Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2005
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Læknir
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2006. |
|
Nr. 317/2005. |
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Guðrúnu Ólafíu Haraldsdóttur Ólöfu Fjólu Haraldsdóttur og Stefáni Má Haraldssyni (Jóhannes Albert Sævarsson hrl. Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Sjúkrahús. Læknar.
G, Ó og S kröfðust viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna tjóns sem A móðir þeirra varð fyrir í kjölfar sýkingar í baki sem starfsfólki Í yfirsást að greina og veita meðferð við í framhaldi af rannsókn 2. desember 1997. Í héraðsdómi var margt talið benda til þess að ef gripið hefði verið til viðeigandi rannsókna í desember 1997 hefði mátt sjá sýkingu þá sem leiddi til þess að A var lögð inn á sjúkrahús í mars 1998. Sönnunarbyrði um að svo hefði ekki verið var lögð á Í og taldi héraðsdómur þá sönnun ekki hafa tekist. Þar sem Í hafði ekki leitað mats dómkvaddra manna eða lagt fram önnur gögn til að hnekkja þessari niðurstöðu héraðsdóms var hún staðfest. Talið var að með mati læknis Tryggingastofnunar ríkisins hefðu verið leiddar nægar líkur að því að A hefði orðið fyrir líkamstjóni sem Í gæti borið skaðabótaábyrgð á. Var því fallist á kröfu G, Ó og S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2005 og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefndu. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnandi í héraði var Anna Þuríður Georgsdóttir. Hún lést 9. júlí 2005. Stefndu, sem eru erfingjar eftir hana, hafa lokið einkaskiptum á dánarbúinu og tekið við aðild málsins.
Viðurkenningarkrafa stefndu lýtur að bótaskyldu áfrýjanda vegna líkamstjóns, sem Anna Þuríður hafi orðið fyrir „í kjölfar sýkingar í baki sem starfsfólki Landspítala fyrir mistök yfirsást að greina og meðhöndla samkvæmt upplýsingum sem fram komu í niðurstöðum beinaskanns sem framkvæmt var á Landspítalanum þann 2. desember 1997.“ Undir þá rannsókn gekkst Anna Þuríður samkvæmt tilvísun sérfræðings í bæklunarlækningum, sem hugðist athuga á þennan hátt hvort spenging á hrygg, sem Anna Þuríður gekkst undir á árinu 1995, hafi gengið úr skorðum og valdið einkennum, sem gáfu henni tilefni til að leita til hans. Við þessa rannsókn komu fram vísbendingar um svokallaða upphleðslu í baki Önnu Þuríðar. Sérfræðingurinn, sem hér átti í hlut, taldi að rannsóknin gæfi ekki til kynna að spenging á hrygg Önnu Þuríðar hefði aflagast eða að sýking væri þar í beini. Við svo búið var rannsókninni lokið án þess að kannað væri frekar af hverju upphleðsla þessi stafaði. Í mars 1998 greindist á hinn bóginn við frekari rannsókn sýking í mjúkvef í baki Önnu Þuríðar. Hún gekkst þá undir aðgerð og var komist þannig fyrir sýkinguna. Héraðsdómur var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum. Þá greindi á um læknisfræðileg atriði, sem um er deilt í málinu, og skilaði annar þeirra séráliti.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að Anna Þuríður hafi haft sýkingu í baki 2. desember 1997. Ekkert samband sé milli ástands hennar á þeim tíma og sýkingar þeirrar, sem greinst hafi í mars 1998. Því hafi engin yfirsjón orðið af hálfu starfsmanna hans, sem leitt geti til þess að sönnunarbyrði verði felld á hann í máli þessu.
Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði aflað frekari gagna um þá upphleðslu í baki Önnu Þuríðar, sem fram kom við rannsókn í desember 1997. Sýkingin, sem greindist og var upprætt í mars 1998, gæti hafa verið blóðborin og myndast mjög hratt, en það yrði ekki talið sannað. Margt benti einnig til þess að um hafi verið að ræða sýkingu, sem sennilega hefði mátt sjá í desember 1997, hefði verið gripið til viðeigandi rannsókna. Sönnunarbyrði um að svo hafi ekki verið var lögð á áfrýjanda, þar sem eðlileg viðbrögð í desember 1997 hefðu að líkindum leitt til þess að betri vitneskja lægi fyrir um upphleðsluna og hvort þar hafi verið um sýkingu að ræða. Þar sem sú sönnun hafi ekki tekist yrði við það að miða að sýkinguna hefði mátt uppræta þegar í desember 1997. Áfrýjandi hefur ekki leitað mats dómkvaddra manna eða lagt fram önnur gögn til þess að hnekkja þessari niðurstöðu héraðsdóms. Eru því ekki efni til annars en að staðfesta hana.
