Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2002


Lykilorð

  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 10/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Börn. Kynferðisbrot. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni Y. Við sönnunarmat þótti ekki verða litið fram hjá því að Y hafði átt við margvísleg heilsufarsleg vandamál að stríða, einkum frá því er hún varð fyrir alvarlegum höfuðáverka í bílslysi og hafði síðan meðal annars borið á athyglisvanda og andfélagslegri hegðun hjá henni. Annarra sönnunargagna naut ekki við um sök X en skýrslna Y og þeirra sem hún hafði sagt frá umræddu atviki. Gegn staðfastri neitun X þótti framburður Y einn og sér ekki skera úr um sekt X. Þegar þetta var virt og sönnunaraðstaðan að öðru leyti var ekki talið að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna sekt X svo hafið yrði yfir skynsamlegan vafa, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 og var hann því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. desember 2001 að ósk ákærða. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann hins vegar sýknu.

I.

Ákærði reisir aðalkröfu sína á því að í héraði hafi meginreglan um milliliðalausa málsmeðferð verið brotin. Hafi enginn af dómurum málsins verið viðstaddur skýrslutöku af ætluðum brotaþola Y og tveimur vitnum öðrum en þó sé byggt á framburði þeirra við sönnunarmat. Þá er á það bent að í málinu liggi fyrir gögn um heilsufar stúlkunnar á þeim tíma sem umræddur atburður á að hafa gerst. Samkvæmt þeim gögnum sé ljóst að hún hafi átt við alvarleg veikindi að stríða á þessum tíma, sem ekki verði horft fram hjá við mat á framburði hennar, þar sem þau geti haft áhrif á trúverðugleika hans. Ekkert bendi til að líðan hennar hafi verið betri þegar kæra var lögð fram og því hefði verið eðlilegt að fram færi sérfræðirannsókn á heilsu hennar við meðferð málsins.

Stúlkan gaf skýrslu að viðstöddum verjanda ákærða á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið var af Hervöru Þorvaldsdóttur héraðsdómara 23. október 2000. Var skýrslan tekin af Vigdísi Erlendsdóttur sálfræðingi undir stjórn dómarans og sett á myndband. Vitnið R gaf skýrslu að viðstöddum verjanda ákærða fyrir dómþingi Héraðsdóms Norðurlands vestra, sem haldið var af Halldóri Halldórssyni héraðsdómara 19. febrúar 2001. Vitnið Z kom fyrir dómþing Héraðsdóms Austurlands, sem haldið var af  Loga Guðbrandssyni dómsformanni héraðsdóms 23. sama mánaðar að viðstöddum fulltrúa verjanda. Báðar þessar skýrslur voru teknar upp á hljóðband.

 Mál þetta var höfðað með ákæru 21. maí 2001 fyrir Héraðsdómi Austurlands og fór aðalflutningur fram 28. september sama ár. Dómurum gafst ekki kostur á að hlýða á framburð áðurnefndra vitna við aðalflutninginn. Gátu þeir því ekki metið sönnunargildi skýrslna þeirra milliliðalaust á þann hátt, að því undanskildu þó að dómsformaður hafði tekið skýrslu af vitninu Z, svo sem áður er frá skýrt. Skýrslurnar lágu hins vegar fyrir við aðalflutning málsins og auk þess gátu dómararnir virt fyrir sér myndband af skýrslugjöf stúlkunnar. Ekkert þessara vitna hafði náð 18 ára aldri, þegar að aðalflutningi kom, og skyldu því ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómarar teldu þess sérstaka þörf samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999. Verður héraðsdómur ekki ómerktur þessa vegna. Hins vegar verður að virða mat héraðsdómaranna á sönnunargildi skýrslna þessara vitna í ljósi þess að þau komu ekki fyrir dóminn sjálfan, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991.

