Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-118
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Opinberir starfsmenn
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 28. mars 2019 leitar Hafliði Páll Guðjónsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í málinu nr. 310/2018: Hafliði Páll Guðjónsson gegn íslenska ríkinu og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið tekur ekki afstöðu til beiðninnar.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna uppsagnar tveggja ráðningarsamninga hans við Fjölbrautarskóla Vesturlands, annars vegar ótímabundins samnings um stöðu kennara og hins vegar tímabundins samnings um stöðu aðstoðarskólameistara. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að uppsögn tímabundna ráðningarsamningsins hafi verið ólögmæt. Landsréttur taldi það sama eiga við um uppsögn leyfisbeiðanda úr starfi kennara við skólann og komst þannig að annarri niðurstöðu en héraðsdómur um það atriði. Um ákvörðun bóta vísaði Landsréttur til þess að meta yrði samningana sem eina heild og dæmdi leyfisbeiðanda samtals 4.500.000 krónur í bætur fyrir fjártjón og miska en í héraði höfðu þær verið ákveðnar alls 6.500.000 krónur.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Hæstaréttar í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu á stöðluðum skilmálum í tímabundnum ráðningarsamningum sem gagnaðili geri við opinbera starfsmenn, auk þess sem niðurstaðan varði verulega hagsmuni sína. Þá telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til um túlkun á ákvæðum samninganna, fjárhæð bóta og ákvörðun málskostnaðar. Þannig hafi Landsréttur ekki rökstutt þá niðurstöðu að lækka fjárhæð bóta frá því sem dæmt var í héraði. Samningarnir hafi falið í sér ólík réttindi og skyldur sem fallið hafi til á mismunandi tímum og því sé rangt að meta þá sem eina heild við ákvörðun bóta. Loks telur leyfisbeiðandi að við ákvörðun málskostnaðar hafi átt að miða upphaf málsins við þann tíma þegar fyrsta ólögmæta ákvörðunin hafi verið tekin, því þá hafi hann þurft að leita sér aðstoðar lögmanns, sbr. g. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.