Hæstiréttur íslands
Mál nr. 357/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 26. september 2001. |
|
Nr. 357/2001.
|
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur með þeirri athugasemd að ekki væri fallist á að það eitt að lögregla varðveitti nú vegabréf, sem X hafði undir höndum er hann var handtekinn, nægði til að varna honum þannig för úr landi að beita mætti farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni, en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ekki verður fallist á með varnaraðila að það eitt að lögreglan varðveiti nú vegabréf, sem hann hafði undir höndum þegar hann var handtekinn 14. september 2001, nægi til að varna honum þannig för úr landi að beita megi farbanni í stað gæsluvarðhalds á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2001.
Ríkislögreglustjórinn hefur krafist þess að X, verði með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til föstudagsins 19. október nk. kl. 16:00 vegna gruns um brot gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en gæsluvarðhald sem hann sætir nú rennur út á morgun kl. 16:00. Kröfunni til stuðnings er vísað til a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
Lögreglan í Keflavík vinnur nú að rannsókn umfangsmikilla skjalafals- og/eða fjársvikabrota í samvinnu við embætti Ríkislögreglustjórans. Kærði í málinu er grunaður um að hafa svikið út að minnsta kosti hátt á aðra milljón króna í tveimur ferðum sínum til Íslands í september, með notkun sex greiðslukorta, sem hann er talinn hafa komist yfir með ólögmætum hætti. Kærði var handtekinn í söluskrifstofu Flugleiða í flugstöðinni í Keflavík síðastliðinn föstudag. Hann var þá á leið úr landi, en grunur leikur á að hann hafi haft í hyggju að snúa aftur til Íslands nokkrum dögum síðar, í því augnamiði, að mati lögreglu, að svíkja út fé.
Rannsókn málsins er á frumstigi og þykir ljóst að hún gæti orðið umfangsmikil. Grunur leikur á að kærði eigi sér vitorðsmenn á Íslandi og í Englandi. Eftir er að afla upplýsinga frá þeim rétthöfum greiðslukortanna, sem búsettir eru erlendis og ganga úr skugga um hversu margar úttektir kærði hafi gert hér á landi. Meðan á frumrannsókn málsins stendur þykir hætta á að kærði nái að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, auk þess sem ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi, en kærði segist engan þekkja á Íslandi og á hér engan samastað. Þykir því óhjákvæmilegt að verða við kröfu rannsóknara eins og hún er sett fram og úrskurða kærða til áframhaldandi gæsluvarðhaldsvistar á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október nk. kl. 16:00.