Hæstiréttur íslands
Mál nr. 246/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Haldsréttur
|
|
Föstudaginn 20. ágúst 2004. |
|
Nr. 246/2004. |
Vélsmiðjan og Mjölnir skipa- og vélaþjónusta ehf. (Tryggvi Agnarsson hdl.) gegn Jóni Magnússyni (enginn) Olíuverzlun Íslands hf. og (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) Deutz Danmark A/S (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Haldsréttur.
V ehf. sem framkvæmdi viðgerð á skipi taldi sig eiga haldsrétt til tryggingar kröfu sinni. Hafði V ehf. tekið að sér að gera við skipið og hafa eftirlit með því þar sem það lá í þar til greindri höfn. Var samkomulag um að kostnað vegna þessa þyrfti jafnvel ekki að greiða fyrr en útgerð skipsins skilaði tekjum. Talið var að V ehf. hafi ekki haft skipið í vörslu sinni og því væru skilyrði haldsréttar ekki fyrir hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 12. maí 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hnekkt yrði ákvörðun sýslumannsins í Bolungarvík 22. september 2003 um að breyta ekki frumvarpi sínu til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Kristina Logos við nauðungarsölu á þann veg að tekin yrði til greina krafa sóknaraðila um úthlutun á 5.250.000 krónum til greiðslu kröfu í skjóli haldsréttar. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að frumvarpinu verði breytt þannig að hann fái úthlutað af söluverði skipsins 5.250.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Olíuverzlun Íslands hf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilarnir Jón Magnússon og Deutz Danmark A/S hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til þess, sem greinir í forsendum hins kærða úrskurðar, verður að fallast á með héraðsdómara að sóknaraðili hafi ekki haft skipið í sinni vörslu í skilningi 1. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og því séu skilyrði haldsréttar ekki fyrir hendi. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum Olíuverzlun Íslands hf. kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Vélsmiðjan og Mjölnir skipa- og vélaþjónusta ehf., greiði varnaraðilanum Olíuverzlun Íslands hf. 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 12. maí 2004
Mál þetta, sem var dómtekið 3. maí sl., var höfðað við þingfestingu þess 21. nóvember sl.
Sóknaraðili er Vélsmiðjan og Mjölnir skipa- og vélaþjónusta ehf., Mávakambi 2, Bolungarvík. Varnaraðilar eru Jón Magnússon, Skjólbraut 20, Kópavogi, Olíuverslun Íslands hf., Pósthússtræti 13, Reykjavík og Deutz Danmark A/S.
Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumanninn í Bolungarvík að breyta ákvörðun sem hann tók 22. september 2003 um að hafna því að greiða kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.250.000 krónur ásamt vöxtum og kostnaði af uppboðsandvirði skipsins Kristinar Logos og að lagt verði fyrir sýslumann að samþykkja kröfuna og haldsrétt sóknaraðila og greiða ofangreinda fjárhæð af uppboðsandvirðinu, með dráttarvöxtum af henni frá 5. maí 2003 og málskostnað.
Olíuverslun Íslands hf. krefst þess að greind ákvörðun verði staðfest og málskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.
I.
Hinn 25. júní 2003 seldi sýslumaðurinn í Bolungarvík skipið Kristinu Logos, skráð í Belize nr. 0779920073, við nauðungarsölu á uppboði. Gerðarþoli var varnaraðili Jón Magnússon. Hæsta boð var framselt til varnaraðila Olíuverslunar Íslands hf. Samþykkti sýslumaður boðið 18. júlí 2003. Við söluna 25. júní 2003 lagði sóknaraðili fram kröfulýsingu, þar sem hann kvaðst gera kröfu á eigendur skipsins vegna ýmis konar viðgerðavinnu, efnis, áhaldaleigu, vélavinnu og eftirlits með skipi frá nóvember 2002 til 25. júní 2003. Fylgdi reikningur að fjárhæð 5.250.000, dagsettur 5. maí 2003. Ekki var sérstaklega tekið fram í kröfulýsingunni að gerð væri krafa um að þessi fjárhæð yrði greidd af uppboðsandvirðinu og ekki heldur á hvaða grundvelli.
