Hæstiréttur íslands
Mál nr. 715/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 4. mars 2011. |
|
Nr. 715/2010. |
Húsaviðhald og viðgerðir ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Jóni Grétari Ingvasyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Aðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu H ehf. var vísað frá dómi í máli sem félagið hafði höfðað gegn J. Í málinu krafðist H. ehf. þess að kröfum sem J. hafði lýst í þrotabú K ehf. yrði hafnað. Fyrirsvarsmaður H ehf., B, var annar eigenda K ehf. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til niðurstöðu í máli nr. 712/2010, sem kveðinn var upp sama dag, staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans þar sem talið var að H ehf. hefði ekki lengur lögvarinn rétt til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefði gert af þeirri ástæðu að hann væri ekki lengur kröfuhafi í þrotabú K ehf., sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Frekari gögn bárust réttinum eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010, þar sem kröfu sóknaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málsmeðferð héraðsdóms ómerkt frá og með þinghaldi þann 17. september 2010, en til vara krefst hann að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 712/2010, sem kveðinn var upp fyrr í dag, var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila í þessu máli í þrotabú KBK ehf., en ágreiningur málsaðila hér stendur um kröfu varnaraðila á hendur þrotabúinu. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., greiði varnaraðila, Jóni Grétari Ingvasyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010.
Þetta mál barst dóminum með bréfi skiptastjóra í þrotabúi KBK ehf. mótteknu 22. júní 2010. Málið var þingfest 17. september og tekið til úrskurðar 11. nóvember 2010.
Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., kt. 530203-2550, Lyngrima 22, Reykjavík, krefst þess að krafa varnaraðila, nr. 16 í kröfuskrá skiptastjóra, verði samþykkt að fjárhæð 26.466.549 krónur.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, Jón Grétar Ingvason, kt. 090150-2009, Víkurströnd 16, krefst þess að krafa hans að fjárhæð 43.385.174 krónur, nr. 16 í kröfuskrá, verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, í þrotabú KBK ehf.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Með bréfi, er barst dóminum 3. mars sl., óskaði stjórn KBK ehf. eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fallist var á kröfuna með úrskurði 5. sama mánaðar og skiptastjóri skipaður. Með kröfulýsingu, dagsettri 14. maí, lýsti varnaraðili almennri kröfu í búið, á grundvelli þess að hann hefði veitt hinu gjaldþrota félagi lán í upphafi til rekstrar þess. Með bréfi, dagsettu 22. júní, vísaði skiptastjóri í þrotabúinu þessu máli til dómsins á grundvelli 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Í bréfi skiptastjóra kemur fram að á fundi í þrotabúinu, 26. maí sl., hafi hann samþykkt kröfu varnaraðila með breytingum en ágreiningur málsaðila varði fjárhæð kröfunnar. Sóknaraðili telji umkrafða vexti of háa og vaxtakjör séu ekki þau sem samið hafi verið um með skuldaviðurkenningu dags. 12. mars 2008. Varnaraðili telji andmæli sóknaraðila úr lausu lofti gripin. Ekki hafi tekist að jafna ágreininginn og sé hann því sendur héraðsdómi.
Sóknaraðili krafðist þess upphaflega að krafa varnaraðila, nr. 16 í kröfuskrá skiptastjóra, yrði samþykkt að fjárhæð 22.064.759 krónur en með bókun, framlagðri 29. október sl., breytti hann fjárhæðinni, varnaraðila til hagsbóta, í 26.466.549 krónur.
Málavextir
Hinn 6. september 2007 stofnuðu Bragi Gunnarsson, fyrirsvarsmaður og eigandi sóknaraðila og húsasmíðameistari, og Jón Grétar Ingvason, lyfjafræðingur, félagið KBK ehf. til kaupa á fasteignum á Kirkjubæjarklaustri. Félagið var í eigu þeirra beggja að jöfnu og sátu þeir báðir í þriggja manna stjórn félagsins auk Braga Björnssonar hdl., sem var formaður stjórnar. Félagskjörinn endurskoðandi var Gunnar Þór Ásgeirsson, löggiltur endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers, og sat hann flesta stjórnarfundi.
