Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2004


Lykilorð

  • Nytjastuldur
  • Skjalabrot
  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Fjársvik
  • Ólögmæt meðferð fundins fjár
  • Tilraun
  • Ávana- og fíkniefni
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2005.

Nr. 241/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Einari Snæbirni Eyjólfssyni og

(Kristján Stefánsson hrl.)

Róberti Erni Rafnssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Nytjastuldur. Skjalabrot. Þjófnaður. Gripdeild. Fjársvik. Ólögleg meðferð á fundnu fé. Tilraun.  Ávana- og fíkniefni. Akstur án ökuréttar. Stjórnsýsla.

 

E var sakfelldur í Hæstarétti fyrir skjalabrot, tilraun til þjófnaðar, fjársvik og R fyrir þátttöku í nytjastuldi. Hins vegar var E sýknaður af sakargiftum um gripdeild og að hafa ekið bifreið án gildra ökuréttinda í þrjú skipti. Hafði hann verið sviptur ökurétti með dómi 1998 í 15 mánuði. Eftir að sviptingartími samkvæmt dóminum rann út hafði hann aldrei gengist undir hæfnispróf til þess að mega öðlast ökurétt að nýju svo sem lög áskilja. Sjálfur kvaðst hann hins vegar hafa fengið skírteini sitt afhent hjá lögreglu. Eftir þetta hafði honum í nokkur skipti verið gert að sæta sviptingu ökuréttar og hefðu yfirvöld þannig lagt til grundvallar að hann hefði slík réttindi. Hefði hann því fengið fullt tilefni til að telja sig mega aka bifreið, þó að ljóst væri að hann hafði ekki uppfyllt lagaskilyrðin. E og R höfðu einungis áfrýjað til Hæstaréttar hluta þeirra sakargifta sem þeir voru ákærðir fyrir. Var niðurstaða héraðsdóms um refsingu E og R, þar sem þeim var gert að sæta fangelsi í 15 og 12 mánuði, staðfest með vísan til 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en jafnframt þyngingar á refsingu þeirra.

Ákærði Einar Snæbjörn krefst sýknu af sakargiftum á hendur sér samkvæmt VII., VIII., XIII. og XIV. kafla ákæru 12. mars 2004 og af akstri bifreiðar án gildra ökuréttinda samkvæmt IX. kafla sömu ákæru auk þess sem hann krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt III. kafla ákæru 14. apríl 2004. Þá gerir hann kröfu um að refsing verði að öðru leyti milduð.

Ákærði Róbert Örn krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru 12. mars 2004 og að refsing verði að öðru leyti milduð.

I.

Í fyrsta lagi krefst ákærði Einar Snæbjörn sýknu af sakargiftum um að hafa ekið bifreið án gildra ökuréttinda í þrjú skipti 3. ágúst, 2. september og 4. október 2003. Hefur hann viðurkennt að hafa ekið bifreið í þessum tilvikum en telur sig ekki hafa brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem hann á þessum tíma hafi haft gilt ökuskírteini til aksturs.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi, hafði ákærði verið sviptur ökurétti í 15 mánuði með dómi 29. apríl 1998. Jafnframt liggur fyrir að hann hafði ekki gengist undir próf samkvæmt 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 68. gr. reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini, þar sem segir, að sá sem sviptur hafi verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár, öðlist ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma, nema hann standist hæfnispróf. Þrátt fyrir þetta var ákærði sviptur ökurétti með dómi 5. janúar 2001 í tvo mánuði frá 12. janúar 2001 að telja og gekkst tvívegis undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík um sviptingu ökuréttar, fyrst 17. nóvember 2003 í þrjá mánuði frá þeim degi og svo 12. desember sama ár í átta mánuði. Þessar sviptingar ökuréttar byggðust á þeirri forsendu að ákærði hefði þá gild ökuréttindi. Þá kemur fram í sakavottorði ákærða, að hann hafi 6. apríl 2001 gengist undir fjórar sáttir um sektargreiðslur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Verður ráðið af gögnum málsins, að hér hafi verið um að ræða akstur eftir sviptingu ökuréttar á því tímabili er sviptingin samkvæmt dómnum 5. janúar 2001 stóð yfir.

Sýknukrafa ákærða af sakargiftum í þessum þætti málsins byggist á því, að hann hafi ekki vitað betur en hann hefði gild ökuréttindi í þeim tilvikum sem hér er ákært fyrir, en hann kvaðst fyrir dómi hafa fengið ökuskírteini sitt afhent hjá lögreglu að loknum sviptingartíma samkvæmt dóminum 1998. Bendir hann á, að yfirvöld hafi þrásinnis lagt til grundvallar að hann hefði slík réttindi eftir að sviptingartíminn samkvæmt dóminum rann út. Hann hafi því verið grunlaus um að hann hefði ekki slík réttindi.

Ákærði hafði samkvæmt því sem að framan greinir fengið fullt tilefni frá réttum yfirvöldum til að telja sig mega aka bifreið, þó að ljóst sé að hann hafði ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fá ökurétt að nýju eftir sviptinguna 1998. Eins og hér var ástatt mátti ákærði líta svo á að hann hefði gild ökuréttindi umrædd sinn og verður hann því sýknaður af ákæru samkvæmt þeim ákæruliðum sem hér um ræðir.

II.

Þá hefur ákærði Einar Snæbjörn krafist sýknu af sakargiftum samkvæmt XIII. kafla ákæru 12. mars 2004, þar sem honum er gefið að sök skjalabrot með því að hafa flutt skráningarmerki bifreiðar yfir á aðra bifreið. Í ákærunni er þetta talið varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um þennan kafla ákærunnar.

III.

Í XIV. kafla ákæru 12. mars 2004 er ákærði Einar Snæbjörn sakaður um tilraun til þjófnaðar 3. mars það ár með því að hafa farið í heimildarleysi inn í bifreið í þeim tilgangi að taka þaðan verðmæti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður sakfelling ákærða staðfest að því er þennan ákærulið snertir.