Stúlkan hefur átt við margvísleg heilsufarsleg vandamál að stríða, einkum frá því er hún varð fyrir alvarlegum höfuðáverka í bílslysi 1993. Við slysið mun hún hafa hlotið framheilaskaða og breytingar orðið á skapferli hennar. Í ágúst og september 1999 gekkst hún undir þverfaglegt mat á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins vegna gruns um þroskaraskanir o.fl. Tóku þátt í henni sálfræðingur, barnalæknir, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi. Í héraðsdómi er getið umsagna barnalæknis og félagsráðgjafa. Í umsögn sálfræðingsins kemur fram að 1993 hafi farið fram ítarleg taugasálfræðileg athugun á stúlkunni, aftur 1996 og enn í apríl 1999. Fram kemur að við síðustu athugunina hafi fjögur atriði kvarða, sem meta eiga hegðunarerfiðleika, verið utan eðlilegra marka. Það sem vekur athygli í sambandi við atvik máls þessa er að athyglisvandi og andfélagsleg hegðun eru utan marka. Sálfræðingurinn kom fyrir dóm og aðspurður kvað hann andfélagslega hegðun vera fólgna í því að gera hluti sem ekki eigi að gera og þá einnig að segja hluti sem ekki séu sannir. Rannsóknir þær sem hér hefur verið vitnað til höfðu nýlega verið gerðar þegar atvik málsins eiga að hafa orðið.  Verður því ekki fallist á það með verjanda ákærða að tilefni hafi verið til þess að láta fara fram nýja skoðun á stúlkunni vegna máls þessa. Hins vegar verður ekki, eins og hér hagar til, litið fram hjá heilsufarssögu hennar við sönnunarmatið.

II.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram er ákærða gefið að sök að hafa sumarið 1999 þuklað á brjóstum stúkunnar innan klæða og reynt að setja höndina inn undir buxur hennar þegar hann hafi setið með hana í fanginu og leyft henni að stýra bifreið sinni utan bæjar í […]. Stúlkan var 12 ára er þetta á að hafa orðið. Segir hún að viðbrögð sín hafi verið þau að hún hafi tekið höndina á honum frá, opnað bifreiðina og hlaupið út. Bifreiðin hafi ekki verið á ferð. Vitnið Z, sem er fjórum árum yngri en stúlkan, á að hafa verið í bifreiðinni með þeim, en hann varð ekkert við þetta var. Hins vegar eru hann og stúlkan sammála um að ökuferðin hafi verið farin, að þau hafi fengið að stýra bifreiðinni hvort á eftir öðru sitjandi í fangi ákærða og hún hafi strax að lokinni ökuferðinni kvartað undan framkomu ákærða við sig. Ákærði hefur frá upphafi neitað allri sök og að hafa sumarið 1999 farið með stúlkuna og Z saman í ökuferð, en segir stúlkuna hafa getað verið fyrr í bifeiðinni hjá honum, en hann hafi oft ekið börnum, sem heima eigi í nágrenni við hann. Hins vegar hafi Z oft farið með honum í bifreiðinni á þessum tíma ásamt syni hans sem sé á svipuðum aldri. Hann þvertekur fyrir það að hann myndi hafa leyft þeim að stýra bifreiðinni. Samkvæmt því sem að framan er rakið nýtur ekki annarra sönnunargagna um sök ákærða en skýrslna stúlkunnar og þeirra sem hún hefur sagt frá þessu atviki.

Hæstaréttardómarar hafa horft á myndbandsupptöku af skýrslu stúlkunnar. Eru þeir í jafngóðri aðstöðu til að meta trúverðugleika framburðar hennar og héraðsdómararnir. Þegar virt er að vitnið Z á að hafa verið í bifreiðinni án þess að verða var við ætlaðar athafnir ákærða og óánægju stúlkunnar eða geðshræringu þykir framburður hennar einn og sér ekki gegn staðfastri neitun hans skera úr um sekt hans. Þegar þetta er virt og sönnunaraðstaðan í málinu að öðru leyti, svo sem að framan er rakið í kafla I, verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sekt ákærða svo að hafið verði yfir skynsamlegan vafa, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 ber þá að vísa bótakröfu stúlkunnar frá dómi.

Samkvæmt þessari niðurstöðu skal allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, skal sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Miskabótakröfu Y er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns, eins og þau voru ákveðin í hérðsdómi, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Garðars Gíslasonar

Ég er sammála meiri hluta dómenda um að ekki beri að ómerkja héraðsdóm.

Fallast ber á með héraðsdómi, að telja verði sannað með vætti barnanna Y og Z að ökuferð sú, sem þau kveðast hafa farið í með ákærða á árinu 1999, hafi verið farin, og að ákærði hafi leyft þeim að stýra bifreiðinni á þann hátt sem þau hafa skýrt frá. Ákærði hefur neitað því að hafa farið í þessa ferð með börnunum og er þessi niðurstaða því gegn neitun hans. Verður að fallast á með héraðsdómi að af þessu leiði að afdráttarlaus neitun ákærða á sakargiftum sé ótrúverðug.

