Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2008
Lykilorð
- Líkamstjón
- Bifreið
- Umferðarlög
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2008. |
|
Nr. 77/2008. |
Guðrún Jóna Bragadóttir(Hilmar Magnússon hrl.) gegn Magnúsi Inga Stefánssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Líkamstjón. Bifreiðir. Umferðarlög. Fyrning.
G slasaðist í umferðarslysi í september 1999 þegar bifreið í eigu M var ekið aftan á bifreið G. Bifreið M var tryggð hjá V sem hafði gengist við bótaábyrgð á líkamstjóni G. Aðila greindi á um hvort skaðabótaskylda hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. laga nr. 50/1987 þegar málið var höfðað. Deildu þeir um hvenær G hefði átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. G byggði aðallega á því að ekki hefði verið kominn sá tími er hún fékk vitneskju um kröfu sína og hefði átt þess kost að leita fullnustu hennar fyrr en á árinu 2005 þegar lokavottorð meðferðarlæknis hefði legið fyrir og hefði fyrningarfrestur því byrjað að líða frá lokum þess árs. Til vara byggði G á því að fyrningarfresturinn hefði rofnað þegar V hefði á árinu 2005 tekið þátt í að beiðast mats hjá tveimur læknum á afleiðingum slyssins án þess að gera þá fyrirvara um fyrningu á kröfu G. Talið var miðað við niðurstöðu yfirmatsins að G hefði átt að geta lokið gagnaöflun um kröfuna á árinu 2001 og var því lagt til grundvallar að hún hefði átt þess kost að leita fullnustu hennar á því ári. Samkvæmt 99. gr. 50/1987 hófst fyrningarfrestur í lok árs 2001 og var sá frestur því runninn út þegar G höfðaði málið. Ekki var fallist á með G að þátttaka V í að beiðast mats á afleiðingum slyssins hefði falið í sér viðurkenningu sem rofið hefði fyrningu kröfu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905. Voru M og V því sýknuð á kröfum G um skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2008. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennd verði óskipt bótaábyrgð stefndu vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðaróhappi þann 8. september 1999, er bifreiðinni ZM 799 sem var ekið til vesturs eftir vinstri akrein Miklubrautar lenti aftan á bifreið áfrýjanda YK 770 á móts við Stigahlíð í Reykjavík. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar áskildi áfrýjandi sér rétt til að leggja fram ný gögn við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að fengnu leyfi réttarins. Var nefnt í greinargerðinni að meðal slíkra gagna væri yfirmatsgerð. Sameiginlegum fresti málsaðila til gagnaöflunar lauk 28. maí 2008. Með bréfi til Hæstaréttar 3. júlí 2008 óskaði áfrýjandi eftir að leggja fram yfirmatsgerð sem hann hefði aflað eftir uppsögu héraðsdóms. Fylgdi bréfinu yfirmatsgerð 18. júní 2008. Með bréfi 21. júlí 2008 sendi áfrýjandi Hæstarétti síðan endurrit Héraðsdóms Reykjavíkur vegna skýrslna sem teknar höfðu verið fyrir dómi 16. júlí 2008 af tveimur þriggja yfirmatsmanna ásamt tveimur skjölum sem vörðuðu dómkvaðningu þeirra. Af hálfu stefndu hafa ekki verið gerðar athugasemdir við framlagningu þessara skjala eftir að fresti til gagnaöflunar lauk. Þykir skilyrðum lokaákvæðis 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fullnægt fyrir framlagningu þeirra og eru þau því meðal gagna málsins fyrir Hæstarétti.
