Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. maí 2001.

Nr. 155/2001.

X

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Y og

Z

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Með því að liðinn var frestur til að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu samkvæmt 3. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 20/1992 var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun málsins verði hafnað og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2001.

I.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar hinn 20. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, hefur X, [ . . . ], höfðað með stefnu birtri 12. október sl. á hendur Y, [ . . . ], persónulega og vegna ólögráða dóttur hennar Z, [ . . . ], til ógildingar á faðernisviðurkenningu og til greiðslu kostnaðar.

Y er stefnt persónulega svo og sem lögráðamanni Z og til að þola dóm í málinu, sbr. 2. mgr. 53. gr. barnalaga.

Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi faðernisviðurkenning stefnanda þess efnis að hann sé faðir Z, [ . . . ].  Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefnda, Y, verði dæmd til þess að mæta til mannerfða­rannsóknar á Rannsóknarstofnun Háskólans í meinafræði, ásamt dóttur sinni Z innan tveggja mánaða frá dómsuppsögu þessa máls, að viðlögðum dagsektum 500 krónum á dag frá þeim degi sem tekur að líða tveimur mánuðum frá dómsupp­sögu og þar til rannsókn hefur hafist á stefndu Y og dóttur hennar.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu, Y.

Stefnda krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi.  Til vara krefst hún sýknu af kröfu stefnanda um ógildingu faðernisviðurkenningar stefnanda þess efnis að hann sé faðir Z, [ . . . ], og að hún verði dæmd gild.  Stefnda krefst einnig sýknu af varakröfu stefnanda um að stefnda verði ásamt dóttur sinni dæmd til að fara í mannerfðafræðilega rannsókn á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði.  Ennfremur er krafist sýknu af kröfum stefnanda um greiðslu málskostnaðar.  Að auki er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt gjaldskrá Lögmannsstofu Láru V. Júlíusdóttur hrl. auk lögmælts virðisaukaskatts skv. lögum 50/1988, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

II.

Málsatvik.

Að sögn stefnanda eru málsatvik þau að stefnandi og stefnda kynntust á sólar­strönd sumarið 1989 en þá hafi ekki tekist með þeim náin kynni.  Í janúar 1990 hafi þau hist á bjórkrá í Reykjavík og farið að rifja upp atburði úr sólarstrandaferðinni.  Stefnandi hafi fljótt orðið nokkuð mikið drukkinn en þó muni hann að hann og stefnda hafi farið heim til frænku stefndu þar sem þau hafi haft samfarir.  Sex mánuðum síðar, í júlí 1999, hafi stefnda Y haft samband við stefnanda og tilkynnt honum að hún væri barns­hafandi.  Þá hafi stefnandi verið á leið til Danmerkur þar sem hann hafi ráðið sig á loðnuskip.  Þegar hann hafi komið til baka hafi hann að fyrra bragði haft samband við stefndu og hafi barnið þá verið fætt.  Hafi stefnandi þá um haustið verið nokkrum sinnum með barnið.  Um það bil sex mánuðum frá fæðingu barnsins hafi stefnandi og stefnda farið saman til sýslumannsins [ . . . ] og þar hafi stefnandi skrifað undir yfirlýsingu um að hann væri faðir barnsins.  Eftir þá undirskrift hafi honum virst afstaða stefndu til sín breytast og hafi hann ekki fengið að sjá barnið nema með herkjum og þá ekki nema nokkra klukkutíma í senn.

Stefnandi segir að nokkrum misserum eftir þetta hafi hann verið samskipa A, frænda stefndu, sem hafi hvatt hann til að ganga úr skugga um hvort hann væri faðir barnsins.  Sömuleiðis hafi hann um þær mundir hitt frænku stefndu, C, sem hafi bent honum á það sama.

Í framhaldi af þessum ábendingum hafi hann haft samband við stefndu og krafist þess að faðerni barnsins yrði kannað með blóðprufum.  Stefnda hafi harðlega neitað því og hafi stefnandi frá þeim tíma, sem hann minnir að hafi verið 1992 eða 1993 ekki fengið að sjá barnið.

