varð.  Þykir 20. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 eiga við um ástand hans og þar sem stefndi, Sjóvá- Almennar tryggingar hf., hefur undanskilið sig ábyrgð við þær aðstæður í tryggingaskilmálum sínum ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu

Ekki var höfðað opinbert mál á hendur stefnanda til sviptingar ökuleyfis.  Telst það ekki skipta máli við úrlausn þessa máls. 

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 200.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristjáns B. Thorlacius hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Selma Haraldsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Harðar Sigurðssonar.

Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 200.000 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristjáns B. Thorlacius hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.