Með málsókn þessari hefur verið neytt heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita að svo stöddu dóms eingöngu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu áfrýjanda. Ekkert læknisfræðilegt mat á örorku Önnu Þuríðar fór fram utan mats læknis Tryggingastofnunar ríkisins 5. mars 2001 vegna greiðslna úr sjúklingatryggingu, sem lýst er í héraðsdómi. Með því mati hafa stefndu leitt nægar líkur að því að Anna Þuríður hafi orðið fyrir líkamstjóni, sem áfrýjandi geti verið skaðabótaskyldur fyrir. Stendur fyrrgreint lagaákvæði því ekki í vegi að taka megi til greina kröfu stefndu, en með því er þá aðeins leyst úr um skaðabótaskyldu án þess að neinu sé slegið föstu um í hvaða mæli Anna Þuríður kunni að hafa orðið fyrir tjóni.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennd er skaðabótaskylda áfrýjanda, íslenska ríkisins, vegna líkamstjóns, sem Anna Þuríður Georgsdóttir hlaut sökum meinsemdar í baki, sem starfsmönnum Landspítalans fyrir mistök yfirsást að greina og veita meðferð við í framhaldi af rannsókn, sem þar var gerð 2. desember 1997.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefndu, Guðrúnu Ólafíu Haraldsdóttur, Ólöfu Fjólu Haraldsdóttur og Stefáni Má Haraldssyni, hverju fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2005.
Mál
þetta höfðaði Anna Þuríður Georgsdóttir, kt. 240949-7769, Kötlufelli 9,
Reykjavík, með stefnu birtri 8. mars 2004 á hendur íslenska ríkinu, kt.
550169-2829, en heilbrigðisráðherra er stefnt fyrir þess hönd. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð
18. mars sl.
Stefnandi
krefst viðurkenningar á: „...
bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í kjölfar sýkingar í
baki sem starfsfólki Landspítala fyrir mistök yfirsást að greina og meðhöndla
samkvæmt upplýsingum sem fram komu í niðurstöðum beinaskanns sem framkvæmt var
á Landspítalanum þann 2. desember 1997.”
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi
krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Í stefnu er lýst langri sögu
heilsufarskvilla sem angrað hafi stefnanda.
Segir að hún hafi frá unga aldri þjáðst af bakverkjum. Bakverkir þessir hafi ágerst verulega eftir
bílslys í september 1991.
Í nóvember 1995 var framkvæmd
hryggspengingaraðgerð. Í skjölum
málsins kemur fram að stefnandi féll illa tvívegis á árinu 1996. Ekki er ástæða til að rekja þau atvik eða
viðbrögð við þeim, en stefndi var skoðuð á göngudeild nokkrum sinnum vegna
bakverkja eftir þetta.
Í desember 1997 leitaði
stefnandi til læknis vegna bakverkja, fyrst til heimilislæknis. Greindist blóðskortur og var stefnandi lögð
inn á Sjúkrahús Reykjavíkur þann 3. desember.
Daginn áður, 2. desember 1997,
var framkvæmt beinaskann á stefnanda á Landspítala. Í umsögn um þá rannsókn segir:
"Upphleðsla er svo
fókalt verulega aukin vinstra megin á mótum L5 og Sl og þó sérstaklega á
sacro-iliacamótunum vinstra megin. Hvort tveggja er þetta mjög áberandi í
tómógrafíunni, og sést þar að efra svæðið svarar til bogans á L5, og raunar
sést einnig verulega aukin upphleðsla í liðbolnum á L5. Neðra svæðið vinstra
megin er rétt lateralt við þann stað þar sem málmpinni gengur inn í Sl.
ÁLYKTUN: Inflammation neðst í lumbalhrygg (L5) og á
sacro-iliacamótunum. Sacro-iliitis? Osteomyelitis? Ekki beint líkt því sem um
brot sé að ræða og fullmikið til að skýrast sem avulsion."