II
Til nefnds yfirmats voru kvaddir á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2008 Birgir G. Magnússon héraðsdómslögmaður, Magnús Páll Albertsson bæklunar- og handarskurðlæknir og Yngvi Ólafsson bæklunarskurðlæknir. Í yfirmatsbeiðni 27. mars 2008 var tekið fram að ósk um endurmat á niðurstöðum undirmatsins 18. júní 2007, sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi, sneri að liðum A og B IV í undirmatsbeiðni, en þeir væru svohljóðandi: „A. Hvenær tímabært hafi verið að meta varanlegar afleiðingar umferðarslyssins 8. september 1999 með tilliti til afleiðinga þeirra áverka er matsbeiðandi hlaut í slysinu og þeirrar meðferðar sem hann í framhaldinu gekkst undir svo og ástands hans að öðru leyti þ.m.t. heimilisaðstæður og þær aðstæður að vera barnshafandi? B. IV. Hvert er tímamark stöðugleikapunkts eftir umferðarslysið 8. september 1999?“
Í lokakafla yfirmatsgerðarinnar eru eftirfarandi svör veitt við þessum spurningum:
A: „Eins og fram kemur hér fyrir aftan, í svari við seinni spurningunni, þá var matsbeiðandi þegar orðin barnshafandi þegar stöðugleikapunkti telst hafa verið náð. Eftir umferðarslysið 8. september 1999 var matsbeiðandi með einkenni bæði frá hálsi og mjóbaki. Á meðgöngu þeirri sem hófst haustið 1999 fékk matsbeiðandi einkenni um grindargliðnun með versnandi verkjum í mjóbaki, en hún hafði einnig fengið grindargliðnun í fyrri meðgöngu sinni 1995-1996. Meðgöngu matsbeiðanda lauk með fæðingu í byrjun ágúst 2000. Í ljósi þess að einkenni matsbeiðanda vegna áverka hennar frá umræddu umferðarslysi voru verkir frá hálsi og baki og einnig að hún fékk grindargliðnun á meðgöngu, þá er augljóst að ekki var tímabært að meta varanlegar afleiðingar fyrr en áhrifa grindargliðnunar var hætt að gæta. Oftast er það raunin að einkenni grindargliðnunar eru gengin til baka u.þ.b. þremur til fjórum mánuðum eftir fæðingu. Vegna forskaða matsbeiðanda í hálsi og baki fyrir umrætt umferðarslys er ekki óvarlegt að ætla að hún hafi þurft heldur lengri tíma en ella til að jafna sig eftir grindargliðnun.
Að ofanrituðu virtu er það álit matsmanna að í síðasta lagi sex mánuðum eftir fæðinguna, eða í byrjun febrúar 2001, hafi verið tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins.“
B: „Við mat á því hvenær heilsufar matsbeiðanda var orðið stöðugt m.t.t. áverka þeirra sem hún hlaut í umferðarslysinu 8. september 1999 líta matsmenn til eðlis þeirra áverka og þeirrar meðferðar sem matsbeiðandi fékk. Þótt áverkarnir hafi, að mati matsmanna verði í vægari kantinum, þá getur það gert afleiðingar þeirra heldur erfiðari viðfangs að hún hafði áður lent í slysum og hlotið áverka á sömu svæðum. Forskaði matsbeiðanda í hálsi og baki telst því hafa gert það að verkum að stöðugleikapunkti telst hafa verið náð heldur síðar en ef hún ekki hefði búið við neinn forskaða. Matsmenn telja þó ekki hægt að rekja óþægindi sem matsbeiðandi fékk á meðgöngu, svo sem grindargliðnun, eða önnur einkenni sem síðar komu fram til umrædds umferðarslyss. Þannig telja matsmenn ekki vera hægt að líta þannig á að læknisfræðileg orsakatengsl séu milli umrædds umferðarslyss annars vegar og vefjagigtar sem matsbeiðandi greindist síðar með, eða annarra síðkominna einkenna, hins vegar. Matsmenn líta heldur ekki þannig á að afleiðingar umrædds umferðarslyss hafi á nokkurn hátt aukið líkurnar á því að matsbeiðandi fengi grindargliðnun á meðgöngu þeirri sem hófst eftir slysið. Hafði hún enda fengið grindargliðnun á fyrri meðgöngu.
