Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Faðerni
  • Samaðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Sératkvæði


Mánudaginn 2. apríl 2012.

Nr. 180/2012.

A

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

B og

C

(enginn)

 Kærumál. Börn. Faðerni. Samaðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Sératkvæði.

Faðernismáli sem A höfðaði á hendur B og C var vísað frá héraðsdómi þar sem á skorti að allir þekktir lögerfingjar lýsts föður A, sem kynnu að ganga A jafnhliða eða næst að erfðum, væru aðilar að málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2012 sem barst héraðsdómi 12. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. mars 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Um kæruheimildir vísar sóknaraðili til g. og j. liða 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, auk þess að „þeim hluta úrskurðarins um að [sóknaraðili] greiði [varnaraðilanum C] 40.000 kr. í ómaksþóknun, verði hrundið.“ Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar niðurstöðu hans um að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðilanum C 40.000 krónur í ómaksþóknun. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að málskostnaður í héraði og „kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti verði greiddur úr ríkissjóði eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.“

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði andaðist D faðir varnaraðila 21. október 1985. Dómkrafa sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á að D heitinn sé faðir hennar. Samkvæmt gögnum málsins átti hinn látni tvær dætur auk varnaraðila. Í 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að sé maður látinn áður en faðernismál er höfðað á hendur honum megi höfða það á hendur þeim lögerfingja hans sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Í greinargerð með frumvarpi að lagaákvæði þessu kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir því að dánarbú manns geti verið aðili faðernismáls þar sem þá gætu vaknað spurningar um aðild ef skiptum væri lokið á búi hans. Sé lýstur faðir látinn fari best á því að þeim sé stefnt sem gangi jafnhliða eða næst barninu að erfðum eftir hann. Falli bréferfingjar eðli málsins ekki hér undir heldur aðeins lögerfingjar. Verður ákvæði þetta ekki skilið á annan veg en að þegar lýstur faðir er látinn verði sóknaraðili faðernismáls að gefa öllum þekktum lögerfingjum, hins lýsta föður sem kunna að ganga sóknaraðila jafnhliða eða næst að erfðum, kost á að láta mál til sín taka, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Samkvæmt 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður sóknaraðila á báðum dómstigum úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hennar. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila þannig að ekki sé krafist endurskoðunar á ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun og verður hún því staðfest að gættu því að ekki er um gjafsóknarkostnað að ræða. Þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað.

Þóknun lögmanns sóknaraðila, A, í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 430.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði andaðist D faðir varnaraðila 21. október 1985. Dómkrafa sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á að D heitinn sé faðir hennar. Samkvæmt 1. gr. barnalaga á sóknaraðili rétt á að þekkja báða foreldra sína. Miða reglur laganna að sínu leyti að því að tryggja þennan rétt. Í 12. gr. laganna er kveðið svo á að faðernismál skuli sæta almennri meðferð einkamála „að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum.“

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. getur sóknaraðili höfðað málið á hendur þeim lögerfingja D sem gengur sóknaraðila jafnhliða eða næst að erfðum. Í hinum kærða úrskurði var talið að samhliða þessu yrði beitt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um samaðild og þess vegna verði sóknaraðili að stefna öllum sem framangreind lýsing í 2. mgr. 10. gr. á við. Sóknaraðili hefur mótmælt þessum skilningi og telur að fremur sé um svonefnda samlagsaðild að ræða sem kveðið sé á um í 19. gr. laga nr. 91/1991. Þess vegna sé nóg að stefna einum þeirra aðila sem lýsingin eigi við.

Það er einkenni á faðernismálum að úrslit þeirra kunna að snerta lögvarða hagsmuni fleiri manna en þeirra sem aðild eiga að málunum samkvæmt barnalögum. Þannig geta málsúrslit til dæmis haft áhrif á erfðarétt annarra og í öðrum tilvikum leitt til hjúskapartálma sbr. ákvæði um hjónavígsluskilyrði í II. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kveðið er á um málsaðildina í 10. gr. barnalaga. Af ákvæðinu leiðir til dæmis að ekki er nauðsynlegt að barn eigi sjálft aðild að máli sem móðir þess höfðar á hendur manni til viðurkenningar á að hann sé faðir þess. Höfði maður mál til viðurkenningar á því að hann sé faðir barns gildir sambærileg regla, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna.

