Hæstiréttur íslands

Mál nr. 200/2013


Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013.

Nr. 200/2013.

Björgvin Guðmundsson

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

gegn

Pétri Gunnlaugssyni

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

og gagnsök

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Miskabætur.

P höfðaði mál á hendur B, ritstjóra Viðskiptablaðsins, og krafðist m.a. ómerkingar tiltekinna ummæla sem birst höfðu um hann í blaðinu og á vefsíðu þess og vörðuðu háttsemi hans í útvarpsþætti í garð nafngreinds manns. Er í ljós kom að ummælin voru röng var afsökunarbeiðni og leiðrétting birt í Viðskiptablaðinu og á vefsíðu þess. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að hin röngu ummæli hefðu verið til þess fallin að valda P álitshnekki, ekki síst í því samhengi sem þau hefðu verið sett fram, og hefðu þau því verið ærumeiðandi fyrir hann. Þá taldi Hæstiréttur að leiðrétting ummælanna og afsökunarbeiðnin firrtu B ekki bótaábyrgð eins og atvikum var háttað. Engin haldbær skýring hefði verið gefin á því af hverju réttmæti frásagnarinnar þeirrar sem ummælin voru byggð á hefði ekki verið kannað áður en hún var birt, auk þess sem þau yrðu ekki réttlætt með því að um hafi verið að ræða eðlilegt framlag til opinberrar umræðu um þjóðfélagsmál. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna, en ekki var fallist á kröfu P um að B yrði gert að sæta refsingu vegna þeirra. Þá var B gert að greiða P 200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson. 

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2013. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. júní 2013. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, þó þannig að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2012 til greiðsludags. Ennfremur krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjanda verði dæmd refsing og hann greiði sér 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Loks gerir hann kröfu um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Mál þetta er sprottið af ummælum um framkomu gagnáfrýjanda í garð Björns Vals Gíslasonar, þáverandi alþingismanns, í þætti á Útvarpi Sögu 11. apríl 2011 sem birtust í Viðskiptablaðinu 12. maí sama ár og á vefsíðu blaðsins þremur dögum síðar. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla bar aðaláfrýjandi ábyrgð á ummælunum sem ritstjóri blaðsins.

Í hinum áfrýjaða dómi var því slegið föstu að áðurgreind umfjöllun um gagnáfrýjanda hafi verið ósönn og ekki átt við nein rök að styðjast. Er fallist á með héraðsdómi að þessi röngu ummæli sem gagnáfrýjandi krefst að verði ómerkt hafi verið til þess fallin að valda honum álitshnekki, ekki síst í því samhengi sem þau voru sett fram, og þar af leiðandi verið ærumeiðandi fyrir hann samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar leyst er úr kröfu gagnáfrýjanda um miskabætur honum til handa vegna ummælanna, sem birt voru í Viðskiptablaðinu og á vefsíðu blaðsins, verður að líta til þess að samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafa fjölmiðlar í lýðræðisþjóðfélagi eins og því íslenska víðtækt svigrúm til að fjalla um stjórnmál og önnur þjóðfélagsleg málefni. Að sama skapi verður að gera þá kröfu til þeirra sem þar starfa að þeir kanni eftir því sem kostur er hvort frásögn af athöfnum manna eða athafnaleysi, sem kann að vega að æru þeirra, eigi við rök að styðjast áður en slík frásögn er birt. Þá hefur verið talið eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 383/2012 að leiðrétting rangra ummæla og afsökunarbeiðni þess, sem þau viðhafði eða á þeim bar ábyrgð, eigi eftir atvikum að hafa áhrif á bótaábyrgð þess sem í hlut á.

Fyrir liggur að aðaláfrýjandi hlutaðist til um að áðurgreind ummæli voru leiðrétt í þeim fjölmiðlum þar sem þau höfðu birst, auk þess sem gagnáfrýjandi var þar beðinn afsökunar. Á hinn bóginn heldur aðaláfrýjandi því fram að frásögnin af framkomu gagnáfrýjanda í útvarpsþættinum í garð Björns Vals Gíslasonar hafi verið höfð eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem hafi sagt hana komna frá Birni Val. Aðaláfrýjanda og öðrum starfsmönnum Viðskiptablaðsins gafst nægt ráðrúm til að kanna réttmæti frásagnarinnar áður en hún var birt með því að bera hana undir Björn Val eða aðra þá sem viðstaddir höfðu verið þegar þátturinn var sendur út. Engin haldbær skýring hefur verið gefin á því af hálfu aðaláfrýjanda hvers vegna það var ekki gert. Eins og ummælin voru sett fram verða þau heldur ekki réttlætt með því að um hafi verið að ræða eðlilegt framlag til opinberrar umræðu um þjóðfélagsmál. Verður því ekki talið að leiðrétting á ummælunum og afsökunarbeiðni firri aðaláfrýjanda bótaábyrgð eins og atvikum var háttað.

Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að frátalinni fjárhæð miskabóta og ákvörðun um málskostnað. Eru miskabætur til gagnáfrýjanda úr hendi aðaláfrýjanda hæfilega ákveðnar 200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði segir.

Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað, þó þannig að aðaláfrýjandi, Björgvin Guðmundsson, greiði gagnáfrýjanda, Pétri Gunnlaugssyni, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2012 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2012.

             Mál þetta, sem dómtekið var 23. október sl.,var höfðað 8. nóvember 2011.

             Stefnandi er Pétur Gunnlaugsson, Efstaleiti 12, Reykjavík.

             Stefndu eru Björgvin Guðmundsson, Ásvallagötu 4, Reykjavík og Myllusetur ehf., Nóatúni 17, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.       að stefndi, Björgvin Guðmundsson, verði dæmdir til að þola ómerkingu eftirfarandi ummæla:

a)       Ummæli á bls. 20 í Viðskiptablaðinu, 19. tbl. 18. árgangi: ,,Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val“

b)       Ummæli á heimasíðu Viðskiptablaðsins, 15. maí 2011 á vefslóðinni http://www.vb.is/frett/63413/ þar sem segir annars vegar: ,,Lenti í handalögmálum í útvarpsviðtali“ og hins vegar: ,,Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val“

2.       að stefndi, Björgvin Guðmundsson, verði látinn sæta ýtrustu refsingu, sem lög leyfa, fyrir að hafa, með ofangreindum ummælum og útbreiðslu þeirra, brotið gegn 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum.

3.       að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum sem og á vefsvæðunum www.eyjan.is, www.pressan.is og www.mbl.is , og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

4.       að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

5.       Að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum málskostnað að mati dómsins en málskostnaðaryfirlit verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur. Auk þess er krafist að virðisaukaskattur leggist á málflutningsþóknun þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

             Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda.

             Þess er krafist að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu.