IV.

Loks krefst ákærði Einar Snæbjörn sýknu af III. kafla í ákæru 14. apríl 2004, þar sem hann er sakaður um gripdeild með því að hafa í félagi við meðákærðu í héraði farið inn í matvöruverslun í Garðabæ og tekið í heimildarleysi vörur að verðmæti samtals 6.727 krónur og þau neytt þeirra.

Þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 31. mars 2004 kvaðst hann ekkert kannast við aðild sína að þessu broti. Hann gaf sömu svör við yfirheyrslu fyrir dómi en neitaði að öðru leyti að tjá sig. Meðákærðu í héraði játuðu sök sína á þessu broti. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er sakfelling ákærða meðal annars byggð á framburði sem þau eru sögð hafa gefið hjá lögreglu um þátt ákærða. Lögregluskýrsla annars þeirra er ekki meðal gagna málsins í Hæstarétti og hvorugt var spurt um þetta fyrir dómi. Það nægir ekki til sönnunar um þetta ákæruefni á hendur ákærða, að starfsmaður verslunarinnar hafi sagst kannast við hann sem annan tveggja manna á myndupptöku úr öryggismyndavél verslunarinnar, en upptakan liggur ekki fyrir í málinu.

Með vísan til þessa er ekki komin fram lögfull sönnun í málinu um að ákærði hafi gerst sekur um brot þetta og verður hann því sýknaður af þessum kafla ákærunnar.

V.

Svo sem fyrr sagði krefst ákærði Róbert Örn sýknu af I. kafla ákæru 12. mars 2004, þar sem honum er gefin að sök þátttaka í nytjastuldi 1. mars 2004 svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi. Í frásögn héraðsdómsins af efni skýrslu ákærða um þetta fyrir lögreglu hefur láðst að geta þess, að þar var meðal annars skráð eftir honum, að hann hafi vitað að bifreið sú sem Einar Snæbjörn hafi komið á umrætt sinn hafi verið illa fengin og að ekkert hinna ákærðu hafi haft heimild til að taka hana og nota.

Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða að því er þennan kafla snertir.

VI.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms er rakinn sakaferill ákærðu og tilgreind þau atriði, sem til athugunar koma við ákvörðun refsingar. Lýsing sakarferilsins er ekki að öllu leyti í samræmi við sakavottorð þeirra. Þannig hafði ákærði Einar Snæbjörn, við uppsögu hins áfrýjaða dóms, hlotið 11 dóma fyrir hegningarlaga-, umferðarlaga- og fíkniefnabrot frá árinu 1992. Á sama tímabili hafði þessi ákærði 12 sinnum gengist undir sektargreiðslur vegna umferðarlaga-, fíkniefna- og hegningarlagabrota, þar af fjórar sama daginn 6. apríl 2001. Síðasta sáttin var gerð 25. mars 2004, þar sem hann gekkst undir 100.000 króna sekt fyrir akstur sviptur ökurétti. Að gengnum héraðsdómi eða þann 10. maí 2004 hlaut hann svo dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þjófnaðarbrot, en var ekki gerð sérstök refsing.

Samkvæmt sakavottorði ákærða Róberts Arnar hefur hann frá árinu 1994 hlotið 15 dóma fyrir umferðarlaga-, hegningarlaga- og fíkniefnabrot. Þá hefur hann 10 sinnum á sama tímabili gengist undir sektargreiðslur vegna fíkniefna-, umferðarlaga- og skotvopnalagabrota.

Dómur á hendur báðum ákærðu 27. september 2002 hefur ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. almennra hegningarlaga á þjófnaðarbrot og tilraun til þjófnaðar, sem sakfellt er fyrir í þessu máli. Dómar 14. september 1998, 13. október 2000, 27. október 2001 og 27. september 2002 svo og sátt frá 20. febrúar 2001 hafa ítrekunaráhrif gagnvart þeim fíkniefnabrotum, sem ákærði Róbert Örn er sakfelldur fyrir í þessu máli.

Þrátt fyrir að ákærði Einar Snæbjörn sé í máli þessu sýknaður af ákæru um gripdeild og akstur án ökuréttar, leiðir það ekki til lækkunar á refsiákvörðun héraðsdóms. Með vísan til 1. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður heldur ekki fallist á kröfu ákæruvalds um þyngingu refsingar ákærðu. Að öllu þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um refsingu beggja ákærðu. Frá refsingu þeirra skal draga gæsluvarðhald sem þeir sættu 2. apríl til 3. júní 2004.

Við áfrýjun málsins hefur ekki verið krafist endurskoðunar á héraðsdómi um bótakröfur sem þar eru dæmdar.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað, að því er snertir ákærðu, eru staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur að því er varðar ákærðu, Einar Snæbjörn Eyjólfsson og Róbert Örn Rafnsson, að öðru leyti en því, að gæsluvarðhaldsvist þeirra 2. apríl 2004 til 3. júní sama ár skal draga frá dæmdri fangelsisrefsingu.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærðu, Einars Snæbjörns og Róberts Arnar, skulu vera óröskuð.

Ákærði, Einar Snæbjörn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Ákærði, Róbert Örn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað málsins greiði ákærðu óskipt.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2004.

          Mál þetta, sem dómtekið var 26. f.m., er höfðað með tveimur ákærum sýslumannsins í Kópavogi, útgefnum 12. mars og 14. apríl 2004, á hendur Einari Snæbirni Eyjólfssyni, kt. […], Suðurbraut 14, Hafnarfirði, Róberti Erni Rafnssyni, kt. […], Lindarflöt 43, Garðabæ, og E […].

          Í fyrri ákærunni eru ákærðu gefin að sök brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum, svo sem hér greinir:

„I.

          Á hendur ákærðu öllum, fyrir nytjastuld, með því að hafa í félagi aðfaranótt mánudagsins 1. mars 2004, heimildarlaust tekið bifreiðina MP[...], til eigin nota og ekið henni frá Goðasölum í Kópavogi, áleiðis til Grindavíkur, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Lækjargötu og Reykjanesbrautar í Hafnarfirði.

          Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1956.

II.

          Á hendur ákærðu, Einari Snæbirni og Róberti Erni, fyrir skjalabrot og þjófnað, með því að hafa, í félagi, fimmtudaginn 29. janúar 2004, sett skráningarnúmerið IU[...] á bifreið Einars Snæbjörns, JH-[...], og þannig ekið bifreiðinni að bensínsölu Skeljungs hf. við Hagasmára í Kópavogi, þar sem ákærðu stálu eldsneyti að fjárhæð [3.577 krónur] með því að dæla því á bifreiðina og aka á brott án þess að greiða fyrir.

          Telst þetta varða við 1. mgr. 157. gr. og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir EB, f.h. Skeljungs hf. [...] þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða bætur að fjárhæð [3.577 krónur] auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

III.

          Á hendur Einari Snæbirni fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 16. janúar 2004, brotist inn í bifreiðina PY[...], þar sem hún stóð við Sunnubraut 24 í Kópavogi, og stolið þaðan seðlaveski, með samtals sex greiðslukortum, vegabréfi og ökuskírteini, og farið rakleiðis í hraðabanka í Domus Medica í Reykjavík, þar sem ákærði tók út af reikningi fyrirtækisins R ehf., nr. [...], með stolnu greiðslukorti, [30.000 krónur].

          Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir Á [...] þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð [47.200 krónur] auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

IV.

          Á hendur Róberti Erni fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa átt og ræktað tvær kannabisjurtir (Cannabis sativa), sem fundust á heimili hans að Borgarholtsbraut 22 í Kópavogi fimmtudaginn 22. janúar 2004.

          Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 82/1998, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001, og  2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með síðari breytingum.

V.

          Á hendur Róberti Erni fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft, aðfaranótt sunnudagsins 11. maí 2003, í fórum sínum 0,32 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, í buxnavasa hans.

          Telst þetta varða 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 82/1998, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001, og  2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með síðari breytingum.

VI.

          Á hendur Róberti Erni fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, þriðjudagskvöldið 13. maí 2003, haft í vörslum sínum 0,6 gr. af hassi er fannst í hólfi á milli framsæta bifreiðarinnar HU-[...] og 0,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni er fannst við leit lögreglu á gólfi fyrir framan ökumannssæti bifreiðarinnar í umrætt sinn. 

          Telst þetta varða 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 82/1998, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001, og  2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með síðari breytingum.

VII.

          Á hendur Einari Snæbirni fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 3. ágúst 2003, ekið bifreiðinni G-[...] án gildra ökuréttinda suður Suðurbraut í Hafnarfirði, að gatnamótum Suðurbrautar og Hvaleyrarbrautar.

          Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

VIII.

          Á hendur Einari Snæbirni fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, þriðjudagsmorguninn 2. september 2003, ekið bifreiðinni G-[...] án gildra ökuréttinda norður Strandgötu að Mýrargötu í Hafnarfirði.

          Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

IX.

          Á hendur Einari Snæbirni fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardagsmorguninn 4. október 2003, ekið bifreiðinni G-[...], undir áhrifum áfengis [...] og án gildra ökuréttinda, norður Herjólfsbraut í Hafnarfirði, norður Sjávarbraut, vestur Álftanesveg og norður Hraunsholtsbraut, Garðabæ.

          Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

X.

          Á hendur Róberti Erni fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 25. október 2003, ekið bifreiðinni YB[...] sviptur ökuréttindum og án þess að hafa stöðuljós bifreiðarinnar kveikt að aftan austur Reykjanesbraut við gatnamót Grindavíkurvegar í Keflavík.

          Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993.

XI.

          Á hendur Róberti Erni og Einari Snæbirni fyrir gripdeild, með því að hafa, sunnudagskvöldið 15. febrúar 2004, milli klukkan 20:30 og 21:00, tekið í heimildarleysi könnu með rúðuvökva í, þvottakúst og gluggasköfu, samtals að verðmæti [4.214 krónur] frá bensínstöð Olís við Vífilstaðaveg í Garðabæ.

          Telst þessi háttsemi [ákærðu] varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir Olíuverslun Íslands hf. bótakröfu, samtals að fjárhæð [4.214 krónur] auk vaxta samkvæmt 8. gr. [laga] um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 15. febrúar 2004, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

XII.

          Á hendur Róberti Erni og Einari Snæbirni [fyrir] fjársvik með því að hafa, þriðjudaginn 17. febrúar 2004, milli klukkan 15:00 og 16:55, svikið út vörur og þjónustu, alls að andvirði [11.516 krónur], á eftirgreindum stöðum, með því að framvísa þar heimildarlaust debetkorti G, kt. [...], og látið skuldfæra andvirði úttektanna á reikning G nr. [...] í Íslandsbanka:

1--vörur í bensínstöð Olís, Álfheimum, Reykjavík, að fjárhæð kr. 5.286,-

2--vörur í söluturninum Jolla, Helluhrauni 1, Hafnarfirði, að fjárhæð kr. 4.530,-

3--vörur og þjónustu á veitingastaðnum KFC, Faxafeni 2, Reykjavík, að fjárhæð kr. 1.700,-

          Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir EP [...] eigandi söluturnsins Jolla, bótakröfu á hendur ákærðu, samtals að fjárhæð [1.000 krónur].

XIII.

          Á hendur Einari Snæbirni, fyrir skjalabrot, með því að hafa, þriðjudaginn 17. febrúar 2004, orðið uppvís að því að hafa flutt skráningarmerkið PP-[...], sem skráð er á bifreið af gerðinni Renault Laguna í eigu D, yfir á Toyota Corolla bifreið, skráða á A, sem bera á skráningarnúmerin JH[...], en númer þeirrar bifreiðar höfðu verið tekin af henni í kjölfar þess að bifreiðin var afskráð þann 8. febrúar 2004 [...].

          Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIV.

