Hæstiréttur íslands

Mál nr. 612/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Fimmtudaginn 28. október 2010. 

Nr. 612/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 25. ágúst 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2010.

Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 21. september 2010, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu X, kt. [...], [...], [...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um framsal, sbr. 14. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 25.  ágúst 2010 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst réttargæslumaður þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Þann 7. júlí 2009 barst dómsmálaráðuneytinu beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu 7 mánaða fangelsisdóms. Hafa pólsk dómsmálayfirvöld látið þýða beiðnina og gögn sem henni fylgdu yfir á norska tungu. Samkvæmt gögnum málsins er krafist framsals varnaraðila til fullnustu refsidóms héraðsdómsins í [...] frá 31. mars 2005. Með dóminum var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga, sem svarar til 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um fjársvik, með því að hafa þann 26. mars 2004 í [...]-sýslu, í ágóðaskyni fengið nafngreinda konu til þess að greiða sér 4.500 PLN til kaupa á efni til uppsetningar á hitakerfi, en síðan hvorki keypt efnið né endurgreitt fjármunina. Var hann dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, sekt að fjárhæð 50 PLN, og til þess að greiða brotaþola bætur að fjárhæð 4.500 PLN innan 6 mánaða frá því er dómurinn öðlaðist réttaráhrif. Með ákvörðun sama dómstóls frá 29. nóvember 2005 var, með vísan til 2. mgr. 75. gr. pólskra hegningarlaga, kveðið á um að varnaraðili skyldi afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dóminum, þar sem hann hefði ekki fullnægt því skilyrði að greiða brotaþola skaðabætur, heldur horfið af landi brott.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila framsalsbeiðnina 6. október 2009. Kvaðst hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann, en hafnaði henni. Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu umsögn, dags. 19. október 2009, þess efnis að skilyrði framsals teldust uppfyllt, sbr. einkum 3., 9. og 12. gr. laga nr. 13/1984. Þann 21. október 2009 féllst dómsmálaráðuneytið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sbr. 17. gr. laganna. Í ákvörðuninni var tekið fram að persónulegar aðstæður varnaraðila teldust ekki nægilegar til að synja um framsal til Póllands á grundvelli 7. gr. laganna. Að kröfu varnaraðila var lagt fyrir héraðsdóm að úrskurða um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars sl. var ákvörðun dómsmálaráðuneytisins felld úr gildi þar sem telja yrði ósamrýmanlegt meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar að framselja varnaraðila til Póllands. Var m.a. vísað til þess að varnaraðili hefði lagt fram gögn um að hann hefði nú greitt skaðabætur samkvæmt refsidóminum. Með dómi Hæstaréttar Íslands 12. mars sl. í málinu nr. 138/2010 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Í dóminum er rakið að bótagreiðslan hafi átt sér stað 8. febrúar sl., eftir að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal var tekin. Ekki verði séð að varnaraðili hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá ráðherra á þeim grundvelli. Ekki séu efni til að dómstólar hnekki mati dómsmálaráðherra 21. október 2009 og verði því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Óskaði varnaraðili í kjölfarið eftir endurupptöku málsins hjá dómsmálaráðuneytinu með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þann 25. ágúst sl. féllst dómsmálaráðuneytið á ný á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila. Í ákvörðuninni kemur fram að ráðuneytið hafi með tölvubréfi þann 18. febrúar sl. leitað eftir því við pólsk dómsmálayfirvöld hvort þau hygðust afturkalla beiðni um framsal í ljósi þess að varnaraðili hefði greitt skaðabæturnar. Svar pólskra dómsmálayfirvalda hafi borist ráðuneytinu með tölvubréfi 2. mars sl. Þar komi fram að varnaraðila hafi borið að greiða skaðabæturnar fyrir 8. október 2005, það hafi hann ekki gert og með því rofið skilorð refsidómsins. Beiðni um framsal verði því ekki afturkölluð.

Í ákvörðun dómsmálaráðuneytisins er enn fremur vikið að því að við meðferð málsins hafi varnaraðili borið því við að 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi við um aðstæður sínar. Með vísan til sjónarmiða þess ákvæðis hafi varnaraðili einnig borið fyrir sig meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Í ákvörðun ráðuneytisins er rakið að varnaraðili sé 40 ára pólskur ríkisborgari. Persónulegar aðstæður varnaraðila séu annars vegar þær að hann hafi verið búsettur hér á landi í rúm fimm ár og hafi frá því hann fluttist hingað til lands stundað atvinnu hjá nafngreindu fyrirtæki. Varnaraðili uni sér vel á Íslandi, eigi hér fjölskyldu og hafi ekki orðið uppvís að brotum frá því hann kom til landsins. Þá hafi komið fram við meðferð málsins að varnaraðili eigi tvo syni á unglingsaldri í Póllandi. Ráðuneytið hafi lagt heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða 7. gr. laga nr. 13/1984. Niðurstaða ráðuneytisins sé sú að aðstæður varnaraðila séu ekki með þeim hætti að sjónarmið 7. gr. laganna standi í vegi fyrir framsali. Þau atriði sem hafi verið tilgreind og eigi við í málinu, nánar tiltekið 40 ára aldur varnaraðila, að hann hafi dvalist á Íslandi í fimm ár, eigi fjölskyldu og stundi atvinnu, vegi að mati ráðuneytisins ekki nægilega þungt til að sjónarmið 7. gr. laganna standi í vegi fyrir framsali.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila ákvörðun ráðuneytisins þann 10. september sl. og krafðist hann samdægurs úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

Varnaraðili bendir á að hann hafi komið hingað til lands fyrir um fimm árum. Hann búi nú með unnustu sinni og hafi unnið við pípulögn hjá sama fyrirtæki frá júní 2007, en hann sé lærður í þeirri iðngrein. Hann hafi hvorki sætt refsingu áður en né eftir að hann hlaut refsidóminn sem um ræðir. Hann hafi ekki reynt að komast undan réttvísinni í heimalandi sínu, heldur flust hingað til lands að leita sér atvinnu. Hann hafi nú greitt skaðabætur sem hann var dæmdur til. Hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan séu víkjandi þegar borið sé saman við hagsmuni hans, sem stundi hér vinnu og haldi heimili. Við mat á þessum hagsmunum beri að horfa til grófleika brots varnaraðila og þess hve langt er síðan það var framið. Við úrlausn málsins og samanburð á greindum hagsmunum beri að horfa til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafna ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans til Póllands.

Niðurstaða

Krafist hefur verið framsals varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu 7 mánaða fangelsisdóms fyrir brot gegn pólskum hegningarlögum. Brot það sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir myndi varða hann refsingu samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við því liggur allt að sex ára fangelsi. Því er fullnægt skilyrðum 2. gr., 1. mgr. og 1. töluliðar 3. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984. Dæmd refsing myndi hvorki fyrnd né fallin niður, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskyldum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum, sbr. 12. gr. laganna. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagskilyrði framsals séu fyrir hendi.

Varnaraðili telur að mannúðarsjónarmið horfi til þess að hafna beri kröfu um framsal hans og vísar í því sambandi til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra frá 25. ágúst 2010 er fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Ekki eru efni til að hnekkt verði mati ráðherra á því hvort skilyrði þeirrar lagagreinar séu uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því að staðfesta ákvörðun um framsal hans til Póllands.

Þóknun réttargæslumanns er ákveðin 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra frá 25. ágúst 2010 um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.