Síðar
svöruðu sérfræðingur og yfireðlisfræðingur Ísótópastofu Landspítalans
fyrirspurn Landlæknis varðandi rannsóknina.
Í niðurlagi bréfs þeirra, sem dagsett er 10. mars 2000, segir að
rannsóknin hafi þótt gefa grun um bólgusjúkdóm, en að ekki hefði verið hægt að
útiloka að eingöngu væri um að ræða brot.
Halldór
Jónsson jr., bæklunarlæknir, skoðaði myndirnar sjálfur 09.12.1997, þegar hann
hitti stefnanda á göngudeild og taldi ekki ástæðu til aðgerða. Í bréfi Halldórs til Landlæknis segir um innlögn stefnanda og
aðgerðina 9. mars 1998 að þar hafi verið um blóðborna sýkingu að ræða sem beri
yfirleitt mjög brátt að. Kveðst hann
telja að ekkert samband sé á milli þeirrar sýkingar og upphleðslunnar sem sást
á beinaskanninu í desember.
Þremur
mánuðum síðar, í byrjun mars 1998, leitaði stefnandi aftur til heimilislæknis
síns vegna roðasvæðis yfir öri á bakinu. Setti hann stefnanda á
pensillínmeðferð en þrátt fyrir það jókst roðinn sem varð til þess að hún var
lögð inn á lyflækningadeild Landspítala þann 6. mars. Voru þá járn og spengingartæki tekin, í aðgerð sem Halldór
Jónsson framkvæmdi 10.03.1998.
Í
aðgerðarlýsingu segir að sjúkdómsgreining sé „Infection and inflammatory
reaction due to internal fixation device”.
Þar við er skráð sem athugasemd „Djúp sýking í kringum bakspengingu og á
beintökustað”: Síðan segir: „Var nú innlögð akut vegna hita og
bakverkja. Við skoðun kom í ljós vægur roði yfir aðgerðaröri og fluctuation
undir húð. CT sýndi mikinn abscess
subcutant en ekki í kringum spengingartæki.
Venjuleg rtg.mynd sýndi ekkert
los á skrúfum. Hér virðist vera um
haematogen-sýkingu að ræða þar sem hún er búin að vera einkennalaus í allan
þennan tíma og spöngin hefur gróið alveg eðlilega. Vegna þessa er ástæða til aðgerðar.”
Um
aðgerðina eru gerðar þessar athugasemdir í lýsingunni: „Um leið og skorið er í húð spýtist út mjög
gruggugur vökvi en ekki gröftur. Komið
er niður á cavitet sem liggur subcutant og opnast niður á beintökustað. Gífurlegt slím er í köntum þessarar
holu. Fascian virðist í fyrstu vera
alveg heil en við nánari skoðun kemur í ljós agnarlítið gat vinstra megin við
miðlínu sem opnast hefur niður í málm.
Auk þess er gat frá beintökustaðnum inn á tækið. Vegna þessa er einnig opnað í gegnum fasciu
beggja vegna. Mikill slímkenndur vefur
er í kringum tækið vinstra megin. Það
er fjarlægt svo og allur slímvefur.
Hægra megin er ekkert slím en hins vegar er málmlitun í mjúkvefjum að
ofanverðu og þar kemur í ljós að skrúfan er brotin. Hún næst þó auðveldlega út.
Tekin eru strok og vefjasýni til ræktunar. Aðgerðarsvæðið er skafið mjög vel og síðan skolað með
Gentamycin-lausn. ... “
Með
bréfi 15. júlí 1998 kvartaði stefnandi til Landlæknisembættisins þar sem hún
taldi athafnaleysi lækna stefnda hafa verið orsök þess að veikindi hennar urðu
jafn alvarleg og raun bar vitni og að það hefði mátt koma í veg fyrir þau.
Landlæknisembættið
komst að því í áliti sínu 7. apríl 2000 að ekki væri annað að sjá en að
eðlilega hafi verið staðið að málum hvað varðar læknismeðferð þá sem stefnandi
hlaut. Nánar segir í niðurstöðum
embættisins:
„Einkum hefur verið athugað
hvort Halldór Jónsson hafi fylgt eðlilega eftir svari við beinaskanni, sem hann
fékk gert hjá Þuríði þann 02.12.1997.