Málavextir

             Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann sé lögmaður og stjórnarformaður útvarpsstöðvarinnar Útvarp Saga. Þá hafi hann nýlokið setu í stjórnlagaráði en hafði áður verið kjörinn á stjórnlagaþing. Stefndi Björgvin sé ritstjóri Viðskiptablaðsins en blaðið komi út vikulega en birti einnig efni á heimasíðu sinni www.vb.is. Hinn 12. maí síðastliðinn hafi birst umfjöllun í dálki sem kallist ,,Huginn og Muninn“ en dálkurinn teljist hluti af ritstjóraefni Viðskiptablaðsins. Í umræddum dálki hafi verið umfjöllun um stefnanda á þann veg að hann hefði haft Björn Val Gíslason alþingismann í viðtali á Útvarpi Sögu og hafi þar verið hart tekist á. Segi síðan í umræddri umfjöllun:

             Auðvitað var hart tekist á eins og venja er þegar menn með sterkar skoðanir mætast. Allt var samt kurteislegt í upphafi – þangað til mál málanna í pólitíkinni voru rædd. Þá hitnaði í kolunum og gaf Björn Valur í skyn að Pétur væri handbendi Davíðs Oddssonar en ekki fulltrúi sinna eigin skoðana. Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val. Það snýr enginn Björn Val auðveldlega niður og lét hann þau orð falla í kjölfarið að Pétur hefði nú ekki einu sinni komist upp á dekk þegar hann var skipstjóri. Sjómenn skynjuðu niðurlæginguna.

             Umrædd umfjöllun hafi einnig verið birt á vefsíðu Viðskiptablaðsins www.vb.is hinn 15. maí. Hafi umfjöllunin orðið til þess að aðrir vefmiðlar á Íslandi birtu fréttir vegna þess, þar á meðal DV.is, Eyjan.is og Pressan.is sem séu meðal vinsælustu miðla á Íslandi. Hvorki stefnandi né Björn Valur Gíslason þingmaður hafi kannast við lýsingar í umræddri umfjöllun, sem fullyrt var að væru sannar, enda væri enginn fótur fyrir þeirri atburðarás. 

             Hinn 16. maí hafi útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir, haft samband við stefnda Björgvin í útvarpsþætti sínum. Þar hafi hún spurt stefnda Björgvin út í þá umfjöllun sem hefði átt sér stað hjá Viðskiptablaðinu. Í samtalinu hafi eftirfarandi m.a. komið fram:

Arnþrúður Karlsdóttir (AK): Sæll, þetta er Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu.

Stefndi Björgvin Guðmundsson (BG): Sæl vertu.

AK: Heyrðu, ég er að velta fyrir mér þessari lygafrétt sem þið voruð að birta á vefnum ykkar í gær.

BG: Já.

AK: Af hverju gerðuð þið þetta?

BG: Er ég í útsendingu?

AK: Já.

BG: Ég ætla ekki að tjá mig um það núna í beinni útsendingu en hérna ...

AK: Af hverju gerðuð þið þetta, Björgvin.

BG: En við munum væntanlega bara gera grein fyrir því í blaðinu, Arnþrúður.

AK: En þú veist að þið voruð að ljúga?

BG: Já, mér sýnist það.

             Síðar, eða hinn 19. maí, hafi birst umfjöllun í sama dálki í Viðskiptiblaðinu þar sem sagði:

Huginn og Muninn fóru rangt með þegar atburðarás í útvarpsviðtali Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu við Björn Val Gíslason var lýst hér á þessum stað í síðustu viku. Þótt gaman sé að færa í stílinn á þessum vettvangi leggja Huginn og Muninn sig fram við að segja sannleikann.

Rétt var að Pétur og Björn tókust á enda menn með sterkar skoðanir. Rangt var að Pétur hefði hent öllu af borði sínu af bræði og rifið í Björn Val í beinni útsendingu. Er Pétur beðinn afsökunar á þessu og vona Huginn og Muninn að þeir komist úr skammarkróki hins skelegga útvarpsstjóra, Arnþrúðar Karlsdóttur, sem fyrst.

             Í framhaldinu hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda Björgvini bréf, dags. 24. ágúst 2011, þar sem röksemdir stefnanda hafi verið kynntar og honum boðið að málið yrði látið falla niður með greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna ásamt lögmannskostnaði en stefnandi hafi gert áskilnað um frekari kröfur kæmi til meðferðar málsins fyrir dómstólum. Lögmanni stefnanda hafi síðan borist bréf hinn 15. september 2011, þar sem stefndi Björgvin hafnaði umræddum miskabótum og rökstyðji birtingu umfjöllunarinnar með þeim hætti að hér sé átt við dálk sem ekki sé hefðbundinn fréttadálkur heldur skoðanadálkur sem skrifaður sé í tilteknum stíl. Þar bendi stefndi einnig á umrædda leiðréttingu og hafi boðið  stefnanda að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í blaðinu óski hann eftir því í formi greinar eða viðtals.

             Stefnandi geti ekki sætt sig við þessi málalok, enda telji hann að æra hans hafi verið meidd til frambúðar með umræddri umfjöllun. Sé honum því nauðugur sá einn kostur að leita dóms vegna umræddra ummæla, enda hafi þau ekki verið gerð ómerk og standi enn á heimasíðu Viðskiptablaðsins ásamt umræddri leiðréttingu. Þá telur stefnandi það nauðsynlegt að krefjast þess að stefndu verði refsað á grundvelli almennra hegningarlaga, enda hafi þeir með ásetningi birt umrædda umfjöllun á síðum blaðsins sem og á heimasíðu þess. Telur stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni sem ekki verði metið eftir almennum peningalegum mælikvarða og eiga rétt á miskabótum úr hendi stefndu.

             Stefndu bera því við að í apríl 2011 hafi tveir heimildarmenn sagt tveimur blaðamönnum á Viðskiptablaðinu frá því að soðið hefði upp úr í viðtali stefnanda við Björn Val Gíslason, þingmann vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs, á Útvarpi Sögu hinn 11. apríl 2011. Hafi stefnandi reiðst mjög, hent hlutum af borði og rifið í Björn Val. Hafði Björn Valur sagt umræddum heimildarmönnum, ásamt öðrum, sögu þessa og látið fylgja í kjölfarið að stefnandi hefði ekki einu sinni komist upp á dekk þegar Björn Valur var skipstjóri.

             Í kjölfar fyrrgreindrar frásagnar hafi stefndi, Björgvin Guðmundsson, gert tilraunir til að ná tali af Birni Val. Þær tilraunir hafi hins vegar ekki borið árangur.

             Ríflega tveimur vikum síðar hafi annar heimildarmannanna staðfest aftur þá atvikalýsingu sem fyrr var lýst, þ.e. að Björn Valur hefði sagt stefnanda hafa rifið í sig. Í ljósi þessa, hafi stefndi talið sig geta treyst því að umrædd atvikalýsing væri rétt og sönn og hafi tekið ákvörðun um að birta hana í Viðskiptablaðinu hinn 12. maí 2011. Sagði þar orðrétt:

             Pétur Gunnlaugsson fékk á dögunum skipstjórann á Kleifarberginu og þingmann VG, Björn Val Gíslason, til sín í útvarpsþátt á Útvarpi Sögu. Auðvitað var hart tekist á eins og venja er þegar menn með sterkar skoðanir mætast. Allt var samt kurteisislegt í upphafi – þangað til mál málanna í pólitíkinni voru rædd. Þá hitnaði í kolunum og gaf Björn Valur í skyn að Pétur væri handbendi Davíðs Oddssonar en ekki fulltrúi sinna eigin skoðana. Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög og henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val. Það snýr enginn Björn Val auðveldlega niður og lét hann þau orð falla í kjölfarið að Pétur hefði nú ekki einu sinni komist uppá dekk þegar hann var skipstjóri. Sjómenn skynjuðu niðurlæginguna.