Árið 1994 kveðst stefnandi aftur hafa haft samband við stefndu og krafist þess að faðerni barnsins yrði athugað með blóðprufu.  Hafi stefnandi pantað tíma til þess og greitt fyrir en stefnda hafi aldrei mætt með barnið þrátt fyrir loforð þar um.

Frá árinu 1994 til 1998 kveðst stefnandi hafa verið mikið á sjónum og oft á fjarlægum slóðum.  Árið 1999 hafi hann síðan farið aftur að huga að þessum málum, er hann hafi séð í þjóðskrá að barnið sem skýrt var Z sé kennd við móður sína, Y.  Hafi stefnandi þá aftur haft samband við Y og krafist þess að faðernið yrði athugað með blóðrannsókn.  Hafi Y neitað þeirri kröfu og borið fyrir sig að hún hefði rætt við lögfræðing og hann sagt henni að stefnandi hefði ekki lengur rétt til að hafna því að hann væri faðir barnsins.  Hafi stefnandi þá snúið sér til lögmanns sem hafi athugað málið og síðan haft samband við Y í mars 2000 en án nokkurs árangurs.

Stefnandi tekur fram að frá árinu 1993 hafi hann ekki fengið að sjá barnið og ætíð er hann hafi farið fram á slíkt hafi stefnda, Y, verið því andvíg.

 

Stefnda vill bæta því við þessa atvikalýsingu að áður en stefnandi hafi undirritað faðernisviðurkenninguna hafi stefnda í tvígang boðið honum að blóðprufur yrðu teknar til að fullvissa stefnanda um að hann væri faðir Z, en stefnandi hafi ekki kært sig um það.  Frænka stefndu, B., hafi verið viðstödd er stefnda hafi boðið stefnanda að hún og barnið færu í blóðprufu.

Að auki getur stefnda þess að stefnandi hafi komið og hitt dóttur sína þegar hún hafi verið kornabarn og á eins árs afmæli hennar hafi hún verið hjá honum í einn dag.  Eftir það hafi stefnandi komið drukkinn í heimsókn á heimili stefndu og viljað fá að taka Z með sér.  Vegna ástands stefnanda hafi stefnda meinað honum að fara með stúlkuna en hafi þess í stað boðið honum að koma inn á heimili sitt og hitta dóttur sína þar.  Eftir þetta, frá árslokum 1991, megi segja að stefnandi hafi hvorki hringt né leitað eftir því á annan hátt að fá að umgangast dóttur sína.

Á árinu 1994 hafi stefnda fengið bréf þess efnis að hún ætti að mæta með dóttur sína til þess að unnt væri að taka blóðprufu og beinmergssýni úr þeim mæðgunum.  Stefnda hafi ekki viljað leggja það á dóttur sína að sýni væri tekið úr beinmergi hennar, enda hafi Z ekki nema þriggja ára gömul þegar þetta hafi verið.  Þess vegna hafi stefnda ekki mætt með dóttur sína í þess sýnatöku.

 

III.

Málsástæður  og  lagarök  stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hafi ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið, hvort hann sé faðir Z, en hann hafi af ýmsum ástæðum orðið æ meir sannfærður um að barnið sé ekki rétt feðrað.  Hann hafi reynt, frá því að grunur hans hafi vaknað, að fá móður barnsins til að láta taka samtímis blóð úr henni, barninu og sér, til að hægt væri, með mannerfðafræðilegri rannsókn, að ganga úr skugga um, hvort hann væri faðir barnsins.  Þær tilraunir hafi hinsvegar allar orðið án árangurs.

Stefnandi byggir á að hann hafi aðeins einu sinni á getnaðartíma barnsins haft samfarir við stefndu.  Hann hafi þá verið ölvaður og muni ekki til þess að hafa fellt sæði til stefndu og geti það bent til þess að hann sé ekki faðir barnsins.  Stefnandi bendir einnig á, að frændfólk Y, þau A og C hafi bent stefnanda á að láta athuga hvort hann væri faðir barnsins.  Stefnda Y hafi hinsvegar ætíð neitað blóðrannsókn og því hafi ekki verið hægt að ganga úr skugga um rétt faðerni barnsins.