Læknirinn fékk beinaskannið gert einkum í þeim tilgangi að athuga hvort
um brot væri að ræða í kjölfar byltu, en ekkert benti til þess. Hann skoðaði sjálfur beinaskannið og taldi
ekki ástæðu til aðgerða, þrátt fyrir að á svari eðlisfræðings sé rætt um
hugsanlega sýkingu í beini. Konan hlaut
vissulega sýkingu í kringum spengingarjárnin, en engin sýking reyndist vera í
beini, en sýking aðlægt spengingarjárninu.
Tekið skal fram að beinaskann er ekki sértæk rannsókn og því erfitt að
slá föstu um hvers konar meinsemd er að ræða í beinum þar sem óeðlileg
upphleðsla á sér stað. Halldór Jónsson
taldi ekki klínískan grun um sýkingu í beini og við aðgerðina kom í ljós að svo
var ekki. Mat hans reyndist því
rétt. Beinaskann var skoðað á
skrifstofu embættisins og styður það álit Halldórs Jónssonar. Líklegast er að konan hafi haft blóðborna
sýkingu, sem getur breiðst út mjög ört og valdið mikilli ígerð í
mjúkvefjum. Halldór Jónsson taldi í
ekki ástæðu til að fylgja málinu sérstaklega eftir með tilliti til
beinaskannsins. Tekið skal fram að sökk
var eðlilegt á þessum tíma, svo og hvít blóðkorn. Ekki var unnt að gera segulómun á svæðinu vegna
beinfestingartækjanna, sem annars hefði verið möguleiki á að gera.”
Stefnandi
sætti sig ekki við niðurstöður Landlæknis.
Sendi lögmaður hennar bréf til Landspítala-háskólasjúkrahúss 6. október
2000. Í bréfinu var krafist skaðabóta
vegna þess heilsutjóns sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir. Var byggt á þeim atriðum sem málsókn þessi
er reist á og verður lýst hér á eftir.
Bótakröfu
stefnanda var hafnað. Var það gert með
bréfi ríkislögmanns 4. janúar 2001.
Vegna
bótaréttar úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr.117/1993 gekkst stefnandi
undir örorkumat hjá læknum Tryggingastofnunar ríkisins. Í niðurstöðum matsins, dagsettu 5. mars
2001, segir m.a.:
„...á sama tíma hafði verið
tekið ísótópaskann af baki vegna vaxandi verkja í mjóbaki, niðurstaða þeirrar
rannsóknar var að grunur væri um beinsýkingu, Halldór Jónsson taldi þó svo ekki
vera. Um það bil rúmum þremur mánuðum síðar eða í byrjun mars 1998 fann hún
roðasvæði á bakinu og hiti mældist 37,8° þetta jókst og hún var lögð inn á
Landspítala þar sem kom í ljós graftarkýli aftan við hryggjartinda í mjúkvef en
ekki í beini. Þetta var tæmt út og spúlað og hún varð betri og hitalaus. Upp úr
þessu hefur hún haft stöðuga verki og eymsli í mjóbaki og hún er orðin öll illa
haldin af verkjum um allan skrokkinn.
Niðurstaða:
Ljóst er að fyrir umrædda aðgerð 1995 var Þuríður illan haldin af verkjum og
óvinnufær, þannig er hún fyrir umrædda aðgerð mjög illa farin og með mikinn
forskaða þannig að líðan hennar í dag verður að metast út frá því og meta
verður því versnun þá sem hún kvartar um núna vegna afleiðinga þeirra atburða.
Fyrir umræddar aðgerðir var hún illa haldin af verkjum í baki, hálsi og komin
með verki og eymsli út um mest allan líkama. Telja verður þó að sýkingin hafi
orsakað þó nokkra versnun þó ekki sé alveg með fullu hægt að sanna að hún sé
vegna aðgerðarinnar þar sem hún kemur ekki fram fyrr en rúmum tveimur árum
eftir aðgerðina. Telja verður þó rétt að Anna Þuríður njóti vafans. Með tilliti
til þessa þykir nú rétt að meta þá varanlegu örorku sem hún telst hafa hlotið
vegna framangreindra atburða. Við matið er stuðst við að henni hafi versnað í
baki og hálsi og einnig að þreyta hafi aukist og einnig er tekið tillit til
þess að blóðskortur sá er uppgötvaðist hjá henni hafi verið tengt notkun
gigtarlyfja sem hafi valdið blæðingu í þörmum.