Sakargiftir eru þukl og þreifingar manns sem situr undir stýri bifreiðar með 12 ára stúlku í víðri peysu í fangi sér og leyfir henni að stýra bifreiðinni og stíga á bensíngjöfina. Ekki er ástæða til annars en að fallast á með héraðsdómi að framburður stúlkunnar fyrir dómi hafi verið trúverðugur og ekki eru fram komin rök til að telja að heilsufarssaga hennar breyti nokkru í því efni. Að þessu virtu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður fallist á að fram sé komin af hálfu ákæruvalds nægileg sönnun í skilningi 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir sekt ákærða. Tel ég því að staðfesta beri héraðsdóm og dæma ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. nóvember 2001.

Málið, sem þingfest var 21. maí  2001 og dómtekið var 28. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 21. maí 2001 gegn X, kt. […], til heimilis að […],

„fyrir kynferðisbrot, sumarið 1999, gagnvart telpunni Y, fæddri […], með því að hafa í bifreið, sem ákærði ók utan bæjar í […], þuklað á brjóstum telpunnar innan klæða og reynt að setja höndina inn undir buxur hennar.

Telst þetta varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu Y er krafist skaðabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III kafla vaxtalaga nr. 25, 1987.“

Af hálfu ákæruvaldsins er auk þess, sem fram kemur í ákæru, krafist að ákærða verði gert að greiða allan sakarkostnað.

Af hálfu ákærða eru gerðar þær kröfur, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Verjandinn gerir kröfu um að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati réttarins.

Málavextir eru þeir, að S, móðir Y kom ótilkvödd á skrifstofu […] þann 26. júlí 2000 og skýrði félagsmálafulltrúa, […], frá því, að hún vildi kæra ákærða fyrir kynferðislega áreitni við Y. Í framhaldi af þessu skrifaði félagsmálafulltrúinn bréf til lögreglunnar á […], og óskaði eftir rannsókn á hinu ætlaða broti.

Kærandi, Y, gaf skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur, skýrði svo frá, að hún og Z vinur hennar hefði verið að fara upp í fjall að tína ber og hefðu þau hitt ákærða fyrir ofan húsið, sem hún býr í og nærri heimili ákærða. Hefðu þau spurt hann hvert hann væri að fara, en hann hefði svarað því til, að hann væri að fara að ná í einhvern kassa. Þau hefðu spurt hann hvort þau mættu fara með. Ákærði hefði játað því. Þau hefðu öll sest inn í bílinn, ákærði í bílstjórsætið, Z í framsætið við hlið hans og Y í aftursætið. Það hafi verið einhvers staðar fyrir utan bæinn, sem  hann hafi leyft þeim að keyra. Ákærði hefði boðið henni að byrja, en hún hefði sagt, að Z mætti byrja. Ákærði hafi setið undir Z á meðan hann keyrði. Þegar Z hætti að keyra, hafi hann sest aftur í framsætið við hlið ákærða. Ákærði hefði einnig setið undir Y við stýrið. Hefði hún þá stýrt bílnum og einnig stigið á bensíngjöfina. Meðan hún hafi verið að keyra, hafi ákærði farið með hendurnar alveg innanundir bolinn og þreifað um brjóst henni. Þá hafi ákærði ætlað að fara innanundir brókina og hafi hann verið kominn með hálfa höndina þangað. Hún hafi þá tekið höndina þaðan og hlaupið út. Hún hafi farið aftur upp í bílinn og ákærði hafi svo keyrt þau upp í fjall, þangað, sem þau höfðu ætlað sér að fara, enda hafi Z verið mjög ákveðinn  með að hann gerði það og orðaði Y það svo, að Z  hafi skipað honum það. Þau Z hafi svo farið að tína ber, en hún sagðist hafa sagt Z þarna í fjallinu, að ákærði hefði farið innundir hana eða undir peysuna og ætlað að fara innundir brókina. Y mundi við yfirheyrsluna ekki nákvæmlega, hvenær atburður þessi hefði orðið, en taldi, að það hefði verið í fyrrasumar (skýrslan var tekin 23. október 2000). Y kvaðst hafa sagt vinkonu sinni R frá þessu atviki á sama hátt og hún hafði sagt Z. Það hefði hún gert einhvern tíma um veturinn. Öðrum hefði hún ekki sagt frá þessu, fyrr en hún hefði sagt móður sinni. Aðdragandi þess, að hún hefði sagt móður sinni frá þessu, hefði verið, að R hefði sagt henni frá fundi, sem Rauði krossinn hefði haldið á […], og hefði R komið með henni á fundinn og önnur vinkona hennar. Á fundinum hefði verið talað um nauðganir og þess háttar. Eftir fundinn hefði hún farið heim. Hún hefði með aðstoð R fengið kjark til að segja mömmu sinni frá atvikinu.

