Hæstiréttur íslands

Mál nr. 177/2017

Guðmundur R. Guðlaugsson (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Lífeyrissjóði verslunarmanna (Ólafur G. Gústafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Lífeyrisréttur
  • Örorkulífeyrir

Reifun

Aðilar deildu um hvort L hefði verið heimilt að lögum að greiða G örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hans barst sjóðnum í stað þess að greiða honum lífeyrinn frá fyrra tímamarki eins og G gerði kröfu um í málinu. Talið var að játa yrði lífeyrissjóðum verulegu svigrúmi til að setja reglur um frekari skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris en mælt væri fyrir um í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 7. mgr. 15. gr. og 8. tölulið 2. mgr. 27. gr. þeirra, að því tilskildu að slík skilyrði væru málefnaleg og jafnræðis gætt gagnvart sjóðsfélögum. Sú regla, sem væri að finna í samþykktum L þar sem kveðið væri á um að örorkulífeyri skyldi ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst honum, styddist við málefnaleg rök og þar væri jafnframt gætt meðalhófs gagnvart sjóðsfélögum án þess að þeim væri mismunað. Var því talið að reglan hefði fullnægjandi lagastoð. Réttur G til örorkulífeyris frá L hefði verið háður því að sótt væri sérstaklega um lífeyrinn. Samkvæmt þessu hefði sá réttur ekki orðið virkur fyrr en G hafði sótt um greiðslu lífeyrisins úr hendi L og þá tvö ár aftur í tímann frá því tímamarki. Var L því sýknaður af kröfu G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2017. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að stefnda beri að greiða sér örorkulífeyri frá 18. júní 2010, en til vara frá síðara tímamarki. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi greinir aðila á um það hvort stefnda hafi verið heimilt að lögum að greiða áfrýjanda örorkulífeyri frá 1. júlí 2012 eða tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hans barst stefnda í stað þess að greiða áfrýjanda lífeyrinn frá fyrra tímamarki eins og hann gerir kröfu um.

Í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem gilda um stefnda samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra, kemur fram að í samþykktir lífeyrissjóðs skuli sett frekari ákvæði um örorkulífeyri en leiðir af öðrum ákvæðum laganna, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans. Samkvæmt 8. tölulið 2. mgr. 27. gr. sömu laga skal meðal annars kveða á um það í samþykktum lífeyrissjóðs hver séu réttindi sjóðfélaga til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar.

Samkvæmt framansögðu verður að játa lífeyrissjóðum, þeirra á meðal stefnda, verulegu svigrúmi til að setja reglur um frekari skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris en mælt er fyrir um í lögum nr. 129/1997, að því tilskildu að slík skilyrði séu málefnaleg og jafnræðis sé gætt gagnvart sjóðfélögum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. desember 2009 í máli nr. 665/2008. Fallist er á með héraðsdómi að sú regla, sem er að finna í grein 16.4. í samþykktum stefnda þar sem kveðið er á um að örorkulífeyri skuli ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst honum, styðjist við málefnaleg rök og þar sé jafnframt gætt meðalhófs gagnvart sjóðfélögum, án þess að séð verði að þeim sé mismunað á nokkurn hátt. Samkvæmt þessu er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að reglan hafi fullnægjandi lagastoð.

Réttur áfrýjanda til örorkulífeyris frá stefnda byggist á grein 13.1. í samþykktum hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997, og er háður því að sótt sé sérstaklega um lífeyrinn, sbr. grein 16.1. í samþykktunum. Samkvæmt því og með skírskotun til þess, sem að framan greinir, varð þessi réttur ekki virkur fyrr en áfrýjandi hafði sótt um greiðslu lífeyrisins úr hendi stefnda og þá tvö ár aftur í tímann frá því tímamarki. Að þessu virtu, en öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2016.

                Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl. var höfðað með birtingu stefnu 31. mars 2015. Stefnandi er Guðmundur R. Guðlaugsson, Fannarfelli 12 í Reykjavík og stefndi er Lífeyrissjóður verslunarmanna, Kringlunni 7 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða honum örorkulífeyri frá 18. júní 2010 en til vara frá síðara tímamarki. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hans hendi.

                Málavextir og ágreiningsefni

                Stefnandi er kjötiðnaðarmaður að mennt, með víðtæka starfsreynslu á því sviði og hóf greiðslu iðgjalda í stefnda á árinu 1980. Hann starfaði sem framleiðslustjóri hjá Síld & fiski frá árinu 2008 fram til 11. apríl 2010 þegar hann var handtekinn, settur í gæsluvarðhald og haldið í einangrun í 10 daga eða til 21. s.m. Eftir varðhaldsvistina taldi vinnuveitandi stefnanda ekki geta sinnt starfi sínu og var gerður við hann starfslokasamningur 26. apríl 2010. Þann 6. júlí 2010 tilkynnti ríkissaksóknari stefnanda að málið hefði verið fellt niður hvað hann varðaði, þar sem það sem fram væri komið væri hvorki nægilegt né líklegt til sakfellingar. Stefnandi hefur verið óvinnufær frá því þessir atburðir áttu sér stað.

                Þann 9. júlí 2014 sótti stefnandi um örorkulífeyri frá stefnda og var umsókn hans um lífeyri miðað við fulla örorku samþykkt með úrskurði stefnda 14. ágúst 2014. Á grundvelli þessa úrskurðar var honum greiddur lífeyrir tvö ár aftur í tímann og mánaðarlega upp frá því. Beiðni stefnanda um greiðslur lengra aftur í tímann hefur hins vegar verið hafnað á grundvelli 4. mgr. 16. gr. í samþykktum stefnda. Í nefndri grein er svohljóðandi ákvæði: „Örorku- og makalífeyri skal ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst sjóðnum. Greiðslur samkvæmt þessu ákvæði skulu vera á verðlagi hvers tíma. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur.“

                Ágreiningur aðila snýst um það hvort framangreint ákvæði í samþykktum stefnda fari í bága við lög. Auk þess telur stefndi ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tekjutapi allan þann tíma sem hann krefst viðurkenningar á greiðsluskyldu stefnda, svo sem er skilyrði þess að réttur til örorkulífeyris stofnist.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að 4. mgr. 16. gr. í samþykktum stefnda sé í andstöðu við ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldtryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og fari jafnframt í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

                Hvað lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda varðar byggir stefnandi á því að ákvæði þeirra séu ófrávíkjanleg sbr. 1. gr. laganna. Í lögunum komi fram að skylduaðild sé að viðkomandi sjóðum. Aðildin sé því lögbundinn hluti af félagslega kerfinu í landinu. Hún sé jafnframt hluti af aðferð löggjafans til að uppfylla ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er kveðið á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í ákvæðum laga nr. 129/1997 sé talað um lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóðir verði að veita. Þá vernd geti þeir ekki takmarkað með neinum hætti í samþykktum sínum. Í 13. gr. laganna segir að með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda ávinni sjóðfélagi sér m.a. rétt til örorkulífeyris. Kemur fram að hann megi ekki vera lakari en sá réttur sem um getur í III. kafla laganna. Síðan segir í síðari málslið 1. mgr. 13. gr.: „Í samþykktum lífeyrissjóðs skal kveðið nánar á um ávinnslu réttinda en hún getur verið mismunandi eftir því hvort iðgjald er til lágmarks- eða viðbótartryggingaverndar og eftir atvikum háð eða óháð aldri.“ Stefnandi byggir á því að með þessu ákvæði sé tæmandi talið hvað megi ákvarða í samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs og hvar heimildir lífeyrissjóðsins þrjóti. Hvergi sé heimilað að takmarka lögbundin réttindi með því að stytta lögbundinn fyrningarfrest skv. lögum nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.

