Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/1998


Lykilorð

  • Skip
  • Kaupsamningur
  • Veiðiheimildir


Fimmtudaginn 28

Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 241/1998.

Básafell hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Barði ehf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

Skip. Kaupsamningur. Veiðiheimildir.

Ú seldi E bátinn Í, sem hafði farist skömmu áður, og var tekið fram í afsalinu að báturinn væri seldur án kvóta, að honum fylgdu engar veiðiheimildir og að í raun væri verið að selja byggingarrétt sem fylgdi bátnum. Síðar heimilaði E B að nýta endurnýjunarrétt bátsins á fiskiskipið H sem var í eigu B. Með lögum nr. 105/1996 um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða var lögfest heimild til að úthluta viðbótaraflahlutdeild til skipa sem stundað höfðu línuveiðar á ákveðnum tímabilum, enda kæmi viðbótin í stað svokallaðrar línutvöföldunar. Á grundvelli lagabreytinganna var skipinu H í eigu B úthlutað viðbótaraflahlutdeild m.a. í þorski og ýsu sem grundvallaðist á aflareynslu skipsins Í. B neitaði að viðurkenna rétt Ú til aflamarksins og krafðist Ú bóta úr hendi B, sem svaraði til verðmætis hinnar auknu aflahlutdeildar. Talið var að Ú hefði átt réttmætt tilkall til viðbótar-aflahlutdeildarinnar, þrátt fyrir að hann ætti ekki fiskiskip þegar hún kom til úthlutunar, og með því að fara á mis við hana hefði hann bersýnilega orðið fyrir tjóni. B var því dæmdur til að greiða Ú bætur sem svaraði til gangverðs aflahlutdeildarinnar í viðskiptum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 1998. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Málið var dómtekið í héraði að lokinni aðalmeðferð 27. mars 1998. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 11. maí sama árs var því lýst yfir af hálfu aðila að þeir teldu ekki þörf á að málið yrði munnlega flutt á ný og lýsti héraðsdómari sig því samþykkan, sbr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Samkvæmt gögnum málsins átti stefndi fiskiskipið Ísborgu BA 477, sem sökk seinni hluta árs 1994, og hafði meðal annars gert það út til línuveiða. Hann gaf út afsal 9. september 1994 til Eyrasparisjóðsins fyrir skipinu, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Bátnum hefur þegar verið eytt og er í raun verið að selja byggingarétt sem fylgir bátnum. Byggingarétturinn telst vera 254,8 rúmmetrar. Báturinn er seldur án kvóta og honum fylgja engar veiðiheimildir.“ Með yfirlýsingu Eyrasparisjóðsins 26. október 1994 heimilaði hann Ásafelli hf. „að nýta endurnýjunarrétt bátsins á fiskiskipið Hafrafell ÍS 222, sskrnr. 2204.“ Fyrir liggur að stefndi fékk við gerð afsalsins til Eyrasparisjóðsins greiddar 9.030.000 krónur, sem munu hafa gengið inn á skuldir hans við sparisjóðinn. Sparisjóðurinn fékk síðan sömu fjárhæð úr hendi Ásafells hf. í tengslum við þá ráðstöfun, sem um ræddi í fyrrnefndri yfirlýsingu. Óumdeilt er að með þessu hafi Ásafell hf., sem mun hafa sameinast áfrýjanda 1. júní 1995, eignast veiðileyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem áður fylgdi skipi stefnda, og nýtt sér það eftir ákvæðum 5. gr. laganna fyrir annað fiskiskip.

Stefndi ráðstafaði aflahlutdeild fiskiskipsins Ísborgar 27. október 1994, en þau viðskipti eru þessu máli óviðkomandi. Hann mun hafa keypt í nóvember 1994 annað fiskiskip með veiðileyfi og aflahlutdeild og gert skipið út í um eitt ár, en þá selt það. Hefur stefndi ekki starfað við útgerð síðan.