Frumvarp sýslumanns til úthlutunar á söluverðinu er dagsett 18. júlí 2003. Samkvæmt því greiddist lögveðkrafa og síðan til varnaraðilanna Olíuverslunar Íslands hf. og Deutz Danmark A/S upp í kröfur tryggðar með 1. veðrétti.
Sóknaraðili mótmælti frumvarpinu og krafðist þess að krafa samkvæmt greindum reikningi, ásamt nánar greindum vöxtum, yrði greidd af söluverðinu á grundvelli haldsréttar. Hafnaði sýslumaður því á fundi 22. september 2003. Lýsti sóknaraðili því yfir að ákvörðunin yrði borin undir héraðsdóm og er mál þetta rekið um hana.
II.
Sóknaraðili kveðst ekki hafa vitað af uppboði á skipinu fyrr en nokkrum mínútum áður en það hófst. Hafi fyrirsvarsmaður sinn mætt og gert þar kröfu um að krafa sóknaaðila yrði samþykkt og að hún nyti haldsréttar, enda til komin vegna viðgerða á skipinu og það í vörslum sóknaraðila.
Sóknaraðili kveðst hafa unnið við skipið að beiðni Magnúsar Reynis Guðmundssonar, en ekki hafi verið upplýst hver ætti það, en sóknaraðili hafi talið að eigandinn væri mögulega Ísrúss ehf. og nefndur Magnús rekstraraðili þess. Vegna þessarar óvissu hafi reikningurinn verið stílaður á skipið sjálft.
Sóknaraðili byggir á því að hann eigi haldsrétt fyrir kröfunni og vísar til 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Sé reikningurinn vegna ómótmælts og sanngjarns viðgerðarkostnaðar og hafi hann haft vörslur skipsins óumdeildar og óslitnar frá upphafi til loka viðgerða og hafi haft þær enn er skipið var boðið upp. Eigi krafan að ganga framar samningsbundnum veðréttindum og öðrum eignarhöftum, en víkja fyrir sjóveðréttindum.
III.
Varnaraðili, Olíuverslun Íslands hf., kveðst byggja á því að krafa sóknaraðila sé vanreifuð og órökstudd. Sé hún byggð á reikningi, gefnum út á hendur skipinu Kristinu Logos, á heimilisfang eiganda að Skjólbraut 20, Kópavogi. Hvergi komi fram á hendur hverjum krafan eigi að beinast. Verði sóknaraðili að hafa ábyrgð á því að ganga úr skugga um hver eigi að greiða fyrir tiltekið verk áður en það er unnið og þar sem enginn skuldari sé tilgreindur að kröfunni sé ekki unnt að leggja dóm á hana.
Þá tekur varnaraðili fram að í yfirliti með ofangreindum reikningi komi hvergi fram hvaða verk hafi verið unnin og engin frekari gögn skýri hvernig þessar fjárhæðir séu til komnar. Hvorki verkbeiðni, sem sé óundirrituð, né athugasemdalisti séu í samræmi við yfirlitið. Að verkbeiðninni frátalinni liggi ekkert fyrir um það að sóknaraðila hafi verið falið að vinna við skipið og sé því mótmælt sem ósönnuðu. Mótmælir varnaraðili því einnig að sú vinna sem krafist er greiðslu fyrir hafi farið fram. Kveðst hann einnig halda því fram að eigandi skips, eða aðili með skýrt umboð frá eiganda verði að biðja um að verk sé unnið á skipinu til að krafa sé tæk, en ekkert liggi frammi í málinu um slíkt umboð. Telur varnaraðili að reikningur sóknaraðila sé ekki nægur grundvöllur fyrir kröfu sóknaraðila.
Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili eigi haldsrétt í skipinu. Sé ósannað og rangt að hann hafi haft vörslur þess. Hafi það legið í Bolungarvíkurhöfn og hafi eigandinn haft öll tök á að færa það þaðan hvenær sem var. Þá sé á því byggt að haldsréttur geti einungis stofnast í skipi vegna viðgerðarverks, sem beðið hafi verið um af eiganda skips eða manni með skýrt umboð hans. Skorti á að þetta skilyrði sé uppfyllt og liggi fyrir að sóknaraðili hafi ekki vitað hver ætti skipið þegar hann segi sér hafa verið falið að vinna við það.