                Í 15. gr. laga nr. 129/1997 segir: „Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira.“ Þessi lögbundni réttur er skýlaus og verður ekki takmarkaður í samþykktum sjóðsins.

                Stefndi hafi ekki borið fyrir sig fyrningu samkvæmt fyrningarlögum og ekki er deilt um upphafstíma fyrningarfrests. Stefnandi miðar við að hann hafi ekki getað gert kröfu á hendur stefnda fyrr en löngu eftir að örorkan féll til og í raun hafi honum ekki verið ljóst hvers kyns var fyrr en matsgerðum var lokið í júní 2014. Fram að því hafi hann reynt endurhæfingu í gegnum VIRK. Í öllu falli sé krafan höfð uppi áður en fjögurra ára fyrningarfresti lauk kjósi stefndi að bera fyrir sig fyrningu.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samþykktir hans kveði skýrt á um að óheimilt sé að greiða örorkulífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn um lífeyri berst honum. Um það vísar stefndi til 16. gr. samþykktanna sem ber yfirskriftina „Tilhögun lífeyrisgreiðslna“, en þar segi í gr. 16.4.: „Lífeyri skal ekki greiða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst sjóðnum.“

                Stefndi starfi á grundvelli starfsleyfis fjármála- og efnahagsráðherra sem veiti ekki slíkt starfsleyfi nema sjóðurinn uppfylli lagaskilyrði þar að lútandi, sbr. 25. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í ákvæðinu komi m.a. fram að samþykktir sjóðsins þurfi að vera í samræmi við 27. gr. laganna, en þar segir í 1. mgr.: „Samþykktir lífeyrissjóðs skulu við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.“ Í 2. mgr. 27. gr. laganna komi síðan fram hvað kveða skuli á um í samþykktum lífeyrissjóðs og í 8. tölul. 2. mgr. segir: „Réttindi sjóðfélaga eða aðstandenda þeirra til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar. Þá skal og kveðið á um framkvæmd lífeyrisgreiðslna.“ Auk þessa segi í 6. mgr. 15. gr. laganna: „Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.“ Þá vísar stefndi til þess að fjármála- og efnahagsráðherra hafi, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins, staðfest að samþykktir hans séu í samræmi við lög, svo sem sé forsenda gildistöku þeirra sbr. 28. gr. laganna. Því liggi fyrir að ráðherra hafi samþykkt að umdeilt ákvæði í 4. mgr. 16. gr. í samþykktum stefnda, um að lífeyrir sé ekki greiddur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn um lífeyri berst, fullnægi ákvæðum laga nr. 129/1997 og jafnframt að Fjármálaeftirlitið sé sama sinnis. Enn fremur sé vísað til þess að níu af ellefu stærstu lífeyrissjóðum landsins séu með sambærilegt ákvæði í sínum samþykktum. Loks megi finna sambærilega reglu í ákvæðum laga nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, og 10. gr. laga nr. 12/1991, um Lífeyrissjóð bænda. Með framangreindum lögum séu tekin af öll tvímæli um að umdeild tveggja ára regla sé lögmæt og hvorki í andstöðu við lög nr. 129/1997 né önnur ákvæði íslenskra laga.

                Rökin að baki umdeildri reglu séu m.a. þau að stefnda sé skylt að meta heildarskuldbindingar sínar og haga greiðslu lífeyris í samræmi við fjárhagsstöðu sína sbr. 24. og 39. gr. laga nr. 129/1997. Því hafi hann tiltekið svigrúm til að setja reglu sem takmarki óvissu um skuldbindingar sjóðanna. Eigi það alveg sérstaklega við um ákvæði um örorkulífeyri sem, eins og á við um stefnanda, veita réttindi til framtíðar þótt engin iðgjöld hafi verið greidd sem standa á bak við þau réttindi. Reglan í 4. mgr. 16. gr., um að ekki sé greitt lengra en tvö ár aftur í tímann, sé hluti af heildarreglum sjóðsins um rétt til lífeyris og að almenn ákvæði laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sem vísað er til og byggt á af hálfu stefnanda, eigi hér ekki við. Líta beri svo á að krafa til örorkulífeyris geti ekki orðið virk lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að sótt er um greiðslu örorkulífeyris. Réttur til örorkulífeyris verði ekki virkur fyrr en stjórn hafi úrskurðað um kröfuna og það sé gert að fenginni umsókn og á grundvelli mats trúnaðarlæknis. Þá fyrst þegar úrskurður er kveðinn upp stofnast krafan.