Á þeim tíma, sem stefndi gaf út afsal fyrir fiskiskipinu Ísborgu, var í gildi 6. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 6. gr. laga nr. 87/1994, þar sem kveðið var á um að fiskur, sem veiddist á línu á tímabilinu frá nóvember til febrúar, skyldi aðeins talinn að hálfu til aflamarks þar til samanlagður línuafli næmi nánar tilgreindu magni. Þessi skipan, svokölluð línutvöföldun, var afnumin með 6. gr. laga nr. 105/1996. Um leið var mælt svo fyrir í bráðabirgðaákvæði við lögin að reikna skyldi út viðbótaraflahlutdeild handa skipum, sem notuð voru til línuveiða fyrrnefnda mánuði á fiskveiðiárunum 1993 til 1994, 1994 til 1995 og 1995 til 1996. Skyldi þetta gert eftir nánar tilteknum reglum, þar sem taka átti mið af línuafla einstakra skipa á umræddum árum. Þessu til samræmis ákvað Fiskistofa á ný aflahlutdeild fyrir skip áfrýjanda, Hafrafell ÍS 222, sem jókst sem svaraði 0,0066765% af heildarþorskafla og 0,0003617% af heildarafla ýsu. Með tilliti til aukinnar aflahlutdeildar skipsins var aflamark þess á fiskveiðiárinu 1996 til 1997 ákveðið 23.486 kg af þorski og 3.651 kg af ýsu, auk annarra fisktegunda, sem koma hér ekki frekar við sögu. Óumdeilt er að aflahlutdeild, sem jók aflamark þessa fiskveiðiárs um 8.287 kg af þorski og 123,8 kg af ýsu, eigi rætur að rekja til veiðireynslu Ísborgar BA 477 á fiskveiðiárinu 1993 til 1994, þegar stefndi átti skipið og gerði það út. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um bætur, sem svara til verðmætis þessarar auknu aflahlutdeildar, eða 4.988.284 krónur. Ágreiningur er ekki um þá fjárhæð.

II.

Í fyrrgreindum löggerningum, sem færðu réttindi úr hendi stefnda til áfrýjanda, var skýrlega kveðið á um að aðeins væri ráðstafað byggingarrétti eða endurnýjunarrétti, en hvorki átti að fylgja aflahlutdeild né aflamark. Samkvæmt því og með vísan til dóms Hæstaréttar 26. febrúar 1998 í máli nr. 305/1997, sbr. einnig dóm 7. maí sama árs í máli nr. 346/1997, verður að líta svo á að sú viðbótaraflahlutdeild, sem hér á undan var lýst, hafi ekki með réttu átt að koma í hlut áfrýjanda, heldur í hlut stefnda. Á þeim tíma, sem viðbótaraflahlutdeildin kom til úthlutunar, átti stefndi ekki fiskiskip, sem mátti ráðstafa henni til. Þetta stendur því á hinn bóginn ekki í vegi að farið verði í lögskiptum aðilanna með aflahlutdeildina eins og stefndi hafi átt réttmætt tilkall til að fá henni úthlutað í öndverðu, enda fékk áfrýjandi hana í reynd og er nú krafinn um bætur sem svara andvirði hennar, en ekki um skil á henni. Með því að fara á mis við viðbótaraflahlutdeildina hefur stefndi bersýnilega orðið fyrir tjóni, sem svaraði til gangverðs hennar í viðskiptum. Fjárhæð bótakröfu stefnda hefur sem áður segir ekki sætt andmælum. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda bætur og vexti, eins og ákveðið var í héraðsdómi.

Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað, sem áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og ákveðið er í einu lagi í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Básafell hf., greiði stefnda, Barði ehf., samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 1998.

Ár 1998 mánudaginn 11. maí er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E- 2596/1997: Útgerðarfélagið Barð hf.gegn Eyrasparisjóði og Básafelli hf.

Mál þetta sem dómtekið var 27. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 22. maí 1997.

Stefnandi er Barð ehf., kt. 590391-1079, Hjöllum 9, Patreksfirði.

Stefndu eru Eyrasparisjóður kt. 520169-1139, Bjarkargötu 1, Patreksfirði og Básafell hf., kt. 680292-2059, Sindragötu 1, Ísafirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði in solidum dæmdir til þess að greiða honum 6.379.184 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1996 af 4.988.294 krónum til 1. september 1997 en af 6.379.184 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda Eyrasparisjóðs eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda Básafells hf. eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Básafelli hf. málskostnað að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök.

Með afsali dagsettu 9. september 1994 seldi stefnandi og afsalaði stefnda Eyrasparisjóði m.b. Ísborgu BA-477, skipaskrárnr. 498. Í afsalinu segir:

„Báturinn er seldur án kvóta og honum fylgja engar veiðiheimildir. Bátnum hefur þegar verið eytt og er í raun verið að selja byggingarrétt sem fylgir bátnum. Byggingarrétturinn telst vera 254,8 rúmmetrar. “

Í samræmi við framangreint ákvæði flutti stefnandi aflahlutdeild og aflamark af mb. Ísborgu BA-477 yfir á annað skip.