Tekið er mið af því að gigtarlyfjanotkun hafi verið meiri vegna mikilla
verkja og er því tekið tillit til þess í mati þessu. Önnur einkenni sem hún
kvartar um svo sem aukinn höfuðverkur, suð í eyrum og cataract er vart hægt að
telja sem afleiðingu þessara atburða.
Sjúkdómsgreining(ar):
M54.8
Niðurstaða: Varanleg örorka
telst hæfilega metin 20% frá 03.12.97."
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi
byggir kröfur sínar a.v. á því að starfsmenn Landspítala hafi gert mistök við
greiningu og meðferð í kjölfar niðurstöðu þess beinaskanns sem hún gekkst undir
á Landspítala þann 2. desember 1997. Í
niðurstöðunum hafi komið fram vísbendingar um bólgusjúkdóm. Þá hafi verið framkvæmd svokölluð ísótópa-
eða sneiðmyndarannsókn. Þessar
rannsóknir hafi gefið vísbendingar um að eitthvað mikið amaði að í mjóbaki
stefnanda. Bendir stefnandi á að í
bréfi Guðmundar Jóns Elíassonar og Eysteins Péturssonar til landlæknis, dags.
10. mars 2000, segi að rannsóknin hafi vakið grun um bólgusjúkdóm (sacroillitis
og/eða osteomyelitis), en að ekki væri hægt að útiloka að eingöngu væri um að
ræða brot.
Stefnandi
telur að niðurstaðan hefði með réttu átt að kalla á frekari rannsóknir og
viðbrögð. Niðurstaðan hafi ekki verið
kynnt stefnanda eða heimilislækni hennar.
Á sama tíma hafi stefnandi verið í viðamiklum rannsóknum eftir
bráðainnlögn á Sjúkrahús Reykjavíkur vegna blóðskorts. Megi ætla að hefðu niðurstöður
beinaskannsins borist til þeirra sem að þeirri rannsókn stóðu, hefði verið unnt
að bregðast við sýkingunni í tíma.
Stefnandi
telur að þó að Halldór Jónsson hafi réttilega útilokað að um væri að ræða
sýkingu í beini, hafi verið aðrar ástæður fyrir mikilli upphleðslu og þær hafi
ekki verið athugaðar. Meinsemdin hafi
verið til staðar. Ekki hafi mátt láta
staðar numið með því að útiloka sýkingu í beinum, heldu hafi átt að framkvæma
frekari rannsóknir til að komast að orsökum upphleðslunnar. Þó útilokað væri að sýkingin tengdist
sérsviði Halldórs Jónssonar hefði hann átt að vísa vandamálum stefnanda áfram
til sérfræðinga á öðrum sviðum. Sú
ákvörðun að senda stefnanda ekki í áframhaldandi rannsóknir séu mistök sem
stefndi verði að bera ábyrgð á.
Ekki
er gerð nákvæm grein fyrir líkamstjóni því sem stefnandi telur sig hafa orðið
fyrir. Eftir sýkinguna hafi ýmislegt
farið á verri veg í lífi stefnanda. Þau einkenni, sem rekja megi til sýkingar
sem vegna mistaka var ekki greind og meðhöndluð, hafi verið metin til 20%
varanlegrar örorku af tryggingalækni. Það mat telur stefnandi að staðfesti
líkamstjón, þó svo að töluleg kröfugerð hafi ekki verið sett fram.
Stefnandi
krefst viðurkenningar bótaskyldu samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr.
91/1991. Hún vísar til meginreglu íslensks
réttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna, reglunnar um
húsbóndaábyrgð.
Málsástæður stefnda.
Stefndi
kveðst byggja á því að stefnandi hafi fengið vandaða læknismeðferð. Mótmælir hann fullyrðingum um hvað hafi
falist í umræddu beinaskanni.
Stefndi
telur að ekki sé fullnægt skilyrðum bótaábyrgðar. Ekki sé orsakasamhengi milli athafna eða athafnaleysis
starfsmanna stefnda og meints tjóns stefnanda.
Þá sé heldur ekki fullnægt skilyrðum bótareglna um sök og ólögmæti.
Stefndi
telur ósannað að sýking hafi verið til staðar hjá stefnanda 2. desember
1997. Aðrar orsakir séu fyrir vanlíðan
stefnanda en þær sem byggt sé á í stefnu.
Þær orsakir séu stefnda óviðkomandi.