Vitnið Z, gaf skýrslu fyrir dómi skv. c. lið 1. mgr. 74. gr. a, laga nr. 19/1991,  23. febrúar 2001, þá 10 ára gamall. Hann sagði svo frá, að ákærði, sem hann þekkti, hafi boðið honum og Y að sitja í bíl ákærða. Vitnið taldi, að Y hefði sest fram í fyrst, en hann sjálfur aftur í. Ákærði hafi keyrt að ruslahaugunum og svo hafi Y byrjað að keyra. Hún hafi setið í bílstjórasætinu og ákærði setið undir henni. Vitnið sagðist ekki hafa séð neitt annað en þetta. Þegar Y hafi hætt að keyra, hafi hún flutt sig um sæti, og setið í sætinu við hliðina. Þá hafi vitnið fengið að keyra og hafi ákærði einnig setið undir honum, en hann hafi ekki fengið „að ýta á kúplingar eins og hún. Ég fékk bara að halda um stýrið”, enda hafi hann ekki náð niður. Y hafi setið í bílnum á meðan vitnið keyrði. Þegar vitnið hætti að keyra, hafi ákærði keyrt bílinn inn í bæinn og hafi þau vitnið og Y setið í þangað. Vitnið og Y hafi svo verið á leið gangandi á skólaleikvöllinn, þegar hún hafi sagt honum, að hún ætlaði aldrei  aftur með ákærða í bíl. Vitnið hafi þá spurt af hverju og hafi hún þá sagt: „Hann var bara að káfa á mér.”  Kom jafnframt fram, að Y hefði ekki þorað „að rífa kjaft við hann”. Þessi orð hafi hún haft við vitnið á leið þeirra upp í skóla, þegar þau voru komin á grasbrekkuna, þá hafi orðin tínst upp úr henni. Þau hafi svo labbað upp í fjall og aðeins á róló og rólað eitthvað. Þau hafi einnig farið yfir læk og eitthvað um fimmtíu skref og hafi þá verið komin þar sem eru krækiber og bláber. Vitnið taldi að atburður þessi hefði orðið fyrir um einu og hálfu ári síðan og örugglega ekki síðasta sumar.

Vitnið R gaf skýrslu fyrir dómi skv. c. lið 1. mgr. 74. gr. a, laga nr. 19/1991,  19. febrúar 2001, þá 12 ára gömul. Hún sagði, að Y  hefði fyrir um það bil einu ári síðan sagt henni frá því, að hún og Z hefðu verið að leika sér fyrir ofan húsið hennar. Þá hafi komið þar að maður og Z hafi spurt hvað hann væri að gera og hafi hann sagt, að hann væri að fara að ná í kassa fyrir utan bæinn. Z hefði þá spurt, hvort þau mættu koma með. Hann hafi leyft það. Svo hafi hann farið eitthvað út fyrir bæinn og hafi sennilega Z spurt, hvort þau mættu keyra bílinn. Y hafi síðan keyrt fyrst og þá hafi hann farið eitthvað að káfa á henni, hann hafi farið upp fyrir bolinn og svo hafi hann reynt að fara niður. Vitnið taldi, að atburður þessi hafi gerst um sumar. Vitnið sagði, að Y hefði sagt henni þetta og beðið hana að segja ekki öðrum. Y hefði ekki þorað að segja mömmu sinni frá.

Vitnið S, móðir Y, sagði, að henni hefði orðið kunnugt um atvik það, sem varð tilefni þessa máls í febrúar eða mars 2000. Hafi verið haldinn fundur á vegum Rauða kross Íslands um viðbrögð við ofbeldi og það hafi verið brýnt fyrir börnunum að segja frá, ef eitthvað slíkt kemur fyrir, og hafi Y komið heim af þessum fundi og sagt henni þá frá þessu atviki. Vitnið sagði, að eftir á að hyggja hafi komið fram breyting á Y á þessum tíma, mikil reiði í henni og þunglyndi, hún hafi verið farin að loka sig inni og fór ekki út og var ekki með neinum félögum. Vitnið gerði sér ekki grein fyrir, hve lengi þetta hefði gengið, en taldi það vera nokkra mánuði. Vitnið sagði frá því, að ákærði hefði séð um […] í húsi vitnisins og hefði Y brugðist þannig við, að hún hafi orðið heiftarlega reið. Vitnið hafi skammað hana fyrir að tala svona um nágranna þeirra, en hún hafi þá hlaupið út og látið sig hverfa. Vitnið segir, að Y hafi orðið fyrir aðkasti frá eiginkonu ákærða vegna þessa atviks. Vitnið sagði, að Y væri mjög hrædd og skelkuð yfir þessu öllu saman. Hún sé ekki í annarri stuðningsmeðferð eins og er, en að hún fari reglulega til skólasálfræðings.

Fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við að hafa boðið þeim Y og Z í neina ökuferð sumarið 1999. Sérstaklega aðspurður um hvort hann hafi farið með þau í bílferð í maí 1999, segir ákærði það af og frá. Hann hafi verið erlendis 22 daga í maí þetta ár. Ákærði kvaðst stundum hafa leyft sínum eigin börnum að sitja í og þá hefðu stundum slæðst með önnur börn. Þetta hefði verið fyrir mörgum árum, og geti verið, að Y hafi verið þar á meðal, en hann minntist þess ekki sérstaklega.  Z hafi stundum komið með honum í bíl ásamt syni ákærða, en þau tvö saman Y og Z hafi aldrei komið með honum í bíl. Þá kveðst ákærði aldrei hafa leyft börnum, hvorki þessum né öðrum að stýra bíl á ferð. Hann kvaðst hafa stundum leyft syni sínum og vinum hans að leika sér í bíl sínum, en bíllinn hafi þá ekki verið á ferð. Ákærði kvaðst þekkja Y, enda búi hún í næsta húsi við hann. Ákærða var um það kunnugt, að hún hafði lent í bílslysi og átt í erfiðleikum þess vegna. Ákærði kannaðist við að hafa átt á þessum tíma […]. Í skýrslu ákærða fyrir lögreglu var ákærði spurður um það, hvort rétt væri það, sem fram kom í skýrslu Y, að hann hefði farið með hendur inn undir bol hennar og síðan farið með hálfa hendina niður í brókina og svaraði ákærði því, að þetta væri rangt.

Þau læknisfræðilegu gögn, sem við nýtur í málinu eru um rannsókn, sem fram fór á Y í ágúst og september 1999, en hún hefur átt við margvísleg heilsufarsleg vandamál á stríða einkum frá því, að hún slasaðist í bílslysi í apríl 1993, þá sex ára gömul. Vegna þess, hvenær rannsóknin fór fram, er ekki unnt að styðjast við hana varðandi afleiðingar af þeim atburðum, sem mál þetta snýst um, en bent hefur verið á atriði í rannsókn þessari, sem varpað gætu ljósi á trúverðugleika Y. Í umsögn barnalæknis segir m.a.: „Y er mjög uppstökk að sögn móður hennar, en auk þess ber á áráttukenndri hegðun, sem m.a. lýsir sér í því að hún virðist eigna sér ýmsa hluti sem ekki tilheyra henni. … Móðir stúlkunnar lýsir því, að Y sé ákaflega einangruð félagslega, hún lokar sig mest inni og á mjög fáa vini.” Í umsögn félagsráðgjafa segir m.a.: „Nú eru sex ár liðin frá því telpan lenti í slysinu og segir móðir hegðunarvandamál vaxandi. Í skólanum er hún eins og ljós en heima fer hún ekki eftir neinum reglum. … Móðir segir hana vera tvær persónur, hún geti verið mjög blíð og góð en síðan getur heiftin verið þvílík ef eitthvað er henni á móti skapi. Y missir fljótt áhuga á því, sem hún tekur sér fyrir hendur.  … Móður finnt erfitt að treysta telpunni þar sem hún hefur staðið hana að því að ljúga og stela.”

Ekki hafa verið lögð fram nein læknisfræðileg gögn í málinu um ástand Y eftir að mál þetta kom upp. 

Réttargæslumaður Y hefur fyrir hennar hönd gert kröfu á hendur ákærða um miskabætur að fjárhæð kr. 500.000 ásamt vöxtum, eins og greinir í ákæru. Krafan er rökstudd með því, að um hafi verið að ræða alvarlegt brot gagnvart líkama og persónu brotaþola, sem hafi orðið fyrir miskatjóni vegna þessa. Brotaþoli hafi verið aðeins um 12 ára gömul þegar brotið var framið. Brotið hafi verið framið af henni mun eldri manni, sem sé næsti nágranni hennar í litlu þorpi og hafi haft í för með sér alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir brotaþola og mikla röskun á lífi hennar. Umfang tjóns tjónþola sé mikið og beri að líta til þess og hversu alvarlegt brotið hafi verið, til sakarstigs og huglægrar upplifunar brotaþola.  

