Hæstiréttur íslands
Mál nr. 580/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 13. október 2010. |
|
Nr. 580/2010. |
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B(Eva Bryndís Helgadóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 4. október 2010. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími, en þó ekki lengur en sex mánuðir. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þóknunar úr ríkissjóði til handa skipuðum talsmanni sínum fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010.
Með beiðni, dagsettri 16. september 2010, hefur A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að systir hennar, B, kt. [...], [...], [...], verði svipt sjálfræði tímabundið í 18 mánuði. Af hálfu sóknaraðila er vísað til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Varnaraðili mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að sviptingu sjálfræðis verði markaður skemmri tími.
Meðal gagna málsins er vottorð C geðlæknis, dagsett 15. september sl. Í læknisvottorðinu er sjúkrasaga varnaraðila rakin. Kemur fram að hún hafi átt við veikindi að stríða frá tvítugsaldri og greinst með ýmsa geðsjúkdóma, m.a. fíknisjúkdóm og aðsóknargeðklofa. Hún geti orðið mjög veik og þjáist þá af svæsnum ranghugmyndum, aðsóknarkennd og ofheyrnum. Hún hafi orðið uppvís að íkveikjum, m.a. í fjölbýlishúsi þar sem hún bjó. Undanfarna 18 mánuði hafi varnaraðili verið svipt sjálfræði og hafi hún þegið lyfjagjöf og tekist að halda leiguhúsnæði þann tíma. Hún óski nú eftir því að hætta að taka lyf sín og sé fyrirhugað að draga úr lyfjagjöf. Meðferðarheldni varnaraðila hafi hins vegar löngum verið léleg og sé það mat sérfræðinga sem komi að meðferð hennar að mikilvægt sé að hún verði áfram svipt sjálfræði til að tryggja megi nauðsynlega eftirfylgd.
C kom fyrir dóminn sem vitni, staðfesti vottorð sitt og áréttaði það sem þar kemur fram. C sagði varnaraðila hafa farið fram á að dregið verði úr lyfjagjöf, en á meðan á því standi þurfi hún mikla eftirfylgni. Meðferðarheldni varnaraðila hafi verið léleg, en á því 18 mánaða tímabili sem hún hefur verið svipt sjálfræði hafi hjúkrunarfólk átt þess kost, mæti hún ekki til lyfjagjafar, að fara á heimili hennar og sinna lyfjagjöf þar. Nauðsynlegt sé að eiga þessa kost nú þegar fyrirhugað er að draga úr lyfjagjöf. Áhrifa lyfjanna gæti í líkamanum í allt að 6 mánuði. Með hliðsjón af því þurfi varnaraðili að vera svipt sjálfræði í að lágmarki 12 mánuði til að tryggja viðhlítandi eftirfylgni.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hún sagði ásakanir um íkveikjur af hennar völdum vera byggðar á misskilningi. Þá væri hún ósátt við að geðlæknar teldu hana haldna ranghugmyndum. Hún sagðist halda sig frá áfengi, en taka verkjalyf reglulega. Hún væri ósátt við lyfjagjöf sem hún teldi ekki bera árangur. Hún myndi telja ásættanlegt að vera svipt sjálfræði í 6 mánuði á meðan dregið yrði úr lyfjagjöf, en ekki lengur.
Niðurstaða
Af framangreindu vottorði C geðlæknis og vætti sérfræðingsins fyrir dómi verður ráðið að varnaraðili á við andleg veikindi að stríða. Fyrirhugað er að draga úr lyfjagjöf varnaraðila og er það mat sérfræðingsins að hún þarfnist eftirlits meðferðaraðila á meðan á því stendur, þannig að mögulegt verði að grípa inn í ef líðan hennar versnar. Af framburði varnaraðila fyrir dóminum þykir sýnt að hún hefur takmarkað sjúkdómsinnsæi. Þykir augljós hætta á því að meðferð hennar fari úr skorðum njóti hún ekki nauðsynlegrar eftirfylgni af hálfu meðferðaraðila. Er það mat dómsins að vegna sjúkdóms síns sé varnaraðili ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi a- liðar 4. gr. lögræðislaga. Verður varnaraðili því svipt sjálfræði til að tryggja megi að hún njóti viðeigandi læknismeðferðar. Með hliðsjón af vætti C fyrir dóminum verður svipting sjálfræðis miðuð við 12 mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Evu Bryndísar Helgadóttur hrl., og verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., úr ríkissjóði, 100.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð :
Varnaraðili, B, kt. [...], er svipt sjálfræði í 12 mánuði.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Evu Bryndísar Helgadóttur hrl., og verjanda, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 100.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.