Stefnandi byggir á því að efni 52. gr. barnalaga nr. 20/1992 brjóti í bága við þá meginreglu, sem felist í 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sem hafi verið lögtekinn hér 1994, sem og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár.  Þá byggir stefnandi kröfu sína einnig á 65. gr. stjórnarskrár samanber 14. gr. MSE, svo og til 8. gr. hans.

Stefnandi byggir á því að í 1. mgr. 6. gr. MSE og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár­innar felist sjálfstæður réttur til að bera mál undir dómstóla er varði réttindi og skyldur að einkamálarétti.  Stefnandi byggir á að það varði hann miklu fjárhagslega ef ógildingin nái fram að ganga.  Þá muni ógildingin í framtíðinni skipta máli varðandi erfðir en hann eigi nú barn með sambýliskonu sinni.  Stefnandi byggir einnig á því að stefnda hafi strax skorið á að hann fengi að umgangast barnið sem hann hafi reynt í fyrstu en reyndar ekki eftir að grunsemdir hans vöknuðu.

Ennfremur byggir stefnandi á því að honum sé á móti skapi að sinna foreldraskyldum sem á honum hvíli að lögum, fyrr en hann fái úr því skorið hvort hann sé faðir Z.  Hafi hann hvað þetta varðar lögmæta hagsmuni fyrir kröfum sínum.

Stefnandi byggir einnig á því að engir málshöfðunarfrestir séu á því að barn höfði mál til ógildingar á faðerni og heldur ekki varðandi mál sem höfðuð eru af móður og barni til viðurkenningar á faðerni barns.  Það brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. MSE að möguleikar föður til höfðunar slíkra mála séu ekki jafnir möguleikum móður og barns.

Stefnandi byggir einnig á að orðin að „breyttu breytanda” í 3. mgr. 53. gr. barnalaga hafi þá þýðingu að fresturinn sé ekki fortakslaus.  Horfa þurfi á öll atvik málsins og meta þau sjálfstætt.  Einnig verði vitanlega að skýra 52. gr. barnalaga rúmt með hliðsjón af efni 1. mgr. 6. gr. MSE og ákvæði 3. mgr. 53. gr. barnalaga.

Stefnandi byggir á því að um málsmeðferð þessa máls varðandi aðalkröfu gildi málsmeðferðarreglur 46. gr. barnalaga sem og ákvæði 47. og 48. gr. sömu laga.

 

Varakröfu sína byggir stefnandi á þeim rökum að hann hafi frá því að grunsemdir vöknuðu hjá honum þess efnis, að hann væri ekki faðir Z, krafist þess, að stefnda mætti til rannsóknar hjá sérfræðingum Rannsóknarstofnunar Háskólans í meinafræði.  Í fyrstu hafi Y neitað honum.  Árið 1994 hafi hún sagt honum að hún myndi mæta með barnið, Z, en svo svikið það loforð.  Á síðustu árum hafi hún haldið því fram, að of seint væri fyrir hann að gera þessa kröfu og hún yrði þar af leiðandi ekki við henni.

Stefnandi byggir á því að hvergi í lögum séu settir frestir til að gera þá kröfu sem hann gerir með varakröfu sinni.  Stefnandi byggir á að það séu lögmætir hagsmunir hans að fá úr því skorið, hvort hann sé faðir Z eins og að ofan hefur verið rakið, en það verði ekki gert nema með ákveðnum rannsóknum sérfræðinga og sé þá meðal annars nauðsynlegt að þeim sé tekið blóð samtímis, honum, Y og Z.

Stefnandi byggir og á því að í 48. gr. barnalaga segi, að dómari geti mælt fyrir um, að blóðrannsókn sé gerð á móður barns og barninu, sem og aðrar sálfræðilegar mannerfðafræðilegar rannsóknir.

Stefnandi hafi lögmæta hagsmuni af því að svo verði gert og að stefndu beri samkvæmt grundvallarreglum barnalaga og þeirri grundvallarreglu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að það skuli gera sem barninu er fyrir bestu, að gangast við og taka þátt í þeirri rannsókn sem stefnandi þarfnast í þessu efni.  Stefnandi bendir á að það sé ótvírætt, að barninu sé fyrir bestu að strax sé skorið úr, hvort stefnandi sé faðir þess eða ekki.  Hann bendir ennfremur á að komi það í ljós, sem hann telji reyndar ólíklegt, að hann sé faðir barnsins, muni hann vitanlega bera allt annan hug til þess, en nú er.  Hann eigi því rétt á að fá vissu um það, hvort hann er faðir Z eður ei.

