Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-363
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Nauðungarsala
- Óskipt sameign
- Úthlutun söluverðs
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 17. desember 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 4. sama mánaðar í málinu nr. 725/2019: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að frumvarpi sýslumanns 30. janúar 2019 til úthlutunar á söluverði tilgreindrar fasteignar í Kópavogi við nauðungarsölu verði breytt á þá leið að eftirstöðvum söluverðs verði úthlutað óskert til hans og að ekkert komi í hlut gagnaðila. Fasteignin var seld nauðungarsölu 19. september 2018 til slita á sameign málsaðila. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Vísað var til þess að við úthlutun söluverðs fasteignarinnar hefði sýslumaður miðað við þau eignarhlutföll sem fram komu í kaupsamningi og afsali fyrir fasteigninni. Talið var að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun um að þinglýstar eignarheimildir gæfu ranga mynd af eignarhaldi fasteignarinnar. Þá yrði við úthlutun sýslumanns á söluverði fasteignarinnar, og í máli sem rekið væri um hana eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/1991, ekki leyst úr ágreiningi sem lyti að fjárhagslegu uppgjöri milli málsaðila.
Leyfisbeiðandi byggir á að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi. Vísar hann einkum til þess að hinn kærði úrskurður feli í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið og að hann geti ekki höfðað almennt einkamál til þess endurheimtu eignarhluta síns eða andvirði hans. Því hafi við meðferð málsins borið að leysa úr ágreiningi aðila um fjárhagslegt uppgjör þeirra á milli. Telur leyfisbeiðandi að hvorki héraðsdómur né Landsréttur hafi leyst úr öllum málsástæðum hans einkum um það hvort skuldir gagnaðila sem til hafi verið komnar vegna sameignarinnar hafi átt að koma til frádráttar við slit hennar. Af þessum sökum beri að ómerkja úrskurðina sem séu jafnframt rangir að formi og efni til.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn um það geti haft fordæmisgildi, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.