Hinn 18. september 2007 keypti félagið fasteignir að Klausturvegi 1, þar sem áður var sláturhús, og Klausturvegi 3-5, þar sem áður voru verslanir Kaupfélags Vestur-Skaftfellinga, í þeim tilgangi að breyta húsnæðinu í aðstöðu fyrir ferðaþjónustu (gistingu, veitingarekstur, afþreyingu o.fl.). Kaupverðið nam 26 milljónum króna.
Verkefnið var fjármagnað þannig að Jón Grétar veitti félaginu lán að fjárhæð 16.000.000 króna en félagið tók annað jafnhátt lán hjá viðskiptabanka sínum sem tryggt var með veði í fasteign Braga Gunnarssonar. Það er hið fyrrnefnda lán sem varnaraðili krefst endurgreiðslu á en sóknaraðili hafnar vaxta- og verðbótaútreikningi hans.
Meðal gagna málsins er skuldaviðurkenning, dags. 12. mars 2008, undirrituð af báðum eigendum KBK ehf. þar sem viðurkennt er að það félag skuldi varnaraðila 16.000.000 króna samkvæmt hjálögðu afriti ávísunar sem notuð hafi verið við kaup félagsins á eignum Sláturfélags Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri 24. september 2007. Í skuldaviðurkenningunni segir orðrétt:
Skuldin skal greidd samkvæmt nánara samkomulagi og skulu af henni greiddir vextir frá þeim tíma er til hennar var stofnað sem teljast sambærilegir við útlánsvexti banka. Skulu vaxtakjör þó aldrei vera lakari en að þau gefi ávöxtun sem er sambærileg við ávöxtun lausafjár á hverjum tíma.
Varnaraðili krefst höfuðstóls að fjárhæð 16.000.000 króna, vaxta og verðbóta til 31. desember 2009 að fjárhæð 25.746.619 krónur, dráttarvaxta frá 31. desember 2009 til 3. mars 2010 að fjárhæð 1.221.088 krónur og kröfulýsingarkostnaðar að fjárhæð 417.467 krónur. Ekki er ágreiningur um höfuðstól lánsins en sóknaraðili mótmælir fjárhæð vaxta og verðbóta þar sem útreikningur þeirra fjárhæða sé ekki í samræmi við orðalag í skuldaviðurkenningunni um kjör lánsins.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að í rökstuðningi varnaraðila fyrir vöxtum sé vísað til þess að kjör lánsins séu að öllu leyti miðuð við kjör á sambærilegu láni sem hið gjaldþrota félag hafi tekið hjá Landsbanka Íslands og hafi verið tryggt af fyrirsvarsmanni sóknaraðila.
Sóknaraðili mótmælir alfarið útskýringum og útreikningum varnaraðila varðandi vexti og verðbætur lánsins. Ekki stoði fyrir varnaraðila að vísa um þá útreikninga til þess láns sem hið gjaldþrota félag hafi tekið í erlendum myntum og tryggt hafi verið með veði í fasteign fyrirsvarsmanns sóknaraðila. Það lán sem mál þetta varði hafi verið í íslenskum krónum og skyldu kjör þess miðast við meðaltal útlánsvaxta banka en aldrei vera lakari en svo að ávöxtun væri sambærileg við ávöxtun lausafjár á hverjum tíma, eins og standi berum orðum í skuldaviðurkenningunni.
Sóknaraðili byggir á því að þar sem ekki liggi neitt annað fyrir um kjör lánsins en skuldaviðurkenningin sem varnaraðili hafi undirritað þann 12. mars 2008 beri að leggja hana til grundvallar við útreikning vaxta.
Sóknaraðili telur að með vísan til skuldaviðurkenningar beri að miða við vexti á óverðtryggðum útlánum samkvæmt ákvörðunum Seðlabanka Íslands á því tímabili sem um ræðir. Sé miðað við hæstu vexti óverðtryggðra skuldabréfalána á tímabilinu nemi vextir 10.466.549 krónum.
Sóknaraðili byggir dómkröfur sínar á því að tekið verði tillit til vaxta að fjárhæð 10.466.549 krónur, sbr. ofangreindar forsendur, og beri því einungis að samþykkja kröfu varnaraðila að fjárhæð 26.466.549 krónur (16.000.000 + 10.466.549).