Að öllu virtu telja matsmenn eðlilegt að líta svo á að heilsufar matsbeiðanda m.t.t. áverka þeirra sem hún hlaut í umræddu umferðarslysi þann 8. september 1999 hafi verið orðið stöðugt fjórum mánuðum eftir slysið og að stöðugleikapunkti hafi því verið náð þann 8. janúar 2000.“
Yfirmatsmennirnir Magnús Páll Albertsson og Yngvi Ólafsson komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 16. júlí 2008 og staðfestu yfirmatsgerðina. Þá var bókað að yfirmatsmaðurinn Birgir G. Magnússon væri forfallaður og teldu málsaðilar óþarft að fá hann fyrir dóm til að staðfesta yfirmatið.
III
Aðila greinir á um hvort skaðabótakrafa áfrýjanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað 17. nóvember 2006. Reynir þar á túlkun 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en meginefni lagaákvæðisins er tekið upp í lokakafla hins áfrýjaða dóms. Áfrýjandi byggir aðallega á því að ekki hafi verið kominn sá tími er hún fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess kost að leita fullnustu hennar fyrr en á árinu 2005 þegar svonefnt lokavottorð meðferðarlæknis hafi legið fyrir. Hafi fyrningarfrestur því byrjað að líða frá lokum þess árs. Til vara vísar áfrýjandi til þess að fyrningarfresturinn hafi rofnað, þegar stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi tekið þátt í að beiðast mats hjá tveimur nafngreindum læknum á afleiðingum slyssins 12. júlí 2005 án þess að gera þá fyrirvara um fyrningu á kröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi veitti lögmanni sínum umboð til heimtu skaðabóta vegna slyssins strax níu dögum eftir slysdag. Í málinu deila aðilar um hvenær hún hafi átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Við úrlausn málsins þykir mega leggja til grundvallar niðurstöðu yfirmatsmanna um að tímabært hafi verið að meta varanlegar afleiðingar slyss áfrýjanda í byrjun febrúar 2001. Fallist verður á með stefndu að meta verði málsatvik út frá hlutlægum mælikvarða þegar metið er hvenær kröfuhafi telst fyrst hafa átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Miðað við framangreinda niðurstöðu yfirmatsmanna verður að telja að áfrýjandi hefði átt að geta lokið gagnaöflun um kröfuna á árinu 2001 og verður því lagt til grundvallar að hún hafi átt þess kost að leita fullnustu hennar á því ári. Hófst fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga því í lok árs 2001. Sá frestur er fjögur ár og var hann út runninn, þegar áfrýjandi höfðaði málið.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. átti aðild að því með áfrýjanda að óska 12. júlí 2005 eftir mati læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar. Skiluðu þeir matsgerð sinni 1. september 2005 og er gerð grein fyrir henni í hinum áfrýjaða dómi. Með þátttöku í öflun matsgerðar er sá sem bótakrafa beinist að meðal annars að leita upplýsinga sem skipta máli þegar hann tekur afstöðu til bótaskyldu og bótafjárhæðar og eftir atvikum fyrningar bótakröfu. Slík upplýsingaöflun verður ekki talin fela í sér viðurkenningu sem rjúfi fyrningu kröfu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda sem og um málskostnað og gjafsóknarkostnað í héraði. Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2007.
Mál þetta var höfðað 17. nóvember 2006 og dómtekið 6. þ.m.
Stefnandi er Guðrún Jóna Bragadóttir, Víðiteig 4 E, Mosfellsbæ.