          Á hendur Einari Snæbirni fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa, skömmu eftir miðnætti miðvikudaginn 3. mars 2004, farið í heimildarleysi inn í bifreiðina DP[...] þar sem hún stóð fyrir framan hús nr. [...] við Brekkugötu, Hafnarfirði, í  þeim tilgangi að taka þaðan verðmæti.

          Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

 

          Í seinni ákærunni eru ákærðu gefin að sök brot gegn almennum hegningarlögum, svo sem hér greinir:

„I.

          Á hendur ákærðu öllum, fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár og fjársvik, með því að hafa laugardaginn 13. mars 2004, kastað eign sinni á tösku H, kt. [...], og innihald hennar, sem ákærði Einar Snæbjörn fann á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Fjörðinn í Hafnarfirði og svikið út vörur, alls að andvirði [27.156 krónur] á eftirgreindum stöðum, með því að framvísa þar heimildarlaust debetkorti H, og látið skuldfæra andvirði úttektanna á reikning hennar nr. [...] í Landsbanka Íslands:

1  --  Bæjarvideó við Flatarhraun í Hafnarfirði, að fjárhæð kr.              4.860,-

2  --  Borgargrill við Miklubraut í Reykjavík, að fjárhæð kr.              2.470,-

3  --  Blái turninn við Háaleitisbraut í Reykjavík, að fjárhæð kr.             2.040,-

4  --  Aktu taktu við Sæbraut í Reykjavík, að fjárhæð kr.                    2.587,-

5  --  Fljótt og gott við Sundanesti í Reykjavík, að fjárhæð kr.             3.080,-

6  --  Sunnutorg við Langholtsveg í Reykjavík, að fjárhæð kr.             5.500,-

7  --  Gullnesti við Fjallkonuveg í Reykjavík, að fjárhæð kr.                    2.020,-

8  --  Grillnesti við Háholt í Mosfellsbæ, að fjárhæð kr.                    2.040,-

9  --  Bíógrill við Starengi í Reykjavík, að fjárhæð kr.                    2.030,-

10 -  Aktu taktu við Sæbraut í Reykjavík, að fjárhæð kr.                       529,-

         

          Telst þetta varða við 246. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir H þá kröfu að ákærðu verði dæmd til að greiða bætur að fjárhæð [69.716 krónur]. Þá gerir fyrirsvarsmaður Bláa turnsins þá kröfu að ákærðu verði dæmd til að greiða bætur að fjárhæð [2.040 krónur] og fyrirsvarsmaður Aktu taktu gerir þá kröfu að ákærðu verði dæmd til að greiða bætur að fjárhæð [3.116 krónur].

II.

          Á hendur ákærða, Einari Snæbirni, fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu 14.-15. mars 2004 brotist inn í bifreiðina OF[...], þar sem hún stóð við Kórsali 5 í Kópavogi, og stolið þar farsíma af gerðinni NOKIA að verðmæti um [10.000 krónur], viðskiptakorti Skeljungs hf. og íþróttatösku, sem innihélt íþróttafatnað, tvo gullhringi og snyrtivörur, samtals að verðmæti um [82.000 krónur].

          Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

          Á hendur ákærðu öllum, fyrir gripdeild, með því að hafa mánudaginn 29. mars 2004 farið í félagi inn í verslun 11/11 við Gilsbúð í Garðabæ, og tekið í heimildarleysi vörur að verðmæti samtals [6.727 krónur] og neytt þeirra í sameiningu.

          Telst þetta varða við 1. mgr. 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Í málinu gerir MH [...] þá kröfu f.h. verslunarinnar 11/11, að ákærðu verði dæmd til að greiða bætur að fjárhæð [6.727 krónur].“

 

          Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar. Þá er þess krafist að ákærði Einar Snæbjörn verði sviptur ökurétti og að ákærða Róberti Erni verði gert að sæta upptöku á fíkniefnum sem lögregla lagði hald á 11. og 13. maí 2003 og 22. janúar 2004, sbr. liðir IV, V og VI í ákæru 12. mars 2004.

          Ákærði Einar Snæbjörn krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í liðum VII, VIII, XIII og XIV í ákæru 12. mars 2004 og í lið III í ákæru 14. apríl 2004. Þá krefst ákærði sýknu af sakargiftum um akstur bifreiðar án gildra ökuréttinda 4. október 2003, sbr. liður IX í fyrri ákærunni. Að þessu frágengnu krefst ákærði þess að honum verði gerð vægustu viðurlög sem lög leyfa vegna háttsemi hans að öðru leyti. Þá er þess krafist að gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt frá 2. apríl 2004, komi að fullu til frádráttar dæmdri refsivist. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna.

          Ákærðu Róbert Örn og E krefjast þess að þau verði sýknuð af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í lið I í ákæru frá 12. mars 2004, en að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna háttsemi þeirra að öðru leyti. Þá er þess krafist að gæsluvarðhald, sem ákærði Róbert Örn hefur sætt frá 2. apríl 2004, komi að fullu til frádráttar dæmdri refsivist. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna þar sem tillit verði tekið til verjandastarfa í þágu ákærða Róberts Arnar við rannsókn málsins hjá lögreglu.

1.

          Ákærði Róbert Örn hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í liðum II, IV, V, VI, X, XI og XII í ákæru frá 12. mars 2004, svo og þá háttsemi sem honum er gefin að sök í liðum I og III í ákæru frá 14. f.m. Er með þessari játningu, sem samrýmist gögnum málsins, sannað að ákærði hafi framið þau brot sem lýst er í þessum ákæruliðum og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

          Ákærða E hefur skýlaust játað að hafa gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru frá 14. f.m. Með játningu ákærðu og framlögðum sakargögnum er sannað að ákærða hafi gerst sek um ólögmæta meðferð fundins fjár, gripdeild og fjársvik svo sem lýst er í ákærunni. Er háttsemi ákærðu þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

2.

