Hæstiréttur íslands

Mál nr. 723/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skuldajöfnuður
  • Lagaskil


                                              

Miðvikudaginn 19. desember 2012.

Nr. 723/2012.

Commerzbank AG

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldajöfnuður. Lagaskil.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem synjað var kröfu C um að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara spurningum er lutu að því hvort að um skuldajöfnuð kröfu C og kröfu K hf. færi að enskum rétti og hvort ensk lög heimiluðu þann skuldajöfnuð. Í málinu var á því byggt af hálfu C að samkvæmt samningi aðila skyldu ensk lög gilda um samninginn og þar með um heimild til skuldajafnaðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skyldu lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda um rétt C við slit K hf. til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu K hf. Beiðni C um dómkvaðningu matsmanns til að afla matsgerðar um efni enskra laga um skuldajafnaðarrétt hans við slitin væri því bersýnilega um atriði sem ekki skipti máli við úrlausn á ágreiningi aðila og því tilgangslaus til sönnunar í málinu. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2012 þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur yrði lögfræðingur „til að rannsaka, meta og svara“ nánar tilgreindum spurningum í matsbeiðni sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddur verði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur „til að rannsaka, meta og svara“ nánar tilgreindum spurningum sem fram koma í matsbeiðni sóknaraðila 10. október 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Forsaga máls þessa er sú að aðilar gerðu 7. janúar 2003 með sér rammasamning um afleiðuviðskipti ásamt viðauka sem hafði að geyma nánari útfærslur um framkvæmd viðskiptanna. Ágreiningslaust er að sama dag og varnaraðila var skipuð skilanefnd lauk sjálfkrafa afleiðuviðskiptum aðila og í kjölfarið voru þau gerð upp. Niðurstaða uppgjörsins var sú að varnaraðili átti vegna afleiðuviðskiptanna kröfu á hendur sóknaraðila að fjárhæð 86.128.529,14 evrur, sbr. bréf sóknaraðila til varnaraðila 10. desember 2009. Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 14. nóvember 2008 lýsti sóknaraðili gagnkröfu til skuldajafnaðar við framangreindu kröfu varnaraðila. Gagnkröfuna reisti hann á skuldaviðurkenningu sem varnaraðili gaf út 4. maí 2004 til Erste Europäische Pfandbrief- und Kommunalkreditbank AG í Luxemborg, dótturfélags sóknaraðila, að fjárhæð 20.000.000 bandaríkjadalir, en þá kröfu fékk sóknaraðili framselda frá dótturfélaginu 14. nóvember 2008.

Sóknaraðili mun hafa lýst 29. desember 2009 kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 20.776.742,04 bandaríkjadalir, og er það sú krafa sem sóknaraðili fékk framselda og fyrr er frá greint. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila 17. ágúst 2010 var sóknaraðila tilkynnt að lýst krafa hans hefði verið samþykkt sem almenna krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitin, samtals að fjárhæð 2.715.727.952 krónur. Í sama bréfi var sóknaraðila jafnframt tilkynnt að skuldajöfnuði hans væri hafnað þar sem skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991 væri ekki fullnægt. Afstöðu slitastjórnar hvað skuldajöfnuðinn varðar mótmælti sóknaraðili með bréfi 21. september 2010 með þeim rökum að ensk lög giltu um skuldajöfnuðinn en ekki ákvæði laga nr. 21/1991. Ekki tókst að jafna ágreining aðila um skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila og með bréfi slitastjórnar til Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2010 var þeim ágreiningi vísað til héraðsdóms, sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991.