Sóknaraðili vísar til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum IX. og X. kafla laganna, og almennra reglna kröfuréttar. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að kjör hins umdeilda láns séu að öllu leyti miðuð við kjör á sambærilegu láni sem félagið hafi tekið hjá Landsbanka Íslands en hafi verið tryggt af sameiganda kröfuhafa félagsins. Frá upphafi hafi verið ætlunin, og hafi verið nauðsynlegt, svo að gætt yrði fulls jafnræðis fyrri eigenda félagsins, að reikna sambærilega vexti og verðbætur á lánin. Þetta megi t.d. ráða af yfirlýsingu tveggja fyrrverandi stjórnarmanna KBK ehf. og endurskoðanda félagsins, dags. 9. júní 2010, þar sem segi m.a.:
Rétt er að árétta sérstaklega að undirritaðir staðfesta að það var sameiginleg ákvörðun stjórnar skv. tillögu Braga Gunnarssonar að reikna skyldi stöðu upprunalegra hluthafalána félagsins annars vegar hjá Jóni Grétari Ingvasyni og hins vegar hjá Landsbankanum (með veðtryggingum frá Braga Gunnarssyni), með sama hætti og að staða þeirri væri því hin sama um hver mánaðarmót. Þetta var ákveðið til að gæta jafnræðis hluthafanna innan félagsins.
Sú skuldaviðurkenning sem sóknaraðili vísi til í greinargerð sinni tilgreini ekki að lánið skuli fara eftir tilteknum vöxtum en vísi til þess að þeir skuli vera sambærilegir við útlánsvexti banka. Óumdeilt sé milli skuldara og kröfuhafa samkvæmt yfirlýsingu, dags. 9. júní 2010, að vextir og greiðslukjör skyldu vera að öllu leyti sambærileg við vexti og greiðslukjör af bankaláni félagsins sem tekið hafi verið og tryggt með veði í fasteign Braga Gunnarssonar. Þetta sé að fullu samrýmanlegt og eðlilegt enda nauðsynlegt til að uppfylla meginreglu laga um einkahlutafélög um jafnræði hluthafa. Samkvæmt henni eigi engum hluthafa að bjóðast betri kjör en öðrum. Samkvæmt fyrrgreindri yfirlýsingu hafi það verið að kröfu fyrirsvarsmanns sóknaraðila að þessi háttur hafi verið hafður á. Eðlilegt sé að vaxtareikna bæði lánin með sama hætti enda sé bankalánið tryggt með veði en hluthafalánið óveðtryggt. Slíkar tryggingar hafi yfirleitt þau áhrif að vextir verði lægri, en varnaraðili hafi þó látið við það sitja að miða við vexti og greiðslukjör þessa láns.
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að vextir þeir sem umdeildir séu í málinu skuli einungis nema 10.466.549 krónum enda segi hann þá vera hæstu vexti óverðtryggðra skuldabréfalána á tímabilinu. Engin gögn séu hins vegar lögð fram þessu til staðfestingar. Varnaraðili taki sérstaklega fram að sönnunarbyrði um tilteknar fullyrðingar og staðreyndir hvíli á þeim er halda þeim fram. Í þessu máli hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að aðrar reikningsaðferðir hafi átt að liggja að baki því láni sem varnaraðili veitti félaginu en hinu láninu sem félagið tók. Þar sem staðhæfingar sóknaraðila séu allsendis ósannaðar sé ekki annað hægt en að fallast á kröfu varnaraðila í málinu.
Samkvæmt öllu framangreindu sé þess krafist að krafa varnaraðila verði viðurkennd eins og henni var lýst í kröfulýsingu og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins. Öllum röksemdum og málsástæðum sóknaraðila sé hafnað sem röngum og ósönnuðum.
Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og til meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar og kröfuréttar. Þá vísar hann til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem það á við, og til stuðnings málskostnaðarkröfu, sérstaklega til XXI. kafla, allt með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Niðurstaða
Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., lýsti einni kröfu í þrotabú KBK ehf. Skiptastjóri hafnaði kröfu hans og var afstaða skiptastjóra staðfest með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum í dag í máli nr. X-269/2010. Þar sem sóknaraðili er af þeim sökum ekki lengur kröfuhafi í þrotabú KBK ehf., sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, þykir hann ekki lengur hafa lögvarinn rétt til að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert. Af þeirri ástæðu, og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 486/2002, verður kröfu hans vísað frá dómi.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, Húsaviðhalds og viðgerða ehf., er vísað frá dómi.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Jóni Grétari Ingvasyni, 150.000 krónur í málskostnað.