          Einu sakargiftirnar sem ákærðu Róbert Örn og E hafa samkvæmt framansögðu ekki gengist við lúta að því að þau hafi í félagi við meðákærða gerst sek um nytjastuld aðfaranótt mánudagsins 1. mars 2004, sbr. liður I í ákæru 12. mars 2004.

          Ákærði Einar Snæbjörn hefur skýlaust játað aðild sína að þessu broti. Í skýrslu hjá lögreglu skýrði hann svo frá að hann hafi ásamt meðákærðu verið farþegi í bifreið nafngreinds manns fyrr um nóttina. Þau þrjú hefðu síðan þurft að komast til Grindavíkur en umræddur maður hafi ekki viljað aka þeim þangað. Því hefðu þau ákveðið að ákærði myndi reyna að finna bifreið sem þau gætu notað til þess að komast til Grindavíkur. Hann hafi fyrr um nóttina komið að bifreiðinni MP-[...] og séð að hún var ólæst og lyklar í kveikjulási. Í kjölfar þess að ákærðu sammæltust um að ákærði útvegaði bifreið handa þeim hafi hann farið að þessari bifreið, farið inn í hana og ekið henni á stað í nágrenninu þar sem meðákærðu hefðu beðið hans. Þar hafi ákærði Róbert Örn tekið við akstrinum og ekið bifreiðinni áleiðis til Grindavíkur. Fyrir dómi gekkst ákærði svo sem fram er komið við þessu broti sínu en færðist undan því að svara spurningum er lutu að meintri aðild meðákærðu að því.

          Ákærði Róbert Örn gaf skýrslu hjá lögreglu 1. mars 2004. Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa undirritað skýrsluna, en hafnaði því að þar væri réttilega haft eftir honum. Í skýrslunni segir svo meðal annars: „Sakborningur kannast við aðild sína að nytjastuldinni (sic). Seinna um nóttina þegar ljóst var að [B] vildi ekki aka þeim segir hann að þau hafi í sameiningu ákveðið að Einar Snæbjörn tæki bifreið sem hann var búinn að tala um að hann vissi af og þau færu á henni til Grindavíkur. Hann segir að [B] hafi ekið þeim að stað í Lindarhverfi og þar hafi Einar Snæbjörn yfirgefið bifreiðina, en hann og [E] hafi beðið í bifreið [B] á meðan Einar Snæbjörn fór út. Skömmu síðar hafi Einar komið akandi til þeirra á bifreiðinni MP[...] og þar hafi hann sjálfur tekið við akstrinum og ekið af stað, áleiðis til Grindavíkur.“ Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa talið að meðákærði Einar Snæbjörn hafi fengið bifreiðina að láni. Þá kvaðst hann ekki kannast við að ákærðu hefðu sammælst um að taka bifreið ófrjálsri hendi í umrætt sinn og neitaði að hafa gengist við því í skýrslugjöf hjá lögreglu. Hann staðfesti engu að síður að hafa ritað nafn sitt undir skýrsluna.

          Í skýrslu sem tekin var af ákærðu E hjá lögreglu er haft eftir henni að hún „kannist við aðild sína að nytjastuldinni“. Hafi hún verið í fylgd meðákærðu hina umræddu nótt. Þau hefðu þurft að komast til Grindavíkur. Hafi verið ákveðið „að Einar Snæbjörn færi og sækti bifreið sem þau svo ætluðu á til Grindavíkur“. Þá var ákærða innt eftir því hvort hún hafi átt aðild að innbrotum í bifreiðar, sem meðákærðu hefðu játað. Kvaðst hún ekki hafa átt þar hlut að máli en „rennt í grun að þeir félagar [...] væru úti til þess að fara inn í bifreiðar“. Fyrir dómi neitaði ákærða að hafa komið að ákvörðunartöku um nytjastuld í umrætt sinn. Hún hafi engan þátt átt í slíkri ákvörðun. Hún hafi ekkert spáð í það hvort bifreiðin væri illa fengin og verið grunlaus um að bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi.

          Framburður allra ákærðu hjá lögreglu hnígur eindregið í þá átt að þau hafi sammælst um það hina umræddu nótt að taka bifreið ófrjálsri hendi og aka henni til Grindavíkur. Ákærðu undirrituðu þessar skýrslur sínar. Hafa ákærðu Róbert Örn og E ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum hvað þetta varðar. Þykir ekki varhugavert að telja nægar sönnur komnar fram fyrir því að þeim hafi verið það ljóst að bifreiðin væri illa fengin. Þau settust upp í bifreiðina og ákærði Róbert Örn ók henni áleiðis til Grindavíkur. Ber samkvæmt þessu að sakfella þau fyrir nytjastuld samkvæmt 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.

3.

          Ákærði Einar Snæbjörn hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í liðum I, II, III, XI og XII í ákæru frá 12. mars 2004, svo og þá háttsemi sem honum er gefin að sök í liðum I og II ákæru frá 14. f.m. Er með þessari játningu, sem samrýmist gögnum málsins, sannað að ákærði hafi framið þau brot sem lýst er í þessum ákæruliðum og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

          Ákærði hefur einnig viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni G[...] undir áhrifum áfengis að morgni laugardagsins 4. október 2003. Er þessari háttsemi ákærða lýst í lið IX í ákæru 12. mars 2004 og honum gefið að sök að hafa með henni gerst sekur um brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er með játningu ákærða, sem samrýmist framlögðum sakargögnum, sannað að hann hafi ekið bifreið í umrætt sinn undir áhrifum áfengis þá leið sem í ákæru greinir. Er þessi háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru, en magn alkóhóls í blóðsýni sem tekið var úr ákærða skömmu eftir að akstri hans lauk reyndist við tvær mælingar á því vera 0,71 0/00 annars vegar og 0,69 0/00 hins vegar, eða að meðaltali 0,70 0/00, og þá án tillits til fráviks í samræmi við dómvenju.