Hinn 25. október 1994 gaf stefndi Eyrasparisjóður yfirlýsingu um að sparisjóðurinn myndi greiða veðskuld á 8. veðrétti bátsins. Ekki kemur fram að hverjum téðri yfirlýsingu er beint. Í yfirlýsingunni segir ennfremur:

„Jafnframt heimilar sparisjóðurinn Ásafelli hf., kt. 620763-2489, að nýta endurnýjunarrétt bátsins á fiskiskipið Hafrafell ÍS-222, sskrnr. 2204.“

Ásafell hf. var sameinað stefnanda Básafelli hf.hinn 1. júní 1995. Í framhaldi þessa var endurnýjunarréttur sá sem yfirlýsingin vísar til nýttur við skráningu á Hafrafelli ÍS-222, skipaskrárnr. 2204, en það skip er í eigu stefnda Básafells hf.

Með lögum nr. 105/1996 um. breyting á l. 38/1990 um stjórn fiskveiða var lögfest heimild til að úthluta viðbótaraflahlutdeild til skipa sem stundað höfðu línuveiðar á fiskveiðaárunum 1993-1994, 1994-1995 og 1995-1996, enda kæmi viðbótin í stað svokallaðrar línutvöföldunar, þ.e. að einungis helmingur afla í þorski og ýsu reiknaðist í kvóta viðkomandi skips, sem um leið var felld niður. Um svipað leyti var ákveðið að taka steinbítsafla inn í kvóta, sem áður var utan kvóta.

Á grundvelli framangreindra breytinga á l. 38/1990 var Hafrafelli ÍS-222, eign Básafells hf., úthlutað viðbótaraflahlutdeild í þorski, ýsu og steinbít er grundvallaðist á aflareynslu Ísborgar BA 477 er hún var í eigu stefnanda og var haffær.

Samkvæmt tilkynningum frá Fiskistofu, sbr. og bréf Fiskistofu 3. mars 1997 til lögmanns stefnanda, var viðbótaraflahlutdeild ákvörðuð á framangreindum grundvelli sem hér segir:

Þorskur:

Viðbótaraflahlutdeild þorsks nemur 0,0066765% af heildarúthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 1996/1997 eða 35.283206% af heildar aflahlutdeild Hafrafells ÍS-222 á téðu fiskveiðiári. Samkvæmt tilkynningu Fiskistofu um aflamark og aflahlutdeild, dags. 15. ágúst 1996 var úthlutað aflamark í þorski 23.486 kg. Af þeirri tölu nemur hlutur viðbótarúthlutunar 8.287 kg. er stafar frá Ísborgu BA-477.

Ýsa:

Viðbótaraflahlutdeild ýsu nemur 0,0003617% af heildarúthlutun fiskveiðaársins 1996/1997. Heildarúthlutun Hafrafells ÍS-222 nam 0,0106630% og er viðbótarhlutdeildin því 3.39% af heildaraflahlutdeild. Aflamark ársins var 3.651,- kg og er því hlutur viðbótarúthlutunar 123,8 kg. er stafar frá Ísborgu BA-477.

Stefnandi byggir á því að verðmæti viðbótaraflahlutdeildar í þorski sé 8.287 kg. x 600 krónur eða 4.972.200 krónur og verðmæti viðbótaraflahlutdeildar í ýsu 123.8 kg. x 130 krónur eða 16.094 krónur sem eru samanlagt 4.988.294 krónur vegna fiskveiðiársins 1996-1997. Þá er byggt á því að stefnanda beri aukning aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári sem er 1959 kg á 710 krónur hvert kg eða 1.390.890 krónur. Samanlagðar eru þessar fjárhæðir stefnukrafan eða 6.379.184 krónur.

Þegar viðbótarúthlutun samkvæmt lögum nr 105/1996 átti sér stað kveðst stefnandi þegar hafa haft samband við sparisjóðsstjóra stefnda Eyrasparisjóðs svo og stjórnendur stefnda Básafells hf. og krafist þess að téð viðbótaraflahlutdeild, vegna Ísborgar BA-477, yrði tafarlaust flutt yfir á skip stefnanda enda væri ljóst að engar veiðiheimildir, hvorki aflahlutdeild né aflamark tilheyrði hinum síðastgreindu aðilum. Hafi hvorki gengið né rekið þrátt fyrir að stefnandi hafi mætt, að því er hann taldi, skilningi af hálfu hlutaðeigandi aðila. Svo hafi komið að því að stefnandi leitaði til lögmanns. Í framhaldi þess hafi lögmaður stefnanda átt samtal við sparisjóðsstjóra stefnda Eyrasparisjóðs þar sem niðurstaða hafi orðið að beina skyldi fyrst í stað formlegri kröfu að stefnda Básafelli hf., enda ekki þörf á frekari aðgerum gegn sparisjóðnum ef Básafell hf. féllist á að verða við kröfum stefnanda. Hafi lögmaður stefnanda ritað bréf til Básafells hf. hinn 5. febrúar 1997 þar sem þess var krafist að téð viðbótaraflahlutdeild yrði annaðhvort greidd stefnanda eða flutt yfir á skip hans skv. nánari ákvörðun hans. Stefndi Básafell hf. hefði ekki orðið við kröfum stefnanda.