Ætla verður að sum frávik barnalaga frá almennum reglum einkamálaréttarfars stafi einkum af þörfinni til að sjá við vandamálum sem af framangreindum aðildarreglum kunna að stafa. Þar má nefna takmarkanir á reglum um forræði málsaðila á sakarefni máls, sbr. til dæmis 16. gr. barnalaga, þar sem gert er ráð fyrir sérstökum atbeina dómara að gagnöflun í máli. Einnig má um þetta nefna ákvæði 24. gr. laganna sem felur í sér að heimild aðila máls til að ljúka máli til vefengingar á faðerni barns með sátt gildir því aðeins að sáttin sé í samræmi við niðurstöður mannerfðafræðilega rannsókna. Hið sama yrði sjálfsagt talið gilda um lyktir máls samkvæmt 18. gr. laganna. Sátt mætti ekki gera í andstöðu við slíka rannsókn.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. barnalaga má, ef sá maður sem stefnandi telur föður sinn er látinn, höfða málið á hendur „þeim lögerfingja hans sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum.“ Hér er ekki gerð krafa um að öllum sem svona er ástatt um sé stefnt. Ljóst er að erfitt eða jafnvel ómögulegt gæti orðið fyrir þann sem höfða vill mál til viðurkenningar á faðerni sínu að öðlast vitneskju um alla sem fallið geta undir þessa skilgreiningu. Með hliðsjón af þessu og fyrrgreindum sérkennum faðernismála verður talið að sóknaraðila hafi verið heimilt að beina kröfum sínum aðeins að varnaraðilum, sem ágreiningslaust er að falli bæði undir framangreinda skilgreiningu í 2. mgr. 10. gr. barnalaga, án þess að stefna um leið öðrum sem eins stendur á um.

Samkvæmt þessu ber því að mínum dómi að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Ég er sammála meirihluta réttarins um kostnað af málinu.

      

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2012.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 22. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. [...], [...], [...], með stefnu, birtri 20. og 23. september 2011, á hendur B, kt. [...], [...], [...], og C, kt. [...], [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu B og C, verði dæmd til að þola, að faðir þeirra, D, kt. [...], sem lézt [...], verði dæmdur faðir hennar. Þá er þess krafizt, að þóknun lögmanns stefnanda verði greidd úr ríkissjóði, svo og annar málskostnaður stefnanda.

Dómkröfur stefndu, B samkvæmt greinargerð eru þær, að málið verði fellt niður.

Dómkröfur stefnda, C samkvæmt greinargerð eru þær, að málið verði fellt niður, auk þess sem hann krefst bóta úr hendi stefnanda vegna fjárhagslegs tjóns, leiðinda, hugarangurs og vinnu við málið.

II

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu, að hún sé fædd hinn 28. ágúst 1967, en á hugsanlegum getnaðartíma hennar hafi móðir hennar haft samfarir við fleiri en einn mann, þ.e. E, kt. [...], og föður stefndu, D.

Móðir stefnanda og nefndur E hafi verið í sambúð á árunum 1961 til 1973, en meðan á þeirri sambúð stóð, hafi stefnandi verið getin. Í tengslum við sambúðarslit móður stefnanda og E árið 1973, hafi E gengizt við faðerni stefnanda hjá Sakadómi Reykjavíkur. Í seinni hluta júnímánaðar 2004 hafi farið fram mannerfðafræðileg rannsókn á rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði við Landspítala Háskólasjúkrahúss, þar sem rannsakað hafi verið blóð stefnanda og E, í þeim tilgangi að kanna faðerni hennar. Lá niðurstaða þeirrar rannsóknar fyrir hinn 1. september 2004, og hafi hún útilokað, að E gæti verið faðir stefnanda. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 21. desember 2004 í máli nr. E-8904/2004, sem höfðað hafi verið af E, hafi verið staðfest, að E væri ekki faðir stefnanda.

Á getnaðartíma stefnanda hafi móðir stefnanda starfað um nokkurt skeið hjá föður stefndu í verzlun hans, [...], sem starfrækt hafi verið í [...]. Á sama tíma hafi þau átt í kynferðislegu sambandi.

Móðir stefnanda fullyrði, að hún hafi ekki átt í kynferðislegu sambandi við aðra menn á getnaðartíma stefnanda en þá E og föður stefndu. Þá hafi faðir stefndu endrum og eins haft samband við fjölskylduna, þegar stefnandi var lítil telpa, og gefið henni reiðhjól, þegar hún var á sjötta aldursári. Stefnandi hafi því rökstuddan grun um, að faðir stefndu sé einnig faðir hennar.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi vísar til framangreindrar málavaxtalýsingar kröfum sínum til stuðnings, og kveður nauðsynlegt að leysa úr faðernismáli þessu með dómi, sbr. 5. mgr. 4. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því, að leyst verði úr faðernismáli þessu, þannig að staðfest verði með dómi, að faðir stefndu sé einnig faðir hennar. Þeir lögvörðu hagsmunir helgist fyrst og fremst af hinum ríku hagsmunum stefnanda af því, að hún sé réttilega feðruð, sbr. t.d. 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá sé enn fremur vísað til hagsmuna þjóðfélagsins alls af  því, að þegnar þess séu rétt feðraðir.