          Ákærði hefur neitað sakargiftum samkvæmt liðum VII, VIII, XIII og XIV í ákæru frá 12. mars 2004, svo og þá gripdeild sem honum er gefin að sök í lið III í ákæru frá 14. apríl sl. Þá hefur ákærði jafnframt neitað þeim hluta sakargifta samkvæmt IX. lið fyrri ákærunnar sem tekur til þess að hann hafi ekki haft gild ökuréttindi þá er hann ók bifreiðinni G[...] þá leið sem þar er lýst að morgni laugardagsins 4. október 2003.

4.

          Ákærði Einar Snæbjörn hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni G[...] aðfaranótt sunnudagsins 3. ágúst 2003, að morgni þriðjudagsins 2. september 2003 og að morgni laugardagsins 4. október 2003, sbr. liðir VII, VIII og IX í ákæru 12. mars 2004. Er á því byggt af hálfu ákæruvalds að með þessum akstri sínum hafi hann brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

          Fyrir liggur að ákærði var sviptur ökurétti í 15 mánuði með dómi Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 1998. Fyrir dómi hefur ákærði skýrt svo frá að hann hafi ekki að þessum sviptingartíma loknum gengist undir hæfnispróf, en samkvæmt 1. mgr. 68. gr. reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini, sem sett er með stoð í umferðarlögum, öðlast sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist hæfnispróf. Að þessu virtu er fallist á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi með framangreindum akstri sínum brotið gegn tilvitnuðu ákvæði umferðarlaga.

5.

          Samkvæmt lögregluskýrslu veitti lögreglumaður sem var á gangi við Helluhraun í Hafnarfirði 17. febrúar 2004 athygli Toyota Corolla bifreið sem að aftan bar skráningarnúmerið PP[...]. Þekkti hann ökumann bifreiðarinnar og farþega í henni af fyrri afskiptum og vissi jafnframt að skráningarnúmerið sem á bifreiðinni var tilheyrði henni ekki. Óskaði hann eftir aðstoð og voru ökumaður og farþegi, ákærðu Einar Snæbjörn og Róbert Örn, handteknir skömmu seinna og vistaðir í fangageymslu. Í skýrslu sem tekin var af ákærða Einar Snæbirni daginn eftir var eftirfarandi bókað eftir honum: „Varðandi skrásetningarnúmerin sem voru á Toyota bifreiðinni þá segir kærði að upprunalegu númerin hafi verið tekin af bílnum og hann afskráður, en kærði kveðst hafa fengið bílinn þennan bíl gefins frá vinnufélaga sínum [...]. Skrásetningarnúmerin sem voru á bílnum, PP[...], segist ákærði hafa fundið á graseyju rétt hjá flugvellinum í Reykjavík og festi hann spjöldin á bílinn. Kveðst kærði vera búinn að keyra með þessi spjöld á bílnum í tvo til þrjá daga.“ GIÞ lögreglufulltrúi, sem tók þessa skýrslu af ákærða, staðfesti efni hennar fyrir dómi. Staðhæfði hann að ákærði hafi borið á þann veg sem að framan greinir.

          Fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við að hafa sett umrædd skráningarnúmer á þá bifreið sem hér um ræðir. Þá kvaðst hann hafa fengið bifreiðina lánaða. Að öðru leyti neitaði hann að tjá sig um málið.

          Ákærði staðfesti fyrir dómi undirritun sína á framangreinda lögregluskýrslu. Hann hefur enga skýringu gefið á breyttum framburði sínum hvað þetta sakarefni varðar. Er að þessu virtu og með vísan til vitnisburðar GIÞ komin fram nægileg sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er nú gefin að sök í lið XIII í ákæru frá 12. mars 2004 og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

 

6.

          Laust eftir miðnætti aðfaranótt miðvikudagsins 3. mars 2004 barst lögreglunni í Hafnarfirði tilkynning um að maður væri að fara inn í bifreiðar sem lagt hafði verið á Brekkugötu þar í bæ. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var ákærði Einar Snæbjörn staddur þar. Segir í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi viðurkennt að hafa farið inn í ólæsta bifreið í leit að lausafé. Hafi hann vísað lögreglumönnunum á bifreiðina DP[...], Daihatsu fólksbifreið, sem staðið hafi við hús nr. [...] við Brekkugötu. Er haft eftir ákærða að bifreiðin hafi verið ólæst og hann hafi notað tækifærið og athugað hvort eitthvað fémætt væri í henni. Í skýrslu sem tekin var af ákærða að morgni þessa dags er eftirfarandi bókað eftir honum: „Kærði viðurkennir að hafa farið inn í 3-4 bíla í Bröttugötu (sic) í gærkvöldi í þeim tilgangi að finna verðmæti til að stela. [...] Kærði man ekki í öllum tilvikum hvaða bílar þetta voru, en man þó eftir grænum Daihatsu, sem var ólæstur eins og hinir og engin verðmæti til staðar.“ GIÞ lögreglufulltrúi, sem tók þessa skýrslu af ákærða, staðfesti efni hennar fyrir dómi.

          Fyrir dómi bar ákærði því við að hann hafi einvörðungu leitað skjóls í bifreiðinni.

          Ákærði staðfesti fyrir dómi undirritun sína á framangreinda lögregluskýrslu. Sú skýring sem hann hefur gefið á því að hann fór inn í bifreiðina DP[...] í umrætt sinn er mjög ótrúverðug í ljósi þess sem að framan er rakið. Þykir ekki varhugavert að fram sé komin sönnun fyrir því, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi farið í heimildarleysi inn í bifreiðina í þeim tilgangi að taka þaðan verðmæti. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í lið XIV í ákæru frá 12. mars 2004 og þar er réttilega heimfærð til 1. mgr. 244. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

7.

          Í III. lið ákæru frá 14. apríl 2004 er ákærðu gefin að sök gripdeild, með því að hafa mánudaginn 29. mars 2004 farið inn í verslun 11/11 við Gilsbúð í Garðabæ og tekið þaðan í heimildarleysi vörur að verðmæti samtals 6.727 krónur og neytt þeirra í sameiningu. Svo sem fram er komið hafa ákærðu Róbert Örn og E gengist við þessu broti, en ákærði Einar Snæbjörn neitar sök.