             Pistill sama efnis hafi verið birtur á vefsíðu Viðskiptablaðsins, www.vb.is, 15. maí 2011, undir fyrirsögninni „Lenti í handalögmálum í útvarpsviðtali.“

             Stefnandi hafi ekki haft samband og ekki krafist afsökunarbeiðni. Hinn 16. maí 2011 hafi Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, hins vegar hringt í stefnda. Í stefnu sé aðeins birt endurrit úr upphafi samtalsins og sé það miður. Hins vegar hafi hvergi komið fram í samtali þessu að stefndi eða aðrir á vegum Viðskiptablaðsins hafi vísvitandi birt lygar um stefnanda, heldur þvert á móti. Sagði m.a. orðrétt í samtalinu:

Arnþrúður Karlsdóttir (AK): En þessi lög gera það að verkum að nú geta menn logið svona eins og þið gerðuð.

Stefndi: Ja, það er allavega örugglega ekki markmið blaðamanna að ljúga í sínum fjölmiðlum.

...

AK: Eru stoltur af þessum vinnubrögðum?

Stefndi: Ekki ef þetta er ósatt, nei.

AK: Ef! Spurðuð þið Björn Val?

Stefndi: Ég ætla ekki að ræða okkar vinnubrögð núna í beinni útsendingu á Útvarpi Sögu, Arnþrúður.

AK: Nei, það er nefnilega það. Haldið áfram að vera neðanjarðar. En þetta er ekki hróður fyrir Viðskiptablaðið.

Stefndi: Nei ... hérna ... það er okkar markmið auðvitað að segja satt og rétt frá öllu.

AK: Já við héldum það.

Stefndi: En það er nú svona það sem hefur verið gegnumgangandi í okkar útgáfu og gengið alveg ágætlega.

AK: Já það hélt ég.

Stefndi: En ef við gerum mistök, þá erum við fús að viðurkenna það.

AK: Já.

Stefndi: Það er það sem er nauðsynlegt fyrir trausta fjölmiðla að gera.

AK: Já það er nefnilega það. Ja, við eigum kannski von á því að þið biðjist afsökunar á þessu.

Stefndi: Það er aldrei að vita.

             Í kjölfar þessa samtals hafi blaðamenn Viðskiptablaðsins aftur haft samband við annan heimildarmanna sinna og enn á ný hafi hann staðfest fyrri frásögn sína. Til að gæta allrar varfærni hafi þó í kjölfarið verið ákveðið að birta afsökunarbeiðni og draga frásögnina til baka. Í næsta tölublaði Viðskiptablaðsins, hinn 19. maí 2011, hafi stefndi birt afsökunarbeiðni vegna fyrrgreindrar umfjöllunar og hafi hún birst á sama stað og með jafn áberandi hætti og hin afsakanlega umfjöllun. Sagði þar orðrétt:

Huginn og Muninn fóru rangt með þegar atburðarás í útvarpsviðtali Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu við Björn Val Gíslason var lýst hér á þessum stað í síðustu viku. Þótt gaman sé að færa í stílinn á þessum vettvangi leggja Huginn og Muninn sig fram við að segja sannleikann. Rétt var að Pétur og Björn tókust á enda menn með sterkar skoðanir. Rangt var að Pétur hefði hent öllu af borði sínu af bræði og rifið í Björn Val í beinni útsendingu. Er Pétur beðinn afsökunar á þessu og vona Huginn og Muninn að þeir komist úr skammarkróki hins skelegga útvarpsstjóra, Arnþrúðar Karlsdóttur, sem fyrst.

             Á vefsíðu Viðskiptablaðsins, www.vb.is, þann sama dag hafi sama afsökunarbeiðni birst, einnig undir fyrirsögninni „Afsökunarbeiðni til Péturs og Arnþrúðar.“ Enn fremur var bætt við fyrri pistil á sama stað, sérstakri leiðréttingu fyrir neðan hina röngu umfjöllun, sem hafi verið samhljóða afsökunarbeiðni þeirri er birtist í blaðinu.

             Að svo búnu hafi stefndi talið að málinu væri lokið. Rúmlega þremur mánuðum síðar barst stefnda hins vegar erindi frá lögmanni stefnanda, dags. 24. ágúst 2011, þar sem stefnandi taldi sig enn hlunnfarinn og krafðist þess að Viðskiptablaðið greiddi sér 1.000.000 krónur, auk lögmannskostnaðar. Var óskað viðbragða Viðskiptablaðsins innan 7 daga frá dagsetningu erindisins.

             Hinn 15. september 2011 hafi stefndi svarað erindi lögmanns stefnanda. Með greinargóðum hætti hafi þar verið lýst hvernig málið horfði við stefnda, auk þess sem stefndi hafi boðið stefnanda, teldi sá síðargreindi enn á sig hallað, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í blaðinu, ýmist í formi greinar eða viðtals. Stefnandi hafi ekki fallist á þetta og höfðað mál þetta. Telur stefnandi að æra hans hafi beðið skaða. Því hafni stefndi alfarið.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Aðild stefndu

             Varðandi aðild stefnda Björgvins sé bent á það að dálkurinn ,,Huginn og Muninn“ sé skrifaður án nafngreinds höfundar og því er enginn blaðamaður skráður fyrir umfjölluninni, en stefndi Björgvin sé ritstjóri Viðskiptablaðsins. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla beri efnisstjóri og/eða ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu ábyrgð á því efni sem birt er. Að auki telji stefndi sjálfur að um ritstjórnarefni sé að ræða sem sé á ábyrgð ritstjóra samkvæmt bréfi hans til lögmanns stefnanda . Um aðild Mylluseturs ehf. segi í 2. mgr. 51. gr. sömu laga: ,,Fjölmiðlaveita ber ábyrgð á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein.“ Myllusetur sé útgáfufélag Viðskiptablaðsins og sé Pétur Árni Jónsson framkvæmdastjóri þess og jafnframt útgefandi Viðskiptablaðsins. Komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ómerkja beri framangreind ummæli og að stefnandi eigi rétt til skaðabóta vegna umræddrar umfjöllunar beri Myllusetur ehf. ábyrgð samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011 ásamt ritstjóra.

Ærumeiðingar og ómerking ummæla

             Í áðurnefndri umfjöllun Viðskiptablaðsins sé stefnanda brigslað um að vera ofbeldismaður sem geti ekki hamið skap sitt en ráðist að viðmælendum sínum með ofbeldi. Hafa verði í huga að stefndu séu annars vegar ritstjóri og hins vegar útgáfufélag eins virtasta viðskiptablaðs á Íslandi sem hafi talsvert mikla dreifingu og sé víðlesið í atvinnulífi á Íslandi.

             Ummæli þau sem komu fram í umfjölluninni séu ósönn og hafi stefndi Björgvin lýst því yfir í beinni útsendingu að um lygi hafi verið að ræða. Umrædd umfjöllun hafi falið í sér aðdróttanir í garð stefnanda um ofbeldisverk og hafi ummælin verið til þess fallin að verða virðingu stefnanda til hnekkis. Umfjöllunin hafi haft áhrif á orðspor stefnanda og ummælin hafi verið óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og séu öll skilyrði fyrir hendi til ómerkingar þeirra. Þá hafi ummælin verið algerlega tilefnislaus, byggð á ósönnum fullyrðingum og í raun ekki birt til neins annars en að meiða æru stefnanda, enda verði ekki séð að neinn annar tilgangur hafi vakað fyrir stefndu í málinu því langt hafi liðið milli þess að umræddum útvarpsþætti var útvarpað og þar til umfjöllunin birtist á síðum Viðskiptablaðsins.