Lögmaður stefnanda hafi ritað bréf til stefnda, Eyrasparisjóðs, 14. apríl 1997, þar sem gerðar voru formlegar fjárkröfur á hendur sparisjóðnum vegna ólögmætrar notkunar á veiðiheimildum stefnanda. Hafi stefnda Eyrasparisjóði þá verið gefinn kostur á að ljúka málinu með greiðslu samkvæmt markaðsverði fyrra fiskveiðiárs að viðbættum vöxtum. Hinn 29. apríl hafi borist svarbréf frá lögmanni stefnda Eyrasparisjóði þar sem kröfum stefnanda var alfarið hafnað. Sé stefnandi því alls óbundinn af fyrri tilboðum sínum og krefji stefndu um skaðabætur til samræmis við ítrasta markaðsverð.

Sé því ljóst að stefnandi sé knúinn til þess að höfða mál þetta og krefja um bætur vegna ólögmætrar notkunar á veiðiheimildum sem honum tilheyra.

Af hálfu stefnanda er tekið fram að með afsali dagsettu 9. september 1994 hafi stefnandi selt stefnda Eyrasparisjóði m/b Ísborgu án alls kvóta eða veiðiheimilda. Eins og greini í afsalinu hafi stefnandi eingöngu verið að selja endurnýjunarrétt bátsins enda hafi báturinn þá þegar verið ónýtur og stefnandi hefði flutt allar veiðiheimildir af bátnum. Hafi verðlagning bátsins einungis verið miðuð við endurnýjunarrétt en ekki veiðiheimildir enda þær skýrlega undanskildar í afsalinu. Telur stefnandi að undanskildar veiðiheimildir nái ekki aðeins til veiðiheimilda á söludegi heldur og til þeirra réttinda sem aflareynsla Ísborgar BA-477 á eignarhaldstíma stefnanda sem stjórnvöld kynnu að leggja til grundvallar ákvörðunum sínum um viðbótaraflahlutdeild í þorski og ýsu, svo og aflahlutdeild við kvótabindingu á tegundum utan kvóta svo sem steinbít. Vísar stefnandi um þetta til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 401/1994. Af þessum ástæðum hafi stefndi Eyrasparisjóður ekki eignast neins konar tilkall til veiðiheimilda sem bátnum fylgdu eða síðar kynni að verða úthlutað eins og hér var gert. Því hafi Eyrasparisjóður einvörðungu getað heimilað Ásafelli hf. síðar stefnda Básafelli hf. að nýta þau réttindi sem stefndi Eyrasparisjóður hefði fengið í viðskiptum við stefnanda, þ.e.a.s. endurnýjunarréttinn, svo sem komi skýrlega fram í yfirlýsingu stefnda Eyrasparisjóðs frá 26. október 1994.

Þá er á því byggt að stefnda Básafelli hf. hafi verið eða mátt vera ljóst að veiðiheimildir fylgdu alls ekki með hagnýtingu á endurnýjunarrétti bátsins.

Stefnandi kveður skaðabótakröfu á hendur stefnda Eyrasparisjóði byggjast á sjónarmiðum um skaðabætur innan samninga en kveður kröfu sína á hendur stefnda, Básafelli hf., byggða á sjónarmiðum um skaðaverk utan samninga. Hafi félagið með saknæmum og ólögmætum hætti varnað því að stefnandi gæti nýtt sér þær veiðiheimildir sem honum tilheyrðu með réttu og þannig valdið stefnanda tjóni.

   Af hálfu stefnda Básafells hf. er málavöxtum lýst svo að með samkomulagi í lok október 1994 við Eyrasparisjóðinn á Patreksfirði hafi verið gengið frá kaupum Ásafells hf. á endurnýjunarrétti Ísborgar BA-477, 254,8 rúmmetrum, þ.m.t. því veiðileyfi sem fylgt hafi þeim rétti, en sparisjóðurinn var þá eigandi þeirra. Ásafell hf. hafi fært hina seldu rúmmetra, og tilheyrandi veiðileyfi, yfir á skip sitt Hafrafell ÍS-222, skipaskrárnúmer 2204, en að auki sambærileg réttindi frá Geysi BA-140 og Dröfn ÍS-44, til að fullri rúmmetratölu yrði náð. Hinn 1. júní 1995 var Ásafell hf. sameinað Básafelli hf. og eignaðist Básafell hf. við þann gjörning Hafrafell ÍS-222.