Stefndu eru Magnús Ingi Stefánsson, Reykási 9, Reykjavík og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Í stefnu málsins gerði stefnandi þá aðalkröfu að stefndu yrðu dæmdir in solidum til að greiða sér 4.481.740 krónur auk vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 1.112.960 krónum frá 8. september 1999 til 8. janúar 2000, af 4.481.740 krónum frá þeim degi til 5. maí 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krafðist stefnandi annarrar og lægri fjárhæðar úr hendi stefndu in solidum að mati réttarins ásamt sömu vöxtum af þeirri fjárhæð og greinir í aðalkröfu. Þá er í stefnu krafist málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Í þinghaldi 19. september sl. ákvað dómarinn að tillögu beggja aðila, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, að skipta sakarefni þannig að fyrst yrði dæmt um bótaskyldu meðan önnur atriði málsins hvíla og bíða þess að verða dæmd.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði óskipt bótaskylda stefndu vegna líkamstjóns er hún varð fyrir í umferðaróhappi 8. september 1999 og að þeir verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 16. október 2006.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.
Að morgni 8. september 1999 ók stefnandi bifreið sinni YK-770 vestur Miklubraut í Reykjavík á vinstri akrein. Á móts við Stigahlíð hægði stefnandi ferðina vegna umferðar og sá í baksýnisspegli að bifreið er kom á eftir henni mundi vart ná að stöðva í tæka tíð. Reyndi stefnandi þá að komast hjá árekstri með því að aka upp á umferðareyju. Það bar ekki tilætlaðan árangur og lenti bifreiðin, ZM-799, aftan á bifreið stefnanda.
Stefnandi var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Frammi liggur svohljóðandi læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar læknis þar, dags. 13. september 2001: „Þessi kona (stefnandi málsins) kemur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi þann 08.09.1999. Hún kemur eftir að ekið var á bifreið hennar en hún var ökumaður í sínum bíl og var með öryggisbelti. Þetta er í fjórða, fimmta eða jafnvel sjötta skipti sem ekið er aftan á hennar bifreið og hún hefur verið meira eða minna í sjúkraþjálfun síðustu árin og hefur verið til eftirlits og meðferðar hjá sínum heimilislækni sem er Guðmundur Sigurðsson á Seltjarnarnesi. Hún lýsir dofaeinkennum sem leiða út í vinstri handlegg og er það eitthvað sem komið hefur upp hjá henni í gegnum tíðina og þetta hefur lifnað við á ný. Þessi dofaeinkenni er hægt að auka með því að þrýsta á vöðvagrúppu á mótum háls og axlar vinstra megin sem bendir til að spenntir vöðvar á því svæði herðist um taugina. Til stóð að senda hana í röntgenmynd af hálsliðum til að athuga með skrið á milli hálsliða en hún hafnaði því. Þau einkenni sem hafa blossað upp við þetta núna eru öll af þeim toga sem hún kannast við eftir svipuð slys. Greining sem hún fær er tognun í hálsvöðvum. Meðferð sem hún fær eru ráðleggingar um reglulega notkun hita- og teygjuæfinga til varnar stirðnun og til að vinna úr stirðnandi ástandi vöðva. Skrifað var upp á Íbúfen 600 mgr. 50 stk. Skyldi hún taka 1x3 á dag með mat og Parkódein forte 30 stk. sem hún skyldi taka ef verkir yrðu verri. Fór hún við svo búið. Hún kemur á endurkomudeild þann 16.09.1999. Við skoðun þá kemur fram að hún hefur öll verið mikið verri eftir þetta óhapp núna seinast og þá einkum í herðum og upp í hálsi en einnig óþægindi í lendhrygg seinustu daga. Við skoðun eru bein eymsli við þrýsting yfir lendhrygg en einkum er hún þó aum yfir langvöðvum mjóbaks eða þeim sem liggja langs aftanvert með hryggnum. Engin leiðni er niður í fætur og engin merki um áverka á taugum. Á hálssvæði eru eymsli við sjalvöðva beggja vegna aftan í hálsi og sömuleiðis í þeim fyrrnefndu langvöðvum sem að liggja meðfram hryggnum allt frá kúpu og niður á spjaldhrygg. Þessi dofi sem hún talar um kemur af og til í vinstra handarbak og er ekki nýr af nálinni. Tekin er nú röntgenmynd af lendhrygg og hálshrygg og er ekkert óeðlilegt að sjá á þeim. Virðist fyrst og fremst um tognanir að ræða og versnun ofan á króniska verki. Hún er í sjúkraþjálfun eins og fyrr er greint um og verður það áfram. Hún verður einnig áfram í eftirliti hjá sínum heimilislækni. Þennan dag er skrifað veikindavottorð frá slysdegi fram að næstkomandi mánaðamótum en þá ætlar hún að hitta sinn heimilislækni. Fór hún við svo búið. Ekkert er frekara skráð um þetta mál í gögnum slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi.“
Hér verður einnig tekið upp efni læknisvottorðs fyrrum heimilislæknis stefnanda, Guðmundar Sigurðssonar, dag. 29. maí 2005. Þar ræðir um tvö slys, það fyrra 20. júlí 1998 og hið síðara 8. september 1999 en niður verður fellt úr vottorðinu það sem einungis tekur til fyrra slyssins.