             Við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði til ómerkingar og til greiðslu miskabóta verði að hafa hugfast að stefnandi er stjórnarformaður Útvarps Sögu en stöðin sé í samkeppnisrekstri við aðra fjölmiðla, þar á meðal við stefndu. Útvarpsstöðin hafi allar tekjur sínar af auglýsingum og því skipti orðspor þeirra starfsmanna sem þar vinna miklu máli fyrir framtíðartekjur stöðvarinnar og einnig fyrir starfskjör stefnanda. Að auki hafi stefnandi nýlega sagt skilið við störf sín hjá stjórnlagaráði og hafi þar orðið fyrir talsverðum truflunum, m.a. vegna þeirrar umfjöllunar sem birtist í Viðskiptablaðinu. Stefndu hafi með umfjöllun sinni stimplað stefnanda sem ofbeldismann, án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til þess að kanna hið rétta í málinu. Hvorki hafi verið haft samband við stefnanda né nokkra aðra sem áttu hlut að máli, þ.e. starfsmenn stöðvarinnar eða viðmælanda stefnanda í téðum útvarpsþætti.

             Ummæli stefndu hafi verið grafalvarleg. Þar hafi komið fram staðhæfingar um ofbeldisbrot stefnanda gagnvart sitjandi alþingismanni. Hafi ummælin haft áhrif á stefnanda í starfi hans og raskað orðspori hans verulega. Hin ærumeiðandi ummæli hafi að auki haft áhrif á hegðan annarra einstaklinga í samskiptum við stefnanda. Hafi umfjöllunin orðið til þess að margir aðrir fjölmiðlar tóku fréttina upp og varð hún því á mjög skömmum tíma ein vinsælasta fréttin á fréttamiðlunum Pressan.is og DV.is enda ekki á hverjum degi sem útvarpsmaður sé sakaður um að ráðast að viðmælendum sínum með líkamlegu ofbeldi. Hafi þessi mikla umfjöllun tekið mjög á stefnanda sem þá hafi sinnt skyldum sínum í stjórnlagaráði. Þá telji stefnandi að hin meinta afsökunarbeiðni stefnda til hans, sem birtist nokkrum dögum síðar, hafi verið án allrar iðrunar og beinlínis sett fram með hæðnislegum undirtóni enda segi þar m.a....og vona Huginn og Muninn að þeir komist úr skammarkróki hins skelegga útvarpsstjóra, Arnþrúðar Karlsdóttur, sem fyrst.

Refsikrafa stefnanda

             Eins og rakið sé að framan sé ljóst að háttsemi stefndu, þ.e. ummælin sjálf og svo útbreiðsla þeirra á öðrum fréttamiðlum, fólu í sér ærumeiðandi móðgun og útbreiðslu slíkra ærumeiðinga og feli þannig í sér brot gegn 234. gr. almennra hegningarlaga. Þá sé einnig ljóst að ásetningsstig stefnda hafi verið mjög hátt og að háttsemin hafi falið í sér aðdróttun, eða útbreiðslu slíkra aðdróttana, um atriði sem myndu verða virðingu stefnanda til hnekkis, en slíkt athæfi brjóti gegn 235. gr. alm. hgl. Aðdróttunin hafi verið höfð uppi og borin fram gegn betri vitund, enda hafi engin ástæða verið fyrir stefndu til að telja hana rétta og geti því háttsemi stefndu einnig átt undir 236. gr. alm. hgl. enda ljóst að stefndi Björgvin hafi viðurkennt í samtali við Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, að hér hafi verið um lygafrétt að ræða.

             Krafa um refsingu sé byggð á því að stefndu hafi með ásetningi staðið að baki hinni röngu og ólögmætu umfjöllun eins og rakið sé að framan. Í þessu felist brot gegn framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga. Um refsiskilyrði sé að öðru leyti vísað til 18. gr. alm. hgl. og um heimild til að höfða einkarefsimál til 3. tl. 242. gr. sömu laga. Krafist sé að stefndu verði gert að sæta ýtrustu refsingar vegna brota sinna.

Krafa um miskabætur

             Stefnandi byggir á því að stefndu beri miskabótaábyrgð gagnvart sér á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem hin opinbera umfjöllun sem átti sér stað á síðum Viðskiptablaðsins og á vef blaðsins, vb.is, hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda. Við ákvörðun miskabóta verði að horfa til þess í fyrsta lagi að umfjöllunin hafi verið sett fram án nokkurs tilefnis og í engu samræmi við aðra umfjöllun Viðskiptablaðsins sem almennt sé á viðskiptalegum nótum. Hafi beinlínis verið ráðist að stefnanda með lygum til þess eins að vanvirða mannorð hans. Hafi umfjöllun stefnda um stefnanda verið svo rætin að umfjöllunin rataði á heimasíður annarra fjölmiðla og í kjölfarið hafi myndast mikil umræða á spjallrásum internetsins sem einnig hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda. Verði að horfa til þeirrar útbreiðslu sem umrædd umfjöllun hafi fengið hjá fjölmiðli stefndu sem og á öðrum fjölmiðlum og verði að ætla að tugþúsundir landsmanna hafi lesið sér til um þessa upplognu atburðarás.

             Miskabótakrafa stefnanda teljist réttilega ákveðin 2.000.000 króna með hliðsjón af þeirri útbreiðslu sem umrædd umfjöllun fékk, enda verði ekki lagður almennur peningalegur mælikvarði um tjón á orðspori, mannorði og persónu stefnanda. Verði einnig að horfa til þess að stefndi Myllusetur ehf., sem fjölmiðill, hafi ríkum skyldum að gegna við umfjöllun sína og beri þeim að hafa í huga friðhelgi fjölskyldu þeirra sem rata inn í umfjöllun þeirra og vernd þeirrar friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Ekki hafi verið hugað að þessum þáttum þegar umfjöllunin um stefnanda birtist á síðum Viðskiptablaðsins, þrátt fyrir að auðvelt hefði verið fyrir stefndu að sannreyna atburðarásina. Verði að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir birti ekki efni sem enginn fótur er fyrir. Verði við ákvörðun þeirra miskabóta að hafa í huga að þær feli í sér varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum af hálfu stefndu við rekstur fjölmiðils og framsetningu frétta. Sé miskabótakrafa stefnanda því síst of há í ljósi þeirra alvarlegu saka sem logið var upp á hann í umræddri umfjöllun.

Birting dóms

             Krafa stefnanda um birtingu dóms og forsendna hans byggist á 3. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga sem og 59. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Umfjöllun stefndu um stefnanda hafi hlotið mjög mikla útbreiðslu og sé eðlilegt að stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur sem svari til þess kostnaðar sem hann verður fyrir við að birta dóm og forsendur þess dóms í þeim fjölmiðlum sem birtu fréttir af umfjölluninni. Krafist er kostnaðar við birtingu dóms í þremur blöðum sem og á þremur vefsvæðum og er ljóst að sá kostnaður verður aldrei lægri en krafa stefnanda, eða 500.000 krónur.