II

Efnislegur ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það eitt hvort sóknaraðila sé heimilt að skuldajafna framangreindri kröfu samkvæmt skuldaviðurkenningunni 4. maí 2004 við kröfu varnaraðila vegna afleiðuviðskiptanna. Rétt sinn til skuldajafnaðar reisir sóknaraðili á 5. gr. (c) í viðauka við rammasamninginn um afleiðuviðskiptin sem hann telur veita sér skýran og víðtækan rétt í þeim efnum. Sakarefnið fari að öllu leyti eftir lögum Englands með vísan til þess í fyrsta lagi að í rammasamningnum og viðaukanum komi fram að samningurinn skuli „ráðast af og vera túlkaður í samræmi við lög Englands.“ Í öðru lagi vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt j. lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki skuli fara með samning um skuldajöfnuð eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda. Í þessu tilviki sé það rammasamningurinn sem gildi ásamt viðaukanum. Löggjöf um gjaldþrotaskipti í Englandi og meginreglur enskra laga um skuldajöfnuð heimili sóknaraðila að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila gagnvart kröfu varnaraðila á hendur sér, og sá réttur haldist þótt varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar. Varnaraðili hafnar rétti sóknaraðila til skuldajafnaðar þar sem krafa hans fullnægi ekki skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991, en þar sé þess getið að kröfuhafi verði að hafa eignast kröfuna þremur mánuðum fyrir frestdag. Því sé ekki að heilsa í tilviki sóknaraðila. Hann hafi fengið gagnkröfuna framselda frá dótturfélagi sínu 14. nóvember 2008, og þar með innan þriggja mánaða fyrir frestdag, sem verið hafi 15. sama mánaðar, og þá gagngert til að lýsa yfir skuldajöfnuði.

III

Eins og fyrr greinir gerir sóknaraðili þá kröfu í kærumáli þessu að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja hæfan, óvilhallan og sérfróðan lögfræðing „til að rannsaka, meta og svara“ tveimur spurningum sem greindar eru í matsbeiðni sóknaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2012. Fyrri spurningin er sú hvort fari um „skuldajöfnuð kröfu [sóknaraðila] á hendur [varnaraðila] samkvæmt USD 20.000.000 skuldaviðurkenningu (þ. Schuldschein) frá 10. maí 2004 („Krafan“) gegn skuld [sóknaraðila] við [varnaraðila] vegna ISDA rammasamnings og viðauka við hann á milli [sóknaraðila] og [varnaraðila] frá 7. janúar 2003 („Skuldin“) að enskum rétti samkvæmt enskum lögum.“ Síðari spurningin er sú hvort ensk lög heimili „þar með talin en án takmarkana ensk gjaldþrotalög, [sóknaraðila] að jafna Skuldinni á móti Kröfunni með skuldajöfnuði?“ 

IV

Í kjölfar setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., vék félagsstjórn frá störfum 9. október 2008 og skipaði bankanum skilanefnd sama dag. Eftir gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn 25. maí 2009, sbr. 4. tölulið V. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 161/2002. Frestdagur við slitin var 15. nóvember 2008, sbr. 3. gr. laga nr. 129/2008, og upphafsdagur slita við greiðslustöðvun var 22. apríl 2009, sbr. 2. tölulið V. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 161/2002.

Í 104. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, nái sú heimild sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar fer að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í 1. mgr. hinnar síðastnefndu lagagreinar kemur fram að veiti dómstóll hér á landi lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðru aðildarríki. Þá segir í 2. mgr. að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem talin eru upp í a. til n. liðum ákvæðisins. Samkvæmt j. lið skulu samningar um skuldajöfnuð fara að lögum þess ríkis sem um samninginn gilda.

Í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kemur á hinn bóginn fram að við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur fyrirtækinu falli í gjalddaga. Samningsákvæði það um skuldajöfnuð sem sóknaraðili vísar til fjallar almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar í lögskiptum aðila og getur ekki haft áhrif á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fara hér á landi. Af þessu leiðir að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög. Beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns til þess að afla matsgerðar um efni enskra laga um skuldajafnaðarrétt hans við slitin er því bersýnilega um atriði sem ekki skiptir máli við úrlausn á ágreiningi aðila og því tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest og er þá ekki efni til að fjalla sérstaklega um aðra þá annmarka sem eru á matsbeiðni sóknaraðila og kynnu að leiða til sömu niðurstöðu.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Commerzbank AG, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2012.

Mál þetta var þingfest 5. janúar 2011. Að undangengnum munnlegum málflutningi 12. október sl. var tekin til úrskurðar sú krafa sóknaraðila, Commerzbank AG, Kaiserplatz, D-60261 Frankfurt/Main, Þýskalandi, að dómkvaddur yrði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara eftirfarandi matsspurningum, sbr. matsbeiðni sóknaraðila, dagsetta 10. október 2012, er lögð var fram í upphafi þinghaldsins:

a)       Fer um skuldajöfnuð kröfu matsbeiðanda á hendur matsþola samkvæmt USD 20.000.000 skuldaviðurkenningu (þ. Schuldschein) frá 10. maí 2004 („Krafan“) gegn skuld matsbeiðanda við matsþola vegna ISDA rammasamnings og viðauka við hann á milli matsbeiðanda og matsþola frá 7. janúar 2003 („Skuldin“) að enskum rétti samkvæmt enskum lögum?

b)       Heimila ensk lög, þar með talin en án takmarkana ensk gjaldþrotalög, matsbeiðanda að jafna Skuldinni á móti Kröfunni með skuldajöfnuði?

Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila í þessum þætti málsins.

Varnaraðili, Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík, gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að hrundið verði kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur verði matsmaður á grundvelli ofangreindrar matsbeiðni sóknaraðila.

I.

Mál þetta er til komið vegna þeirrar kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að skuldajafna kröfu sinni, eins og hún hefur verið samþykkt af slitastjórn varnaraðila að fjárhæð 2.715.727.952 krónur, gagnvart kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, en sú krafa á rætur að rekja til uppgjörs á afleiðuviðskiptum málsaðila á grundvelli ISDA-rammasamnings ásamt viðauka við hann á milli málsaðila 7. janúar 2003. Í málinu krefst sóknaraðili einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Kröfur varnaraðila í málinu eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.

II.

Í þinghaldi 30. janúar 2012 lýsti sóknaraðili því yfir að gagnaöflun í málinu væri lokið af hans hálfu að því undanskildu að eftir væri að leggja fram íslenska þýðingu á lögfræðiáliti, dagsettu 27. janúar 2012, sem sóknaraðili hafði lagt fram í þinghaldinu. Ákvað dómari við svo búið að aðalmeðferð í málinu færi fram 25. apríl 2012.

Með bréfi 18. apríl 2012 upplýsti lögmaður sóknaraðila að umbjóðandi hans hygðist leiða fyrir dóm við aðalmeðferð málsins höfunda framlagðra álitsgerða um ensk og þýsk lög, Antoni Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler, í því skyni að staðfesta framlagðar álitsgerðir, svo og til að svara spurningum lögmanna aðila og dómsins um efni álitsgerðanna. Eftir að hafa fengið bréf lögmanns sóknaraðila í hendur ákvað dómari að taka ofangreindan ágreining aðila til meðferðar í þinghaldi 25. apríl sl. í stað þess að aðalmeðferð málsins færi fram, svo sem áður hafði verið boðað.

Með úrskurði 25. maí 2012 féllst dómurinn á kröfu sóknaraðila þess efnis að honum yrði heimilað að leiða fyrir dóm Antony Zacaroli QC og Dr. Marc Benzler sem vitni í málinu í fyrrgreindum tilgangi. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti féll sóknaraðili frá kröfu sinni um að leiða Dr. Marc Benzler sem vitni í málinu. Hann krafðist aftur á móti staðfestingar úrskurðar héraðsdóms um að honum væri heimilt að leiða Antony Zacaroli QC sem vitni í áðurnefndum tilgangi. Með dómi Hæstaréttar 16. ágúst sl. var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og kröfu sóknaraðila (varnaraðila fyrir Hæstarétti) um að leiða Antoni Zacaroli QC sem vitni í málinu synjað með svofelldum rökstuðningi:

Sönnunarskyldu um efni og tilvist réttarreglu samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki fullnægt með því að afla álits hjá erlendum málflytjendum eða öðrum sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Fyrir liggur að maður sá sem varnaraðili krefst að gefi vitnaskýrslu er ekki vitni að málsatvikum sem valda ágreiningi milli málsaðila. Samkvæmt þessu og með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um vitnaleiðsluna synjað.

Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar setti dómari sig í samband við lögmenn aðila vegna fyrirhugaðrar boðunar til aðalmeðferðar í málinu. Skömmu síðar upplýsti lögmaður sóknaraðila dómara og lögmann varnaraðila um það í tölvupósti að vegna ummæla í forsendum dóms Hæstaréttar teldi sóknaraðili sig knúinn til að leggja fram matsbeiðni í málinu þar sem óskað yrði eftir því að dómkvaddur yrði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara mats­spurningum þeim sem reifaðar eru að framan. Í þinghaldi 12. október sl. lagði sóknaraðili síðan fram matsbeiðni sína. Mótmælti lögmaður varnaraðila því að dómkvaddur yrði matsmaður á grundvelli matsbeiðni sóknaraðila. Í kjölfarið gaf dómari lögmönnum málsaðila færi á að tjá sig um upp kominn ágreining og að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar um kröfu sóknaraðila.