   Á grundvelli framangreinds veiðileyfis, ættuðu frá Ísborgu BA-477, hafi Básafelli hf. verið úthlutað aukinni aflahlutdeild í þorski og ýsu, hinn 15. ágúst 1996, þegar ákvæði laga nr. 105 frá 19. júní 1996, hafi komið til framkvæmda en þau fólu í sér afnám svokallaðrar línutvöföldunar.

   Um hálfu ári eftir að Básafelli hf. hafi verið úthlutað framangreindri aflahlutdeild, og tilheyrandi aflamarki innan fiskveiðiársins 1996/1997, hafi fyrrum eigandi Ísborgar BA-477, stefnandi þessa máls, gert kröfu um að Básafell hf. færði hana yfir á skip er hann myndi tilgreina, þar sem aflahlutdeildin væri hans eign. Málið var skoðað af hálfu Básafells hf., en áður en til þess kom að erindi stefnanda yrði svarað og synjað með formlegum hætti, hafi stefna máls þessa verið gefin út.

Stefndi Básafell hf. byggir sýknukröfu sína aðallega á grundvelli aðildarskorts, með vísan til 2. tl. 16. gr. eml., á þeirri forsendu að ekkert samningssamband sé á milli Básafells hf. og stefnanda. Básafell hf. hafi aldrei átt nein viðskipti við stefnanda, og því hafi stefnandi ekkert af félaginu að segja. Telji stefnandi sig hlunnfarinn í viðskiptum hljóti hann að beina kröfugerð sinni á hendur Eyrasparisjóðnum einum, og/eða íslensk-um stjórnvöldum. Að auki hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi Básafell hf. hafi valdið honum skaðabótaskyldu tjóni v/ skaðaverks utan samninga, og raunar er þeirri fullyrðingu stefnanda mótmælt harðlega.

   Ef svo ólíklega vilji til að sýknukrafa Básafells hf. á grundvelli aðildarskorts verði ekki tekin til greina krefjist félagið sýknu af kröfugerð stefnanda á eftirgreindum efnislegum og lagalegum forsendum:             

   Þegar Básafell hf. hafi eignast endurnýjunarrétt Ísborgar BA-477 skv. samkomulagi við Eyrasparisjóðinn, hafi lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða verið í gildi. Framsal Eyrasparisjóðsins til Básafells hf. byggist á 2. mgr. 5. gr. laganna. Í reynd sé um að ræða framsal á veiðileyfi skv. 4. gr. laganna er taki til 254,8 rúmmetra. Á þessum tíma hafi jafnframt verið í gildi 1. mgr. 8. gr. laganna, sem enn sé óbreytt, þar sem segi að verði veiðar takmarkaðar á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla sé á, en ekki hafi áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skuli aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila. Þetta ákvæði vísi til efnisákvæðis 4. gr. laganna, þar sem segi að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Hugtakið veiðileyfi sé skýrt lagahugtak í lögum nr. 38/1990.

   Básafell hf. telji ljóst með vísan til framangreinds, að veiðileyfinu sem félagið keypti af Eyrasparisjóðnum, hafi jafnframt fylgt veiðireynsla tengd því, sem áunnist hefði í tíð fyrri eiganda, ef til þess kæmi að hún yrði notuð sem viðmiðun við úthlutun nýrrar aflahlutdeildar/aflamarks, úr því annað var ekki takið fram í samkomulagi aðila, enda geri lögin um stjórn fiskveiða ráð fyrir því. M.ö.o. öll aflareynsla fylgi veiðileyfi við sölu, nema annað sé tekið fram. Jafnframt vísar Básafell hf. til meginreglu 2. mgr. 11. gr. framangreindra laga um stjórn fiskveiða.

   Vakin er athygli á, að stefnandi hafi ekki látið reyna á hvort ákvörðun Fiskistofu, um úthlutun á framangreindum auknum aflahlutdeildum í þorski, ýsu, steinbíti og langlúru, til Básafells hf. stangist á við lög og reglugerðir, hvorki æðra stjórnvaldi né dómstólum. Af því megi ráða að stefnandi sætti sig við niðurstöðuna.

   Meginregla kaupalaga, sjá 2. mgr. 18. gr., og kauparéttar, sé sú að kaupandi hirði arð af hinu selda frá afhendingardegi. Básafell hf. telur nákvæmlega sama gilda í máli þessu.

   Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt. Byggt sé á aflahlutdeildum og aflamarki  20. maí 1997, skv. upplýsingum frá Kvótasölunni ehf. Engu að síður krefjist hann dráttarvaxta af kröfugerð sinni frá 1. september 1996, þ.e. tæpum níu mánuðum áður en grundvöllur fjárkröfu hans verði til. Verði kröfugerð stefnanda tekin til greina að einhverju leyti, sé kröfu um útreikning dráttarvaxta mótmælt sjálfstætt.