„. . .Slysið 8/9 1999. Ekið var aftan á bifreið hennar sem hún ók sjálf. Hún fór á slysadeild og var skoðuð þar en ekki talin þörf á myndatöku. Hún leitaði svo til mín daginn eftir og hafði þá einnig farið í skoðun hjá Ernu Kristjánsdóttur sjúkraþjálfara. Henni leið mjög illa fyrst eftir slysið bæði vegna verkja en einnig vegna hræðslu og kvíða. Á næstu dögum eftir slysið komu, auk verkja í hálsi, herðum og handleggjum, fram einkenni frá móbaki og mjaðmagrind. Hún hefur svo verið í reglulegu eftirliti hjá mér vegna slyssins allar götur síðan. Hún var alveg óvinnufær frá slysdegi 8/9 199 og fram til 31/12 1999. Eftir það engan veginn einkennalaus og hefir á tímabilum verið mjög illa haldin af verkjum skv. verkjadagbók sem hún hefir gert skv. minni ábendingu. Hún leitaði til Magnúsar Guðmundssonar, gigtarlæknis 19/3 2001. Hann greindi hjá henni einkenni um vefjagigt og slit í hálsliðum sem hann taldi að væru afleiðingar slysa. Hún leitaði til Gerðar Gröndal í nokkur skipti á árinu 2002. Við gigtarskoðun hjá Gerði komu fram geysileg festumein í hálsi, herðum, axlarvöðvum, við olnboga, í þumlum, mjóbaki, við mjaðmarhnútur og innanvert við hné. Gerður staðfesti greiningu Magnúsar. Hún leitaði til Jóns Ingvars Ragnarssonar bæklunarskurðlæknis 27/2 2004 að minni tilvísan til mats á ábendingum fyrir spengingu v/hryggjaróþæginda. Jón Ingvar lýsir einnig staðbundnum eymslum efst í hálshrygg og að hún finni til óþæginda þar við frambeygju sem er vægt skert og eins við réttu og sömuleiðis við hliðarbeygjur. Eðlileg skoðun m.t.t. tauga í handlimum. Að mati Jóns Ingvars ekki þau einkenni til staðar að hann teldi ábendingu fyrir spengingu. Hún leitaði einnig til Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis í september 2004. Ég hefi ekki undir höndum neinar niðurstöður frá honum en hann mun hafa sent hana í segulómun af hálsi í Domus Medica. Allt frá slysinu 1999 hefur Guðrún Jóna verið í reglulegu eftirliti og þjálfun hjá Ernu Kristjánsdóttur sjúkraþjálfara. Í skýrslu hennar til mín, sem er dags. 12/6 2001, og afriti af skýrslu hennar til Boga Jónssonar, dags. 21/9 2004, kemur fram að Guðrún Jóna hafi dæmigerð tognunareinkenni eftir endurteknar aftanákeyrslur, sé ofhreyfanleg og hafi tilhneigingu til að læsast í hálsi. Hún stífni upp yfir nóttina og ef hún geri hlé á sjúkraþjálfun stífni hún í hálsi. Auk einkenna frá liðbandatognun í hálsi hafi hún haft verk, máttleysi og dofatilfinningu út í vinstri handlim