Telur stefndi að sýking sú sem stefnandi fékk og var greind í mars 1998
hafi verið blóðborin sýking og að hana hafi borið brátt að. Styður stefndi þetta við álit Halldórs
Jónssonar og niðurstöður Landlæknis.
Stefndi
segir að með beinaskanninu hafi verið kannað hvort stefnandi hefði
brotnað. Fyrst hafi verið tekin röntgenmynd,
en síðan beinaskann. Stefndi segir að
beinaskann sé ekki sértæk rannsókn fyrir sýkingar. Líta þurfi til fleiri atriða þegar metið er hvort sýking sé til
staðar. Telur hann að ekkert hafi bent
til sýkingar, t.d. hafi ekki verið hækkað sökk, ekki hækkun á fjölda hvítra
blóðkorna og ekki heldur langvarandi blóðleysi. Eðlilega hafi verið að greiningu stefnanda staðið. Kveðst stefndi byggja á því að sýking hafi
ekki verið til staðar í desember 1997.
Stefnandi hafi þá komið inn á sjúkrahús vegna annars
sjúkdómsástands.
Stefndi
segir að sýkingin sem fram kom í mars 1998 hafi verið mjög bráð. Járn hafi verið fjarlægð og stefnandi hafi
fengið viðeigandi meðferð. Sýkingin
hafi verið upprætt. Áframhaldandi
verkir hafi verið ótengdir þessari sýkingu.
Stefndi
bendir á að skoðun framkvæmd 18. ágúst 2001 sýni að ástand stefnanda haldi
áfram að versna þó sýking hafi aldrei verið í beini og sýking í mjúkvef hafi
verið upprætt. Þetta sýni að ástand
stefnanda nú tengist ekki umræddri sýkingu.
Forsendur og
niðurstaða.
Heimilt
er að höfða mál til viðurkenningar á bótaskyldu, án þess að jafnframt sé gerð
krafa um tiltekna peningagreiðslu.
Styðst þetta við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og skýrt fordæmi í
dómi Hæstaréttar 7. október 1999 í máli nr. 166/1999. Af öðrum dómi réttarins, í máli nr. 146/2001 (uppkveðinn 4. maí
2001), verður þó ráðið að sýna verður fram á að tjón hafi orðið, sem krafist er
viðurkenningar bótaskyldu fyrir.
Stefndi féll raunar undir rekstri málsins frá frávísunarkröfu sinni, en
nauðsynlegt er þrátt fyrir það að kanna hvort forsenda er til þess að dæma mál
þetta efnislega.
Í
áðurgreindu örorkumati eða slysamati frá 5. mars 2001 er komist að þeirri
niðurstöðu að ástand stefnanda hafi versnað vegna spengingarinnar í baki og
þeirrar sýkingar sem fram kom og var upprætt í mars 1998 Er þessi breyting til
hins verra vegna sýkingar metin til
20% örorku. Telja má ljóst að hér sé
reynt að meta þá breytingu til hins verra sem læknirinn telur að hafi orðið á
heilsu stefnanda vegna sýkingarinnar sem upp kom í spengingarsvæðið. Hins vegar
er ekki tekin afstaða til þess í örorkumatinu, að hve miklu leyti þessi örorka
stafar af töfum á greiningu sýkingarinnar Með því að byggja beinlínis á þessu
mati hefur stefnandi því ekki afmarkað
skýrt hvaða tjón það er sem hún krefst viðurkenningar bótaskyldu fyrir. Kemur ágreiningur um orsakatengsl og sönnun
fyrir tjóni þá til skoðunar er bótagrundvöllur verður kannaður.
Niðurstaða
sú sem lýst er í bréfi Ísótópastofunnar til lækna sýndi að í mjóhrygg stefnanda
var upphleðsla, en þrátt fyrir það var tekin ákvörðun um að aðhafast ekki.
Í
gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafði verulega verki eftir fall 28.
nóvember 1996. Hún hafði fengið
morfínskyld verkjalyf um tíma og sprautumeðferð. Þá hafði hún verið lögð inn á Reykjalund til endurhæfingar vegna
sama vandamáls, en án árangurs. Í
framhaldi af skoðun heimilislæknis 3. desember 1997 var stefnandi lögð inn á
lyflækningadeild vegna blóðleysis,.
Engin ákveðin skýring fannst á blóðleysinu.