III.

Sóknaraðili hefur meðal annars vísað til þess að honum beri skv. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sanna tilvist og efni þeirra erlendu laga sem hann byggi á í málinu og í þeim tilgangi hafi hann lagt fram lögfræðilegar álitsgerðir. Samkvæmt málsforræðisreglu einkamálaréttarfars hafi hann forræði á sönnunarfærslu í málinu, þ.m.t. á því hvaða aðferð hann beiti við sönnunarfærsluna.

Vegna ummæla í forsendum dóms Hæstaréttar frá 16. ágúst sl. hafi sóknaraðili talið sig knúinn til að leggja fram matsbeiðni í málinu og óska eftir því að dómkvaddur verði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara fyrrgreindum mats­spurningum. Sé matsgerðinni ætlað að styrkja sönnun um tilvist og efni þeirra erlendu laga sem sóknaraðili byggi á í málinu. Um sé að ræða nauðsynlega sönnunarfærslu og því sé hér ekki svo ástatt sem um ræði í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi sóknaraðili sérstaklega til þess að með dómi Hæstaréttar, þar sem vikið hafi verið frá dómvenju, hafi forsendur brostið fyrir yfirlýsingu sóknaraðila í þinghaldi 30. janúar sl. um að gagnaöflun í málinu væri lokið.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að allar þrjár undantekningarheimildir 3. málsliðar 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í máli þessu. Dómkvaðning matsmanns muni ekki valda töfum á málinu, enda hafi aðalmeðferð þess enn ekki verið ákveðin. Sóknaraðili hafi enga réttmæta ástæðu haft til annars en haga gagnaöflun með öðrum hætti en hann gerði í upphafi fyrr en að gengnum áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Þá hafi framlagning málsaðila á hinum erlendu álitsgerðum ekki sætt neinum athugasemdum frá dómara málsins.

Sóknaraðili tekur sérstaklega fram að rangt sé hjá varnaraðila að grundvelli málsins verði raskað, fallist dómurinn á beiðni hans um dómkvaðningu matsmanns. Það eitt myndi breytast að til stuðnings fyrirliggjandi álitsgerðum hinna erlendu sérfræðinga, eða eftir atvikum í stað þeirra, kæmi matsgerð dómkvadds matsmanns.

IV.

Varnaraðili hefur vísað til þess að sóknaraðili hafi lýst því yfir, án fyrirvara, að gagnaöflun í málinu sé lokið, sbr. yfirlýsingu lögmanns hans í þinghaldi 30. janúar sl. Varnaraðili segir enga þeirra undantekninga sem nefndar séu í 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eiga hér við. Augljóst sé að dómkvaðning matsmanns myndi valda töfum á málinu. Þá liggi fyrir að enginn áskilnaður hafi verið í greinargerð sóknaraðila um öflun matsgerðar á síðari stigum málsins og hefði sóknaraðili fyrir löngu getað verið búinn að leggja fram matsbeiðni sína í málinu, og það áður en hann lýsti því yfir að gagnaöflun væri lokið af hans hálfu. Sóknaraðili freisti þess nú að leggja nýjan grunn að máli sínu en það sé honum ekki heimilt. Hann geti ekki á þessu stigi barið í þá bresti sem séu, og hafi frá upphafi verið, á málatilbúnaði hans.

Að endingu tekur varnaraðili fram, hvað 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 varðar, að hann fái alls ekki séð að skort hafi á leiðbeiningar dómara eða ábendingar til sóknaraðila, svo réttlætt geti hina umbeðnu dómkvaðningu.

Varnaraðili mótmælir sérstaklega matsspurningum þeim sem fram eru settar í matsbeiðni sóknaraðila. Hann kveður spurningarnar fela í sér beiðni til matsmanns um túlkun á þeim réttarreglum sem við eigi í málinu og mat hans á réttri niðurstöðu í því, en ekki lýsingu á efni erlendra réttarreglna. Þá blandi sóknaraðili atvikum málsins inn í spurningar sínar. Enn fremur sé í spurningunum ekki tilgreint hvaða lagaregla það sé sem matsmaður eigi að fjalla um. Í raun sé sóknaraðili að biðja matsmann um að dæma málið, eða í það minnsta hluta þess, en það sé ekki hlutverk dómkvaddra matsmanna að lögum.