          Í skýrslu sem tekin var af ákærða Einari Snæbirni á lögreglustöðinni í Hafnarfirði 31. mars 2004 kvaðst hann ekkert kannast við aðild sína að málinu. Í skýrslu sem tekin var af meðákærða Róberti Erni þennan sama dag á hann að hafa borið á þann veg að ákærði hafi farið með honum inn í verslunina í þeim tilgangi að stela þaðan mat. Þá á ákærða E að hafa skýrt svo frá í skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins að hún hafi séð ákærða taka hluti og setja þá í innkaupakörfu sem ákærði Róbert Örn hélt á. Þau hefðu síðan gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir varninginn, sem þau hefðu öll notið góðs af.

          Samkvæmt gögnum málsins var lögreglu afhentur disklingur með upptöku úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar 11/11 við Gilsbúð í Garðabæ. Á meðal gagna málsins er yfirlit þar sem því sem gerðist inni í versluninni á tímabilinu frá klukkan 16.18.48 til klukkan 16.21.27 hinn 29. mars 2004 er lýst til samræmis við upptökuna. Í yfirlitinu segir svo meðal annars: „Kl. 16.18.48. Vél 1. Róbert kemur inn ásamt tveimur vinum sínum. [...] kl. 16.19.36. Vél 4. Vinur hans tekur stóran gouda 26% (1109 kr) í körfuna og Róbert nýmjólk (89 kr). [...] Kl. 16.20.30. Vél 4. Vinurinn tekur páskaegg númer 7 (2799 kr). [...] Kl. 16.20.57. Vél 7. Vinkonan setur shampooið og næringuna í körfuna. [...] Kl. 16.21.27. Vél 1. Hlaupa út með allt saman án þess að borga.“

          Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði Einar Snæbjörn að tjá sig um þær sakargiftir sem hér um ræðir.

          MÞH, sem starfar sem öryggisfulltrúi hjá þeim aðila sem rekur framangreinda verslun, kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Þar skýrði hann svo frá að samkvæmt upptöku úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar, sem hann hafi horft á, hafi tveir karlmenn og ein kona komið inn í verslunina og haft á brott með sér þaðan vörur án þess að greiða fyrir þær. Annar mannanna hafi haldið á innkaupakörfu sem vörur hafi verið settar í. Hinn maðurinn, sem vitnið kannaðist við sem ákærða Einar Snæbjörn, hafi sett ost í körfuna. Hann hafi einnig tekið páskaegg, en haldið á því þá er hann yfirgaf verslunina.

          Þegar framangreint er virt þykir nægilega sannað, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi gerst sekur um þá gripdeild sem hann er samkvæmt framansögðu sakaður um. Varðar þessi háttsemi hans við 245. gr. almennra hegningarlaga.

8.

          Ákvörðun refsingar.

          Ákærðu hafa samkvæmt framansögðu verið sakfelld fyrir alla þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærum málsins og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

          Ákærði Einar Snæbjörn á langan sakaferil að baki. Frá árinu 1993 hefur hann hlotið 13 dóma vegna hegningarlagabrota, umferðalagabrota og fíkniefnabrota, síðast 23. október 2003, en honum var þá gerð sektarrefsing fyrir fíkniefnabrot. Síðast var ákærða gert að sæta refsivist með dómi 27. september 2002, en hann var þá dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg þjófnaðarbrot og nytjastuld. Þá hefur hann á þessu tímabili alls 13 sinnum gengist undir sektargreiðslu vegna umferðarlagabrota, fíkniefnabrota og hegningarlagabrota, síðast 12. desember 2003.

          Ákærða var veitt reynslulausn 25. janúar 2003 skilorðsbundið í eitt ár á samtals 120 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt framangreindum dómi frá 27. september 2002. Fram er komið að hann hefur ekki afplánað þær eftirstöðvar. Með þjófnaðarbroti sínu 16. janúar 2004 og þeim umferðarlagabrotum sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í þessu máli rauf ákærði skilorð reynslulausnarinnar. Verður refsing ákærða fyrir brot hans nú og óafplánuð refsing hans samkvæmt fyrrnefndum dómi ákveðin í einu lagi samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði telst vera vanaafbrotamaður. Verður því að gæta ákvæðis 72. gr. almennra hegningarlaga við refsiákvörðun og við hana verður einnig að líta til 71. gr. og 255. gr. laganna.

          Að öllu framangreindu athuguðu og með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða Einars Snæbjörns hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Refsingunni til frádráttar kemur með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 2. f.m.

          Ákærði Róbert Örn hefur frá árinu 1991 hlotið 16 dóma vegna umferðarlagabrota, brota gegn almennum hegningarlögum og fíkniefnalögum. Síðast var ákærða gert að sæta refsivist með dómi 27. september 2002, en hann var þá dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg þjófnaðarbrot auk brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Á sama tímabili hefur hann 12 sinnum gengist undir sektargreiðslu með sátt vegna fíkniefna- og umferðarlagabrota. Við ákvörðun refsingar ákærða nú ber í ljósi sakaferils hans að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga.

          Ákærða var veitt reynslulausn 5. apríl 2003 skilorðsbundið í eitt ár á samtals 100 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt framangreindum dómi frá 27. september 2002. Fram er komið að hann hefur ekki afplánað þær eftirstöðvar. Með þeim brotum sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í þessu máli rauf ákærði skilorð reynslulausnarinnar. Verður refsing ákærða fyrir brot hans nú og óafplánuð refsing hans samkvæmt fyrrnefndum dómi ákveðin í einu lagi samkvæmt 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga.

          Að framangreindu virtu og með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr., 71. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða Róberts Arnar hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Refsingunni til frádráttar kemur með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 2. f.m.