af og til og séu þessi einkenni afleiðing af brjóskþófaröskun. Auk þessa hafi hún síðustu misserin fundið mikið fyrir seyðingi á vinstra hálssvæði og fengið verkjaskot upp í vinstra auga. Auk þessa lýsir Erna því að Guðrún Jóna hafi byrjað að þróa með sér vefjagigtareinkenni veturinn 2000/2001 og einnig festumein sem séu efalaust afleiðing af langvarandi verkjum í kjölfar slysa. Erna lýsir einnig frá því í nóv. 2003 vaxandi einkennum frá efstu hálsliðunum, óstöðugleikatilfinningu og svima. Í febrúar 2004 fór Guðrún Jóna að finna fyrir hjartsláttaróþægindum sem reyndust vera aukaslög. Hún leitaði m.a. vegna þessa á slysa- og bráðamóttöku LSH í Fossvogi 1373 2004 og í framhaldi til Þórarins Guðnasonar hjartalæknis. Var þetta talið stafa af miklu álagi m.a. vegna langvinns verkjaástands. Þessi einkenni leiddu til þess að hún var frá vinnu um nokkurra mánaða skeið.
Heilsufar fyrir slys og fyrri slys: Fyrir slysin 1998 og 1999 hafði Guðrún Jóna lent í umferðarslysum 1987 og 1992 og var metin til 10% læknisfræðilegrar og 10% fjárhagslegrar örorku v/ þessara tveggja slysa. Almennt heilsufar hennar hefir að öðru leyti verið gott.
Niðurstaða. Eftir slysin 1998 og 1999, sérstaklega það síðara hefir Guðrún Jóna viðvarandi einkenni frá hálshrygg með leiðni út í vinstri handlim, út í vinstri kjálka og fram í vinstra auga auk viðvarandi einkenna frá mjóbaki og einkenna um vefjagigt og festumein sem ég tel vafalaust að sé afleiðing slysanna. Hún hefir einnig fundið fyrir hjartsláttaróþægindum sem tengjast streituástandi sem ég tel að stafi m.a. af verkjaástandi í kjölfar slysanna og er enn með einkenni um áfallaröskun vegna slysanna.“
Stefnandi leitaði til lögmanns og veitti honum, 17. september 1999, fullt og ótakmarkað umboð til að koma fram fyrir sína hönd við samningsgerð og/eða málarekstur vegna bóta fyrir líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir í umferðaróhöppum 20. júlí 1998 og 8. september 1999.
Stefndi, Magnús Ingi Stefánsson, var skráður eigandi bifreiðarinnar ZM-799 en hún var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., sem gekkst við bótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda í svari við fyrirspurn lögmanns stefnanda 24. september 1999.
Í bréfi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 16. desember 2002, til lögmanns stefnanda segir að það sé afstaða félagsins að tímabært sé að meta varanlegar afleiðingar stefnanda máls þessa vegna umferðarslyssins.