Stefnandi byggir og á því, að þessi réttur hans sé hvergi takmarkaður í lögum og því beri samkvæmt 1. mgr. 6. gr. MSE að verða við kröfum hans.

Til grundvallar varakröfu sinni vísar stefnandi einnig til þeirra lagaraka sem hann setur fram til grundvallar aðalkröfu sinni.

Stefnandi skírskotar til barnalaga nr. 20/1992, svo sem 4. gr., 6. gr. VI. kafla og VII. kafla.  Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. MSE, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár­innar, sem og 65. gr. hennar og 14. gr. MSE.  Hann vísar ennfremur til 25. gr. laga um meðferð einkamála, svo og 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. sömu laga.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Málsástæður  og  lagarök  stefndu.

Varðandi aðalkröfu stefndu um frávísum málsins fyrir héraðsdómi.

Stefnda byggir á því að málshöfðunarfrestir skv. 3. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 20/1992 séu löngu liðnir.  Túlka beri orðalagið „að breyttu breytanda” í 3. mgr. 53. gr. barnalaga á þann veg að efnislega gildi sömu reglur um málshöfðunarfresti í dómsmálum samkvæmt 52. og 53. gr. barnalaga.  Ekkert bendi til þess að löggjafinn hafi ætlað að veita rýmri málshöfðunarfresti í dómsmálum skv. 53. gr. barnalaga en skv. 52. gr. sömu laga.  Þvert á móti sé sérstaklega tekið fram í greinargerð með lögum nr. 23/1995 að breytingin á 3. mgr. 53. gr. barnalaga með lögum nr. 23/1995, hafi verið gerð í því skyni að samræma reglur um rétt til málshöfðunar vegna mála skv. 52. og 53. gr. barnalaga.

Stefnda byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að málshöfðunarfrestir skv. 3. mgr. 53. gr. barnalaga brjóti ekki í bága við mannréttindi stefnanda skv. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar né 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), enda hafi hann haft 5 ár til að krefjast ógildingar á faðernisviðurkenningunni.

Hafa beri í huga að málshöfðunarfrestur skv. 3. mgr. 53. gr. barnalaga sé settur til að vernda barn gegn því að óvissa ríki um faðerni þess og hlífa því við óþarfa ágreiningi og í 17. gr. MSE sé sérstaklega tekið fram að engum sé heimilt að takmarka mannréttindi annarra með því að beita ákvæðum MSE fyrir sig.  Með því að víkja frá málshöfðunarfresti 3. mgr. 53. gr. sé verið að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti stefndu og Z til friðhelgis einka- og fjölskyldulífs skv. 71. gr. stjórnar­skrárinnar og 1. mgr. 6. gr. MSE.

Með því að halda því fram að ákvæði 3. mgr. 53. gr. barnalaga um málshöfðunarfrest brjóti gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. MSE sé stefnandi í raun að halda því fram að allir málshöfðunarfrestir í lögum séu brot á stjórnar­skrárvörðum mannréttindum, en það fái ekki staðist.  Slíkt myndi valda glundroða í samfélaginu og löggjafanum sé heimilt að takmarka rétt manna til málshöfðunar með lögum vegna mannréttinda annarra s.s. til verndar friðhelgi einka- og fjölskyldulífs skv. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. MSE.

Í stefnu sé einnig byggt á því að takmörkun á heimild föður til höfðunar ógildingarmáls skv. 53. gr. barnalaga brjóti í bága við jafnræðisreglur í 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. MSE.  Þessu er mótmælt sem röngu enda séu reglur um málshöfðunarfresti skv. 3. mgr. 53. gr. eins fyrir foreldra þó barnið sjálft hafi rýmri heimildir.  Enda sé það eðlileg regla með hliðsjón af markmiðum ákvæðanna í 52. og 53. gr. barnalaga um að vernda barn gegn óþarfa óvissu og deilum foreldra.