                Verði ekki fallist á framangreind rök stefnda, byggir hann sýknukröfu sína á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tekjutapi allan þann tíma sem hann krefur stefnda um örorkulífeyri í þessu máli svo sem áskilið sé í 1. mgr. 13. gr. í samþykktum stefnda og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997. Í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi fengið greiðslu frá atvinnurekanda sínum í maí 2010 og jafnframt liggi fyrir að hann hafi fengið atvinnuleysisbætur, greiðslur frá sjúkrasjóði VR og frá Tryggingastofnun ríkisins. Með hliðsjón af framangreindu sé ósannað að hann hafi orðið fyrir tekjutapi vegna örorku sinnar á umræddum tíma, sem sé forsenda þess að hann eigi rétt til lífeyrisgreiðslna frá stefnda. Auk þess sé áreiðanlegt að hann eigi ekki rétt lengra aftur í tímann en til 1. apríl 2011 þar sem fyrir liggi að hann hafi á tímabilinu 1. júlí 2010 til 1. apríl 2011 fengið greiðslur úr sjúkrasjóði VR en stefndi greiði aldrei lífeyri fyrir sama tímabil og sjúkrasjóður stéttarfélags greiðir viðkomandi sjóðfélaga bætur þar sem ekki sé unnt að vera á tvöföldum greiðslum vegna veikinda eða örorku.

                Forsendur og niðurstaða

                Meginágreiningur máls þessa snýst um það hvort 4. mgr. 16. gr. samþykkta stefnda stangist á við ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í greininni segir að örorku- og makalífeyri skuli ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berst sjóðum. Óumdeilt er að þetta ákvæði girðir fyrir bótagreiðslu til sjóðfélaga lengra aftur í tímann, jafnvel þótt önnur skilyrði greiðslna séu fyrir hendi.

                Svo sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þá gilda þau um alla lífeyrissjóði eins og þeir eru skilgreindir í 2. mgr. sömu greinar. Stefndi er lífeyrissjóður og gilda lögin því um starfsemi hans en ekki er um það deilt að hann hefur gilt starfsleyfi og samþykktir hans hafa verið samþykktar og öðlast gildi í samræmi við V. kafla laganna.

                Í 13.–19. gr. a í lögunum, sem saman mynda III. kafla þeirra, er kveðið á um samtryggingarréttindi í lífeyrissjóðum. Svo sem sjá má af lestri kaflans eru í honum ýmis almenn ákvæði um lífeyrisréttindi sem gert er ráð fyrir að verði útfærð nánar í samþykktum hvers lífeyrissjóðs. Sem dæmi má nefna 1. mgr. 13. gr. þar sem segir að kveðið skuli nánar á um það í samþykktum lífeyrissjóðs hvernig sjóðfélagi ávinnur sér rétt til lífeyrisgreiðslna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að í samþykktum skuli kveðið nánar á um hvaða áhrif frestun eða flýting útgreiðslu lífeyris hafi á fjárhæð hans, nánar skal kveðið á um rétt til framreikninga skv. 2. mgr. 15. gr. í samþykktum og í 7. mgr. sömu greinar segir að í samþykktum lífeyrissjóðs skuli sett frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans. Jafnframt eru í kaflanum settar fram takmarkanir á því hvernig réttindi sjóðfélaga eru útfærð í samþykktum lífeyrissjóða. Segir þannig í 1. mgr. 13. gr. að réttur til lífeyris megi ekki vera lakari en kveðið er á um í kaflanum og í 1. mgr. 19. gr. er bann við því að kveða á um það í samþykktum lífeyrissjóðs að áunnin réttindi skerðist eða falli niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslum.