Lagarök

             Um lagarök vísar stefnandi til almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sérstaklega 234., 235., 236., 241., og 242. gr. þeirra laga, laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sérstaklega 51. og 59. gr., skaðabótalaga nr. 50/1993, sérstaklega 26. gr., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 1. mgr. 6. gr., og til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sérstaklega 71. gr.

             Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað styðst við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert skylt að skila virðisaukaskatti af þjónustu sinni, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir honum.

Málsástæður stefndu og lagarök

             Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og byggja stefndu, sér í lagi og sameiginlega, sýknukröfu á eftirgreindum málsástæðum.

  1. Aðildarskortur

             Stefndi Myllusetur ehf. krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts. Ágreiningslaust er að stefndi Myllusetur ehf. viðhafði ekki þau ummæli sem dómkrafa um ómerkingu varðar og ber ekki ábyrgð á þeim. Stefnandi byggir aðild stefnda Mylluseturs ehf. á 2. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, en samkvæmt ákvæðinu ber fjölmiðlaveita, þ.e. einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil, ábyrgð á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna. Fjölmiðlaveita beri því ekki ábyrgð á því efni sem birt er, heldur sé það í öllum tilvikum nafngreindur einstaklingur, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr., eða efnisstjóri og/eða ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Stefndi Myllusetur ehf. sé hvorki efnisstjóri né ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu, heldur er stefndi Myllusetur ehf. fjölmiðlaveita. Færi svo ólíklega að stefndi Björgvin Guðmundsson, sem ritstjóri Viðskiptablaðsins og starfsmaður stefnda Mylluseturs ehf., yrði talinn bera ábyrgð á meintum ærumeiðandi ummælum og hann hugsanlega dæmdur til greiðslu fésekta eða skaðabóta, bæri stefndi Myllusetur ehf. ábyrgð á greiðslu fésekta eða skaðabóta sem dómur gerði stefnda Björgvini Guðmundssyni að greiða samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga og þurfi ekki dóm á hendur félaginu til að framkalla þá ábyrgð ef til kemur. Stefndi Myllusetur ehf. beri því enga sjálfstæða ábyrgð að þessu leyti og eigi hann þar af leiðandi ekki aðild að máli þessu. Aðildarskortur stefnda Mylluseturs ehf. skuli því leiða til sýknu þess stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

  1. Dómkrafa um ómerkingu meintra ærumeiðandi ummæla

2.1. Skortur á saknæmi verknaðar

             Stefndu telja að saknæmisskilyrði skorti fyrir beitingu 234., 235. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl.), sbr. 18. gr. sömu laga. Verknaður sá sem lýst sé í fyrrgreindum ákvæðum sé ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skuli því aðeins refsa að heimild sé til þess í lögunum. Slík heimild sé ekki til staðar varðandi fyrrgreind lagaákvæði og sé því ásetningur skilyrði þess að fallast megi á dómkröfur stefnanda.

             Af atvikum málsins megi ljóst vera að enginn ásetningur hafi verið til þess að birta umfjöllun sem ekki væri sannleikanum samkvæm. Stefndi hafi metið heimildarmenn sína áreiðanlega og hafi enga ástæðu haft til að draga í efa frásögn þeirra af því að Björn Valur hefði sagt frá því að stefnandi hefði reiðst mjög og rifið í hann í útvarpsviðtali. Stefndi hafi reynt að ná tali af Birni Val, en án árangurs. Nokkur tími hafi liðið og hafi stefndi þá á ný fengið staðfestingu frá öðrum framangreindra heimildarmanna á því að Björn Valur hefði sannanlega sagt frá fyrrgreindri reynslu sinni. Það hafi því hvorki verið óvarlegt né ófaglegt að birta frásögn þessa efnis og hafi stefndi verið í góðri trú þegar umfjöllunin var birt í Viðskiptablaðinu. Af þessu megi ljóst vera að hvorki ásetningur né stórfellt gáleysi hafi legið að baki verknaðinum. Heimildarmenn hafi verið fleiri en einn og hafi stefndi gert tilraun til að ná tali af Birni Val, en án árangurs. Stefndi hafi einfaldlega mátt treysta því að frásögn heimildarmanna hans væri rétt. Þá sýni allar athafnir stefnda í kjölfar upplýsinga um að frásögnin hafi verið röng að stefndi lagði sig fram um að koma sannleikanum á framfæri með afsökunarbeiðni og umfjöllun á jafn áberandi stað um þau mistök sem gerð voru auk þess sem hann hafi boðið stefnanda að rétta hlut hans enn frekar teldi hann þörf á. Beri sökum þessa að sýkna stefndu.

2.2. Frásögnin var ekki ærumeiðandi

             Stefndu byggja sýknukröfu sína aukinheldur á því að í umþrættri frásögn Viðskiptablaðsins hafi ekki falist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda.

             Í fyrsta lagi telja stefndu ljóst að í frásögn Viðskiptablaðsins hafi ekki falist ærumeiðandi móðgun, sbr. 234. gr. hgl. Viðurkennt sé að í móðgun felist einkum það hátterni, sem beint sé gegn öðrum manni og lýsi megnri óvirðingu eða fyrirlitningu. Þá kunni einnig að felast móðgun í umfjöllun sem sett sé fram í háðslegum tón eða jafnvel í skoplegu en nöturlegu ljósi. Góðlátlegt skop sé hins vegar refsi- og vítalaust. Í máli því sem hér sé fjallað liggi fyrir að dálkurinn „Huginn og Muninn“, þar sem umþrætt frásögn birtist, sé ekki í hefðbundnum fréttastíl. Þar séu gjarnan sagðar skoplegar sögur þar sem oft og tíðum sé fært örlítið í stílinn. Sams konar dálka megi einnig finna í Fréttablaðinu (Frá degi til dags) og DV (Sandkorn). Þetta þekki lesendur og þeim megi vera ljóst við lestur slíkrar umfjöllunar að um skop sé að ræða en ekki hefðbundinn og hlutlausan fréttaflutning. Í ljósi þessa mótmæli stefndu því að í umþrættri umfjöllun hafi falist ærumeiðandi móðgun sem beint hafi verið að stefnanda. Af þeim sökum verði stefndu ekki sakfelldir fyrir brot gegn 234. gr. hgl.

             Í öðru lagi telji stefndu að í frásögn Viðskiptablaðsins hafi ekki falist ærumeiðandi aðdróttun, sbr. 235. gr. hgl. Hafa verði í huga að aðdróttanir séu grófara stig ærumeiðinga, þ.e. um alvarlegri háttsemi sé að ræða en við móðgun. Í ljósi þess sem fyrr greini um að í frásögn Viðskiptablaðsins hafi ekki falist móðgun, verður því síður talið að í henni hafi falist aðdróttun að stefnanda sem hafi orðið virðingu hans til hnekkis. Í frásögninni hafi aðeins verið að stefnandi hafi reiðst, fleygt hlutum af borði og rifið í Björn Val. Stefnandi hafi t.a.m. ekki verið borinn sök um refsiverðan verknað, líkt og líkamsárás eða annars konar ofbeldi. Það sé einfaldlega mannlegt að reiðast og slík viðbrögð séu ekki refsiverð eða líkleg til að verða virðingu manns til hnekkis. Af þessum sökum sé því harðlega mótmælt af hálfu stefndu að um ærumeiðandi aðdróttun hafi verið að ræða, sbr. 235. gr. hgl., og því síður hafi sú meinta aðdróttun verið höfð í frammi gegn betri vitund, sbr. 236. gr. hgl. Atvik máls vitni einfaldlega um hið gagnstæða. Beri þegar af þeim sökum að sýkna stefndu.