Niðurstaða:

Ákærði hefur með öllu neitað að hafa nokkurn tíma, hvort heldur er sumarið 1999 eða í annan tíma farið í ferð með þeim Y og Z saman, eða að hann hafi nokkurn tíma leyft börnum að stýra bíl hans á ferð.

Y hefur borið um ferð þessa, sem hún hafi farið með ákærða í bíl hans ásamt Z, sennilega sumarið 1999, og hafi ákærði leyft þeim báðum að keyra bílinn, en hann hafi setið undir þeim. Z hefur borið að þau hafi farið í ferð þessa út úr bænum í […], sennilega að ruslahaugunum. Ber þeim Y og Z saman um ferðina í öllum meginatriðum.

Ákærði hefur alfarið neitað að hafa farið í ferð þessa með börnunum og einnig að hann hafi við það tækifæri framið það brot, sem honum er gefið að sök í ákæru, að hafa þuklað á brjóstum telpunnar innan klæða og reynt að setja höndina inn undir buxur hennar.  Að áliti dómsins fær þessi framburður ekki staðist þegar höfð er hliðsjón af eindregnum framburði barnanna um ökuferðina, en telja verður sannað með vætti þeirra að hún hafi verið farin. Þykir afdráttarlaus neitun ákærða á sakargiftum ótruverðug og verður ekki lögð til grundvallar í málinu.

Fram kemur í skýrslu Z, að hann hafi ekki séð neitt þess háttar til ákærða í ökuferðinni eða þegar ákærði hafi setið undir Y. Hins vegar bar Z að Y hefði þegar eftir að þau höfðu yfirgefið bíl ákærða, sagt honum frá því, að ákærði hefði verið að káfa á henni, og jafnframt kom fram, að henni hefði orðið nokkuð um, þar sem hún sagði um leið, að hún ætlaði aldrei aftur í bíl með ákærða. Þá bar vitnið R, að Y hefði sagt henni frá atvikinu þá um veturinn, og þá mjög á sömu lund og Y hefur sagt frá í réttinum.

Framburður Y fyrir dómi er að áliti dómenda trúverðurgur og breytir heilsufarssaga hennar engu í því efni. Hefur stúlkan verið eindregin og staðföst í framburði sínum allt frá því hún skýrði félögum sínum frá ökuferðinni, fyrst Z þegar í kjölfar ökuferðarinnar og síðan R, þrátt. Fær framburður hennar einnig stuðning af framburðum þeirra Z og R.

Þegar þetta er virt, þykir þrátt fyrir neitun ákærða komin fram næg sönnun um, að ákærði hafi við þetta tækifæri leyft Y að stýra bílnum, jafnframt því sem hann sat undir henni, og hafi þá þreifað á brjóstum hennar og reynt að setja hendina inn undir buxur hennar.

Telst þannig sannað, að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök í ákæru og er þar rétt fært til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði dagsettu 16. maí 2001 hefur ákærði ekki gerst sekur um nein þau brot, sem ítrekunarverkun hafa í þessu máli.

Þykir hæfileg refsing ákærða, X, vera fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að þremur árum liðnum, frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ekki eru í málinu gögn um hverjar afleiðingar brotsins kunna að hafa orðið fyrir tjónþola, en þó hefur komið fram, að henni hafði orðið nokkuð um, þegar við atburðinn, samkvæmt frásögn Z. Þá kom fram hjá móður hennar, að hún teldi eftir á að hyggja, hafa komið fram breytingar á skapferli Y eftir atvikið. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999 verður ákærði dæmdur til að greiða Y, miskabætur, sem ákveðast 150.000 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppkvaðningu til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og þóknun fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi  400.000 krónur til skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Nielssonar, hrl., og þóknun til  réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur, hrl. 86.838 krónur, sem þegar hefur verið greidd.

Dóm þennan dæma Logi Guðbrandsson, dómstjóri, ásamt meðdómsmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Sigurði Halli Stefánssyni, héraðsdómara. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögskilinn tíma vegna embættisanna dómsformanns.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að þremur árum liðnum, frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði, Y, kr. 150.000 í miskabætur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppkvaðningu til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og þóknun fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi  400.000 krónur til skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Nielssonar, hrl., og þóknun til  réttargæslumanns kæranda, Sifjar Konráðsdóttur, hrl. 86.838.