Í
göngudeildarnótu 9. desember 1997 kemur fram að stefnandi hafi hríðhorast og
haft verki í baki eftir fallið ári áður.
Þá er vikið að legu stefnanda á lyflækningadeild sem var þá að ljúka og
rannsóknum á blóðleysi. Kemur fram að
magablæðing sé talin líkleg skýring. Í
nótunni kemur fram að stefnandi hafi verið í beinaskanni sem sýni engin örugg
merki um sprungumyndun í beinspengingunni.
Ekki er hér minnst á athugasemd
í svari Ísótópastofunnar sem áður er getið.
Þegar
litið er til allra þeirra upplýsinga sem lágu fyrir er stefnandi var skoðuð 9.
desember 1997 verður að telja að bregðast hefði átt við. Rétt hefði verið að framkvæma frekari
rannsóknir til að útiloka sýkingu í beini eða aðlægum mjúkvefjum á þeim stað
sem aukinni upphleðslu er lýst í beinaskanninu. Slíkt hefði mátt gera með t.d. frekari myndgreiningarrannsóknum,
blóðrannsóknum og ástungu eða sýnatöku.
Verður að leggja það læknisfræðilega mat á að viðbrögð lækna stefnda
hafi verið ófullnægjandi og frekari markvissari aðgerða hafi verið þörf
Nú
verður ekki aflað frekari gagna um þá upphleðslu sem til staðar var í desember
1997. Hugsanlegt er að sýking sú sem uppgötvaðist og upprætt var
í mars 1998 hafi verið blóðborin sýking og myndast mjög hratt. Ástand stefnanda á þessum tíma veitir
nokkrar líkur fyrir því. Þetta verður
þó ekki talið sannað. Margt bendir
einnig til þess að um sé að ræða sýkingu sem sennilega hefði mátt sjá í
desember 1997, ef gripið hefði verið til viðeigandi markvissra rannsókna, eins
og að framan er lýst. Heilsufar stefnda í desember 1997 getur einnig bent til
þess að sýking hafi verið til staðar þegar á þeim tíma. Stærð sýkingarsvæðis og
útlit eins og fram kemur í aðgerð 10.03.1998 bendir til að sýkingin hafi verið
til staðar í nokkurn tíma þó ekki verði fullyrt hversu lengi. Staðsetning
sýkingar kemur einnig heim og saman við niðurstöðu beinaskanns 02.12.1997. Má og nefna að aukin upptaka á beinaskanni
þá getur hafa verið af völdum sýkingar í aðlægum mjúkvefjum. Hvort sýkingin hafi verið blóðborin eða ekki
er þannig læknisfræðilegt álitaefni.
Að
öllu virtu verður annar hvor kosturinn ekki talinn að mun líklegri. Verður að leggja sönnunarbyrði um þetta
atriði á stefnda, þar sem eðlileg viðbrögð í desember 1997 hefðu að líkindum
leitt til þess að betri vitneskja lægi fyrir um upphleðsluna og hvort þar var
um að ræða sýkingu. Þar sem sönnun
hefur ekki tekist um að um nýsprottna sýkingu hafi verið að ræða í mars verður
að miða við að hana hefði mátt uppræta þegar í desember 1997, en telja verður
að það hafi þá verið mögulegt.
Ástandi
stefnanda er lýst í örorkumati sem unnið var 5. mars 2001 vegna
sjúklingatryggingar samkvæmt ákvæðum þágildandi laga nr. 117/1993. Mat þetta beinist ekki einvörðungu að því
sem mál þetta fjallar um. Þar er
fjallað um ástand sem rakið verður til afleiðinga þeirrar sýkingar sem fram kom
og var upprætt. Hvorki þar né í öðrum
gögnum málsins er gerð tilraun til að afmarka sérstaklega hvaða afleiðingar verði raktar til þess að
ekki var gripið til ráðstafana 9. desember 1997.
Almennt
má gera ráð fyrir því að sýking valdi því meiri skaða því lengur sem dregst að
greina hana og meðhöndla. Óvissa er um
þetta atriði, en líklegt er að talsverður skaði hljótist af svo langri bið sem
hér um ræðir. Verður einnig hér að snúa
sönnunarbyrðinni við og leggja það á stefnda að sýna fram á að afleiðingar þær
sem lýst er í örorkumatinu séu ekki afleiðing þess að dróst að uppræta umrædda
sýkingu.