             Að því er öll fyrrgreind lagaákvæði varðar, þ.e. 234., 235. og 236. gr. hgl., verði að hafa í huga að umfjöllun Viðskiptablaðsins hafi byggst á frásögnum annarra sem höfðu orðið vitni að frásögn Björns Vals af samskiptum sínum við stefnanda. Telji stefndu slíka umfjöllun vítalausa. Fái þetta m.a. stoð í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, sem skýrlega hafi tekið þá afstöðu að útbreiðsla ummæla, sem höfð séu eftir öðrum, eigi að njóta sérstöðu að því leyti að ósanngjarnt geti verið að láta „útbreiðandann“ færa sönnur á þess háttar ummæli. Sé dóminum sökum þessa ekki stætt á öðru en að sýkna stefndu.

             Í tengslum við fyrrgreint telji stefndu enn fremur að stefnandi hafi í raun enga lögvarða hagsmuni af því að fá umþrætt ummæli dæmd dauð og ómerk. Ummælin hafi þegar verið leiðrétt, þau hafi verið dregin tilbaka með vafalausum hætti og beðist hafi verið afsökunar. Ummæli sem ekki lengur standa verði því ekki dæmd dauð og ómerk. Af þeim sökum einum ber að sýkna stefndu.

2.3. Tjáningarfrelsið vegur þyngra

             Stefndu telja mikilvægt að höfð sé í huga grundvallarreglan um tjáningarfrelsi, sem lögvarin sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Tjáningarfrelsið sé einnig varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Nauðsynlegt sé að taka mið af ákvæðum um tjáningarfrelsi við úrlausn málsins, enda ljóst að verði fallist á kröfu stefnanda að hluta eða að öllu leyti sé um að ræða takmörkun á tjáningarfrelsi stefndu. Öll skerðing á tjáningarfrelsi verði að hafa stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. byggjast á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera nauðsynleg. Þá megi ráða af framkvæmd dómstóla, bæði hér á landi og Mannréttindadómstóls Evrópu, að allar takmarkanir á tjáningarfrelsi verði að skýra þröngt og að varlega beri að fara við að hefta umræður í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum. 

             Stefndu hafni því alfarið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að skilyrði takmörkunar á tjáningarfrelsi stefndu séu uppfyllt í málinu, þ.e. með því að brotið hafi verið gegn æru stefnanda. Stefndu bendi á að fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi og nauðsynlegt sé að blaðamenn hafi frelsi til tjáningar. Við mat á því hvort hagsmunir skarist, þ.e. tjáningarfrelsi og meint brot gegn æru manna, beri að líta til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi við almenning.

             Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á að tjáning njóti mestrar verndar ef um þátttöku í svokölluðum pólitískum umræðum er að ræða eða framlag til umræðu um málefni sem varða almenning. Þannig verði stjórnmálamaður að una harkalegri gagnrýni, ekki síst hafi hann sjálfur látið orð falla sem séu til þess fallin að vekja viðbrögð. Sömu sjónarmið eigi einnig við um þá menn sem sjálfir hafi komið sér á framfæri við almenning með opinberum hætti, m.a. fyrir tilstilli fjölmiðla. Það hafi stefnandi sannanlega gert og verið áberandi álitsgjafi í allri þjóðmálaumræðu á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu, þar sem stefnandi sé þáttastjórnandi og jafnframt eigandi stöðvarinnar. Þá hafi stefnandi aukinheldur haft sig í frammi á öðrum vettvangi með framboði til stjórnlagaþings, sem síðar varð stjórnlagaráð, og setu í því ráði. Stefnandi þurfi því að sætta sig við hörð og jafnvel óvægin ummæli. Að mati stefndu eigi framangreint fullum fetum við það efni sem birtist í Viðskiptablaðinu og mál þetta varðar. Telja stefndu að stefnandi verði, líkt og stjórnmálamenn, að þola harkalegri gagnrýni heldur en almenningur sem ekki hafi látið á sér bera í fjölmiðlum undanfarin ár.

             Til viðbótar við framangreint bendi stefndu á að í nauðsynlegri og frjálsri umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi geti komið fyrir að einhver einföldun finnist í opinberri umfjöllun og að skopast sé með atburði tengda þjóðmálaumræðu. Stefndu telji slíkt hins vegar ekki eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að sá sem hin skoplega umfjöllun varðar eignist refsi- og/eða miskabótakröfu vegna meiðyrða. Þvert á móti telji stefndu að nauðsynleg lýðræðisleg umræða feli í sér pláss fyrir einhverja einföldun og jafnvel skoplega nálgun atburða þegar umfjöllun er sett fram í góðri trú. Þá verði einnig að hafa í huga að stefndi hafi stuðst við frásögn tveggja heimildarmanna, sem sjálfir höfðu orðið vitni að því þegar Björn Valur skýrði frá atburðum þeim sem lýst var í umfjöllun Viðskiptablaðsins. Stefndi hafi gert tilraun til að ná tali af Birni Val vegna þessa, en án árangurs. Hins vegar hafi stefndi enga ástæðu haft til að draga í efa frásögn heimildarmanna sinna. Stefndi hafi að engu leyti vikið frá þeim kröfum sem gera mátti til hans sem ritstjóra og blaðamanns og verði að virða honum það til refsileysis.

             Ber sökum alls fyrrgreinds að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda.

2.4. Sannindi ummæla valda sýknu

             Verði ekki fallist á að sýkna beri stefndu á grundvelli framangreindra sjónarmiða byggi stefndu sýknukröfu á því að sú umfjöllun sem mál þetta varðar hafi verið sannleikanum samkvæm og byggð á áreiðanlegum heimildarmönnum er báru um frásögn Björn Vals af samskiptum sínum við stefnanda. Umfjöllun Viðskiptablaðsins hafi því verið rétt og í samræmi við þá lýsingu sem Björn Valur viðhafði sjálfur í heyranda hljóði. Sannindi ummælanna leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði.

             Sem fyrr segi liggi upplýsingar frá heimildarmönnum að baki umþrættri umfjöllun og Björn Valur, viðmælandi stefnanda í hinu umtalaða útvarpsviðtali, hafi sjálfur sagt svo frá sem í Viðskiptablaðinu greindi. Stefndu meti jafnframt umrædda heimildarmenn trúverðuga og áreiðanlega. Réttur blaðamanna til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum sem hafðir eru fyrir fréttum sé hornsteinn lýðræðislegrar og frjálsrar fréttamennsku. Þessi réttur sé meðal annars lögfestur í 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og staðfestur með dómsúrlausnum Hæstaréttar. Þá sé að finna í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 sérstakt ákvæði um vernd heimildarmanna, sbr. 25. gr. Þar segi meðal annars að starfsmönnum fjölmiðlaveitu sé óheimilt að upplýsa um heimildarmann hafi hann óskað nafnleyndar. Ákvæði þetta undirstriki mikilvægi réttar fréttamanna til að vernda heimildarmenn.