V.

Skv. 1. og 2. málslið 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 ákveður dómari að jafnaði ekki hvenær þing verði háð til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram slík gögn. Frá þessu getur dómari þó vikið ef það veldur ekki töfum á máli, ekki hefur áður verið unnt að afla tiltekinna gagna eða skort hefur á leiðbeiningar hans eða ábendingar.

Fyrir liggur að í þinghaldi 30. janúar 2012 var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að gagnaöflun í málinu væri lokið af hans hálfu að því undanskildu að eftir væri að leggja fram íslenska þýðingu á lögfræðiáliti, dagsettu 27. janúar 2012. Í sama þinghaldi ákvað dómari að aðalmeðferð í málinu færi fram 25. apríl 2012. Ekki varð af aðalmeðferð í málinu þann dag, svo sem reifað er í kafla II hér að framan. Það breytir því hins vegar ekki að málsaðilar voru undir það búnir að aðalmeðferð málsins færi þá fram í samræmi við ákvörðun dómara. Að þessu sögðu þykir augljóst vera að verði fallist á kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns myndi það valda frekari töfum á málinu.

Samkvæmt framlagðri greinargerð sóknaraðila byggir hann á því að um sakarefni málsins fari að öllu leyti samkvæmt enskum lögum og eru í greinargerðinni færð rök fyrir þeirri niðurstöðu. Skv. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós.

Ekki verður séð að nokkuð hafi staðið því í vegi að sóknaraðili legði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns fyrr en hann gerði, og það löngu áður en gagnaöflun var lýst lokið af hans hálfu í þinghaldi 30. janúar sl. Sóknaraðili ákvað að axla þá sönnunarbyrði sem á hann er lögð í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 með því að afla og leggja fram álitsgerðir ensks lögmanns, Antony Zacaroli QC. Var í greinargerð hans enginn áskilnaður gerður um öflun matsgerðar á síðari stigum málsins. Ljóst er að ástæðan fyrir sinnaskiptum sóknaraðila að þessu leyti eru áður tilvitnuð orð í forsendum dóms Hæstaréttar frá 16. ágúst sl. Í því máli var hins vegar ekki til úrlausnar sönnunargildi hinna framlögðu erlendu álitsgerða heldur hvort sóknaraðila væri heimilt að leiða höfund þeirra fyrir dóm til að gefa skýrslu vitnis. Samkvæmt því og að öðru framangreindu virtu verður hin umbeðna dómkvaðning ekki réttlætt á þeim grunni að ekki hafi áður verið unnt að afla matsgerðar um tilvist og efni þeirra erlendu réttarreglna sem sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á.

Svo sem áður hefur verið nefnt verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili hefur í því sambandi réttilega á það bent að hann hefur samkvæmt málsforræðis­reglu einkamálaréttarfars forræði á sönnunarfærslu í málinu, þ.m.t. á því hvaða aðferð hann beitir við sönnunarfærsluna. Það var því ekki dómarans að hafa afskipti af því af sjálfsdáðum hvernig sóknaraðili hagaði sönnunar­færslu sinni. Að því sögðu verður ekki séð hvernig hin umbeðna dómkvaðning verður réttlætt með vísan til þess að skort hafi á leiðbeiningar dómara eða ábendingar.

Þegar að framangreindu virtu og með vísan til 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þykir verða að synja kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur verði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara þeim matsspurningum er fram koma í matsbeiðni sóknaraðila, dagsettri 10. október 2012, sem lögð var fram í málinu 12. sama mánaðar.

Samkvæmt framangreindum niðurstöðum dómsins eru, hvað þennan þátt málsins varðar, ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að hér að framan.

Málskostnaður úrskurðast ekki í þessum þætti málsins.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Kristinn Halldórsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjað er þeirri kröfu sóknaraðila, Commerzbank AG, að dómkvaddur verði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara þeim matsspurningum er fram koma í matsbeiðni sóknaraðila, dagsettri 10. október 2012, sem lögð var fram í málinu 12. sama mánaðar.

Málskostnaður úrskurðast ekki.