Að
þessu virtu verður að fallast á kröfu stefnanda um viðurkenningu
bótaskyldu. Samkvæmt þessum úrslitum
verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 350.000
krónur. Hefur þá verið tekið tillit til
virðisaukaskatts.
Dóm
þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, og meðdómandinn Ragnar
Jónsson, bæklunarskurðlæknir. Meðdómandinn
Sigurður Heiðdal, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum, skilar
sératkvæði.
D ó m s o r ð
Viðurkennd
er bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna þess tjóns er stefnandi, Anna
Þuríður Georgsdóttir, hlaut af sýkingu við beinspengingarjárn í baki og lýst er
í framangreindu örorkumati.
Stefndi
greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.
Sératkvæði Sigurðar Heiðdal í héraðsdómsmálinu nr. 2433/2004
Ég
er sammála meirihluta dómsins fram að þeim stað í niðurstöðukafla þeirra er hefst
með orðunum Nú verður ekki aflað frekari gagna um þá upphleðslu...
Tel
ég að framhaldið ætti að hljóða svo:
Nú verður ekki aflað frekari gagna
um þá upphleðslu sem til staðar var í desember 1997. Fallast ber á það að sýking sú sem uppgötvaðist og upprætt var í
mars 1998 hafi hugsanlega verið blóðborin sýking og myndast mjög hratt. Ástand stefnanda á þessum tíma veitir
nokkrar líkur fyrir því. Þetta verður
þó ekki talið sannað. Ekki er heldur
hægt að útiloka að um sé að ræða sýkingu sem hefði mátt greina í desember 1997,
ef gripið hefði verið til viðeigandi rannsókna, eins og að framan er lýst. Má
þar nefna að aukin upptaka á beinaskanni þá getur hafa verið af völdum
sýkingar.
Á
hinn bóginn þá ræktaðist úr sýkingarstaðnum bakterían Streptococcus mitis. Hún tilheyrir svokölluðum viridans
streptococcum sem eru bakteríur sem fyrst og fremst eru til staðar í munnholi
fólks. Bakteríur þessar eru mjög vel þekktar að því að valda alvarlegum
blóðbornum sýkingum, t.d. eftir tannaðgerðir og aðrar aðgerðir í munnholi. Hin bakterían sem ræktaðist er
Staphylococcus coagulasa neikvæður. Það er baktería sem lifir á húðinni og
ræktast oft með þegar um er að ræða sýkingar í húð og mjúkvefjum. Er hún þá
talin vera „mengun” eða ómarktæk ef annar líklegri orsakavaldur finnst, sem í
þessu tilfelli er Streptococcus mitis.
Hinsvegar ber að nefna það einnig að Staphylococcus coagulasa neikvæður
getur sjálfur valdið sýkingum. Er þá oftast um að ræða einkennalitlar og
“mallandi” sýkingar sem getur tekið talsverðan tíma að greina. Það er því vel
hugsanlegt að þessi baktería hafi verið að valda sýkingu sem þegar var til
staðar og kom þá fram á beinaskanninu 3. desember 1997. En hafi svo verið, væri
ósennilegt að Streptococcus mitis ræktaðist
einnig.
Ástandi stefnanda er lýst í örorkumati sem unnið var 5. mars 2001 vegna sjúklingatryggingar samkvæmt ákvæðum þágildandi laga nr. 117/1993. Mat þetta beinist ekki einvörðungu að því sem mál þetta fjallar um. Þar er fjallað um ástand sem rakið verður til afleiðinga spengingarinnar og þeirrar sýkingar sem fram kom og var upprætt. Hvorki þar né í öðrum gögnum málsins er gerð tilraun til að afmarka sérstaklega hvaða afleiðingar megi rekja til þess að ekki var gripið til ráðstafana 9. desember 1997. Það athugast í þessu sambandi að örorkukmatið byggir að litlu leyti á hlutlægum einkennum. Er því lítil stoð í matinu er kannað er hvort og að hve miklu leyti ástand stefnanda er lakara en ella vegna seinkunar á viðbrögðum.
Að
öllu virtu verður að telja mun líklegra að sýkingin sem upprætt var í mars hafi
verið bráð, blóðborin sýking. Verður
vanrækslu lækna stefnda ekki um hana kennt.
Verður því að hafna kröfum stefnanda um viðurkenningu bótaskyldu og
sýkna stefnda af kröfum hans.