             Stefndi hafi lagt sjálfstætt og hlutlægt mat á upplýsingarnar og metið trúverðugleika heimildanna í samræmi við almennt viðurkenndar starfsreglur blaðamanna, enda hafi hann sjálfur engra hagsmuna haft að gæta. Stefndi hafi aukinheldur talið að umrædd umfjöllun ætti erindi til almennings. 

             Stefndu byggi á því að ekki megi gera óhóflegar kröfur til þeirra um sönnun á sannleiksgildi hinna umstefndu ummæla. Yrði stefndu gert að sanna umstefnd ummæli myndi það reynast þeim óhæfilega íþyngjandi. Slíkar kröfur myndu fela í sér ósanngjarnar takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu, sem verndað sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar sem og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndu byggi á því að ummælin teljist réttlætanleg, sérstaklega með hliðsjón af atvikum í heild, jafnvel þrátt fyrir að virðulegur dómur fallist ekki á að sannleiksgildi þeirra teljist sannað. Beri því að sýkna stefndu.

3. Dómkrafa um refsingu

             Stefndu krefjast sýknu af refsikröfu stefnanda samkvæmt kröfulið stefnanda nr. 2. Stefndu mótmæla refsikröfunni alfarið og telja ekki grundvöll fyrir henni. Eins og færð hafi verið rök fyrir telja stefndu sig ekki hafa brotið gegn 234., 235. eða 236. gr. hgl. með frásögn í Viðskiptablaðinu og á heimasíðu Viðskiptablaðsins. Stefndu telja sig þannig ekki með neinu móti hafa meitt æru stefnanda með móðgun í orðum eða athöfnum, eða borið slíkt út í skilningi 234. gr. laganna. Því síður telja stefndu að umfjöllunin hafi falið í sér aðdróttun, sem myndi verða virðingu stefnanda til hnekkis í skilningi 235. gr. laganna eða að umfjöllunin hafi verið sett fram gegn betri vitund, sbr. 236. gr. laganna. Um þetta sé nánar vísað til umfjöllunar um málsástæður hér að framan.

             Stefndu byggja sýknukröfu sína einnig á því að stefnandi geri enga tilraun til að heimfæra verknað stefndu til þeirra lagaákvæða sem hann tilgreinir í dómkröfu sinni. Í umfjöllun um málsástæður í stefnu sé hvergi vikið að því hvernig telja megi verknað stefndu til ærumeiðandi móðgunar eða ærumeiðandi aðdróttunar. Sé stefna því afar óskýr að þessu leyti, sem geri stefndu erfitt um vik að halda uppi vörnum í málinu. Stefna sé því ekki svo skýr sem verða megi og beri sökum þess að sýkna stefndu.

             Fari svo ólíklega að stefndu verði taldir hafa brotið gegn 234. gr., 235. gr. og/eða 236. gr. hgl. krefjist þeir eftir sem áður sýknu af refsikröfu stefnanda. Stefndu telji ljóst að tilvitnun stefnanda til refsiákvæða sé of almenns eðlis og skortir með öllu að sýnt sé fram á með hverjum hætti frásögnin geti bakað stefndu refsiábyrgð samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum. Verði því ekki hjá því komist að sýkna stefndu af refsikröfu stefnanda.

             Rétt sé að mótmæla sérstaklega umfjöllun stefnanda um refsikröfu í stefnu á bls. 5. Atvik máls sýni glögglega að ásetningur hafi ekki verið til staðar til framsetningar eða útbreiðslu hinna meintu meiðandi frásagnar og því síður hafi stefndi viðurkennt að um „lygafrétt“ hafi verið að ræða, líkt og staðhæft sé.

4. Dómkrafa um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms

             Stefndu mótmæla kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið stefnanda nr. 3 um greiðslu 500.000 króna vegna kostnaðar við birtingu dóms í þremur dagblöðum og krefjast þeir sýknu af kröfunni. Um rökstuðning vegna kröfu um sýknu af þessum kröfulið vísi stefndu til umfjöllunar hér að framan. Við þá umfjöllun verði jafnframt að bæta að stefndu hafi þegar birt afsökunarbeiðni og leiðréttingu frásagnarinnar á sama stað og með jafnáberandi hætti og hin meinta ærumeiðandi umfjöllun var birt. Hafi hlutur stefnanda því þegar verið réttur og bæði ósanngjarnt og fráleitt væri að láta stefndu einnig þurfa að sæta því að greiða stefnanda fjármuni til að standa straum af birtingu dómsins.

             Stefndi bendi jafnframt á að krafa stefnanda að þessu leyti sé of há og ekki í samræmi við dómvenju. Svo víðtæk birting og umkrafin fjárhæð fái hvorki stoð í lögum né öðrum lögskýringargögnum.

5. Dómkrafa um greiðslu miskabóta

             Stefndu byggi kröfu sína um sýknu af miskabótakröfu stefnanda á því sem fram hafi komið hér að framan. Jafnframt byggi stefndu á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt í málinu. Stefndu bendi á að ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga geri að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um „ólögmæta meingerð“. Krafa um ólögmæta meingerð sé samofin saknæmisskilyrðinu og feli í sér að miskabætur verði ekki dæmdar nema um ásetning eða stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða þegar umrædd ummæli voru viðhöfð. Skilyrði þetta sé ekki uppfyllt í tilfelli stefndu, enda hafi þeir birt umfjöllunina í góðri trú og stuðst við heimildir sem stefndi taldi traustar og áreiðanlegar. Beri því að sýkna stefndu af miskabótakröfu stefnanda.

             Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að stefndu, báðir eða annar hvor, hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga mótmæla stefndu kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Í ljósi aðstæðna telji stefndu kröfuna allt of háa og ekki í samræmi við dómvenju. Stefndu telji mannorð og æru stefnanda ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna umfjöllunar stefndu. Telji dómurinn stefnanda hins vegar hafa orðið fyrir tjóni, telji stefndu slíkt tjón svo smávægilegt að dómur í málinu hljóti að teljast nægilegur til að rétta hlut stefnanda. Því séu ekki efni til að dæma miskabætur í málinu, eða í öllu falli einungis smávægilega fjárhæð.

             Í fyrrgreindu samhengi sé því enn fremur sérstaklega mótmælt að umfjöllun annarra fjölmiðla um samskipti stefnanda og Björns Vals skuli hafa áhrif á fjárhæð miskabóta í máli þessu. Stefndu beri enga ábyrgð á umfjöllun annarra fjölmiðla um málið og verði þeim ekki gert að greiða bætur vegna slíkrar umfjöllunar.

6. Dómkrafa um greiðslu málskostnaðar

Á grundvelli alls fyrrgreinds mótmæla stefndu málskostnaðarkröfu stefnanda.

             Um lagarök er vísað til almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði, sem og 18., 234., 235., 236. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndu vísa jafnframt til 25. og 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 með síðari breytingum, sem og til 6. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísa stefndu til framangreindrar umfjöllunar eftir því sem við á. Þá er einnig byggt á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

             Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna.

Niðurstaða

             Stefnandi krefst ómerkingar ummæla um stefnanda er voru birt annars vegar í Viðskiptablaðinu 19. tbl. 18. árgangi og hins vegar á heimasíðu blaðsins á vefslóðinni http://www.vb.is/frett/63413.