Z sé nú orðin 10 ára gömul og það væri veruleg íþyngjandi fyrir hana ef þetta mál yrði tekið til efnismeðferðar og hún kæmist að því að faðir hennar teldi að hún væri ekki dóttir sín.  Á síðastliðnu ári hafi ekki komið fram neinar upplýsingar sem bendi til þess að stefnandi sé ekki faðir hennar.  Einu upplýsingarnar sem stefnandi segist ekki hafa haft vitneskju um fyrr en á árinu 1999 séu þær að stúlkan sé skráð Ydóttir í þjóðskrá.  Þær upplýsingar gefi enga vísbendingu um að stúlkan sé rangfeðruð enda sé það alvanalegt að einstæðar mæður kenni börn sín við sitt nafn en ekki föður.  Enn síður hafi komið fram upplýsingar sem sýni að stefnandi geti ekki verið faðir Z.

 

Varðandi varakröfu stefndu um sýknu af ógildingu faðernisviðurkenningar stefnanda.

Stefnda er þess fullviss að stefnandi sé barnsfaðir hennar, enda komi enginn annar karlmaður til greina sem faðir barnsins Z.  Áður en stefnandi hafi undirritað faðernisviðurkenninguna hafi stefnda í tvígang boðið honum að blóðprufur yrðu teknar til að fullvissa stefnanda um að hann væri réttilega faðir barnsins en hann hafi ekki talið þörf á því.  Á þessum tíma hafi stefnda búið hjá frænku sinni B, sem hafi verið viðstödd er stefnda hafi boðið stefnanda að blóðprufur yrðu teknar.

Í stefnu komi fram að A og C hafi hvatt stefnanda til að láta ganga úr skugga um hvort stúlkan Z væri réttilega dóttir hans.  Stefnda hafi rætt við þau bæði og hvorugt þeirra minnist þess að hafa hvatt stefnanda til að láta sannreyna faðerni Z með blóðprufum.  Að auki hafi ekkert komið fram um á hverju slíkar grunsemdir hafi verið byggðar hafi þær í raun verið til.

Ennfremur komi fram í stefnu að stefnandi hafi á árinu 1994 pantað blóðrannsókn til að sannreyna faðerni Z en stefnda hafi ekki mætt í þann tíma með dóttur sína.  Ástæða þessa hafi verið að samkvæmt læknisbréfi til stefndu hafi auk blóðrannsóknar átt að taka beinmergssýni úr henni og dóttur hennar.  Slík sýnataka hafi að mati stefndu verið allt of íþyngjandi fyrir Z sem hafi þá verið einungis 3 ára gömul.  Enda beri engum skylda til að þola líkamsrannsókn gegn vilja sínum nema það hafi verið ákveðið með dómi sbr. 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefnda mótmælir því að hún hafi á nokkurn hátt verið andvíg umgengni stefnanda eða reynt að koma í veg fyrir samskipti stefnanda og Z eins og haldið sé fram í stefnu.  Ástæða lítilla samskipta milli stefnanda og Z sé sú að stefnandi hafi hvorki hringt né reynt að auka samskipti sín við dóttur sína Z á annan hátt.

 

Varðandi sýknu af varakröfu stefnanda um að stefnda verði ásamt dóttur sinni dæmd til að fara í mannerfðafræðilegarannsókn á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði.

Þar sem frestur til að fá faðernisviðurkenningu stefnanda ógilda með dómi sé útrunninn skv. 3. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 20/1992 hafi stefnandi enga lögvarða hagsmuni af því að stefnda og barnið, Z, fari í mannerfðafræðilega rannsókn.  Slík rannsókn yrði verulega íþyngjandi fyrir Z og stefndu og með því væru mannréttindi þeirra til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 71.  gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. MSE brotin.

Að öðru leyti vísar stefnda í málsástæður og lagarök fyrir sýknu af aðalkröfu.  Krafa hennar um málskostnað byggir á 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum um virðisauka­skatt nr. 50/1988.

 

 

IV.

Niðurstaða.

Stefnda byggir kröfu sína um frávísun á því að frestur til að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu skv. 3. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 20/1992 sé löngu liðinn.

Stefnandi byggir á móti á því að sá frestur brjóti í bága við meginreglu 1. mgr. 6. gr. MSE um réttláta málsmeðferð og sambærilegt ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnar­skrár­innar.

