Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Mánudaginn 25. febrúar 2013. |
|
Nr. 118/2013.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að tilgreindir einstaklingar yrðu leiddir sem vitni við aðalmeðferð sakamáls á hendur X og Y. Þar sem hvorki var talið að G hefði fært viðhlítandi rök fyrir því að framburður vitnanna gæti haft þýðingu við úrlausn um sekt hans eða sýknu né við ákvörðun refsingar var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2013, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að tilgreindir einstaklingar yrðu leiddir sem vitni við aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að heimilað verði að leiða sem vitni við aðalmeðferð málsins nánar tilgreinda einstaklinga. Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir eitt vitnanna að hafa með sér til sýningar fyrir dómi tiltekin gögn.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Krafa varnaraðila er meðal annars studd þeim rökum að framburður umræddra vitna getið verið til stuðnings þeirri málsástæðu að almannahagsmunir hafi réttlætt það að ætlaðri þagnarskyldu hans yrði vikið til hliðar. Úr því að varnaraðili taldi að viðskipti þau sem vísað er til í ákæru hafi falið í sér refsiverða háttsemi voru eðlileg viðbrögð af hans hálfu að kæra þá háttsemi til viðeigandi stjórnvalds sem hann og gerði. Slíkur grunur gat hins vegar ekki réttlætt að varnaraðili beitti sér fyrir að trúnaðarupplýsingum um viðskiptin yrði komið á framfæri við fjölmiðil eins og honum er gefið af sök. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar hefur varnaraðili hvorki fært viðhlítandi rök fyrir því að framburður vitnanna geti haft þýðingu við úrlausn um sekt hans eða sýknu í máli þessu né heldur við ákvörðun refsingar ef á reyndi. Verður úrskurðurinn því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2013.
Með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 19. júlí 2012, er ákærðu gefið að sök brot gegn þagnarskyldu framin í Reykjavík 23. febrúar 2012. Eru brotin talin varða við 1. mgr. 13. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 138. gr. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar ákærða X, en við 1. mgr. 58. gr., sbr. 22. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, að því er varðar ákærða Y.
Í þinghaldi 14. desember sl. lagði verjandi ákærða X fram greinargerð í málinu, þar sem kemur fram að ákærði óski eftir því að nafngreindir einstaklingar verði leiddir fyrir dóminn sem vitni, þeirra á meðal A, fyrrverandi starfsmaður B hf., C, fyrrverandi bankastjóri, D og E. Þá sé með vísan til 5. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 gerð krafa um að dómari leggi fyrir síðastgreint vitni, með kvaðningu samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að hafa með sér tilgreind gögn til sýningar fyrir dómi.
Í þinghaldi 28. janúar sl. mótmælti sækjandi því að framangreindir einstaklingar kæmu fyrir dóminn til skýrslugjafar. Jafnframt var því mótmælt að lagt yrði fyrir E að hafa með sér þau gögn sem tilgreind eru í greinargerð ákærða X, komi hún fyrir dóminn sem vitni.
Verjandi ákærða Y tekur ekki afstöðu til álitaefnisins.
Að ósk verjanda ákærða X var málinu frestað til flutnings um kröfu hans. Fór málflutningur fram þriðjudaginn 12. febrúar sl. og var krafa verjandans tekin til úrskurðar í því þinghaldi. Í málflutningi verjandans kom fram að fallið væri frá kröfu, sem jafnframt var höfð uppi í greinargerð ákærða, um að leiða F, fyrrverandi starfsmann B hf., sem vitni í málinu.
I.
Verjandi ákærða X byggir kröfur sínar á því að ákærði telji nauðsynlegt að fá vitnin fyrir dóm í því skyni að upplýsa málið og aðdraganda þess. Vitnin geti borið um hvort tilgreind gögn, sem lögð hafa verið fram í málinu, stafi úr bókhaldi B, svo sem greinir í ákæru. Einnig geti þau upplýst um atriði er varði viðskipti sem kemur fram í ákæru að hafi átt sér stað milli einkahlutafélagsins G og B hf.
Þá sé skýrslum vitnanna ætlað að sýna fram á að almannahagsmunir hafi vikið þagnarskyldu ákærða til hliðar og telji ákærði að sýkna beri hann af kröfum ákæruvalds af þeirri ástæðu. Ákærða hafi grunað að refsiverð háttsemi hafi verið framin við millifærslu fjár frá B hf. til G ehf., sem geti varðað við 1. mgr. 128. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga. Hafi hann talið upplýsingar þar um eiga fullt erindi við almenning, enda ríkir almannahagsmunir af því að upplýst sé um slíka háttsemi. Loks geti framburður vitnanna haft áhrif á ákvörðun refsingar ákærða, komi til sakfellingar í máli hans.