             Í næsta tölublaði Viðskiptablaðsins, hinn 19. maí 2011, birti stefndi Björgvin afsökunarbeiðni vegna umfjöllunarinnar. Sama afsökunarbeiðni var einnig birt á vefsíðu blaðsins.

             Í afsökunarbeiðninni segir m.a.: Rangt var að Pétur hefði hent öllu af borði sínu af bræði og rifið í Björn Val í beinni útsendingu. Er Pétur beðinn afsökunar á þessu.

             Fyrir dóminn komu Arnfríður Karlsdóttir, útvarpsstjóri og eigandi Útvarps Sögu, og Jóhann Kristjánsson tæknimaður hjá útvarpsstöðinni, sem bæði voru viðstödd þegar umræddur umræðuþáttur fór fram. Staðfestu þau bæði að atvik hefðu ekki verið með þeim hætti lýst var í umfjöllun Viðskiptablaðsins. Í ljósi framburðar þeirra og afsökunarbeiðni stefnda þykir sýnt fram á að umfjöllun blaðsins um stefnanda var ósönn og átti ekki við nein rök að styðjast.

             Fram hefur komið að stefnandi, sem er lögmaður, var þáttastjórnandi á Útvarpi Sögu auk þess sem hann var stjórnarformaður útvarpsstöðvarinnar. Hann hefur nýlokið setu í stjórnlagaráði en hafði áður verið kjörinn á stjórnlagaþing.

             Fallast ber á með stefnanda að í ummælunum, sem eiga ekki við nein rök að styðjast, sbr. það sem áður greinir, sé stefnanda lýst sem ofbeldismanni sem geti ekki hamið skap sitt og sem ráðist að viðmælendum sínum með ofbeldi. Teljast ummælin til þess fallin að verða virðingu stefnanda til hnekkis. Teljast ummælin varða við 235. gr. almennra hegningarlaga. Þau er óviðurkvæmileg og ber að ómerkja þau á grundvelli 241. gr. almennra hegningarlaga.

             Stefnandi krefst þess að stefndi, Björgvin, verði látinn sæta ýtrustu refsingu sem lög leyfa fyrir að hafa með ofangreindum ummælum og útbreiðslu þeirra brotið gegn 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

             Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ekki lögð við verknaði nema hann sé unninn af ásetningi. Sérstaka lagaheimild þarf til þess að refsað verði fyrir gáleysisbrot.

             Fram hefur komið að heimildir stefnda fyrir umfjölluninni hafi komið frá tveimur ónafngreindum heimildarmönnum sem höfðu frásögnina frá Birni Val Gíslasyni. Í yfirlýsingu sem hann hefur undirritað og liggur frammi í málinu segir m.a. að frásögnin sem birst hafi í Viðskipablaðinu hafi ekki að öllu leyti verið úr lausu lofti gripin þó ekki hafi komið til líkamlegra átaka. Svo virðist sem frásagnir af umræddu viðtali hafi hins vegar verið skildar á annan hátt og þannig ratað á síður Viðskiptablaðsins. Að mati Björns Vals er fráleitt að halda því fram að blaðamenn Viðskiptablaðsins hafi vísvitandi verið að ljúga í umræddum pistli.

             Björgvin Guðmundsson bar fyrir dómi að hann hefði talið frásögn heimildarmannanna trúverðuga vegna stöðu þeirra og tengsla við þá sem sátu þennan útvarpsþátt. Hann hafi reynt að ná sambandi við Björn Val til að fá staðfestingu hans á frásögninni en hafi ekki náð sambandi við hann. Hann hafi leitað aftur til heimildarmanna og hafi annar þeirra staðfest frásögnina aftur. Bar Björgvin að þegar ljóst hafi orðið að frásögnin hefði ekki verið í alla staði rétt hafi afsökunarbeiðni verið sett fram.

             Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykir ekkert það fram komið er styður fullyrðingar stefnanda um að það hafi verið ásetningur stefnda að skýra ranglega frá og hafa uppi aðdróttanir sem yrðu stefnanda til hnekkis.

             Ósannað er að stefndi hafi átt þátt í því að aðrir fjölmiðlar birtu umfjöllunina í sínum miðlum.

             Samkvæmt framansögðu eru engin skilyrði til þess að stefndi verði látinn sæta refsingu samkvæmt tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og ber því að sýkna hann af þeirri kröfu stefnanda.

             Þriðja dómkrafa stefnanda lýtur að því að stefndu verði dæmdir in solidum  til að greiða stefnanda 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum sem og á þremur vefsvæðum.

             Samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga má dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms.

             Kröfu um ómerkingu ummæla var einungis beint að stefnda, Björgvini Guðmundssyni. Samkvæmt ákvæðinu verður kröfu um kostnað vegna birtingar dóms því einungis beint að honum og ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda, Myllusetur ehf., af þessari kröfu stefnanda.       

             Stefnandi gerir ekki kröfu um að stefnda verði gert að birta forsendur dóms og dómsorð í Viðskiptablaðinu eða vefsíðu þess þar sem ummælin birtust upphaflega.

Ekki liggur fyrir að umfjöllunin hafi birst í öðrum dagblöðum en Viðskiptablaðinu. Hins vegar liggur fyrir að hún birtist á þremur vefmiðlum.

             Fjárhæð þessarar kröfu er með öllu órökstudd. Eins og áður segir þykir ekki sýnt fram að stefndi hafi átt neinn þátt í því að umfjöllunin birtist víðar en í Viðskiptablaðinu og vefsíðu þess. Eftir atvikum þykja því ekki efni til þess að verða við þessari kröfu stefnanda og er stefndi Björgvin einnig sýknaðir af henni.

             Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Byggir stefnandi þessa kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

             Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

             Eins og rakið hefur verið var kröfu um ómerkingu ummæla einungis beint að stefnda Björgvini Guðmundssyni og telst hann samkvæmt framansögðu bera ábyrgð að lögum á þeim ummælum. Stefndi Myllusetur ehf. á enga aðild að kröfu þessari og ber því að sýkna hann af kröfu stefnanda um miskabætur.

             Í ljósi þeirrar niðurstöðu að fallist er á að í ummælum samkvæmt fyrsta kröfulið í stefnu felist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda er fallist á kröfu hans um miskabætur. Eftir atvikum þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.

             Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda, Björgvini Guðmundssyni, að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

             Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Mylluseturs ehf. falli niður.

             Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

             Stefndi, Myllusetur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Gunnlaugssonar, í máli þessu.

             Ummælin  „Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val.“ sem birt voru á bls. 20 í Viðskiptablaðinu 19. tbl. 18 árgangi, eru ómerkt.

             Ummælin „Lenti í handalögmálum í útvarpsviðtali“ og „Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val.“ sem birt voru á heimasíðu Viðskiptablaðsins eru ómerkt.

             Stefnda, Björgvini Guðmundssyni, er ekki gerð refsing.

             Stefndi Björgvin Guðmundsson skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Péturs Gunnlaugssonar, um greiðslu 500.000 króna til að kosta birtingu dóms.

             Stefndi, Björgvin Guðmundsson, greiði stefnanda, Pétri Gunnlaugssyni, 300.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

             Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Mylluseturs ehf. fellur niður.

             Stefndi, Björgvin Guðmundsson, greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.