Víða í lögum er mælt fyrir um það að dragi menn að sækja þann rétt sem þeir telja sig eiga glati þeir honum.  Vegna slíks aðgerðaleysis geta réttindi fyrnst, aðrir geta öðlast hefðarrétt yfir þeim eða þau getað fallið niður við vanlýsingu.  Málshöfð­unar­frestir eru ein grein af þessum meiði. 

Málshöfðunarfrestir takmarka ekki rétt manna til að bera mál undir dómstóla.  Þeir takmarka aðeins rétt manna til að draga of lengi að leita þess réttar sem þeir telja sig eiga svo og rétt manna til að fá sig leysta undan skyldu sem þeir telja að hvíli ranglega á þeim.  Þessi takmörkun er nauðsynleg til þess að dómstólar þurfi ekki að taka afstöðu til atburða sem eru löngu liðnir og erfitt er að sanna svo og til þess að ekki verði seint og um síðir rótað upp réttarástandi sem hefur staðið lengi, fólk hefur treyst að væri óhagganlegt og ríkir hagsmunir kunna að vera bundnir við, jafnvel enn ríkari en hagsmunir þess sem höfðar málið. 

Barnalög eru sett til að tryggja hagsmuni, réttarstöðu og réttaröryggi barna.  Hið sama er málshöfðunarfrestum í barnalögum ætlað að tryggja til þess að barn búi ekki við þá óvissu að þeir sem hafa tekið á sig skyldur gagnvart því geti dregið árum saman að fá úr því skorið hvort þær skyldur hvíli ranglega á þeim.  Lögboðinn máls­höfðunarfrestur skv. 3. mgr. 53. gr., sbr. 2. mgr. 52. gr. barnalaga er fimm ár frá fæðingu barns.  Það ætti að vera hverjum manni rúmur tími til að koma efasemdum sínum um faðerni barns fyrir dómstóla.  Að auki er sérstakur öryggisventill settur í 3. mgr. 52. gr. barnalaga þess efnis að standi alveg sérstaklega á geti dóms­mála­ráðuneytið heimilað að mál verði höfðað eftir að lögmæltir málshöfðunarfrestir eru liðnir.

Það er því ekki fallist á það með stefnanda að þær skorður sem settar eru við því hversu lengi má draga að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu í 3. mgr. 53. gr., sbr. 2. mgr. 52. gr. barnalaga brjóti gegn meginreglunni um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 6. gr. MSE og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Stefnandi byggir einnig á því að málshöfðunarfrestur skv. 3. mgr. 53. gr., sbr. 2. mgr. 52. gr. barnalaga brjóti gegn jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. MSE.

Það er ekki tilgangur jafnréttisákvæða að veita öllum mönnum sömu réttindi  heldur er þeim ætlað að koma í veg fyrir að þeim sem eru í sömu eða sambærilegri stöðu sé mismunað.  Samkvæmt 3. mgr. 53. gr., sbr. 2. mgr. 52. gr. barnalaga njóta þeir sem hafa tekið á sig skyldur gagnvart barni, það er sá sem hefur viðurkennt faðerni barns og móðir þess, jafnræðis því sami málshöfðunarfrestur gildir um þau bæði.  Hinsvegar nýtur barnið rýmri réttar en þau tvö til að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu.  Sá mismunur réttlætist meðal annars af því að barn hefur almennt ekki þroska til að taka afstöðu til málshöfðunar fyrr en það er orðið 15 til 20 ára.

Sá munur sem er annarsvegar á þeim fresti sem barn hefur til að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu og hinsvegar á þeim fresti sem móðir þess og sá sem viðurkennt hefur að vera faðir þess verður ekki talin ólögmæt mismunun sem brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 14. gr. MSE.

 

Þar sem sá frestur sem stefnandi hafði til að höfða þetta mál er liðinn er þessu máli vísað frá dómi.

Stefndu var með vísan til 2. mgr. 45. gr. barnalaga nr. 20/1992 og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi með bréfi dómsmálaráðuneytisins 6. nóvember 2000 og í greinargerð krafðist hún máls­kostn­aðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Gjafsóknarkostnaður stefndu hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns stefndu, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 196.000 krónur, og er þá með talinn virðisaukaskattur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli málsaðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 196.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.