   Þá er þeirri staðhæfingu stefnanda mótmælt sérstaklega, að Básafell hf. hafi stofnað til skaðabótaskyldu, þegar félagið hafnaði beiðni stefnanda um að flytja umræddar aflaheimildir og aflamark yfir á skip í eigu stefnanda. Stefnandi hafi aldrei samið við Básafell hf. um eitt eða neitt, og því geti ekki verið um neinn áskilnað af hálfu stefnanda að ræða gagnvart Básafelli hf., um rétt til afla sem kunni að verða úthlutað til Básafells hf. á grundvelli veiðireynslu stefnanda. Básafell hf. hafi þess vegna hvorki aðhafst nokkuð ólögmætt sem fellt geti á hann skaðabótaskyldu, né vanefnt samningsskyldur sem ekki hafi verið fyrir hendi.

   Loks er á því byggt að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni þegar stefnda var úthlutað viðbótaraflahlutdeild á Hafrafell ÍS-222 v/veiðireynslu Ísborgar BA-477, og því eigi kröfugerð hans ekki við rök að styðjast. Er vakin athygli á að stefndi Básafell hf. hafi keypt hluta aflahlutdeilda Ísborgar BA-477 í þorski og ýsu af stefnanda, og sé því handhafi þeirra sbr. bréf Fiskistofu dagsett 26. mars 1998.

   Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á XXI. kafla eml., sérstaklega 130 gr.

Af hálfu stefnda Eyrasparisjóðs kemur fram að ástæða viðskipta við stefnanda hafi verið sú að stefnandi hafi skuldað stefnda, Eyrasparisjóði, háar fjárhæðir. Hafi stefnandi komið að máli við stefnda og óskaði eftir að stefndi yrði þátttakandi með sér í að afsetja bátinn og gera úr honum verðmæti. Stefnandi kvaðst vera með kaupanda að bátnum sem væri Ásafell hf. á Ísafirði, nú stefndi Básafell hf.

Viðskiptin hafi átt að ganga þannig fyrir sig að sparisjóðurinn yfirtæki bátinn með afsali en ráðstafaði síðan aftur byggingarréttinum til stefnda Básafells hf. með yfirlýsingu. Við afsalsgerð skyldu skuldir stefnanda á reikningi hans nr. 477 við sparisjóðinn lækka um kaupverðsfjárhæðina kr. 9.030.000.

Þá skyldi Básafell hf. greiða sömu fjárhæð fyrir bátinn eða kr. 9.030.000 annars vegar með greiðslu í peningum kr. 4.500.000 og hins vegar með veðskuldabréfi að fjárhæð kr. 4.530.000 tryggðu með 13. veðrétti í Hafrafelli ÍS-222, þ.e. í þeim báti sem byggingarrétturinn skyldi flytjast til sbr. dskj. nr. 21 og 22.

Þannig hafi tilgangurinn með viðskiptunum verið sá einn að greiða upp í skuld sem stefnandi var í við stefnda Eyrasparisjóð og það gert með sölu á byggingarrétti bátsins en án allra aflaheimilda.

Milli stefnanda og stefnda Eyrasparisjóðs hafi engar viðræður farið fram um hugsanlegar viðbótaaflaheimildir sem síðar kynnu að vera ákveðnar vegna aflareynslu Ísborgarinnar BA-477 og á sama hátt hafi engar viðræður farið fram milli stefndu Eyrasparisjóðs og Básafells hf. um það þegar gengið var frá yfirlýsingu á milli þeirra. Þannig hafi stefndi Eyrasparisjóður ekki reiknað með að hann væri að gera viðskipti með aflaheimildir heldur einungis með byggingarrétt sem feli þá um leið í sér veiðileyfi/veiðiheimild þ.e. rétt til að gera skip út til fiskveiða.

Stefndi, Eyrasparisjóður, byggir sýknukröfur sínar á því að sú sérstaka viðbótarúthlutun sem Fiskistofa hafi fært á Hafrafell ÍS vegna afnáms línutvöföldunar hafi verið úthlutað til skips sem ekki var í eigu þessa stefnda og honum með öllu óviðkomandi. Þannig hefði stefndi hvorki beint né óbeint orðið eigandi að viðbótaraflahlutdeild frá Fiskistofu og vegna þess hafi engin verðmæti runnið til stefnda sem hann geti eða eigi að gera stefnanda reikningsskil á eða bæta í einu eða öðru formi. Stefndi hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni og því geti stefnandi enga sök á hann borið.

Á sama hátt hafi hann heldur ekki getað framselt viðbótaraflahlutdeildina til Básafells hf. þar sem hann hafi aldrei orðið eigandi hennar og hafi því ekki verið að framselja neitt sem tilheyrði stefnanda.