Þá telur varnaraðili að til haldsréttar geti ekki stofnast nema með viðgerðum eða framkvæmdum hafi orðið virðisauki á skipinu. Sé því mótmælt að viðgerðir hafi farið fram, hvað þá að virðisauki hafi orðið vegna þeirra. Þá telur varnaraðili að til að njóta haldsréttar fyrir viðgerðarkostnaði verði þær að vera forsvaranlegar og í þágu rétthafa. Á þeim tíma er sóknaraðili hafi byrjað vinnu við skipið hafi uppboðsmeðferð verið byrjuð, en það hafi verið 8. júní 2002 og hafi byrjun uppboðs verið ákveðin 4. nóvember sama ár. Eigandi þess hafi ekki falið sóknaraðila að framkvæma viðgerð og hann hafi ekki getað upplýst að hverjum hann beini kröfu sinni. Þannig verði öll viðgerðarvinna á skipinu að teljast óforsvaranleg og í andstöðu við hagsmuni rétthafa. Þá verði ekki séð hvaða hluti kröfunnar sé vegna viðgerðarvinnu og hvað gert hafi verið og sé ósannað að viðgerðir hafi farið fram.
IV.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Finnbogi Bernódusson, gaf skýrslu hér fyrir dómi. Kveður hann hafa samist um það við Magnús Reyni Guðmundsson, sem hafi komið fram sem væntanlegur útgerðarmaður skipsins, að sóknaraðili kæmi því í haffært stand. Magnús hafi gert grein fyrir því að hann væri félítill og hafi samist um að ekki yrði greitt fyrir viðgerðir á skipinu fyrr en jafnvel að þeim loknum, og þá hugsanlega með greiðslum af andvirði afla, er skipið yrði komið á veiðar. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um verkið eða greiðslur fyrir það, þótt það hafi staðið til, en fyrirsvarsmaður sóknaraðila tók fram að hann þekki Magnús Reyni vel. Þá sagði hann að Magnús Reynir hefði samið um legupláss í Bolungarvíkurhöfn fyrir skipið, en sóknaraðili hefði vaktað það og litið eftir landfestum. Skipstjóri á vegum útgerðarinnar hefði haft lykil að stjórnpallshúsi og það verið læst, en sóknaraðili hefði leitast við að loka aðgangi að skipinu að öðru leyti.
Samkvæmt 1. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 getur sá sem hefur smíðað skip eða framkvæmt viðgerð á því beitt haldsrétti til tryggingar kröfu sinni vegna smíðinnar eða viðgerðarinnar, enda hafi hann vörslu skipsins. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns sóknaraðila var gert ráð fyrir því að veita gjaldfrest á viðgerðarkostnaðinum, a.m.k. að hluta til, þannig að hann yrði greiddur er útgerð skipsins færi að skila tekjum. Hefur því ekki verið ætlun sóknaraðila í upphafi að beita haldsrétti til tryggingar kröfunni.
Þá kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns sóknaraðila eins og að ofan er greint að nefndur Magnús Reynir hefði fengið legupláss fyrir skipið í Bolungarvíkurhöfn og að skipstjóri á vegum útgerðarinnar hefði verið með lykil að stjórnpallshúsi. Þótt sóknaraðila hafi verið falið eftirlit með skipinu og hann framkvæmt viðgerðir á því þar sem það lá, verður ekki litið svo á að hann hafi við þessar aðstæður haft það í sinni vörslu í skilningi 1. mgr. 200. gr. siglingalaga. Því var skilyrði ákvæðisins fyrir því að hann gæti beitt haldsrétti ekki uppfyllt. Þegar af þessari ástæðu verður ákvörðun sýslumanns staðfest, en eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af rekstri málsins.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Bolungarvík um að úthluta ekki af söluverði skipsins Kristinu Logos til sóknaraðila, Vélsmiðjunnar og Mjölnis skipa- og vélaþjónustu ehf.
Málskostnaður fellur niður.