Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-13

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Jóni Baldvini Hannibalssyni (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisleg áreitni
  • Sönnun
  • Refsilögsaga
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. janúar 2023, sem barst Hæstarétti 30. sama mánaðar, leitar Jón Baldvin Hannibalsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. desember 2022 í máli nr. 758/2021: Ákæruvaldið gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 14. sama mánaðar. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir kynferðislega áreitni samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 16. júní 2018, á heimili sínu í Granada á Spáni, strokið utan klæða upp og niður eftir rassi brotaþola.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af sakargiftum og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans ákveðin tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í dómi Landsréttar kom fram að sýknukrafa leyfisbeiðanda hefði í fyrsta lagi verið á því reist að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga yrði íslenskum ríkisborgurum aðeins refsað á Íslandi fyrir brot sem framin eru erlendis ef brotið er jafnframt refsivert eftir lögum viðkomandi ríkis og að slík sönnun hefði ekki tekist í málinu. Landsréttur taldi ekkert hafa komið fram í málinu sem gæfi tilefni til að hrófla við þeirri niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 70/2021, er felldi fyrri niðurstöðu héraðsdóms um frávísun málsins úr gildi, að ákvæði 1. mgr. 181. gr. spænskra hegningarlaga tæki til kynferðislegrar áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga. Ákæruvaldið hefði því axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi um að ætlað brot leyfisbeiðanda gegn því ákvæði væri jafnframt refsivert eftir spænskum lögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga. Þá vísaði rétturinn til þess að sýknukrafa leyfisbeiðanda hefði í öðru lagi verið á því reist að ósannað væri að hann hefði sýnt af sér þá háttsemi sem honum hefði verið gefin að sök í ákæru. Í því efni komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hefði fært á það sönnur, annars vegar með trúverðugum framburði brotaþola og því sem honum væri til stuðnings og hins vegar með vætti móður hennar, gegn neitun leyfisbeiðanda, svo ekki yrði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að leyfisbeiðandi hefði viðhaft þá háttsemi sem honum væri gefin að sök samkvæmt ákæru.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hann meðal annars til þess að ekki liggi fyrir sönnun um að hin ætlaða háttsemi sem honum sé gefin að sök samkvæmt ákæru sé refsiverð eftir 181. spænskra hegningarlaga, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga. Þörf sé á fordæmi Hæstaréttar um beitingu ákvæðisins og um þær kröfur sem gera verði til sönnunar á tilvist og efni erlendra lagareglna. Þá telur leyfisbeiðandi að slíkir annmarkar séu á sönnunarmati Landsréttar að leitt geti til ómerkingar hans, meðal annars sé framburður brotaþola og móður hennar mótsagnakenndur í mörgu tilliti. Loks reisir hann beiðnina á því að hann hafi verið sýknaður í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti og því sé fullnægt skilyrði lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.