Þá vísar stefndi til þess að með því að fallast á með stefnanda að uppgjöri á skuldum hans við sparisjóðinn yrði háttað þannig að þær yrðu greiddar eða yfirteknar af stefnda Básafelli hf., hafi hann ekki á nokkurn hátt reiknað með að þau verðmæti sem gengu á milli aðila hefðu verið meira eða annars virði en sem svarar verðmæti byggingarréttarins þ.e. verðmæti 254,8 rúmmetra.

Stefndi hafi því enga hugmynd haft um það frekar en stefnandi að viðskipti þessi myndu síðar verða verðmeiri heldur en þeir í sínum viðskiptum hafi gert ráð fyrir, en stefndi hafi ekki á neinn hátt notið þeirrar verðmætaaukningar.

Stefndi hafi á þeim tíma er viðskiptin voru gerð lagt þann skilning í samninginn við stefnanda að til frambúðar væri ekki verið að kaupa neinar aflaheimildir svo sem fram komi í 2. mgr. í samningi aðila á dskj. nr. 3. Á sama hátt hafi hann talið hins vegar að samningur hans við Básafell hf. tæki eingöngu til byggingarréttar en hvorki til aflaheimilda þá né síðar. Stefndi hafi á þeim tíma er samningur var gerður lagt þann skilning í orðið veiðiheimild að það tæki til eða hefði sömu merkingu og veiðileyfi sem úthlutað væri sérstaklega af stjórnvöldum árlega en fælist ekki sjálfkrafa í byggingarréttinum. 

Stefndi telur samning aðila hafa verið sanngjarnan og eðlilegan enda byggingarrétturinn verðlagður eftir markaðsverði hans án núverandi eða væntanlegra aflaheimilda. 

Að því er varðar merkingu orðsins byggingarréttur í yfirlýsingu stefnda til meðstefnda hafi stefndi á þeim tíma skilið það á þann veg að eingöngu væri átt við rétt fyrir jafnstórt skip sem gæti fengið veiðileyfi skv. sérstökum umsóknum en á engan hátt að með byggingarréttinum fylgdi aflareynsla.

Þá heldur stefndi því fram að séu ákvæði afsalsins milli stefnanda og stefnda eitthvað óljós að því er varðar skilning á eignarhaldi á síðar tilkomnum aflaheimildum sé stefnanda þar um að kenna þar sem hann hafi séð um að útfæra efnisatriði samningsins.

Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hann telur enga tilraun hafa verið gerða af hálfu stefnanda til að fá úthlutað aflaheimildum frá Fiskistofu út á aflareynsluna, en Fiskistofa sé sá aðili sem sjái um úthlutunina og verður að gera kröfu til að stefnandi beini kröfum sínum vegna aflareynslunnar þangað. 

Stefndi mótmælir stefnufjárhæðinni sem allt of hárri og heldur því fram að dráttarvaxtakrafan eigi ekki við rök að styðjast.

Um lagarök vísar stefndi, Eyrasparisjóður, til meginreglna kröfuréttar og samningalaga svo og til reglna um skaðabætur. Þá vísar hann til laga nr. 38/1990 með síðari breytingum.

Málskostnaðarkröfuna styður stefndi við 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 en virðisaukaskattskröfuna við lög nr. 50/1988.

Forsendur og niðurstaða.

   Fram kom hjá vitninu Eiríki Böðvarssyni að forsvarsmenn stefnda Básafells hf. voru að flytja inn stærra skip en þeir áttu fyrir og taka úr rekstri minna. Hafi þeir þurft á viðbótarbyggingarrétti að halda til þess að missa ekki veiðileyfi það sem Hafrafell hafði til bráðbirgða. Þeir hafi vitað af því að forsvarsmaður stefnanda Hjörleifur Guðmundsson var með leyfi á hendi vegna Ísborgar BA sem hafði brunnið og sokkið og hann vísað þeim á stefnda Eyrasparisjóð. Kemur fram í málinu í skýrslum Hjörleifs og Hilmars Jónssonar sparisjóðsstjóra, forsvarsmanns stefnda, Eyrasparisjóðs, að tilgangurinn með viðskiptum aðila var að greiða niður skuldir stefnanda við stefnda Eyrasparisjóð og kom fram í skýrslu þess síðarnefnda að Ísborg var yfirveðsett. Þá kom fram hjá vitninu Eiríki Böðvarssyni að ekkert var rætt um veiðireynslu. Einungis hefði verið rætt um byggingarréttinn enda hefði tilgangurinn með skiptum stefnda Básafells við stefnda Eyrasparisjóð verið sá að fylla upp í það gat sem var ófyllt af byggingarrétti hvað Hafrafell snerti. Ekki hefði stefndi verið að kaupa neina aflahlutdeild þegar þessi viðskipti áttu sér stað. Fram kom hjá vitninu að viðskipti með aflahlutdeild áttu sér stað seinna milli stefnda Básafells og stefnanda. Kemur það og fram í bréfi Fiskistofu til lögmanns stefnda Básafells dagsettu 26. mars sl. en þar segir að aflahlutdeild Ísborgar BA hafi verið flutt til tveggja skipa 27. október 1994 eins og nánar greinir í bréfinu. Kemur einnig fram í bréfi þessu að hefði veiðileyfi Ísborgar ekki verið flutt til Hafrafells ÍS hefði viðbótaraflahlutdeild Hafrafells verið úthlutað til Ísborgar BA þar sem eingöngu var byggt á þeirri aflareynslu sem fylgdi veiðileyfi Ísborgar BA.