                Af framangreindum ákvæðum laganna, og öðrum sambærilegum ákvæðum, má ráða að löggjafinn geri ráð fyrir því að lífeyrissjóðir hafi talsvert svigrúm til að setja reglur um starfsemi sína jafnvel þótt þær reglur kunni að hafa áhrif á rétt sjóðfélaga og fjárhæð bóta til þeirra. Í 27. gr. laganna eru talin upp þau atriði sem þurfa að koma fram í samþykktum lífeyrissjóða. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og er ekkert því til fyrirstöðu að í samþykktum séu frekari ákvæði, að því tilskildu að þau fjalli almennt um gerð og rekstur viðkomandi lífeyrissjóðs og samrýmist frumvarpinu að öðru leyti, eins og segir í athugasemdum við greinina í frumvarpi til lífeyrissjóðslaganna.

                Að mati dómsins fellur ákvæði 16. gr. samþykkta að þeim kröfum sem gerðar eru um form og innihald samþykkta stefnda samkvæmt því sem að framan er rakið. Heimild til að kveða á um skilyrði fyrir rétti til greiðslu örorkulífeyris er í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997. Eðli máls samkvæmt gat réttur til greiðslu bóta þá fyrst orðið virkur þegar umsókn þar að lútandi barst stefnda. Ekki er fallist á það með stefnanda að reglan fjalli um það hvenær krafa falli niður fyrir fyrningu, heldur fjallar ákvæðið um skilyrði þess að krafa stofnist. Sú regla að greiða ekki lífeyrir lengra en tvö ár aftur í tímann frá því krafa stofnast styðst við málefnaleg rök sem lúta að nauðsyn þess að stefndi þekki hverjar skuldbindingar hans eru á hverjum tíma og geti gripið til viðeigandi ráðstafna til að mæta þeim sbr. 39. gr. sömu laga, sbr. og 27. gr. laganna þar sem kemur fram að samþykktir sjóðsins skuli miðaðar við það að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Þá verður að telja að með reglunni sé gætt meðalhófs og sjóðfélögum veitt eðlilegt svigrúm til að koma umsókn á framfæri við stefnda, eftir að ljóst verður að réttur til bóta hafi stofnast, og fá með sanngjörnum og eðlilegum hætti greiddar bætur fyrir liðinn tíma. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að umdeilt ákvæði samþykkta stefnda sé í samræmi við þær kröfur sem lög nr. 129/1997 gera til samþykkta lífeyrissjóða og jafnframt að ákvæðið brjóti ekki gegn ákvæðum sömu laga um þá lágmarksvernd sem stefnda ber að tryggja stefnanda. Þá hefur stefnandi ekki skýrt með fullnægjandi hætti á hvern hátt umdeild regla kann að hafa brotið á rétti stefnanda skv. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í því efni er þess að geta að engin gögn liggja fyrir í málinu um það hvaða réttar stefnandi naut samkvæmt gildandi lögum á því tímabili sem krafan gagnvart stefnda lýtur að og jafnframt er óljóst hvaða aðstoðar hann þurfti á að halda á sama tíma. Er því algerlega vanreifað með hvaða ætti lög nr. 129/1997 um samþykktir stefnda kunna að hafa brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til aðstoðar. Kemur þessi málsástæða stefnanda því ekki til frekari skoðunar.

                Með framangreindum rökstuðningi verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður á milli aðila. Stefnandi nýtur gjafsóknar á grundvelli gjafsóknarleyfis sem gefið var út 13. maí 2015. Gjafsóknarkostnaður hans greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, Elvu Óskar Wiium, sem eru hæfilega ákveðin 563.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, er sýkn af kröfu stefnanda, Guðmundar R. Guðlaugssonar. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Elvu Óskar Wiium hdl., 563.000 krónur