Frammi liggur matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar, dags. 1. september 2005, varðandi stefnanda vegna umferðarslysa 20. júlí 1998 og 8. september 1999. Þar segir að með matsbeiðni, dagsettri 12. júlí 2005, hafi lögmaður stefnanda, í samráði við Sjóvá hf. og Vátryggingafélag Íslands hf. , beðið læknana að leggja mat á neðangreind álitaefni með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993: 1. Tímabundið atvinnutjón. 2. Þjáningatími. 3. Miskastig. 4. Varanleg örorka. 5. Hvenær heilsufar er orðið stöðugt skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1999 (svo). Niðurstaða varðandi síðara slysið er sem hér segir: 1. Tímabundið atvinnutjón telst vera 100% í fjóra mánuði. 2. Þjáningatími telst vera fjórir mánuðir, án rúmlegu. 3. Stöðugleikapunktur telst vera 08.01.00. 4. Varanlegur miski telst hæfilega metinn 8 stig. 5. Varanleg örorka telst vera 8%.“
Með bréfi 5. apríl 2006 setti lögmaður stefnanda fram kröfur við hið stefnda tryggingafélag um líkamstjónabætur á grundvelli framangreinds mats. Í svarbréfi, dags. 2. maí 2006, er greiðslu bóta hafnað þar sem fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað 1. janúar 2001 og honum verið lokið 31. desember 2004.
Stefnandi skaut máli sínu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 28. júlí 2006 og komst nefndin að þeirri niðurstöðu 29. ágúst 2006 að krafa stefnanda til greiðslu bóta úr slysatryggingu ökumanns vegna slyss „8. janúar 2000“ (misritun fyrir 8. september 1999) teljist ekki fyrnd. Hið stefnda tryggingafélag tilkynnti nefndinni 7. september 2006 að það ætlaði ekki að una úrskurðinum, sbr. 7. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
Undir rekstri málsins lagði lögmaður stefnanda fram beiðni um að skipaðir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að veita svör við eftirtöldum spurningum svo og að staðreyna og leggja mat á eftirfarandi atriði varðandi stefnanda:
„A. Hvenær tímabært hafi verið talið að meta varanlegar afleiðingar umferðarslyssins 8. september 1999 með tilliti til afleiðinga þeirra áverka er matsbeiðandi hlaut í slysinu og þeirrar meðferðar sem hann í framhaldinu gekkst undir og ástand hans að öðru leyti þ.m.t. heimilisaðstæður og þær aðstæður að vera barnshafandi (hún ól barn í ágúst 2000 innskot dómsins).
B. Þá er óskað eftir mati matsmannanna og svörum varðandi eftirtalin atriði:
I. Hver er varanlegur miski matsbeiðanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 8. september 1999?
II. Hver er varanleg örorka matsbeiðanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 8. september 1999?
III. Hvert er tímabil þjáningarbóta matsbeiðanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 8. september 1999?
IV. Hvert er tímamark stöðugleikapunkts eftir umferðarslysið 8. september 1999? Við mat á þessu tímamarki er óskað eftir því að fram komi m.a. hvort meðferð sú er matsbeiðandi gekkst undir eftir það tímamark, reynist svo vera, teljist eðlileg með tilliti til takmörkunartjónsskyldu matsbeiðanda og þá hvort fyrirsjáanlegt hafi verið að frekari bati mundi ekki nást.“
Matsmenn voru dómkvaddir Björn Daníelsson lögfræðingur og Stefán Dalberg læknir. Matsgerð þeirra er dagsett 18. júní 2007. Niðurstöður matsins eru sem hér greinir.
„I Tímamark á mati á varanlegum afleiðingum:
Þegar eitt ár var liðið frá tjónsdegi, þ.e. 8. september 2000.
II Varanlegur miski skv. 4. gr.:
12%- tólf af hundraði.
III Varanleg örorka skv. 5. gr.:
15%-fimmtán af hundraði.
IV Þjáningabætur skv. 3. gr.:
Tímabilið 8. september 1999 til 31. desember s.á. (án rúmlegu).