    Á því verður að byggja hér að ætlun aðila hafi verið sú að stefndi Básafell hf áður Ásafell hf fengi einungis leyfi það sem stefnandi hafði á hendi vegna Ísborgar BA til þess að geta haldið Hafrafelli ÍS til veiða og að ekki hafi átt sér stað neitt víðtækara framsal réttinda sem kynnu að tengjast skipinu.

Í nefndaráliti meirihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis segir m.a. um brottfall línutvöföldunar sem leiddi af lögum nr. 105/1996 er frumvarp tilþeirra var til meðferðar í nefndinni:

„Til að koma til móts við þau skip sem stundað hafa þessar veiðar á síðustu þremur fiskveiðiárum er í tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að þeim verði reiknuð sérstök viðbótaraflahlutdeild í hlutfalli við veiddan línuafla á þessum tímabilum sem nemur 60 af hundraði af þeim hluta aflans sem ekki taldist til aflamarks.“

Samkvæmt því sem hér kemur fram um tilgang löggjafans er umrætt ákvæði var lögfest og þess sem fram er komið um tilgang aðila við samningsgerðina þykir verða að fallast á það með stefnanda að hann eigi lögmætt tilkall til aukningar þeirrar í aflahlutdeild sem leiddi af lagasetningunni.

Stefnandi beinir kröfum sínum að Eyrasparisjóði og byggir þar á sjónarmiðum um skaðabætur innan samninga.

Ekki verður á það fallist með stefnanda að ábyrgð verði lögð á stefnda með því að ekki er sýnt fram á að hann hafi vanefnt samningsskyldur sínar gagnvart stefnanda og verður þessi stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

Fallast verður á það með stefnanda að stefnda Básafelli hf. hefði borið að veita honum atbeina sinn til að stefnandi gæti nýtt sér aflahlutdeild þá sem sem úthlutað var til Hafrafells ÍS en byggðist á aflareynslu Ísborgar BA. Er hér á því byggt, að eins og á stendur um aðdraganda þess að forveri þessa stefnda fékk veiðileyfi það sem áður tilheyrði Ísborgu BA, hafi stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda með því að synja stefnanda um atbeina sinn til þess að stefnandi gæti nýtt sér umrædda aflahlutdeild.

Ekki er ágreiningur með aðilum um fjárhagslegan grundvöll kröfugerðar stefnanda en þar er byggt annars vegar á matsgerð og hins vegar á niðurstöðu matsmanns um kvótaverð í lok ágúst 1997. Hins vegar er því sérstaklega mótmælt að byggt verði á auknu aflamarki þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári.

Með reglugerð nr. 414/1997 var aflamark Hafrafells ÍS á yfirstandandi ári í þorski aukið um magn sem nemur að verðmæti 1.390.890 krónum samkvæmt útreikningi stefnanda en ekki tölulegur ágreiningur um þetta. Hins vegar verður ekki fallist á það að sú aukning í aflahlutdeild sem leiddi af því að heildarafli þorsks var aukinn renni til stefnanda enda liggja aðrar forsendur til þeirrar aukningar en var í því tilviki sem hér er til úrlausnar.

Samkvæmt þessu verður fallist á það með stefnanda að stefndi Básafell hf. verði dæmdur til að greiða honum 4.988.294 krónur með dráttarvöxtum frá stefnubirtingardegi.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi Básafell hf. dæmdur til að greiða stefnanda 600.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið litið til reglna um greiðslu virðisaukaskatts.

Rétt þykir að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Eyrasparisjóðs falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Básafell hf., greiði stefnanda Barði ehf., 4.988.284 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 1997 til greiðsludags og 600.000 krónur í málskostnað.

Stefndi Eyrasparisjóður skal sýkn af kröfum stefnanda Barðs hf.

Málskostnaður milli stefnda Eyrasparisjóðs og stefnanda fellur niður.