          Ákærðu E var með dómi 27. september 2002 gert að sæta fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir hilmingu, skjalafals, tilraun til fjársvika og fíkniefnabrot. Þá gekkst hún undir sektargreiðslu með sátt hjá lögreglustjóra 14. febrúar 2003 vegna fíkniefnabrots. Þá hefur hún þrívegis sætt sektarrefsingu fyrir umferðarlagabrot, síðast 26. apríl 2001.

          Með þeim brotum sem ákærða hefur verið sakfelld fyrir í þessu máli rauf hún skilorð samkvæmt framangreindum dómi 27. september 2002. Verður refsing nú ákveðin í einu lagi vegna allra brotanna, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Eftir atvikum er rétt að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

9.

          Svipting ökuréttar, upptaka og skaðabætur.

          Ákærði Einar Snæbjörn gekkst með sátt hjá lögreglustjóra 12. desember 2003 undir sviptingu ökuréttar í 8 mánuði vegna brots gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá sætti hann sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði með sátt 17. nóvember 2003 fyrir önnur umferðarlagabrot. Við ákvörðun um sviptingu ökuréttar vegna þess ölvunarakstursbrots sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir, en það framdi hann svo sem fram er komið 4. október 2003, ber að hafa hliðsjón af meginreglu 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. t.d. H.1984.582. Samkvæmt þessu þykir hæfilegt að ákærði verði sviptur ökurétti í einn mánuð frá 12. ágúst 2004 að telja, en þá rennur út sú svipting ökuréttar sem honum var gerð með framangreindri sátt 12. desember 2003.

          Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, er fallist á kröfu ákæruvalds um að ákærði Róbert Örn sæti upptöku á þeim fíkniefnum sem tilgreind eru í ákæru frá 12. mars 2004 og lögregla lagði hald á 11. og 13. maí 2003 og 22. janúar 2004.

          Ákærðu hafa samþykkt bótakröfu Skeljungs hf. og verða þau óskipt dæmd til að greiða hana. Þá verður ákærðu einnig óskipt gert að greiða þær skaðabætur sem krafist er vegna gripdeildarbrots þeirra 29. mars 2004, sbr. liður III í ákæru frá 14. apríl 2004.

          Ekki verður betur séð en að munir þeir sem ákærði Einar Snæbjörn hafði á brott með sér eftir innbrot í bifreiðina PY[...], sbr. liður III í ákæru 12. mars 2004, hafi komist til skila, svo og mestur hluti þeirra peninga sem honum tókst að taka út af bankareikningi R ehf. með stolnu greiðslukorti. Eftir stendur samkvæmt gögnum málsins úttekt að fjárhæð 5.000 krónur. Ekki þykja efni til að taka til greina þann hluta bótakröfunnar sem ekki tekur beint til hinna stolnu muna. Samkvæmt þessu verður ákærða gert að greiða Á 5.000 krónur.

          Á grundvelli gagna málsins þykir mega taka til greina bótakröfu Olíuverslunar Íslands hf. á hendur ákærðu Einari Snæbirni og Róberti Erni, en hún nemur 4.214 krónum, svo og bótakröfu EP, eiganda söluturnsins Jolla, að fjárhæð 1.000 krónur.

          Vegna þeirrar háttsemi ákærðu, sem getið er í I. lið ákæru frá 14. apríl 2004, eru samkvæmt ákærunni gerðar þrjár bótakröfur á hendur þeim. Ekki liggja fyrir viðhlítandi gögn til stuðnings bótakröfu H og er af þeim sökum ekki unnt að taka efnislega afstöðu til hennar. Þá verður ekki af gögnum málsins skýrlega ráðið að bótakröfur hafi í reynd verið settar fram af hinum tveimur aðilunum. Samkvæmt þessu verður að vísa frá dómi þeim bótakröfum sem hér um ræðir.

10.

          Sakarkostnaður o.fl.

          Ákærði Einar Snæbjörn skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur. Þá verður ákærða jafnframt gert að greiða kostnað vegna töku á blóðsýni og rannsóknar á því, en hann nemur 16.131 krónu.

          Ákærði Róbert Örn skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Er þá tekið tillit til starfa verjanda í þágu ákærða við lögreglurannsókn málsins. Þá verður ákærða að auki gert að greiða þóknun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns vegna verjandastarfa í þágu ákærða við lögreglurannsókn málsins, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

          Ákærða E skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

          Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

          Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

         

          Ákærði Einar Snæbjörn Eyjólfsson sæti fangelsi í 15 mánuði, en frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 2. apríl 2004.

          Ákærði Róbert Örn Rafnsson sæti fangelsi í 12 mánuði, en frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 2. apríl 2004.

          Ákærða E sæti fangelsi í 8 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

          Ákærði Einar Snæbjörn er sviptur ökurétti í einn mánuð frá 12. ágúst 2004 að telja.

          Ákærði Róbert Örn sæti upptöku á þeim fíkniefnum sem lögregla lagði hald á 11. og 13. maí 2003 og 22. janúar 2004, sbr. liðir IV, V og VI í ákæru 12. mars 2004.

          Ákærðu greiði óskipt Skeljungi hf. 3.577 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. janúar 2004 til 1. maí sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

          Ákærðu greiði óskipt MH f.h. verslunarinnar 11/11 við Gilsbúð í Garðabæ 6.727 krónur.

          Ákærði Einar Snæbjörn greiði Á 5.000 krónur.

          Ákærðu Einar Snæbjörn og Róbert Örn greiði óskipt Olíuverslun Íslands hf. 4.214 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til 1. maí sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

          Ákærðu Einar Snæbjörn og Róbert Örn greiði óskipt EP 1.000 krónur.

          Bótakröfum H, Bláa turnsins og Aktu-Taktu er vísað frá dómi.

          Ákærði Einar Snæbjörn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur. Þá skal ákærði greiða kostnað vegna töku á blóðsýni og rannsóknar á því, 16.131 krónu.

          Ákærði Róbert Örn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, svo og þóknun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns vegna verjandastarfa í þágu ákærða við lögreglu-rannsókn málsins, 50.000 krónur.

          Ákærða E greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

          Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.