Vísað er til sömu sjónarmiða að því er varðar kröfu ákærða um að dómari leggi fyrir E að hafa með sér gögn sem tilgreind eru í greinargerð, komi hún fyrir dóminn sem vitni.
Verjandi vísar jafnframt til grundvallarreglna sakamálaréttarfars um réttláta málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Er einkum vísað til d-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Þá er vísað til jafnræðisreglunnar og meginreglunnar um að leiða skuli hið sanna í ljós, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Einnig er vitnað til 110. gr. laga nr. 88/2008, og athugasemda við það ákvæði, þar sem m.a. kemur fram að ákærði eigi ótvíræðan rétt til að afla sönnunargagna á eigin spýtur. Loks vísar verjandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 259/1995, 422/2010 og 63/2013.
II.
Sækjandi vísar til þess að verjandi hafi á fyrri stigum málsins krafist þess að dómari legði fyrir sækjanda að afla tilgreindra gagna til framlagningar í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands uppkveðinn 9. nóvember 2012 í málinu nr. 670/2012. Hafi þar verið um að ræða sömu gögn og nú sé krafist að dómari leggi fyrir E að hafa með sér, komi hún fyrir dóminn sem vitni. Fyrir liggi að af hálfu verjanda sé fyrirhugað að spyrja vitnin sem um ræðir um atriði sem varða þessi tilteknu gögn. Þá bendir sækjandi á að fyrirhugað sé að við aðalmeðferð málsins beri vitni H og I, starfsmenn B, sem geti upplýst um hvort gögn sem verjandi hefur tilgreint stafi úr bókhaldi bankans.
Sækjandi vísar enn fremur til þess að þeim grundvallarreglum sakamálaréttarfars sem verjandi vitnar til sé ætlað að tryggja sakborningi réttláta málsmeðferð vegna þeirra saka sem hann er borinn. Sakarefni málsins sé meint brot ákærða gegn þagnarskyldu, svo sem í ákæru greinir. Umbeðnar vitnaleiðslur og gagnaöflun lúti hins vegar að atriðum sem ekki varði sakarefni málsins, heldur miði að því að upplýsa um viðskipti G ehf. og B hf. Beri dómara að synja um slíka sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.
III.
Af hálfu ákærða X er þess krafist að A, fyrrverandi framkvæmdastjóri B hf., C, fyrrverandi bankastjóri bankans, D og E, fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins G, verði leidd sem vitni við aðalmeðferð málsins. Jafnframt er þess krafist að dómari leggi fyrir síðastgreint vitni að hafa með sér tilgreind gögn til sýningar fyrir dóminum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. nóvember 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 9. sama mánaðar í málinu nr. 670/2012, var hafnað kröfu ákærða um að héraðsdómari legði fyrir sóknaraðila að afla upplýsinga um gögn og nánar tiltekin viðskipti B hf. við G ehf. Meðal þeirra voru þau gögn sem ákærði krefst nú að dómari hlutist til um að verði aðgengileg við aðalmeðferð málsins Kemur fram í dómi Hæstaréttar að varnaraðili hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að umrædd gögn og upplýsingar geti haft þýðingu við málsvörn hans.
Af málflutningi verjanda ákærða verður ráðið að fyrirhugað er að leiða framangreind vitni í því skyni að upplýsa um tiltekin viðskipti B hf. við G ehf. Kemur jafnframt fram í gögnum málsins að ákærði hefur kært þrjá þessara einstaklinga til Embættis sérstaks saksóknara, vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sem hann telur að hafi verið framin í tengslum við þau viðskipti. Sönnunarfærsla sem fyrirhuguð er af hálfu ákærða lýtur ekki að sakarefni málsins, sem er sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru. Er sú sönnunarfærsla því tilgangslaus að mati dómsins. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, ber að hafna kröfu ákærða um að leiða A, C, D og E sem vitni við aðalmeðferð málsins. Það leiðir af niðurstöðu dómsins að krafa ákærða um að tiltekin gögn verði gerð aðgengileg við aðalmeðferðina kemur ekki til skoðunar.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu ákærða, X, um að A, C, D og E, verði leidd sem vitni við aðalmeðferð málsins, er hafnað.