V Stöðugleikatímapunktur:
Stöðugleikatímapunktur er ákveðinn 8. mars 2000.“
Málsókn stefnanda er reist á hinni hlutlægu skaðabótareglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og almennum reglum skaðabótaréttarins. Um greiðsluskyldu hins stefnda félags er vísað til 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr., umferðarlaga og 1. mgr. 97. gr. s.l. um að sé höfðað einkamál til heimtu bóta gegn þeim, sem er bótaskyldur samkvæmt 90. gr. umferðarlaga, skuli jafnframt höfða slíkt mál gegn því vátryggingafélagi sem hefur ábyrgðartryggt ökutækið.
Ágreiningur aðila í þessum þætti málsins lýtur að því hvort kröfur stefnanda á hendur stefndu teljist fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að þau lagasjónarmið, sem á sé byggt af hálfu stefndu, að metinn stöðugleikapunktur marki upphaf fyrningarfrests, sé rangur heldur hafi fyrningarfrestur kröfunnar fyrst byrjað að líða í árslok 2005, sbr. framangreinda niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og sé um það m.a. byggt á sömu rökum og fram komi í þeim úrskurði. Þau rök verða tilgreind hér: „Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að G og tryggingafélagið hafi ekki talið tímabært að meta afleiðingar slyssins fyrr en með framlagningu sameiginlegrar matsbeiðni, dags. 12. júlí 2005. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um að tryggingafélagið hafi knúið á um að mat færi fyrr fram en þá. Miðað við túlkun tryggingafélagsins, sem byggir á mati því sem barst skv. matsbeiðninni, var krafa G fyrnd þegar matsbeiðnin var lögð fram. Enginn fyrirvari um þá afstöðu félagsins kemur fram í matsbeiðninni sem þó hefði verið eðlilegt hafi tryggingafélagið strax á þeim tíma talið kröfu G fyrnda. Telja verður að fyrningarfrestur kröfu G hafi fyrst byrjað að líða í lok árs 2005, þ.e. þess árs sem matsbeiðnin var lögð fram, án tillits til þess hver var niðurstaða matsgerðarinnar um stöðugleikapunkt. Telst sú niðurstaða í samræmi við ákvæði 99. gr. umfl. enda hvergi í gögnum málsins því haldið fram að G hafi átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr en með framlagningu sameiginlegrar matsbeiðni 12. júlí 2005.“
Til þess er vísað af hálfu stefnanda að samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hefjist fyrningarfrestur kröfu þegar kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Af því megi ráða að kröfuhafi geti þá fyrst leitað fullnustu kröfu sinnar er örorkumat liggi fyrir. Telji stefndu að stefnandi hafi átt þess kost fyrr að bera fram kröfur sínar beri þeir sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu, sérstaklega þegar litið sé til þess að þeir hafi staðið að öflun matsgerðar án nokkurs fyrirvara.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga en samkvæmt þeirri grein fyrnist bótakrafa stefnanda á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Stefnandi hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar þegar heilsufar hennar var orðið stöðugt, þ.e. batahvörfum var náð, og fyrningarfresturinn hafi hafist 1.janúar 2001 og runnið út í lok dags 31. desember 2004.
Ákvæði 99. gr. umferðarlaga sé sérregla um fyrningu og gildi framar ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Að öðru leyti gildi tilvitnuð lög, t.d. um rof á fyrningarfresti, sbr. 6. og 11. gr. þeirra. Stefndu hafi aldrei viðurkennt kröfu stefnanda með neinum hætti. Til þess þyrfti skýra og afdráttarlausa viðurkenningu á tiltekinni fjárkröfu og skipti þátttaka stefndu í öflun matsgerðar engu máli hvað það varðar.
Samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna var stöðugleikapunktur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1999, 8. mars 2000. Samkvæmt því hófst fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga í byrjun árs 2001. Krafa stefnanda var því fyrnd er stefna var birt 17. nóvember 2006 og hafði fyrning ekki verið rofin með viðurkenningu stefndu á henni.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun (a.m.t. vsk.) lögmanns hennar, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Magnús Ingi Stefánsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknir af kröfum stefnanda, Guðrúnar Jónu Bragadóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.