Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 1/2007.

K

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður. Gjafsóknarleyfi.

M höfðaði mál gegn K og krafðist forsjár dóttur þeirra. Gerð var dómsátt milli þeirra, þar sem ákveðið var að forsjáin yrði óbreytt og hvernig umgengni M við barnið yrði hagað í ljósi breyttrar búsetu þess. Óleystur var ágreiningur milli aðila um málskostnað og gjafsóknarþóknun lögmanns K. Var niðurstaða héraðsdóms um að fella niður málskostnað í málinu staðfest en gjafsóknarþóknun til lögmannsins hækkuð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006, þar sem felldur var niður málskostnaður í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt, og gjafsóknarþóknun lögmanns sóknaraðila ákveðin 400.000 krónur. Var sérstaklega tekið fram að ekki væri þar tekið tillit til virðisaukaskatts. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Þá krefst hann að úrskurði um gjafsóknarkostnað verði hrundið og gjafsóknarþóknun til lögmanns hans verði hækkuð í samræmi við téðan málskostnaðarreikning. Sóknaðili krefst ennfremur kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og  kærumálskostnaðar.

Eins og atvikum er hagað í máli þessu má fallast á þá niðurstöðu héraðsdómara að málskostnaður í héraði skuli felldur niður, sbr. 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Í málinu liggja fyrir málskostnaðarreikningar lögmanna málsaðila. Ljóst má vera að umtalsverð vinna liggur að baki niðurstöðu í málinu, sem hófst með því að varnaraðili stefndi sóknaraðila 13. júlí 2006 og krafðist þess að sér yrði falin forsjá barns þeirra. Lagði hann jafnframt fram kröfu fyrir héraðsdómi um að sóknaraðila yrði bönnuð för úr landi með barnið á grundvelli 4. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og var á það fallist með úrskurði héraðsdóms 4. ágúst sama ár, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. september 2006 í málinu nr. 464/2006. Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur, var dómkvödd 11. október sama ár til að meta nánar tilgreind atriði í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á búsetu sóknaraðila og barnsins og lá mat hennar fyrir 17. nóvember 2006. Í kjölfarið lauk málinu með dómsátt 8. desember sama ár, þar sem ákveðið var að forsjá barnsins yrði óbreytt og hvernig umgengni þess við varnaraðila yrði hagað í ljósi breyttrar búsetu barnsins. Gjafsóknarleyfi sóknaraðila 28. ágúst 2006 tekur einvörðungu til reksturs máls sem varnaraðili höfðaði gegn henni „með kröfu um forsjá dóttur þeirra“, en ekki til fyrrgreinds farbannsmáls. Með hliðsjón af þessu og að teknu tilliti til fyrirliggjandi málskostnaðarreikninga verður að fallast á að ákveða beri lögmanni sóknaraðila nokkuð hærri gjafsóknarþóknun en gert var í hinum kærða úrskurði. Skal hún vera 700.000 krónur.

Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Staðfest er niðurstaða hins kærða úrskurðar um að málskostnaður í héraði í máli varnaraðila, M gegn sóknaraðila, K, skuli falla niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 700.000 krónur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 8. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, [heimilisfang] á hendur K,  [heimilisfang], með stefnu birtri 13. júlí 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnanda verði með dómi falin forsjá A, [kt. og heimilisfang].  Þá er gerð krafa um að dómurinn ákveði hvernig umgengni telpunnar við stefndu skuli háttað verði krafan tekin til greina en til vara, verði kröfunni hafnað, hvernig umgengni barnsins við stefnanda skuli háttað. 

Þá er gerð krafa um að stefnda greiði mánaðarlega einfalt meðalmeðlag með telpunni, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs hennar verði á forsjárkröfu stefnanda fallist.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi og að viðbættum virðisaukaskatti.

 Stefnda krefst þess að hafnað verði kröfu stefnanda um að veita honum forsjá dóttur aðila, A, og að forsjá telpunnar verði óbreytt það er óskipt hjá stefndu.

Gerð er krafa um að dómurinn ákveði hvernig umgengni telpunnar við stefndu skuli háttað, verði á kröfu stefnanda fallist, en dómari hafni að ákveða inntak umgengnisréttar verði kröfum stefnanda hafnað.

Stefndi gerir kröfu um að stefnandi greiði mánaðarlega einfalt meðlag með telpunni sem nemi jafnhárri fjárhæð og barnalífeyrir eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar, verði á kröfur stefndu fallist.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi greiði henni málskostnað skv. málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri  eigi  gjafsóknarmál, en stefnda fékk gjafsókn með leyfi útgefnu þann 28. ágúst 2006.

Lögmenn hafa náð sátt í máli þessu að öðru leyti en því að óskað er úrskurðar um málskostnaðarkröfur þeirra.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta kostnaðar af máli þessu. Varnaraðili hefur gjafsókn í máli þessu. Kostnaðurinn greiðist því  úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Málskostnaður fellur niður.            

Málskostnaður varnaraðila greiðist  úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., 400.000 krónur.