Um heimild til málshöfðunarinnar vísist til II. kafla barnalaga nr. 76/2003, sbr. einnig 1. og 4. gr. þeirra laga.

Um aðild málsins vísist til 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Faðir stefndu hafi verið látinn áður en mál þetta hafi verið höfðað. og beri stefnanda því nauðsyn til að höfða málið á hendur þeim stefndu, B og C, sbr. 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Um varnarþing vísist til 9. gr. barnalaga og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefndu eigi samaðild að málinu.

Krafa stefnanda um málskostnað sé byggð á 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 og vísað til þess, að það séu fyrst og fremst hinir ríku hagsmunir einstaklings af því að vera rétt feðraður, sem hafðir séu að leiðarljósi, þegar mælt sé fyrir um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði í faðernismáli. Þyki þannig eðlilegt, að ávallt sé tryggt, að sá, sem leiti sannleikans um uppruna sinn, þurfi ekki að bera kostnað vegna slíks málareksturs.

Í þessum þætti málsins er einungis fjallað um ábendingu dómara um að mál þetta kunni að sæta frávísun ex officio, þar sem börnum D heitins sé ekki öllum stefnt í málinu og gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna.

Af hálfu stefnanda er þessum sjónarmiðum mótmælt og þess krafizt, að málið verði rekið áfram með óbreyttri aðild, án aðkomu systkina stefndu, sem búsett eru í [...]. Þá er kröfu stefndu um ómaksþóknun mótmælt sem of seint fram kominni, auk þess sem kostnaður stefndu af málaferlunum sé ósannaður, þar sem engin gögn hafi verið lögð fram kröfum þeirra til stuðnings.

Málsástæður stefndu, B og C

Í þessum þætti málsins lýsa stefndu því yfir, að þau telji, að vísa beri málinu frá dómi og gera kröfu um ómaksþóknun úr hendi stefnanda, en þau hafi misst úr vinnu til skiptis í öllum fyrirtökum málsins.      

IV

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 má höfða mál á hendur þeim lögerfingja látins, meints föður, sem gengi barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Verður að skýra greinina svo, sbr. og 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, að sé um fleiri en einn lögerfingja að ræða, sem gengur jafnhliða barninu eða næst að erfðum, verði að stefna þeim öllum. Með því að fyrir liggur, að hinn látni, átti, auk stefndu í máli þessu, tvær dætur, sem búsettar eru í [...], og myndu því ganga stefnanda og stefndu jafnhliða að erfðum, reynist hinn látni vera faðir stefnanda, verður mál þetta ekki rekið, án þess að þeim verði stefnt og gefinn kostur á að gæta réttar síns í máli þessu. Er því ekki hjá því komizt að vísa máli þessu frá dómi ex officio.

Stefndu gerðu kröfu um greiðslu ómaksbóta, þegar málið var tekið til úrskurðar. Af hálfu stefnanda var þeirri kröfu mótmælt sem of seint fram kominni.

Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, skulu kröfur stefnds í máli koma fram í greinargerð og verður nýjum kröfum ekki komið að á síðari stigum, nema stefnandi samþykki.

Í greinargerð stefndu B er ekki gerð krafa um málskostnað eða ómaksþóknun. Er kröfu hennar því hafnað, sem of seint fram kominni.

Í niðurlagi greinargerðar stefnda C er krafizt bóta úr hendi stefnanda vegna fjárhagslegs tjóns, leiðinda, hugarangurs og ómældrar vinnu, sem farið hafi í mál þetta frá upphafi. Felst í orðalagi stefnda krafa um ómaksþóknun og ber því að taka kröfu hans til greina. Ómaksþóknun honum til handa þykir hæfilega ákveðin kr. 40.000, en engin gögn liggja fyrir um launatap vegna málaferla þessara.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, kr. 180.000, en við þá ákvörðun hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður milli stefnanda og stefndu, B, fellur niður.

Stefnandi, A, greiði stefnda, C, kr. 40.000 í ómaksþóknun.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 180.000, greiðist úr ríkissjóði.